Hverjir koma? #2 – Glen Johnson

Næstur á lista okkar Kop-ara yfir mögulegar komur sumarsins er enskur hægri bakvörður, Glen Johnson að nafni.

Sá ágæti drengur er fæddur 23.ágúst 1984 og verður því 25 ára nú í sumar. Ef við byrjum á að rifja upp ferilinn hófst hann þegar strákur var 18 ára gamall hjá West Ham United, þá lék hann fyrsta leik sinn í úrvalsdeildinni í tapleik gegn Charlton Athletic. Hann lék vel þetta ár, en liðið hans féll þrátt fyrir það. Stóru liðin urðu var við hann og hann var seldur til Chelsea þá um sumarið 2003 fyrir 6 milljónir punda, sem var mikil upphæð fyrir ungan mann.

En hann byrjaði feril sinn þar á fljúgandi ferð og lék sinn fyrsta landsleik haustið 2003, rúmlega 19 ára, gegn Dönum. Næstu tvö ár spilaði hann reglulega í liði Chelsea, þ.á.m. 20 leiki í meistaraliði Chelsea 2004 – 2005. Tímabilið þar á eftir missti hann sæti sitt til Paulo Ferreira og í framhaldi af því datt ferillinn niður um hríð og hann missti sæti sitt í enska landsliðinu. Honum leiddist þófið, bað um að fá að fara frá Chelsea og var lánaður til Portsmouth haustið 2006 og ári seinna keypti suðurstrandarliðið hann fyrir 4 milljónir punda. Þar hefur hann verið lykilmaður og vann sér aftur inn sætið í enska landsliðinu nú í haust!

Töluverðar fréttir bárust af því í janúar að Liverpool væri að fara að kaupa hann. Bæði kom þar til að Arbeloa var eini “almennilegi” hægri bakvörðurinn auk þess sem ljóst var að Portsmouth myndi eiga afar erfitt með að greiða eftirstöðvar af kaupunum á Crouch. Á mörgum miðlum, óáreiðanlegum sem áreiðanlegum birtust af því fréttir að Johnson hefði fengið ferð um Anfield og Melwood og allt væri klappað og klárt. Svo varð þó ekki, hann lék áfram með þeim bláu og bjargaði þeim frá falli.

Ég tel miklar líkur á því að Glen Johnson veki áhuga Rafa Benitez. Hann er ungur Englendingur með mikla reynslu af ýmsu. Hann hefur unnið titla, meistaratitill og Carling cup með Chelsea og FA bikarinn með Portsmouth. Búinn að spila 140 leiki í Úrvalsdeildinni og 14 landsleiki fyrir England.

Mestu styrkleikar hans liggja allir sóknarlega. Hann hefur fína tækni og er óhræddur að taka menn á. Fínar sendingar inn í box auk þess sem hann hefur skorað nokkur mörk sem koma iðulega úr rispum hans upp völlinn. Hann er mjög hraður af bakverði að vera auk þess að vera hávaxinn og sterkur, nokkuð sem skiptir okkur miklu máli. Nú í vetur var hann farinn að spila á kantinum hjá Portsmouth og leysti það hreint ágætlega, þó sjaldan myndum við nota hann þar!

Vissulega hefur hann stundum lent í vandræðum gegn flinkum kantmönnum, en það er nokkuð sem að ég tel að hann muni bæta þegar/ef hann fær góða hjálp frá miðjumönnum Liverpool sem hafa verið duglegir að hjálpa sínum bakvörðum hingað til.

Þegar svo við bætist sú staðreynd að Pompey skuldar okkur mikinn pening sem þeir eiga ekki (á bilinu 8 – 10 milljónir punda) tel ég ljóst að töluverðar líkur séu á að þessar vangaveltur séu á rökum reistar, nokkuð sem gleður mig! Ég tel okkur mikið þurfa slíkan bakvörð í okkar lið, auk þess sem meiri líkur eru á að hann skilji þegar Carra tryllist!!!

Líkur á að hann komi: 4/5

Hverjir koma? #1 – David Silva

12 Comments

  1. UU já takk, skoraði nokkur mögnuð mörk í vetur, og svo stóri plúsinn er sá að hann er vanur að spila í úrvalsdeildini þannig að aðlögun á ekki að vera vandamál. Virðist oft vera auðveldara fyrir varnarmenn að koma inn í lið heldur en sóknarmenn, svo á hann að þekkja það að spila fyrir “stóran klúbb (chelsea)” , annað en t.d. Robie Keane sem að virðist bara plumma sig hjá lakari liðum. Heilt yfir er þetta hörkugóður fótboltamaður, tekur menn á og getur tekið syrpur upp völlin sem að skila mörkum og svo er hann bara solid varnarmaður….

  2. Held að Glen gæti orðið mjög góð lausn í hægri bakvörðinn sem hefur ekki verið upp á marga fiska síðan Finnan fór. Mikil reynsla úr deildinni lika.

  3. Ég segi já takk, þetta er stórskemmtilegur leikmaður og kæmi til með að auka frábæran sóknarleik liðsins. Það er mikilvægt að fá enska leikmenn í liðið og er þetta einn af þeim fáu sem ég væri virkilega til í að sjá hjá félaginu.

    Að mínu mati er mikilvægt að setja frekari pressu á Arbeloa, hann hefur staðið sig fínt í vetur en það þarf að halda honum á tánnum og veita honum alvöru samkeppni, Degen hefur ekkert spilað vegna meiðsla og Darby virðist ekki alveg vera orðinn 100% klár þó ég vona að hann fái einhverjar spilmínútur á næsta tímabili enda bind ég miklar vonir við þennan strák.

  4. Akkurat tad sem okkur vantar, sterkan, sokndjarfan enskan bakvord, hann aetti lika ekki ad kosta mikid, (ef vid losum okkur vid dossena, itjande, el zhar erum vid komnir med helmingin af verdmidanum)

    Ja takk og tad sem fyrst svo hann venjist tungumalinu hans carra, “carrenska”

  5. Danska er nú ekki beint mitt mál, er sjéns Jónas Færeyingur að fá smá þýðingu?

  6. Verið að vísa í ummæli frá ’88 þegar Dalglish skaut föstu skoti á Ferguson eftir 3-3 jafntefli á Anfield. Rauðnefur vældi yfir dómgæslu (óvænt) og vildi meina að sitt lið hafi verið betra (skrýtið). Þá svaraði kóngurinn:

    “Það þarf ekkert að svara þessu rugli. Það kemur meira af viti upp úr Lauren, sex mánaða gamalli dóttur minni, en Alex Ferguson”.

    Þetta er víst ástæðan fyrir því að sá gamli hatar Liverpool. Á þessum tíma var ekki talað um svona ummæli í sex mánuði og grenjað yfir þeim. Enda alvöru tímar þá!

  7. Já held að Glen Johnson gæti verið fín lausn fyrir okkur. Arbeloa er alls ekkert slakur leikmaður en það er ýmislegt sem vantar í hans leik, það er ágætur bolti í honum og spilið rennur nokkuð vel í gegnum hann en hann er alveg vita vonlaus í þvi að krossa boltanum fyrir markið en svo það sem skiptir aðalmáli er það að Arbeloa er alls ekkert sérstakur varnamaður, hann virkar oft utan við sig, lengi að stíga út, slakur maður á mann og er alltof oft út úr stöðu. Ef við fengjum Johnson yrði hann klárlega fyrsti kostur í bakvarðarstöðuna en Arbeloa væri síðan fínn backup player.

  8. Reyndar gæti verið komið babb í þennan bát….

    Pompey var að enda í höndunum á Aröbum með fulla vasa fjár. Sjáum nú hvað gerist!

One Ping

  1. Pingback:

Liverpool bloggið fimm ára!

Upphitun – Allir vegir liggja til Rómar…