Spánverjar

Jæja, Álfukeppninni lauk í kvöld. Brasilíumenn mörðu sigur á USofA í þrælskemmtilegum leik. Fyrr um daginn tryggði Xabi Alonso, leikmaður Liverpool, Spánverjum þriðja sætið í framlengingu gegn S-Afríku. Nú er knattspyrnutímabilinu í stóru deildum Evrópu opinberlega lokið og allir, loksins, farnir í sumarfrí.

Það er ljóst að við ættum að fá lokaorðið, af eða á, hvað varðar Arbeloa og Alonso á næstu dögum. Umboðsmaður Arbeloa segir að hann vilji ganga til liðs við Real Madrid. Ég skil það vel, hann veit sennilega að hann á ekki jafn greiðan aðgang í byrjunarliðið eftir komu Glen Johnson, og þar sem hann á bara eitt ár eftir af samningi sínum við Liverpool er ljóst að okkar menn munu selja hann í sumar ef hann vill ekki framlengja. Ég sé bara eina niðurstöðu í þessu – hann verður seldur til Real.

Það eina sem ég hef áhyggjur af er hvað það gerir hópnum okkar í vetur – í fyrra spilaði Arby 29 af 38 deildarleikjum, og hefði sennilega spilað þá alla ef hann hefði verið heill heilsu. Það náðist þó ekki og í hvert skipti sem hann missti úr leik þurftu annað hvort Carra eða Skrtel að kóvera bakvarðastöðuna þar sem Degen var alltaf meiddur og Rafa virtist ekki treysta Stephen Darby í toppbaráttuna. Ef Glen Johnson getur haldið sér heilum og spilað heila 38 leiki í vetur verður þetta ekkert vandamál, en ef hann er meiddur sé ég ekki alveg hvernig Rafa þykist hafa leyst vandamálið með breiddina í hægri bakverði með því að kaupa Glendu og selja Arby.

Úps. Glenda. Ég kallaði Johnson alltaf Glendu þegar hann lék fyrir Chelsea (las það e-r staðar á netinu og það bara festist í mér). Ég verð víst að venjast því að gefa honum virðulegra uppnefni. Hvað með The Glendinator? Nei, það hljómar eins og snyrtitæki fyrir prívatparta kvenna. Ég þarf að hugsa þetta aðeins betur.

Allavega, það verður ekki bara framtíð Arbeloa sem ræðst á næstu dögum heldur fáum við væntanlega einhvern botn í mál Alonso og Mascherano líka. Að mínu mati getum við bókað að Rafa vill alls ekki selja þá og því verður það aðeins gert ef annar eða báðir þeirra heimtar að fá að fara. Gerist það munum við örugglega sjá Rafa reyna að keyra sölu í gegn eins hratt og auðið er til að gefa sjálfum sér tíma til að kaupa réttan mann eða menn í þeirra stað. Eins er ég nokkuð viss um að við munum aldrei selja þá báða, það væri einfaldlega of stór missir (svona eins og að missa C. Ronaldo og Tévez í sama mánuðinum … ).

Ætli það sé ekki líklegra að Alonso fari? Við höfum lítið heyrt af þessu Mascherano-máli undanfarna daga og þó er Javier búinn að vera í fríi og í kjöraðstöðu til að klára sín mál, ef hann vill fara. Ég tippa á að hann verði kyrr hjá Liverpool og fái góða launahækkun fyrir. Ég er hins vegar ekki eins viss með Alonso. Ef hann dreymir um að snúa heim til Spánar og eyða gylltu árum sínum þar – hann hefur nú þegar verið í fimm ár hjá okkur, ekki gleyma því – held ég að hann fái að gera það fyrr heldur en síðar en ég þykist viss um að Rafa muni örugglega reyna að sannfæra hann um að vera áfram í a.m.k. eitt ár í viðbót. Við erum einfaldlega með of gott tækifæri til að fara fram úr Utd á næsta tímabili – þar sem þeir hafa misst lykilmenn en við gætum haldið okkar óbreytta liði og styrkt okkur um Johnson + einn annan – til að fara að missa af því tækifæri með því að þurfa að fara í uppbyggingarstarf aftur sjálfir.

Að lokum: Jesús. Nýja „undrabarnið“ okkar frá Cadiz. Hér er upphaflega fréttin frá Sky þar sem sagt er frá því að hann sé að koma og að sjálfsögðu, sem efnilegur 15 ára Spánverji, er honum líkt við menn eins og Fabrégas. Hins vegar rakst ég á þetta viðtal við þjálfara Suso, eins og hann er kallaður, hjá Cadiz þar sem hann fer mjög fögrum orðum um ungstirnið. Eitt stakk þó í stúf – hann viðurkennir að Suso hafi aldrei verið valinn í unglingalandslið Spánverja. Maður hlýtur því að spyrja sig – hversu góður er hann eiginlega? Þjálfari hans vill meina að hann sé gullmoli en hann er ekki beint hlutlaus, og svo virðast fjölmiðlarnir á Englandi hafa apað það upp eftir honum svo að nú búast allir við næsta Leo Messi. Hvað ef hann er svo ekki svona góður eftir allt saman? Ég myndi allavega halda að hann kæmist í landsliðshóp ef hann væri svona stórkostlegur.

Það er svo sem eins með þetta eins og önnur mál Spánverja hjá Liverpool – tíminn mun leiða þetta allt saman í ljós. Byrjum á að bíða eftir fréttum af Arbeloa, Alonso og mögulega Mascherano á næstu dögum.

32 Comments

 1. “The Glendinator” haha. En maður verður bara að vona það besta, og treysta Rafa í þessari deild. Hef trú á að hann sé betri þjálfari enn flestir sem skrifa á þessari síðu. Vona það allavega. 😛

 2. Ég held að hvorki alonso ne mascherano fari spáið í því man utd var að missa 2 bestu menn sína og sensinn okkar að vinna deildina er miklu meiri nuna en síðustu leiktíð.Akkuru í andskotanum á alonso að fara til liðs sem var rústað 5-0 af hans liði meikar ekki sens hann mun ekki fara neitt.Mascherano annars vegar er líklegri að fara en held að hann fari ekki konan hans farin sem þýðir það að hann getur spilað bolta og riðið nýrri konu helgi eftir helgi og þarf ekkert að festa sig í eitthvað bull sambandi glaðari mascherano betra fyrir liverpool.Þeir 2 eru traustir rafa og ég lofa ykkur því að þeir taka minsta kosti eina leiktíð í viðbót

 3. Hvernig er með þessa ungu stráka sem Rafa hefur verið að kaupa undanfarin ár, sjáið þið engan vera á leiðini í liðið fyrir utan þessa sem stundum hafa komið inn og þá oft í minni leikjum. Ef ég man rétt þá keypti Liv, ungan og mjög efnilegan finna sem er vís algjört séní, en svo gerist ekkert. Þið risapælarar hér á þessari síðu, hellið nú úr ykkar viskubrunni til okkar hinna sem vita minna. 😉

 4. Sammála ykkur, ég er á því að nú þurfi kné að fygja kviði í deildinni.
  Meistarnir mæta veikari til leiks og Chelsea með enn einn nýjan þjálfara, Arsenal virðast ekki vera líklegir til stórra hluta (maður veit þó auðvitað aldrei) og ekki hef ég trú á að Man City kaupæðið muni skila árangi strax.
  Því segi ég að leikmenn Liverpool eiga nú meiri möguleika á að tryggja liðinu titil # 19 og verða þannig hetjur um alla eilífð í Bítlaborginni : )

  Ég stefni í það minnsta á að kaupa aðgang að Enska Boltanum af vissu skítafyrirtæki í fyrsta sinn, því ég ætla að fylgjast eins vel og ég mögulega get með mínu æðislega liði 🙂

 5. Er ekki viss um að Arbeloa vilji fara vegna færri tækifæra í byrjinarliði eftir komu Jhonson. Í hægri bakvarðarstöðunni hjá Real er enginn aukvisi og ég hef ekki trú á að Arbeloa spili meira hjá Real en Liverpool, þar sem hann er búinn að sanna sig.

  Kannski er ástæðan sú að hann er alinn upp hjá liðinu og langar til að spila þar.

 6. Ef þessi Jesus er bara 15 ára er þá ekki bara fullkomlega eðlilegt að hann hafi aldrei verið valinn í unglingalandslið?
  Eru ekki annars yngstu landsliðin skipuð leikmönnum sem eru 17 ára og yngri…

 7. 6 yngsta landsliðið er U16.

  3 ég sá nokkra leiki með varaliðinu og t.d. þarna einhvern úrslitaleik við Arsenal og verða að segja að ég gat ekki séð nokkurn mann í Liverpool liðinu vera að fara að spila með aðalliðinu á næstunni.

 8. Af byrjunarliðsmönnum síðasta árs er Arbeloa sá sem mér finndist minnst eftirsjá af, þó hann sé ok leikmaður. Hann á þó til klaufagang og er alltof takmarkaður sóknarlega. Tek þó undir áhyggjur af breiddinni þarna í hægri bak ef að Johnson meiðist. En peningur er peningur og þarf eitthvað að koma inn fyrir þessar 17 millur og það er líkast til það sem veltir þessu.

 9. Ég get skilið að Arbeloa gefi það út að hann viti ekki hvar hann muni spila næsta ár þar sem samningur hans rennur út eftir eitt ár en af hverju er Alonso að gefa það út að hann viti ekki hvar hann verði þar sem hann með mun lengri samningstíma.
  Greinilegt að hugur hans er staddur einhversstaðar allt annarsstaðar en hjá Liverpool og hann sé að kalla eftir tilboðum. Kæmi mér ekki á óvart að þeir færu báðir til Real Madrid og ætti Liverpool að geta fengið um 30 milljónir punda fyrir þá (c.a. 25+5). Það myndi jafnvel duga til þess að fá Villa eða Silva til Liverpool.

  Tek þó undir með mönnum hér að ofan ég myndi vilja sjá sem minnstar breytingar á liðinu. Myndi vilja fá tvö stór nöfn í viðbót við Johnson, einn senter og einn kantmann. E.t.v. þarf þá eitt stórt nafn að fara en breytingarnar mega þó ekki verða of miklar til þess að liðið geti farið alla leið að þessu sinni.

 10. Það sem gæti alveg gerst í þessum málum er að Benitez selji Alonso og fái annan mann til að vera í “holunni” þar sem Stebbi Ger er búinn að vera. Ef það er einhver maður nógu góður varnarlega séð og getur dreift boltanum eins vel og ef ekki betur en Alonso þá er það Gerrard. Ég veit hvað menn eiga eftir að segja þegar þeir lesa þetta og ég geri mér fulla grein fyrir því að Gerrard er frábær sóknarlega séð og var markahæstur okkar manna á síðasta tímabili. Hinsvegar ef Villa eða Silva koma til liðsins þá er það alveg mögulegt að Gerrard fari aftur á miðjuna og annar maður færi í holuna.
  Svo megum við ekki gleyma City fyrir næsta tímabil. Ef að Eto’o og Tevez verða frammi ásamt því að vera með Robinho og fleiri góða í liðinu þá verður það lið illviðráðanlegt. Ég fagna fréttum að Utd sé að missa leikmenn en á móti verða City sterkir og auðvitað Drogba og co búnir að skrifa undir nýjan samning (því miður, því ég hata Drogba).
  Hindranirnar verða margar á næsta tímabili.

 11. Einu sinni keypt Houllier demanta og næsta Zidane,sem komust aldrei liðið ,svo að ég held að best sé að spara stóru orðiðn um unga stráka , þeim er alla vega ekki gerður neinn greiði með því.

 12. Í framhaldi af því sem ég skrifaði í gær birtast tvær fréttir á Sky í dag:

  Fyrst Alonso: “I do not think a move to Real Madrid is impossible, but I would also have no regrets at all staying at Liverpool.”

  Hann sem sagt útilokar ekkert en segist heldur ekki hafa neitt á móti því að vera kyrr hjá Liverpool. Sem þýðir að Rafa hefur öll vopnin – annað hvort gera RM okkur nógu gott tilboð í Xabi eða hann fer ekki fet.

  Svo Joan Laporta, forseti Barca, um Mascherano: “Mascherano is a close friend of Leo Messi. We will see what happens. He’s a player I like very much.”

  Hann sem sagt segir að Messi og JM séu vinir (engar fréttir þar) og að honum líki við JM sem leikmann (heldur engar fréttir).

  Sem sagt, það er ekkert nýtt að frétta. Miðað við hversu lítið hefur heyrst frá Mascherano og hans fólki um hans mál síðustu tvær vikur, og miðað við orð Alonso hér að ofan, má segja að Rafa hafi öll spil á hendi. Hann vill halda þeim báðum og hvorugur þeirra virðist vera að heimta sölu eða gera sitt ítrasta til að fá að fara, þannig að við greinilega munum ekki selja þá nema risatilboð berist, eitthvað sem er of gott til að hafna.

  Hljómar vel í mínum eyrum. Þeir mega fara fyrir 30+m fyrir mér, sem er brjálaður peningur fyrir afturliggjandi miðjumann/menn, en að öðrum kosti höldum við þeim. Flott.

 13. Sammála Kristjáni í 13.

  Pepe Reina og David Villa eru víst líka bestu vinir. Það þýðir samt ekki að þeir geti spilað með sama liði.

  • Pepe Reina og David Villa eru víst líka bestu vinir. Það þýðir samt ekki að þeir geti spilað með sama liði.

  Munurinn á þessum vinskap og vinskap Mascherano og Messi er að liðið hans Reina hefur ekki á að kaupa vin hans. Liðið hans Messi hefur efni á að kaupa vin hans.

 14. En ef að Alonso fer til madrid sem að ég tel meiri líkur en minni. Væri ekki ansi gott að fá snejder og pening á milli. Sneijder er yngri. Hann er með frábæra sendingagetu, getur leist allar stöður á miðjunni og í am. frábær skotmaður og yngri en alonso. Ég sé hann alveg leysa hlutverk alonso ef að mascerani verður áfram á miðjunni og verndar hann. þá erum við með mann sem leysir allar stöður nema vörn og striker. og eigum þá einhvern pening afgangs ekki slæmt það held ég.

 15. Soldið til í þessu hjá Munda Norska (17). Nú er lag fyrir Rafa – hann hefur öll tromp á hendi og ef Alonso vill fara þá á Rafa að sprengja upp verðið og láta Real hafa soldið fyrir því… Sjáum hvað þeir þola og hve mikið þeir vilja hann í raun og veru

 16. Sammála þér Mundi. Ef Alonso fer (sem ég hef áður spáð) þá eru skipti á honum og Wesley Sneijder mjög ákjósanlegur kostur.

  Þegar Liverpool vann Real Madrid 4-0 á Anfield þá fannst mér sá hollenski vera eini leikmaður Real sem hafði eitthvað í miðjumenn Liverpool og barðist 100% allan tímann, átti frábæra aukaspyrnu sem Reina rétt varði.

  Sneijder líka viðurkenndi eftir leikinn undanbragðalaust að Liverpool hefði yfirspilað Real og óskaði okkur til hamingju, heiðursmaður með vit á fótbolta. Hann er sókndjarfari en Alonso og afburða sendingamaður, sérstaklega í föstum leikatriðum. Hefur þá tækni og leikskilning sem þarf til að spila fyrir Rafa.

  Ég tel hann hafa það sem þarf í enska boltann og myndi gefa okkur ákveðinn x-faktor sem þarf til að brjóta niður erfið lið. Við erum fyrir með hollending í Ryan Babel svo það ætti að auðvelda honum að aðlagast Englandi.

 17. Torres vonast til að liðsfélagar sínir verði áfram hjá Liverpool

  • The important thing is we’re getting closer to the title. It’s been frustrating for me because three years without a trophy for Liverpool is too long. The next one is coming, though – I’m sure of it. I know Rafa is working hard to bring in good players but I’m pretty sure David Villa will be too expensive for us.
  • He is an outstanding striker and if Liverpool could sign anyone, I’d ask for him. He’s been in sensational form this season. But, to be honest, we have Steven Gerrard playing behind the striker and he scores 20 goals a season, so we don’t really need another forward. We just need to keep our best players.

  Heimild: http://www.guardian.co.uk/football/2009/jun/30/liverpool-fernando-torres-david-villa

 18. Ef að Sneijder er svo frábær og er jafnvel betri en Alonso eins og gefið er í skin hér að ofan, hvers vegna ætti R M að láta hann fara, og fá Alonso, fatta þetta ekki alveg.

 19. Már Gunnars#21.
  Líka vegna þess að Real Madrid vilja fá til sín Spænska leikmenn og þar eru fáir betri en Alonso sem eru fáanlegir.

  Mér finnst Snjeider vera góður kostur og ef að Real vilja fá Alonso þá væri ég til í að fá eins og 2 leikmenn frá þeim
  1. Snjeider
  2.Vaan Der Vaart

 20. Mér finnst Alonso vera að sýna svipað lélegan karakter í garð Liverpool þetta sumarið, eins og Ronaldo sýndi United í fyrra.. leiðinleg og opin svör, og svo þegar enginn er að tala um það , þá opnar hann á umræðurnar sjálfur á ný.. Fari hann ekki núna fer hann örugglega næsta sumar.

 21. Það er nú ekki hægt að áfellast Alonso fyrir lélegan karakter. Jú vissulega heldur hann hlutunum opnum, en það er einfaldlega nákvæmlega eins og klúbburinn gerði gagnvart honum sjálfum í fyrra. Margir leikmenn hefðu farið í fýlu og einfaldlega óskað eftir sölu, en Alonso segist vel hugsa sér að vera áfram í Liverpool, þrátt fyrir mögulega Madrídarför. Í guðanna bænum ekki fara að líkja Alonso við Kristjönu – það er bara ósmekklegt.

 22. Fannst ekki ástæða til að stofna nýjan þráð um Xabi karlinn en nú sýnist manni hann vera búinn að setja línuna.

  http://www.liverpoolecho.co.uk/liverpool-fc/liverpool-fc-news/2009/06/30/xabi-alonso-urges-liverpool-fc-and-real-madrid-to-sort-out-his-future-100252-24023249/

  Miðað við þetta þarf málið að vera klárt fyrir 19.júlí – þ.e. hvort umboðsmanninum tekst að landa dílnum.

  Menn eru óspart að tala um hvað liðið “gerði Alonso” í fyrra þegar Rafa var tilbúinn að skoða sölu á honum. Ég segi á móti, var kannski þjálfarinn orðinn var við það að Xabi var ekki alveg sáttur í Liverpool (eins og komið hefur fram undanfarna daga) og Rafa vissi að með CL reglunum og vafasömu fjármálaástandi í Bretlandi skipti miklu máli að vera með breska leikmenn í liðinu?

  Ég allavega hallast að því, eins og ég benti á í þessari færslu:

  http://www.kop.is/2009/06/14/13.28.05/

  að enskur fótbolti sé á leið inn í tímabil þar sem bestu leikmenn heims fara frekar til stóru liðanna á Spáni og Ítalíu þar sem þeir fá hærri laun og fríðindi auk veðursins og friðsins sem synd væri að segja að þeir nytu á Englandi. Hversu mörg “skandalmál” muniði að hafa lesið um á Spáni og Ítalíu, halda menn í alvöru að fótboltamenn þar fari ekki á pöbbinn???

  Ég hef stutt Rafa undanfarið þegar hann hefur gert samninga við leikmenn sem vilja taka þátt í framtíð liðsins, Kuyt, Torres og Agger auk auðvitað heimaenglanna Carra og Gerrard. Á næstu vikum þarf að liggja ljóst fyrir hverjir leikmannanna eru 100% dedicated fyrir málstaðinn og leggja allt sitt undir.

  Að sjálfsögðu vill ég sjá Xabi, Arbeloa og Mascherano áfram í Liverpoolbúningnum, þ.e. EF þeir eru tilbúnir að deyja fyrir klúbbinn!!! Ég nenni ekki svona “Rögnvaldsmáli” með nokkra af okkar leikmönnum og það pirrar mig ofboðslega ef sumarið eftir besta tímabil LFC í tuttugu ár fer í að reyna að sannfæra leikmenn um að vera áfram í Bítlaborginni!

  Ég allavega vill sjá okkur fara að horfa meira á þá leikmenn sem líta á það sem upphefð að spila fyrir Liverpool og treysta sér í breskt veður og breskar aðstæður. Það virðist ekki ætla að verða hipp og kúl mikið lengur og því verðum við að bregðast við!

  En staðreyndin er sú að Rafa var tilbúinn að selja Xabi og fá Barry. Núna lítur út fyrir það, eftir besta tímabil Xabi sem kom honum inn sem föstum leikmanni í spænska landsliðinu og óumdeildan á meðal aðdáenda Liverpool að hann vilji bara fara á meðan að Barry spilar fyrir Manchester City á næsta ári.

  Það finnst mér vera hans mál eingöngu og ekki nokkur ástæða að klína því á LFC á nokkurn hátt. Rafa spilaði honum í allan vetur og hefur margítrekað hversu mikilvægur Xabi er liðinu, ef að hann ætlar að nota eitthvert “móðgdæmi” til að réttlæta brottförina er Xabi Alonso ekki leikmaður sem mun verða munað lengi eftir í Liverpoolborg!

 23. Það væri einfaldlega synd og skömm fyrir Xabi ef hann færi. Hann væri á leiðinni í lið þar sem ekki væri hugsað eins vel um hann, hann myndi væntanlega ekki vera í eins góðu formi og hann hefur tækifæri til hjá Liverpool og þar af leiðandi varla eiga fast sæti í spænska landsliðinu sem er nokkuð sigurstranglegt fyrir HM næsta sumar. Að auki þá má kannski líkja þessu við sumarið 2005 hjá Gerrard, ef hann hefði farið líkt og Owen gerði þá væri varla afturkvæmt fyrir hann á Anfield. Það sama gildir um Alonso. Maðurinn á kost á að verða að legend á Anfield, ef hann spilar vel næsta vetur og tekur þátt í að hala inn langþráðan titil.
  Svo er það hinn gaurinn, Mascherano. Ég veit það er bannað að segja svona en ég myndi sakna hans miklu minna en Alonso. Ég veit að Hamann og Makelele eru ótrúlegir snillingar að geta spilað þessa sópunarstöðu en mér finnst hún ekki það merkileg að ekki sé hægt að finna aðra eins leikmenn í hana. Kommonn, þú þarft að hafa vit á fótbolta, geta lesið leikinn, verið fljótur að hlaupa og geta skilað boltanum á næsta mann. Þess vegna held ég að 25-30 milljóna tilboð í hann væri alveg ásættanlegt. En ég geri mér samt fulla grein fyrir því hversu mikilvægur hann er fyrir liðið.

  • Ég veit að Hamann og Makelele eru ótrúlegir snillingar að geta spilað þessa sópunarstöðu en mér finnst hún ekki það merkileg að ekki sé hægt að finna aðra eins leikmenn í hana.

  Það gekk nú svona líka stórvel hjá Real Madríd að laga þá fávisku sína að selja Makalele!!!

 24. Ég verð að segja allveg eins og er að ég r orðinn svo skítþreyttur á þessu kjaftæði i Alonso… bar selja hann og kaupa Silva… halda masc og gefa lucas fleyri sensa,, er að visu ekki pumpandi glymmeri yfiri lucas.
  Þoli ekki svoa stæla ákveður sig á næstu vikum,,, skil ekki ef menn vilja fara,, þá finnst mér að þeir ættu að oska eftir sölu, og ef þeir vilja vera þá eiga þeir að gera eins og torres grði.. ekki þetta fokking drama,, burt með alonso, og inn með silva.
  Ps. Það er ekki það að ég haldi ekki upp á alonso,, þetta er bara kjaftæði,, skil það þegar “menn” eins og ronaldo og svoleiðins runkarar gera þetta.. En ekki liverpool maður

 25. Teddi, Benítez var nú að reyna að selja Alonso í fyrra þannig að hann er kannski ekkert alltof sáttur við klúbbinn. Hann má e.t.v vera með smá drama til að finnast hann vera mikilvægur, ég er handviss um að hann fari ekki.

  Hitt er annað mál að þessi umræða um Alonso út og Barry inn í fyrra var akkurat rassskellingin sem Alonso þurfti til að fara að sýna sína réttu takta aftur.

  Veit ekki með ykkur en ég yrði alveg sáttur ef engir fleiri yrðu keyptir og engir seldir. Þurfum stóran hóp ef við ætlum að vera með í öllum keppnum. Aðeins einn back-up stricker væri góð viðbót, hver veit nema Voronin myndi skila því.

 26. Byrjunarliðið er samkeppnishæft við byrjunarlið allra annarra liða en það þarf nauðsynlega að breikka hópinn. Það þarf fleiri sterka leikmenn til að leysa aðalliðsmenn af þar sem leikjafjöldinn er mjög mikill. Þetta hefur Benitez sjálfur sagt og hann á örugglega eftir að bæta við hópinn.

  Ég held að liðin flýti sér ekkert í leikmannakaupum fyrr en Real Madrid, ManUtd, Chelsea og ManCity eru hætt því þau halda verðinu uppi. Um leið og þau eru hætt lækkar verðmiði annarra leikmanna ef liðin ætla á annað borð að selja.

 27. Babu, nákvæmlega, því þeir keyptu tóma pappakassa í staðinn.

Kóngurinn

MB5