Bloggsíða. Þetta er BLOGGsíða.

SSteinn félagi minn setti inn litla færslu hér að neðan til að kynna golfmót Liverpoolklúbbsins á Íslandi 2009. Í kjölfarið varð allt vitlaust í ummælakerfinu þar sem við síðuhaldarar vorum beinlínis skammaðir fyrir að leyfa slíkri færslu að vera efst á síðunni, í stað leikskýrslu við 4-0 sigurinn á miðvikudag og/eða umfjöllun um nýja leikmanninn, Kyrgiakos.

Það skal því að gefnu tilefni tekið fram, svo enginn vafi leiki á, að þetta er BLOGGSÍÐA. Síðan Kop.is ber titilinn Liverpool Bloggið, ekki Liverpool Fréttaveitan, og er mikilvægt að menn reyni að hafa þetta í huga þegar þeir koma hér inn. Við erum sex sem skrifum á þessa síðu og við reynum yfirleitt að fjalla um það sem er að gerast hjá LFC hverju sinni, nú eða bara koma með pælingar út í loftið ef okkur sýnist svo, en við erum EKKI bundnir neinum skyldum að fjalla um hvert einasta fréttnæma efni um leið og það fréttist.

Við erum bloggsíða. Ef þið viljið fá stöðugar uppfærslur frétta bendi ég mönnum á að lesa Liverpool.is sem er uppfærð oftar á dag en við. Þar getið þið lesið nýjustu fréttirnar á íslensku um leið og þær berast, auk þess sem þið getið skoðað mýmargar íslenskar og erlendar fréttasíður þar sem fylgst er með öllu. Þar er nefnilega fólk sem vinnur við að segja fréttir af Liverpool og enskri knattspyrnu.

Við erum bloggsíða. Hér fjöllum við um það sem er að gerast þegar við:

a) Höfum áhuga á að fjalla um það.
b) Höfum tíma til að setja inn færslu.

Þar sem við störfum allir við aðra hluti en þessa síðu höfum við beðið fólk um að sýna biðlund þó það komi ekki alltaf inn færslur samstundis og hlutirnir gerast (svo sem með Kyrgiakos í dag, það mun einhver okkar fjalla um hann fljótlega en við erum ekki í neinu kapphlaupi) og ef það er bið á að inn komi færsla um tiltekið málefni hafa lesendur síðunnar yfirleitt verið duglegir að uppfæra sjálfir í ummælakerfunum og koma umræðunum af stað þar.

Við erum ekki fréttasíða, né heldur í samkeppni við slíkar síður. Hér skrifa Liverpool-áhugamenn um það sem þeim þykir áhugavert hverju sinni. Að þessu sinni þykir okkur golfmótið Liverpool Open 2009 áhugavert og því er fullkomlega eðlilegt að það sé efsta færsla á síðunni, enda er það nýjasta færslan (fyrir utan þessa, að sjálfsögðu) og færslur á síðunni eru einfaldlega birtar í tímaröð, án fordóma.

Við viljum því af gefnu tilefni biðja menn um að sýna síðuhöldurum smá kurteisi og rjúka ekki í ummælakerfin með skammir eða annars konar lágkúrur þegar bið er á færslu um nýjustu Liverpool-tengdu fréttina eða þegar verið er að ræða eitthvað sem ekki allir hafa áhuga á. Ef menn nenna ekki að ræða um golfmót geta menn einfaldlega sleppt umræðum við þá færslu og haldið áfram að ræða Stoke-leikinn í næstu færslu þar fyrir neðan, þar sem ummælin eru enn opin og umræðan í fullum gangi.

Virðingarfyllst,
Kristján Atli og Einar Örn, ritstjórar Kop.is.

25 Comments

 1. Sælir félagar
  Sammála Kristjáni Atla þó mér þyki hann óþarflega pirraður útí umræðu- og fréttaþyrsta Poollara.

  Það er nú þannig.

  YNWA

 2. Ég er mjög sammála þessari færslu.

  Hringi á vælubílinn fyrir aðra.

 3. Heyr heyr!
  Fólk sem skoðar þessa síðu reglulega á bara að vera þakklátt fyrir það að þið nennið að eyða ykkar frítíma í að skrifa hér og halda síðunni við. Ef því líkar ekki við það sem þið skrifið, eða slíkt, þá getur það annað hvort bent síðuhöldurum á það á kurteisan máta, eða farið eitthvert annað.

  Persónulega vil ég þakka ykkur fyrir þessa síðu, hún er (of) stór partur af daglega netrúntinum.

 4. Ég er algerlega sammála þeim félögum.. Þegar að bloggið um golfið kom upp var ég sannfærður um að margir yrðu ósáttir (sem ég skil ekki!). Þetta er ekki “Official Liverpool” síðan svo ef menn vilja blogga um nýja veitingastaðinn sinn, Nýfætt barn, giftingu eða stærð eyrnamergsins sem þeir náðu út í morgun (ekki að ég ætli að bera þessa 3 hluti saman!) Þá er það bara allt í góðu… Ef við höfum ekki áhuga, lesum við það ekki!
  KV. G

 5. les þessa síðu daglega og oft á dag en skrifa sjaldan í þessi ummæladálka!
  ekki láta þessa kjána hafa áhrif á ykkur haldið bara áfram á þessari braut sem þið eruð á og er snilld!

 6. Eina helsta ástæðan af hverju ég er fastagestur hérna er útaf ykkar skoðunum og hva þið eruð helvíti skemmtilegir pennar 😉 það koma stundum pistlar hérna sem eru frábærir til lesningar og fræða mann sitt lítið um liverpool. tilgangur með blogginnu er ekki að gera fjöldanum til hæfis og ég vona svo innilega að þið haldið ykkar striki áfram og geri þessa síðu Legendary 😉

 7. Það er ekki af ástæðulausu að kop.is er ein vinsælasta vefsíða landsins. Það er ekki vegna þess að fólk þyrstir í fréttir. Hér eru snilldarpennar og góð og málefnaleg ummæli við þær (ólíkt flestum öðrum síðum…). Því er útí hött að setja út á tilkynningu um golfmót á síðunni.

  Í guðanna bænum haldið ykkar striki því svona síður eru alls ekki á hverju strái.

 8. Mér finnst þetta nú bara mjög tengt – svipað og að auglýsa árshátíð Liverpool klúbbsins.

  Það er nú bara þannig að þessi frétt/tilkynning/umræða um gólfmót Liverpool klúbbsins á fullan rétt á sér hér að mínu mati – alveg ótrúlegt hvað fólk nennir að eyða tíma og orku í tuð yfir ekki neinu … Það þarf nú enga vísindamenn til þess að nota scroll takkann.

 9. Þessi síða er búin að vera partur af mínum netrúnti í mjög langan tíma og nú orðið meira en liverpool.is sem þó er frábær síða. Að menn hafi verið að pirrast yfir þessu golfmóti er hreinasta firra þar sem það er haldið á vegum Liverpool klúbbsins og þar af leiðandi fullkomlega réttlætanlegt að fjalla um það á þessum vettvangi. Liverpool klúbburinn er lika félagsskapur þar sem menn koma saman og eiga góðar stundir í gegnum sameiginlegt áhugamál og fótbolti þarf ekki endilega að vera aðalatriðið á slíkum stundum. Kristján Atli og Einar Örn eiga heiður skilin fyrir að nenna að halda þessari síðu gangandi sem og þeir pennar sem á hana rita.

 10. Viva kop.is gerið þetta eins og ykkur sýnist skiptir engu máli þó að slæðist með einstaka “plögg”. Þessi síða er frábært framtak og treysti á ykkur að skrifa góðar og málefnalega greinar eins og þið hafið verið að gera í gegnum tíðina.

 11. Ég las hausinn á fréttinn og sá golf og vandamálið var það að ég fór á fótabolti.net. ég skrifa sjaldan en verð að viðurkenna að ég fer sjaldan á Liverpool.is enda umræðan oft leiðinleg. Þegar koma vissir aðilar og reyna skrifa eitthvað þá virkar miðju takkin á músinni vel.
  Takk fyrir skrif ykkar 6 menninga og mér sárnar að þið þurfið að skrifa sérstakalega um þetta.
  Takk fyrir mig

  Sæmi

 12. Æi hvað rugl er þetta, síðueigendur hljóta að mega setja það sem þeir vilja á síðuna sína!
  Frábær síða og ekki hlusta á svona vitleysinga sem vita ekki neitt.

 13. leiðinlegt að fólk skuli ekki átta sig á hvers eðlis þessi síða er og að þeir hinir sömu kunni ekki að meta óeigingjarna vinnu ykkar kop.is penna. Ef að fólk er að elta nýjustu fréttirnar um leið og þær berast er hægt að benda á svona 50 síður sem vel eru til þess fallnar. Það sem ég kann að meta við kop.is er að þær fréttir, sem án efa eru komnar út annarsstaðar, eru settar skemmtilega fram og með þykku lagi af óhlutleysi. Og svo eru náttla upphitanir og leikskýrslur algjört möst í kringum leiki.

  Takk fyrir að standa fyrir uppáhalds síðunni minni, allavega sú sem ég skoða hva mest.

  YNWA, Hafsteinn

 14. Mér finnst þetta nú óþarfa viðkvæmni hjá síðuhöldurum. Það koma 4 einstaklingar og gagnrýna færsluna og þá verða allir brjálaðir. Þessir fjórir mega alveg hafa þessa skoðun þótt hún sé röng. Þið félagar eruð með það góða síðu hérna að þið getið auðveldlega tekið smá gagnrýni. Rétt eins og menn geta varla alltaf verið sammála um það sem snýr að liðinu okkar þá verða menn að fá að hafa skoðanir á síðunni líka.

 15. “Í kjölfarið varð allt vitlaust í ummælakerfinu….”

  Það varð ekki allt vitlaust, heldur voru tveir eða þrír að nöldra. Ekki taka sjálfa ykkur of hátíðlega. Þær eru orðnar heldur kómískar þessar stöðugu áminningar frá Kristjáni Atla um eðli síðunnar í gegnum árin. Ég held að ég geti lofað Því að það er öllum sama um ykkur, strákar mínir. Þið eruð ekkert aðalatriði. Og ef fólk vill ræða um hvað er á síðunni þá eigið þið bara að leyfa þeim það án þess að fara að væla. Í guðanna bænum. Í sambandi við svona rugl eins og kommentin við golffærsluna – ignorið þetta.

 16. Bara húrra fyrir ykkur. Þið standið ykkur með stakri prýði í þessum skrifum og þessi síða er alveg priceless. Ég fer hér einn á hverjum degi, jafnvel oft á dag stundum. Ég myndi svo ekki láta einhverja 2 eða 3 asna skemma fyrir ykkur daginn. Betra að láta það bara liggja á milli hluta.

 17. Ég held nú að það sé enginn að missa svefn yfir þessu og hvað þá að þetta risti djúpt, en persónulega finnst mér í góðu lagi að svara því vel þegar svona röfl byrjar og minna menn aðeins á eðli síðunnar.

  • Ég held að ég geti lofað Því að það er öllum sama um ykkur, strákar mínir. Þið eruð ekkert aðalatriði.

  Haha thanks man! Það er annars oftast stefnan að umræðuefnið sé aðalatriði hérna og ekki mikið reynt að halda öðru fram.

 18. Ívar Örn og Ásgeir, það er fjarri því að við tökum okkur of hátíðlega. Hins vegar hefur borið svolítið á þessu undanfarið, að við erum skammaðir í ummælum fyrir val á umfjöllunarefni eða fyrir að vera seinir að setja inn færslur um e-ð tiltekið, og því fannst mér allt í lagi að koma með áminningu.

  Annars var þetta svo vel orðað hjá þér, Ásgeir. Við erum ekkert aðalatriði, það er alveg rétt. Þú ert svo mikill töffari, Ásgeir. Vá. Rosa töff. Sýndir okkur í tvo heimana.

 19. Sælir félagar

  Komum endilega að tala um eitthvað annað.

  Það er nú þannig

  YNWA

 20. Fín tímasetning að mínu mati… Tímabilið byrjað og ágætis áminning um hvurslags síða þetta er…

  Er ykkur þakklátur fyrir þessa síðu! Ég hef sagt það áður; er seint of oft sagt.

  kv. Sæmund

 21. Voðalega ertu hörundssár Kristján Atli. Slakaðu á. Þetta er ekki hollt.

 22. Atvinnunöldrarar leynast víða, ekki taka það of nærri ykkur. Þetta er topp síða og ein af þeim sem ég rata inná nánast daglega til að fylgjast með LFC. Haldið áfram blogginu hvort sem það er golfmót eða annað.

Liverpool Open 2009

Kyrgiakos skrifar undir!