Auglýsingar á Kop.is

Það hefur verið frekar langur aðdragandi að þessu en nú er komið að því að við ætlum loksins að byrja að selja auglýsingar á Kop.is.

Eins og ég sagði hefur þetta verið frekar lengi í bígerð hjá okkur eigendum síðunnar. Í upphafi ætluðum við að keyra þetta af stað strax en svo hefur þetta frestast tvisvar. Fyrst vegna annríkis hjá okkur félögunum og svo í seinna skiptið, og þá talsvert löng frestun, vegna bankahrunsins í fyrra. Þeir möguleikar sem voru uppi á borðinu við bankahrunið einfaldlega hurfu og það var ljóst í okkar huga að við yrðum að leyfa þjóðfélaginu aðeins að jafna sig áður en við settum þetta mál aftur á dagskrá.

Nú er hins vegar komið að því. Eins og kemur fram á upplýsingasíðu fyrir auglýsingar á Kop.is (sjá hér til hægri) eru skrifaðar að meðaltali tvær færslur á þessa síðu á dag og fær hún um 2.400 heimsóknir daglega, sem gerir hana að einni vinsælustu og víðlesnustu bloggsíðu landsins. Af þessu erum við gífurlega stoltir og sjáum því ekkert til fyrirstöðu að það ætti að vera gott tækifæri fyrir auglýsendur að nýta sér þessa stöðu okkar á meðal íslenskra bloggara.

Við eigendurnir höfum aldrei rekið þessa síðu til að græða á henni. Síðan er rúmlega fimm ára gömul og höfum við allan tímann lagt út fyrir kostnaði reksturs síðunnar úr eigin vasa. Okkar helsta markmið með því að selja auglýsingar á síðuna er einfaldlega það að ná inn fyrir kostnaði svo að síðan geti „rekið sig sjálf“ eins og sagt er. Þetta teljum við að sé raunhæfur möguleiki með því einu að bjóða upp á mjög ódýran og sanngjarnan birtingarkost fyrir auglýsendur.

Verð á auglýsingu á Kop.is er **krónur 10.000 á mánuði**, en þó bjóðum við upp á afslátt ef teknir eru fleiri en einn mánuður í einu. Þeir sem vilja hafa samband og ræða mögulegt samstarf eða fá frekari upplýsingar geta haft samband við Kristján Atla á netfanginu kristjanatli@gmail.com.

Með kveðju,
Einar Örn Einarsson og Kristján Atli Ragnarsson
stofnendur, eigendur og ritstjórar Kop.is.

Aquilani að verða leikfær

Blessað landsleikjahléð…