Tottenham á morgun

Þá er komið að því, síðasta upphitun þessa tímabils. Ég ætla að reyna að halda mig fjarri því í lengstu lög að gera upp tímabilið sem slíkt, það koma aðrir pistlar eftir þennan leik sem munu sjá um þann pakka. Engu að síður þá er erfitt að horfa ekki smá tilbaka og sú ósk sem ég hafði fyrir tímabilið, rættist algjörlega. Ég vildi vera í baráttunni um titilinn fram í apríl/maí, ekki út úr henni í desember/janúar eins og svo oft áður. Keppinautar tryggðu sér ekki titilinn fyrr en í næst síðustu umferðinni og það eftir að hafa ekki tapað leik lengi. Liverpool liðið hefur svo einnig verið algjörlega frábært síðustu 2-3 mánuðina, algjörlega frábært. Þetta er skemmtilegasta Liverpool lið sem ég hef séð síðan þeir Barnes, Beardsley, Aldridge, Rush, Houghton og félagar voru upp á sitt besta í kringum 1987-1988. Það að vera komnir með 83 stig og eiga möguleika á 86 stigum, segir bara sitt um framför liðsins og það hefur ekki gerst afar lengi að lið nái að vinna titilinn án þess að hafa náð 2. sætinu áður.

Á morgun er svo stór dagur fyrir utan sjálfan leikinn. Hinn stórbrotni varnarmaður, Sami Hyypia, er að leika sinn síðasta leik fyrir Liverpool FC. Það er óhætt að segja að kletturinn frá Finnlandi sé orðinn algjör goðsögn á Anfield. Hann kom til liðsins þegar við höfðum ekki átt alvöru miðvörð í fjölda ára, kom algjörlega óþekktur og hefur spilað eins og engill síðan. Þar fyrir utan er hann sannur atvinnumaður og frábær persónuleiki. Sami verður saknað, en ég er ákaflega sáttur við það að hann geti framlengt feril sinn aðeins og að hann sé ekki að fara í eitthvað skítalið á Englandi og komi sem andstæðingur okkar á Anfield. Sami, þú ert hreinræktaður snillingur og þú munt svo sannarlega fá alvöru kveðju frá stuðningsmönnum Liverpool á Anfield á morgun (hvet menn til að með Kop stúkunni fyrir leik).

En það er annar maður sem er að fara að heimsækja Anfield á morgun, sem átti AÐEINS styttri feril með Liverpool FC. Robbie Keane er að snúa tilbaka eftir að hafa spilað aðeins hálft tímabil með Liverpool. Í mínum verstu martröðum var maður búinn að sjá fyrir sér að allt gæti orðið í járnum um titilinn þegar kæmi að lokaumferðinni og umræddur Keane myndi tryggja mótherjum okkar titilinn með marki. En við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því, allavega hvað titilinn varðar. Ég vona þó að Robbie fái hlýjar móttökur eins og aðrir fyrrverandi leikmenn sem koma til Mekka fótboltans.

Annars er þetta Tottenham lið líklegast best mannaða “næstumþvílið” sem um getur. Þeir hafa eytt á við stóru klúbbana í mörg ár, en hafa aldrei virkilega náð að sýna það að þeir eigi heima á meðal þeirra. En þetta “næstumþvílið” er það eina sem gæti náð fullu húsi stiga á móti okkur eftir ránið á White Hart Lane fyrr á tímabilinu. Það ætti að vera nóg fyrir Rafa að rifja upp þann leik fyrir leikmönnum, meiri mótiveringu ætti ekki að þurfa. Sýna þeim núna hvar Dabbi keypti öllarann og enda þetta á góðum nótum, varla viljum við kveðja Sami með tapi? Nei takk. Það vantar jaxlinn á miðjuna hjá Tottenham, Palacios, og Huddlestone er meiddur. Ég veit ekki af meiri meiðslum hjá þeim og því þeir með nánast sitt sterkasta lið. Robbie Keane og Defoe munu eflaust leiða framlínuna og ég treysti því að Sami stígi þá út úr leiknum með sínum gallharða félaga Carra. Ég ætla ekki að eyða fleiri orðum í Tottenham, ef Liverpool liðið spilar sinn leik eins og þeir hafa gert síðustu mánuði, þá er alveg gjörsamlega sama hvernig Spurs stillir upp sínu liði, við tökum þá. Það eina sem í þessu er, er að Spurs eru að berjast um Evrópusæti, en Liverpool eru að kveðja Hyypia og reyna að halda 2 sætinu í deildinni. Það ætti engu að síður að vera næg hvatning fyrir okkar menn.

Þá að því sem máli skiptir, uppstillingu Rafa Benítez. Ég á eiginlega í erfiðleikum með að ákveða uppstillinguna ef ég á að segja alveg eins og er. Ég er pottþéttur á því að Reina byrjar í markinu og að Sami verði í miðverðinum. Rafa gæti alveg tekið upp á því að setja Carra í bakvörðinn og Skrtel/Agger í miðvörðinn. Ég ætla þó að tippa á að Arbeloa verði hægra megin og Carra í miðverðinum með Sami. Vinstra megin ætla ég svo að tippa á að Insúa haldi sæti sínu. Á miðjunni verða svo Xabi og Javier, með Kuyt hægra megin á kantinum. Svo kemur vandræðastaða. Verður það Riera? Babel? Aurelio? Benayoun? Ég ætla að tippa á að það verði Benayoun sem byrji þennan leik, bara vegna fyrri frammistaðna. Stevie verður síðan í holunni og Nando frammi. Eitthvað segir mér þó að það verði eitthvað surprise í gangi þegar við sjáum liðin á morgun. Ég myndi ekkert missa andlitið þó bæði eða annar hvor af Degen og Dossena myndi rölta inn með byrjunarliðinu.

Reina

Arbeloa – Carra – SAMI HYYPIA – Insúa

Mascherano – Alonso
Kuyt – Gerrard – Benayoun
Torres

Bekkurinn: Cavalieri, Agger, Aurelio, Lucas, Riera, Babel og Ngog

Hvernig væri bara að enda með 86 stig takk? Hef fulla trú á því að við klárum þetta og fögnum vel og lengi besta tímabili okkar í deildinni í tæp 20 ár. Ég reikna með því að við vinnum 2-0 sigur og að Pepe tryggi sér þar með gullhanskann enn á ný með því að jafna ákveðinn markvörð í að halda hreinu yfir tímabilið. Fyrirliðinn fer fyrir sínum mönnum og svo kemur Fernando og klárar tímabilið með marki.

Ég vil þakka öllum lesendum síðuna samveruna á tímabilinu, en þrátt fyrir að þetta sé síðasti leikurinn, þá er ekkert frí framundan hérna á Kop.is, við munum halda áfram að ræpa út úr okkur pistlum og hugðarefnum í allt sumar.

Ég vil svo að lokum nota orð Kristjáns Atla og óska ykkur gleðilegs St. Hyypia Day á morgun.

YNWA

23 Comments

 1. Hvernig er þetta með gullhanskann ef þeir verða jafnir? Fá þeir báðir eða ?

 2. Flottur pistill. Við vitum allir púlarar, að Hyypia á eftir að koma aftur heim seinna. Vona að þetta verði góður leikur, og það væri illa gaman ef kallinn myndi skora! (maður verður víst að láta sig dreyma)

 3. Happy St.Sami´s day! Á morgun reyndar, en mig langaði alveg ofsalega að segja þetta núna!

  Vona að við tökum Tottenham í þurrt þar sem ég er að vinna með stuðningsmanni þeirra sem finnst voða gaman að segja “..en þeir tapa alltaf fyrir Tottenham” þegar ég er að lofsama mitt yndislega lið!

 4. Ætli Sami fái ekki fyrirliðabandið í tilefni leiksins? Svo fær hann líklegast heiðursskiptingu á 89 min

  annars kæmi mér ekkert á óvart að sjá Pachecho á bekknum í leiknum á morgun, hann ferðaðist ekki með til Hollands með varaliðinu og spilaði ekki með u-18 í gær. Líklegast verður þó byrjunarliðið svipað, gæti einmitt trúað því að Degen fái sjéns á morgun og Dossena eða Insua, held að Aurelio verði hvíldur á morgun

  annars þakka ég fyrir góðan vetur á kop.is, þetta var mest spennandi vetur í mínu minni, vill fá 1-3 kaup í sumar, hafa þau snemma og ekki fleiri svo menn þurfi ekki að ,,settle in´´

 5. Sælir félagar
  Finninn knái að kveðja á morgun. Ég vil þakka honum frábært framlag til liðsins í gegnum tíðina og óska honum velfarnaðar í hvívetna í framtíðinni. Vonandi eigum við eftir að sjá kallinn í þjálfarateymi liðsins þegar leikdegi hans lýkur endanlega.

  Það er ekkert í kortunum sem segir að við vinnum ekki þennan leik á morgun. Það fer aðeins eftir því hvernig RB stillir upp og hvort hann byrjar ekki á að vinna leikinn áður en hann fer að leika sér með breytingar. Við sjáum til en liðið sem SSteinn stillir upp ætti að afgreiða Tottarana í fyrri og svo getur RB farið að leika sér.
  Það er nú þannig

  YNWA

 6. 7 Það er nú alveg á hreinu að við þurfum ekki að hvíla menn á morgun

 7. Ok greinilega búið að eyða einu kommenti, en mitt komment var semsagt til kiddit

 8. Flottur pistill, en vinsamlegast ekki kalla Torres Nando, það er ekki nickname-ið hans. Þetta viðurnefni á allt annar Fernando. Ég segi 4-0 fyrir okkur. Torres með fyrsta og svo setur Gerrard þrennu og tryggir sér markakóngstitilinn á Englandi!

 9. Off Topic: Horfði einhver á þennan youth leik þarna í gær ? Horfði á seinni hálfleik og sá ekki einn einasta mann þarna sem á fræðilegan möguleika á að spila eitthvað fyrir aðalliðið næstu árin.

  Það voru samt 2-3 Arsenal menn sem voru með hörkubolta í sér. Held að þetta youth dæmi eigi langt í land með að produca einhvern talent.

 10. þetta er klárlega besta liverpool stuðningsmanna síða á netinu, takk fyrir frábært starf í vetur og endilega koma með fleiri pistla í sumar:)

 11. Það besta sem gæti gerst á morgun er að Gerrard myndi nú skora 3 mörk og hvorki Anelka né Ronaldo myndu skora. Væri alls ekki slæmt ef Gerrard yrði markahæstur. Jahh eða ef besti skallamaðurinn í ensku deildinni myndi setja eitt í síðasta leiknum sínum fyrir Liverpool.

 12. Það verður erfitt að kveðja kappann á morgun! En takk fyrir frábæran vetur kopparar:)

 13. Einar M ég veit það, enda er ég að pæla tengt því að nema Chelsea vinni upp 8 marka markatöluna er annað sætið öruggt og því ætti að vera ,,mögulegt´´ að gefa minni spámönnum sjéns, mönnum sem hafa ekki spilað mikið og gefa Pachecho bragð af því hvernig er að spila á Anfield

 14. Lennon, Huddlestone, Palacios, Dawson, O’Hara – meiddir eða fjarverandi.

  Ekotto, Bent og Woodgate tæpir.

  Þannig þetta verður veikara Tottenham lið en vanalega. Lennon og Palacios náttúrlega lykilmenn hjá liðinu.

 15. Veit einhver hvar er hægt að sjá leikinn á netinu? Ég er staddur í Bandaríkjunum og hvergi hægt að sjá leikinn í sjónvarpi hérna.

 16. Ég vona og tel víst aðdáendur LFC hylli finnan okkar rækilega í dag. Ég spái okkur stórsigri í dag, og tel að G&T muni sjá um skorunina. Svo verð ég að kveðja allar bolta síður í bili, eg afber ekki helvítis “silly season”

  Og hver veit kanski endist boltasíðubindindið mitt í 2 daga þetta sumarið

  En annars takk fyrir frábæra síðu, og gott starf í vetur. Og sem sönnum púllara ætla ég að leifa mér að halda fram næsta tímabil er okkar.

 17. Ég trúi ekki öðru en að Hyypia fái fyrirliðabandið og einnig að hann fái heiðursútafskiptingu … tel að þessi leikur fari 3:0 fyrir oss – Hyypia hlýtur að setja hann, er það ekki? 🙂

  Annars er baráttan góð um 2. sætið… ég meina, Liverpool er með 48 mörk í plús, Chelsea 43 og ef Liverpool tapaði 0:2 og Chelsea ynni 4:0 (sex marka sveifla… ) þá væri það sárasti endirinn.

  Ég hef bara enga trú á að félagarnir kveðji Hyypia með öðru en sigri.

  Ég fékk um daginn ekta Liverpool bol í gjöf frá dömunum mínum fjórum og fæ áletrun síðar … ég hafði hugsað mér Hyypia.

  Áfram Liverpool – Áfram Hyypia!

 18. Held við setjum upp sýningu fyrir höfðingjann, vinnum 5-0. Annars hef ég meiri áhyggjur af þessum fréttum um að Alonso vilji fara, hefur reyndar ekkert komið á BBC eða sky, en News of the world er með þessa frétt (ekki að ég treysti þeim) , vona að þetta sé kjaftæði!!

 19. Hyypia á bekknum! Ótrúlegt.

  The Reds XI in full is: Reina, Skrtel, Carragher, Agger, Aurelio, Alonso, Mascherano, Kuyt, Benayoun, Gerrard, Torres. Subs: Cavalieri, Degen, Ngog, Insua, Hyypia, Riera, Lucas.

  Hann kemur þá líklega af bekknum á 87. mínútu…

 20. Ég vildi innilega að Robbie Keane skoraði í dag en mér skilst að Reina eigi séns á Golden Glove í ár ef hann heldur hreinu í deildnni í dag. Ef það reynist rétt mun ég vona að við höldum hreinu og við klárum þetta 8-0 (þar sem Hyypia gerir 6 mörk – þar af 4 úr vítum).

Xabi …

Byrjunarlið dagsins