Carling Cup

Eftir úrslit gærdagsins er ljóst að í næstu umferð keppninnar verða 13 úrvalsdeildarlið í 16 liða úrslitum keppninnar. Öll stóru fjögur komust áfram og því ekki úr vegi að skoða aðeins hvernig áherslurnar virðast líta út, hafa þær breyst?

Stóru fjögur

Þar virðast Liverpool, United og Chelsea setja liðin upp svipað. Varamenn aðalliðsins eru í lykilhlutverkum, en leikmönnum unglingaliðanna hefur fækkað. Kyrgiakos, Spearing og N’Gog hjá okkur, Brown, Nani og Owen hjá United, Belletti, Mikel og Kalou hjá Chelsea eru nöfnin sem munu fá leiki þarna auk annarra bekkjarhitara og leikmanna sem eru að koma úr meiðslum. Arsenal virðast ætla að halda í það að láta unglingaliðsleikmenn fá sénsinn, þó reyndar Senderos og Silvestre hafi verið hafsentaparið í gær. Mér finnst LFC og United hafa styrkt sínar áherslur en Chelsea veikt. Arsenal halda sig við sínar.

Hjá öllum þessum liðum má reikna með frekari áherslu á keppnina ef þau komast í gegnum 16 liða úrslit, því 8 liða og undanúrslit keppninnar fara fram í Meistaradeildarhléinu.

Fjögur næstu

Ég met Aston Villa, Everton, Tottenham og Man City í þeim hópi. Öll þessi lið settu upp sterk lið í leikjum vikunnar. City sitt allra sterkasta en hin létu fáa “lykilvaramenn” fá byrjunarleiki í bland við byrjunarliðið. Enda fóru þau öll örugglega áfram, utan Man City sem lenti í basli með sterkt Fulham-lið. Mörg hver þessara liða hafa stillt upp veikari liðum í keppninni hingað til, sér í lagi Villa og City. Því met ég það þannig að þessi lið leggi meiri áherslu á keppnina en áður.

Slakari úrvalsdeildarliðin

Þau fimm sem fylla þrettán liða hópinn eru Stoke, Portsmouth, Sunderland, Bolton og Blackburn. Öll þessi lið stilltu upp sterkum liðum í vikunni og þar liggur töluverð breyting. Undanfarin ár hafa mörg hver þessara liða gefið frat í þessa keppni, en sjá nú ástæðu til að reyna að komast langt og lyfta brúnum aðdáenda sinna með góðri bikarferð. Auðvitað eru enn lið sem gefa frat í keppnina, í vikunni var það Hull og í síðustu umferð Wigan. En að mínu viti er mun meiri áhersla á keppnina hjá veikari liðum deildarinnar en áður.

Lið úr neðri deildum

Verða einungis þrjú í hattinum, Scunthorpe og Peterboro sem slógu út önnur neðrideildarlið og einu úrvalsdeildarliðabanarnir, Barnsley sem slógu Burnley út. Neðri deildarliðin stilltu upp í 2. og 3.umferð sínum byrjunarliðum og oft á tíðum hefur það skilað 6 – 10 liðum í 16 liða úrslit. Ekki nú. Það finnst mér vera skýr merki þess að meiri áhersla er lögð á keppnina hjá liðum efstu deildar og nú um sinn virðist ekki líklegt að við sjáum neðrideildarlið í undanúrslitum eða úrslitum.

Niðurstaðan?

Mín niðurstaða er sú að meiri áhersla er lögð á þessa keppni almennt en áður hefur verið. Veikari liðin í úrvalsdeildinni sjá aðgöngumiðann í Evrópudeildina (gömlu UEFA cup) sem gulrót og þar sem leikmannahópar stærri liðanna stækka stöðugt er minna um unga, reynslulausa menn í byrjunarliðum þeirra. Það eru jú oft þeir sem frjósa á stöðum eins og Elland Road og Oakwell eða Turf Moor og tapa gegn minni spámönnum.

Liverpool er sigursælasta lið keppninnar og margar góðar minningar þaðan. Ég held að það skipti töluverðu máli fyrir okkur hvern við fáum í næstu umferð. Í þessari keppni höfum við undanfarin ár fengið erfiða útileiki á t.d. Stamford Bridge og White Hart Lane þar sem áherslurnar á varamenn og unglinga hafa ekki dugað til sigurs. Ef við komumst áfram þá er leikið í desember og janúar og alveg viðbúið að stóru kanónurnar verði þá settar til að koma liðinu á Wembley.

Í viðtalinu við Carra eftir Leedsleikinn benti hann á að enginn Liverpoolmaður hefði spilað með liðinu úrslitaleik á Wembley og mikið hungur væri að ná því (allir síðustu titlar hafa unnist í Cardiff) að komast á þjóðarleikvanginn í fyrsta sinn síðan 1996. Það verður því gaman að sjá hver framvindan verður, í bikarahallæri undanfarinna ára þigg ég alveg að sjá bikarinn með handföngunum þremur aftur heima hjá sér!

16 Comments

  1. Skemmtileg lesning, ég vona að við sleppum við þessi stærstu sjö lið svo að við getum haldið áfram að nota “fringe players”.

    Var ekki bara sæti í Evrópu deildinni í boði fyrir sigurvegara FA Cup frekar en Carling Cup eða er ég að rugla?

  2. Á Englandi eru bikarmeistarar beggja keppnanna settir ofar deildarárangri þegar kemur að sætum í Evrópudeildinni.

  3. Sigurvegarinn úr Carling cup fer í undankeppni Evrópudeildarinnar. Sigurvegari FA cup fer beint í Evrópudeildina.

  4. Scums.Utd notaði 8 varaliðsmenn í 18 manna hóp en Liverpool aðeins 2 Spearing og Plessiss ( sem kom ekki einu sinni inná. Scums skipti inná 2 af 5 varaliðsmönnum af bekknum, fyrir utan Macheda, Welbeck og Gibson sem þegar voru inná.
    Þannig að áherslurnar eru ekki svipaðar hjá Liverpool og Scums.

    Saknaði þess að sjá ekki Pacheco, Eccleston, Dalla Valle, Bruna, Vitor Flora og fleiri, á bekknum eða fá séns í liðinu. Til hvers var t.d. Reina á bekknum ? Benítez treystir engan veginn þessum ungu leikmönnum sínum.
    Eða eru þeir bara ekki nógu góðir ?

    Áfram Liverpool

  5. Góð yfirferð Maggi. Ég vona bara að við fáum heimaleik næst, hverjir svo sem mótherjarnir verða. Okkar menn hafa verið óheppnir með bikardrætti í keppnunum tveimur undanfarin 3-4 ár og sjaldan fengið heimaleik, sér í lagi þegar þeir dragast gegn stærri liðunum.

    Að því sögðu, þá fáum við alveg örugglega Chelsea á Stamford Bridge. Bara af því að maður hatar lífið ekki nóg fyrir.

  6. Mig grunar að við fáum að hefna okkar á Tottenham eða Aston Villa, eða ætti ég frekar að segja ég vona? 🙂

  7. Bogi H í númer 5. Skoðum aðeins.

    Markmenn: Cavalieri v Kuzczak.
    Mjög svipaðir

    Varnarmenn: Degen – Carra – Kyrgiakos – Dossena gegn Neville – Evans – Brown – Fabio. Jafnast út finnst mér, þó United sé með reynslubolta úr Englandi og einn ungan þá jafnast finnst mér Fabio og Degen út.

    Hryggjarsúla: Masch – Aurelio – Spearing við Carrick – Gibson og Owen. Ungur og efnilegur miðjumaður og reynslubolti að koma úr meiðslum hjá báðum liðum. Masch og Owen svo leikmenn sem hægt er að telja “ása”, þó ólíkir séu.

    Sóknarvængir og senter: Riera – Babel – N’Gog við Nani – Wellbeck – Macheda. Þarna liggur munurinn fyrst og síðast í því að Riera er inni í stað yngri manns. Ég held samt að hugmyndin hafi verið að nota þennan leik til að koma honum í betra stand, í stað þess kannski að sjá yngri mann.

    Varamannabekkurinn er hins vegar sterkari hjá okkur. Klárt. En ég held líka, eins og ég lýsi í pistlinum að okkar maður er farinn að leggja meira upp úr því að sigra leiki í þessari keppni, t.d. erfiða útileiki á Elland Road en að láta unga menn, sem eiga töluvert í land að komast í aðalliðið fá mínútur. United hefur ekki sömu þörf á að ná langt í keppninni, nýbúnir að vinna hana og fóru í úrslit í fyrra. Á sama hátt mátti reikna með að þeir væru að fara að mæta slöku Úrvalsdeildarliði sem legði mikið upp úr að spila fótbolta, á móti því að við spiluðum við líkamlega sterkt lið úr physical deild á erfiðum útivelli. Er t.d. ekki viss um að það passi fyrir Pacheco, þó ég hefði viljað sjá hann kannski á bekknum. Munurinn á varamannabekkjunum lá í eðli andstæðingsins og því að Fergie var sama þó hann dytti út í þessari umferð. En byrjunarliðin eru svipuð, fer ekki ofan af því.

    En ég viðurkenni alveg að ég gladdist yfir því að við værum að leggja uppúr þessum leik og vinna hann. Fer ekki ofan af því að við höfum gengið of langt í þessari keppni áður, með því að láta menn sem aldrei áttu séns á að verða alvöru leikmenn LFC fá einhverjar marklausar mínútur.

    Palletta, Whitbread, Potter, Partridge, Raven, Peltier, Guthrie, Hobbs. Allt leikmenn Rafa í þessari keppni í tapleikjum hennar. Til hvers að nota leikmenn sem alveg ljóst er að voru ekki í hans plönum?

    Í fyrra breytti hann til, en þá töpuðum við fyrir hörkusterku liði Spurs sem svo unnu keppnina.

    Í leik sem þeir einir léku sem voru mögulegir leikmenn LFC í huga Rafa. Eins og á Elland Road, þar voru fullt af varamönnum í byrjunarliðinu auk tveggja lykilmanna sem hafa átt arfaslaka byrjun á tímabilinu. Það hefði ekki verið liðinu til góða að taka af þeim mínútur, t.d. fyrir Flora, Ecclestone eða Della Valle sem varla eru farnir að spila fyrir varaliðið.

    Ef við fáum heimaleik gegn t.d. Birmingham er ég sannfærður að við sjáum Pacheco á bekknum og Ayala í hafsentinum.

  8. Á fotbolti.net er talað um að skjöl hafi lekið út er sýni að Liverpool (Benitez)muni aðeins fá að eyða að hámarki 20 millj. pundum á ári í leikmannakaup og launahækkanir til ársins 2014. Ef þetta er rétt þá erum við ekki að sigla inn í bjarta framtíð. Ljóst ef þetta er rétt að við verðum að losna við kanana og fá fjársterkari aðila.

    Enginn að tala um að fara að henda peningum út vinstri hægri Real style en við verðum að vera samkeppnisfærir um bestu bitana hverju sinni ef við ætlum að vera í titilbaráttu í sterkustu deild heims!.

    Ef þetta er rétt þá endar sennilega með því að liðið verður skipað Degen og bræðrum hans og ættingjum.

  9. 9# Davíð: Það er ljóst að svona fréttum þarf að taka með miklum fyrirvara. Þetta er líklega e-r ein síða sem birtir þetta upphaflega og svo birta allar hinar slúðursíðurnar þetta og vísa í upphaflegu heimildina.

    Ég hef enga trú á að það sé nokkuð til í þessu.

  10. Nr. 9 & 10 : Hér er upphaflega greinin…
    http://www.independent.co.uk/sport/football/premier-league/liverpools-16320m-buying-cap-revealed-in-club-report-1792189.html

    Annars finnst mér, varðandi Leeds leikinn, Rafa einfaldlega hafa sýnt Leedsurum verðskuldaða virðingu á Elland Road með uppstillingu sinni og skiptingum. Ég skemmti mér yfir leiknum… Snodgrass vakti athygli mína með því að valta yfir Dossena sem hlýtur að fara í janúar (lán eða sala) vilji hann eiga séns á HM sæti því hann fær ekki mikinn spilatíma hjá Liverpool með svona framistöðu…

    Kv. Sæmund

  11. “Ég met Aston Villa, Everton, Tottenham og Man City í þeim hópi. Öll þessi lið settu upp sterk lið í leikjum vikunnar. “

    Þú greinilega skoðaðir ekkert liðin, eða þá þekkir ekki sterkustu lið þessara liða.

  12. magggi.

    Everton:

    Howard, Hibbert, Heitinga, Distin, Baines, Osman, Bilayletdinov, Gosling, Rodwell, Yakubu og Jo. Vissulega ekki Cahill, en fyrir utan Gosling og Rodwell allt leikmenn sem munu verða lykilmenn í liði þeirra í vetur.

    Aston Villa:

    Guzan, Beye, Shorey, Collins, Cuellar, Petrov, Gardner, Milner, Delph, Carew og Agbonlahor. Þarna Delph sá eini sem ekki verður reglulega í byrjunarliði vetrarins.

    Tottenham:

    Gomes, Hutton, Bale, Dawson, Huddlestone, Bentley, Palacios, Jenas, Dos Santos, Crouch, Defoe. Dos Santos sá sem ekki leikur marga leiki. Hinir allir partur af mörgum byrjunarliðum.

    Manchester City:
    Given, Zabaleta, Bridge, Lescott, Toure, Wright-Phillips, De Jong, Ireland, Barry, Tevez, Bellamy. Sama byrjunarlið og á OT, nema Zabaleta í stað Richards, sem er afar skiljanlegt eftir frammistöðu hans þar.

    Ég kíkti á þessi lið áður en ég skrifaði þessa grein #14 magggi og ef þú lest greinina tala ég ekki um sterkustu liðin, þó í tilvikum Manchester City ég gæti sagt það klárlega.

    Ef þér finnst þessi lið ekki sterk, þá er það þitt mat en ekki mitt.

  13. Everton: Ok, næstum því þeirra sterkasta lið. Þeir hvíldu samt, Cahill, sem er hugsanlega þeirra sterkasti maður.

    Aston Villa: Ha? Delph eini sem verður ekki í byrjunarliðinu? Brad Guzan er semsagt markvörður númer eitt hjá Villa? Ekki Friedel? Svo eru Gardner og Shorey squad players hjá þeim.

    Tottenham: sterkasta liðið þeirra er: gomes, corluka, ekotto, king, woodgate, lennon, jenas, palacios, modric, defoe, keane. 4 af þessum leikmönnum byrjuðu leikinn.

    Man City ég gef þér.

    Þú mátt líka ekki bera saman t.d. Everton sem voru að spila við Hull og Liverpool sem mætti Leeds. Hull er úrvalsdeildarlið á meðan Leeds er neðradeildarlið.

Leeds 0 – Liverpool 1

The Tomkins Times