Leeds 0 – Liverpool 1

Okkar menn fóru yfir á Elland Road í Leeds í kvöld og unnu **0-1 útisigur** í bráðfjörugum leik í þriðju umferð enska Deildarbikarsins.

Rafa gerði níu breytingar frá því um helgina og stillti upp eftirfarandi liði í kvöld:

Cavalieri

Degen – Carragher – Kyrgiakos – Dossena

Spearing – Mascherano – Aurelio

Babel – Ngog – Riera

**Bekkur:** Reina, Skrtel (inn f. Babel), Johnson (inn f. Degen), Plessis, Voronin, Torres, Gerrard (inn f. Ngog).

Þetta var frekar fjörugur leikur, án þess þó að það væri mikið um opin marktækifæri. Það var húsfyllir á Elland Road og mikil stemning í stúkunum sem skilaði sér í baráttuglöðu Leeds-liði á vellinum. Þeir seldu sig dýrt og fengu besta færið í jöfnum fyrri hálfleik. Það var einnig umdeilt atvik, þar sem sendingin kom innfyrir vörn okkar manna um miðjan hálfleikinn og þar voru þeir Beckford og Becchio báðir naumlega réttstæðir. Beckford stökk á boltann á markteigslínunni og náði að pota honum framhjá Cavalieri og í átt að marklínunni þar sem hann virtist ætla að rúlla inn. Þá kom Becchio aðvífandi og sparkaði boltanum í tómt markið og var réttilega dæmdur rangstæður. Upphaflega urðu Leedsarar á vellinum og á pöllunum brjálaðir því markið virtist vera löglegt, en við endursýningu sást greinilega að Beckford potar í boltann framhjá Cavalieri sem gerir Becchio rangstæðan og markið því réttilega dæmt af.

Staðan í hálfleik því 0-0 og jafnræðið hélt áfram í seinni hálfleik. Það fór þó svo að okkar menn skoruðu eina mark leiksins þegar um 25 mínútur voru eftir. Þá barst boltinn til Javier Mascherano fyrir utan teig Leeds eftir hornspyrnu. Hann skaut að marki en boltinn barst innfyrir á **David Ngog** sem var fljótur að átta sig, lagði boltann vel fyrir sig og smellti honum svo í fjærhornið, óverjandi fyrir markvörð Leeds. Heimamenn reyndu að pressa eftir þetta og var Beckford í tvígang nálægt því að skora en á endanum innbyrtu okkar menn nokkuð þægilegan sigur í þessum leik.

**Maður leiksins:** Þetta var nokkuð meðal frammistaða hjá liðinu. Enginn sem átti neitt sérstaklega slæman leik, þótt mér þætti Albert Riera ekki beint slá í gegn á vinstri vængnum. Beckford var líflegur frammi hjá Leeds og lét Kyrgiakos og Carra hafa fyrir kaupinu sínu en þeir höndluðu það ágætlega, á meðan Degen og Dossena voru líflegir á köflum fram á við. Okkar menn stjórnuðu miðjunni og var gaman að sjá Jay Spearing í baráttunni í 90 mínútur. En menn leiksins voru að mínu mati þeir **David Ngog** og **Ryan Babel**. Þeir leiddu sóknarlínuna okkar vel í dag, Babel olli Leedsurum miklum erfiðleikum með hraða sínum og tækni og Ngog gerði það sem til er ætlast af framherja, leiddi línuna, var síógnandi og skoraði sigurmarkið. Flottur leikur hjá þeim félögum.

Næsti leikur er um helgina á Anfield gegn Hull. Við skuldum þeim sigur í þessari viðureign.

47 Comments

 1. Leeds betri aðilinn í þessum leik! Hörkulið en 4.umferð er aðalatriðið!

 2. Spearing hörkuefni, Leedsarar fínt fótboltalið og þessi Beckford á að vera ofar í deildum en í 1.deild (gamla 2.deild) stríddi varnarmönnum í allt kvöld!

 3. Það var vitað að þetta yrði erfiður leikur gegn baráttuglöðu liði. Fínn 0-1 sigur og liðið komið áfram. Nú er bara gíra sig upp fyrir leikinn gegn Hull og taka 3 stig um helgina.

 4. Fínn leikur og alveg ljóst að menn sem þurftu að fá blóð á tennurnar, Kyrgiakos, N’Gog, Spearing, Cavalieri og Degen fengu það.

  Fannst þetta Leedslið flott fótboltalið, en líka líkamlega sterkt. Verð illa svikinn ef það flýgur ekki upp um deild.

  Og ég er að fara að fíla þennan Kyrgiakos, shit hvað hann minnir mig á góðvin minn, Arsenalistann Mark Duffield. Þessi leikmaður á eftir að nýtast okkur, hvað ætli hann hafi skallað marga bolta í burtu í kvöld, þó hann væri kominn með krampa.

  Auk þeirra tveggja sem meistari Kristján telur upp vill ég svo bæta Spearing við. Hann var fínn fannst mér, sér í lagi undir senternum.

  Flott kvöld.

 5. Þetta mark sem var dæmt af, er ekki alveg að átta mig á þessu.
  Hefði það verið dæmt af ef Becchio hefði sleppt því að sparka í boltann?
  Ég hef reyndar ekki séð nógu góðar myndir af þessu en mér sýndist boltinn vera kominn alveg inn þegar hann sparkar í hann, s.s. Beckford átti markið. Er þá rétt að dæma það af?

 6. Boltinn var kominn inn þegar Becchio sparkar. Hinsvegar sást það í endursýningu að hægri fótur Beckford var fyrir innan þegar boltinn er skallaður og var hann því réttilega dæmdur rangstæður.

 7. Beckford snerti samt aldrei boltann svo Becchio hefði ekki getað verið rangur.

 8. Ég hef ekki verið aðdáandi Degen en þegar maður gagnrýnir menn fyrir að vera slakir þá er um að gera að hrósa þegar vel er gert. Fannst hann mjög góður í kvöld og fær plús í kladdann frá mér !

 9. Simple, markið var ólöglegt, hefði verið löglegt ef seinni Leedsarinn hefði látið hann fara. Sá fyrri nær klárlega að pikka honum framhjá Diego, sést á endursýningunni hinum megin við markið og boltinn var aldrei kominn allur yfir þegar hinn sparkar honum inn.

  Ekki sammála Magga og KAR með Spearing, fannst hann ferlega slakur, eins og reyndar flestir í liðinu. Það voru örfáir aðilar sem komust frá þessum leik með einhverri sæmd, Degen (já, pælið í því), Aurelio og N’gog. Flestir aðrir voru gjörsamlega á helvítis hælunum. Masch átti klárlega að fá rautt spjald, þvílík heimska og aðrir voru úti á þaki. Reyndar fannst mér Cavalieri vera í lagi miðað við hvernig menn voru fyrir framan hann.

  Ég var þokkalega rólegur yfir leiknum, en ég viðurkenni það fúslega að ég SNAPPAÐI hreinlega þegar Rafa tók þá fáránlegu ákvörðun að skipta N’gog út fyrir Gerrard undir lok leiksins. Til hvers í ósköpunum? Í stöðunni 0-1? Til hvers er Voronin eiginlega? Af hverju er hann ekki settur inn í svona leiki? Til hvers að hætta Gerrard inná í leik gegn 12.deildar liði (eða eitthvað álíka) sem er að spila sinn úrslitaleik? Ein tækling og næstu leikir búnir! Og svo var Torres líka kominn úr treyjunni? Ég spyr, á hvaða fokkings lyfjum var Rafa? Það er ekki eins og að þetta hafi verið undanúrslit Meistaradeildarinnar.

  Ég var svo hrikalega fáránlega brjálaður yfir þessu að ég nánast hætti að horfa á leikinn. Rafa fær skömm í kladdann þarna, algjörlega.

  En það er ljóst að menn eins og Kyrgiakos, Dossena, Spearing, Riera, Babel, Carragher og Mascherano voru ekki að sýna fram á það í þessum leik að þeir eigi heimtingu á sæti í byrjunarliði Liverpool FC. Carra og Masch eiga kannski inni fyrir því, þar sem þeir hafa átt ófáa góða leiki þar sem þeir hafa sýnt fram á ágæti sitt, en hinir…

 10. Ásættanleg úrslit en mér finnst að Rafa hefi mátt hafa mun óreyndara lið inná vellinum í kvöld og leyfa 1-2 kjúllum að koma inná með blóðþorstan sem þarf gegn neðrideildarliðum. Fannst alveg óþarfi að nota G,T&J. Þessi keppni á að vera keppni unglinganna og kannski 5-6 manna sem eru mest útúr liðinu, má þar nefna Cavalieri, Voronin, Dossena, Degen og Kyrgiakos. Afhverju ekki að leyfa Della Valle eða Pacheco að spreyta sig ásamt Derby og Kelly. Ánægður þó með Spearing, hann barðist. Gegn þessum minni liðum þarf nefnilega enga Torres og Gerrard heldur leikmenn sem eru til að rífa af sér fótinn fyrir málstaðinn og þar held ég að fyrrnefndur Spearing, Derby, Kelly og fleiri séu réttu mennirnir.

 11. Hjartanlega sammála SSteini, var ósáttur við Ngog/Gerrard skiptinguna. Ég hefði viljað sjá Ngog klára leikinn og reyndar Degen líka (að því gefnu að þeir hafi ekki kennt sér meins). Kjörið tækifæri til að leyfa þessum mönnum að fá 90 mínútur, ef það var nauðsynlegt að skipta þeim útaf þá hefði maður fremur viljað að menn eins og Voronin spreyttu sig.

 12. Ég er ekki sammála því að Babel hafi verið lélegur. Fannst hann leggja sig meira fram í þessum leik heldur en ég hef séð hann gera í ca 2 ár fyrir klúbbinn okkar. Hann lét engan komast upp með að ýta sér og var meira að segja til í smá fighting undir lok leiksins.
  Við áttum hinsvegar slakasta vinstri væng SÖGUNNAR í fyrri hálfleiknum. Riera fannst mér virkilega slakur og Dossena er bara SKELFILEGUR KNATTSPYRNUMAÐUR, segi ég og skrifa. Ég ætla ekkert að skafa af því, hann getur ekkert varnarlega og hann getur ekkert sóknarlega. Til hvers er þessi maður á Anfield og hvað í ósköpunum sér Rafa svona við hann ??? Það var verið að fífla manninn fram og til baka og hann leit bara alls ekki vel út sem leikmaður í Úrvalsdeildarliði. Degen var fínn á köflum en það er eitthvað við þetta sjálfumglaða glott á gæjanum sem fer í taugarnar á mér. Og finnst einhverjum öðrum hann hlaupa eins og Siggi Sveins í handboltanum ??? Eins og hann sé ekki með nein liðamót í hnjánum?
  Forza Liverpool

 13. Ég sá fyrri hálfleik og þar vöktu Babel og Degen mesta athygli. Babel er að spila betur en áður og Degen er laginn og lunkinn leikmaður. Spearing er sprækur og ferlega duglegur og spurning hvort hann taki ekki sömu töflur og Kuyt og þá er aldrei að vita hvað gerist í framhaldinu!

 14. Ekki sammála SSteinn með Babel og Aurelio.

  Mér fannst Babel flottur kvöld, ásamt Ngog og Degen stóð sig líka ágætlega. Er því sammála KAR með vali á manni leiksins. Ég tók ekki mikið eftir Aurelio. Cavalieri stóð sig líka fínt, ekkert uppá hann að klaga. Mér sýnist Carra líka ekki veita af leikæfingunni – hann hefði nú getað gefið víti og þess vegna rautt spjald strax á 1. mínútu.

  Er sammála með Mascherano – hann átti bara að fá rautt og algjört rugl hjá honum. Hann er samt valinn maður leiksins á liverpool síðunni.

 15. Ég var mjög sáttur við hraðabreytingarnar hjá Babel. Fór oft auðveldlega framhjá bakverðinum, eins og hann gerði á móti West Ham í sigurmarkinu. Ég held að hann sé að koma mjög sterkur inn í hægri kant.

 16. Veit ekki með ykkur en ég skammaðist mín þegar Liverpool var að tefja með boltan við hornfána gegn 2. deildar liði! Svo er Rafa allt allt allt of varnarsinnaður. Getur verið að varnkárni hans og áhættufælni hafi kostað Lfc deildartitla síðustu ár?

 17. Mér finnst Morgunblaðið algjör brandari í frásögn sinni frá þessum leik. Titillinn er “Liverpool marði Leeds á Elland Road” og í greininni stendur “og Fernando Torres kom inn á 84”.
  Greinin er um alla leikina, en lengsti útdrátturinn er úr Liverpool leiknum. Er samt ekki hægt að biðja um að þessir menn eða konur sem skrifa þetta horfi á leikina, eða allavega skoði “virta” enska fjölmiðla til þess að “lána” upplýsingar?
  Það þyrfti nú eiginlega að fá einhvern fjölmiðlafræðing til þess að analysere heilt season af fréttaflutningi, því ég skil ekki alveg hvernig 2-0 sigur Arsenal á WBA telst sem stórsigur allt í einu, þegar þeir voru manni fleiri frá 37 mínútu. Hmmmm?????

 18. Númer 20 …

  …. Getur verið að varnkárni hans og áhættufælni hafi kostað Lfc deildartitla síðustu ár?

  Einfalt svar nei ! Hvar hefur þú verið síðustu 2 – 3 ár ? Ég veit ekki betur en að Liverpool hafi skorað fleiri mörk en öll önnur ensk lið undanfarin tvö tímabil , það er LOKSINS farið að vera skemmtilegt að horfa á Liverpool leiki.

  Það eru ótrúlegustu hlutir sem menn láta út úr sér, bara afsakið en ég á ekki orð, þvílík steypa.

 19. Þetta var nú ekki ýkja spennandi í gær. En fínn sigur á erfiðum útivelli gegn liði sem var mjög gírað upp fyrir leikinn.

  Eitt í þessu sem að sænsku þulirnir bentu á. Þeir sögðu að Degen hefði byrjað tvo leiki hjá okkur í fyrra og meiðst í þeim báðum. Er það því mögulegt að leikurinn í gær sé fyrsti leikurinn sem að Degen byrjar hjá okkur og meiðist ekki í? Veit þetta einhver?

  (p.s. Ég eyddi út kommentum sem voru að koma inn og fjalla um ManU-ManCity leikinn. Það var umræða um hann í Liverpool-West Ham þræðinu og það er nóg (auk þess sem þetta var bara copy-paste af einhverju United síðu með bull emaili).

 20. Númer 20

  Hvað er að því að tefja þegar það eru tvær mínútur eftir ? Það er það eina skynsamlega í stöðunni þegar staðan er 1-0, sama hver andstæðingurinn er.

  Annars líst mér vel á N´Gog. Hann hefur verið sprækur þegar hann kemur inn í deildinni og var flottur í gær. Degen og Babel voru líka flottir..

 21. Ég vil sjá meira af Spearing og þá i staðinn fyrir Lucas! Hann er með góðar sendingar og er hörku duglegur.

 22. 22 Eyþór

  Það var þessvegna sem ég setti spurningamerki á spurninguna svo menn gætu velt þessu fyrir sér. En gaman að þú hafir svar við öllu og setjir bara eitt nei á þetta og málið dautt. Jú jú auðvitað hefur Lfc skorað fullt af mörkum síðustu ár en stundum höfum við misst ALLT OF MARGA leiki í jafntefli vegna þess að uppstillingin hafi ekki verið nógu sóknardjörf. Þess vegna set ég spuringamerki á hvort varnarstefna Rafa hafi mögulega kostað okkur eitthvað.
  Langar t.d. að benda á í leiknum á móti Leeds var spilað með einn framherja (N’gog) og síðan er Babel tekin út af og þriðji mivörðurinn bætt inn.
  Það á bara að keyra yfir svona lið sem önnur minni lið í úrvalsdeild og taka smá áhættu í sóknarleiknum. Kannski fækkar þessum jafnteflum við það?

  kv Steypa.

 23. Það er bara voðalega lítið að velta fyrir sér að mínu mati…

  Eini raunhæfi möguleiki okkar á titli síðan Rafa tók við var 08/09 þar sem við töpuðum 2 leikjum en gerðum of mörg jafntefli. Það má kanski segja að við hefðum getað gert betur í þessum jafnteflisleikjum, en þar kemur á móti að við unnum ótrúlega marga leiki eftir að hafa lent undir, oftar en ekki eftir að hafa lent tveimur mörkum undir, og það náðist ekki með spilamennsku sem einkenndist af varfærni. Allt síðasta tímabil einkenndist meira og minna af “skora fleiri en andstæðingurinn” spilamennsku, enda markatalan eftir því….

  Árin þar á undan vorum við að spila á mönnum eins og Biscan, Traore, Nunez ofl ofl, áttum bara ekki raunhæfan möguleika á titlinum, enda vorum við 10-30 stigum á eftir meisturunum ár eftir ár.

  Þess vegna set ég nei á þetta, og málið er dautt að mínu mati. Við höfum átt eitt tímabil þar sem við vorum meistara-kandítatar, það var jafnframt tímabilið þar sem liðið var titlað “come-back Kings” og við slógum persónulegt met í markaskorun. Ég vil frekar kenna fjarveru G&T um að hafa misst af titlinum frekar en einhverju öðru, en menn hafa víst mismunandi skoðanir á því. Þegar liðið á ekki sinn besta leik og það vantar match-winnera í þokkabót, við eigum 20+ skot á markið en náum samt sem áður ekki að vinna, þá er lítið hægt að segja hvað fór úrskeiðis, sbr Stoke á Anfield 2008 þegar mark Gerrard var dæmt af í upphafi leiks (ranglega)

  Það er alltaf kostir og gallar við hverja leikaðferð sem þú spilar. Ef þú verður áhættumeiri þá áttu á hættu að opna svæði aftar á vellinum fyrir andstæðinginn en skorar e.t.v. fleiri mörk. Að sama skapi ef þú spilar varfærnislega þá skoraru e.t.v. minna og færð færri mörk á þig. 77 mörk skoruð 08/09 á móti 68 hjá þeim sem næst koma segir sitt.

 24. Sigur, það er það sem skiptir máli.

  Liverpool varaliðið var einu orði sagt slappt enda ekki við öðru að búast. Flestir í hópnum ekki spilað saman nema kanski á melwood.
  Á móti liði sem spila saman í hverri viku.

  EN GÓÐUR SIGUR.

  CARRA
  Mér finnst Carra búinn að vera slappur í leik liverpool uppá síðkastið og gær var enginn undartekning.
  Ég skil að smá leiti afhverju Rafa heldur honum inná hann er eini maðurinn sem getur haldið utan um varnarlínuna og öskra á menn ef þeir gera mistök.
  Það fer samt að koma sá tími að við þurfum að skipta honum út þar sem hann er að verða sá maður sem mest þyrfti að öskra á.

 25. 28 Eyþór.

  Jú mikið til í þessu hjá þér Eyþór.
  En náðum við ekki að losa okkur við Biscan og Traore fyrr en í hitti fyrra? Mig minnir að Biscan hafi farið eftir tímabilið 04/05. Svo er þetta líka sjötta árið hans Rafa með Lfc þannig það er ekki hægt að draga upp syndir Gerard endalaust.
  Mér finnst bara skondið eins og í leiknum á móti Leeds að Liverpool klárar leikinn með þrjá miðverði og þrjá bakverði (Carragher – Kyrgiakos – Skrtel – Dossena – Aurelio – Johnson)

 26. eg held ad tad seu ekki morg ar i ad vid sjaum Leeds aftur i efstu deild, og eg vaeri til i ad kaupa beckford.

 27. Sá því miður ekki leikinn enda virðist ég ekki hafa misst af miklu en ekki oft sem maður sér Steina svona svakalega pirraðan, það er það eina sem vekur mína athygli í þessum kommentum. Annars sigur ágætt fyrir þessa ungu drengi sem fá þá kannski 1-2 leiki í viðbót á tímabilinu. Annars er ég sammála steina í flestu sem hann segir.

 28. var ánægðastur með Degen í gær… hann átti marga góða spretti og koma bara virkilega á óvart!

 29. Degen kom mér skemmtilega á óvart og átti góða spretti innás milli og einnig var Babel frískur og hann ösrkaði á menn þarna og vonandi að þetta kveiki aðeins í honum. Mér fannst Spearing vera slakur í gær og hvað var þetta með Mascherano ? Fávitaskapur í þessum manni og hann átti að fjúka af vellinum enda sýndist mér þetta ekki vera neitt sérstaklega óvart. N’Gog fannst mér virkilega góður og ég er viss um það að hann sé að læra helling af Torres, hvernig hann hleypur að varnarmönnunum og treður sér í söðu með boltann í löppunum og ég er viss um að þarna sé framtíðarmaður í LFC.

 30. Sammála þér Fói með það, það var mjög skrítið – en hvað slær mig mest er hvað þessir leikmenn úr aðalliðinu eru hrikalega slappir…

  Riera, Babel, Carra, Masch, Dossena voru flestir að gera í brækunar í gær.
  Spearing, Kyrgiakos sýndu ekki neitt nema þá hversvegna þeir eru mest allan tímann á tréverkinu.

  Að Dossena skuli vera Ítalskur landsliðsmaður er alveg hreint ótrúlegt. Hann leit út eins og skólastrákur gegn 1 deildar liði.
  Riera getur bara haldið áfram að kenna undirbúningstímabilinu eða álfukeppninni um, þvílík hörmung.

  Það var einfaldlega enginn þarna inná vellinum sem var tilbúin að stíga upp, við vorum einfaldlega heppnir að fara í gegn.
  En ég vil helst ekki eyða tíma eða orku í deildarbikarinn, sérstaklega ekki þegar við fórum í gegn. Skulum bara horfa á það þannig að það getur varla versna…

 31. Enn og aftur erum ég og SSteinn ósammála með Spearing fannst hann komast fínt frá þessum leik mikil barátta og góðar sendingar og fannst hann sanna það alveg að hann eigi skilið að fá að koma inná í einhverjar mínútur í úrvalsdeildinni í vetur svona eins og Lucas í fyrra.

  Annars fannst mér flestir frekar slappir í kvöld að frátöldum Ngog, Babel, Degen og Spearing.
  Fannst t.d. Dossena hrikalegur og Kyrgiagos og Cavalieri voru ekki að heilla mig.
  Annars var þetta bara fínn sigur gegn góðu Leeds liði.

 32. Sælir félagar

  Tek undir flest hjá SSteini. Masca lét eins og fífl og átti að fjúka útaf og mér fannst ekki mikið koma til Spearing þó dugnaður hans verði ekki dreginn í efa. Það sem mér fannst gleðilegast við þennan leik var frammistaða Babel. Hann var grimmur og duglegur og gaf hvergi eftir fram síðustu mínútuna sem hann lék. Loksins sýndi hann einhvern vilja til að sýna og nota hæfileika sín, hraðann og tæknina ásamt frábærri skotgetu. Haldi hann áfram á þessari braut mun hann verða fastur byrjunarliðsmaður á hægri kanti áður en langt um líður.

  Það er nú þannig.

  YNWA

 33. Sælir
  Manni finnst eins og Mascehrano sé eitthvað pirraður. Kannski vildi hann svona rosalega mikið fara til Barcelona að sitja á tréverkinu þar eða eitthvað. Þetta var allavega ekki leikmanninum sæmandi að gera svona og heppni að hann fékk ekki rautt. Annars skemmtilegr umræður. er sammála Fóa í vissum hlutum en líka sammála Eyþór í mörgu. 🙂

 34. Ég get bara ekki séð Spearing verða að “frábærum” fótboltamanni. Hann er einfaldlega of lítill í þetta hlutverk að mínu mati og ef hann á ekki eftir að verað “frábær” knattspyrnumaður þá á hann ekki að spila fyrir Liverpool FC. Annars hef ég alltaf verið nokkuð ánægður með hann og hans baráttu en þessi leikur minnti mig óneytanlega á varaliðsleik. Miklar kílingar og bolti spilaður eins og uppúr 1980. Babel barðist mjög vel og virtist áhugasamur og að mínu mati 1 af 3 okkar bestu í leiknum. En ég skil ekki af hverju voronin fái ekki að spila??? alveg óskiljanlegt. Rafa ætlar e.t.v að nota hann á laugardaginn næsta á móti Hull ???? kæmi mér ekki á óvart. YNWA

 35. Gaman að því að í gær MARÐI Liverpool sigur á Leeds skv. fyrirsögnum á mbl.is og visir.is, man utd vann í kvöld wolves á heimavelli með sömu markatölu enn samt sem áður var því ekki slegið upp í fyrirsögn að þeir höfðu marið sigur af þessum sömu miðlum:)

 36. @41 Hef nú ekkert gaman af því að verja önnur lið en gæti ástæðan verið að united voru að keppa á móti pl liði og voru einum færri í klukkutíma en Liverpool var á móti league 1 liði?

 37. Að mínu mati er það alveg á hreinu að leikur okkar var erfiðari en það sem United tók þátt í á sínum velli í gær.

  Leeds var á 150% keyrslu fyrir framan sína áhorfendur og hefðu stútað áhugalitlu liði Wolves í innbyrðis viðureign þar. Einungis Kevin Doyle vildi vinna leikinn fyrir þá gulklæddu í gær.

 38. það er alveg hægt að merja lið hvort sem þau eru league1 eða úrvalsdeildarlið 🙂

  Ég held samt að það hafi verið meira challenge að fara á útivöll með brjáluðum stuðningsmönnum Leeds. Neðrideildarlið leggja allt í sölurnar þegar þau fá svona bikarleiki á heimavelli fyrir framan sína stuðningsmenn gegn risunum. Held að þetta hafi verið erfiðara verkefni heldur en að spila í “stofunni heima” gegn Úlfunum. Sitt sýnist væntanlega hverjum um það, skiptir svo sem ekki öllu máli.

  Veit e-r hvað er ca. langt í Aquilani, er e-ð útlit fyrir að hann verði klár í slaginn eftir næsta landsleikjahlé?

 39. Mér fannst Spearing standa sig bara ágætlega. Han átti nokkrar góðar langar stungusendingar og er greinilega með gott auga fyrir spili. Einnig fanns mér góð barátta í honum. Vil að hann fái fleiri sénsa, og vonandi að við förum sem lengst í þessari keppni þar sem þetta verður sennilega sá vettvangur sem hann fær flest sín tækifæri.

  Svo líst mér mjög vel á Beckford hjá Leeds. Greinilega öflugur framherji þar á ferð, enda er tölfræðin hjá honum fáránlega góð. Spurning um að kaupa þennan strák bara. Hann kostar örugglega ekki mikið, og gæti mögulega þróast upp í góðan PL framherja undir stjórn Rafa. Einnig er hann enskur sem er mikill kostur útaf þessum nýju reglum.

 40. 42 …

  Voru úrslitin ekki nákvæmlega þau sömu, þó svo að liðin hafi verið að spila í sinhvori deildinni ? Má nota orðið “rétt marði” um lið í neðri deild en ekki í efri deild?

  Þá sé ég fyrir mér að ef Liverpool hefði verið að spila við lið í úrvalsdeildinni, þá “Vann Liverpool sigur” ..ef liðið hefði verið í 1.deildinni “þá hefðum við haft betur” …þar sem liðið var í 2.deildinni “þá rétt mörðum við sigur” …. og ef liðið hefði verið enn neðan “þá hefðum við sjálfsagt grísað á þetta…
  Við erum heppnir að hafa ekki verið að spila við Hvöt á Blönduósi, því þá hefðum við hreinlega verið sagðir hafa tapað þessum fjandans leik. !!!

  Rugl fréttaflutningur bara…

  Insjallah…Carl Berg

 41. Ástæðan fyrir þessum mismunandi fréttaflutningi gæti verið sú að það búast allir við að Liverpool vinni alla sína leiki létt – enda besta lið í heimi.

  Ég hlakka alla vega til að vinna, þó ekki nema rétt merja lið eins og Ch#$%& og Scum í október.

Liðið komið – Aurelio byrjar

Carling Cup