Sunnudagur eftir landsleikjalaugardag.

Ákvað að renna aðeins í gegnum hvar okkar drengir voru að spila með landsliðunum sínum í gær, hvernig gekk og hvað er framundan í hléinu.

Byrjum á Englandi, þar hófu bæði Steven Gerrard og Glen Johnson æfingaleik enskra gegn Slóvenum, sem lauk með steindauðum 2-1 sigri heimamanna, þar sem fiskimaðurinn Shrek sýndi enn einu sinni “heiðarleika” sinn í verki. Captain Fantastic kom útaf í hálfleik eftir rólegar 45 mínútur en Johnson kláraði leikinn. Þeir munu væntanlega báðir leika næstkomandi miðvikudagskvöld gegn Króötum á Wembley, þar sem jafntefli eða sigur Englands gulltryggir þátttöku þeirra í S.Afríku næsta sumar.

Flesta þátttakendur áttum við í spænska liðinu. Fernando Torres lék fram á 67.mínútu í 5-0 sigri gegn Belgíu, án þess þó að skora! Albert Riera leysti hann af en komst heldur ekki á blað, Pepe Reina mátaði bekkinn. Spánverjar leika gegn Eistum á miðvikudag og tryggja sér farseðil suður á bóginn með sigri.

Í Slóvakíu lék Martin Skrtel allan leikinn í 2-2 jafntefli í grannaslag við Tékka. Slóvakar sitja efstir í afar jöfnum riðli og leikur þeirra í N.Írlandi á miðvikudag gæti verið úrslitaleikur riðilsins. Allavega verða Slóvakarnir í mjög góðum málum með sigri!

Framherjinn hárprúði Andriy Voronin var í byrjunarliði Úkraínumanna í 5-0 sigri á Andorra. Hann fékk gult spjald á 25 mínútu og var skipt útaf á 67.mínútu. Úkraínumenn fara til Hvíta-Rússlands á miðvikudag og eiga von með sigri þar, sér í lagi ef England vinnur Króatíu.

Sotiris Kyrgiakos lék allan tapleik Grikkja, 0-2 í Sviss og Yossi Benayoun var fyrirliði Ísrael í óvæntu 0-1 heimatapi gegn Lettum, var tekinn útaf á 67.mínútu (hvað er með að skipta okkar mönnum inn og út á þeirri mínútu í gær). Þeir leika báðir í 2.riðli þar sem Grikkir eru í öðru sæti en tap gærdagsins gerði langt með að gera út um vonir Ísraela. Á miðvikudaginn leika Ísraelar heima við Lúxemborg en Grikkir fara til Moldavíu.

Við áttum annan fyrirliða í S.Ameríku, þar sem Javier Mascherano lék allan tapleik Argentínu, 1-3 gegn Brasilíumönnum þar sem Lucas sat á bekknum allan tímann. Argentínumenn eru í tómu tjóni í riðlinum og munu þurfa að berjast fram á síðustu mínútu riðlakeppninnar með að tryggja sætið, en Brassar tryggðu HM-sæti sitt í gær. Einhvern veginn held ég að goðsögnin Maradona sé ekki í réttu starfi þessa dagana. Argentínumenn fara á miðvikudaginn til Paraguay að spila og Brasilía tekur á móti Chile á sama tíma.

Vinnuhesturinn ógurlegi Dirk Kuyt lék fyrstu 63 mínúturnar í 3-0 sigri Hollendinga í vináttuleik gegn Japan. Ryan Babel sat allan tímann á bekknum. Hollendingar leika gegn Skotum í Glasgow á miðvikudaginn, í lokaumferð riðilsins þar sem þeir hafa fyrir löngu síðan unnið.

Allir virðast hafa farið ómeiddir í gegnum fyrri landsleik þessarar tarnar.

Ein athugasemd

  1. “Allir virðast hafa farið ómeiddir í gegnum fyrri landsleik þessarar tarnar.”

    Og það eru virkilega góðar fréttir 🙂

Chelsea bannað að kaupa leikmenn næsta árið!

Hópurinn í Meistaradeildina ákveðinn