Spá Kop.is sæti 7 – 13

Sæl öll.

Af persónulegum ástæðum lenti ég í því að þurfa að fresta uppfærslu spárinnar okkar, en ef allt gengur vel ætti ég að ná að koma spánni af mér í dag og á morgun, við byrjum allavega á sæti 7 – 13.

13.sæti Bolton Wanderers 41 stig.

Leikmannahópur, kaup, sölur og kjaftasögur

Við teljum Grétar Steins og félaga á Reebok verða á sama báti og Stoke City, standi rétt ofan við fallbaráttuna en dragist þó ekki af krafti oní hana. Gary Megson er búinn að koma sér upp líkamlega sterku liði sem erfitt er að vinna, þó leikstíllinn sé nú ekki sá skemmtilegasti í deildinni. Öruggt sæti í deildinni áfram…

Fylgjumst með: Kevin Davies. Markakóngur liðsins síðustu ár og alger lykilmaður í sóknarleiknum. Auðvitað erum við svo að skoða Grétar líka, sem jafnvel gæti færst til innan liðsins, í hafsentinn eða á miðjunna eftir kaup á hægri bakverði til liðsins í sumar.

12.sæti Blackburn Rovers 55 stig

Leikmannahópur, kaup, sölur og kjaftasögur

Við teljum að blaðurskjóðan tapsára og leiðinlega, Sam Allardyce, stýri skútunni sinni í miðjumoð eins og hann er að verða sérfræðingur í. Í raun held ég að ég bara segi ekkert meir, því ég held að ég sé hreinlega með ofnæmi fyrir umræðu um liðið vegna stjórans eftir síðustu heimsókn hans á Anfield.

Fylgjumst með: El Hadji-Diouf. Skilst að Diouf sé mesti töffari heimssögunnar, sem lítið mark tekur á öðrum en sjálfum sér og er alger sérfræðingur í að fá heilu leikvellina, borgir og löndin á móti sér. En hann er hæfileikaríkur og stendur að baki flestra marka Blackburn, sérstaklega í opnum leik.

11.sæti Fulham 63 stig.

Leikmannahópur, kaup, sölur og kjaftasögur

Fulham var án vafa spútniklið síðasta tímabils undir styrkri stjórn reynslurefsins Roy Hodgson. Gríðarsterkur varnarleikur gaf af sér lið sem tapaði fáum leikjum, gerði töluvert af jafnteflum og gerði Craven Cottage að miklu heimavallarvígi. Við teljum liðið verða um miðja deild, en þátttaka þeirra í Evrópudeildinni geti reynst þeim fjötur um fót og lítill leikmannahópur verði til þess að liðið verði aðeins neðar en í fyrra. Áfram verður Craven Cottage einn erfiðasti útivöllur deildarinnar.

Fylgjumst með: Brede Hangeland. Mikið mæðir á norska risanum sem flest stórliðin hafa verið að renna hýrum augum að og miklu máli skiptir fyrir þá hvítu að hann verði þar áfram. Gríðarlegur nagli sem smitar út frá sér baráttuanda.

10.sæti Sunderland 66 stig.

Leikmannahópur, kaup, sölur og kjaftasögur

Fyrsta liðið á topp tíu eru einu fulltrúar norðaustursins í ensku úrvalsdeildinni þetta tímabilið. Gríðarlegum, gríðarlegum upphæðum hefur verið varið í þetta lið á undanförnum tveimur árum en einhvernveginn náð að fara hljótt með það. Í sumar hafa þeir haldið sama strikinu, keyptu fyrst framkvæmdastjórann Steve Bruce, sem hefur gert það að sínu aðalviðfangsefni að hirða stig og leiki af Liverpool, og síðan hafa þeir styrkt liðið verulega á miðjunni og frammi. Við teljum Sunderland vera öruggt um miðja deild og gætu blandað sér í baráttuna um Evrópudeildarsæti ef þeir byrja vel.

Fylgjumst með: Darren Bent. Framherjinn knái var keyptur frá Tottenham í sumar og hefur heilmikla hæfileika sem ekki sprungu út á síðasta tímabili. Hefur mikið markanef og góðar staðsetningar, en er ekki alltaf með góða nýtingu dauðafæra. Er að reyna að komast í HM hóp Englendinga og það eykur enn á grimmdina hjá honum.

9.sæti West Ham United 67 stig

Leikmannahópur, kaup, sölur og kjaftasögur

Liðið okkar (þjóðareign muniði) í London teljum við að eigi hið ágætasta tímabil framundan, sigli lygnan sjó um miðju, gæti barist um Evrópudeildarsæti og fari langt í einni bikarkeppnanna. Við höfum allir mikla trú á Gianfranco Zola, sem virðist vera kominn af stað með nýtt Hamralið byggt á gríðaröflugu unglingastarfi félagsins, með léttleikann að vopni. Þó er lykilatriði í þeirra herbúðum að lítið verði um meiðsli því hópurinn er lítill og að liðið geti styrkt sig áður en glugginn lokar. Þá ætti West Ham að vera í fínum málum í efri hlutanum.

Fylgjumst með: Mark Noble. Öflugur nagli á miðjunni sem er líka ágætur að spila boltanum og á þátt í grunnuppbyggingu flestra sókna liðsins. Svo teljum við nú líklegt að Eiður nokkur Guðjohnsen komi í treyju West Ham í vetur og ætti að falla sem flís við rass í það lið.

8.sæti Everton 82 stig

Leikmannahópur, kaup, sölur og kjaftasögur

Við teljum litla liðið í Liverpool rétt missa af sæti í Evrópudeildinni þetta árið, einfaldlega vegna þess að þeir ná ekki að fylgja fjáraustri nokkurra liða í kringum sig og missi því einhver þeirra framúr. David Moyes er vissulega góður stjóri sem nær miklu út úr sínum mannskap, en í ár dugar það ekki nema í 8.sætið, neðar ef þeir missa Lescott frá sér!

Fylgjumst með: Mikel Arteta. Valdi hann naumlega fram yfir Cahill, því hann er skemmtilegri fótboltamaður en Cahill. Hefur allt sem góður miðjumaður þarf og í raun ótrúlegt að hann sé enn að spila með liðinu!

7.sæti Aston Villa 87 stig

Leikmannahópur, kaup, sölur og kjaftasögur

Lærisveinar Martin O’Neill misstu dampinn illilega seinni part tímabilsins í fyrra og við höldum að þeir falli um eitt sæti. Þeir þurfa að finna gleðina á ný og erfitt verður að fylla skarð Barry og Laursen í vetur. Nýju mennirnir munu styrkja liðið en tíma mun taka að slípa liðið saman. Evrópudeildarsæti verður hlutskiptið í lok tímabils og hitna fer undir O’Neill….

Fylgjumst með: Ashley Young. Öskufljótur vængmaður af gamla skólanum. Gengi liðsins í fyrra hélst einfaldlega í hendur við frammistöðu hans. Lykillinn að sóknarleik liðsins.

Tottenham á morgun

Liðið komið!