Upphitun – Allir vegir liggja til Rómar…

Jæja þá er þetta tímabil senn á enda og í kvöld fer fram síðasti leikur tímabilsins þar sem við getum af heilum hug stutt annað liðið af lífi og sál (FA Cup, glætan).

Barca

Okkar menn í Barca eru jú komnir til Rómar og etja þar kappi við Man United kl: 18:45. Það sem meira er þá eigum við einn fulltrúa í leiknum, þar sem glókollurinn Eiður Smári kemur til með að halda bekknum heitum.

M.ö.o. þessi keppni, meistaradeild Evrópu sem hætti að vera töff árið 2005 er komin svo langt niður í svaðið að þeir eru farnir að leyfa íslendingum að taka þátt….hvað næst, úrslit á OL í handbolta? 🙂

Okkar menn hafa farið nokkuð glæsilega í gengum semi erfiða leið í úrslitin, unnu lið frá stöðum sem enginn hefur heyrt um í riðlakeppninni, Basel, Lissabon og Donetsk ef ég man þetta rétt þar sem berlega kom í ljós að það er einfaldlega ósanngjarnt þegar Leo Messi er í öðruhvoru liðinu. Í 16 liða úrslitum fengu þeir Lyon og afgreiddu glæsilega fyrir rest, í 8 liða úrslitum var Bayern Munchen tekið og gjörsamlega snýtt….og þegar ég segi gjörsamlega snýtt þá er ég að tala um eina verstu niðurlægingu þjóðverjana í háa herrans tíð…ef ekki bara frá upphafi. Fyrri leikurinn fór 4-0 og voru þjóðverjarnir ljónheppnir að sleppa með svo lítinn mun.

Allt var klappað og klárt fyrir SVAKALEGAN undanúrslitaleik milli tveggja skemmtilegustu félagsliða í heiminum í dag……en Chelsea menn lásu einfaldlega ekki handritið, grísuðust til að slá Liverpool út á tveimur hornspyrnum og mættu Barca sem boðflennur.

Barca menn voru með boltann í ca. 97% af báðum viðureignum sínum við Chelsea og unnu að lokum öruggan sigur í tíðindalitlum leik, þ.e.a.s. með marki skoruðu á útivelli, skorað á 92. mínútu í seinni leiknum. Semsagt öruggt allann tímann og stuðningsmenn Chelsea hótuðu að vanda að kála dómaranum í kjölfarið…..fínn dómari btw.

Þannig að í kvöld er komið að hápuntinum, spennan fyrir leikinn hefur verið að magnast jafnt og þétt frá því um hádegi í dag og er svo komið nú að ófært er orðið inn á flestar síður tengdar fótbolta, of mikil umfjöllun um þennan leik veldur einfaldlega ógleði enda jafnan ekki nógu hlutdræg Barca.

Varðandi líklegt lið í kvöld þá fengu spánverjarnir þær gleðifréttir að Iniesta og Henry eru klárir í slaginn fyrir leikinn í kvöld. Hinn dagfarsprúði og líklega skemmtilegi strákur Dani Alves er hinsvegar í banni eftir of mörg gelgjuköst undanfarið og er það líklega skarð fyrir skildi (þó maðurinn hafi verið hræðilegur gegn Chelsea).

Líklegt byrjunarlið hjá Barca er nokkuð sjálfvalið held ég:

Valdes

Puyol – Jæja Toure – Pique – Silvinho

Xavi – Keita – Iniesta

Messi – Eto´o – Henry

Á bekknum verða: Zubizarreta, Ronald Koeman, Luis Enrique, Maradonna, Romario og Eiður Smári.

Gríðarlega sterkt lið og ROSALEGUR bekkur hjá Barca. Ekki nóg með að þeir hafi Messi í sínu liði (sem er eins og áður segir bara ósanngjarnt) þá eru þeir með svei mér þá stærri nöfn í kringum hann!!

Um andstæðingana hef ég ekki mikið að segja, þeir eru gríðarlega sterkir, leiðinlega sterkir og það hefur fátt ekki gengið upp hjá þeim í ár. Kristjana, þeirra lang besti leikmaður var eitthvað að væla á æfingu fyrir leikinn en það er svosem ekkert nýtt við að hann liggji aðeins í grasinu. Hann verður með í kvöld og það sama má segja um Rio Ferdinand sem er United afar mikilvægur. Eina blóðtaka United er fjarvera Darren Fletcher (í banni) og Eric Cantona (hættur).

Þetta verður áhugavert í kvöld og aldrei að vita nema maður leggji það á sig að horfa á leikinn, svona fyrst hann er skv. lögum í opinni dagskrá.

Að lokum árétta ég við menn að halda umræðunni fyrir þennan leik þannig að hún verði Liverpool FC til sóma og án skítkasts…..svona nema auðvitað að það sé fyndið ;p

Come on Barca, það er komið nóg af hamförum

27 Comments

 1. Flottur Babú 🙂

  Ég hef aldrei áður haldið jafn svaðalega með nokkru liði fyrir utan Liverpool, eins og ég mun gera með Barca í kvöld. Jæja og félagar í vörninni fá vonandi lítið að gera (held reyndar að þeir þurfi að verjast mikið af skyndisóknum) en ég býst ekki við skemmtilegum leik. Leikir þessara liða í undanúrslitum í fyrra buðu nú ekki upp á mikla skemmtun, en vonandi verður leikurinn fjörugur og Barca setji slatta af mörkum á djöflana.

 2. Langar að benda mönnum á það að þessi b-leikur er í opinni dagskrá á stöð 2 sport.

 3. Já þetta er svo sannarlega frábær leikur fyrir fótboltaáhugamenn. Ég ætla að horfa á hann og ekki sem bitur púllari heldur bara sem aðdáandi fótboltans og vonandi fá pabbi og ég flottan leik. Þarna er verið að tala um að tveir af bestu knattspyrnumönnum heims séu að mætast sem eru Messi og Ronaldo en auðvitað er þetta alltaf spurning um dagsform. Ég er mjög ánægður að Henry og Iniesta séu með Barcelona því það styrkir liðið þeirra gríðarlega og vonandi fær Eiður að spila eitthvað. Verður líka gaman fyrir okkur ef hann hampar Evrópubikarnum.

 4. Gríðarlega dapur pistill að mínu mati, sem einkennist af mikilli biturð greinarhöfundar. Vonandi að umræðan verði á hærra plani.

 5. Þessi umfjöllun er náttúrulega tær snilld og segir allt sem segja þarf nema e.t.v. frá því hvernig Man.Utd komust í úrslitaleikinn – þ.e. þeir voru dregnir þangað í einhverjum ósangjarnasta drætti sögunnar

 6. Það er náttúrulega ekki að spyrja að því að babú bitri er að væla. Hættu þessu væli og komdu bara og horfðu á leikin með okkur lesson og grillaðu.

 7. Voðalegt húmorsleysi er þetta, hvaða biturleika kjaftæði eru menn að tala um? Er það bara biturð að þola ekki þetta lið Man.Utd? Nei, langt því frá. Fyrir mér er þessi pistill fyrst og fremst góður húmor og smá upphitun fyrir kvöldið og til að opna á umræður um leikinn. Áfram Barca.

 8. Manchester United stuðningsmenn eru mjög gjarnir á að rugla saman biturð og óþoli gagnvart þeirra liði. Lífið hefur kennt mér að vera ekki að eyða tímanum í að reyna að leiðrétta þennan misskilning hjá þeim.

  Skemmtilegur pistill. Áfram Barca!

 9. Stundum er eins og menn lesi ekki skiltið á útidyrunum áður en þeir ganga innfyrir á þessari síðu. Þetta er STUÐNINGSMANNASÍÐA LIVERPOOL FC. Ef það kemur einhverjum á óvart að sjá pirring út í velgengni Man Utd eða almennt óþol gegn því liði á síðu sem heitir KOP.is þarf sá hinn sami á læknisaðstoð að halda.

  ÁFRAM BARCELONA! Það myndi nánast gleðja mig meira að sjá þá taka Utd svona 4-0 í kvöld en að sjá Liverpool vinna þennan titil. Nánast!

 10. Strákar ekki vera lesa of mikið í Máser, það er jafngáfulegt og trúnó með Sigga Hlö. 😉 (Máser er annars ágætur greyið meðan hann sefur).

  Dedda spyr ég hinsvegar hverskonar skátasamtökt heldur þú að við séum eiginlega? :p

 11. 3

  Ég neyðist til að leiðrétta þig. Tveir af bestu knattspyrnumönnum heims eru Steven og Gerrard sem því miður fyrir aðdáendur fótbolta er ekki að spila í dag.

 12. Ég held því miður að Barca eigi lítinn séns í kveld. Kallið mig neikvæðan en ég sé þetta kristaltært fyrir mér. Barca liggur í sókn með boltann yfir 70% á meðan manutd pakkar og treysti á skyndisóknir. Barca fær helling af hálffærum en manutd skorar úr einu af sínum 3 færum (O’shea eða svipaður), leikurinn búinn um leið og manutd skorar sama hversu mikið er búið af tímanum.

  En mikið vona ég að ég hafi rangt fyrir mér og Barca skori snemma til að þetta verði ekki tóm leiðindi.

 13. YESSSSSSSSSSSSSSSSSSSSSSSSSSSSSSSSSS!!!!!!!

  Hef ALDREI, ALDREI, ALDREI fagnað sigri annars liðs en Liverpool eins mikið. Sjá andlitið á Old Whiskey þennan leik allan, Kristjönu með tilgangslausu skærin og ráðalaust lið United.

  Takk Barcelona fyrir að bjarga sumrinu. Það verður opnaður baukur í kvöldsólinni á Hellissandi á eftir og Barcelonapeysan fer með í vinnuna á morgun!!!!!!

 14. Þetta var ótrúlegt. Ég er enn að fagna þessu, ekki bara því að Man Utd hafi tapað heldur að Barcelona, eitt af mínum uppáhalds liðum, hafi unnið. Ég er að sjálfsögðu Púllari af annarri kynslóð og ólst upp við það lið og þeir eru mín stóra ást en sem ungur maður féll ég fyrir draumaliðum Barca og AC Milan og hef því alltaf stutt þau líka (nema á móti Liverpool, að sjálfsögðu). Það að sjá Barca vinna United í kvöld var því algjörlega það næstbesta á eftir því að sjá Liverpool gera það. 🙂

  En að leiknum: VÁ. Gæðamunurinn var ótrúlegur. United-menn náðu sér aldrei eftir kjaftshögg Eto’o á tíundu mínútu og það var eins og Barca-menn væru bara í öðrum klassa eftir það. Munurinn á liðunum felst í tveimur orðum: Xavi og Iniesta. Ég veit að við Púllarar erum stoltir af okkar miðjuþrennu en það er einfaldlega ekki til betra miðjupar en þessir tveir leikmenn í heiminum í dag. Stórkostlegir alveg hreint.

  Frábært kvöld, frábær sigur Barca og það verður gaman að mæta í röndóttu treyjunni (og með “5 Times LFC” derhúfuna) í vinnuna í fyrramálið. 😉

 15. Ég skil ekki hvað menn sjá í þessu mu liði. Þeir hafa ekki unnið leik gegn alvöru liði síðan 23. mars 2008 þegar Mascherano var rekinn út af.

  Druslast í gegnum hvern leikinn á fætur öðrum gegn skítaliðum í öllum keppnum og eiga svo ekki breik þegar þeir mæta bestu liðunum.

 16. en hvað var að klikka hjá Ferguson, það var nánast hending ef að Man U maður var mættur í bakið á Barcelona leikmanni þegar þeir voru að spila boltanum á milli sín. Þvílíkur tími sem þetta lið hafði til þess að gera það sem þeir vildu.

 17. Sammála 16. Kristján Atli. XAVI og Iniesta voru frábærir sérstaklega XAVI slef slef slef.
  Stundum er þetta dútl þeirra með boltann aðeins of mikið eins t.d á móti Chelsea en þessir menn eru bara svo rosalega góðir á boltanum að það er ekki hægt. Held að Xavi hafi hlaupið mest af öllum gefið flestar sendingar og með hæstu próstentu í heppnuðum sendingum auk þess sem botinn var sem límdur við tærnar á honum og Manu átti bara ekki séns. Vantaði kannski mann eins og Essien til að trufla þá.
  Að mínu mati kom Iniesta ekki langt á eftir Xavi í þessum leik, frábærir leikmenn báðir tveir. Svo er auðvitað ekki leiðinlegt að horfa á Messi sama er ekki hægt að segja um Manu, helst pirrið í Ronaldo sem gaf eitthvað skemmtana gildi.

 18. Frábær fótbolti þessi leikur…En….nú kom veikleiki United í ljós…Miðjan hjá þeim er bara grín.Eins og staðan er í dag ættu þeir ekki breik á móti okkur eða Chelsea ..Ég fer að halda að Rafa hafi sent smá SMS á Guardiola og sagt honum hvernig á að vinna þetta lið…Portúgalska frænkan var greinlega í losti eftir þetta námskeið sem hann var á í kvöld …

 19. Annað sem ég skynjaði í aðdraganda leiksins var hve mikið Guardiola var að draga úr væntingum og lýsa yfir aðdáun sinni á Ferguson líkt og fjölmiðlar gerðu. Svo kom frábært og vel spilandi lið á 8min:)

 20. Það er bara unun að horfa á Messi. Maðurinn lék sér hvað eftir annað að þrem og jafnvel fjórum ManU mönnum og svo spratt hann upp jafnharðan ef hann var tekinn niður. Snillingur.

 21. Hef verið að segja þetta allt tímabilið.
  Messi og Iniesta eru í sérflokki.
  Frábær sigur hjá Barcelona. Það sem kom mér á óvart var samt hvað Man utd voru bitlausir. Lið með Rooney, Ronaldo, Berba og Teves inná á sama tíma á að skapa sér einhver færi.
  Eina færið þeira var eiginlega þegar Ronaldo fékk tækifærið strax eftir annað mark Barcelona(og var Valdes alveg kominn í boltan svo það var erfitt að skora).

 22. Þetta var bara yfirspilun og sýning hjá Xavi og Iniesta, það er ekki hægt hvað þeir eru góðir! Spáið í þessu liði þegar það er ekki að spila við miðlungsliðin á Spáni…….ég myndi allavega hringja mig inn veikann ef ég væri í liði andstæðingana.

  Það hljómar kannski biturt en eftir áramót hefur mér alls ekki fundist þetta United lið sannfærandi og flestir sigar þeirra hafa komið nánast eins af gömlum vana. Þeir hafa auðvitað frábært lið og það var engin tilviljun að þeir gerðu það sem þurfti til að vinna deildina í hverjum leiknum á fætur öðrum. En að mínu mati erum við grátlega nærri þeim í getu ásamt Chelsea…….. og Arsenal er ekki eins langt á eftir og margir halda.

  Í þessari keppni fannst mér United vera tiltölulega heppið með leið sína í úrslitin, þ.e. miðað við spilamennskuna þeirra eftir áramót er ég efins að þeir hefðu drifið framhjá Chelsea, Barca eða Liverpool í þessari keppni.

  Inter er auðvitað alvöru lið og líklegir til að veita þeim keppni (á sama tíma fórum við yfir það með Real Madríd hvernig á að spila þessa íþrótt). Í 8 liða úrslitum fá þeir Porto sem er bara ekki fyrirstaða í dag fyrir ensku liðin, lið sem fer jafnan ekki lengra en einmitt í max 8 liða úrslit undanfarið. (Liverpool og Chelsea þurftu auðvitað að mætast á sama tíma). og í undanúrslitum sluppu þeir auðvitað við Barca, Chelsea (og Liverpool, vitað fyrirfram) og fá eitt vængbrotnasta Arsenal lið í háa herrans tíð (ef það hefði klikkað hefði það verið free pass í gegnum Villareal).

  Þetta er auðvitað engin grín leið og eitthvað létt lið, en þetta eru sannarlega ekki eins sterk lið og Real, Chelsea og Barcelona, í kvöld fannst mér þeir loks fá alvöru mótherja og loksins brotnaði þetta hjá þeim, fín tímasetning. Með þessu er ég samt auðvitað ekki að segja að United hefði ekki getað farið í úrslit í gengum Chelsea eða Liverpool, þetta lið getur auðvitað unnið öll lið sem spila þessa íþrótt þegar sá gallinn er á þeim).

  Varðandi Barca þá er auðvitað frábært að sjá þetta stórskemmtilega lið vinna allt nánast sem þeir keppa um. En ég hef samt sagt það í allann vetur að ég er á því að þeir séu ekki jafn sterkir og ensku liðin þar sem þau geta alveg varist þeim og refasað með skyndisóknum. United gleymdi sér í sóknarleik og var refsað illa og snemma fyrir það í kvöld.

  En Chelsea var FÁRÁNLEGA óheppið að slá þá ekki út…….og við fengum ekki séns 😉

  Miðja sem hefur menn eins og Mascherano og Essien getur stoppað þessa miðjumenn Barca, annars slátra þeir þér bara.

 23. Er algjörlega sammála þér Babu. Efast um að Man.Utd hafi drifið framhjá Chelsea, Liverpool og Barca (sem þeir ekki gerðu) í þessari keppni. Árangur þeirra í fyrra var betri en þá vann Ronaldo (og hinir í Scum) deildinni og meistaradeildina. Í vetur voru þeir með lélegra lið en Liverpool en voru að vinna suma leiki með einu marki þrátt fyrir að vera í allskonar vandræðum. Á meðan Liverpool gerði jafntefli í þessum leikjum eftir að vera í stórsókn allan tímann með skot í slá, stöng aftur slá og svo stöng stöng.

  En pælið í leikmönnum eins og Xaci, Iniesta og Puol. Ekki nóg að vinna Evrópukeppnina með Spán heldur deildina, konunglega spænska bikarinn og meistaradeild evrópu. Sannir sigurvegarar þessir leikmenn!!! Til hamingju Barcelona og til hamingju Eiður Smári. Þoli ekki þegar menn segja í öfundatóni að Eiður er ekki góður leikmaður o.s.frv. Engin íslenskur knattspyrnumaður hefur náð þessum árangri og held að það verði langt þangað til að við sjáum þetta jafnað! Samgleðjumst samlanda okkar! 🙂

Hverjir koma? #2 – Glen Johnson

Babel má fara