West Ham á morgun!

Ég vil biðja lesendur síðunnar velvirðingar á því hve seint upphitunin kemur inn þetta skiptið, en þar sem SSteinn virðist vera einn örfárra Íslendinga sem kann ekki að lesa veðurspá og er því nánast veðurtepptur á leið til Akureyrar í þessum töluðum orðum verð ég að fylla í skarðið og hnoða í eins og eina spá fyrir morgundaginn.

Okkar menn heimsækja West Ham United, lið Björgúlfs Guðmundssonar banka- og útrásarvíkings, á morgun og það er bara eitt sem kemur til greina: sigur. Náist sigurinn ekki tel ég nokkuð ljóst að Man Utd eigi titilinn í deildinni vísan hvort sem þeir vinna gegn Man City á sunnudag eða ekki. En á morgun geta okkar menn tyllt sér á toppinn í allavega sólarhring og haldið uppi pressunni á United, jafnvel þótt það reynist bara vera frestun á hinu óumflýjanlega. En á meðan möguleikinn er fyrir hendi verða okkar menn að selja sig dýrt og því bara verður liðið að vinna á morgun.

Af okkar liði er það helst að frétta að Xabi Alonso er frá vegna meiðslanna sem hann hlaut í hroðatæklingu Joey Barton á sunnudag. Ég var á þeim leik og get alveg vottað fyrir það að það voru alveg 44 þúsund Púllarar á Anfield þann daginn og þá langaði alla til að hitta Barton á bílastæðinu eftir leik. Nú, góðu fréttirnar eru hins vegar þær að Fernando Torres og Javier Mascherano eru orðnir góðir af sínum hnjöskum og verða væntanlega báðir með á morgun.

Ég held að Rafa muni stilla upp eftirfarandi liði á morgun:

Reina

Arbeloa – Carragher – Skrtel – Insúa

Mascherano – Gerrard
Kuyt – Benayoun – Riera
Torres

Sem sagt, nokkuð sókndjarft lið. Gerrard framar af tveimur miðjumönnum með þrjá flinka í kringum sig og fyrir aftan Torres. Auðvitað gæti Lucas komið inn á kostnað Benayoun eða Riera og Gerrard fengið að vera í holunni sinni en með tilliti til þess hversu ómissandi Gerrard og Torres eru og hversu ótrúlega vel Benayoun og Kuyt hafa verið að spila undanfarið finnst mér líklegra að Rafa stilli þessu svona upp.

En hvað veit ég svo sem?

Hjá West Ham eru þeir Carlton Cole, Scott Parker og Kieron Dyer víst frá vegna meiðsla þannig að aðal hættumaður þeirra verður væntanlega spænski framherjinn Diego Tristán sem hefur verið að smella nokkrum flottum mörkum fyrir þá undanfarið. Þetta West Ham-lið skartar annars engum sérstökum stjörnum en stjórinn, Gianfranco Zola, hefur engu að síður gert frábæra hluti með litlum efnivið í vetur og náð að hnoða saman sterku og skemmtilegu liði sem hefur átt góðu gengi að fagna og situr sem stendur í sjöunda sæti og á möguleika á Evrópusæti á næsta ári. Þetta verður því alls ekki auðveldur leikur.

Mín spá: Þetta verður mjög erfiður leikur og ég sé okkar menn alveg fyrir mér tapa þessum leik. Ekki af því að okkar menn séu slakir þessa dagana heldur af því að West Ham-liðið er að spila nokkuð vel. Þeir geta alveg unnið okkur en á endanum held ég að hungrið sé meira okkar megin og það hljóti að segja til sín á endanum. Þá hefur Fernando Torres ekki verið neitt svakalega heitur í undanförnum 3-4 deildarleikjum og á inni eina góða frammistöðu. Við vinnum 0-2 og Nando skorar bæði.

Áfram Liverpool!

18 Comments

 1. Flott upphitun hjá þér og ég er nánast sammála þér með byrjunarliðið nema að ég held að Aurelio verði í vinstri bakverðinum og að Agger haldi sæti sínu í liðinu enda til hvers að breyta vörninni þegar hún heldur loksins hreinu ?
  Þetta verður virkilega erfiður leikur og núna fer þetta að ráðast hvort að United tekur deildina eða ekki það ræðst á tvennu, vinnur Liverpool á morgun og tapar United á sunnudag.
  Ég spái þessu 0-1

 2. Fín upphitun meistari. SSteinn flottur á því, kannski karlinn hafi gaman af að moka skafla!

  Held þó að Gerrard verði undir Torres, Lucas á miðjunni og Benayoun vinstra megin fyrir Riera.

  En styð spána að mestu, held reyndar að West Ham setji eitt og úrslitin liggi 1-2.

 3. Takk fyrir, þú hnoðaðir saman skemmtilegri upphitun, að vanda.

  Þetta verður töff leikur gegn liði sem mér hefur fundist vera nokkurn vegin ósýnilegt í vetur.. Liðið hefur halað inn stig jafnt og þétt, mikið til gegn liðum í neðri hluta deildarinnar og eygir nú Evrópusæti…

  Ég hef samt fulla trú á því að við vinnum þennan leik! Þetta er helgin sem ræður miklu í titilbaráttunni og City VERÐA einfaldlega að vinna nágranna sína. Okkar menn vita þetta mæta vel – þeir koma klárir til leiks og verða búnir að vinna leikinn í fyrri hálfleik, að ég tel. Spái 0-3… (0-2 í hálfleik)

  YNWA – Sæmund

  P.S. snilldar punktur: “Ég var á þeim leik og get alveg vottað fyrir það að það voru alveg 44 þúsund Púllarar á Anfield þann daginn og þá langaði alla til að hitta Barton á bílastæðinu eftir leik.”

 4. Ég vona innilega að þú hafir rétt fyrir þér með uppstillinguna en ég held að Lucas verði pottþétt inn á. Rafa virðist alltaf setja hann inn þegar annað hvort Alonso eða Mascherano eru frá. Finnst líklegt að hann komi inn fyrir Riera þar sem, eins og þú bendir á, Benayoun og Kuyt hafa verið frábærir upp á síðkastið.

 5. Það gátu nú varla verið 44.000 Liverpool menn á vellinum sem voru brjálaðir enda tekur völlurinn bara um 44.000 og það hljóta að hafa verið einhverjir Newcastle stuðningsmenn þarna.

 6. Ég var á leiknum líka, minnir að það hafi verið “uppselt” í away-sætin, sem telja c.a 3000 manns þegar mest lætur. Skv. gaurnum í Anfield skoðunarferðinni úthlutar klúbburinn að hámarki 3000 miðum til gestaliðsins.

  Höfum það þá 41þús brjálaða púllara, það er samt alveg meira en nóg 🙂

 7. þokkalega á sama máli með upphitun en held að Agger haldi sínu sæti og að Bennajón verði á bekknum og Lukas verði með Mascherone og Gerrard fyrir aftan Torres Svo tökum við þetta,,,,,, við verðum að gera það……….

 8. Ég er ánægður með Steina. Var mjög hress í miðbæ Akureyrar í kvöld. Lofaði honum að mæta á fándag á Allanum á morgun. Stend við það.

  Segi 0-2 líkt og Kar. Torres fyrra og Aurelio seinna…

 9. þetta verður frábær leikur held samt að Gerrard verði undir Fernando, Lucas á miðjunni og Benni vinstra megin fyrir Riera.
  mínn spá er 2-1 fyrir okkar mönnum, torres 1 og kuyt 1

  Getur samt einnhver sagt mér af hverju benni kyssir alltaf bottan á sér þegar hann skorar??

 10. vá mig dreymdi að mig dreymdi að ég spáði Liverpool 2 – 0
  svo ég held mig við spánna West Ham 0-= LFC 2

 11. Þetta verður virkilega erfiður leikur, og ég slæma tilfinningu fyrir þessum leik – held að þetta endi í 1-1 jafntefli eftir að hafa lent snemma undir. Skulum vona að ég hafi rang fyrir mér =)

 12. Þetta er víst liðið í dag samkvæmt gæja á netinu:
  Reina, Arbeloa, Aurelio, Carra, Skrtel, Lucas, Masch, Gerrard, Kuyt, Benayoun, Torres.

  Riera og Agger ferðuðust víst ekki. Agger er að taka á móti barni en ekki er vitað um ástæðu þess að Riera er heima.

 13. Ánægdur med Àsmund, hvar væri heimurinn án endurskodenda! Skemmtilegasta fólk sem madur rekst à.

  1-2 fyrir Liverpool.

Enn af undanúrslitum

Liðið gegn West Ham komið: