Hverjir fara?

Nú er ansi hreint stutt eftir af þessu tímabili og ég ætla að láta það bíða aðeins að meta það í heild sinni. Það er c.a. vika í það að leikmannamál fara á fullt hjá liðunum og flest eru nú þegar að lista upp möguleg leikmannakaup. Að vanda verður vel fylgst með þeim málum hér á kop.is og munum við lista upp hugsanlegum leikmannakaupum fljótlega. En hverjir verða látnir fara? Það er mikið talað um það þessa dagana að til að Rafa fái að kaupa eitthvað að ráði, þá þurfi hann að losa sig við leikmenn. Hérna kemur upptalning á þessum aðilum og er hún gerð bæði eftir mati pistlahöfundar og eins ábyggilegum fréttum.

Jack Hobbs: Hann hefur nú þegar verið seldur og koma samtals 1,5 milljónir punda í kassann fyrir kappann.

Paul Andersson: Það er víst búið að samþykkja tilboð upp á 1 milljón punda í hann frá Swansea, en búast má við að fleiri félög blandi sér í baráttuna um hann og kannski fáum við örlítið meira út úr honum. Ég held þó að það sé öruggt að ferill hans sé á enda hjá Liverpool (ekki mikill ferill þó).

Jermaine Pennant: Pennant verður samningslaus í sumar og fer því frítt frá liðinu. Hann verður eflaust ekkert í vandræðum með að finna sér lið, enda alveg ágætur leikmaður, þrátt fyrir að vera númeri of lítill fyrir Liverpool. Hann er búinn að vera á fínum samningi og því losnar pláss fyrir launagreiðslur til handa nýjum leikmanni þó ekkert fáist beint fyrir kappann.

Sami Hyypia: Við kveðjum þennan mikla snilling í sumar og það með talsverðum trega. Frábær leikmaður, frábær náungi og vonandi kemur hann tilbaka sem þjálfari þegar hann verður klár í það. Hann er samningslaus og fer því frítt. Það losnar þó talsvert pláss í launapakka hjá félaginu.

Andriy Voronin: Voronin náði að sýna sig og sanna í Þýskalandi í vetur og sem betur fer fyrir okkur þá hefur verðmiðinn á honum náð að hækka. Ég reikna með að við fáum einhverjar 5 milljónir punda fyrir kappann, því ég tel ekki líkur á að hann snúi tilbaka á Anfield.

Charles Itandje: Þessi kappi spilaði rassinn úr buxunum á minningarathöfninni um Hillsborough um daginn og þar með er leiðin greið fyrir hann frá félaginu. Hann neitaði að ganga til liðs við Galatasaray síðasta sumar sem hefði skilað okkur 2,5 milljónum punda og var það slæmt. Ég reikna með honum til Frakklands mjög fljótlega og við fáum minna fyrir hann eða um 1,5 milljónir punda.

Sebastian Leto: Þetta er mjög efnilegur kappi en enn hefur ekki tekist að redda atvinnuleyfi fyrir hann til að hann geti spilað á Englandi. Væntanlega verður ein tilraun enn gerð varðandi það, en ef það tekst ekki þá finnst mér líklegt að hann verði seldur. Það skortir ekki áhugasöm lið og við getum alveg reiknað með 4-5 milljónum punda fyrir hann, enda spilað vel hjá Olympiakos í vetur þrátt fyrir að hafa lent upp á kant við þjálfarann þar. Mig minnir samt að lánssamningur hans hafi hljóðað upp á að hægt væri að framlengja honum um eitt ár í viðbót ef allir aðilar væru sáttir.

Andrea Dossena: Með góðri innkomu Insúa í vetur, þá hefur vera Dossena hjá okkur komist í uppnám ef hægt er að nota það orðalag. Það er vitað af áhuga stóru liðanna á Ítalíu á honum og því finnst mér ekkert ólíklegt að ef gott boð bærist, þá yrði hann látinn fara. Ég reikna þó ekki með því að hann verði látinn fara nema fyrir lágmark 7 milljónir punda, enda hann búinn að festa sig í sessi í ítalska landsliðinu í vetur.

Ryan Babel: Ég vil halda Babel áfram hjá okkur og hef eiginlega litla trú á því að hann verði seldur.

Nabil El Zhar: Þessi strákur er ekkert svo ungur lengur og ég sé alveg fyrir mér að hann gæti horfið á braut í sumar. Miðað við að hann er búinn að spila nokkra leiki fyrir okkur þá gæti ég ímyndað mér að við fengjum einhverjar 2,5 milljónir punda fyrir kappann. Í sjálfu sér væri ég heldur ekkert svekktur þó hann yrði áfram.

Xabi Alonso: Úff. Þetta er einfalt. ÉG VIL EKKI AÐ XABI VERÐI SELDUR. Hann er búinn að vera algjörlega frábær á tímabilinu og það eina sem ég sé í stöðunni og gæti gert það að verkum að hann yrði seldur, væri ef Real Madrid kæmi bankandi á dyrnar með troðfullt seðlaveski, þá er ég að tala um boð yfir 20 milljónum punda. En ég segi nei takk og vonandi Rafa líka.

Albert Riera: Það hefur verið talsvert skrafað um að Albert verði seldur, en ég hef enga trú á því. Hann er á sínu fyrsta tímabili og hefur ekki staðið sig neitt illa, þótt stöðugleikann hafi vantað. Ég held að Rafa gefi honum lengri tíma til að fóta sig betur á Englandi.

Lucas Leiva: Ég hef enga trú á að Rafa láti hann fara. Hann hefur tröllatrú á drengnum og hann er ennþá ungur og er að læra. Ég vil halda Lucas áfram því ég tel hann eiga bjarta framtíð fyrir sér.

Yossi Benayoun: Ekki séns, við fáum engar svaðalegar upphæðir fyrir hann ef hann yrði seldur og hann er miklu dýrmætari fyrir okkur með því að klára leiki og spila eins og hann hefur spilað á þessu ári.

Adam Hammill: Ég efast um að hann verði lánaður út enn eitt árið og ég reikna alveg með því að við fáum eins og eina milljón punda í kassann fyrir hann og eitt af fjölmörgum áhugasömum liðum versli hann til sín.

Godwin Antwi: Það hefur verið mikil eftirspurn eftir honum á Spáni og ég á alveg eins von á því að hann hverfi á braut, enda ekki tekið þeim framförum sem vonast var eftir. Hálf milljón punda í kassann þar.

Philipp Degen: Hroðalegt tímabil að baki hjá kall greyinu þegar kemur að meiðslum og ég hef ekki nokkra trú á því að hann verði látinn fara núna, enda þyrftum við að kaupa upp samninginn hans með ærnum tilkostnaði og eflaust fá lið tilbúinn að taka séns á honum eftir meiðslin í vetur. Hann fær eflaust tækifæri til að koma sér í stand og sýna hvað í honum býr.

Einhverjir guttar munu svo fara þar sem samningar þeirra verða ekki endurnýjaðir, en á þessari upptalningu sést að það er hægt að skrapa inn peninga hér og þar án þess að hreyfa mikið við hópnum sem skilaði okkur 2 sætinu á þessu tímabili (hljótum að halda því sæti). Persónulega vil ég halda þeim Xabi, Babel, Degen, Lucas, Riera og jafnvel Dossena (held það búi mun meira í honum), selja þessa útláns menn og bæta við hópinn sem fyrir er.

54 Comments

 1. Fín upptalning. Ég er sammála með Alonso, ég vil halda honum áfram. Hvað hina varðar þá gæti þetta náð einhverjum 15 – 20 milljónum punda sem ætti að duga eins og fyrir einum Silva 🙂

  Annars verður gaman að sjá hvernig ákveðnir knattspyrnustjórar bregðast við þeirri “óvirðingu” sem Ferguson sýnir deildinni með því að stilla upp varaliði gegn Hull í botnslagnum. Eða er það bara óvirðing þegar Rafa gerir eitthvað?

 2. Það er ekki séns að 15-20 mills punda dugi fyrir Silva.
  Ég las á einhverjum miðli um daginn að bæði Silva og David Silva væru ekki falir fyrir minna en 25 mills og að David Silva væri ekki að fara frá Valencia nema einhver byði upp í klásúluverðið á honum sem eru víst 60 mills evrur, hann vill líka ekki fara frá Valencia nema klúbburinn fái topp verð fyrir sig (semsagt 60 milljónir evra),

  Benitez sagði svo í viðtali við Guillem Balague sem var tekið í síðasta mánuði að klúbburinn væri að skoða ca. 95 “transfer targets” þannig að það er alveg óhætt að vera bjartsýnn á að það verði einhverjir almennilegir leikmenn keyptir, sérstaklega í ljósi þess að Rick “#%&$! Parry er farinn frá Liverpool.

 3. Ég held að 20-25 milljónir punda muni duga fyrir Silva, Valencia ÞARF að selja, þeir eru á barmi gjaldþrots og er svo gott sem búnir að viðurkenna það að þeir muni ekki getað haldið 2x David.

  En Steingrímur, það verður fróðlegt að sjá hvernig viðbrögð Ferguson fær. Mikið var nú drullað yfir Rafa þegar hann gerði þetta og Warnock nokkur gjörsamlega urðaði yfir hann og tók Ferguson sem gott dæmi um mann sem skildi það út á hvað boltinn á Englandi gengi og að Rafa sýndi honum tóma óvirðingu 🙂 Ég reikna með að útkoman verði sú að þetta sé aðeins óvirðing þegar Rafa gerir tiltekinn hlut.

 4. Smá fróðleikur um leikmanna mál toppliðanna 🙂

  Tók örlítinn samanburð saman á verði Algengustu byrjunarliðum 4ja efstu liðanna, eingöngu til gamans gert:
  Manutd: 146,2M punda (hægt að skipta út anderson fyrir Fletcher og þá minnkar um verðmæti um 20M), enginn uppalinn í byrjunarliði
  Chelsea: 121,7M 1 uppalinn og einn frílans í byrjunarliði
  LFC: 80.9M 2 uppaldir og 1 frílans
  Arsenal 66,75M enginn uppalinn en 4 með óuppgefið verð á bakinu (Tel Fab og Glitchy ekki með sem uppalda þó þeir hafi verið keyptir ungir.)

  Vandinn við að finna verð á Arsenal að flestir leikmanna þeirra eru keyptir án þess að verð sé uppgefið. Svo eru Gallas og Cole settir í leikmannaskipti á milli Chelsea og Arsenal (skráð 10M á hvorn leikmann).

  Meðan menn voru að skíta að Keane væri ekki að virka hjá LFC, þá sitja á bekk Manutd og Chelsea menn eins og Nani (17M, Hargreaves 17M, Teves (25-30M), Giggs, Scholes, J. Cole 6,6M, Mikel 16M, Ferreira 13,5M, Kalou 3,5M, Deco 8M o.s.frv.. Chelsea er svo búið að losa sig við Philips og Shevchenko sem keyptir voru á 50M…

  • þetta og Warnock nokkur gjörsamlega urðaði yfir hann og tók Ferguson sem gott dæmi um mann sem skildi það út á hvað boltinn á Englandi gengi og að Rafa sýndi honum tóma óvirðingu

  Ertu að meina þegar United tapaði fyrir Tevez (West Ham) sem varð til þess að Sheff Utd. féll? :p Warnock er cunt sem á ekkert mikið meira skilið nema óvirðingu…líkt og Ferguson.

  En svo maður komi aðeins inn á efnið þá efast ég um að það verði miklar hræringar á hópnum fyrir næsta tímabil, Riera, Babel og Lucas gæti allir tekið miklum framförum milli ára eftir að hafa fengið þó nokkurn séns núna. Tilhugsunin um að selja Alonso var ekki góð fyrir síðasta tímabil, nánast óhugsandi……núna er hún með öllu óhugsandi og gjörsamlega fáránleg. ÞAÐ MÁ ALLS ALLS ALLS EKKI SELJA ALONSO.

  Fúlt annars að ekki sé að verða meira úr Andreson, Hammill (og eiginlega Leto) allt kanntar sem lofuðu góðu.

 5. Hehe bæbæ newcastle það er sorglegt því þeir eru alltaf örugg 6 stig fyrir liverpool en náðu nu að taka stig af scum og chelsea en ja en um kaupin þá held ég að það verða ein stór kaup i sumar og það er david villa las eimhverstaðar að torres er að grátbiðja hann að koma til liverpool en það er nátturlega bara slúður rugl.Silva slúðrið á að vera blekking frá villa boðinu en held að það se samt raunhæf hugsun en hver vill flytja frá einni fallegustu borg evrópu til verkamannaborg liverpool en babel fer það er pott þétt hann tryggði það með að klúðra þessu færi gegn west brown og síðan er hann búinn að vera slappur þessa leiktíð hefði verið milku betri ef við höfðum aldrei keyt keane held lika að arbeloa fari honum liður greinilega ekki vel þarna held eg

 6. Ég ætla bara rétt að vona að Babel annaðhvort fari fyrir fullt og allt, eða fari á lán, það er ekkert sjálfstraust hjá manninum, hann tekur varla menn á (og með þetta pace) Og ef við ætlum að berjast um titilinn á næsta ári þá höfum við ekki efni á að spila honum í form, þar sem allir leikir eru úrslitaleikir, þannig að annaðhvort lána hann eða selja hann

 7. Ég held að Riera,Dossena og hugsanlega Alonso verði einu aðalliðsmennirnir sem verða seldir. Spurnig líka með Babel. En ég held að aumingjar sem kæmust ekki í Fram eins og Nabil El-Zhar og svona fari og ég vona það. Svo vill ég N´Gog burt enda getur hann ekkert. Dossena og Riera burt, Itjande burt. Svo fara Hyypia og Pennant. Og ég vill EKKI missa Alonso.

 8. ég vill nú persónulega ekki missa Riera, fína tækni og fínar sendingar fyrir, mætti skora meira en ég trúi því ef hann finnur balancið í ensku deildinni eigi hann eftir að verða fínn fyrir okkur næstu leiktíð. Alonso EKKI FARA!

 9. Eins og alonso er nu buinn að vera góður og allt það, Þá mundi ég allvega vilja fá 20-22 MP fyrir hann eins og sluðrið segir að gangverðið sé.. Hugsiði ykkur, við erum með fullt af ungum miðjumönnum sem eru efni, svo erum við með gerrard,lucas,benayoun,mascerano, og fleyri sem geta leyst stöðuna hans alonso. Eins mikið eins og eg held upp á mannin, þá gætum við keypt World class vængmann og eða worldclass bakvörð, sem okkur vanntar klarlega meir heldur en miðjumann, og lucas og mascerano eru bara að verða betri…. eg segi quit while your ahead og selja hann meðan við getum fengið svona mikið fyrir hann, eða hvað?

 10. Að það skuli vera í umræðunni að selja Alonso er fáranleg vægast sagt, það myndi henda okkur aftur um fimm ár að selja Alonso enda spilar liðið mun betur þegar hann er, held að það sé auðveldara að komast af án Gerrard heldur en Alonso þótt að Gerrard er vissulega stórkostlegur leikmaður, ekki séns að Barry gæti fyllt í skarð Alonso.

  Ég vona að af þessum mögulegu transfer í sumar muni Youssi, Lucas, Alonso og Riera ekki fara, það vona ég allavega ekki. Mín vegna má vel selja Babel og Dossena ef það fæst eitthvað um 15 milljónir fyrir þá. Því ætti að vera möguleiki að selja fyrir um það bil 30 milljónir án þess að það bitni á gæðum hópsins, svo þegar búið er að fjárfesta í nokkrum gullmolum fyrir sölufé auk vonandi einhverja góðgerðarstarfsemi frá Feitur Feitari þá vonandi mun liðið styrkjast það vel fyrir næsta tímabil að við ættum að geta haldið okkur í toppsætinu í 9 mánuði.

  Finnst það mjög líklegt að Barry verður keyptur en það má ekki vera í stað Alonso því þá veikist liðið einfaldlega, gæti trúað að kaupverð á honum verði um 10 milljónir, svo gæti ég því miður trúað að Downing sé skotmark Rafa og það verða aðrar tíu milljónir, ef ekki hann þá jafnvel Kúba frá Dortmund eða Króatinn sem er búið að linka við Liverpool. Svo gæti Glen Johnson einnig verið líklegur fyrir um tíu milljónir. Þá er búið að eyða sölufénu okkar og vonandi að eftir verða um 20 milljónir fyrir einum David Silva sem gæti verið matchwinnerinn sem við þurfum gegn Stoke á næstu leiktíð.

  Ég vona allavega það besta. Núna í fyrsta skipti hef ég miklar væntingar og í maí 2010 ÆTLA ég að vera á Anfield að sjá liðið lyfta dollunni, það er klárt mál!

 11. Ég trúi ekki að Riera verði seldur … hann er búinn að vera allt frá því að eiga “la la” leiki upp í að vera frábær á köflum og er búinn að setja nokkur falleg mörk. Hann er einn af fáum í liðinum sem hefur talsverða tækni og “flair” og er óhræddur við að taka menn á. Hví ætti hann að vera seldur núna, afhverju ekki að gefa honum annað tímabil? Mér finnst hann a.m.k hafa sýnt og gert nægilega mikið til að verðskulda að vera áfram.

  Að mínu mati væri það svo stórkostlegt slys að selja Alonso. Það má bara alls ekki gerast, nema ef hann virkilega VILJI fara sjálfur, þá gengur varla að þvinga hann til að vera áfram. Maðurinn er í þvílíkum metum hjá stuðningsmönnum klúbbsins að það er hálf óeðlilegt. Ég þurfti ekki nema eina ferð út á Anfield til að sjá það.

  Yossi Benayoun hefur líka alltaf verið í smá uppáhaldi hjá mér, ekki síst núna eftir ótrúlega góða frammistöðu síðan um áramótin. Hann er ótrúlega flinkur með boltann og að mínu mati okkar mest creative leikmaður fyrir utan Gerrard. Þetta er maður sem ég vil hafa áfram.

  Yossi, Riera og Alonso eiga bara að vera áfram að mínu mati, svo einfalt er það. Aðrir í upptalningunni mættu fara mín vegna, a.m.k sæi ég ekki eins mikið á eftir neinum þeirra eins og þessum þrem.

 12. Strákar ímyndið ykkur þetta bara ;
  Reina
  Johnson – Carra – Agger/Skrtel – Aurelio/Insúa
  Barry – Alonso
  Kuyt/Valencia/Silva – Gerrard – Riera/Benayoun
  Torres

  Þetta er meistaralið skal ég segja ykkur ! Og svo var Benitez að reyna fá brasilískan strák að nafni Keirrison og líst mér mjög vel á þau kaup á miðað við nokkur youtube myndbönd(ég veit ekkert að marka þau) en sýnist hann hafa frábæra tækni og ótrúlega finishing tækni. ! Þetta verður okkar ár næst !

 13. Af þeim sem nefndir hafa verið mega Alonso og Riera alls ekki fara. Riera hefur í grunninn átt gott tímabil þótt hann hafi verið heldur óstöðugur og Alonso er að mínu mati besti leikmaður Liverpool í vetur. Aðrir sterkir leikmenn sem gætu farið og mega jafnvel fara að mínu mati eru Babel og Dossena. Ég vil þó síður missa Babel því hæfileikarnir eru svo sannarlega til staðar. Úr aðalliðshópnum (þessum 15-16 bestu leikmönnum okkar) þurfa því alls ekki að verða miklar breytingar, 2 út, 2 toppklassa Davídar inn. Svo má Benítez bara copy/pasta upptalningu Ssteina vera eins og hún er, bara spurning um Lucas út fyrir Barry.
  Lolli, ég kem með þér!!

 14. mér finnst að við eigum alls ekki að selja Alonso sleppa frekar bara að kaupa Barry en personulega skil ég ekki þessa trú sem hann hefur á Lucas hann hefur ekkert að bera hann er hreinlega alveg glataður á mínu mati.. geri r ekkert skapandi fyrir liðið! það er kannski ástæða fyrir því að hann sé búinn að spila honum svona oft að það er búið að vera meiðsli á okkar miðjumönnum… Lucas er búinn að spila 25 leiki í deildinni búinn að skora 1 og leggja upp 2 mér finnst það ekki nógu gott fyrir miðjumann í liverpool hann myndi sæma sig ágætlega í liði eins og wigan eða eitthvað svoleiðis hann er bara alls ekki nógu sterkur fyrir liverpool liðið! selja hann takk… 🙂

 15. Mér finnst þú full bjartsýnn varðandi verðamiðana, samanber 2.5m fyrir Zhar og 7m fyrir Dossena.

  En það er einn strákur sem ég hef enga trú á öðru heldur en að verði seldur og er það Ryan Babel. Spilað lítið, lítið getað þegar að hann fær mínútur og er það ungur, og hæfileikarnir eru alveg örugglega einhversstaðar þarna ennþá þá eru einhver lið alveg örugglega til í að borga 8-10m punda fyrir hann. Og þar sem Benitez býr við þann harða sannleika að þurfa að selja til að kaupa, þá er sú upphæð fyrir mann sem er eiginlega orðinn númer þrjú inn í vinstri kantstöðuna, eitthvað sem hann getur ekki sleppt…

 16. Ánægður að sjá hve margir hafa tekið Alonso í sátt þrátt fyrir tvö döpur tímabil á undan þessu. Ég vildi alls ekki missa hann síðasta sumar og það fyrir Barry. Ég vil ekki sjá Barry í Liverpool ef það þýðir að það þurfi að fórna Masche eða Alonso, hefði viljað sjá hann koma í liðið í staðinn fyrir Riise og fara þá í sína upprunalegu stöðu þ.e. bakvörð. Ég vil gefa Lucasi eitt ár í viðbót, þrátt fyrir misjafnt tímabil.

  Það er leiðinlegt að sjá unga menn hverfa á brott, Hobbs var talinn einn efnilegasti miðvörður Englands á sínum tíma og miklar vonir voru bundnar við hann. Því miður hefur ekki ræst úr honum og sama má segja um Anderson.

  Að öðru leyti á ég ekki von á stórum breytingum. Alonso, Riera, Dossena, Benayoun og Lucas held ég að verði áfram. Spurning með Babel þar sem að það gæti verið rétti tímapunkturinn uppá peningafjárhæð að láta hann fara. Því miður hefur hann ekki fallið nægjanlega vel inní enska boltann og Benitez virðist greinilega ekki hafa fulla trú á honum.

  Það jákvæða við þetta sumar miðað við hin á undan að maður á algjörlega eftir að losna við kjaftasögur um brotthvarf Gerrard, Torres og Benitez.

  Hvað varðar kaup er fyrirséð að Benitez þarf að fá hægri bakvörð annars er best að segja sem minnst um það enda kallinn óútreiknanlegur í leikmannakaupum.
  Mér sýnist líka flestir sem tjá sig um leikmannakaup ekki minnast mikið á hægri kantara líkt og undanfarin ár. Það segir manni að menn eru farnir að taka Kuyt og Benayoun í sátt eftir þetta tímabil. 🙂

 17. Nei ég vil helst fá annan leikmann en Kuyt á hægri kantinn, Bentley/Milner væri bara frábær kaup. David Silva jafnvel !

 18. Lucas má fara fyrir mér. ófyrirgefanleg mistök kostuðu mörk og stig. ég átta mig ekki á því hvað hann hefur fram að færa til að réttlæta veru sína áfram.
  síðan þykir mér nú ansi frjálslega farið með verðleggingar á þessum sem eiga að vera á útleið. það borgar ekkert heilvita lið 5 miljón pund fyrir mullet-gaurinn Voronin. Maðurinn er svona club-player í lélegtu þýsku liði.
  tops verð fyrir hann væri miljón pund. Mér finnst að það sé alveg réttlætanlegt að kaupa annan world-class striker i liðið. eyða í það 20-30 millum. þá hafa varnarmenn andstæðinga okkar nóg um að huxa…newman og Torres saman, Gerrard fyrir aftan. Babel og Benayon á köntunum. þetta bara getur ekki klikkað.

 19. Fínasta umfjöllun.

  Það má alls ekki selja Alonso og Riera. Svo væri hálf kjánalegt að selja Babel þar sem hann gerir ekkert annað en að styrkja leikmannahópinn okkar og á töluvert inni.

  Við skulum ekki gleyma því að vinstri kanturinn hjá okkur hefur verið gríðarlegt vandamál undanfarin ár en var það ekki þetta tímabil. Fáránlegt að selja þá tvo sem hafa leyst þá stöðu vel af hendi. Sérstaklega Riera.

  Nú er bara að bíða og sjá hverjir verða keyptir.

  Áfram Liverpool!

 20. Ég vona nú að Riera hafi náð að átta sig ágætlega á enska boltanum þetta tímabil og komi mun betur undirbúinn undir það næsta. það eru nokkur dæmi til um leikmenn sem hafa ekki verið neitt svakalegir sitt fyrsta tímabil en sprungið út á því næsta, Robert Pires er t.a.m. klassískt dæmi. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að Riera komi til með að verða betri á næsta tímabili og eins held ég að Rafa sé nú bara þó nokkuð sáttur við það sem Riera hefur komið með inn í liðið, og ég tel engar líkur vera á því að hann verði seldur í sumar.

 21. Tel að séu engar líkur á að Lucas verði seldur, Benitez hefur það mikla trú á stráknum.
  Ég hald að hann þurfi meiri tíma til að finna sinn takt í ensku deildinni og hann er ekki nema 21árs og á eftir að læra mikið og þroskast sem leikmaður, hann átti sína slæmu leiki í vetur með klaufa brotum og vitlausum ákvörðunum, ég blotaði honum td mikið í Everton leiknum þegar hann fékk að líta rauða spjaldið fyrir klaufalegt brot og það skánaði ekki þegar hann færði Wigan vítaspyrnu á silfurfati í deildinni í leik sem við áttu að vinna auðveldlega en gerðum 1-1 jafntefli, en ég get ekki horft framhjá því að hann hefur verið fyrirliði u20 landsliðsins og hann var valin besti leikmaður brasilísku deildarinnar þegar hann var aðeins 19 ára gamall. Það segir manni að þessi drengur getur vel spilað fótbolta.
  Ég get bara ekki ímyndað mér að það sé auðvelt að kúpla sig útúr brasilískri menningu og yfir í enska menningu á stuttum tíma, sérstaklega svona ungur, það hefur líka oft verið talað um það hvað suðuramerískir leikmenn eigi erfitt með að venjast enska fótboltanum og nýrri menningu.
  Það má vel vera að hann blómstri fyrir okkur á næsta tímabili, eða kannski erum við að horfa uppá svipað dæmi og Veron, snillingur með Lazio og í heimalandinu en fann sig aldrei á Englandi.

 22. Skemmtilegar pælingar og ég er að mörgu leyti sammála því sem Steini segir.

  Ég reyndar held að Babel verði látinn fara, því við megum ekki gleyma því að við þurfum að selja til að kaupa og flestir hinna (utan Dossena) munu ekki skila miklum peningum í kassann. Ég er líka sammála því að við höfum ekki efni á því að “spila mönnum í form” ef við ætlum að verða meistarar og ég er bara ekki viss um það að Ryan karlinn nái því að verða kantstriker nr. 1.

  Lucas gerði vissulega mistök í deildarleiknum gegn Wigan og fékk á sig klaufavíti. En aðrir gerðu mistök, t.d. Aurelio og Arbeloa gegn Arsenal og Mascherano á móti United. Mér finnst Lucas hafa bætt sig stöðugt og leikið vel að undanförnu. Í mínum huga er ekki nokkur vafi að hann á að fá séns áfram, ekki síst fyrir það að það geislar af honum leikgleðin og hann er ákveðinn í að sanna sig. Auk þess sem Gerrard og Carra hafa hrósað honum og ég tek mikið mark á þeim. Ég t.d. var ekki glaður með ummæli Mascherano og vill sjá hann eiga heilt gott tímabil og síðan í kjölfarið lýsa því að hann elski LFC!

  Yngri mennirnir allir eru efnilegir, en ennþá númeri of litlir fyrir Liverpool. Ég er sammála því að Anderson, Hobbs, Hammill og Leto hefði ég viljað sjá hjá okkur, en ekki á kostnað þess að verða meistarar. Insua og N’Gog hafa verið að koma inn núna og ég hef trú á því að Spearing og Darby fái einhverja sénsa núna. Ef við skoðum yngri mennina sem við höfum látið frá okkur síðustu ár hafa fáir náð einhverjum hæðum, Mellor er t.d. enn í Preston og Guthrie var ekki að sýna mikið. Þess vegna tekur Rafa peningana núna fyrir þá.

  Því við þurfum klassamenn til að verða meistarar og nýta þá ungu sem hjá okkur eru núna ef við viljum finna “óþekktar stærðir”. Ég hef alltaf meiri trú á mönnum sem vita hvað þarf í PL og er sannfærður um að þær 20 milljónir sem eigendurnir hafa eyrnamerkt úr sínum vösum er þegar búið að taka frá fyrir Glen Johnson og Gareth Barry. Johnson til að auka sóknargæðin í hægri bakverði og Barry vegna þess að Gerrard er ekki lengur talinn til miðjumanna í liðinu. Mér finnst óskiljanlegt að nokkur LFC stuðningsmaður vilji flytja sóknarmiðjumann sem hefur skorað 24 mörk í vetur á miðjuna þar sem hann þarf líka að verjast. Bara skil það ekki!!! Þess vegna þarf að halda Lucas, Masch og Alonso OG fá Barry, ekki síst þar sem hann gæti leyst bakvörð og vinstri kant í ákveðnum leikjum.

  Ég tel okkur ekki þurfa að bæta við striker ennþá. Torres þarf að fara í meðferð í sumar, ég er sannfærður um að N’Gog kemur sterkur inn eftir sumarið og Dirk Kuyt hefur verið frábær undanfarið og þess vegna eigum við að setja allan þann pening sem við fáum í sölur til að fá hágæða kantstriker sem getur líka leyst Gerrard af.

  Auðvitað Silva flottur kostur, en ég vonast enn eftir Ribery. Sumir segja að Rafa haldi að Tevez geti spilað þá stöðu, en ég er ekki alveg á því.

  Svo þætti mér gaman að heyra hjá Steina hvort hann hefur heyrt á ferðum sínum út þá sögu sem ég heyrði þar haustið 2007 að kona Xabi Alonso kynni illa við sig í Englandi og væri mikið á Spáni. Þá töluðu menn þar úti um að það væri ástæða þess hve illa Xabi var að leika þá og voru á því að hann færi fljótlega aftur í sólina, til Spánar eða Ítalíu……

 23. Ribery er alrei að fara að koma til Liverpool. Bara hægt að kæfa þá umræðu í byrjun.
  En ég spyr, vilja menn alveg fá Tevez? Þá meina ég að því að hann er búinn að vera hj´ManUtd í tvö ár. Persónulega er ég ekki hrifinn af því að fá menn úr herbúðum þeirra.

 24. Væri gott að fá Tevez en ég held að best væri að fá Villa. Þið sáuð hvernig hann og Torres smellpössuðu saman á EM!!

 25. Ég veit það er ljótt að segja þetta en mikið djöfull er ég feginn að Stewart Downing er meiddur í hálft ár og kemur því ekki til Liverpool.

  Svo segir slúðrið í dag að Liverpool sé líklegasti áfangastaður Carlos Tevez. Ég væri alveg til í að hafa hann sem svona backup fyrir annað hvort Gerrard eða Torres!

 26. Ég segi nei við Tevez, vil ekki og mun aldrei vilja sjá fyrrverandi Scums leikmann í Liverpool, aldrei 🙂

 27. Ég væri alveg til í að fá Tevez til Liverpool enda yrðu Ferguson og stuðningsmenn united frekar pirraðir á að sjá Tevez í Liverpool búning og bara útaf því þá held ég að Benitez muni reyna að fá hann.
  Tevez getur spilað margar stöður þarna frammi og er virkilega skemmtilegur leikmaður sem að myndi blómasta hjá okkur þori ég að fullyrða. Riera og Alonso vil ég ekki selja.

 28. Bragi í #26, út af hverju heldurðu að Ribery sé ekki að fara að koma?

  Held að öllum heiminum sé ljóst að LFC er aftur orðið stórlið og því held ég að hann myndi alveg hlusta á Rafa, Torres og Gerrard, þ.e. ef hann vill koma til Englands.

  Því við skulum átta okkur á því að frammistaða liðsins í deildinni hefur gjörbreytt “rökstöðu” félagsins á leikmannamarkaðinum, nú sjá allir hverju litlu munar….

 29. Ég myndi ekki segja nei við Tevez þar sem hann er flottur leikmaður og getur skorað ótrúleg mörk og ekki skemmir fyrir að hann er uppáhald Man U stuðningsmanna, gæti þar með verið smá stingur í hjartað hjá þeim að sjá hann fara til Liverpool. Varðandi önnur kaup að þá er ég sammála Magga með það að eyða frekar peningunum í kantmann í stað sóknarmanns, en ég er ekki að sjá Ribery koma til liðsins, það virðist of fjarlægur draumur. En ef maður svo heyrir af því í sumar að hann hafi verið við það að koma en Liverpool ekki tímt að borga aukalega 2mills sem Bayern vildu fá þá kemur það mér svosem ekki á óvart:(

 30. Grétar#27, ertu að tala um mótið sem Torres var ekkert spes í og skoraði 1 mark þangað til Villa var tekinn út? Torres – Villa virkar ekkert spes saman, hann virtist ekki sáttur i þessari stöðu og var lika oftast tekinn útaf fyrir Guiza, hinsvegar býður Tevez eða Gourchouff sem er talsvert verið að orða við liverpool nuna upp a meiri fjölbreytileika, ættu að geta spilað fyrir aftan torres i Riera/gerrard/Kuyt stöðunni og Tevez farið upp á topp ef Torres er meiddur

 31. Fínn pistill og skemtilegar umræður.
  Ég held að flestir séu sammála um að Benitez sé best treystandi til að vega og meta hópinn og kaupa/selja svo eins og HANN vill.
  Alonso finnst mér ómissandi leikmaður og ég skil ekki hvað hann hefur fengið litla umfjölun þegar svo kallaðir sparkspekingar hafa verið að velja leikmenn og lið ársins.
  Lucas finnst mér hafa fengið of mikla og harða gagnrýni. Vissulega hefur hann gert sín mistök en líka átt flotta leiki. Mér finnst t.d. Wigan leikurinn dæmi um að hann var gjörsamlega hengdur fyrir sín mistök en ekkert var sagt um alla fjóra varnarmennina sem settu Lucas í þessa stöðu. Lucas finnst mér vera svona ca mitt á milli Mascherano og Alonso. Frekar varnarsinnaður en samt helling af bolta í honum. Ég held hann muni verða betri með smá meiri vöðvamassa og dass af sjálfstrausti.
  Einnig vil ég benda á að Babel og Mascherano misstu af undirbúningnum og fyrstu leikjunum útaf Ólympíuleikunum. Ég held að það hafi háð þeim allt tímabilið og þeir eiga því báðir meira inni finnst mér.

  kv
  GD

 32. Menn hafa eflaust mismunandi skoðanir á verði leikmanna, þetta voru mínar og ég er fullviss um að þetta gæti orðið nærri lagi. El Zhar er ennþá ungur og hefur verið að fá að spreyta sig með einu af toppliðum Evrópu og miðað við aðra í svipuðum stöðum í Evrópu, þá tel ég 2,5 ekki fjarri lagi. Er þó ekki viss um að hann fari.

  Voronin er búinn að standa sig feykilega vel í Þýskalandi og hvernig menn fá það út að hann sé hámark 1 milljón punda virði er ofar mínum skilningi. Hann virkaði ekki hjá okkur, en er að virka vel í Þýskalandi og það var meira að segja verið að tala um mun hærri upphæðir fyrir hann í vetur en þessar 5 milljónir punda sem ég er að giska á.

  Maggi, ég var búinn að heyra af þessu með konuna hans Xabi fyrir talsvert löngu síðan. En mér skilst að það hafi mikið breyst á þeim bænum eftir að fleiri félagar hans úr landsliði Spánar komu yfir með sínar spúsur og mér skilst að þeim líki bara lífið ansi vel í dag, aðra sögu var að segja um Luis litla Garcia. Konan hans sætti sig engan veginn við England á sínum tíma og tók ekki annað í mál en að halda sig til Spánar á ný.

  Varðandi þennan lista Kiddi, þá finnst mér vanta Dirk Kuyt á listann yfir bestu kaupin, tæki hann fram yfir Luis litla. En ég er svo algjörlega ósammála því að setja Babel og Dossena á listann yfir verstu kaupin, einfaldlega af því að þeir eru ennþá að spila og ekki enn komið í ljós hvort þeir nái að springa út eða ekki. Veit um nokkur kaup sem ég myndi flokka sem verri en þessi 2.

 33. Var ekki búið að ganga frá kaupunum á Dirk Kuyt þegar Benitez skrifaði undir?

 34. Benitez var búinn að vera stjóri Liverpool í tvö tímabil áður en Kuyt kom þannig að svarið við #37 er nei.

 35. þá er þetta bara misminni hjá mér 😉

  Það situr alltaf fast í mér að síðasta verk Houlliers hafi verið að ganga frá kaupum á Kuyt en svo hafa hann ekki komið fyrr en eftir að Benitez tók við um sumarið.

 36. Gekk ekki Houllier frá kaupunum á D.Cisse áður en hann fór? Eða er minnið að svíkja mig?

 37. Ég er líklega að rugla þeim saman, shame on me!

  Annars alveg sammála Sigursteini um bestu/verstu kaupin. Kuyt á að vera á listanum yfir 5 bestu og ég hugsa að ég myndi setja Alonso í 1. sætið og Pepe í 2. Torres kæmi nr. 3 en er ansi líklegur til að færast enn ofar næstu árin ef hann heldur svona áfram!

 38. það er skandall að Xabi Alonso sé á förum frá Anfield . Benitez ætii að segja hann ósnertanlegan(untouchable)því hann fór á kostum í fjarveru Gerrard.
  Og Lucas Leiva mætti fara frítt mín vegna og Dossena mætti fara á
  2milljónir p. Og Riera í skiptum og smá fé fyrir Silva/Benzema/Ribéry/

 39. Vá, þetta er hreinlega stórkostleg frétt, Jökull.

  Er það furða að Rafa virðist halda það stundum að allir séu á móti sér.

 40. Alveg stórbrotið hreint út sagt. Þegar Rafa gerir hlutina, þá er það disrespect við enska boltann, en þegar rauðvínslegna Whiskeygyltan gerir það, þá er það yfirleitt kallað kænska og snilld. Þvílík og önnur eins hræsni.

 41. Það sögðu einhverjir í morgun að það væri gott að hafa Tevez sem varamann. Hann er ósáttur hjá United vegna þess að hann fær ekki að vera í aðalliðinu.. Ég væri ekkert á móti því að fá hann, en við getum alveg verið án hans.

 42. Góður listi Steini og flottar pælingar – sorrí að ég komst ekki á fánadaginn, var með stelpurnar mínar allar í öðrum erindagjörðum.

  En varðandi fréttina sem Jökull bendir á, þá er ég ótrúlega hissa. Þvílíkur tvískinnungur og hræsni … hvað hefur sörinn umfram Rafa? Og þá er ég bara að velta þessu máli fyrir mér? Af hverju er í lagi að sörinn hvíli en Rafa ekki? Og af hverju svíður Warnock það enn að Rafa hafi verið með varalið … ? Og að óska þess að Liverpool vinni aldrei titla… hvaða f… fávitaskapur er þetta.

  Ótrúlegt að svona maður skuli hafa gáfnavísitölu til að þjálfa…

 43. Doddi, þú kannski útskýrir hvað gáfnavísitala er fyrst þú ert svona greindur.

 44. Fokk hvað Warnock er mikill fáviti! Menn þora ekki að anda á Mr. Ferguson, svo mikið er víst. Það er ótrúlegt að þetta manngerpi skuli láta svona út úr sér.

 45. Vá Jökull, þessi frétt er svo rosaleg að ég varð að pirra mig aðeins yfir henni í nýrri færslu. Og smá aukapirring í leiðinni. 😉

  Mér líður miklu betur á eftir.

 46. Ssteinn!….varðandi verðið á Voronin þá vona ég innilega að það séu til lið sem vilja borga heavy fyrir gaurinn. Málið er bara að hárgreiðslan er viðbjóður og ég myndi segja að svona hárkolla dragi úr verðmæti leikmannsins. Alveg eins og bleikur litur á bíl! En hann er örugglega massa-kúl í Germaníu. Hlustar á Ramstein og tekur léttan Headbanger með hárið laust. Guð minn góður!

 47. Já, sé þetta núna, auðvitað mun hárgreiðslan hans lækka verðið á honum um 800 milljónir króna, eða 4 milljónir punda.

 48. S. Jónss og SSteinn þið eruð alveg út á túni……Voronin er MAÐURINN í þýskalandi, aðallega út af hárinu. hækkar á honum verðið ef eitthvað er.

  En er hann ekki að skríða í þrítugt kallinn?

 49. Páll (48) … á ég virkilega að trúa því að þú náir ekki punktinum mínum með þessari setningu?? 🙂 —

W.B.A – Liverpool 0-2

Neil Warnock er hræsnari …