Liverpool: stórasta lið í heimi!

Að ósk margra í ummælunum er hér komin bjartsýnisfærsla með bjartsýnisfyrirsögn. Það er rétt að taka fram að í þessari færslu er hvergi minnst á þá knattspyrnu sem kann eða kann ekki að hafa verið leikin í gær.

Annars fjallar þessi færsla varla um neitt. Það eru TVEIR dagar í næsta leik, sem væri yfirleitt frekar stutt en virðist sem heil eilífð eftir knattspyrnuna sem mig dreymdi í svitakófi í gær.

Allavega, hér eru nokkrir tenglar sem menn hafa bent á í ummælunum við ímyndaða leikskýrslu mína í gær:

* This is Anfield – greining á leiknum sem var alveg örugglega ekki leikinn í gær, minnir mig. Sýnir glöggt á hverju okkar menn voru að klikka í sóknarleiknum í gær.

* David Pleat, fyrrverandi stjóri Spurs, fjallar um það hvernig leikplan Harry Redknapp gekk vel upp í gær í einhverjum leik sem þeir unnu. Ágætis greining á því hvernig hægt er að stöðva stórasta lið í heimi.

* The Kop End – ný Liverpool-bloggsíða sem virðist ætla að vera mjög góð. Ég hef lengi lesið síður eins og Arseblog, Chelseablog og The Scratching Shed (Leeds-síða) og beðið eftir að það kæmi góð Liverpool-bloggsíða. Kopblog er ágæt en ekki á pari við hinar síðurnar og því er fínt að fá loksins góða Liverpool-bloggsíðu. Hún er ung en ég vona að hún geti haldið dampi í vetur, gæti komið með gott innlegg í Liverpool-umræðuna á netinu í vetur ef svo heldur fram sem horfir.

Að lokum, þá langar mig að minna ykkur á hvað Liverpool eru góðir í fótbolta:

Horfið á fjórða markið, sérstaklega (u.þ.b. 4:45 mín. í myndbandinu). Alonso horfir á á meðan Gerrard og Lucas taka frábært samspil á miðjunni, fyrirliðinn leggur svo upp í epískt gegnumhlaup og Lucas matar hann á hárfínustu stungusendingu Úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili. Svo er sagt að sá brasilíski geti ekki mögulega verið skapandi leikstjórnandi á miðjunni?

Hann getur það alveg. Munurinn á honum og Alonso er að hann er yngri og því kannski erfitt að ætla honum að gera svona hluti reglulega, en hann getur þetta vissulega og ég hef trú á honum fyrir veturinn. Meiri trú en Aquilani, sem er leikmaður sem ég ætla ekki að búast við neinu af fyrr en ég sé spila. En mikið vildi ég að menn hættu að skammast í Lucas þegar hann á enga sök. Skoðið t.d. greiningu This Is Anfield sem ég vísaði á hér að ofan. Er Lucas einhvers staðar tekinn fyrir þar fyrir að hafa ekki valið réttan sendingarkost? Nei, það er fjallað um eldri lykilmenn sem hefðu átt að geta betur.

Allavega, upphitun fyrir Stoke á morgun og svo bíðum við öll spennt eftir að sjá Magga birta samantekna spá okkar fyrir efstu sætin í deildinni í vetur. Þetta er allt að gerast.

14 Comments

 1. Sammála með Lucas, mér fannst hann bara ekki fá boltann nógu oft í leiknum. Hann var oft í ágætri stöðu á miðjunni en þá var boltinn frekar sendur á Mascherano sem snýr baki að marki andstæðinganna og sendir boltann til baka frekar en að líta fram á við.

 2. Í grunninn er ég alveg sammála með Lucas. Bæði greinarhöfundi This is Anfield sem og þér.

  Ég er alveg sammála því að Lucas geti leyst þetta hlutverk leikstjórnandans. Hann hefur þessa náðargáfu sem fáir knattspyrnumenn hafa. Hans náðargáfa er ekki í löppunum – hún er í hausnum.

  En í gær, stóð hann sig gjörsamlega herfilega í þessu hlutverki.

  Ástæðan fyrir því að fremstu menn Liverpool liðsins (Torres, Kuyt, Babel) litu út eins og old boys klúbbur á Ísafirði var sú að það var týndur hlekkur í keðjunni. Sá sem átti að mata þá á sendingum mætti ekki í vinnuna.

  Svo ég leggi ennfrekari áherslu á orð mín. Lucas Leiva var gjörsamlega ömurlega hryllilega viðbjóðslega lélegur í leiknum í gær.

  Með þessum orðum mínum er ég ekki að drulla yfir hann sem fótboltamann. Ég veit að þetta er frábær knattspyrnumaður. Ég veit að hann hefur hæfileika til þess að leysa þetta hlutverk og ég veit það er ekki ósanngjarnt að ætlast til þess af honum. Ég ætla ekki að hengja Dirk Kuyt fyrir að vera ekki jafn teknískur og Crynaldo. Því síður ætla ég að hengja Ayala ef hann stendur sig ekki á móti Stoke. Í þeim tilvikum eru takmarkanir leikmannanna fólgnir í getuleysi/reynsluleysi.

  Lucas Leiva er ekki minni máttar leikmaður. Þetta er hágæða knattspyrnumaður. Maður sem getur dreift spilinu(þó hann verði e.t.v. aldrei jafn góður í því hlutverki og Xabi Alonso). En í gær var hann ekki að sinna því hlutverki. Þó Max Munton velji að taka dæmi af Torres og Kuyt hefði hann getað tekið 10-20 dæmi af Lucas Leiva (misgóð).

  Það var ekkert vision í spilamennsku Lucasar í gær. Hann er vissulega góður sendingamaður og sendingar hans rötuðu því alltaf á rétta aðila, en hann virtist ekki hafa neinn áhuga á því að leita eftir réttustu sendingunni, því síður fylgi henni eftir með því að hlaupa í svæði biðja um boltann aftur og skipta honum yfir – eins og algengt var með Xabi. Til að súmmera upp leik Lucasar í gær man ég sérstaklega eftir einu dæmi sem var sérstaklega átakanlegt. Hann var staddur inn í miðjuhringnum með boltann – enginn Tottenham maður nálægt. Án þess að líta í kringum sig eða skeiða fram völlin til að koma sjálfum sér leikstjórnandanum í betri sendingastöðu gefur hann boltann á Mascherano sem er staddur tveim metrum frá honum samsíða. Mascherano þurfti þá að finna mann í fætur.

  Þetta er náttúrlega ekkert annað en óöryggi og skortur sjálfstrausti. Það vantar allt malt í hann. En málið er að við erum ekki að tala um einhvern gutta sem er nýskriðin uppúr varaliðinu. Hann er að hefja sitt þriðja ár hjá Liverpool. Helsti keppinautur hans um sæti í liðinu er farinn á brott. Næstu vikurnar er sviðið algjörlega hans. Rafa og Lfc.tv eru búinn að dæla í hann hrósi seinustu vikurnar til að peppa manninn upp og fylla hann trausti – ég held svei mér þá að Liverpool sé með PR-mann í fullri vinnu við að telja stuðningsmönnum liðsins, en ekki síst honum sjálfum trú um að honum sé treystandi fyrir þessu hlutverki.

  En ef þessi áskorun dugar ekki til þess að maðurinn sýni hæfileika sýna, þá veit ég ekki hvað þarf til.

 3. það væri snild ef Lucas eigi eftir að blómstra á þessari leiktíð, hef tröllatrú á þessum GAUR!

 4. Hef mikla trú á Lucas, maður verður ekki efnilegasti kanntspyrnumaður Brasilíu fyrir ekki neitt. Það er undir honum komið að réttlæta þessa ofurtrú á honum.
  Hvernig væri að far að greina Babel meira en Lucas. Ég get haldið því fram án þess að vera hrokafullur að ég sé betri leikmaður en Babel miðað við frammistöður hans í gær og á síðustu leiktíð. Allt sem hann gerir í leik sínum verður klaufalegt, hann veit ekkert hvað hann er að gera og hann er fyrirsjáanlegri en allt. Væri til í svona greiningu á Babel eins og þið eruð að gera með Lucas. Ég hafði trú á Babel en hann er að troða þeirri trú einhverstaðar þar sem sólin aldrei skín.

 5. Ég er algjörlega sammála síðasta ræðumanni. Hvað er í gangi hjá Babel? Það má með sanni segja að hann taki upp þráðinn þar sem frá var horfið frá síðustu leiktíð.

 6. Ég hef greinilega horft á annan leik en Kristinn 2# því mér fannst Lucas bara koma ágætlega frá sínu. Strákurinn er ungur og ekki hægt að ætlast til þess að maðurinn geti borið upp liðið þegar hinir eru að spila illa.
  Virkilega erfitt að mata sóknarmennina með góðum sendingum þegar þeir eru hreinlega ekki að bjóða upp á sendingar, manni fannst stundum eins og þeim langaði bara hreinlega ekki að fá boltann.
  Miðjumenn Tottenham voru að eiga virkilega góðan leik og pressuðu mikið á okkar menn. Og oftar en ekki fékk Lucas boltann með 2-3 menn í kringum sig, hann náði að halda boltanum vel og gefa boltan vel frá sér þrátt fyrir að vera undir mikilli pressu.
  Verð þó að vera sammála að nú er þetta hans tími, hann er búinn að vera hjá okkur lengi og nú kemur í ljós hvort hann verður að einhverju eða ekki. Getur ekki alltaf falið sig bak við það að vera ungur 😉

 7. ,, ekki hægt að ætlast til þess að maðurinn geti borið upp liðið þegar hinir eru að spila illa”

  Það er hlutverk leikstjórnandans að spila aðra leikmenn inn í leikinn og það er vel hægt að ætlast til þess af honum. Hann getur það og hann kann það.

  Það sem vantaði algjörlega í leik Lucasar, var það að fylgja sendingunni eftir.

  Hlutverk leikstjórnandans:
  1. Gefa boltann – 2. Fylgja sendingunni eftir með því að hlaupa í svæði – 3. bjóða sig og fá boltann aftur – 4. spila boltanum áfram.

  Lucas lét 1. þrepið nægja. Valdi auðveldasta kost við að koma boltanum frá sér og andaði út og taldi hlutverki sínu lokið í þeirri sókninni.

  Aldrei litið upp og valinn réttasti kosturinn. Aldrei hlaupið með boltann í opin svæði til að finna aðra sendingarmöguleika og brjóta upp varnarleik andstæðinganna. Sendingum aldrei fylgt eftir.

  Sem hafði þær afleiðingar fremstu menn liðsins fengu enga aðstoð með boltann. Tottenham menn pressuðu þá strax og possession glataðist um leið. Þar er ekki við Mascherano að sakast. Það er ekki hans hlutverk í liðinu að bjóða sig og hjálpa til í sókninni. Þar er heldur ekki við fjóra fremstu menn að sakast. Þeir eiga ekki að þurfa að draga sig út til að fá boltann.

  Þar er einungis við Lucas Leiva að sakast.

  Þrátt fyrir ömurleik Liverpool liðsins í gær fannst manni leikmenn liðsins vera að hlaupa mun meira enn í leikjum liðsins í fyrra. Of mikið bil var á milli manna í sóknarleiknum – ávallt var langt í næsta mann og til þess að færa boltann þangað þurftu menn að covera óþarflega stór svæði á vellinum. Það eru hlaup sem koma menn úr stöðum og draga úr sóknarþunga okkar fremstu manna. Þar er enn og aftur við skort á leikstjórn liðsins að sakast. Þar sem arkitekt vantaði á miðjuna.

  Eigi Liverpool liðið að geta fúnkerað án þess að Lucas Leiva færi leik sinn á það level sem hann ætti að vera á mun það krefjast mikils viðbótarvinnuframlags af Gerrard, Torres og köntunum tveimur. Þeir munu þurfa að draga sig aftar til að fá boltann sem eins og fyrr segir munn fækka mönnum í fremstu línu. Þeir munu þurfa að hlaupa miklu meira sem mun kosta dýrmæta orku sem hingað til hefur verið hægt að nýta í það að keyra á varnarlínu andstæðinganna. Það sóknardúó sem við þekkjum í Gerrard og Torres – án efa það besta í heimi – er ekki vant því að þurfa að sækja boltann. Þeir eru vanir því að fá boltann til sín.

  Gerrard og Torres munu ávallt vera framúrskarandi knattspyrnumenn. En þurfi þeir að sækja boltann mun sóknarleikur þeirra aldrei vera jafn effektívur og hann hefur verið hingað til. Auk þess sem Kyut mun ekki geta djöflast og pressað varnarmenn jafn framarlega á vellinum og hingað til þurfi hann að draga sig aftar til að fá boltann.

  Eftir leikinn í gær var ég jafnvel kominn á þá skoðun að færa Gerrard aftur á miðjuna (með öllum þeim ókostum sem slíku myndi fylgja) og setja Benayoun í holuna. En eftir ítarlegri umhugsun vill ég hafa skipulag liðsins óbreytt. Lucas getur leyst þetta hlutverk og hann skal gera það. Mér er sama hvaða aðferðum Rafa þarf að beita til að troða því í hausinn á honum. Það skal takast og ég vill sjá Lucas spila hverja einustu mínútu þangað til hann er búinn að ná þessu hlutverki upp á 10.

  Þegar það gerist ætla ég að skoða töfluna og sjá hvort við séum ennþá í baráttunni.

 8. Kristinn, þú ert eins og svo margir, að mínu mati, að falla í þá gryfju að reyna að kenna Lucas um allt sem miður fer. Eftir tapleik eins og þennan í gær eru aðrir leikmenn varla nefndir (nema kannski Babel sem hefur verið svipað gagnrýndur og oft jafn ósanngjarnt og Lucas).

  Ég skal endurtaka fyrir þig það sem ég sagði í skýrslunni í gær:

  -> Lucas var ekki neitt sérstaklega góður í gær. Hann reyndi en algjör skortur á frammistöðu hjá Mascherano og Gerrard, sem voru talsvert verri en hann, gerði það að verkum að hann mátti sín lítils gegn sterkri miðju Spurs. Það er enginn að segja að hann hafi verið frábær og ekkert gert vitlaust heldur er bara verið að reyna að róa menn og benda á að þetta var langt því frá allt honum að kenna.

  -> Gerrard og Mascherano, eins og ég nefndi í skýrslunni, voru hörmulegir í gær. HÖRMULEGIR, svo lélegir að það eru einhver ár síðan ég sá þá svona slappa. Sama má segja um Torres (lélegasta frammistaða í rauðri treyju) og Carra (það versta sem ég hef séð lengi). Skrtel gaf Keane í tvígang í fyrri hálfleik allt of mikið pláss en þá reddaði Reina honum, Modric fíflaði Johnson löngum stundum og Insúa réði ekkert við Lennon, sérstaklega í seinni hálfleik. Babel og Kuyt voru svo bara áhorfendur.

  -> ÞRÁTT FYRIR ÞETTA vilja menn bara tala um Lucas. Þetta var allt honum að kenna. Það er það sem ég skil ekki og er að reyna að berjast gegn.

  -> Eitt enn sem er vert að nefna: Alonso er frábær leikmaður en hann er ekki Guð og því síður óskeikull. Hann lék í þessum sama tapleik fyrir tæpu ári síðan. Hann skeit líka á sig gegn Middlesbrough í seinni tapleik okkar í fyrra, skoraði þá m.a.s. sjálfsmark gegn Boro. Hann átti á heildina frábært tímabil í fyrra og eins frábært fyrsta tímabil fyrir Liverpool en þar á milli komu ÞRJÚ mjög óstöðug tímabil þar sem hann náði eiginlega bara í stöku leikjum eða á stöku köflum að spila af þeirri getu sem við vissum að hann gæti náð.

  -> Alonso er 27 ára, var 22 ára þegar hann kom til okkar. Lucas kom tvítugur til okkar og er annað hvort að verða eða nýorðinn 23ja ára. Hversu góðir voru Alonso, Gerrard, Lampard, Makelele, Pirlo og fleiri þegar þeir voru á þessum aldri? Hann er ungur, hann er að læra og eins og með Gerrard á þessum aldri verður hann að fá að gera mistök og ÞROSKAST í stöðuna án þess að menn heimti aftöku í hvert sinn sem hann átti mislukkaða sendingu (sem hann gerði aðeins einu sinni í gær skv. tölfræði Guardian).

  Sem sagt, það er með öllu fáránlegt og einnig yfirgengilega þreytandi að ætla að kenna Lucas um ALLT sem aflaga fer í vetur. Hann er ekki Alonso, né heldur Aquilani, og hann spilar miðjustöðuna á sinn hátt. Hann mun skora mörk í vetur og eiga stoðsendingar, hann mun eiga frábæra leiki og lélega leiki (og svona lala leiki eins og í gær), en vonandi mun hann á endanum þroskast í að vera ómissandi í liðinu.

  Sem samanburð mætti tala um hinn unga brassann í Norðvestur Englandi, Anderson hjá United. Hann er jafngamall Lucas og var settur strax í liðið hjá United. Þar hefur hann spilað við hlið þaulreyndra lykilmanna eins og Scholes, Giggs, Carrick, Fletcher og fleiri sem geta borið liðið uppi hvort sem hann er að eiga ójafnan dag eða ekki. Hann hefur ekki enn sýnt það sem til er ætlast af honum og hefur ekki einu sinni skorað mark fyrir United ennþá, en samt kostaði hann fjórfalt meira en Lucas. Samt er enginn hjá United að missa saur yfir frammistöðu hans, þar eru menn þolinmóðir því þeir vita að hann þarf tíma til að þroskast í stöðuna og vilja frekar setja pressu á lykilmennina að bera liðið uppi.

  Það virðast aðdáendur Liverpool ekki gera. Það ræðir enginn frammistöður Carra, Skrtel, Mascherano, Gerrard, Kuyt og Torres, sem eru mæna liðsins og áttu m.a. að veita leikstjórnanda eins og Lucas vernd í gær en gerðu það ekki. Lucas var ekki góður í gær en í alvöru, hvaða 23ja ára miðjumaður hefði verið það með liðið í kringum sig í jafn mikilli óreiðu og var í gær?

  Látið Lucas vera. Það er bara búinn einn leikur og þetta er þegar orðið þreytt. Það er einfaldlega ekki raunhæft að halda að allt muni lagast með því einu að henda honum í varaliðið og ef þið haldið að Liverpool myndu vinna alla leiki ef þeir bara hefðu Alonso í stað Lucas á miðjunni hafið þið ekki verið að horfa á þetta lið spila, með Alonso í liðinu, síðustu fimm ár.

 9. Eigum við ekki bara að kalla þetta Paco syndrom? Nú er Alonso farinn og það mun koma fram í öllum ummælum hér eftir tapleiki að ef við hefðum bara haft Alonso þá hefðum við unnið leikinn. Þannig er salan hans gerð að blóraböggli fyrir slakt gengi í leikjum. Hvort sem það verður tapleikur eins og sá á móti Tottenham sem er lélegur, eða leikur þar sem við yfirspilum andstæðingana en náum ekki inn sigurmarkinu. Þegar fitness þjálfarinn Paco hætti hjá Liverpool á sínum tíma var það upphafið og endirinn að öllu því sem fór úrskeiðis hjá Liverpool, nú verður það salan á Alonso. Rétt eins og ummæli Benitez um utd á sínum tíma áttu að vera ástæða þess að við gerðum einhver jafntefli.
  Utd tapaði að ég held fjórum leikjum á síðasta tímabili og urðu samt meistarar. Við töpuðum þessum sama leik á móti tottenham í fyrra en vorum þó ekki nema fjórum stigum á eftir þeim. Ef við vinnum Stoke á miðvikudaginn þá erum við strax komnir með 2 stigum meira en í fyrra. Þá þarf bara að vinna einn sigur í viðbót við þann fjölda sem vannst í fyrra og þá verðum við meistarar? Er það ekki?

 10. Nákvæmlega Kristján Atli, það er óþolandi þegar alltaf er reynt að skella skuldinni á einn leikmann þegar allt liðið var í ruglinu. Lucas (og Babel líka) þarf tíma til að spila sig í gang.

 11. Ég held að aðalástæðan fyrir því að Lucas fær á sig svona mikla umfjöllun þó að aðrir hafi jafnvel átt verri leik er sú að bæði er hann að koma í stöðu Alonso sem er ekkert grín að gera og eins vegna þess að við SKÍTTÖPUÐUM miðjunni í þessum leik, það er eitthvað sem við erum bara hreinlega ekkert sérstaklega vanir að gera, ekki svona áberandi.

  Við vitum hvað flestir hinir geta (Gerrard, JM og co.) ef Lucas vill fylla skarð Alonso þarf það að gerast afar fljótlega, við megum bara ekki við mörgum leikjum eins og í gær. Að mínu mati fannst mér leikur Lucas sýna nokkuð greinilega hvað við söknum Alonso.
  En á móti kemur þá var þetta fyrsti leikur og það á erfiðum útivelli gegn sterku liði (ekki heimaleikur gegn nýliðum t.a.m.) og eins þá eigum við nú ennþá eftir að sjá manninn sem var keyptur í stað Alonso.

  Ég hef samt ennþá ágæta trú á Lucas og hef reyndar alltaf haft, það var líka óvenju mikið óöryggi í vörninni sem ruglar öllu liðinu og að mínu mati fannst mér Benayoon sýna svolítið hvað Babel og Kuyt höfðu verið slappir í leiknum þegar hann kom inná. Það fór strax eitthvað að gerast í sóknarleiknum hjá okkur. Fyrir mér er það reyndar frekar augljóst að Babel er jafn lítill kanntmaður og Kuyt er sóknarmaður.

  Við VERÐUM að bæta hópinn um 2-3 leikmenn fyrir lok leikmannagluggans, annars verður erfitt að dæma þennan sumarglugga, sem ekkert mátti útaf bregða í, sem hrein og klár vonbrigði.

 12. Jú, svo ég haldi öllu til haga þá verður þessi frammistaða liðsins ekki eingöngu skrifuð á skort á leikstjórnanda. Samstuð Carra og Skrtel hafði held ég mikið að segja líka. Mér fannst Liverpool vera að komast ágætlega inn í leikinn áður en þeir rotuðu hvorn annan. Auk þess að þeir voru báðir meiddir eftir þetta atvik þá held ég að það hafi dreift óöryggi í liðið í heild sinni. Leikmenn vissu það að báðir miðverðir liðsins voru vægast sagt tæpir og þeir sem á bekknum voru ekki tilbúnir í verkefnið.

  Semsagt það var tvennt sem gerði það að verkum að svo fór sem fór. Árás Carragher á Skrtel og slök frammistaða Lucasar.

  Þú talar um að Mascherano hafi verið slakur i gær. Ok, það hefur farið framhjá mér – fylgdist ekki með honum sérstaklega. Fannst þér hann lélegur sóknarlega eða varnarlega eða bæði? Persónulega sýndist mér hann vera eins og hann á að sér að vera öruggur í sínu hlutverki hafði sig lítið í frammi sóknarlega (finnst þó sprettum hans frammá við sífellt fjölga.) Eiginlega fannst mér Mascherano vera sá leikmaður sem hjálpaði Lucas hvað mest sóknarlega. En ég endurtek – fylgdist ekkert sérstaklega með honum. Sömu sögu má segja um Glen Johnson og Insua. Það er í raun ekki fyrr en ég pæli í því núna – jú þeir áttu í talsverðum erfiðleikum.

  En persónulega fylgdist ég ekki jafn grannt með varnarleiknum og sóknarleiknum og þar af leiðandi ekkert sérstaklega dómbær á varnarleikinn í þessum leik.

  En hinsvegar er það alveg eðlilegt að þar sem liðinu gekk herfilega að halda boltanum innan liðsins – Tottenham voru gífurlega fljótir að vinna boltann aftur – að meira hafi reynt á varnarmennina en venjulega – og vankantar þeirra hafi verið meir áberandi fyrir vikið.

  En fremstu fjórir menn sáust ekki í leiknum. Ég held við séum öll sammála um það.
  Ástæður þess eru hinsvegar deiluefnið og ég held ég hafi útskýrt mína afstöðu til þess nú þegar.

  Að bera Lucas saman við einhvern fringe miðjumann hjá Sir Alex Fergusyni finnst mér síðan engan veginn halda vatni. Hlutverk þessara tveggja leikmanna eru gjörólík, þetta eru gjörólíkir leikmenn í knattspyrnuliðum sem eru eins og svart og hvítt. Annar knattspyrnustjórinn nálgast leikinn út frá skipulagi, skipulagi og skipulagi með leikstjóra á miðjunni á meðan Sir Alex spilar óreiðukenndan spunafótbolta og hlutverk manna eftir því.

  Er verið að gera of miklar kröfur til Lucasar? Persónulega tel ég það vera algjört kjaftæði. Mér finnst menn vanmeta hann mjög mikið sem leikmann (rétt eins og menn vanmeta það hlutverk sem Xabi í liðinu) og alveg eins og hann vanmetur sjálfan sig.

  Hversu góðir og slæmir ákveðnir leikmenn voru á ákveðnum aldri og hversu mikla eða litla þolinmæði stuðningsmenn Manchester United hafa gagnvart ákveðnum leikmönnum gerir mig ekkert minna áhyggjufullan gagnvart þeim vandamálum sem Liverpool liðið stendur frammi fyrir í dag.

  Ég hef engan áhuga á því að standa í debat um það hvort Lucas sé góður eða lélegur leikmaður. Hann er frábær leikmaður. Af fremstu knattspyrnumönnum í heiminum er Lucas Leiva einn af fáum sem hefur nægilegt football intelligence til þess að stjórna spili liðs sem er í fremsta gæðaflokki og er jafn taktískt og Liverpool liðið er.

  Ef hann sinnir ekki því hlutverki þá erum við í vandræðum. Þá þurfum við að gjörbreyta leik okkar. Sem mun hinsvegar gerast engu að síður þegar Aquilani mun koma inn í liðið. Sú breyting á skipulagi Liverpool-liðsins held ég að sé mun drastískari en menn gera sér grein fyrir. Hún gæti gert liðið enn betra til lengri tíma liðið – og það kæmi mér ekkert á óvart. En breytingin sjálf mun vera löng, erfið og sársaukafull. Lucas Leiva gæti þar virkað sem millibilsástand – plástur á sárin. Og þá er ég ekki að tala um næstu tvo leiki, heldur miklu frekar næstu tvö árin. Ef hann sinnir ekki því hlutverki þá erum við í vandræðum.

  Meðal annars vegna þess hversu mikið Gerrard og Torres munu þurfa að breyta leik sínum.

  Eins og áður hefur komið fram hefur Rafael Benitez leitað talsvert mikið í smiðju Arrigo Sacchi sem tók jafnframt mikið úr smiðju Rinus Michels.

  Rinus Michels mótaði leikskipulag Ajax og Hollenska landsliðsins á stórbrotin hátt þar sem hver einasti leikmaður var framúrskarandi taktískt séð og Johann Cruyff herforinginn – líklega besti knattspyrnustjóri sögunnar. Þegar Sacchi tók Total Football upp á sína arma keypti hann Van Basten, Gullit og Rijkaard. Þrír Hollendingar sem höfðu verið skólaðir upp á 10 taktískt séð. Auk þess var hann með leikmenn eins og Ancelotti sem voru svo áfjáðir í taktískar æfingar að þeir vældu í þjálfaranum ef það voru tvær æfingar í röð – ótaktískar.

  Þetta eru þau lið sem Rafael Benitez hefur verið að reyna að emuleita og á endanum bæta. Þrátt fyrir að vera stórkostlegir knattspyrnumenn þá eru Fernando Torres og Steven Gerrard ekki jafn sterkir leikmenn taktískt séð og helstu leikmenn í liðum Rinus Michels og Arrigo Saachi. Að hafa framúrskarandi leikstjórnanda í liði sínu sem hefur hinsvegar gert Rafael Benitez kleift að hafa í liði sínu leikmenn sem eru ekki jafn sterkir á svellinu taktískt séð og hans eigið leikskipulag gerir kröfu um.

  Ég er ekki að heimta neina aftöku. Ég vona að það sé alveg klárt. Lucas Leiva er framúrskarandi leikmaður. Að lokum ætla ég að enda þessa langloku á sama hátt og ég endaði þá seinustu – svo það komist örugglega til skila.

  Eftir leikinn í gær var ég jafnvel kominn á þá skoðun að færa Gerrard aftur á miðjuna (með öllum þeim ókostum sem slíku myndi fylgja) og setja Benayoun í holuna. En eftir ítarlegri umhugsun vill ég hafa skipulag liðsins óbreytt. Lucas getur leyst þetta hlutverk og hann skal gera það. Mér er sama hvaða aðferðum Rafa þarf að beita til að troða því í hausinn á honum. Það skal takast og ég vill sjá Lucas spila hverja einustu mínútu þangað til hann er búinn að ná þessu hlutverki upp á 10.

  Þegar það gerist ætla ég að skoða töfluna og sjá hvort við séum ennþá í baráttunni.

 13. svo nátturlega 4-1 manu og 4-0 real madrid og svo 5-0 blackurn og svo framvegiis…:) áfram LIVERPOOL!!!

 14. Ég vildi að ég hefði einhverja trú á Lucas, en hann hefur fengið tækifærin og ekki nýtt þau nægilega vel. Ein frábær lukkusending á móti Newcastle í fyrra segir bara afskaplega lítið. Maður sér bara á honum að hann er með ekkert sjálftraust. Kannski kemur það á þessu tímabili en ég efast um það. Mér finnst þó ósanngjarnt að taka hann fyrir útaf leiknum gegn Spurs því hann var alveg jafn lélegur og Gerrard, Torres og Carragher. En hinir síðarnefndu leikmenn teljast til lykilmanna liðsins og Gerrard og Torres til topp 10 leikmanna í Evrópu í dag. Ég geri kröfu um að þeir standi sig vel í hverjum leik, en kröfur mínar til Lucas er að hann komist vel frá leiknum og bæti sig og öðlist meira sjálfstraust.

  Samanburðurinn milli Aquilani og Lucas er í sjálfu sér eðlilegur, enda munu þeir báðir þurfa að fylla í skarðið sem Alonso skildi eftir sig. Mér finnst þó Aquilani bara MIKLU betri leikmaður en Lucas og betri en Alonso í heildina, þó svo að Alonso var nú betri leikstjórnandi.

Tottenham 2 – Liverpool 1

Við. Erum. BLANKIR! – Uppfært