Liverpool 1 – Debrecen 0

Jæja jæja, okkar menn byrjuðu keppni í Meistaradeildinni í kvöld með sigri á ungversku meisturunum Debrecen.

Rafa stillti þessu svona upp:

Reina

Johnson – Carragher – Skrtel – Insúa

Lucas – Gerrard
Kuyt – Benayoun – Riera
Torres

Babel kom svo inn fyrir Riera, svo Mascherano inn fyrir Yossi og að lokum Aurelio fyrir Kuyt, aðallega til að rifja upp fyrir honum hvernig fótboltavöllur lítur út.

Ég nenni svo sem ekki að eyða miklu púðri í þetta. Liverpool voru miklu betra liðið í kvöld fyrir utan kannski svona 5 mínútna kafla í fyrri hálfleik. En þrátt fyrir það þá tókst okkar mönnum bara að skora eitt mark. Fernando Torres sýndi að hann var inná vellinum með því að taka vel á móti boltanum fyrir utan teiginn, lék framhjá varnarmanni og skaut föstu skoti, sem var varið en **Dirk Kuyt** fylgdi skotinu eftir og skoraði fínt mark.

Við hefðum átt að skora svona 5 mörk í viðbót, en okkar mönnum tókst einfaldlega ekki að pota boltanum inn. Og Debrecen hefðu getað jafnað einu sinni eða tvisvar. En sigurinn var klárlega verðskuldaður, þótt að ég hefði viljað sjá hann mun stærri. En ungverska liðið varðist fínt í þessum leik.

**Maður leiksins**: Það reyndi afskaplega lítið á vörnina og bakverðirnir voru ekki mikið að skipta sér af sókninni, fyrir utan 2-3 hlaup frá Johnson. Lucas var fínn á miðjunni, en fyrir framan þá bar afskaplega lítið á Torres og Benayoun. Meira kom útúr Riera, sem hefði átt að skora, og Kuyt – sem að skoraði mark.

En maður leiksins var **Steven Gerrard**. Hann var einfaldlega okkar besti og mest ógnandi leikmaður í kvöld og hann hefði átt að skora allavegana eitt mark í leiknum. Í hinum leiknum í riðlinum vann Lyon Fiorentina.

Næsti leikur er í London gegn West Ham á laugardaginn.

54 Comments

  1. 3 stig er það sem skiptir máli. Annars var þessi leikur álíka skemmtilegur og þáttur af Innlit/Útlit með Völu Matt

  2. Lucas bestur að mínu mati í tíðindalitlum leik þar sem helst bar til tíðinda að Riera sendi boltann með hægri á 63. mínútu.

    Og svo var rispan hans Benayoun flott.

  3. 2 “Lucas bestur að mínu mati í tíðindalitlum leik þar sem helst bar til tíðinda að Riera sendi boltann með hægri á 63. mínútu.”……hahaha.

    góður skyldusigur, hefðum auðveldlega átt að geta unnið þennan leik 4-0. Fannst ánægjulegt að sjá góða innkomu Babel þó stutt væri. Annars hefur maður séð skemmtilegri liverpool leiki en þennan.

    • Lucas bestur að mínu mati í tíðindalitlum leik þar sem helst bar til tíðinda að Riera sendi boltann með hægri á 63. mínútu

    Hvernig færðu það út? Mér fannst hann ansi oft “óheppinn” í dag og hreint ekki góður. Svo vill ég fá video sönnunargögn um að Riera sé með hægri fót.

  4. Lucas var ekki slakari en hver annar. Erfitt að pikka einhvern sem átti góðan leik. Ég kalla hins vegar eftir Torres…..menn eru að kvarta undan frammistöðu Lucasar en hvað er málið með Torres í byrjun vertíðar.
    Hann er ekki að fá mörg færi, ekki að skora mikið og hann kemur inná með hangandi haus í hvern leikinn á fætur öðrum.
    Gefa honum spark í rassinn eða láta hann byrja á bekknum einn og henda Babel fram. Liverpool þarf nauðsynlega á gamla Torres að halda sem skorar mörk og enginn varnarmaður á roð í.

  5. Eitthvað segir mér að Riera verði á séræfingu kl 7 í fyrramálið; “Hvernig á að skjóta FRAMHJÁ markmanni en ekki í hann”

    Kom sér í flott færi og leit vel út, en skotin voru hrikalega léleg og ótrúlega fyrirsjáanleg.

    Fyrir utan markaleysið var þetta fínn leikur, fínir einstaklingssprettir og flott samspil sem skilaði færum – en það vantaði algjörlega upp á slúttið.

  6. Ætlaði einmitt að ræða þátt Torresar í þessum leik. Sem ætti nú að vera fljót ræddur því hann var enginn. Hangandi haus, hoppar í skallabolta bara til að sýnast hoppa í hann og geta sagt ég reyndi…
    Held hann hefði gott af því að hvíla aðeins og vera uppi í stúku og hugsa sinn gang.
    Svo fannst mér alveg skelfilegt að sjá þegar Kuyt var kominn einn á einn inni í teig og ætlaði að sóla manninn og sólaði sjálfan sig og missti boltann…
    Það er bara ekki nógu traust að vera með Riera, Benna og Kuyt þarna fyrir aftan Torres. Eini maðurinn sem hugsanlega gæti gefið stungu inn á Torres er Benni. Það er allt of mikill stórkallabolti sem við erum að spila í dag.
    Lucas átti sennilega sinn óheppnasta dag og endaði með hangandi haus og hugsandi djöfulsins óheppni í mér. Gerrard er samur við sig, smá snerting inní teig og hann er kominn í skriðsund.
    Það var æðislegt að horfa á Barca hvernig þeir halda boltanum og hvernig miðjumennirnir sjá smugur í vörninni til að stinga inn fyrir…
    Jæja 3 stig og meistaradeildin byrjuð… wheee

  7. Ætla ekki mikið að pirra mig, þessi leikur er enn ein sönnun í mínum huga fyrir því hversu hrottaleg leiðindi riðlakeppni Meistaradeildarinnar er.

    Fullt af auðum sætum á Anfield og í mesta lagi meðalferð á mannskapnum. Svona leikur þar sem maður er með pirringshnút í maganum allan tímann. Kuyt fannst mér skelfilegur í holunni aftan við Torres og það var ein ástæða þess að “El Nino” fékk úr litlu að moða í tíðindalitlum leik þar sem Debreceni var með 9 manns í vörn allan tímann.

    Slakur leikur, hálfgerð tímasóun. Eins mikil og ætla að pirra sig á Lucas sem átti alveg eins leik og allir í kvöld, vann þó vel til baka og sópaði miðjuna vel upp.

  8. Þrjú stig … það er það sem ég tek út úr þessum leik. Afskaplega leiðinlegur leikur á að horfa, og ætli ég geti ekki verið sammála með Gerrard sem mann leiksins þó svo að ég hafi oft séð hann betri. Glen Johnson var fínn á köflum í fyrri hálfleik en datt algjörlega niður í þeim seinni. Fyrst við náðum að skora í lok fyrri hálfleiks hefði ég búist við að við myndum sækja fast og bæta í í seinni hálfleik – en reyndin varð önnur.

    Fúll yfir spjaldinu hjá Gerrard (fannst dómarinn hefði mátt sleppa því). Ánægður með stigin þrjú – það eru þau sem telja og skipta máli í þessum riðlum. Liverpool fer alveg örugglega uppúr riðlinum.

    Áfram Liverpool!

  9. Vaaaá smá off topic…
    manutd og chelski unnu bæði með einu marki í gær og þá var fyrirsögnin á fotbolti.net:
    “Man. United og Chelsea byrja bæði á sigrum”

    Liverpool og Arsenal unnu bæði með einu marki í kvöld og þá var fyrirsögnin svona:
    “Liverpool og Arsenal unnu nauma sigra”

    æjji sorry þetta virkar kannski lítið fyrir sumar en svona fer rosalega í taugarnar á mér.

  10. Jói II þetta er alltaf svona, scum og chel$ki gera alltaf vel. Var alveg að brjálast að hlusta á Gaupa fíbbl lýsa leiknum áðan, setti bara á mute 🙂

  11. Geisp! Leiðinlegur leikur en 3 stig, það er nóg. Við verðum búnir að gleyma þessum leiðindum þegar liðið verður komið í úrslitaleikinn 😉

  12. Tek undir þetta Jói, ég lét þetta allavega fara í taugarnar á mér líka.

    Og já Torres var ekki góður en hann gerði gæfumuninn í kvöld. Hann á stóran þátt í markinu sem færir okkur sigur, annars er maðurinn í gjörgæslu allan leikinn.

    Annars er lítið að segja um þennan leik. 3 stig í hús, flott mál.

  13. Sigurgeir: Mér finnst ekkert svo slæmt að hafa Benayun, Riera og Kuyt fyrir aftan Torres svona í ljósi þess að þeir eru með samtals 6 mörk í fyrstu 6 leikjum tímabilsins, og Torres með 3. Það er ekkert lélegur árangur.

  14. leiðindaleikur en 3 stig í höfn svo það er í lagi.
    Ekki get ég skilið Einar hvernig þú færð það út að Gerrald hafi verið
    maður leiksinns, hann var ömurlegur. Höfum líklega verið að horfa á sitt hvoran leikinn…

    áfram Liverpool

  15. Ef ég ætti að nefna mann leiksins þá mundi ég kjósa Carragher. Það fóru voða fáir framhjá honum í kvöld og flestar sendingar inní skallaði hann í burtu. Ég veit nú bara ekki hvernig leikurinn hefði farið ef hann hefði ekki verið inná.

    Annars gott að byrja á sigri.

  16. ,,Annars var þessi leikur álíka skemmtilegur og þáttur af Innlit/Útlit með Völu Matt”

    ,,þessi leikur er enn ein sönnun í mínum huga fyrir því hversu hrottaleg leiðindi riðlakeppni Meistaradeildarinnar er.”

    Sammála og sammála.

    Hefði nú alveg fyrirgefið Benitez að stilla upp einhverjum kjúklingum í leiknum í dag, burt séð frá því hver úrslitin hefðu verið. Ekki voru andstæðingarnir sterkir og kjúklingarnir hefðu nú væntanlega verið vitlausir í að sanna sig. Síðan er líka alltaf svo skemmtilegt að sjá ný andlit og hvernig þau passa inn í liðið.

    Tómu sætin fremst upp við hornfánana á Centenary Stand fannst mér leiðinleg. Eiginlega alveg hrikaleg. Ætli þessi sæti hafi einfaldlega ekki selst eða voru það jakkafatalakkarnir með fyrirtækjamiðana sem skrópuðu? Maður skyldi nú halda að fremstu sætin væru seld fyrst?

    Torres er umhugsanarefni en langt frá því að vera áhyggjuefni. Hann er orðinn rasstór. Er þetta hamborgarass eða er þetta ef til vill útuhugsað hjá Rafa? Ætli Torres sé hlaupandi upp Paco’s Hill dægrin löng til að styrkja rass og læri? Stækka skrefin og gera skriðþungan meiri? Gera hann öflugri með bakið í bolta? Auk þess hafa hraðabreytingarnar hans mögnuðu ekki sést lengi. Afleiðing rasstærðarinnar eða einfaldlega þess að Rafa lætur hann pressa svo ötullega að hann hefur ekki orku í tveggju metra sprettina þegar á þarf að halda?
    Hvað veit maður? Meðan hann skorar í öðrum hvorum leik þá er þetta lítið áhyggjuefni. Líklega er þetta bara klípa sem hann hristir af sér eftir því sem líður á tímabilið.

    Annars fannst mér Benayoun maður leiksins. Þessi maður er alveg ótrúlegur. Ég er ekki frá því að hann gæti smeygt sér inn undir lyklaborðið á tölvunni minni með boltann á tánnum svo nettur og útsjónarsamur er gyðingurinn.

    Lucas fannst mér síðan nokkuð sprækur. Allt í lagi. Annars hjó sérstaklega eftir þeim ummælum hans frá því í vikunni að hann væri ekki sami leikmaður og Xabi Alonso. Hann spilaði framar á vellinum en Xabi. Hver segir svo að fólk sé ekki dómbært á sjálft sig! Það hefur allaveganna alltaf verið mín tilfinning fyrir honum að hann sé sóknarsinnaðri en Xabi. Hann er betri í stutta spilinu en verri í langa spilinu. Ergo: Hann verður að vera nær sókninni en Xabi var til þess að nýtast henni.

    En þrátt fyrir að hann sé ekki sami leikmaður þá er ekki þar með sagt að hann eigi ekki að geta gegnt sama hlutverki.

    Í lokin þá verð ég að minnast á eitt taktíst atriði í sóknarleik Liverpool seinustu mánuði sem mér finnst vera orðið einstaklega aðdáunarvert. Á meðan einkenni lélegra og leiðinlegra knattspyrnuliða er það að markmaðurinn dúndrar háum boltum fram völlinn þá er það einkenni góðra og skemmtilegra knattspyrnuliða að markmaðurinn kemur boltanum yfir á bakvörðinn. Liverpool hefur fært þetta alveg á nýtt level. Þegar Reina er með boltann eru það ekki bakverðirnir sem bjóða sig og draga sig heldur eru það miðvernir sem gera það. Sem gerir bakvörðunum kleift að fara upp að miðlínu og ýta öllu liðinu framar í leiðinni. Er ég ekki að fylgjast nógu vel með eða er þetta eitthvað sem varla hefur sést áður í knattspyrnu?

    Level 3 fótbolti? Eða öllu heldur Level 4?

  17. Er ekki bara málið að úrvalsdeildin er keppni stuðningsmannanna meðan Meistaradeildin er keppni eigendanna.
    Riðlakeppni CL er eitt það leiðinlegra sem gerist, sammála fólki.

  18. 18 Kristinn, þetta með að miðverðir Liverpool dragi sig á kantana og bjóða sig er nú ekkert nýtt, en notað meira og meira finnst mér, sennilega þar sem við erum núna með sókndjarfari bakverði en áður. Þetta var gert mikið með Hyypia sem var þá vinstra megin og Carra hægra megin. Með þessu geta bakverðirnir sótt fram völlinn en miðverðirnir varið kantana. Með þessari aðferð þarf þó einn miðjumaðurinn (yfirleitt Mascherano) að detta verulega til baka til þess að bjóða sig, verja miðjuna og aðstoða miðverðina.

  19. Varðandi athugasemdir 18 og 20:

    Barcelona notaði þetta einmitt grimmt á síðustu leiktíð með góðum árangri… veit ekki (eða man ekki) með árin þar á undan… Benni er einfaldlega að þróa leikstíl Liverpool til enn meiri sóknarþunga að mér sýnist, sem er bara betra en gott, komi það ekki of mikið niður á vörninni… … en nota bene höfum við alltaf Pepe með sín arnaraugu þar að baki…

    Seinni hluta síðastliðins tímabils, þegar við vorum að spila jú hvað best, var ég farinn að taka eftir þessu hjá okkur, svo ég tel þetta bara vera framhald af hugsjón Rafa, sem eflaust nær þónokkuð fram í tímann, lesi ég rétt í karakter hans…

    YNWA kv…
    Sæmund…

  20. Vá hvað þessi leikur var leiðinlegur…

    og varðandi comentið nr 17 hjá Gísla.. með að carra væri maður leiksins… ekki alveg samála.. hann átti nú sendinguna sem var til þess að Debrecen skoraði.. reina bjargaði meystaralega þar með klassa markvörslu 🙂

    en fóð 3 stig

  21. Riðlakeppni CL er eitt það leiðinlegra sem gerist, sammála fólki.

    Hún hefur aðallega orðið leiðinleg núna síðustu ár þegar að við höfum farið að taka það sem algjörlega sjálfsagðan hlut að okkar menn vinni sinn riðil. Hún var ekki leiðinleg þegar að við vorum í basli og tryggðum okkur útúr riðlinum á síðustu metrunum, einsog á móti Olympiakos. 🙂

    Mér fannst Gerrard fínn, en menn verða að athuga að við horfum á leikinn sem áhagendur, en ekki sem blaðamenn. Þannig að val okkar á manni leiksins er bara svona general fílíngur eftir leik. Mér fannst Gerrard mest áberandi og hann taka þátt í flestum okkar hættulegu sóknum. Mér fannst til dæmis Benayoun lítið áberandi, en aðrir mér ósammála.

  22. Gleymdi að segja í gær að mér fannst gaman að því að heyra þulina á Sky tala um þetta sem 100. Evrópuleikinn hjá Liverpool (væntanlega CL og fyrirrennari hennar), og að fyrsti leikurinn hafi farið fram í Reykjavík. Svo eyddu þulirnir smá tíma í að tala um hvernig ferðalögum var háttað í þá daga. … Alltaf gaman að heyra á Ísland minnst … 🙂

  23. Þetta var hörmulega lélégur leikur hjá okkar mönnum og guð minn góður ef þetta er framhaldið þá förum við ekki langt í neinni keppni. En sigur var það og það sýnir vissulega styrk að sigra þrátt fyrir að eiga lélégan leik !!

  24. Doddi, Thierry Henry er búinn að spila rúmlega 100 Evrópuleiki á sínum ferli. Liverpool er búið að spila aaaaðeins fleiri Evrópuleiki en 100. Leikurinn í gær var hins vegar hundraðasti sigurleikurinn. 😉

    Annars var þetta slöpp frammistaða. Talsverður gæðamunur á liðunum en samt náðu okkar menn ekki upp neinum takti. Kláruðu þetta þó samt sem skiptir ÖLLU máli. Þú færð engin aukastig í deild eða riðli fyrir að spila frábærlega í september, það skiptir einfaldlega máli að setja stigin á töfluna. Torres og co. taka sinn tíma í að smella í gírinn og ég vil frekar sjá þá spila í fimmta gírnum í kringum áramótin – þegar við höfum venjulega verið að klúðra deildinni – heldur en núna.

    Kuyt minn maður leiksins, bara fyrir markið. Þetta var bara þannig leikur.

  25. Xabi Alonso frá í þrjár vikur!!!!

    Sá þessa fyrirsögn núna á fotbolti.net og hugsaði með mér neeeeii andsk!
    Svo eftir augnablik fattaði ég að mér er alveg sama 🙂

  26. Svona svo að menn sjái hversu skoðanir eru mismunandi:

    http://www.timesonline.co.uk/tol/sport/football/premier_league/liverpool/article6838186.ece

    Þarna eru Reina, Carragher og Lucas að fá hæstu einkunnirnar

    *Lucas Leiva

    Diligent and industrious, the Brazilian midfield player may not be the most inspirational of performers but his work rate and perseverance are admirable qualities. On a night when the big guns failed to fire he can be content with his performance.*

  27. Hvaða hvaða, voðaleg neikvæðni er þetta. Meistaradeildarkvöld eru yfirleitt alltaf góð kvöld. Verða reyndar betri eftir að klukkunni verður breytt í Evrópu, þá verða börnin farin að sofa og maður fær að slaka betur á yfir þessu, með öl í annarri. Riðlakeppnin er ágætis keppni þótt við séum orðnir svo hrokafullir að við teljum okkur eiga skilyrðislaust að jarða bestu lið smærri deildanna. Það var bara ekkert að þessu Debrecen liði, sem sló út sterkt lið CSKA Moskvu (ef ég man rétt) í forkeppni. Þeir voru ágætlega spilandi og hlóðu sér alls ekki 9 inn í teig.
    Liverpool lék að mörgu leyti ágætlega, þeir fengu eflaust ein 8-9 góð færi sem ekki nýttust. Sem er áhyggjuefni fyrir mína parta en lagast vonandi eftir því sem á líður. 1-0 er hættuleg staða.
    Varðandi þetta með útspil frá markmanni þá hefur þetta alllengi viðgengist, a.m.k í Hollandi en er kannski nýtt norðar í álfunni. Og gott mál meðan þú ert með þokkalega spilandi haffsenta.

  28. Sælir félagar
    Ég er sammála mönnum um leiðindi þessa leiks og með smá óheppni hefði hann getað dottið í jafntefli. Skelfilegt.

    Ég hefi áhyggjur af frammistöðu Torres í þessum leik og reyndar fleirum. Ég sé ekki að hann sé að braggast neitt í leik sínum frá upphafi leiktíðar. Virkar áhugalaus og fyrirsjáanlegur og snerpan og hraðinn (hraðabreytingarnar) ekki til staðar. Ég var farinn að öskra á Rafa að skipta honum útaf ( kallinn heyrði ekki í mér, skrítið) því ég var orðinn verulega pirraður, bæði á Torres og reyndar á liðinu öllu nema vörninni.

    Miðjan og sóknin voru að spila langt undir getu og svoleiðis gengur ekki til lengdar og endar illa ef ekki breytist. Því er það að mínu mati vörnin sem vann þennan leik fyrst og fremst. Þegar svona leikur vinnst með einu marki þá er það vegna þess að vörnin stendur sína plikt. Carra eða Reina menn leiksins að mínu mati.

    Það er nú þannig.

    YNWA

  29. málið er bara að Torres sér eftir besta vini sínum sem fór í Real Mardid… hann er algjörlega andlaus og mun verða það… mestu mistök sem liverpool hefur gert er að selja Alonso!
    Torres fer frá okkur næsta sumar…

  30. Sigurgeir (#12). Gaupi er reyndar gallharður stuðningsmaður Liverpool. Ætli hann sé ekki bara að passa uppá að það skíni ekki í gegn. Það er annar lýsandi á ensku boltanum sem að til dæmis stuðningsmenn Man Utd þola ekki af því hann er svo mikill púllari og talar alltaf niður til Man Utd og leikmanna þeirra(óbeint samt). Gaupi var ekkert að standa sig illa í lýsingunni í gær þó svo að Gummi Ben sé að mínu mati besti lýsarinn.

  31. Hvaða froða er þetta, Geir?

    Hvaðan hefur þú það að Torres og Alonso séu bestu vinir? Af þeim viðtölum sem ég hef lesið við Torres, þá er Reina hans besti vinur hjá liðinu.

    Og hvað hafði Liverpool nákvæmlega að gera um söluna á Alonso? Hann vildi fara og hann fór.

  32. Við fengum 3 stig og það er no1 en auðvita hefði verið gaman ef Liv hefði spilað betur og Torres hefði skorað og einnig Gerrard, en þetta var ekki þeirra dagur,,,,,, en hann kemur. Torres elskar Liv en hann er eitthvað slappur þessa dagana, kanski er konan hans of upptekin af barninu og Torres kanski útundan, já nei, segi bara si sona. 😉

  33. Reyndar skilst mér líka að Arbeloa sé góður vinur Torres. En alveg sama hverjir eru vinir og hverjir ekki, þá eru atvinnumenn í fótbolta ekki í þessu til að sparka á milli með vinum sínum. Þetta á ekki að hafa nein áhrif á þá. Ég skil ekki þennan doða í Torres. Þetta fer að verða töluvert pirrandi. Hann byrjaði tímabilið á því að væla í dómurunum og sleppti því alveg að spila fótbolta. Eitt hefur breyst, hann er hættur að væla í dómurunum.

  34. Brotthvarf Alonso er ekki það sem er að angra Torres, ef það er á annað borð eitthvað að angra hann. Hann er búinn að skora 3 mörk og hann var alveg að skapa sér eitthvað í gær. Ég meina com on ætlast menn að hann sé búinn að skora 10 mörk í 6 leikjum eða ?? Nei Torres er bara eitthvað andlaus en það kemur Alonso ekkert við, hann er bara að koma sér í gang aftur eftir meiðslin og svo erfitt sumar þar sem hann spilaði mikið með Spáni. Ég myndi frekar segja að það sé einhver þreyta frekar en eitthvað annað !

  35. Eitthvað hefur pressan breyst, ja hérna!! Torres er, skv. því sem maður les hérna, í lægð, er andlaus og alltaf pirraður! Guð minn góður þegar hann er þá í stuði, því hann hefur alveg verið að skora í þessum leikjum og oftar en ekki er mesta hættan einmitt þegar hann losnar úr gjörgæslunni, eins og t.d. í gær. Hann gerði eitt sem maður man eftir og upp úr því kom markið.

    Ég man allavega alveg eftir lengri þurrkatímabilum hjá Owen, Fowler, Moriantes, Heskey(hrollur), Kuyt, Crouch, Cisse, Baros og klárlega Erik Meijer.

  36. Varðandi númer 36, þá er hérna hægra megin tengill sem heitir “Meiðslalisti” á nokkuð áreiðanlega síðu sem heldur utanum þetta. Aquilani er skv. því á leið tilbaka 4.okt, en Agger ekki fyrr en 25.okt.

    Ég gleymdi að minnast á þetta þegar að menn voru að æsa sig yfir því að Agger skyldi ekki vera í liðinu í gær.

  37. Takk Kristján (26) … það hlaut líka að vera, enda hef ég séð fleiri en 100 Evrópuleiki með Liverpool 🙂

  38. Eins og Babu segir viturlega í kommenti #38 þá verðum við að gefa Torres smá sjéns. Hann er augljóslega ekki jafn léttur á sér og hann á að vera en það kemur bara með forminu.

    Hann getur ekki verið að gera gloríur í hverjum einasta leik. Það sem er best við þetta allt saman er að hann er samt að skora. Það að vera stabíll skorari er það besta sem striker getur haft, Pælið í því. Við bíðum svo spenntir eftir því að hann komist í almennilegt form.

  39. Nr. 38. Veru Erik Meijer hjá Liverpool má skilgreina sem samfleytt þurrkatímabil þar sem hann náði ekki að setja eitt einasta mark 🙂

    Það vita allir að Torres er stórkostlegur fótboltamaður, en hann er eitthvað dofinn núna, það leynir sér ekki. Ég samþyki ekki að þetta sé þreyta frá álfumótinu þar sem Spánn spilaði samtals einhverja 6 leiki fyrir nokkur mánuðum. Atvinnuíþróttamenn í toppformi eru mjög snöggir að ná sér eftir keppnir. Auk þess, ef Torres eða aðrir fótboltamenn væru að glíma við einhverja óskiljanlega síþreytu þá yrðu þeir einfaldlega sendir í frí til að ná því alveg úr sér. Menn yrðu ekki sendir örþreyttir inn á völlinn þar sem þeir geta ekki beitt sér almennilega. Ég held að þetta snúist einfaldlega um hugarfarið hjá manninum, og hann verður að taka sig á strax eða bara fara á bekkinn eins og aðrir þegar þeir virðast ekki vera að leggja sig 100% fram.

  40. Heimasíðan velur Dirk Kuyt nr. 1, Yossi nr. 2 og Lucas nr. 3.

    Veit ég er með þráhyggju en leiðist þegar menn missa sig í umræðum yfir manni leiksins.

    Annars er ég svo á því að við ættum að bíða rólegir með Torres. Hann átti mikið meiðslatímabil í fyrra, auk þess að vera í heilmiklu prógrammi til að styrkja fæturna, sér í lagi lærvöðvana vegna þess hve oft hann hefur meiðst þar. Ég styð líka kenninguna um ákveðna breytingu við barn, tala þar líka af reynslu sem leikmaður og þjálfari.

    En eins og Babu segir, vei þegar hann fer í form þegar slaka formið skilar þessu af sér!

  41. Þetta er nú bara smá pælingar hjá mér, ekkert sem ég hef fyrir mér í þessu….

    Var Torres ekki að eignast sitt fyrsta barn fyrr í sumar ? Spilamennska hans það sem af er tímabilinu er sú versta í Liverpool treyju (að mínu mati) þrátt fyrir mörkin. Hann virðist uppteknari við það að rífast og væla en að spila fótbolta. Ein af hans sterkari hliðum á fyrsta og öðru tímabilinu hans var að hann hélt alltaf áfram, sama hve oft hann var sparkaður niður.

    Það er staðreynd að hann spilar verr þegar hann er pirraður, amk hefur sú verið raunin það sem af er tímabili. Og það er ekki ýkja erfitt að gera hann pirraðann, hann verður að átta sig á því að hann er ekki ósnertanlegur frekar en aðrir og hann verður bara að bíta á jaxlinn og halda áfram, ekki missa sig í tuðið, annars er þetta það fyrsta sem er lagt upp af andstæðingunum, narta í hælana á Torres og hann missir sig í vælið – alveg óþolandi….

    Fer ég ekki með rétt mál að Alonso eignaðist barn leiktíðina 2007/2008, þegar Benitez var pirraður út í hann er hann var viðstaddur fæðinguna. Þessi leiktíð var jafnframt slakasta leiktíð Alonso í Liverpool treyju sem var svo hársbreidd frá því að vera seldur til Juventus, en “Tinkerman” (Ranieri) tímdi ekki að borga uppsett verð – enda er hann ekki lengur við störf þar, kominn til 5 klúbbsins á 6 eða 7 árum…

    Annars var þessi leikur hörmung frá upphafi til enda, 90 mínútur sem ég fær ekki aftur – skemmti mér best í hálfleik. Betur má ef duga skal, við töpum gegn 90% af liðunum í PL með svona spilamennsku. Nú er bara að sækja 3 stig í Lundúnum um nk helgi, ekkert annað kemur til greina.

  42. Maður veltir fyrir sér hvort liðið hefði ekki bara sett í þriðja gír ef mótspyrnan hefði verið meiri, t.d. ef andstæðingurin hefi jafnað?
    Mikið finnst mér menn geta kvartað þrátt fyrir sigur, þetta snýst bara um að ná 3 stigum úr leik, ef það næst þá flokkast það sem 100% árangur.

  43. Menn hafa kvartað yfir því að af hverju getur ekki Liv unnið eins og M U og Che#”#$ með 1 marki og jafnvel á síðustu sek. Nú þegar Liv vinnur með 1 marki þá eru flestir hér bálvondir og pirraðir, er ekki eitthvað að?????

  44. Sælir félagar.

    Babu, ertu ekki sammála því að enginn þeirra sem þú telur upp komist með tærnar þar sem Torres hefur hælana nema ef til vill Fowler og Owen. En hvorugur þeirra spilaði með jafn góðu Liverpoolliði og Torres gerir í dag. Hinir allir voru og eru bara meðalskussar og nánast dónaskapur 😉 að bera þá saman við Nando.

    Það er nú þannig.

    YNWA

  45. Leiðinlegur leikur já en slökum aðeins á gagnrýninni. Þetta voru 3 stig í hús og það skiptir öllu máli. Torres hefur verið eitthvað þungur á sér uppá síðkastið en hann var allan tímann í “gjörgæslu” í þessum leik. Það kom mark upp úr því þegar hann loksins slapp í gegn, hvað vilja menn meira ? Gaman að sjá að Aurelio er kominn aftur og því erum við að ná fyrri styrk. Þegar að Aquilani kemur svo til með að spila erum við alveg klárlega með samkeppnishæft lið í ÖLLUM KEPPNUM. Vitið til.

  46. Nr. 48 Sigkarl

    Já og nei, það er eins í þessu eins og ansi mörgu tengdu Liverpool, það er eins og það sé bara ekki hægt að vinna. Það er allt gagnrýnt í döðlu og það jaðrar stundum við kraftaverki hversu oft hægt er að gera úlfalda úr mýflugu.

    Rafa minntist á það að Torres þyrfti að hætta að pirra sig á því þegar andstæðingar spöruðu hann ítrekað niður án refsingar. Síðan þá er “hann búinn að vera svo pirraður” og ólíkur sjálfum sér og jarí jarí jarí.
    Sama er hægt að segja um nánast allt sem Benitez hefur gert hjá klúbbnum síðan hann tók við. Brosir ekki nóg, róterar of mikið, svæðisvörn og hvaðeina sem er í tísku að tuða yfir hverju sinni.

    Varðandi þessar sóknarmenn sem ég taldi upp þá eru þetta allir þeir sóknarmenn sem mér datt í hug sem hafa spilað hjá Liverpool undanfarið. En ef við eigum að nota þessu rök um að þeir hafi ekki verið í eins góðu liði og Torres nú (eitthvað sem mér finnst ekki alveg halda vatni) þá spyr ég á móti, spiluðu þeir ekki gegn verri andstæðingum?

    ALLIR sóknarmenn eiga down tímabil, á hverju tímabili. Ef Torres er í slíku tímabili núna þá hef ég engar voðalega áhyggjur af honum. Hann getur betur, klárlega en það er líka ansi vanmetið hvað hann er að skapa mikið pláss fyrir menn eins og Kuyt og Benayoon.

  47. Er samála flestum hérna að þetta hafi ekki verið nógu góður leikur en það vantaði samt ekki færrin hjá okkur til þess að klára þennan leik 3-0 eða 4-0 ég hefði meiri áhyggjur ef við værum ekki að skapa neitt.
    Mér fanst
    Lucas okkar besti maður
    Riera áræðin
    Torres virka sofandi
    Gerrard að spila illa(alltof margar auðveldar sendingar að fara útaf).
    Benayoun er að vera einn af 3 mikilvægustu leikmönunum okkar(ath ekki 3 bestur). Því hann er einn af fáum sem ná að búa eithvað til sóknarlega.
    Reina er besti markvörður heims.
    Ánægður með að Benitez hélt sig við sterk lið
    Mótherjarnir voru miklu sterkara lið en t.d Burnley og Stoke.

  48. Nákvæmlega Babu. Það er ekki nóg fyrir menn að við séum búnir að skora næstum mest allra það sem af er tímabili, meira en Chelsea og ManU til dæmis, samt er sóknin ekki að virka hjá okkur.

Liðið gegn Debrecen

Þegar ég verð pirraður…