Blessað landsleikjahléð…

Kynnið ykkur þetta hérna til hliðar, gjöf en ekki gjald————————————————–>

Eins og allir stuðningsmenn Liverpool hef ég ekkert verið neitt himinlifandi með byrjunina á þessu tímabili okkar, 8 leikir og þrjú töp og öll gegn liðum sem flokkast sem topp 10 lið.  Það er því kannski skiljanlegt að einhverjir byrji með hinn æðisgengna söng um að tímabilið sé búið, punktur basta, það varla tekur því að spila rest.

Það auðvitað  tekur því varla að benda á að þetta er að sjálfsögðu ekki raunin enda 30 leikir eftir ennþá. En það sem mér finnst svolítið merkilegt er að fyrir Chelsea leikinn þá vorum við í raun með stigi meira heldur en á sama tíma í fyrra, höfum unnið þessi smærri lið þó nokkuð sannfærandi og ekki ennþá gert eitt einasta jafntefli. Það er auðvitað ekki mikið að marka það að bera þetta svona saman en eftir slæma byrjun þar sem liðið var enganvegin búið að slípast þá getur það varla talist heimsendir að tapa gegn Chelsea á Stamford Bridge eftir nokkuð jafnan leik sem hefði einfaldlega með smá heppni (og t.d. víti í fyrri hálfleik) getað endað með útisigri. Chelsea tapar varla heimaleik og það var næstum því tilefni til hátíðarhalda er við unnum þá þarna í fyrra, svo sjaldgæft var að þetta lið tapaði heima (fyrir utan að við áttum í basli þarna löngu fyrir tíð Romans).

Þannig að mínu mati er fásinna að tala um að tímabilið sé búið þó við höfum tapað úti á Stamford Bridge og séum nú þegar sex stigum á eftir þeim bláu. Ofan á þetta má líka benda á að það er alls ekki eins og hin toppliðin hafi farið hnökralaust í gegnum byrjun mótsins. United tapaði eftirminnilega gegn vinum mínum í Burnley, fengu heilmikla hjálp frá dómaranum til að vinna nágranna sína í City (voru þó mikið betri) og voru hreint út sagt STÁLheppnir að merja út jafntefli gegn Sunderland. Chelsea hefur verið að vinna sína leiki með mörkum í blálokin og vissulega sýnt mikla meistaraheppni en þeir taka svo líka upp á því að tapa fyrir liði eins og Wigan. Eins má benda á að þetta lið er skipað frekar gömlum leikmönnum sem ættu að þreytast aðeins og jafnvel detta í meiðsli (voða lítið um það hjá Chelsea núna) þegar liður á tímabilið ásamt því að þeir missa slatta af sínum hóp í Afríkukeppnina í janúar. Arsenal er að spila mjög flottann bolta og virka til alls líklegir en ég á eftir að sjá þá halda út yfir heilt tímabil, og það með ekki sterkari miðju varnarlega en þetta, svo ekki sé talað um vörn og mark  (ekki útilokað samt). Man City er síðan alveg óskrifað blað líkt og Tottenham, þeir ljósbláu eru mjög nærri því að vera alvöru topplið og virðast vera að slípast vel saman á meðan ég spái því að Spurs komi til með að eiga sitt besta ár í marga áratugi og brjóti sér jafnvel leið inn í topp 4. Til þess þurfa þeir reyndar að hafa Modric heilan.

Þannig að þó að Liverpool hafi verið að hiksta á við sauðdrukkinn kvennmann á jólaballi í byrjun móts þá má ekki gleyma því að keppinautarnir eru alveg að því líka og eru síður en svo alveg gallalausir. Klisjan um að mótið verði sterkara í ár virðist actually eiga nokkuð vel við í ár þar sem mun fleiri lið virðast eiga möguleika á að taka þessi “stærri” lið á góðum degi. Þar að auki má alveg merkja smá breytingu á leikskipulagi Liverpool og liðið virðist vera að reyna að halda áfram sóknarleiknum sem endað var á síðasta tímabil og t.a.m. er liðið að klára leiki mun meira afgerandi en fyrir bara nokkrum árum.

Þetta lið á alveg fáránlega mikið inni samt og við vitum það vel. Vörnin á eftir að ná betur saman þegar á tímabilið líður, Carra og Skrtel hafa ekki verið upp á sitt besta og má það kannski að einhverju leiti skýra af því í kringum þá eru nýjir menn. Insúa í vinstri bak sem sækir látlaust, Johnson hægramegin og hann hefur sótt meira á þessu tímabili heldur en allir hægri kanntmenn Liverpool síðan Gerrard var á kanntinum. Síðan er hinn óumdeildi Braselíumaður Lucas tiltölulega nýr á miðjunni. Þetta eru allt góðir leikmenn og hafa spilað vel þegar á heildina er litið en svona breytingar koma niður á varnarleiknum og hafa alltaf gert það. Svo má ekki gleyma því að Agger er við það að koma ferskur til baka og hann er rétt rúmlega mjög góður liðsstyrkur, sérstaklega fyrir sóknarleik Liverpool, fáránlega eins og það nú hljómar miðað við að hann er miðvörður. Lucas og Mascherano fara síðan að fá gríðarlega samkeppni eftir þetta HELVÍTIS FOKKINGS landsleikjahlé þegar Aquialani kemur aftur úr meiðslum, ekki að hann fari að styrkja varnarleikinn mikið.

Þannig að ég sé ekki ástæðu til að tapa gleðinni alveg strax þó að á móti blási í augnablikinu.

Það sem ég er hinsvegar alveg að missa þolinmæðina á eru þessir ullarhattar sem “eiga” klúbbinn okkar, þeir Tom & Jerry. Þeir geta bara ekki rekið við án þess úr verði frétt og eins virðast þeir ennþá eiga í brasi með að tala saman.

Áður en ég byrja þetta rant tek ég fram að ég hef nú lítið skammast mín fyrir það í gegnum tíðina að þegar kemur að fótbolta þá hef ég alltaf verið fordómafullur gagnvart bandaríkjamönnum. Þessa þjóð vil ég bara ekki sjá tengjast knattspyrnu á nokkurn hátt og hafa þeir félagarnir ekkert hjálpað til við að breyta þessari skoðun minni. Fótbolti er fínn eins og hann er einfaldur og ennþá þannig að allir sem á hann horfa geta farið út á völl og spilað nánast sama leik og sem betur fer er hann enn ekki svo yfirkaffærður í markaðssetningu að leikmenn þurfi að bíða út á vellinum eins og bjánar til að bíða eftir að auglýsingahléið klárist líkt og t.a.m. er oft raunin í Amerískum Fótbolta.

Þar er ég svo kominn að öðrum punkti í þessum fordómum mínum, þjóð sem er svo afskaplega vitlaus að kalla leik sem gengur út á að kasta egglaga knött sama nafni og allur heimurinn kallar íþrótt sem gengur út á að sparka hringlara knött er ekki hátt skrifuð hjá mér. Ég hugsa þetta allavega eins og bretarnir og væri til í að slá alla þá sem tala um soccer.

Þetta ætti að útskýra þetta aðeins
Þetta ætti að útskýra þetta aðeins

En eins og líklega flestir hafa tekið vel eftir þá er enn einu sinni verið talað um að einhver moldríkur arabi í beinan ætlegg við Ali Baba ætli að kaupa hlut í klúbbnum eða kaupa hann bara jafnvel allann, þ.e.a.s F6 fyrirtæki í eigu Prince Faisal al-Fahd bin Abdullah bin Saud (frændi SSteins) meðlims í konungsfjölskyldunni í Saudi Arabíu.  Gillett hefur undanferið verið í viðskiptum við þennan mann og er talinn vera tilbúinn að skoða það að selja honum einhvern hlut í Liverpool.

Fréttir af þessu eru hinsvegar mjög óljósar og mismunandi, ef ég stikla á stóru yfir það helsta þá hefur prinsinn s.s:

– ekki áhuga á skuldum Liverpool og vill að Tom & Jerry sjái um þær sjálfir.

– bara rætt við Gillett, ekki Hicks

– áhuga á að kaupa allt frá litlum hluta upp í allan hlut Gillet (og jafnvel Hicks).

– að hann eigi von á Gillett til Saudi Arabíu í næstu viku til að funda um þessi mál.

Að vanda er bara best að trúa ekki aukateknu orði í þessu samhengi, spá sem minnst í þessu og vona það besta. Það besta í þessu tilviki er orðið hjá mér að losna við þennan jólasvein frá klúbbnum með A pósti og manni er nánast sama hver kaupir í staðinn, hann verður líklega ekki verri og svona alveg án þekkingar á fótbolta. Það myndi allavega alls ekki skemma fyrir ef við fengjum í alvörunni prins og helst þyrfti hann að mæta á Anfield á hvítum hesti. En þar sem Prinsinn var á Anfield með Gillett um daginn er óhætt að draga þá ályktun að eitthvað aðeins meira sé í gangi nú heldur en vanalega.

Þessar fréttir hafa auðvitað sett Gillett heilmikið í fréttir og auðvitað lesum við meira um eigendur Liverpool heldur en leikmenn sem er einmitt alls ekkert pirrandi.

Reyndar hafa félagarnir í Spirit of Shankly lengi verið með herferð gegn könunum og fara ekki leynt með að vilja losna við þá. Um daginn birtu þeir grein sem vakið hefur töluverða athygli þar sem meðlimur SOS á að hafa átt stuttan fund með Gillett er hann kom til Liverpool borgar í vikunni.

Ég trúi þessu viðtali nú mjög mátulega en ef þetta átti sér stað þá geri  ég fastlega ráð fyrir og vona að hann hafi verið fullur þegar þessi fundur átti sér stað. Þetta er allavega ekki mjög trúverðugt dæmi en nokkuð áhugavert þar sem SOS standa alveg við þetta og ég hélt að þetta væru nokkuð stór og serious samtök.

Um skuldir klúbbsins:

Gillett:

“The club had £40-80m debt when we bought it, but no earnings.” “The debt on the club today is very sound”.

Þetta stangast auðvitað gríðarlega á við allar fréttir sem segja að skuldir klúbbsins séu mjög miklar og allt of mikill partur af kökunni fari í það að borga upp lánið sem þeir tóku til að kaupa klúbbinn!!!  Nýji Rick Parry var reyndar í ágætu viðtali á Echo um daginn þar sem hann fór yfir þetta og reyndi að draga úr áhyggjum aðdáenda af skuldum klúbbsins. En hvað sem fjármálunum líður þá held ég nú að skludir klúbbsins séu vel rúmlega 40-80m núna og enn hefur ekki svo mikið sem skófla farið ofan í jörðina til að byggja völlinn sem byrja átti á innan við 60 dögum eftir að kanarnir keyptu klúbbinn.

.

Nýr völlur

Talandi um nýja völlinn þá hafði Gillett þetta að segja samkvæmt SOS um það brotna loforð sitt um að hafa ekki byrjað á vellinum 60 dögum eftir að þeir keyptu klúbbinn eins og þeir lofuðu á sínum tíma:

George Gillett:

“Whether you see the value is a different issue. Where have we lied? Where’s the lie, for Christ’s sake? In those 60 days, what happened to the world? I didn’t say that. Hicks was the one who said. 60 days? Bulls**t. That was not me. It’s wrong. I have never talked about that. I think that what happened was that Hicks was convinced we were going to start to move dirt on the foundations within a 60-day period. In the period of time, the world credit market collapsed and he had big egg on his face, not living up to what we said. I don’t talk about absolute dates when we’re talking about credit markets.”

Þetta hljómar eins og Liverpool spjall milli mín og Baldvins vinar míns á svona ellefta bjór! En hvort sem þetta er satt hjá SOS eða ekki þá hafði Gilli (ekki Tommi) þetta að segja í sínu fyrsta blaðaviðtali:

Tommi & Jenni

Og þetta er ennþá að koma í bakið á þeim + mjög margt annað.

Annars þá er þessi grein ansi áhugaverð hjá Spirit of Shankly og ég mæli með að menn lesi þetta alveg niður hafi þeir áhuga.

AMEN

Ég nenni ekki að velta mér mikið meira upp úr þessu og held nú að þessi tali af meira viti.

Það sem ég vil fara losna við úr fjölmiðlum á bretlandi er nafnið George Gillett og Tom Hicks, ég fer að fá útbrot við að heyra á þá minnst.


46 Comments

  1. Hvað þyrfti mikinn pening á mánuði til að kaupa auglýsinguna og planta merki rauðu döflanna þarna upp?

  2. Flottur pistill ! Er algjörlega sammála því að þetta tímabil er alls ekki búið. Þetta lið á alveg helling inni og þetta mun smella saman á endanum. Spurningin er bara hvort það geri það nógu snemma.

  3. Að vera búnir að tapa 3 leikjum af 8 og vera ekki meira á eftir,þá segi ég að þetta er alls ekki búið,langt frá því

  4. Þessi liverpool-kop síða er vægast sagt hræðileg. Ein mesta anti-Rafa pro-G&T síða sem ég hef séð, ein greinin fjallar um hvernig þeir G&T félagar björguðu Liverpool…

  5. Flott grein Babu, er alveg sammála því að nú þurfa menn að spýta í lófana og hefja tímabilið af virkilegri hörku því við eigum mikið inni, mjög mikið inni. En smá input varðandi þetta tengt eigendunum og þessu sem kemur fram á þessari Liverpool-kop síðu.

    The Saudi Prince factor:

    Ég hef enga trú á öðru en að það séu 10 mínútur aflögu á heilum degi, þó svo að menn séu með gest með sér. Á flestum “stoppistöðvum” taka á móti þér starfsmenn sem kynna fyrir þér starfsemina á hverri starfsstöð og Gillett hefði því algjörlega tíma til þess að stoppa í 10 mínútur fyrir spjall við einhvern.

    Why would the interview take place at the academy?

    Af því að það voru skipulögð mótmæli þennan dag vegna komu Gillett á Anfield, Melwood og The Academy.

    Another related question: why would Gillett invite this particular guy to conduct an interview? How was it arranged? Did Gillett call him and say ‘hey, come down for an interview!’ Again, I don’t buy it:

    Mér finnst persónulega ekkert ólíklegt að viðkomandi aðili frá SOS hafi verið í mótmælendahópi fyrir utan The Academy og að Gillett hafi boðið honum að ræða við sig einslega frekar en fyrir framan fjöldann. Finnst það ekki út úr caracter hjá honum og tala þá af persónulegri reynslu.

    Why would he blatantly lie THREE TIMES about an issue that could be so easily proven? I just don’t believe it:

    Ég trúi því vel, hann hefur ekki verið þekktur fyrir það að fara með rétt mál hingað til, og þar sem upptökutæki hefur ekki verið á staðnum, þá hefur hann eflaust haldið að hann kæmist upp með þetta að þessu sinni, nema hann sé það gleyminn að hann hafi minnt annað.

    Gillett swore a couple of times during the interview:

    Hafandi prívat og persónulega átt samskipti við Gillett, þá er þetta algjörlega í takt við hvernig hann talar. Hann er enginn smooth talker og kom allavega oft með svona álíka orð í okkar samtali, sem var þó ekki neitt á mjög neikvæðum nótum.

    Transcribed from memory?:

    Þetta er sá þáttur sem ég set stærsta spurningamerkið við, en þá er ég að miða við sjálfan mig, því ég er ekki góður í að taka niður nótur, né er minni mitt upp á þá fiskistofna að ég gæti munað samræður in details.

    Frank McParland – a witness?:

    Mér finnst það nú ýta vel undir það að þetta samtal hafi átt sér stað, því Frank ætti að vera einfalt að ná í til að staðfesta þetta.

    Prívat og persónulega finnst mér þessi Liverpool-kop síða vera ein sú slakasta sem fjallar um félagið okkar á internetinu og er ég nánast aldrei sammála neinum sem þar skrifar, en það er reyndar bara ég. Ég hætti allavega að lesa hana fyrir all löngu síðan, alveg þar til Babu kom með þennan link hérna inn. Eftir að hafa lesið þessa transcript, þá sá ég alveg George litla fyrir mér, akkúrat eins og ég upplifði hann á sínum tíma.

    • Þessi liverpool-kop síða er vægast sagt hræðileg. Ein mesta anti-Rafa pro-G&T síða sem ég hef séð, ein greinin fjallar um hvernig þeir G&T félagar björguðu Liverpool…

    Ég hef ekki hundsvit á þessari síðu, hef örsjaldan rambað þarna inn, sá þessa grein á NewsNow og var frekar sammála þessu.
    Þetta er svo ólíklegt hjá SOS hópnum finnst mér að það nær ekki neinni átt. Þrátt fyrir að mörgum langi að þetta sé satt.

    Ég þarf allavega að heyra báðar hliðar áður en ég kaupi þetta ótrúlega viðtal og legg til að SSteinn bjalli nú í Gillett og fái þetta staðfest. (“,)

    Svo er auðvitað hægt að segja á móti að SOS síðan sé mjög anti G&H og pro Rafa.

  6. Aldrei skrifað hér áður en les alltaf. Bara eitt Liverpool er aldrei að fara ná alvöru árangri í vetur nema miðjan fari að standa sig. Lucas þarf að fara heim til Brasilíu, hann er bara ekki nógu góður. Það er alltaf verið að tala um að hann sé ungur og eigi að fá séns – eigi eftir að verða betri. Núna er búið að vera segja þetta í 3 ár og nú ættu menn að sjá að hann verður bara ekkert betri. Hann er orðinn 22ja ára (verður meira að segja 23ja í byrjun jan). Án þess að ég sé neinn aðdáandi Ronney þá er hann bara 2 árum eldri og ekki var sífellt verið að tala um að hann þyrfti bara meiri tíma fyrir 2 árum. Sættum okkur við þetta og viðurkennum bara að Lucas Leiva er ekki nógu góður fyrir þetta lið.

    Annað, Mascherano er heldur ekki nógu góður. Maðurinn getur varla gefið sendingar sem eru lengri en 5m og er oftar en ekki með ranga ákvarðanatöku þegar hann er með boltann. Hann er ekki með nógu góða boltameðferð og á góða leiki allt of sjaldan.

    Hvað var eiginlega Rafa að spá í að kaupa einhvern meiðslapésa fyrir nánast 20m sem getur svo ekki byrjað að spila fyrr en í lok okt / byrjun nóv. Það verða þá kannski 3 mánuðir liðnir af móti þegar maðurinn getur spilað fyrsta leik. Þar til þá erum við að væflast með Lucas/Masch á miðjunni úti að skíta í hverjum leik eftir öðrum.

    Carra hefur gert frábæra hluti með Lpool undanfarin ár og er án efa eitt mesta legend sem liðið mun eignast. En það breytir því ekki að maðurinn er búinn að vera HÖRMULEGUR það sem af er tímabili, nóg að sjá síðasta leik til að sjá hversu slakur hann var. Ég vona innilega að Agger fari að ná sér almennilega af meiðslum og verði hent í byrjunarliðið á kostnað Carra en ekki Skrtel.

    Og það fer hrikalega í taugarnar á mér að við eigum engan almennilegan sóknarmann á bekknum. Jújú Ngog er allt í lagi en berum bekkinn okkar saman við bekkinn á öðrum topp 6 liðum og þá sér maður að þetta er algjör hörmung.

    Já ég gleymdi einu, Babel má líka fara. Hann er búinn að fá fullt af tækifærum en yfirleitt þegar hann fær þau klúðrar hann þeim. Frekar fyrirséður leikmaður að taka á fyrir varnarmenn, miklar líkur á því að hann reyni að fara fram hjá þér með því að ýta boltanum utanfótar hægra meginn við þig – varnarmaður þarf bara að stíga eitt skref og maður er stopp.

    Jæja búinn að fá smá útrás fyrir pirring á liðinu 🙂

  7. Þvílík innkoma með fyrsta póst Sævar, við verðum líklegast að sætta okkur við fall niður um deild á þessu tímabili 🙂

  8. Já, þvílík innkoma hjá Sævari. Ég hins vegar gafst upp á lestrinum eftir nokkur orð þegar ég sá að kommentið voru einhverjar 30 línur og engin greinaskil !

  9. Ég sé ekki ástæðu til að gera grín af Sævari. Hann er að segja margt af viti og ég er sammála honum í mörgu ! Það vill oft vera að menn séu blindir á það að Lucas, Babel og fleiri eru ekki að standa sig eins og maður myndi vilja og þeir eiga að geta. Svo kannski geta þeir ekki meir, hver veit 🙂

  10. Held að það sé enginn að gera grín að Sævari þannig lagað, eins og hann sagði sjálfur þá var hann að fá útrás fyrir pirring 🙂
    En ég er eins og þú Haukur alveg sammála mörgu hjá honum, auðvitað er eðlilegt að hafa efasemdir gagnvart Lucas og Babel.
    Ekki kæmi mér á óvart að Babel fari í janúar og verð ég að segja að ég hálf vona það bara, leikmaður sem skælis svona aftur og aftur um að hann vilji fara á lán eitthvað má bara eiga sig mín vegna.
    Nú bind ég miklar vonir við Aquaman og vona bara að hann standist ekki bara álagið vegna meiðsla heldur eru ansi margir farnir að horfa til hans í von um að bjarga miðjunni okkar frá þessari meðalmennsku sem sést hefur of mikið til undanfarið.

  11. Sævar róaðu þig aðeins. Ef við höldum svona áfram endum við með rúmlega 70 stig sem ætti að nægja í top 4 og við erum ekki enn með okkar sterkasta lið. Við þurfum bara að vona að við rífum okkur upp og komust nær tppsætinu

  12. Góður póstur hjá Sævari það er margt rétt sem hann segir,án þess að ég ættli að fara eitthvað nánar út í það,ég bara nenni því ekki:)

  13. Elías Hrafn, af hverju er það pottþétt?
    Hann gæti eflaust orðið topp maður hjá litlu félagi en hann verður aldrei “einn af þessum stóru”.

  14. Og já ég setti alveg greinarskil í póstið, er ekki fáviti 🙂 En það hefur greinilega ekki skilað sér.

    Þetta var nú ekki ætlað sem eitthvað svartsýnisböl enda margt mjög gott í liðinu núna t.d. meiri sóknartilburðir frá bakvörðum heldur en oft áður og liðið hefur verið að “slátra” minni liðunum sem voru oft að enda sem jafnteflisleikir í fyrra.

    Annars áfram Liverpool!

  15. Halló halló, ég var að detta inn í U21 leik hjá Enska landsliðinu á netinu. Missti af byrjuninni svo ég var að velta því fyrir mér hvort einhver gæti sagt mér hvort það sé einhver Liverpool leikmaður í liðinu?

  16. Veit ekki um enska liðið en Krisztian Nemeth var að tryggja Ungverjum áframhaldandi keppni í undir 20 ára HM áðan, með tveimur mörkum gegn Ítölum. Leikurinn fór 3-2 eftir framlengingu og fjögur rauð spjöld fóru á loft.

  17. Ég sá reyndar ekki þann leik en er ekki Martin Kelly eini leikmaðurinn sem er í U21 árs liðinu ?? Frekar dapurlegt ef svo er en staðreynd engu að síður. En ég veit svosum ekkert hvort að ástandið þér eitthvað mikið betra hjá öðrum toppliðum á Englandi. Við eigum svo einhverja leikmenn í öðrum landsliðum þannig að það er ekki eins og ungliðastarfið sé alveg glatað. En betur má gera ef duga skal ekki rétt ??

  18. Var einmitt að horfa á sama leik og Helgi J #20. Nemeth að skora 2 og fiskaði víti sem gaf fyrsta markið. Mæli með að þið kíkið á leik Ungverja og Ghana eftir helgi í undanúrslitum HM U-20. Sýnt á Eurosport.

  19. Ég var að lesa í sænsku blaði áðan að Agger eigi að vera í byrjunarliði dana í kvöld á móti svíum. Fyrir þá sem ekki vita það þá er þetta úrslitaleikur fyrir svíana og þeir verða að vinna og munu gera allt sem í þeirra valdi stendur til að vinna þennann leik og Zlatan sem er búinn að skora grimmt fyrir Barcelona er heitur. það sem ég er að reyna að koma að er að ég held að Agger sé ekki tilbúinn í svona leik þar sem allt er undir og hann gæti í versta falli slasast aftur. En svo er það náttúrulega líka möguleiki að hann spili vel og haldi Zlatan niðri ,og ef honum tekst það á hann að mínu mati að fara beint inn í byrjunarlið Liverpool.

  20. Gera hann af heiðursfélaga á Man Utd leiknum 25 okt við hátíðlega athöfn á Players fyrir leik. Ekki spurning.

  21. Gerrard tekinn út af á móti úkraínu, líklega meiddur…. æðislegt 🙁

  22. Hélt um lærið þegar hann kom útaf, aftantil samkvæmt fyrstu tíðindum….

  23. Frábært….meiriháttar andsk%& Hel&&” djö%$% landsleikjahlé!

  24. Er sammála Sævari góð innkoma hjá honum sagði bara sannleikan. Miðjan er skelfileg og Guð hjálpi okkur ef Gerard verður lengi frá.

  25. Samkvæmt lfc.tv þá var dagurinn að öllu leiti ánægjulegur fyrir leikmenn okkar (ekkert minnst á að Gerrard hafi meiðst) en Glen Johnson spilaði allann leikinn en Englendingar töpuðu 1-0 fyrir Ukraínu.

    Agger spilaði allann leikinn gegn Svíum og er kominn á lokamót HM og ekki er að heyra annað en að hann sé bara kominn í stand sem eru auðvitað frábærar fréttir fyrir okkur 🙂

    Skrtel og félagar frá Slovakiu töpuðu fyrir Slóvenum 2-0 en við gleðjumst auðvitað yfir því að hann ætti að vera til í næsta slag fyrir okkur.

    Reina stóð á milli stanganna fyrir Spán sem hafa ekki tapað leik í sínum riðli, en í dag unnu Spánverjar Armena 2-1, frekar tæpur sigur verð ég að segja en 9 sigrar í 9 leikjum hjá Evrópumeisturunum eru staðreynd.
    Torres spilaði í 54 mín og ætti því að vera ferskur eftir helgina og Riera var á bekknum og kom ekkert við sögu.

    Yossi Benayoun var fyrirliði Ísraela í dag og leiddi sína menn til sigurs gegn Moldóvu 3-1, Yossi heldur áfram að standa sig 🙂

    Og að lokum má geta þess að drengurinn með gullnu lokkana Dirk Kuyt var í byrjunarliði Hollendinga í vináttuleik gegn Ástralíu (eins fáránlegt það nú er að fara þangað í vináttu leik) en honum var skipt útaf eftir 51 mín af engum öðrum en Ryan Babel en sá ku einnig leika fyrir Liverpool 🙂

    Bara gaman 🙂

  26. tja… var að birtast á Marca:
    Torres and Iniesta, ‘touched’
    On the other hand, Fernando Torres and Andres Iniesta ended the clash with Armenia with discomfort. The Liverpool player (the English team is upset about the permanence of nine) has sore adductors of the right leg, while Barca player ended with minor discomfort in the area of injury that has just overcome.

    Henry Winter var einnig að twittera um þetta, hann er staddur í Úkraínu, en hann er blaðamaður.

    svo ég klári einnig tekið af ynwa:
    Mail is reporting that Kuyt went off injured for Holland and that he had already missed training because of an ankle knock.

    Það GETUR ekki talist eðlilegt ef Torres er meiddur, hann meiddist í öllum landsliðsferðum í fyrra nema 1. Væri hriiiikalegt ef hann er meiddur

    ps. afhverju eru menn sem voru tæpir fyrir látnir spila, sátu hjá í æfingu í vikunni fyrir ,,þýðingarlausann´´ leik

  27. Ég sá dani vinna svía í tvinu og Agger stóð sig vel og þurfti stundum virkilega að taka á því þegar Zlatan og Henke sóttu að dönsku vörninni og einu sinni lenti hann í því að vera sparkaður niður ,en hann var fljótur að harka það af sér. Hann virðist því orðinn heill af meiðslonum en var greinilega orðinn þreyttur í restina,hann var líka næstum þvi búinn að skora eftir fríspark, en hann var frammi í öllum hornum og fríspörkum sem danir fengu og þá er hann stundum líklegur til að skora,sem er meira en maður getur sagt um Skrtel og Carra sem báðir tveir geta ekki skorað þó þeir fengju þúsund sjénsa.
    Ég vil því sjá Agger í hjarta varnarinnar hjá LFC í næsta leik,af því að hann er besti hafsentinn sem klúbburinn hefur.

  28. Vá hvað mig hlakkar til að fá Agger til baka og vonandi að hann fái nokkra leiki í byrjunarliðinu, mér er alveg sama hvort að Skrtel eða Carra verði með honum. En ömurlegar fréttir að Kuyt, Gerrard og Torres hafi allir farið meiddir af velli.

  29. Ég er bara ekki alveg að trúa þessum fréttum að þeir hafi allir meiðst, held að þetta sé það sem við Íslendingar þekkjum sem Eiðs Smára syndromið 🙂
    Það er í það minnsta ekkert minnst á þetta á lif.tv, og ég ætla ekki að panikka neitt fyrr en þessi meiðsla orðrómur er staðfestur þar.

  30. Vá hvað róðurinn verður þungur hjá okkur mönnum ef Torres, Gerrard og Kuyt eru allir meiddir og spila jafnvel ekki næsta leik eða leiki. Við erum því miður ekki með nógu sterka og mikla breidd til að bjarga okkur án þeirra og ekki með nógu góða leikmenn til þess því miður. Aldrei skal maður samt afskrifa liðið og leikmenn þó svo að þetta verði mjög svo erfitt. Ef Aquilani verður kominn af stað má búast við því að hann spili kannski síðustu 15-20 mínúturnar á móti Sunderland (ef leikurinn er að vinnast) en hann þarf klárlega leikæfingu. Vonandi er þetta bara Gróa á Leiti sem er að stríða okkur en ekki haldbærar staðreyndir.

  31. Mig vantar Liverpool leik. Ég gjörsamelga fyrirlít þessi landsleikjahlé. Mér finnst eins og það séu nokkur ár frá því ég bölvaði sjónvarpinu á meðan ég horfði á mína menn í liverpool spila fótbolta. Bara svona deila þessu með ykkur strákar mínir.

Auglýsingar á Kop.is

Meiðslamál