Liverpool 2 – manchester united 0

torres-manu-2-0

Jæja jæja jæja. Eftir ömurlegar vikur þar sem að okkar menn höfðu tapað fjórum leikjum í röð þá mættu Englandsmeistarar Manchester United á Anfield. Með tapi þá væri það versta leikjaröð Liverpool í tugi ára, en með sigri þá sáu menn möguleika á að snúa þessu tímabili við.

Það er skemmst frá því að segja að okkar menn unnu sanngjarnan sigur á sterkasta liði United og það án fyrirliðans Steven Gerrard, sem var meiddur. Benitez stillti þessu svona upp í byrjun:

Reina

Johnson – Carra – Agger – Insúa

Benayoun – Mascherano – Lucas – Aurelio

Torres – Kuyt

Bekkurinn: Cavalieri, Voronin, Babel, Ngog, Spearing, Degen, Skrtel.

Ég var nokkuð ánægður með þessa uppstillingu. Ég hélt að Kuyt yrði meira á kantinum, en mér fannst hann í raun spila frammi með Torres í nánast hefðbundinni 4-4-2 uppstillingu. Gerrard var meiddur, en Torres og Glen Johnson komu inn í liðið eftir að hafa misst af síðustu leikjum. Aurelio var kannski það óvæntasta í þessu, en hann hafði leikið afleitlega í síðustu leikjum, en bætti heldur betur upp fyrir það í dag.

Ég var alveg ferlega stressaður fyrir þennan leik. Okkar menn hafa ekki bara verið slappir að undanförnu, heldur hafa líka öll vafaatriði fallið gegn okkur. Því var ég dauðhræddur um að þrátt fyrir að við myndum spila betur, þá myndi Man U pota inn einhverju heppnismarki.

En allavegana, okkar menn voru betri í svona 60 mínútur af leiknum. Man U náðu nokkrum sinnum 5-10 mínútna kafla þar sem þeir héldu boltanum vel, en okkar menn náðu alltaf smám saman yfirhöndinni aftur.

Fyrri hálfleikurinn var markalaus þó að okkar menn hafi fengið tækifæri til að skora. Aurelio átti meðal annars frábæra aukaspyrnu, sem að VDS varði mjög vel og úr frákastinu var Kuyt klaufi að skora ekki. Rétt fyrir hálfleik átti Liverpool svo að fá vítaspyrnu þegar að Berbatov (sem er ólýsanlega slappur framherji) reyndi að rífa búninginn hans Kuyt í tvennt þegar að boltinn kom inná teig. En þrátt fyrir það var ekkert dæmt.

Kuyt átti líka 1-2 góð færi, sem hann átti að skora úr – ég man ekki hvoru megin við hálfleikinn þau komu.

Í hálfleik var staðan 0-0.

Í seinni hálfleik þá var það sama uppi á teningnum. Okkar menn voru sterkara liðið.

Á 64. mínútu kom fyrsta markið okkar. Í hraðri sókn þá gaf Yossi Benayoun góða stungusendingu inn fyrir á **Fernando Torres**. Ég hefði ekki getað valið mér betri mann til að fá slíkt færi. Hann hristi Rio Ferdinand af sér og dúndraði boltanum í þaknetið. Frábært mark hjá þessum stórkostlega framherja.

Torres hafði svo sem ekki mikið sýnt fram til þessa í leiknum. En enn einu sinni sýnir hann hversu mikil áhrif hann getur haft á leiki.

Eftir þetta kom smá tímabil í leiknum þar sem að Man U voru sterkari og okkar menn virtist smá taugastrekktir. Á 73. mínútu kom svo skiptingin sem að allir bjuggust við þegar að Michael Owen kom inná fyrir Berbatov. Ég hef sennilega hugsað það nákvæmlega sama og milljónir aðdáenda Liverpool um allan heim – nefnilega þann möguleika að Owen myndi skora jöfnunarmarkið fyrir Man U. Þegar að leiktíminn var að renna út gaf aðstoðardómarinn svo til kynna að heilum **fimm** mínútum væri bætt við leikinn. Fullkomlega óskiljanleg ákvörðun hjá dómaranum, enda ekkert sem réttlætti slíkan uppbótartíma. Dómarinn var yfir höfuð slappur. Okkar menn fengu á sig einhverjar 20 aukaspyrnur (á móti 12 hjá Man U) og á tíma í seinni hálfleik fengu United menn aukaspyrnu við hvert tækifæri.

En þrátt fyrir að Man U hefðu pressað okkar menn og ég hefði verið nánast að pissa á mig af spennu þá ógnuðu þeir samt aldrei markinu verulega fyrir utan dauðafæri sem að Valencia fékk eftir sendingu frá Michael Owen en Valencia skaut í slá. Mig minnir að eina annað markskotið hafi verið slöpp aukaspyrna frá portúgalska 18 milljón punda undrabarninu Nani.

Á síðustu mínútunum voru svo gefin tvö rauð spjöld, bæði rétt. Fyrst var Dirk Kuyt við það að komast einn inn fyrir þegar að Nemanja hinn rauði reif hann niður og fékk verðskuldað sitt annað gula spjald. Á 94. mínútu þá fékk Mascherano svo sitt annað gula spjald þegar að hann braut á Van der Sar.

Á 95.mínútu kom svo rúsínan í pylsuendanum þegar að Kuyt fékk boltann við miðju, gaf hann á Lucas Leiva, sem að keyrðu upp með boltann og gaf svo hárnákvæma sendingu á **David Ngog**, sem var kominn einn inn fyrir og skoraði gott mark. 2-0 fyrir Liverpool og ég fagnaði svo mikið að ég þurfti að fara í sturtu þegar ég kom hingað heim aftur.

Frábær og verðskuldaður sigur. Okkar menn voru betra liðið í þessum leik og enginn mun taka það frá okkur. Menn einsog Owen, Rooney, Berbatov, Valencia (hann var inná, ég fékk það staðfest) sáust lítið í leiknum.

**Maður leiksins**: Liðið lék vel í þessum leik. Menn vinna ekki sterkasta lið Man U nema með því að leika vel. Reina var öruggur í markinu. Það var þó tvennt, sem var sérstaklega ánægjulegt. Fyrir það fyrsta þá var vörnin okkar að spila fantavel. Jamie Carragher og Agger voru gríðarlega öruggir í allri sinni vinnu. Mér fannst þetta lofa góðu gegn Lyon, en Agger er greinilega að koma gríðarlega sterkur inní þetta lið. Bakverðirnir voru líka fínir – Insúa var smá stressaður í upphafi, en óx þegar að á leið leikinn og Valencia sást varla.

Hitt sem var ánægjulegt var frammistaða miðjumannanna okkar. Mascherano og Lucas voru verulega góðir í dag – og unnu klárlega baráttuna á miðjunni. Á köntunum var Aurelio fínn, hann lék sinn besta leik á tímabilinu og Benayoun var einfaldlega frábær. Hann hefði þó mátt nýta færin sín. Frammi var Kuyt að spila vel (sem hann hefur nú ekki gert mikið af að undanförnu) og Torres skoraði markið okkar. Ngog átti svo ánægjulega innkomu með því að skora mark – og sýna kannski sumum af hverju Rafa hafði trú á honum í sumar.

Sem menn leiksins koma tveir menn til greina. Báðir hafa verið gagnrýndir gríðarlega á þessu tímabili, en léku fantavel í dag. Fyrst Jamie Carragher. Það var alveg ljóst að hann yrði bandbrjálaður í dag og það var hann. Fyrirliðinn okkar í dag stóð sig einsog hetja.

En ég hreinlega verð að gefa **Lucas Leiva** titilinn. Hann hefur fengið á sig mikla gagnrýni að undanöfrnu, en í dag var hann frábært. Hann stjórnaði miðjunni og átti stóran þátt í því að þessi leikur vannst í dag. Frábær dagur hjá Brassanum.


Við verðum auðvitað að setja hlutina í samhengi. Við erum eftir þennan leik í fimmta sæti deildarinnar (Man City voru að gera jafntefli – og eru því fyrir neðan okkur) Það var ekki allt í rúst fyrir leikinn og það er ekki allt fullkomið eftir hann.

En þessi sigur í dag er einfaldlega **gríðarlega mikilvægur**. Ef við hefðum tapað þá hefði ég ekki persónulega verið viðræðuhæfur næstu vikurnar. Við hefðum verið 10 stigum á eftir Man U og klárlega úr leik í titilbaráttunni. Það hefði einfaldlega verið gríðarlegt áfall að tapa.

En sigurinn í dag þýðir að við erum 4 stigum á eftir Man U og 6 á eftir Chelsea. Man U eru búnir að tapa tveimur leikjum og Chelsea líka. Þannig að þessi deild er algjörlega opin.

Þessar síðustu vikur eru búnar að vera hundleiðinlegar, en svo koma svona dagar og svona leikir og þá rifjast aftur upp fyrir manni hversu ótrúlega gaman það er að vera stuðningsmaður Liverpool.

**YNWA**

153 Comments

  1. Maður leiksins: Carragher! Hann er mættur aftur. Það var líka frábært að sjá Mascherano hungraðan aftur. Lucas var mjög góður og Aurelio var góður sérstaklega í fyrri hálfleik. Benayun var sennilega mesta ógnin okkar. Torres er Torres, hvað getur maður sagt?

    SNILLD!

  2. Lucas var að spila sinn besta leik á tímabilinu. Masch og Lucas átu Scholes,Giggs og Carrick

  3. Humm, ég held að það sem menn verði að skoða eftir þennan leik, afhverju spilum við ekki svona í öllum leikjum???

  4. 🙂 🙂 🙂 🙂 🙂 🙂 🙂 🙂 🙂 🙂 🙂 🙂 🙂 🙂 🙂 🙂 🙂 🙂 🙂 🙂 🙂

  5. Lucas, Carragher, Benayoum.. Bestu menn vallarins. Gaman að sjá N’gog skora. Snilld að sjá Vidic fá rautt. Carragher minnti á sig. Agger er kominn aftur. Hvað er ekki gott við þennan dag!!

  6. sama þótt að leikskýrslan kæmi á þriðjud. WHO GIVES A FLYING FUCK við unnum þennan flotta fótbolta leik með sæmd og hjartanu… en djö var Carra heppinn…

    YNWA Kristján V

  7. Sælir félagar.
    Dásamlegur dagur, veðrið með eindæmum fagurt og Mu steinlá fyrir okkar mönnum verðskuldað á Anfield.

    Torres er þyngdar sinnar virði í gulli og Lucas að spila sinn besta leik held ég. Þó honum sé nánast fyrirmunað að skora þá var hann frábær í þessum leik. Aurelio góður í fyrri en týndist í seinni. Carra og Agger góðir og seinna markið kom eftir frábæra og harða Carratæklingu. Þeir sem hafa verið að níða skóinn af mínum manni ættu að skoða hug sinn eftir þennan leik.

    Það eina sem ergir mann er að liðið skuli ekki spila svona í hverjum leik, líka í leikjunum við smærri liðin. Liðsheildin var sterk og færslan á liðinu frábær. Mu átti aldrei hugmynd í leiknum og Benitez-skiptingin réttlættist með marki N’Gog í lokin. Ég er helsáttur.

    Það er nú þannig.

    YNWA

  8. Djöfull var gaman að sjá allt liðið virkilega hungrað… sjá baráttuna um alla bolta, voru fastir fyrir og ætluðu að vinna þennan leik, Lucas var virkilega góður og er klárlega að losna við þessa vaginu sem er búin að vera föst á honum.

  9. Hvaða afsökun og kvartanir kemur Rúdólf með í dag? Hann fékk sínar 5mín extra og dómara sem hlustaði á vælið í þeim.
    En sjitt hvað Berbí var lélegur, amma mín hefði toppað leikinn hans í dag!

  10. Æðislegt. Mikið var þetta sætur sigur, ekki síst þar sem ég horfði á leikinn með einum besta vini mínum, sem er United-maður. 😉

    Liðið var frábært í dag, nánast frá A til Ö. Að mínu mati hefði Kuyt getað nýtt færin sín betur og Johnson mátt vanda sendingarnar aðeins … allir aðrir á vellinum koma sterklega til greina sem menn leiksins. Carra og Agger voru sérstaklega frábærir í vörninni, Masch og Lucas pökkuðu miðju United saman og Torres barðist vel og skoraði frábært mark. Ég trúi varla að ég sé að neita Lucas um þetta, því hann átti sinn besta leik fyrir Liverpool í dag, en minn maður leiksins er Yossi Benayoun. Hann er einfaldlega allt í öllu í spilinu hjá okkur í dag og algjör lykilmaður í þessu liði. Hann var klassa betri en allir sóknartengiliðir United í dag, algjörlega frábær leikur hjá honum.

    Já, og N’GOG 1 – OWEN 0. 🙂

  11. Besti leikur Lucas á ferlinum 🙂 þvílík sending hjá Benayoun og finishið hjá Torres var ekkert til að kvarta yfir. Liverpool voru miklu betri megnið af leiknum, það var helst á síðustu 15-20 sem Man Utd komst e-ð inn í leikinn.

    Þvílíkur meistari… Liverpool’s Jamie Carragher, when asked whether he should have been sent off for a foul on Michael Owen: “No. Why? Do you?”

  12. Ég fékk gæsahúð þegar líðurinn púaði sem hæst á Owen og svo hló ég þegar Carrhager sýndi honum hverrsu langt hann kæmist í þessum leik.
    En það var gott að vinna þennan leik,já þetta var góður dagur fyrir Liverpool.

  13. Lucas á þetta skuldlaust í dag. Hann ætlaði að endurgjalda Benítez traustið sem hann hefur sýnt honum og gerði það frábærlega. Carra og Agger stigu varla feilspor þótt Carra hefði getað fengið rautt hjá kjarkmeiri dómara. Mascherano sýndi líka loksins sitt rétta andlit. Snjallt hjá Benítez að stilla Aurelio í hjálpinni fyrir Insua.

    Ég er ósammála mönnum með Benayoun, hann átti að gera betur í fjölda skipta, hann virðist alltaf vilja sóla sig inn í markið í stað þess að dúndra á markið. Torres er bara Torres, hann er besti senter í heimi í dag.
    En nú þarf að komast á skrið, ná upp stöðugleika og spila án mikilla breytinga á byrjunarliði í nokkrar vikur, þá þjöppumst við smám saman upp við toppinn. Og BENÍTEZ ÁFRAM!!!

  14. Fékk næstum því tvo hjartaáföll; 1) þegar það leit út fyrir að Carragher fengi rautt fyrir að stoppa Owen. 2) þegar Owen bjó til fínt færi fyrir Valencia sem skaut í slánna. Mig hryllir við þá tilhugsun að hafa næstum því séð litla gerpið fagna United marki þarna í lokin…eða hefði hann kannski ekki fagnað og fengið smá kredit fyrir?

  15. FRÁBÆR DAGUR. Lucas var gjörsamlega FRÁBÆR í dag og eftir þennan leik biðst ég afsökunar á að hafa nokkurn tímann sagt að hann væri slakur. Hann gerði allt rétt í þessum leik að mínu mati. Vá hvað ég elska Benayoun og vá hvað ég elska Agger. Það er svo æðislegt að vera búnir að fá Agger aftur í liðið. Skandinavíska tröllið er FOKKING FRÁBÆRT. Ég elska ykkur alla, þið eruð frábærir.

  16. Tímabilið hefði nánast verið búið ef þetta hefði ekki verið niðurstaðan.
    Lucas og Benayoun voru bestir að mínu mati.
    Mikið rosalega var þetta ljúft. Nú er bara að halda áfram á þessari braut og að lélegi kaflinn sé búinn þetta tímabilið og komi ekki aftur 😉

  17. Rosalega er gaman í dag, ég á eftir að vera með fast bros á vör í langan tíma. Liðið spilaði sem ein heild í dag, þegar einn gerði mistök þá kom bara annar maður og hjálpaði til. Þetta var liðssigur og ekkert annað. Svo er það bara að byggja á þessum sigri og halda áfram að vinna fótbolta leiki. Ég er stoltur liverpool maður í dag vonandi heldur að stolt áfram.

  18. Ótrúlega sterkur sigur, sérstaklega m.t.t. þess að dómarinn drullaði algjörlega á sig síðasta hálftíman sirka. Aurelio og Benayoun gerðu líka smá í því að taka mann á taugum undir lokin með kæruleysi. 🙂

  19. Minn maður leiksins í dag er Benayoun, hiklaust. Lucas var góður jú, en Benayoun betri. Liðið sýndi baráttuanda og eins og SSteinn sagði þá kom leikurinn á frábærum tíma: ef menn rífa sig ekki upp fyrir svona leik, þá er þetta dapurt. En liðið svaraði kallinu og það heldur betur. Kuyt var ekki að spila sinn besta leik hins vegar en það kom ekki að sök. Fergie mun eflaust horfa á brot Carra á Owen, og ég get alveg sagt það að ég hefði ekki orðið hissa ef Carra hefði fengið rautt – Owen var aftasti maður. En það var nú tekið víti af okkur þegar Vidic tók Kuyt á sniðglímunni og margir dómar eflaust rökræddir.

    Breytir ekki þeirri staðreynd að Liverpool vann og það sanngjarnt – flestir fjölmiðlar sem ég hef lesið hafa sagt það. Nú er bara að byggja á þessu og vonandi ekki sjá fleiri tapleiki í vetur. Áfram Liverpool – ávallt.

    p.s.
    Frábært að sjá Hyypia fylgjast með leiknum.

  20. hehehehe þetta er upplagið hjá flestum á spjallinu á man-u síðuni
    Það er alveg með eindæmum hvað ógeðslegi Carragher kemst upp með allt.

    hehehehe

  21. ANDSKOTINN … ég sá þennan leik ekki. Ég sá ekki heldur LFC-UTD og UTD-LFC á síðasta tímabili. Stórleikir sem ég horfi ekki á enda nánast alltaf vel. Ætli ég verði ekki bara að halda áfram að missa af þessum leikjum. Ætla að reyna að ná endursýningu af þessum leik!

  22. Hvernig gat dómarinn ekki dæmt víti á Carragher og afhverju fékk hann ekki rautt… hvernig geti þið haldið því fram að hann hafi verið að dæma með Man Utd…. ef svo er þá er bara eitthvað mikið að!!!!

  23. 26 – þetta er snilld. Ég elska Reina. Ég missti reyndar alveg af þessum fagnaðarlátum þar sem ég var dansandi.

  24. Það er alltaf verið að tala um að Gerrard og Carragher séu hjarta LFC, ég held að Pepe sé á góðri leið með að koma sér í þennan hóp.

  25. Guðmundur haltu þig inni á þinni Man Un síðu. Rooney og Giggs voru í því að panta dóma að vild og Ferguson fékk 5 mín sem hann pantaði. Bara frábært að það var ekki Until Un scores að þessu sinni. Hvernig fékk dómarinn þessar 5 mín skil ég ekki.

  26. Vá, hvað ég dýrka Fernando Torres. Hann lét Rio Ferdinand líta út eins og litla skólastúlku, hann einfaldlega át hann þegar hann skoraði markið.

    Verð einnig að hrósa Aurelio, Yossi og Lucas, voru mjög góðir og yfirvegaðir á boltanum. Dirk var náttlega á fullu allan tímann og gaf allt í þetta. Vörnin virkaði solid. Klassa liðsheildarsigur og þessi leikur fær mann til að gera sér, á ný, eilitlar vonir um PL titil í vor 🙂 En vissulega er langur vegur framundan! YNWA

  27. Kristján, það lýtur líka út fyrir að hann sé að brjóta bakið á Ngog

  28. Um leið og ég fagna þessum sigri gífurlega þá er ég uggandi yfir því að þessi leikur framlengir líf Benítez hjá Liverpool. Ég hef enga trú á honum, sorry guys.

    Við vinnum þessa mikilvægu stóru leiki ansi oft og er það frábært. Stemningin er rosaleg og menn eru mótíveraðir upp í topp. En það er umhugsunarefni að við komum komum okkur alltaf í þá aðstöðu að við VERÐUM að vinna þessa leiki og því verður mótiveringin alltaf svona.

    Sama sagan aftur og aftur og ég er farinn að fá Houllier hroll fyrir ansi löngu síðan.

  29. Kristján hann vildi hlaupa 100 metrana fljótar en Garry Neville hérna um árið og viti menn það tókst.

  30. Sætur sigur, skyldusigur. Liðið er oft best þegar það er komið upp við vegg, eins og í dag. Það sást þó á liðinu að það vantaði Gerrard, en án hans getum við ekki orðið eitt af topp fjórum.

    Bíð spenntur eftir fergie afsökunum … þær verða án vafa um dómgæsluna og að hann hafi ekki fengið að minnsta kosti þrjár vítaspyrnur ….

  31. Heyri ég einhvern nefna það að Benitez eigi að vera rekinn? Hafið stundum smá trú á þessu, þið efasemdarmenn.

  32. 26 – já fyrstu menn að fagna N’Gog voru Reina, Skrtel og Insua allir úr öftustu línu..

    En frábær sigur í dag og gaman að sjá allt liðið spila svona vel og uppskera eftir því. Finnst samt menn mega vera grimmari upp við markið, bæði í þessum leik og síðustu leikjum þá er alltaf verið að leita að þessari einu sendingu til viðbótar frekar enn að skjóta á markið.
    síðan er gott comment á BBC síðunni – “From Mac, London, via text on 81111: “You have made a massive typo at 1627 – Fergie making no excuses after defeat to Liverpool, surely that’s not right.””

  33. Algerlega er frábært hvernig Ferguson og allir Man. Utd. aðdáendur tala endalaust um að það hafi átt að dæma víti á Carra, hann fer nú fyrst í boltann, en ég er ekki nógu viss á reglunum til að dæma um þetta, Fergie talaði um að hann hafi farið ofan á boltann eins og það skipti máli. Ég hefði ekkert orðið hissa ef Carra hefði fengið rautt fyrir að brjóta á Owan en Owen er að vísu á leið að hornfána.
    En mér finnst allt í lagi að spyrja Utd. menn um það að fyrst þeir eru að tala um vítaspyrnur sem sleppt var hvers vegna þeir minnast ekki á þegar Berbatov drá Kuyt niður í teignum í einni aukaspyrnunni í fyrri hálfleik. Bara að mynna á þetta atvik þar sem enginn hefur gert það fyrr.
    YNWA
    IPJ

  34. Ótrúleg barátta, hugrekki og vinnusemi fyrst og fremst sem skóp þennan sigur. Ég held að ekkert lið í úrvalsdeildinni sé eins vel á sig komið líkamlega heldur en Liverpool. Það sást í þessum leik. Það var alltaf einhverjir Liverpool leikmenn sem lokuðu á Man Utd leikmenn. Hefði verið gaman að sjá hvað sumir leikmennirnir hlupu mikið í leiknum.

    Lucas átti stórgóðan leik og heldur áfram að standa sig eins og hetja gegn Man Utd. Það eitt og sér fær mann til að gleyma öllum lélegu leikjunum hans. Mascherano var einnig mjög góður, sítæklandi og ótrúlega vinnusamur. Mundi segja að Mascherano væri maður leiksins, en þar sem hann fékk rautt spjald þá er Lucs Leiva minn maður leiksins.

    Carragher var gríðarlega drífandi, smitaði út frá sér baráttu og var mjög vinnusamur. Einnig var hann líka ótrúlega kaldur í tæklingum og hugrakkur eins og fyrirliða sæmir. Hann og Agger náðu vel saman. Vonandi er Agger kominn til að vera og við getum hvílt Skrtel meira og Carragher.

    Mjög sniðugur leikur að stja Aurelio á kantinn og Benitez mun gera það áfram í stórum erfiðum leikjum. Aurelio studdi vel við Ínsúa sem stóð sig mun betur en ég þorði að vona.

    Reina heldur áfram að eiga fínt tímabil, en hafði eiginlega ekkert að gera. Hálf kaldhæðnislegt að segja þetta þar sem hann hefur fengið á sig fullt af mörkum, en mér finnst í heildina hann hafa verið nokkuð góður á þessu tímabili.

    Gaman að sjá Rio og Vidic eiga í stórkostlegum vandræðum með Torres. Besta miðvarðarpar heims (að sögn) ræður ekkert við besta miðherja heims (staðreynd).

    Er viss um að Gerrard sé manna fegnastur eftir þennan leik, fyrir utan Benitez.

    Djöfull er þessi Berbatov húðlatur og mikil sulta.

    Hver var þessi litli dvergur númer sjö hjá Man Utd sem allir voru að púa á?

    Ætla nú samt að tala aðeins um hið neikvæða. Þó svo að það væri eins og að reyna að splitta hári eins og tjallinn mundi segja.

    Carragher var heppinn. Á öðrum degi hefði hann getað fengið á sig víti og jafnvel tvö rauð spjöld. Ef það hefði gerst hefðu menn sennilega talað um að hann hefði verið lélegur.

    Mascherano var vitlaus að fá á sig seinna gula spjaldið eftir tæklingu á 93. mínútu sem hann hefði getað fengið beint rautt fyrir.

    Kuyt og Benayoun verða að vera grimmari og skjóta meira. Eru oft í góðu færi og annaðhvort gefa boltann eða reyna að leika á nokkra leikmenn. Þetta sást vel í síðari hálfleik þegar Kuyt komst inn fyrir vörnina hægra megin og hefði átt að láta vaða á markið en sendi boltann í stað á Benayoun sem var ágætis færi en bjóst ekkert við að fá boltann og reyndi að taka snertingu. Alvöru framherjar (sem þeir eru auðvitað ekki) hefðu verið viðbúnir og náð skoti. Vandinn með Kuyt er að fyrsta snertingin hans er oft döpur sem gerir það að verkum að hann nær ekki að stilla boltanum upp fyrir skotið.

  35. Já og ekki nóg með að það var klárt víti þegar barbí dróg Kuyt niður, þá var hann á gulu spjaldi og hefði með réttu átt að fá sitt annað gula og þar með hefðu Utd verið manni færri frá ? mín. Var þetta ekki um miðjan fyrri hálfleik?

  36. Er bara nokkuð feginn að Mascherano hafi fengið rautt. Nú kemur Gerrard væntanlega niður og við fáum örugglega að sjá fljótari einna snertinga bolta í Arsenal leiknum. Þurfum engan sópara gegn mönnum eins og Denilson og Fabregas.

    Er strax farinn að hlakka til miðvikudagskvöldsins.

    P.S. Mascherano gat allavegana fengið rautt með Stæl annað en Vidic, sem hlýtur að hvíla bölvun á gegn Liverpool.

  37. Eðalsigur.
    ….fáum við ekki bara Aquilani í næsta leik í stað Mascherano.
    ….en hvað varð um Riera.? Er hann meiddur eða?
    YNWA

  38. Mikið óskaplaga var þetta nauðsynlegur sigur.

    Scums teknir í nefið á Anfield. Sumir dagar eru bara betri en aðrir dagar. 🙂 Carra að stoppa O%#n var leikurinn í hnotskurn. Það var barátta, hjarta og liðsheild sem skapaði þennan sigur fyrst og síðast.
    Markið hjá Torres var heimsklassa. Margur framherjinn hefði látið sig detta með Rio Ferninand á bakinu.. 🙂 En ekki El Nino… ó nei. Tær snilld.

    Vonandi er þetta byrjunin á einhverju ævintýralegu.. 🙂

    YNWA

  39. leikurinn í heild sinni frábær. united var einfaldlega númeri og lítið fyrir okkur í dag. menn leiksins eru að mínu mati miðverðirnir og miðjumennirnir.

    við áttum klárlega að fá víti þegar berbatov reif kuyt niður. hins vegar get ég ekki verið sammála því að það hafi átt að dæma víti þegar carra tók carrick niður enda bað enginn united maður um víti. þeir héldu bara áfram. þetta var karlmennska og góð tækling.

    varðandi carra/owen atvikið fannst mér dómarinn leysa það ágætlega líkt og vidic/kuyt mómentið, þ.e. að gefa gult kort í báðum tilvikum. það var ekki verið að ræna dauðafærum í þessum atvikum þar sem sóknarmennirnir áttu eftir að gera fullt til að koma sér í toppfæri. agger var ekki langt frá owen og carra og kuyt átti eftir að hlaupa upp allan völlinn með rio í rassgatinu. vel dæmt að mínu mati.

    ég vil svo ekki álása mascha fyrir rauða spjaldið. hann átti það klárlega skilið og kvartaði því ekki. hann er einfaldlega maður sem gefur allt í þetta og renndi sér í tuðruna. ef hann hefði verið hálfri sekúndu hefði hann líkast til unnið boltann og jafnvel skorað. þetta var barátta og hann var aðeins of seinn. engin heimska að mínu mati. frekar áræðni og barátta að nenna að elta þennan bolta á 90+ mínútu.

  40. Markið hjá Torres sýndi líka í hvaða klassa þessi leikmaður er. Minni spámaður hefði auðveldlega getað “leyft” Rio að toga sig niður og fiskað víti og kannski rautt, en Torres fór alla leið.

  41. Þvílík ánægja.
    Hef tvennt um leikinn að kommentara. Það sást á Lucas að hann hafði unnið vinnuna sína, þar sem leggirnir voru orðnir mjög þreyttir þarna í endann. Hann þarf að taka fleiri svona leiki, þar sem hann er útpústaður í enda leiks, og þá koma áhangendur og bakka hann upp.
    Annað. Takið eftir klippunni af bekknum þegar N´Gog skorar. Þar sést mjög greinilega hverjum er borgað að spila fyrir Liverpool og hverjir eru Liverpool leikmenn!

  42. frábær úrslit það er bara svo ljúft að vinna scum er ánægður með þennan sigur og kannski rífur þetta okkur upp aftur YNWA

  43. Trúi ekki að þú hafir nefnt Carragher sem einn besta mann vallarins.. Hann var verstur liverpool manna í dag. Hann átti að fá rautt og á sig víti, var bara svona andskoti heppinn. Svo var hann næstum buinn að leggja upp mark á berbatov..

  44. Hvað eru menn að gagnrýna Kuyt í þessum leik! Hann var einn besti maðurinn í dag…hélt boltanum vel, pressaði, náði Vidic útaf og skapaði mjög mikið í kringum sig. Hann er einn mikilvægasti leikmaðurinn liðsins og sýndi það í dag. Í þessum leik tók hann við keflinu af Gerrard og hélt liðinu uppi með miklum baráttuanda á fremri hluta vallarins.

    Lucas var þó maður leiksins. Carra var í essinu sínu líka.

  45. Flottur leikur hjá okkar mönnum. Upp á síðkastið hafa ýmsir spekingar verið að ræða gæð ileikmanna en það er ljóst að ekki vildi ég skipta á neinum leiknmanni Liverpool fyrir leikmann Man. U.

  46. Málið er bara hrikalega einfalt Liverpool hélt mínum mönnum bara algerlega á hælunum og átti þennan sigur algerlega skilið ( það var nú reyndar alger óþarfi að nudda saltinu í sárið með að skoða síðasta markið 😉 ).

    Hvað dómgæslu varðar þá var dómarinn alveg hrikalega samkvæmur sjálfum sér í öllu sem hann gerði. Carrager fékk gult.. og það fékk Vidic líka ( samkvæmt öllu hefðu báðir átt að fá beint rautt en dómarinn var bara samkvæmur sjálfum sér ).

  47. 52

    Samkvæmt öllu á hann að vera í banni í næsta leik, þ.e.a.s á móti Arsenal í deildarbikarnum

  48. uhh ýtti óvart á Enter og átti eftir að klára.

    Núna verður gaman að sjá framhaldið, fara Liverpool menn núna á fullt eftir dapran árangur og á þetta eftir að sitja í mínum mönnum.

    Svo langar mig að lýsa yfir ánægju með þessa síðu… hér er LANGTUM minna skítkast og leiðindi en á bæði Liverpool og manutd .is síðunum. Gott að hafa síðu fyrir þroskað fólk.

  49. Loksins sýndi Liverpool hvað þeir eru megnugir ef þeir ætla sér að vinna. Þetta var dásamlegur dagur fyrir okkur Púllara. Ég er farinn að trúa því að liðið geti unnið sig áfram í Meistaradeildinni ef þeir spila svona í þeim leikjum sem eftir eru þar. Tek ofan fyrir Rafa og strákunum að vinna liðið fra´Shittford.
    ÁFRAM LIVERPOOL.

  50. Ég er hér staddur í liverpool borg.

    Steminginn á “the park” fyrir leik sagði allt!!!! Trúinn á þessu liði hérna er hreint svakaleg.

    Hef ekkert að segja um leikinn, hann segir sig sjálfur. Liverpool hefur ekki mætt jafn slöku liði á þessu tímabili.

  51. Mikið rosalega var ánægjulegt að sjá Liverpool liðið í dag, skil samt ekki af hverju þeir spila ekki svona í hverjum einasta leik. Það gekk nánast allt saman upp, nema kannski að klára færin með skoti. Vörnin small loksins saman og var mjög góð, sérstaklega gaman að sjá Carra svona sterkan á nýjan leik, Agger kom flottur inn í þetta. Miðjan var frábær og áttu Lucas og Masch hana algjörlega og svo er náttúrulega bara rugl hvað það er gott að vera með mann eins og Torres á toppnum. Það eina sem hefði mátta fara betur var að klára sókirnar með skoti á markið, það gerðist nokkrum sinnum að Benayoun var e-ð að dútla inní teignum í staðinn fyrir að hamra bara á markið.

    Ég er algjörlega í skýjunum eftir þennan leik

  52. Mikið er ég svakalega feginn að vita til þess að þeir kunna ennþá að spila knattspyrnu. Góður sigur og aðalega mikilvægur. Ætla ekki að velja einn mann sem mann leiksins. Allir rosa góðir 🙂

  53. Bann fyrir rautt er væntanlega tekið út í næsta leik sem er í þessu tilfelli deildarbikar gegn Arsenal, leikur sem Macherano hefði væntanlega fengið frí í hvort eð er. Allt tal um Gerrard í þeim leik held ég að sé rugl, það verða væntanlega Lucas og Spearing sem taka miðjuna þar nema Lucas fái frí og einhver úr vara/unglingaliðinu komi inn.

  54. Ég hef nú verið mikill gagnrýnandi Lucas, en hann á svo sannarlega hrós skilið fyrir leik sinn í dag!
    Sama má segja um Aurelio, sérstakelga í fyrri hálfleik – hættulegir krossar og fínar aukaspyrnur.

    Annars var þetta akkurat sem við þurftum á að halda, sanngjarn sigur og það án Gerrards.
    Ekkert skemmtilegra en að setja uppí þessa kokhraustu ManUtd aðdáendur sem voru með læti á Players fyrir leik, en voru fljótir að skríða ofaní holurnar sem þeir komu uppúr þegar leiknum lauk, var ekki mikið um blöðrur eftir markið hjá Torres.

  55. Frábær leikur, vorum betri á öllum sviðum heldur en sterkasta lið MU í dag. Og enginn Gerrard. Það segir allt sem segja þarf.

    Smá tölfræði, ef við tökum saman töpuð stig hjá Big-4 í ár og berum saman við síðasta tímabil eftir 10 leiki þá lítur það svona út:

    Chelsea +1 m.v. eftir 10 umferðir í fyrra
    MU +1
    Arsenal +2 (eiga leik inni)
    Liverpool -8

    Við höfum s.s. eftir 10 umferðir tapað 8 fleiri stigum heldur en á síðasta tímabili, meðan hin liðin eru á örlítið betri stað. Það er því enn nóg vinna fyrir höndum til að vinna upp þessa slæmu byrjun og sýna fram á að við séum að taka framförum og getum endað sæti ofar en síðast, en leikurinn í dag lofar hinsvegar góðu.

  56. Já hvað er að frétta bara. Þetta lið er alveg með ólíkindum. Í einum leik líta þeir út fyrir að vera algerlega óalandi og óferjandi og í þeim næsta skilur maður ekki að þetta lið sé í toppsætinu. Í dag sá ég lið sem hafði trú á að þeir gætu unnið og gaf hinu liðinu aldrei færi á að spila sinn leik. Meira svona takk.

    Þessi hópur sem að ég og margir aðrir vorum búnir að afgreiða sem samansafn af meðaljónum sem ætti helst að gefa til Tranmere mættu í dag og gersamlega skeindu Englandsmeisturunum. Menn eins og Lucas, Carragher, Aurelio ofl. fengu sannarlega uppreisn æru í dag.

    Svo er bara að fylgja þessu helvíti eftir og spila með þessum hætti þá leiki sem eftir eru.

  57. …og í þeim næsta skilur maður ekki að þetta lið sé EKKI í toppsætinu.

  58. Á meðan leiknum stóð var ég staddur í rútu á leiðinni frá Mount Snow í Vermont til Boston. Ég var búinn að kvíða fyrir þessari rútuferð í margar vikur því ég vildi alls ekki þurfa að fylgjast með leiknum í gegnum textauppfærslur frá Sky. Það vita það allir sem einhvern tímann hafa fylgst með leik með þeim hætti að það er fátt sem tekur meira á taugarnar. Mér tókst hins vegar að græja það að geta hlustað á lýsingu BBC á leiknum í gegnum útvarpsapplication á iPhone-inum mínum. Ástæðan fyrir því að ég er að nefna þetta er sú að ég vona að reynsla mín verði öðrum víti til varnaðar. Það er svona u.þ.b. 7x meira taugatrekkjandi að hlusta á leikinn heldur en að lesa textauppfærslur eða horfa á hann. Undir lokin, þegar allt var orðið vitlaust og Vidic og Mascherano fengu að fjúka útaf og svo skoraði N’Gog, vissi ég hreinlega ekki hvort ég væri að koma eða fara og öskraði 2-3 í geðhræringu.

    Mikið er ég samt ánægður með liðið mitt!

  59. Ég er að leita að torrenti til að geta séð leikinn þar sem ég var í sumarbústað og átti ekki sjéns á að sjá þessa snilld : )
    Ef þið vitið hvar ég get nálgast upptöku af leiknum þá endilega látið vita 🙂

    En já, til hamingju með þennan yndislega og velkomna sigur 🙂

  60. mér fannst carra vera frábær í dag,sem og Lucas sem ég hef reglulega rakkað niður.Nú er bara að ná stöðugleikanum Lucas minn.Kyut fannst mér mjög góður svona síðasta 1/2tímann,Agger flottur og Aurelio.Benayoun var góður en mætti oftar klára sóknirnar með skoti, þó svo að það sé ekki mikill kraftur í þessum brauðfótum.Torres er bara snillingur.En ég vona svo innilega að bæði wenger og rafa noti kjúklingana í álfabikarinn á miðvikudag.

  61. Snild ! 🙂 Svona eiga stórleikir að vera. Greinilegt að okkar menn vildu þetta meira, þvílík barátta í mönnum og þar fór King Carra fremstur í flokki. Djöfull var hann góður, var að vinna lykiltæklingar hvað eftir annað. Maður leiksins að mínu mati. En jú Lucas var líka ótrúlega góður.

    En vá hvað það er undarlegt að sjá Owen á Anfield í United treyju. Var ekki að fíla það. Eins gott að hann skoraði ekki.

  62. Min tilfinning er að Utd eigi eftir að tapa fleiri leikjum á þessu tímabili og
    þeirra hlutskipti verði sæti 3-4. umspil um sæti í CL væri gott á þá.
    Þeir eru bara með lélega blöndu af eldri leikmönnum sem hafa ekki hraðan lengur og yngri sem eru ekki nógu góðir. Ég held að LFC verði fyrir ofan
    Scum utd í töflunni en við vinnum ekki deildina. Chelski og Arsenal berjast um
    þetta. City mun klúðra sínum málum án aðstoðar.

  63. Sannleikskorn af Mirror: Sir Fergie made a surprise early substitution, bringing on a beach ball for Dimitar Berbatov after eight minutes. OK, he didn’t, but he might as well have done.

  64. Snilld, ótrúlegt hvaða áhrif þessir liverpool leikir hafa á lífið !

    Lucas – meira af þessu – snilldarleikur.

    Og gaman að sjá 53, einn UTD mann sem getur sætt sig við tap og komið inn með comment hér á kurteisan hátt.

    YNWA – áfram Benitez.

  65. Frábær leikur. Sammála flestum hvað varðar hverjir voru bestir í okkar liði. Lucas fannst mér frábær í þessum leik, það er vonandi að þetta hleypi sjálfstrausti í gæjann. Benayoun var líka frábær, eins og oft áður. Nokkrum sinnum sem hann vantaði meiri markagræðgi og skotgreddu, en hann var ógnandi og sískapandi. Þessir tveir báru af hvað mig varðar.

    Torres var slakur fannst mér lengst af og sífellt að detta og nöldra. Hinsvegar var markið hans gjörsamlega frábært (og sendingin frá Benna…úff) og maður biður ekki framherja um mikið meira en akkúrat þetta. Maður má heldur ekki líta framhjá því að maðurinn er í stanslausri gjörgæslu alla leiki og því ekki hægt að búast við að hann sé stanslaust sýnilegasti maðurinn á vellinum. Það er nóg að hann sjáist þegar hann skorar.

    Carragher var ég ekki alveg jafn hrifinn af. Hann átti frábær móment og auðvitað var svaka stemmning og kraftur í kallinum. En hann var mjög heppinn að fá ekki á sig víti og rautt spjald í þessum leik. Sem hefði þýtt að hans frammistaða hefði verið skotin í kaf, eðlilega. Þetta er þunn lína og ég vil meina að lukkan hafi verið með honum í liði í þetta sinn, en það þýðir ekki að hún verði það alltaf. Mér fannst hann heilt yfir góður, en ég hef engu að síður ennþá áhyggjur af hans frammistöðu á þessu tímabili. Ég tel mig ekki vera að níða af honum skóinn þó ég segi að hann sé búinn að vera slakur uppá síðkastið, það er bara staðreynd og skiptir þá engu hvað hann hefur gert á undan eða hvað hann mun gera næst.

    En þessi sigur var sigur liðsins fyrst og fremst. Mér fannst enginn lélegur í dag, sem var verulega góð tilbreyting.

  66. Takk fyrir Dóri Stóri, ekki eru bara mörkin þarna heldur allur leikurinn 🙂
    Er að hlaða honum í heild niður núna, snilldin ein 🙂

  67. Ég er sammála Júlla #50 með Kyut. Hann tók af skarið í dag og leiddi liðið áfram með mikilli baráttu og tók mikla pressu af Torres með hlaupum og pressu á öftustu varnarmenn Utd. Það eru örfáir framherjar í dag sem nenna að sinna svona vinnu.

  68. Hreint frábær frammistaða. Rafael vann taktískan sigur sem hann gerir oft svo vel. Frábær leikur og algjörir yfirburðir. Allir leikmenn LFC voru undirbúnir, og hver skilaði sínu hlutverki frábærlega. Loksins var gaman að horfa á fótbolta, langt síðan síðast.

    Skulum vona að liðið haldi svona áfram.

  69. Gaman að sjá þig Stb. 😉 Sammála því að þetta var taktískur sigur Rafa í dag, að miklu leyti. Horfði á leikinn með United-manni sem hafði orð á því þegar hann sá byrjunarliðin að United væru ekki með hreyfanlegustu og kraftmestu miðju í heimi (Carrick/Scholes) og það kom á daginn að vinnuhestarnir okkar hreinlega átu þá.

  70. Er einhver með myndband af fögnuði Hicks / Gillett í marki Torres ? Það var sýnt á Sky, sá það ekki nægilega vel þar sem ég var ….. já, hoppandi út um allt! 🙂

  71. Glæstur sigur. Vörnin virkar öruggari með Agger en Skrtel í augnablikinu. Það sem hjálpaði vörninni í leiknum var að Glen Johnson sat meira aftur, frekar en að rjúka í sóknina í tíma og ótíma. Þannig gátu Lucas og Mascherano beitt sér eins og þeir eiga á miðjunni. Enda átu þeir Carrick og Scholes. Nú er bara að halda þessu áfram. Gott að langri þjáningu er nú lokið í bili. Framtíðin er björt.

  72. mér fannst lucas ekkert sérstaklega góður hann braut alltof oft af sér á hættulegum stöðum og fór verulega í taugarnar á mér
    annars mjög góður leikur hjá liðinu og maður leiksins torres
    YNWA

  73. Flott skýrsla og svosem ekki milu við þetta að bæta annað en það að með komu Agger inn í liðið kemur allt önnur holning á vörnina og mun meiri yfirvegun í þeirra aðgerðum, en þá miða ég bara við formið á Skrtel í vetur. Glæsilegt að fá Danann til baka og skapa samkeppni aftur um stöður hafsenta í liðinu.
    Þetta var kærkominn sigur fyrir sálartetrið því síðustu vikur hafa verið erfiðar.

    En hversu slæmt er það fyrir Man U að tapa fyrir liði sem tapaði fyrir sundbolta:)

  74. Lucas steig svo sannarlega upp, hann og mascherano ÁTU miðju Man U, frábært mark og frábært að fá Agger aftur, vörnin virkar mun öruggari með hann þarna.

    http://cache3.asset-cache.net/xc/92333255.jpg?v=1&c=NewsMaker&k=2&d=77BFBA49EF878921CC759DF4EBAC47D0BF85292DFFF3C03D591CB81F024D5A985C1E1EA7B8ED129E

    Hvernig var þessi maður fyrsti maður að fagna með Ngog?
    http://www.liverpoolfc.tv/images5/prop091025-72-liverpool_man_utd.jpg
    http://www.liverpoolfc.tv/images5/prop091025-59-liverpool_man_utd.jpg

    frábær dagur 🙂

  75. By the way – sendingin hans Yossi á Torres var náttúrulega fáááááránlega góð!

  76. Varð fertugur dag, ekki slæm afmælisgjöf gracias senor Benitez

  77. Frábær sigur í dag. Liðsheildin virkilega öflug og það var fyrst og fremst hún sem skóp þennan sigur. Flest það markverðasta er þegar komið fram nema hve vel Ngog kláraði færið sitt. Hann var ótrúlega rólegur og yfirvegaður þegar hann lagði boltan í hornið.

  78. frábær sigur og jég veit ekki um marga framherja sem láta ferdinand líta út eins og nýliða en auðvita getur besti fraherji í heimi gert það Fernando Torres.miðjan var var góð kantarnir ekki sýðri en maður leiksins að mínum mati er Daniel Agger sívinnandi vann nærri alla skallabolta svo vil ég sjá Alberto Aquilani byrja inná í deildarbikarnum

  79. 51# Óskar
    Ég væri samt ekkert á móti því að hafa Evra í stöðu vinstri bakvarðar í Liverpool liðinu. Finnst hann frábær bakvörður.

  80. Jæja, ég var að enda við að horfa á leikinn, eða ég ætti frekar að segja hlusta á lýsinguna og horfa á ljósmyndir af vellinum, svo slæm var þessi upptaka af streymdri útsendingu 🙂
    Hvað um það, stór skemmtilegur leikur og vel verðskuldaður sigur okkar manna staðreynd.

    Nú hef ég ekki lesið öll komment sem hafa verið skrifuð við þessa færslu en ég verð að segja að skiptingin á Torres og Ngog fannst mér mjög merkileg í stöðunni 1-0, ef svo óheppilega hefði farið að Man Utd hefði náð að jafna þá hefði Rafa fendið áframhaldandi skítkast varðandi furðulega skiptingar, en sem betur fer fór þetta svo allt eins og best varð á kosið og Ngog sýndi stáltaugar þegar hann setti síðasta naglann í líkkistu rauðnefs 🙂

    Mikið gladdi það mig svo að vita að þetta varð afmælisgjöf okkar manna til Rooney sem var að ég held 24 í dag 🙂
    Hyypia og Didi Hamann voru hressir í stúkunni og flott að þessar gömlu hetjur fengu skemmtilegan leik í dag.

    Að lokum verð ég að minnast á að ensku þulirnir sögðu svolítið sem mér fannst athyglisvert, þessi leikur er leikur númer 200 hjá Rafa fyrir Liverpool og varð þetta þá sigur númer 114 hjá honum, og til gamans má geta þess að Rauðnefur gamli náði 87 sigrum í sínum fyrstu 200 leikjum 🙂
    En eins og öll vitum er Rafa samt lélegur þjálfari 😉

    Til hamingju öll með daginn 🙂

  81. Þið megið vera á móti Benitez ef þið viljið, en ef þið viljið að ég sé sammála ykkur um að reka hann þá verðið þið að sannfæra mig um eitt.

    Að einhver annar en Benitez hefði fengið Gerrard til að vera áfram hjá Liverpool og Torres til að ganga til liðs við Liverpool.

    Þvílík hamingja sem er fólginn í því að eiga (einn) besta striker í heimi.

  82. Þetta var frábær leikur og auðvitað eiga menn að gleðjast. Stærsti munurinn á þessum leik og þeim síðustu 4 þar á undan er að vinnslan í liðinu var miklu meiri í þessum leik. Það eru sömu undirliggjandi vandamálin til staðar sem hafa valdið okkur vandræðum og það er tvennt í stöðunni. Annað hvort verða okkar sterkustu menn allir með og við eigum fínan séns í öll lið eða það þarf að skipuleggja liðið með öðrum hætti og eða koma Aquilani inní spilið.

  83. 90 Hafliði,

    Þetta var allt annað en skrýtin skipting. Ef þú horfir á leikinn ca. 2-3 mín áður en skiptingin kom þá sést greinilega að tankurinn var augljóslega tómur hjá Torres.

  84. Já ok, eins og ég sagði þá hlustaði ég eiginlega meira á leikinn en horfði vegna lélegs video 🙂
    En nú sit ég í skólanum innanum mjög niðurlúta Man Utd menn 🙂

  85. Algerlega gargandi snilld.

    Horfði á sýninguna á netinu í nótt um leið og það gafst, missti því miður af leiknum beint.

    Litlu hér við að bæta, er algerlega sammála vali á manni leiksins, Lucas var hreint frábær og sýndi svo ekki verður um villst að þarna búa miklir hæfileikar, sem frábært væri að sjá stöðugt og alltaf. En það kemur með aldrinum.

    Liðið í heild var gríðarlega vel einbeitt, miklu sterkara en Scums og mér fannst enginn veikur hlekkur á ferðinni. Agger og Carra náðu frábærlega saman, Insúa duglegur og skilaði vel lokuninni á Valencia. Mér fannst Glen Johnson sýna gríðarlega góðan varnarleik í þessum leik og þar með ýta vel á gagnrýnispungana sem hafa um það röflað í haust. Lucas og Masch voru frábærir á miðjunni, langbesti leikur beggja í vetur og Masch mátti bara alveg fá þetta rauða spjald, hefur bara blásið mönnum eld í brjóst.

    Aurelio, Kuyt og Benayoun mjög sterkir, held að betur komi út að hafa Yossi úti á kantinum en á bakvið senterinn, þar fær hann pláss í fyrstu skrefin og Kuyt djöflast á hafsentunum. Um Torres þarf auðvitað ekki að ræða og N’Gog kom flott inná!

    En liðsheildin var algerlega frábær og sýndi þann kraft sem í liðinu býr, án Captain Fantastic, svo að sú mýta dó, auk þess auðvitað að þarna voru Lucas og Masch að sýna að þeir saman virka vel.

    En auðvitað ef EINBEITING og GRE**AN er á fullri ferð. Hún þarf að vera til staðar.

    Spáiði annars í það, ef við myndum alltaf spila við United værum við meistarar með fullt hús stiga og þeir féllu stigalausir!

    Skulum alveg átta okkur á því að rauðnefur gamli fór fúll heim til sín í gærkvöld og augljós vandamál í þessu liði hans. Berbatov er mesta peningasóun í sögu þessa félags og það er vandræðalegt að maður eins og John O’Shea spili þessa leiki, hvað þá að Carrick hafi kostað 10 milljónum meira en Lucas. Skil Vidic alveg að vilja hætta fljótt að spila leiki gegn Liverpool!

    Og um litla strákinn sem kom inná í gær. Ég fékk KLÍGJU að sjá hann í gær í þessum leik, byrja á að gefa Rooney five og demba sér í baráttuna. Þegar Scum-aðdáendurnir fara að röfla við ykkur í dag skuluði bara benda þeim á að menn fá ekki rautt spjald “fyrir að vera síðasti maður” heldur að “ræna menn upplögðu marktækifæri”. Að mínu mati fékk Carragher nákvæmlega rétta útkomu því stubburinn var ekki á leiðinni í neitt færi.

    En mikið óskaplega er ég glaður að við sóttum ekki þennan sálarlausa hlaupara í sumar, heldur afhjúpaðist hans aingjaháttur þegar hann ákvað að verða varamaður á Old S*house. Áður en lengra er haldið vill ég benda þeim sem ætla að baula á að þessi stubbur hefur nú tekið þátt í 12 leikjum fyrir þá og skorað 2 mörk, en David N’Gog skorað 3 mörk í 7 leikjum.

    Ég tek heilshugar undir með stuðningsmönnum á Anfield Road sem sungu reglulega “Once a Manc, never a Red”.

    Þurrka ALLAR

  86. Allar myndir og frásagnir af þessum stutta manni úr sögu félagsins takk.

    Fínt að byrja á lfc-history.net!

    En til hamingju elskurnar, manni líður aldrei betur en eftir sigur á þessu liði og að geta brosað framan í þá sem lifa við þá ógæfu að halda með þeim.

  87. Maður er enn í sigurvímu :):):)
    Fannst Lucas frábær eins og flestir í liðinu, koma svo Liverpool aðdáendur höldum áfram með jákvæða strauma þá gerast hlutirnir 😉
    Miklu skemmtilegra að vera glaður stuðningsmaður en fúll á móti.

  88. HUNDRAÐ!!! 😀 Frábær leikur. Loksins fengum við að sjá Liverpool liðið sem endaði síðustu leiktíð.

  89. Það er svo merkilegt með þetta lið okkar, það jaðraði við því að maður léti leggja sig inn á geðdeild þegar þeir töpuðu fjórða leiknum í röð!!!!! En í dag þá er maður á bleiku skýi og veit að maður á eftir að vera í góðu skapi út vikuna!!! Rafa á þennan sigur skuldlaust… þar sem aðrir þjálfarar hefðu ALLS ekki treyst Fabio….. og Lucas fyrir þennan leik!!!!

  90. Já, þetta var frábær leikur.

    Afskaplega skemmtilegt að sjá þátt Lucas í seinna markinu. Fær boltann rétt fyrir utan teig Liverpool, gefur á Kuyt og tekur svo sprett fram völlinn á 95 mínútu, fær boltann aftur og leggur á Ngog.

    Þetta hlaup er nefnilega dæmi um nokkuð sem er vanmetið í fótbolta og margir taka ekki eftir. Það skiptir ekki bara máli hvað menn gera með bolta, það er ekki síður mikilvægt að leikmenn komi sér í stöðu þegar þeir eru ekki með boltann. Hlaupið hjá Lucas var eitt það fallegasta sem ég hef séð á velli í langan tíma.

  91. Næsti leikur í deild er gegn Fulham. Ef mér skjátlast ekki þá gefur sigur í þeim leik 3 stig alveg eins og gefið er fyrir sigur á Man Utd.

    Nú reynir á menn að spila líka gegn hinum liðunum. Þannig vinnur maður deildarkeppnir.

    • Næsti leikur í deild er gegn Fulham. Ef mér skjátlast ekki þá gefur sigur í þeim leik 3 stig alveg eins og gefið er fyrir sigur á Man Utd.

    Það þarf engan vísindamann til að sjá það út þó þessi sigur í gær hafi klárlega verið stærri en bara þrjú stig! Við hindruðum United í því að fá þrjú stig, unnum loksins alvöru lið, endurheimtum smá trú á liðinu og svo bara læknar svona sigur flestallar tegundir af þynnku sem er 😉

    Við þurftum alveg ofboðslega mikið þessum sigri að halda í gær.

  92. Já, þannig fór um sjóferð þá. Mér finnst fullmikið uppi á mönnum typpið hér. Liverpool var betra í þessum leik, en liðið var alls ekki frábært. Ástæðan fyrir þessum sigri er að Benitez er með svo hrottalegt sálfræðilegt hreðjatak á Ferguson að það hálfa væri nóg. Maður finnur hvernig sýður á honum og sú gremja er ekki leiðin til að fara á Anfield og sækja sigur.

  93. Fullmikið uppi á mönnum typpið hér ? Ég veit ekki betur en “liverpool böggið”, “Hveramaður” og fl. Utd stuðningsmenn hafi verið tíðir gestir hér inni rétt fyrir leik – voru svo teknir í bakaríið af liði sem er með tvo leikmenn “sem geta eitthvað” , annar þeirra spilaði meiddur hinn var ekki með, samt sem áður öruggur sigur.

    Sé ekki annað en það sé góð ástæða til þess að vera ánægðir með leik okkar manna, en að benda á að liðið hafi ekki verið frábært er náttúrulega bara fyrirsláttur – og áður en við förum út í að Utd var ekki að spila vel, þá vil ég minna á þá staðreynd að engin spilar betur en andstæðingurinn leyfir.

    Farðu nú aftur ofaní holuna sem þú komst uppúr ásamt hveramanni og komdu aftur fyrir leikinn á OT.

  94. Það hefur ekki liðið klst frá því að leiknum lauk, að ég hafi ekki hugsað um leikinn. Djöfull líður manni vel eftir leikinn, svo margt jákvætt í leik okkar manna sem gladdi mig. Verð þó að nefna eitt, en það er þessi fullkomna sending sem Yossi átti á Torres. Þvílík snilld, hann gjörsamlega þræddi boltann framhjá vörn Scum Utd. og ákkúrat á þann stað sem Torres þurfti, snilld!!!

    En nú er bara að halda sama momentum, taka Fulham á laugardaginn og í millitíðinni slá Arsenal út á Emirates;)

  95. já ég væri alveg til í að sjá þessa klippu sem #47 talar um, er einhver klár á veraldarvefnum sem getur grafið þetta upp?

  96. Veit ekki hvort að þessi klippa sé til. En það var sýnt yfir á bekkinn þegar hann skoraði og ég tók eftir að Torres fagnaði þvílíkt en Voronin brosti ekki einu sinni.

  97. Er einhver með video af þessari fullkomlega löglegu tæklingu Carra á Carrick?

  98. Magnað að Rafa Benitez sé aftur orðinn besti knattspyrnustjóri í heimi.

    Hvernig væri að fólk héldi sig við sínar skoðanir í stað þess að láta eins og fífl? Fyrir viku var maðurinn vita vonlaus og nú er hann GUÐ. Hann varð ekkert ömurlegur knattspyrnustjóri á einum leik og frábær á einum leik.

  99. Mig langar eiginlega að sjá líka tæklinguna hans Carra þarna sem leiddi til marks númer 2. Ég sá hana bara einu sinni, hún var aldrei endursýnd vegna þess að markið hlaut alla athuglina ! hehe

    Það var gaman að sjá Carra í þessum ham. Þarna kom loksins gamli góði Carra sem fer í tæklingar þó það séu yfirgnæfandi líkur á að hann meiði sig. Djövs hörkutól.

  100. Krista, Finnur og fleiri, hvaða vitleysa er þetta? Ég er enn á minni skoðun, að ég tel það að Rafa sé ekki rétti maðurinn til að stjórna LFC… Ég nenni bara ekki að skrifa um það eftir fullkomna yfirspilun á Man United. Einn sigur breytir þessari skoðun minni ekki þó það hafi ekki verið ætlun mín að rita hérna eftir besta leik tímabilsins. Kannski er maður fífl fyrir vikið að hafa ekki minnst á það, veit það ekki.

    Áfram Liverpool

  101. Liverpool Böggið, taktu þér ManUtd mannin Andra Frey #53 þér til fyrirmyndar og slappaðu aðeins af. Af hverju geta menn ekki talað um fótbolta án þess að vera ævinlega með helvítis drullu og skít út í aðra. Ég hef verið Liverpool maður í ansi mörg ár og auðvitað fara sum lið meira í taugarnar á mér en önnur, sbr. erkifjendur, aðalkeppinauta og nágrannalið. En að vanvirða þá sem halda með þeim liðum sem og öðrum liðum dettur mér ekki í hug að gera, ekki af því að ég sé með einhvern geislabaug heldur af því að hvernig getur maður ætlast til að einhver beri virðingu fyrir manni af maður lætur svona eins og plebbi.

    En ef þér er andskotans sama um virðingu annara, sýndu þá sjálfum þér þá viringu að koma með komment hér inn undir þínu nafni ekki dulnefni.

  102. Mín vegna þarf hvorki að skrifa upphitun fyrir næsta leik né leikskýrslu um hann, efsta fréttin á síðunni er alveg nógu góð næstu vikuna.

  103. Ok, never mind. Þetta virkar ekki nema þú sért með e-season ticket.

    Sorry…

  104. Hvað eru menn að kvarta yfir fagninu hans voronin, hann lærir bara af stjóranum sínum sem er jú það sem við viljum að leikmennirnir okkar geri. Það er ekki eins og Benitez hafi fagnað mikið þegar Torres skoraði, hans einu viðbrögð voru að kíkja á klukkuna, sennilega til að sjá hvort það væri komin 80. mínúta og óhætt að fara að huga að skiptingu 😉

  105. það glittar aðeins í tæklinguna hjá Carra á Carrick í þessu myndbandi.

  106. Það er ýmislegt jákvætt að sjá þarna í leik okkar mann og að sjálfsögðu var þetta gullfallegur þriðji sigur í röð. Ég verð að segja að Torres var algjörlega maður leiksins, hann var dýrvitlaus frá fyrstu mínútu og átti góð hlaup tilbaka þar sem hann var að hreinsa vel úr teignum úr hornum og var að vinna skallabolta á miðjunni, eins var hann alltaf mættur á kantinn til að taka við stungum og hefja ágætis sóknir. Glen Johnson var hinsvegar eitthvað slakur þó svo að hann hafi staðið sína vakt í vörninni. Mig grunar að hann hafi fengið þau fyrirmæli að liggja aftar á meðan að miðjan fékk þau fyrirmæli að liggja framar því eins og sást á báðum skotum hans í leiknum þá hefur hann ekki komið svona framarlega áður. Insua var ótraustur í fyrri hálfleik og ég var skíthræddur við að hafa hann einan á móti Valencia, en sem betur fer þá nennti Valencia ekki að spila þennan leik því Insua var eins og bóndi að elta hlébarða í þau fáu skipti sem þeir þurftu að berjast um boltann. Agger og Carra voru fallegir en Skrtel skiptingin var hinsvegar stórhættuleg, því hann var kominn í miðvörðinn þarna á síðustu mínútunum og virkaði mjög ótraustur. Yossi og Aurelio voru flottir og Kuyt var þokkalegur. Torres var maðurinn en Lucas var alls ekki besti maðurinn á vellinum, hann átti hinsvegar sinn besta leik með liðinu í þessum leik.

  107. En þetta brot staðfestir að þeir sem vildu rautt á Carragher fyrir brotið á Owen eru bara eitthvað að rugla. Það er Owen sem brýtur á Carra til að byrja með. Hefði átt að vera aukaspyrna Liverpool .

  108. Ég var að horfa á leikinn aftur. Bæði Evra þegar hann fór í loftbardaga við Yossi og Berbatov í teignum gegn Kuyt voru heppnir að fá ekki annað gula spjaldið í fyrri hálfleik.

    Maður sem horfði á leikinn með mér í gær sem er dómari í efri deildum og jafnframt utd-maður sagði að það væri rétt að dæma EKKI víti á Carra þegar hann tæklaði Carrick inní teig.

    Ferguson getur ekki kvartað undan fyrra gula spjaldi Vidic þar sem hann var búinn að brjóta 4-5 sinnum af sér áður en hann fékk loksins gula spjaldið.

    Það er svo búið að fara oft í umræðuna með Carra þegar hann braut á o**n og seinna gula spjald Vidic sem áttu bæði að vera bein rauð spjöld.

  109. Jóhann 128#
    Ég bara sé það ekki hvernig Owen brýtur á Carra og er ég búinn að reyna eins og ég get að finna ásæðu til þess að snúa þessu upp á hann:)

  110. Hvað sem mönnum finnst um Benitez…maðurinn þarf að fá sér axlabönd!

  111. Mér fannst það þegar ég horfði á leikinn og aftur þegar ég leit á þetta brot að Carra var einfaldlega nær boltanum en Owen. Owen reynir að fara framhjá Carra með að toga í hann, carra fer þá að sjálfsögðu fyrir hann en ég met það þannig að dvergurinn brjóti af sér áður en Carra brýtur á honum.
    Ekki að það skipti neinu máli, mér fannst þetta bara aldrei vera rautt spjald og enn síður var þetta gult spjald.

  112. Flottur leikur að mínu mati mikill liðssigur. Var sérstaklega ánægður með vörnina og Lucas var sérstaklega sterkur. Held að Lucas og Masch hafi unnið einhverja 20-30 bolta á miðjunni. Gríðarlega duglegir. En sá að einhver var að spá í það hvernig Reina fór að því að vera með þeim fyrstu að fagna seinni marki Ngog. Það sést greinilega á vísi að hann er lagður af stað til að fagna markinu 2-3 sekúndum áður en að Ngog skorar. Flottur Reina

  113. Orð Graham Poll í fjölmiðlunum í kjölfar leiksins segja allt sem segja þarf um þessa umræðu er varðar dómgæsluna í leiknum: “It´s a frustration for referees when they make an absolute sound and solid decision and they are undermined by the ignorance of those who don´t know the rulebook properly.”

  114. Snildar leikur…. ohh hvað það var gaman á steik and play, bara man utd menn við borðið mitt og gaman að geta fagnað í andlitið á mönnum sem eru búinir að gera það ansi of við mig(gat ekki horft á síðustu 2leiki gegn man utd vegna vinnu)…
    En menn eru að tala um að dómarinn var hliðhollur okkur, ég ætla að fara yfir nokkra punkta um það.
    1. þegar carra braut á owen, rautt! vissulega hægt að dæma það en hann gerði það nákvæmlega sama þegar vidic braut á kuyt.
    2. menn væla um víti þegar carra átti að hafa brotið á carrik, í fyrsta lagi kemur fyrst við boltan en svo var líka hinu meginn þegar kuyt var næstum rifinn úr bolnum og ekkert dæmt.
    3. Vidic átti löngu að vera farinn útaf þegar hann reyndi vísvitandi að stoppa reina þegar hann kom boltanum strax í leik, sem er bara klár gult spjald og útaf.
    4. fyrra spjald vidic var því að hann var orðinn síbrotamaður þarna inná. þannig litið hægt að væla yfir því.
    þannig allavega finnst mér bara bull að dómarinn hefði verið á okkar bandi.

    Núna er bara fyrir liverpool menn að rífa sig upp! Spila eins og þeir gerðu á sunnudaginn og jafnvel reyna bara að bæta þá spilamennsku enn frekar. Núna þarf að koma góð rispa hjá okkur ekki tapa stigum í næstu 6-9 leikjum, þýðir ekkert að slaka á bara núna, menn að koma út meiðslum sem er gott og ætti að styrkja okkur. Ég vill að fólk fari að óttast okkur eins og í fyrra.
    Agger virðist koma mjög sterkur inn í vörnina og hann bætir líka sóknaleik okkar manna, Aurelio kom strekur inní þennan leik vonandi heldur það áfram. Benayoun að brillera og virðist ætla að toppa á þessu seasoni, Nog virðist ætla að verða góður leikmaður og geta fyllt eitthvað í stóra skarðið sem Torres skilur eftir,þegar hann meiðist óska að hann sé búinn með þann pakka.
    Aquilani er að koma! held að hann eigi eftir að verða ótrúlega góður leikmaður sem kemur spilinu vel í lag, bæti sóknaleik okkar til muna, var að vísu bara búinn að sjá 2leiki með honum og hann leit mjög vel þar út, hann er mjög útsjónasamur leikmaður,held að hann komi líka jafnvægi á miðjunna,nema Macherano og lucas ætla að spila eins og á sunnudaginn þá hef ég ekki áhyggjur af þeim.

    takk fyrir mig og guð blessi liverpool

  115. Ef ekki bara 4-4-2 málið? Þéttari miðja sem skýlir vörnini betur og bakverðirnir á sínum stað………….

  116. Vincenzo Iaquinta er líkt nafninu á hvaða leikmanni Liverpool segirðu?

  117. http://www.4thegame.com/club/manchester-united-fc/news/249301/ferguson_comes_under_fire.html

    Skyldulesning fyrir þá sem vilja velta fyrir sér frammistöðu dómarans á sunnudaginn sem var að mínu mati afar góð. Vissulega fékk Lucas að komast upp með að brjóta töluvert oft af sér, en þessi dómari hélt þeirri línu að láta leikinn ganga og hélt henni allt til enda.

    Eins og þarf í leikjum Liverpool og Scum ef ekki á að vera með “Rautt Flóð”.

    Sérlega finnst mér skemmtilegt þegar Winter talar um hegðun Rauðnefs á línunni, og hve hættulegt er fyrir svo gamlan mann að láta svona.

    Og ég er hjartanlega sammála honum í því að sá gamli á að fara í langt bann.

    Vissu menn svo það að hann neitar að mæta í viðtöl eftir tapleiki nema hjá United-stöðinni? Það segir nú margt um þann mann……

  118. Þakka fyrir upplýsingarnar Babu en ég var reyndar að óska eftir leiðbeiningum við að fá mynd af mér þegar ég kommenta.

  119. Lýður #137, geturðu komið með einn link sem dæmi til að vitna í hann. Þessir United menn eru byrjaðir að væla aftur.

  120. Já, Haukur Snær – þá ferðu á þessa síðu og skráir þig þar og setur inn mynd. Mundu svo að nota sama email þegar þú kommentar hér og þú notaðir til að skrá þig á þá síðu.

  121. Takk Einar held að þetta sé komið núna. Persónulegra að hafa mynd með nafninu.

  122. Algerlega hjartanlega sammála ályktun þinni Babu!

    FA verða auðvitað að sýna það að hann fái ekki að gera það sem honum sýnist, þó hann sé kominn á ellilífeyrinn! En rosalega líður manni vel yfir því hvað honum virðist líða illa með að vera algerlega búinn að missa tökin á LFC!!!

  123. Vörnin var svo sannarlega að virka hjá okkur í þessum frábæra leik. En það er eitt varðandi vörnina sem ég held að menn hafi ekki minnst á hérna.

    Áður en Agger náði sér af meiðslunum spilaði Carra vinstra megin í vörninni og Skrtel hægra megin. Áður fyrr spilaði Carra alltaf hægra megin og nú þegar Agger kom inn í liðið þá er Carra aftur kominn til hægri og Agger vinstra megin. Þetta gæti skýrt að einhverju leiti af hverju Carra hefur ekki verið upp á sitt besta í byrjun tímabilsins en mun betri núna með Agger!

    Spurningin er svo af hverju Carra var látin spila „úr stöðu“ með Skrtel?
    Gæti verið að Benítes sé að undirbúa Agger og Skrtel sem miðvarðapar framtíðarinnar og því hafi Skrtel fengið að spila í sinni hægri stöðu og Carra fórnað sér.

  124. Sammála þér Hlynur. Carra er klárlega hægri varnarmaður, og þegar honum er hent vinstra megin þá er ekkert skrýtið að rútínan ruglist aðeins. Agger er náttúrulegur vinstri varnarmaður og Carra náttúrulegur hægri varnarmaður. Þess vegna litu þeir út eins og LFC vörn á sunnudaginn, en ekki eins og vörnin hjá 2. deildar liði eins og því miður hefur verið raunin það sem af er tímabili (þegar Skrtel var hægra megin).

  125. Hvað mundir þú segja við R. Benitez ef þú mundir hitta hann á bar?

One Ping

  1. Pingback:

Liðið gegn Man U

Skuldir liða