Nornaveiðar

Leikmannaglugganum lauk síðdegis í gær. Liverpool keyptu engan né seldu, þannig að umræða um það er óþörf.

Þess í stað langar mig að drepa á tveimur málum hér sem hafa komið frekar illa við mig síðustu daga. Þetta eru málefni tveggja leikmanna sem gætu talist andstæðingar Liverpool, þeirra Eduardo da Silva hjá Arsenal og Adrian Mutu hjá Fiorentina, sem mæta okkar mönnum einmitt í E-riðli Meistaradeildarinnar nú í vetur.

Eins og flestir hafa heyrt var Eduardo í dag dæmdur í tveggja leikja bann í Evrópu eftir að hafa kastað sér í jörðina og fiskað vítaspyrnu gegn Celtic í forkeppni Meistaradeildarinnar í síðustu viku. Mér þykir þetta fáránlega hörð refsing, og ég skal útskýra af hverju.

Fáum það fyrst á hreint að Eduardo fleygði sér án þess að markvörðurinn snerti hann. Þetta var dýfa, leikaraskapur, og það er engin leið að verja það sem hann gerði. Hins vegar er tveggja leikja bannið í engu samræmi við lagabókstafinn – ef dómarinn hefði áttað sig á leiktilburðum Eduardo í stað þess að gefa vítið hefði hann dæmt á framherjann og gefið honum gult spjald. En af því að dómarinn sá ekki leiktilburðina, eða lét blekkjast, fær hann ekki gult spjald heldur tveggja leikja bann. Frekar hart. Annað hvort er tveggja leikja bann fyrir allan leikaraskap, hvort sem dómarinn sér hann eða ekki, eða þá að þetta leikbann Eduardo er bara skrípaleikur.

En í þessu atriði felst einmitt vandinn. Arsene Wenger sagði í síðustu viku að það væri bara verið að gera stórmál út úr þessu hjá UEFA af því að skoska knattspyrnusambandið væri að beita sér fyrir því þar innan dyra, og að eina ástæðan fyrir því að skoska knattspyrnusambandið væri að tromma þetta mál upp hjá UEFA og í fjölmiðlum væri að ef menn væru að ræða sviksemi Eduardo myndi það veita athyglinni frá þeirri neyðarlegu staðreynd að næstbesta lið Skotlands átti ekki séns í fjórða besta lið Englands, samkvæmt deildarkeppni síðasta vetrar.

Hvort sem það er rétt hjá Wenger eða ekki er alveg ljóst að það er bara tímaspursmál áður en þetta leikbann verður opinberað sem skrípaleikur. Það er nefnilega einu sinni svo að Eduardo er langt því frá að vera fyrsti leikarinn í Evrópuleik, og hann á pottþétt ekki eftir að vera sá síðasti. Okkar eigin Steven Gerrard fiskaði t.a.m. vítaspyrnu gegn Atletico Madrid í riðlakeppninni í fyrra sem reddaði okkur jafntefli á lokamínútunum, og ég man eftir nokkrum fleiri. Þetta viðgengst hjá öllum liðum og annað hvort eru menn hér með búnir að taka þá ákvörðun að veita ÖLLUM þeim sem leika tveggja leikja bann í vetur eða þá að orð Wengers verða staðfest og þetta bann Eduardo verður afhjúpað sem lítið annað en skrípaleikur.

Bíðið bara og fylgist með næsta leikara sleppa við bann og þær nornaveiðar sem Eduardo hefur mátt þola að undanförnu. Bíðið bara.


Hitt málið er þó öllu alvarlegra, og það er mál Chelsea FC gegn Adrian Mutu. Ég skrifaði fyrir fimm árum færslu á þessa síðu þar sem ég tíundaði hvers vegna ég taldi Mutu-málið vera hið skítlegasta fyrir Chelsea FC og hið óréttlátasta fyrir Mutu, og ég stend við hvert einasta orð enn í dag. Niðurstaðan er alltaf sú sama fyrir mér, svona gerir bara skítaklúbbur. Maðurinn var/er fíkill, veikur maður sem þurfti á aðstoð að halda við að horfast í augu við sjúkdóm sinn, til að geta náð bata. En þess í stað voru það Chelsea-menn, sem höfðu góðan grun um fíkniefnanotkun hans, sem pöntuðu lyfjaprófið sem hann svo féll á, sögðu svo upp samningi hans og ráku hann með skít og skömm frá klúbbnum.

En þeir létu ekki staðar numið þar. Síðustu fimm árin hefur Chelsea FC nefnilega rekið lögsókn á hendur Mutu til að fá bættar þær milljónir sem þeir misstu af í mögulegri sölu á leikmanninum við að rifta samningi hans. Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum staðfesti FIFA í sumar dóm sem hafði fallið Chelsea í hag og þarf Mutu því að greiða rúmlega 14 milljónir punda – FJÓRTÁN MILLJÓNIR PUNDA! – til Chelsea innan skamms tíma. Hann er víst að vinna að enn einni áfrýjuninni en fyrst FIFA er endanlega búið að staðfesta dóminn frá sinni hlið er talið óvíst að nokkur áfrýjun Mutu geti gengið.

Við skulum setja þetta aðeins upp á mannamáli: Mutu gengur til liðs við Chelsea. Mutu gengur illa hjá Chelsea. Chelsea fá sterkan grun um að Mutu sé fíkill. Chelsea senda hann í lyfjapróf sem hann fellur á. Chelsea ákveða að segja upp samningi hans og reka hann. Mutu réði ekki kaupverðinu sem Chelsea greiddi fyrir hann né réði hann neinu um ákvörðun Chelsea að reka hann í stað þess að selja eða reyna að hjálpa að ná bata. Hann afplánar bann sitt hjá FIFA og nær að losa sig við dópið og semur árið á eftir við Juventus. Þaðan fer hann ári seinna til Fiorentina og hefur verið þar í rúm þrjú ár. Hann hefur leikið fantavel hjá Fiorentina, skorað 47 deildarmörk í 77 deildarleikjum þegar þetta er skrifað.

Samt eru Chelsea að sækja til hans rúmlega 14m punda þegar það voru í raun þeir sem komu upp um misnotkunina, ráku hann og sömdu um kaupverðið upphaflega án þess að hann réði nokkru þar um. Og af enn skrítnari ástæðum virðist þessi sókn þeirra ætla að ganga.

Á mánudag var uppi hávær orðrómur á Ítalíu um að Mutu myndi yfirgefa Fiorentina fyrir lok gluggans. Fiorentina voru að sögn sumra búnir að samþykkja að gefa hann á frjálsri sölu til að hjálpa honum – þeir s.s. vildu styðja hann í þessari ómögulegu stöðu sem hann er í – svo hann gæti samið um mjög háa þóknun til sjálfs sín hjá öðru félagi sem væri til í að borga honum meira þar sem hann kostaði þá ekki neitt annað. Hann gæti þá fengið kannski 5-7m punda fyrir félagaskiptin og látið Chelsea hafa þau, og reynt svo að þéna nógu mikil laun það sem hann á eftir af ferlinum til að geta kannski, vonandi, þó líklega ekki náð að borga Chelsea skuldina að fullu áður en hann legði skóna á hilluna.

Þetta gerðist þó ekki þrátt fyrir orðróm og því virðist staðan vera sú að hann muni nær örugglega ekki ná að reiða fram rúmar 14m punda á eindaga – sem á að vera einhvern tímann núna í september – sem þýðir að þá geta Chelsea farið fram á að leikmaðurinn verði settur í leikbann þangað til hann greiðir.

Með öðrum orðum; ef hann getur ekki borgað núna strax geta Chelsea hirt af honum tekjulindina svo hann geti örugglega aldrei borgað. Eftir stæði Mutu, stórgóður, þrítugur knattspyrnumaður, sendur fyrir aldur fram á eftirlaun og dæmdur til að vera gjaldþrota skuldunautur Chelsea FC um ókomna tíð.

Svo ég endurtaki orð mín frá því haustið 2004: Svona gera bara skítaklúbbar. Ég get eiginlega ekki fundið nógu sterk orð yfir það hversu mikið ógeð ég hef á Abramovich & Co. fyrir að geta gert einum leikmanni þetta. Leikmanni sem vann sér það eitt til vansa að vera sjúkur, veikur. Allir sem hafa komist í kynni við fíkniefna- eða áfengisneytendur myndu segja ykkur það að þetta er ekkert annað en sjúkdómur. Sjúkdómur sem, eins og krabbamein, gerir engan mannamun.

Ég hlakka til Meistaradeildarinnar í vetur. Ég vona að við gjörsigrum Fiorentina-menn og óska engum þeirra neins góðs gegn mínum mönnum. Engum nema Mutu. Það er einfaldlega leikmaður sem ég get ómögulega óskað neins ills og ef hann á eftir að skora á Anfield á lítill hluti af mér eftir að gleðjast með honum. Það er bara ekki annað hægt eftir það sem hann hefur gengið í gegnum. Það er að segja, ef hann hefur ekki verið neyddur á eftirlaun þegar kemur að leiknum við Liverpool.

Það sem er kannski ótrúlegast við þessa sögu alla er hversu litla athygli hún fær enn í breskum fjölmiðlum. Það er klárt að þar eru menn frekar að þegja þessa frétt niður en hitt, enda lítur það vægast sagt illa út fyrir hinu almenna auga að stórfyrirtæki eins og CFC sé að gera sitt ítrasta til að eyðileggja feril fyrrverandi leikmanns síns. Hagsmunum Chelsea er einfaldlega best þjónað með því að fjalla ekki um þetta mál, á meðan þeir sækja milljónirnar sínar hart að tjaldabaki.

52 Comments

 1. Er sammála greinarhöfundi varðandi Eduardo, það er fáranlegur skrípaleikur að gefa honum tveggja leika bann. Ef ætla mætti að eitthvað sé að marka UEFA þá yrði þetta fordæmisgefandi, fyrst í Evrópukeppninni og þaðan í deildirnar. En ég held að þetta sé bara show hjá UEFA.

  Hinsvegar, er ég ekki alveg sammála varðandi Mutu og Chelsea málið. Ég skil þessar harkalegu aðgerðir Chelsea. Félagið og Mutu gera með sér samning fyrir miklar fjárhæðir. Mutu skrifaði undir samninginn og var þannig búinn að skuldbinda sig til ákveðinna hluta og þetta er klárt samningsbrot. Þetta er eflaust ekkert gaman fyrir Mutu, en svona er þetta bara. Chelsea varð einnig fyrir miklum skaða útaf þessu og hefði getað orðið fyrir mun meiri skaða hefðu þeir ekki notfært sér þessa klausu. Þetta er harður heimur, og ekki síður viðskipta- og fótboltaheimurinn. En ef maður lítur á þetta raunsætt og með peningagleraugunum (sem ég á reyndar ekki til en fékk lánuð) þá var þetta sennilega besta lendinginn fyrir Chelsea. Fótboltafélögin eru engin lionshreyfing og þetta snýst bara því miður svo mikið um peninga.

 2. Mér finnst pistlarnir sem við skrifuðum fyrir fimm árum vera fínir enn þann dag í dag.

  Hvort sem hann braut eitthvað í samningnum, þá hefði að öllu eðlilegu liðið átt að hjálpa sínum manni. Þetta er lið. Já, Mutu var fáviti fyrir að prófa kókaín þegar hann er atvinnumaður í fótbolta. En hann var líka 25 ára gamall milli. Menn gera mistök.

  Það myndu flestir hjálpa viðkomandi það ef að um væri að ræða leikmann í þeirra liði sem væri í svona vandræðum. Aðeins skítalið myndu reyna að fella viðkomandi mann með sérpöntuðu prófi og nota það sem afsökun til að henda honum í burtu og fara svo í lögsókn sem gerir hann að gjaldþrota manni.

  Ef þetta væri Liverpool þá hefði ég allavegana hvatt til öflugra mótmæla.

 3. Öll sönn lið standa við bakið á sínu fólki útí eitt. Sbr. Liverpool-Gerrard, Man-utd-Rio Ferdinand.
  Mér þykir líka fyndið að í þessum tveimur málum skuli það vera Chelsea annars vegar og skíta knatsspyrnusamband Skota hinsvegar þar sem þeir gáfu einmitt skít í 2 af sínum bestu leikmönnum í vetur fyrir (að mér þykir) lítil mistök (sem gerast dags daglega í heiminum) og gerðu í því að búa til fjölmiðla sirkus í kringum það hvernig þeir fengu ævilangt bann frá landsliðinu sínu til þess eins að sleikja rassgatið á stuðningsmönnum sínum og veikja landsliðið.
  Þetta Chelsea, Mutu mál er skammarlegt svo ekki sé meira sagt.

 4. Ég skil þessi sjónarmið ykkar mjög vel. Þetta er mjög harkalegt, en þetta snýst um peninga. Það er ekki félagsins/vinnuveitandans að aðstoða hann með hans fíkn. Þegar verið er að kaupa leikmenn fyrir svona miklar fjárhæðir er gert til þeirra gríðarlegar kröfur, þegar þessu kröfum er ekki náð, t.a.m. með vandamálum utanvallar er þetta góð lending fyrir félagið. Einar, þegar þú segir að flestir mundu hjálpa honum, þá gæti ég verið sammála þér að vinir hans og hans fjölskylda mundi hjálpa honum. En fyrirtækið er ekkert skuldbundið til þess, hvorki samningslega og varla heldur samfélagslega. Þetta er bara eins og fyrirtæki sem fjárfestir í einhverju (t.d. fer í útrás til Svíþjóðar 🙂 og leggja í það háar fjárhæðir. Svo kemur í ljós að það eru mikil vandamál sem verða til þess að um samningsbrot yrði að ræða. Þá er jafnvel það besta í stöðunni að geta rift samningnum og getað farið fram á skaðabætur í stað þess að eiga í hættu á enn meiri skaða. En sem dæmi um þann skaða sem Mutu varð fyrir, þá hefur hann ekkert verið í neinum auglýsingum og er t.d. ekki undir sínu nafni í fótboltatölvuleikjum. Staðreyndin er sú (eins ljót og hún er) þá hefur samfélagið enga samúð með fíkniefnaneytendum.

  Þetta er í raun voðalega ljótt og sorglegt, þar sem um er að ræða (skemmda) persónu en ekki skemmdar vörur eða misheppnaða fjárfestingu í fyrirtæki í Litháen. Hinsvegar verður þetta aldrei þannig að Mutu muni borga Chelsea allar þessar 14-15 milljónir punda. Hann á eftir að áfrýja (væntanlega til enskra dómstóla) eða semja við Chelsea.

  Mér finnst hinsvegar svolítið sérkennilegt að hann sé dæmdur til þess að borga fyrir kaupverðið í formi tapaðra peninga, þar sem Mutu greyjið skrifaði ekki undir kaupverðið. Hann skrifaði einungis undir sín laun og hafði auðvitað heilmikið um sínar launakröfur að segja. Mér finnst alveg klárt að Mutu ætti að borga launin sín. En hann hafði ekkert um kaupverðið að segja, heldur var það á milli Juventus og Chelsea.

 5. Ég skil þig vel, Jóhannes. Ef að þetta er mikilvægur starfsmaður þá eru menn þó oft tilbúnir að gera ansi mikið fyrir hann. Fá fyrirtæki kasta starfsmanni út með svona látum.

  En við höldum ekki með McDonald’s eða Serrano, heldur fótboltaliðum. Lið eru eitthvað aðeins meira en fyrirtæki (þó að ég viti að þetta snýst allt um peninga). Lið eiga að vinna saman og við aðdáendur stöndum með okkar mönnum þegar þeir eiga í erfiðleikum. Það finnst mér munurinn.

  Plús það hversu stjarnfræðilega fáránlegt það er að leikmaður sé gerður ábyrgur fyrir kaupverði sínu. Það er gjörsamlega glórulaust. Hann hafði ekkert með það að gera og það hefði sennilega verið mun lægra ef að jafn ríkur klúbbur og Chelsea hefði ekki verið hluti af því.

 6. Þar kemur kannski aðalpunkturinn í þessu. Hversu mikið fótboltinn snýst um peninga og hversu miklir peningar eru í fótboltanum. Vegna þess hversu miklir peningar eru í fótboltanum þá er svo hætt við því að svona fáranlegar skaðabætur verða til. Ef þetta væri í gamla daga þá væri fjárhæðirnar svo miklu lægri að það mundi varla taka því að gera eitthvað veður útaf þessu.

 7. Já, sammála pistlahöfundi í báðum málum.

  Finnst þetta leikbann á Eduardo hrikalegt og fáránlegt. Það er verið að opna dyr að leið sem enginn veit hvar endar… Líst mjög illa á þetta.

 8. Varðandi Mutu þá veit ég ekki nógu mikið um málið og skil ekki alveg þessa upphæð, nema eftir þennan mjög góða og fræðandi pistil.

  En varðandi Eduardo þá hef ég enga rosalega samúð með honum. Ég er í meginatriðum mjög fylgjandi því að mönnum sé refsað þegar leikaraskapurinn er svona ROSALEGA augljós.

  Nallarar hafa auðvitað verið móðursjúkir á lyklaborðinu eftir þetta og United leikinn og vilja margir t.d. meina að Rooney hafi leikið jafn mikið og Eduardo.
  Fyrir utan að þessi atvik gerast í sitthvorri keppninni þá finnst mér alls ekki vera um jafn mikið stonewall augljósan leikaraskap að ræða hjá Shrek og í þessu tilviki (reyndar er ég á því að þetta hafi réttilega verið víti á Old Trafford).

  Sama finnst mér um flestar þær klippur sem andstæðingar Liverpool hafa soðið saman sem heilagan sannleik um að Gerrard sé diver. Hef ekki ennþá séð neinn leikaraskap hjá honum sem er svona augljós og óumdeilanlegur. Þó enginn leikmaður sé eins svakalega undir smásjánni í hverjum leik og einmitt hann (ég er ekki að segja að hann sé heiðarlegasti leikmaður í heimi og standi allt af sér og fiski ekki víti).

  Það þarf að fara taka hart á svona atvikum og ég sé ekki margt að því að byrja þarna (hefur samt ekki alveg verið refsað fyrir leikaraskap áður?). Auðvitað átti UEFA að gefa það út fyrir mót að taka ætti mun harðar á svona málum og þeir eiga eftir þessa ákvörðun að fylgja henni eftir.

  Eina sem ég hef á móti því að refsa mönnum fyrir alveg kláran leikaraskap eftir leiki er að til að gera slíkt þarf að notast við videoupptökur, ég vil að það sé spilaður sami leikur á Selfossvelli þar sem ekki er nein myndavél allajafna og Anfield þar sem meira að segja áhorfendur eru myndaðir.

  En á móti þá er þetta óþolandi og óþarfa ljóður á þessari íþrótt sem hægt er að útrýma með því að refsa mönnum eftir á. Ég er nokkuð viss um að flestir leikmann sem spila í evrópukeppninni í ár hugsi sig tvisvar um að leika ef þetta bann Eduardo kemur til með að standa…..allir nema Eboue, leikmaður Arsenal auðvitað, hann er súkkulaði gúmmelaði.

  Svo verður maður aðeins að vorkenna Celtic, það er ekki langt síðan Dida var rétt dauður í Skotlandi eftir örlítið klapp frá stuðningsmanni Celtic.

 9. Sammála Babu með Eduardo. Leikaraskapur er LANGMEST ÓÞOLANDI við fótbolta og finnst mér sjálfsagt að dæma menn í leikbönn þegar um augljósan leikaraskap er að ræða (Rivaldo á HM 2002 t.d.). Nú er búið að setja fordæmi og leikmenn hugsa sig kannski tvisvar um áður en þeir láta sig vaða í jörðina.

  Er gjörsamlega rosalega sammála greinarhöfundi með Mutu. Þetta er ótrúlegt hvernig þeir komu fram við hann og eru. Það þarf varla ræða hvað þeir eru ómerkilegir.

 10. Babu, varðandi vorkunnina til handa Celtic, ekki gleyma verstu dýfu allra tíma sem kom líka í leik hjá þeim gegn Milan.

  Ég er hlynntur því að knattspyrnusamböndin taki hart á leikaraskap með myndböndum og bönnum en þá verða þau líka að setja formlegar reglur um það en ekki bara banna menn hist og her.

  Ef Eduardo fékk tveggja leikja bann þá hefði Gilardino ekki átt að fá að spila fótbolta framar.

 11. Algjörlega sammála með Mutu, skítlegt svo vægt sé til orða tekið.

  Varðandi Eduardo, þá er hann ekki fordæmið, það var sett á síðasta tímabili fyrir sama hlut hjá einhverjum Litháa ef mig minnir rétt. Ég er algjörlega á þeirri línu að það þarf að taka á þessum leikaraskap, alveg sama hvaða leikmaður það er, en UEFA þurfa þá að fylgja þeirri línu sem þeir settu í fyrra, sama hvaða nafn á í hlut.

  • en UEFA þurfa þá að fylgja þeirri línu sem þeir settu í fyrra, sama hvaða nafn á í hlut.

  Þetta þyrfti þá líka að eiga við um deildarkeppnirnar, EM, HM og hvað þetta heitir alltsaman. Allar þessar keppnir þar sem við fáum að sjá þessar fyrirmyndir.

  og Palli G.

  Alveg rétt var búinn að gleyma þessari rosa dívu hjá GILARDINO, fékk hann ekkert bann fyrir þetta? (og fékk Dida ekki bara bann frá sínum eigin klúbbi?)

 12. Hvernig mun UEFA taka á málunum með leikaraskapinn? Ég óttast að það muni fara eftir afleiðingunum. Eduardo skapaði mark með sínum leikaraskap og fékk því tveggja leikja bann.

  Segjum til dæmis að Drogba hendi sér niður í teignum. Dómarinn sér við honum og gefur gult spjald fyrir leikaraskap. Ætli Drogba fái tveggja leikja bann?

  Annað dæmi. Segjum að Gerrard fleygi sér niður á sínum vallarhelmingi. Ætli hann fái tveggja leikja bann?

  Ef Eduardo hefði klikkað úr vítinu, hefði hann fengið tveggja leikja bann?

  Það má nefnilega ekki gleymast að refsingin er fyrir leikaraskapinn, ekki afleiðingunni af leikaraskapnum.

  Og hvað er leikaraskapur? Menn geta misst jafnvægið.

  Það er hægt að fara tvær línur í þessum efnum. Annað hvort setja ALLA í bann eða engan. Ég held ég geti ábyrgst að UEFA mun gera hvorugt og því munu þeir verða fastir í kviksyndi af samsæriskenningum.

 13. Ég veit ekki afhverju þið eruð svona á móti banninu hans Eduardo. Þetta gæti vissulega orðið skrípaleikur. Ef UEFA heldur hins vegar rétt á spöðunum eru þetta frábærar fréttir. Mikilvægt verður þá að refsa ÖLLUM sem verða sekir um leikaraskap hvort sem þeir ná að fiska víti eða aukaspyrnu eða ekki og hvort þeir heiti Drogba, Gerrard eða Ryan Shawcross. Leikaraskapur er lýti á fótbolta og nú skal tekið hart á þessu og vandamálinu útrýmt. Núna þarf Ronaldo, Drogba, Eduardo og félagar að passa sig. Vissulega er Eduardo fórnarlamb í þessu, en ekki gleyma að Mascherano var fórnarlamb á Old Trafford fyrir ekki svo löngu síðan. Það atvik reyndist skrípaleikur fyrir UEFA enda voru dómarar síendurtekið óvirtir af leikmönnum án þess að tiltal eða viðvörun var gefin.

  Varðandi Mutu málið þá er ég sammála greinarhöfundi. Chelski er skítaklúbbur með engan karakter né persónuleika. Þetta er bara köld stofnun sem hugsar ekki um fólk heldur um peninga. Það eitt og sér er ekkert ófyrirgefanlegt í nútíma kapítaliskum heimi. En hvernig þeir fóru með Mutu er ekki mannsæmandi og vona ég að Mutu vinni áfrýjunina.

  PS: Vill koma því að strax að mér þætti vænt um það að Aquilani verður aldrei kallaður Aquaman. Þetta er svipað og að Kuyt sé kallaður Kornman. Er einfaldlega asnalegt.
  YNWA

  • Og hvað er leikaraskapur? Menn geta misst jafnvægið.

  Sammála því, til að dæma í svona þá þarf þetta að vera ALVEG KÝRSKÝRT, annars sleppa því. Eins á það ekki að skipta máli hvar á vellinum eða við hvaða aðstæður leikaraskapurinn á sér stað.

  PS: Vill koma því að strax að mér þætti vænt um það að Aquilani verður aldrei kallaður Aquaman.

  Ja hérna, hvað er nú að því? Það liggur alveg beint við 😉

 14. Með Mutu, ég er á báðum áttum. Auðvitað er algerlega út í hött að fara fram á bætur vegna þess að leikmaðurinn hrapaði í verðmati.

  Hins vegar líkar mér ekki alveg “hann gerði mistök og á því rétt á öðru tækifæri” rökin. Menn mega alveg hafa skoðanir á Chelsea að klúbburinn hefði átt að styðja við bakið á Mutu.

  Persónulega er ég orðinn ansi þreyttur á hversu mikil völd leikmenn hafa í dag. Þeir skrifa undir einhvern pappírsbleðil sem gefur þeim ofsa mikinn pening og svo geta þeir bara heimtað sölu (helst óformlega) og klúbburinn er hálfpartinn neyddur til að losa sig við hann.

  Þessi pappír sem leikmenn skrifa undir er ekki bara upphæðin á launatékkanum. Hann er skuldbinding um að leikmaðurinn ætli að gera sitt besta fyrir félagið í x mörg ár. Auðvitað er fíkniefnaneysla brot á þeim samningi. Ég er nú ansi hræddur um að ef Liverpool myndi ekki greiða Torres laun, að hann myndi sækja sinn rétt. Þetta á að virka í báðar áttir.

 15. Er sáttur við þetta bann sem Eduardo fær, þ.e. ef það breytist ekki við áfrýjun. Leikaraskapur er lýti á fótboltanum og það þarf róttækar aðferðir til að fá menn til að hugsa sig um áður enn þeir henda sér í jörðina. Og eitt á yfir alla að ganga ef að þetta á að virka eitthvað. Sumum hér inn finnst heldur harkalega að Eduardo vegið og finnst að skotarnir séu að blása upp einhvurn skrípaleik, þá dettur mér í hug að spyrja þá sömu. Hvað ef að þetta hefði gerst í leik á móti Liverpool og að Liverpool hefði dottið út úr meistaradeildinni fyrir vikið. Væru menn á sömu skoðun að um skrípaleik væri að ræða?

 16. Sælir félagar.

  Ég er algjörlega sammála pistilshöfundi í báðum málum. Og hefi í raun ekki miklu við það að bæta sem hann segir.

  Það er svo annað mál hvernig á að taka á dýfingum í framtíðinni. Það verður að vera ljóst fyrir leiki að svona atvik verði skoðuð eftir leiki og dæmt eftir á. Einnig verðu að vera klárt að svona eftirá dómar gangi í báðar áttir. Þ. e. að atvik séu skoðuð á myndböndum og tekin af mönnum spjöld sem ranglega hafa verið dæmd.

  Úrslit leikja verða að standa hvort sem rétt er dæmt af dómaratríóinu eða ekki. Spjöld og brottvikningar eftirá skoðuð mega ekki hafa áhrif á úrslit leikinna leikja.

  Í framhaldi af þessu er sú spurning hvort bara eigi að skoða brot (dýfingar) innan teigs og hvert mun svona kerfi leiða dómgæslu og úrslitaniðurstöðu ef þetta þróast í þessa veru.

  Það er nú þannig.

  YNWA

 17. Samkv. Alþjóða heilbrigðisstofnuninni er alkahólismi og/eða vímuefnafíkn sjúkdómur. Því ber að taka á tilfellum sem Mutu’s sem slíkum. Dis-ease! Við höfðum Harry nokkurn Kewell á launaskrá okkar í allmörg ár, megnið af þeim tíma var hann sjúkur… í löppunum. Það dettur engum í hug að fara framá að hann greiði laun sín tilbaka… Persónulega vona ég að honum vegni sem best. Tony Adams kom fram með sitt vandamál á sínum tíma og Arsenal stóð sem klettur við hlið hans, þrátt fyrir aðra tíma og umræðu þá um sjúkdóminn. Til eru fleiri dæmi.

  Framkoma Cheslea er fyrir neðan allar hellur. Ég hélt að þetta mál væri löngu frá. Þó fylgist ég mikið með ensku pressunni og segir það sitt um þá þöggun sem á sér stað um þetta mál.

  Kv. Sæmund

 18. Þið eruð að misskilja mig varðandi Eduardo. Ég er algjörlega fylgjandi því að menn fái refsingu fyrir leikaraskap, hvort sem dómarinn fellur fyrir honum í hita leiksins eða ekki. Það sem ég er að lýsa frati á er að Eduardo fær núna tveggja leikja bann en ég get lofað ykkur því að UEFA á ekki eftir að fylgja þessu eftir. Það er langt því frá að þetta þýði að framvegis fái allir leikarar leikbönn. Það er það sem ég er að benda á, það er það sem er ósanngjarnt í garð Eduardo. Hér að ofan benti einhver á YouTube-myndband af Gilardino að fleygja sér gegn Celtic fyrir tveimur árum – hann fékk aðeins gult spjald fyrir það, ekki tveggja leikja bann.

  Ef þetta er byrjunin á því að allir leikarar fái leikbann skal ég draga orð mín til baka og fagna því að Eduardo hafi verið refsað. En líklegast þykir mér að þetta sé aðeins einangrað tilvik, svipað og þegar Mascherano lenti illa í miðri umræðu um rifrildi leikmanna við dómara og var rekinn útaf gegn Man Utd fyrir hluti sem leikmenn hafa komist upp með löngu áður og líka á eftir Mascherano-atvikinu. Hann röflaði á kolvitlausum tíma í tíðarandanum, rétt eins og Eduardo lætur sig detta á kolröngum tíma (og gegn kolröngu liði, því Celtic kunna svo sannarlega að leika fórnarlambið).

  Varðandi Mutu þá kaupi ég engan veginn þennan samanburð við almenn stórfyrirtæki og starfsmenn þeirra. Við erum ekki að tala um afgreiðslumann í Nóatúni, við erum að tala um knattspyrnumann með mjög sérstaka hæfileika. Það er ekki eins og þeir gætu rekið hann og ráðið annan í hans stað sem gæti sinnt starfinu nákvæmlega eins.

  Chelsea höfðu alla möguleika á því að vernda sína fjárfestingu. Þeir gátu sektað manninn um nokkurra vikna laun, sett honum þá afarkosti að hann yrði að fara í meðferð og hreinsa sig á meðan hann afplánaði bann FIFA, þeir hefðu getað sagt honum að hann fengi ekkert borgað á meðan hann væri í banni en svo þegar það væri búið, EF hann væri orðinn heill heilsu, gæti hann fengið möguleika á að vinna sér stöðu í leikmannahópnum aftur. Þess í stað komu þeir upp um hann, ráku hann með skít og skömm og hafa svo lögsótt hann í fimm ár á eftir.

  Þeir studdu hann ekki heldur spörkuðu í hann á meðan hann var liggjandi. Þannig. Gera. Bara. Skíta. Klúbbar.

 19. Varðandi leikaraskapinn (sem er jú vissulega ljóður á leiknum) þá finnst mér að UEFA mætti einbeita sér að alvarlegri málum s.s. ‘aftaní-narti’ sem t.d. Torres verður iðulega fyrir og þeim brotum sem títtnefndur Eduardo þurfti að þola ökklabrot af og sjúkraþjálfun í a.m.k. ár fyrir utan sálarskaða.

 20. Ég verð nú að segja að ég skil Eduardo mjög vel að hafa tekið dýfu þarna. Ég meina, náunginn er nýbúinn að jafna sig eftir að hafa næstum því misst löppina við hné. Það er mjög eðlilegt að hoppa upp úr tæklingu til að forðast árekstur og dýfur eru í rauninni bara framlenging á því. Ég er á því að það eigi akkúrat ekkert að gera í dýfingum, allra síst að setja bann á menn eftir á með myndavélum. Ef ekkert er gert í dýfingum þá deyr umræðan um þær út, og menn hætta því smám saman. Þetta er eins og að dissa frekjukast í barni. Látum það vera og það hættir að grenja.
  Varðandi Mutu þá eru auðvitað tvær hliðar á því máli. Chelsea hugsar auðvitað um peninginn fyrst og fremst. Þeir áttu auðvitað að reyna að fá sem mest út úr fjárfestingunni sinni og að ætla að reyna að rukka einstakling um þrjúþúsund milljónir er algjörlega út í hött. Meira að segja Jón Ásgeir og Björgólfur yngri eiga ekki svo mikinn pening á Tortóla. Hvað eru þeir að reyna að fá fram með þessu?

  Svo eru líka fleiri fótboltapólitísk mál sem vert er að snerta á og ræða um, t.d. þessi læti yfir ummælum Benítez eftir leikinn gegn Tottenham og bara almennt um hvernig bretarnir díla ólíkt við útlendinga en Breta. Rooney tók pottþétt dýfu, Fletcher réðst á Arshavin ofl. ofl. Oft er útlendingahersveit Arsenal og Arsene sjálfur ekki beint verndaðir fyrir árásum Breta. Og þetta er það sem maður man bara núna eftir helgina.

 21. Sælir
  Ef það er gult spjald í leik að dýfa eða leika afhverju er þá ekki bara smellt einu gulu spjaldi á manninn eftir leikinn frekar ?? Ég meina það verður að vera eitthvert samræmi í þessu. Leikmaður sem fær gulaspjaldið verður þá að fara í tveggja leikja bann. Hvað er það sem réttlætir það að refsing við leikaraskap er harðari sé hún dæmd af einhverjum lýð inn á skrifstofu sem þarf ekki að eiga við reiða stuðningsmenn inn á velli en af dómarnum sjálfum. Löng setning en mér finnst það fáránlegt að dæmam manninn í tveggja leikja bann. Fer ekkert meira í pirrurnar á mér en leikaraskapur og leikmenn sem líður yfir um leið og þeir sjá gras, sbr. Drogba. Samræmið þarf samt að vera fyrir hendi! Varðandi Mutu, ég hef enga samúð með dópistum og mun aldrei hafa. Hann vissi nákvæmlega hvað hann væri að gera þegar hann tók þá ákvörðun að sjúga kók í nös. Menn verða að taka afleiðingum gjörða sinna þegar þeir ákveða þessa hluti. Sama hvort það er Mutu eða einhver aumingi niður í bæ !!!

 22. Ívar Örn, svindlarar halda áfram að svindla ef þeim er ekki refsað fyrir það. Ef dómarar væru óskeikulir og létu aldrei blekkjast af dýfingum væri hugsanlega hægt að losna við þær með því að láta þær bara afskiptalausar en á meðan menn krækja af og til í vítaspyrnur við að láta sig falla en eiga bara yfir höfði sér gult spjald fyrir að nást við athæfið er ávinningurinn mun meiri en áhættan og svindlið getur einfaldlega borgað sig.

  Ég hef lengi verið á þeirri skoðun að það eigi að refsa mönnum harkalega fyrir leikaraskap og fagna þeirri ákvörðun UEFA að dæma Eduardo í 2 leikja bann fyrir það… en að því gefnu að þeir haldi sig þá líka við þá línu. Með þessum dómi er ekki að sjá annað en að fyrir leikaraskap á hér eftir að refsa með rauðu spjaldi en ekki gulu, menn fara ekki í bann fyrir gult spjald og UEFA/FIFA reglur banna að gulu spjaldi sé breytt í rautt eftir leik. Því finnst mér augljóst mál að ef leikaraskapur er núna farinn að kosta bann er hann klárlega líka orðinn að brottrekstrarsök.

  Ég óttast hins vegar að framhaldið verði eins og áður, þ.e.a.s. að fyrir leikaraskap fá menn ennþá gul spjöld og UEFA refsar ekki öllum á sama hátt og þá eru þeir blessaðir kapparnir að skíta all hressilega upp á bak með þessum dómi.

 23. Það er nú þegar orðið ljóst að UEFA ætlar ekki að láta jafnt yfir alla ganga þegar kemur að dýfingum. Daginn eftir Arsenal – Celtic fiskaði Ashley Young tvö víti gegn Rapid Vín, í fyrra vítinu var um hreinan og kláran leikaraskap að ræða og í því seinna féll hann auðveldlega. Það má sjá atvikin hér:

  http://www.youtube.com/watch?v=MnfGtkp4qdE

  Af hverju gera UEFA ekkert í þessu? Ástæðan er líklega sú að fjölmiðlar hafa ekki gert mál úr þessu eins og með Eduardo, enda Ashley Young enskur landsliðsmaður. Svo vann Rapid Vín hvort eð er viðureigninna þannig að þeir þurfa ekkert að væla. Þetta sýnir bara að strax er komið ósamræmi yfir því hvernig tekið er á dýfingum.

 24. Þú getur kannski bent mér á hvað varð til þess að Young féll til jarðar í fyrra vítinu?

 25. Með þetta Ashley Young dæmi þá virðist nú amk vera snerting annað en Eduardo. Í fyrra dæminu sýnist mér varnarmaðurinn ýta með vinstri hendinni í bakið á Young, sést þó ekki vel á þessum myndum, sem er í lélegu jafnvægi m.v. fótaburðinn. Seinni dæmið finnst mér vera meiri “dýfa” sýnist það bara vera öxl í öxl og Young stingur sér síðan til sunds 🙂

 26. svar við #29.

  Kommon, þú sérð það alveg að hvorugt Ashley Young atvikið er víti.

  Og Rökin eru enn fáránlegri, “það var snerting”. Það má snerta í fótbolta!

  Þetta er ekki körfubolti, sem þó hefur mun meira af konstant snertingum heldur en fótbolti.

 27. Ef svindlarar tapa á svindlinu hætta þeir að svindla. Hvaða gerðist eftir þennan Arnsenal leik? Þeir fengu illilega að kenna á því hjá dómaranum af því að það var búið að heilaþvo hann með Arsenalleikaraskap. Þeir fengu akkúrat ekkert gefins í þeim leik. Meira að segja öfgar í þá áttina.

 28. Ef að Babel gæti eitthvað þá myndi maður kannski hafa samúð með honum í þessu væli hans. En maðurinn getur ekki blautan og hefur örsjaldan sýnt eitthvað af viti. Ég veit að margir hér hafa trú á honum. Ég er ekki einn af þeim. Vonandi rætist úr honum samt, en í dag hef ég bara enga trú á honum sem leikmanni, bara ekki neina.

 29. Ívar, það hafði ekkert að gera með þennan Celtic leik – það var bara venjuleg OT dómgæsla.

  Hinsvegar getum við ekki refsað fyrir eitthvað með 2 leikja banni eftirá sem er gult spjald skv reglum. Það meikar bara ekki sens

 30. Þessi pistill var bara einsog talað út frá mínu hjarta.. gæti ekki verið meira sammála þér með þetta allt saman! og alveg fáránlegt að maður skuli ekki hafa heyrt eitt orð um þetta í fjölmiðlum.. hef sterkan grun um að Abraham sé búin að greiða helstu miðlum Bretlands nokkrar millur til að þegja um þetta mál!

 31. Ég sagði aldrei að þetta væri brot bara af því að það væri snerting. Enda sagði ég í kommentinu um síðara A.Young tilvikið þar sem klárlega er snerting (öxl í öxl) en mér finnst það ekki vera brot. Þannig að ég skil ekki alveg hvað þú ert að fara.

  Ef þú fylgist með vinstri hönd varnarmannsins í fyrra tilvikinu þá virðist hann stjaka við Ashley Young, það sést ekki vel frá þessu sjónarhorni þar sem skrokkurinn á varnarmanninum blokkerar það. Þess vegna gef ég Ashley Young benefit of the doubt, þyrfti að sjá þetta betur frá öðru sjónarhorni. Dómarinn virðist amk hafa betra sjónarhorn þaðan sem hann stendur.

 32. Viðbjóðslegt hvernig celski og abramovic kemur fram við Mutu, maður fær æluna upp í kok.

  Með Babel, þá vona ég bara að hann fari að einbeita sér að því að standa sig inná vellinum, ekki alltaf vera að væla í fjölmiðlum. Hann getur bara talað við Benitez, ekki helv blöðin. Held að hann sé að reyna að fá athygli frá landsliðsþjálfara Hollands með þessu.

 33. Mig langar samt til að benda eitt á í umræðunni um gult spjald í leik vs. tveggja leikja bann eftir leik fyrir dívur. Rökin með því að mínu mati eru sú að ef leikmaðurinn gerist uppvís að leikaraskap í miðjum leik af dómara leiksins og er spjaldaður og hitt liðið fær aukaspyrnu eru afleiðingarnar svo miklu minni heldur en ef leikmaðurinn fiskar víti og liðið hans skorar.

  Tökum sem dæmi Eduardo gegn Celtic. Hann fiskar vítið og skorar. 1-0 fyrir Arsenal og einvígið búið. Hefði dómarinn séð í gegn tilþrifin væri enná 0-0 og Celtic ennþá í séns (þó litlum en þið sjáið hvað ég á við).

  Annars tek ég undir orð pistlahöfundar um mál Mutus. Ansi sorglegt mál hvernig sem á það er litið.

 34. Ég sá leik varaliðsins á stöð sport 3 í gær. Hrikalega leist mér vel á Nathan Eccleston, Daniel Pacheco og Gerardo Bruna sem var valinn maður leiksins samkvæmt LFC TV. Eccleston hrikalega hraður á hægri kantinum og hinir tveir mjög leiknir og skapandi leikmenn. YNWA

 35. Óþarfi að gera um þetta sérþráð og þar sem þessi heitir nornaveiðar…

  af mbl.

  • ,,Ég fé loforð frá félaginu sem ekki hefur verið staðið við. Mér var sagt að ég fengi að spila meira en eftir fyrsta tapleikinn á tímabilinu þá var ég sá eini sem missti sæti mitt í liðinu,“ segir Babel í viðtali við enska blaðið The Sun.

  Er ég einn um að trúa ekki þessari frétt eftir að hafa séð hverjir tóku viðtalið við hann upphaflega? (Eins er hann varla svo heimskur að fara ræpa þetta út úr sér daginn eftir að leikmannaglugganum lokar).

 36. Þetta með Babel er einnig hér á vef liverpool daily post. Það kemur hvergi fram hver tók þetta viðtal við Babel þó mbl fullyrði að það sé The Sun. Hann ætti að hætta þessu væli og reyna að geta eitthvað í fótbolta, hingað til er hann ein verstu kaup Benitez.

  http://www.liverpooldailypost.co.uk/liverpool-fc/liverpool-fc-news/2009/09/03/liverpool-fc-latest-ryan-babel-urges-rafael-benitez-to-let-him-leave-92534-24596504/

  Enn að þessu Mutu máli þá finnst mér það furðulegt í alla staði. Maður veit náttúrulega ekki hvaða ákvæði voru í samningi hans við Chelsea varðandi eiturlyfjaneyslu. Maður hefði samt haldið að næg refsing við því samningsbroti sé riftun á samningnum, auk þess sem maðurinn fær leikbann í kjölfarið. Mér finnst ekkert athugavert að félag sendi leikmann í lyfjapróf sem þau gruna um fíkniefnaneyslu en hitt er annað mál að mér finnst að Chelsea hefði átt að standa við bakið á honum eftir að hann féll á prófinu og aðstoða hann við að komast á beinu brautina.

 37. Það sem ég er að meina með Babel er að ég trúi ekki að hann hafi sagt þetta svona skýrt og skorinort við nokkurn einasta blaðamann.

  Sama hversu mörg blöð apa þetta upp eftir hvort öðru. Fínt að deila alltaf með 4 þegar maður les svona í bressku pressunni enda ákaflega ótrúverðugir vitleysingar að vinna á mörgum blöðum þar.

  M.ö.o. Babel er ennþá allavega, leikmaður Liverpool og ég gef honum því klárlega alltaf benifit of the doubt fram yfir bresku pressuna.

 38. Rétt Babu, en spurning ef þetta er hollenskt dagblað. Ég veit ekkert um þetta þarlenda blað og það er spurning hvort S*n hafi ekki bara fengið viðtalið þaðan og þýtt það eftir sínu höfði…

 39. Já þetta er mjög lélegt hjá Chelsea mönnum að sparka svona í Mutu, þar eru bara sktaklubbar sem gera það…

  Í sambandi við Eduaro málið,, held ég það ekki lausn að taka svona leikmann fyrir og setja hann í leikbann,,, en hinsvegar þetta er liðsíþrótt sem er vinsælasta sjónvarpsefni sem liðin hafa tekjur af og eiga að vera til fyrirmyndar og ekki sýna loddarabrögð til að sigra leiki.

  Eina lausnin sem ég sé í þessu eru mjög háar fjársektir til liðanna sem sýna loddarabrögð…

 40. Hvort sem hann hefur sagt nákvæmlega þetta eða eitthvað mun mildara þá eru svona sögusagnir algjört eitur og eyðileggja móralinn innan liðsins. Einmitt það sem við þurfum ekki á að halda akkúrat núna.

  Babel virðist samt greinilega hafa meiri áhuga á að komast hollenska landsliðshópinn fyrir HM en að standa sig fyrir Liverpool. Heldur hann annars virkilega að hann geti spilað sig inní landsliðið með Ajax frekar en stórliði Liverpool? Hélt að flestir landsliðsþjálfarar veldu bara leikmenn úr stórum liðum sem hafa sýnt getu meðal þeirra bestu.

  Babel ætti að leggja sig betur fram í leikjum og hætta að labba tilbaka þegar liðið missir boltann og óhreinka skyrtuna af og til. Maður man varla eftir að hafa séð hann svitna fyrir Liverpool þegar hann fær sýnar 15mín í leikjum.

  Anelka var vel pirraður þegar hann var látinn spila á kantinum fyrir Avram Grant. Hegðaði sér samt sem atvinnumaður og lagði sig alltaf fram. Núna er hann að uppskera, virðist svínvirka í ár frammi með Drogba. Fær stöðugt að spila og skorar reglulega. Spurning hvort Torres og Babel geta unnið saman í 2 manna framlínu?

  Það allavega gengur ekki að láta 11,5m punda leikmann grotna niður á bekknum tuðandi. Annaðhvort að selja hann í janúar eða spila honum.

 41. Chelsea bannað að kaupa leikmenn í 1 ár !!! HAHA! Er Mutu í raun norn?

 42. Hvað er málið með Chelsea, afhverju missti ég af þessu? Samt frábærar fréttir að liðið megi ekki styrkja sig fyrr en í janúar 2011. Sérstaklega ef lykilleikmenn meiðast. Allavega fyrir okkur og öll önnur ensk lið.

 43. Taka það fram strax að ég er Arsenal maður

  Með Eduardo, pjúra ekki víti. Hann lætur sig falla og markmaðurinn kemur ekki við hann. Ég fyrir mitt leyti get alveg samþykkt það að hann fái tveggja leikja bann, svo framarlega sem aðrir muni fá það líka. Spurningin verður þá: Þarf lið að græða á leikaraskapnum eða skiptir það ekki máli.

  Ef maður leikur inn í teig og þeir skora úr víti á hann þá að fá bann?
  Ef maður leikur inn í teig og þeir skora ekki úr vítinu en reyndu, á hann þá að fá bann?
  Ef maður leikur inn í teig og þeir skora ekki því leikmaðurinn sá að sér og klúðraði viljandi, á hann þá að fá bann?
  Ef maður leikur fyrir utan teig og þeir fá aukaspyrnu sem þeir skora úr, á hann þá að fá bann?
  Ef maður leikur fyrir utan teig og þeir fá aukaspyrnu sem þeir skora ekki úr, á hann þá fá bann?

  Og mér dettur fleiri tilfelli í hug um leikaraskap sem gætu verið vafa atriði.

  Tek það fram að ég hef ekki myndað mér skoðun um þessar spurningar.

  Um Rooney tilfellið þá er ég alveg sammála því að það var víti. Hinsvegar eru atvikin svipuð að því leyti að báðir byrja að falla áður en markmaður snertir. Almunia reynir við boltann en er of seinn en Gordon hættir við í tæka tíð og nær að forðast snertingu. Þannig að sumir myndu segja að Rooney hafi verið heppinn en Eduardo óheppin. Ítreka samt að ég er á þeirri skoðun að Rooney tilfellið hafi verið víti en Eduardo tilfellið ekki, og ég vonaði innilega að hann myndi klúðra vítinu viljandi.

  Hinsvegar er hér áhugaverð grein um smá tölfræði úr Man.Utd. – Arsenal leikjum, þetta gæti náttúrulega átt sínar eðlilegu skýringar. En þegar maður heyrir Rooney tala um að hann spili heiðarlega þá rifjast upp fyrir manni þegar hann lét sig falla á móti Sol Campbell.:

  http://www.skysports.com/story/0,19528,15964_5530011,00.html

 44. Varðandi það þegar verið er að dæma í bönn eftir leiki, þá er það nú oft svo að það er farið eftir afleiðingunum, frekar en brotinu sjálfu. Sbr hvort tveggjafóta tækling meiðir eða brýtur leikmann. ég veit amk ekki um neinn sem hefur fengið 6 eða 11 leiki í bann, fyrir tveggjafóta, nema að hinn leikmaðurinn endi á sjúkrahúsi.

  Þannig að út frá því ætti ekki að vera óeðlilegt að bann fyrir leikaraskap fari eftir afleiðingum dífunnar, frekar en dífunni sjálfri.

Mánudagspælingar…

Chelsea bannað að kaupa leikmenn næsta árið!