Leeds Utd á morgun

Eftir góðan útisigur á West Ham um helgina – fjórða sigur liðsins í röð – er komið að Deildarbikarkeppninni þetta árið. Á morgun hefja okkar leik í þeirri keppni gegn stórliðinu **Leeds United** á Elland Road í Leeds, í þriðju umferð.

Fyrst af öllu er komið að því að ég játi aðeins, eða öllu heldur komi út úr skápnum. Þegar ég var tólf ára, ’92, eignaðist ég Leeds-treyju (sem þið sjáið Gary Mac klæðast hér til hliðar) frá meistaraári þeirra og hélt mikið upp á þá treyju fram eftir unglingsárunum. Síðan þá hef ég alltaf haft eitt herbergi í hjartanu frátekið fyrir þetta lið og þótt ég sé Liverpool-maður alla leið í gegn verð ég að viðurkenna að ef ég ætti mér „annað lið“ eins og sumum þykir til siðs að eiga, þá væri Leeds United mitt annað lið í enska boltanum. Ég hef fylgst í laumi með þeim síðustu árin og verið mjög áhugasamur um þá uppbyggingu sem nú stendur yfir þar á bæ.

Sögu Leeds-liðsins þekkja flestir og nýlega sögu þeirra þekkja allir. Þetta er eitt af stórliðum enskrar knattspyrnu, var gífurlega sigursælt á sjöunda áratug síðustu aldar og kom svo aftur á tíunda áratugnum með stæl eftir nokkurra ára lægð, unnu titilinn ’92 og voru með eitt af stórliðum Úrvalsdeildarinnar frá þeim tíma og allt þar til fjárhagur liðsins fór í rúst, þeir urðu að losa sig við alla toppleikmenn sína til að halda lífi og féllu úr Úrvalsdeildinni vorið 2004. Eftir tvö ár þar sem þeir virtust ætla að rétta sig við í þeirri deild (töpuðu m.a. í umspili um sæti í Úrvalsdeild vorið 2006) tóku þeir þá óskiljanlegu ákvörðun að ráða Dennis Wise sem stjóra liðsins haustið 2006 og hann skilaði þeim beint niður í Coca-Cola League One, eða þriðju efstu deild Englands, vorið 2007.

Hann gerði það þó með hjálp frekar ósanngjarnra stigavíta vorið 2007 sem innsigluðu fall þeirra (klúbburinn var þá kominn í eigu Ken Bates, fyrrum eiganda Chelsea, en var samt refsað fyrir gjörðir fyrri eigenda). Haustið 2007 byrjuðu Leedsarar í þriðju efstu deild með fimmtán stig í mínus sem hindraði þá í að komast upp úr deildinni það árið. Á síðasta ári urðu svo þjálfaraskipti á miðju tímabili og tók þá Simon Grayson við af Gary nokkrum McAllister sem hafði valdið vonbrigðum með liðið. Grayson skilaði liðinu í umspil um sæti í Championship-deildinni en þar töpuðu þeir á Wembley gegn Doncaster Rovers, frekar óvænt, og verða því að spila í þriðju efstu deild enn um sinn.

Nú í haust hefur hins vegar flest gengið Leedsurum í vil, loksins, og þeir eru efstir í League One eftir átta umferðir með 22 stig, eða sjö sigra og eitt jafntefli. Nú um síðustu helgi unnu þeir 4-1 heimasigur gegn Gillingham og virðast því ásamt Charlton Athletic ætla að vera í smá sérflokki og væntanlega berjast um sigur í þessari deild í vetur. Utan vallar virðast hlutirnir einnig vera á uppleið en nú í sumar ákvað bæjarráð Leeds að hjálpa klúbbnum að eignast aftur Thorp Arch æfingasvæðið sitt en þar er til húsa unglingaakademía Leeds sem hefur verið mjög dugleg að búa til toppleikmenn á enskan mælikvarða síðustu 10-15 árin. Það er því mikilvægt fyrir klúbbinn að hafa áfram aðstöðu þar og geta haldið áfram að þróa unga hæfileikamenn innan klúbbsins. Næsta skref skilst mér að sé að eignast Elland Road aftur en völlinn misstu þeir, eins og Thorp Arch-svæðið og aðrar eignir sínar, í hendur skuldara við hrunið mikla fyrir nokkrum árum.

Elland Road er þó enn sem endranær heimili Leeds-liðsins og það er þegar uppselt á leikinn á morgun. Það er fastlega búist við því að þangað mæti 37 þúsund manns, megn hverra verða brjálaðir Leedsarar sem ætla sér að njóta þessarar viðureignar því hún er þeirra stærsti leikur, og okkar menn þeirra frægustu mótherjar, síðan þeir féllu úr Úrvalsdeildinni 2004. Það er því hætt við að þessi leikur muni rifja upp gamlar minningar fyrir þá hvítklæddu en við vonum að þeir rifji ekki of vel upp, því okkar menn voru vanir að tapa á þessum velli í deildinni áður en Leeds-liðið hrundi.

Hvað leikmenn Leeds-liðsins varðar er þetta nokkuð þétt lið, vel skipulagt og spilandi hjá Grayson. Hann lætur þá spila blandaðan fótbolta, engar eintómar háloftaspyrnur til dæmis, og byggir hann á sterkri vörn og baráttuglaðri miðju. Sóknin er síðan í höndum þeirra Bradley Johnson, sem skoraði tvö mörk um helgina, og Jermaine Beckford sem var markahæsti maður í deildarkeppni á Englandi á síðasta tímabili, skoraði þá 34 mörk í öllum keppnum fyrir Leeds-liðið. Beckford hefur þegar skorað sex mörk í sjö deildarleikjum í vetur og það er ljóst að hann er svona sá leikmaður sem okkar menn þurfa helst að hafa áhyggjur af á morgun. Leeds-liðið er í dag klárlega of sterkt til að vera í þriðju efstu deild, ætti að mínu mati að vera svona miðsvæðis í efri hluta Championship-deildarinnar, en í Beckford hafa þeir leikmann sem er jafnvel betri en margir framherjar Úrvalsdeildarinnar. Ég hef horft á hann spila nokkrum sinnum og get sagt ykkur að ég myndi velja hann frekar en menn eins og Marlon Harewood, Craig Fagan, Henry Camara eða David Nugent í mitt lið, svo dæmi sé tekið um nokkra menn sem eru fastamenn í liðum í Úrvalsdeild.

Sem sagt, húsfyllir á Elland Road gegn baráttuglöðu liði og heldur betur grimmum markaskorarara. Hvað þá með okkar lið? Rafa Benítez hefur þegar gefið til kynna að hann muni nota hópinn sinn á morgun og þykir mér það vel. Þótt okkur langi mikið til að sjá liðið á Wembley í öðrum hvorum bikarúrslitaleiknum á næsta ári hljóta Úrvalsdeildin og Meistaradeildin að vera í forgangi og þar sem það er þétt leikið í þeim keppnum þessar vikurnar mun Benítez örugglega hvíla marga lykilmenn sem hafa spilað nær allar mínútur okkar í haust.

Ég spái því að menn eins og Reina, Johnson, Carragher, Insúa, Lucas, Mascherano, Gerrard, Kuyt og Torres muni fá hvíld og jafnvel sumir þeirra verði bara skildir eftir heima. Ég held að Rafa muni nota mennina fyrir utan byrjunarliðið og fylla upp í með ungum strákum og giska á eftirfarandi lið:

Cavalieri

Degen – Kyrgiakos – Skrtel – Dossena

Babel – Plessis – Spearing – Riera

Voronin – Ngog

Bekkur: Martin, Agger, Ayala, Aurelio, Pacheco, Gerrard, Benayoun.

Sem sagt, ágætis blanda af leikmönnum sem ættu að hafa næga reynslu til að geta klárað þennan leik og svo mönnum eins og Babel, Riera og Voronin sem ættu að vera hungraðir í að minna stjórann rækilega á sína getu fyrir næstu leiki í stóru keppnunum.

**Mín spá:** Ég spái hörkuleik þar sem Leedsarar selja sig dýrt til að ná í dýrmætan sigur. Okkar menn reynast þó sterkari á endanum og við vinnum 3-1 sigur. Beckford og Ngog skora báðir enda svipaðir leikmenn á velli.

30 Comments

 1. Ég er sammála liðinu, nema ég held að Aurelio byrji í staðinn fyrir Dossena. Það er held ég alveg rétt ákvörðun að hvíla lykilmenn í þessum leik, í ljósi þess að leikjaprógrammið um þessar mundir er rosalega þétt og erfiðir leikir framundan, sbr. Chelsea og meistaradeildin.
  Þessi leikur ætti að vinnast, en ekki endilega þægilega. Leeds eru með sterkara lið núna en hlutskipti þeirra gefur til kynna og því megum við ekki taka þennan leik sem gefnum. En margir þessarra “jaðarmanna” ættu að vera hungraðir í að sýna sig, og leikmenn eins og Babel og Voronin hafa átt góðar innkomur það sem af er tímabili og N’gog er alltaf hættulegur.
  Mín spá, 3-1 fyrir LFC í hörðum leik, Voronin og Babel skora báðir.

 2. Glæsileg upphitun. Verður spennandi leikur og ég held að Leeds verði erfiðir við að eiga. Spái því 1-1 jafntefli.

 3. Frábær upphitun og er ég sammála þér að Leeds er í duldu uppáhaldi hjá manni, ásamt Southampton og Nottingham Forest reyndar…. en ætla ekki að uppljóstra því frekar.

  Spái okkur 2-1 sigri í mjög erfiðum leik gegn liði sem er með sjálfstraustið í topp og vona ég að Leeds og Charlton skelli sér í Champions deildina á næsta ári og berjist um upspils sæti.

  En er Pacheco í hópnum á morgun?

 4. Flott upphitun meistari Kristján.

  Spái reyndar Ayala í liðinu og Skrtel hvíldan, Aurelio eða Lucas á miðjunni í stað Plessis. Það er hins vegar auðvitað vonlaust að reikna liðið út í svona leikjum…

  Ég held að við fáum að sjá þarna hvort bekkjarmennirnir okkar ráða við alvöru leiki, því þetta verður alvöru leikur á móti alvöru neðrideildarliði.

  Held þetta verði okkar drengjum mjög erfitt og við “skríðum” áfram, jafnvel eftir vító og allt!

 5. Fyrir þá sem vilja hita upp fyrir leikinn með Leeds-þema vil ég benda á snilldarræmuna The Damned United. Brian Clough og 44-daga stjórnartíð hans hjá Leeds gerð góð skil. Hérna er ræðan á fyrstu æfingunni:

  “Well, I might as well tell you now. You lot may all be internationals and have won all the domestic honours there are to win under Don Revie. But as far as I’m concerned, the first thing you can do for me is to chuck all your medals and all your caps and all your pots and all your pans into the biggest fucking dustbin you can find, because you’ve never won any of them fairly. You’ve done it all by bloody cheating.”

 6. Ég hálfskammast mín alltaf fyrir athugasemdir mínar um Kuyt fyrir ekki svo löngu síðan. Hróið er orðið að einum mikilvægasta leikmanni félagsins. Virðist helvíti góður náungi þar að auki.
  En nóg um það. Magnað þetta Leeds-dæmi eiginlega, þeir eru að fá fleiri áhorfendur á deildarleiki hjá sér gegn einhverjum sveitaliðum en mörg lið í úrvalsdeild eru að fá. Verður örugglega brjáluð stemning á morgun og sé ég fyrir mér markaleik. Hlakkar þó mest til að sjá gríska folann stíga á svið.

 7. Markaleikur – 5-4 sigur eftir að hafa komist í 4-1 og Leeds jafnað 4-4. Sigurmarkið á 86. mín. Markaskorarar eru Babel (2), Ngog, Aurelio og Gerrard, sem skorar fyrrnefnt sigurmark. Er þetta nógu nákvæmt?

 8. haldiði að Rafa vilji ekki hafa Torres á bekknum? gott að hafa matchwinner til vara ef Leedsararnir verða með einhver vandræði!?

 9. Flott upphitun og ég er sammála liðinu. Skemmtilegt líka að segja frá því að ég á eina Liverpool-treyju sem keypt var á Anfield (af vini mínum, sem var svo heppinn að komast þangað) og hún er merkt Gary Mac – ég held mjög mikið upp á þessa treyju og Gary er einn af mínum uppáhalds, þrátt fyrir skamma veru í Liverpool.

  Ég spái hins vegar 2:1 sigri okkar manna, þar sem Voronin sér um sigurmerkið um miðbik seinni hálfleiks (og já, by the way, Leeds kemst yfir á 17. mínútu, við jöfnum svo á 38. mínútu).

 10. Var að velta því fyrir mér hvort að það sé ekki einhver séns á að okkar maður verði í hóp í kvöld, Victor Pálsson?
  Er hann ekki að standa sig mjög vel með varaliðinu?

 11. Frábær upphitun KAR

  Ég er ekkert að farast út spenningi neitt yfir leiknum í kvöld en hinsvegar gæti ég trúað að öðrum fimm árum liðnum þá verði leikirnir við Leeds tveir á ári, jafnvel fyrr. Þetta er úrvalsdeildarklúbbur með úrvalsdeildar fan base og ég verð illa svikinn ef það verður ekki svakaleg læti frá heimamönnum í kvöld.

 12. Verður hrikalega spennandi að sjá Liverpool eiga við Leeds aftur allavega þótt að leikurinn sem slíkur sé kannski ekkert að vekja mikinn áhuga hjá manni. Ég held að KAR sé nokkuð nálægt lagi með byrjunarlið, annars veit maður ekkert hvað Rafa gerir. Ég spá 3 – 0 sigri Liverpool

  YNWA

 13. Já, varðandi #16, við fáum byrjunarliðið nánast alltaf frá lfc.tv – þeir voru einu sinni mjög seinir að setja það inn, en núna eru þeir afskaplega góðir í því að setja það eins fljótt og hægt er, þannig að þeir eru oftast á undan öðrum fjölmiðlum.

 14. Skýt á þetta lið:

          Cavalieri
  

  Degen – Carra – Kyrgiakos – Dossena

         Mascherano
  
      Spearing - Aurelio
  
     Babel - Ngog - Riera
  
 15. Átti að vera Agger í stað Carra

       Cavalieri
  

  Degen – Agger – Kyrgiakos – Dossena

   Mascherano
  

  Spearing – Aurelio

  Babel – Ngog – Riera

 16. Flott upphitun KAR. Svolítið skrítið að mæta Leeds við þessar aðstæður.

  En varðandi Plessis, mér finnst afar líklegt að hann sé í banni. Fékk beint rautt í síðasta varaliðsleik, og ef minnið svíkur mig ekki, þá virkar það líka í sjálfri deildinni. Væri fínt ef einhver gæti leiðrétt mig ef ég fer með rangt mál.

 17. Leedsarnir verða erfiðir er ég viss um. Vilja ábyggilega sýna að þeir séu ennþá lifandi. Leeds er náttúrulega lið sem á að vera í Premier og verður það innan fárra ára er ég viss um.
  Ógleymanlegur leikur árið 1991, sem var sýndur á gufunni, gegn Leeds. Liverpool vann 5-4 og var John Barnes ótrúlegur í leiknum, þvílíkur snillingur!!!
  http://www.youtube.com/watch?v=RmAo0uiarvA

 18. hæhæ kláru karlar og konur 🙂
  er einhverstaðar sem hægt er að horfa á leikinn í kvöld á netinu ??

 19. Úff, John Barnes var náttúrulega galdramaður með boltann, algjört augnayndi. Verst að hann hætti að spila sama tímabil og ég byrjaði að fylgjast með boltanum og þá var Internet og að sjá enska boltann ekkert fáranlega auðvelt.

 20. Vona að Plessis verði ekki með. Dauðlangar að sjá Pacheco eða jafnvel Viktor spila eitthvað.

 21. Númer 28, þetta er af physioroom.com er það ekki? Ekki bara beint að þér, en þessi síða er algjörlega fáránlega slök í sínum ágiskunum. Þeir vita yfirleitt ekki baun um þessa hluti. Agger er kominn í full training, og er búinn að vera í full training í nokkra daga. Aquilani er ekki á sama stað. Ef menn vilja vita um meiðsli leikmanna og hvenær þeir koma tilbaka, þá EKKI taka mark á þessari síðu, simple as that.

Ungt lið á Elland Road

Liðið komið – Aurelio byrjar