Nýr dagur, ný áskorun

Djöfull var gærdagurinn ömurlegur. Ég var ekkert sérstaklega spenntur fyrir því að mæta Chelsea enn einu sinni í Meistaradeildinni en innst inni vonaði ég, að sjálfsögðu, að ég myndi fá ástæðu til að fagna enn einum Evrópuútslættinum eftir heimaleikinn í gær. Ég átti hins vegar aldrei von á að okkar menn væru svo gott sem úr leik eftir leikinn á Anfield.

Það var eitthvað við þetta Chelsea-lið, bæði rétt áður en leikurinn hófst og á fyrstu mínútum leiksins. Þegar myndavélarnar úti á velli tóku yfir og við sáum liðin gera sig klár fyrir upphafsspyrnuna setti einhvern óhug að mér. Fyrst var það við að sjá Drogba, sem í vetur hefur verið meira áhugalaus og pirraður út í lífið en ógnandi, ganga á milli liðsfélaga sinna og berja í þá kjark, og svo var það við að sjá John Terry reyna að fá dómarann til að skipta um skoðun eftir að hafa tapað uppkastinu fyrir Gerrard á miðjunni. Það fór ekki á milli mála, Chelsea-liðið var reiðubúið í þennan slag.

Annars er ég hálf andlaus yfir þessum leik í dag. Þetta bara fór svona, ekkert við því að gera. Chelsea-liðið átti frábæran dag þar sem allt gekk upp, okkar menn hins vegar áttu engin svör við því sem var að ganga upp hjá Chelsea. Fyrir leikinn var planið hjá okkur nokkuð gott en þegar ljóst var að það væri ekki að virka varð að gera breytingar og það tókst því miður ekki, hvorki hjá leikmönnunum né Benítez. Guus Hiddink gerði í raun það sama við okkur í gær og okkar menn gerðu við United fyrir tæpum mánuði. Þeir lögðu upp með plan til að stoppa stuðlið deildarinnar og það gekk upp.

Það hefur verið margsagt, víða, eftir leikinn í gær að eitt af því sem gekk upp var hversu vel Michael Essien dekkaði Steven Gerrard út úr leiknum. Einnig virðist það hafa verið frábær ákvörðun hjá Hiddink að láta Ballack droppa dýpra á miðjunni, vera akkerið á meðan Essien var skuggi Gerrard, því fyrir vikið lokuðu þeir algjörlega á þetta pláss rétt fyrir framan eigin vörn sem Gerrard og Torres finnst svo gaman að leika sér í. Makelele hefði verið stoltur af bláklæddu miðjumönnunum í gær.

Annað sem hefur verið mikið rætt og virðist alltaf vera rætt í þau fáu skipti sem Liverpool fær á sig mörk úr föstum leikatriðum er svæðisvörn Benítez. Tölfræðin, sem hefur margoft verið þulin upp af mönnum eins og Paul Tomkins og Tony Barrett, talar sínu máli: kerfið virkar. Í gærkvöldi gerðist það hins vegar að leikmennirnir klúðruðu framkvæmd kerfisins. Sérstaklega var það augljóst í fyrra marki Ivanovic, þegar boltinn kemur fljúgandi inn á svæðið sem Xabi Alonso er að dekka. Sá spænski gleymir sér í að horfa á boltann í stað þess að ráðast á hann og hreinsa hann frá og það gefur Ivanovic tækifæri til að stinga sér fram fyrir hann og skalla að marki. Svæðisvarnarkerfið er einfalt en ekki þó svo að menn eigi bara að standa kyrrir á ákveðnum punkti og hoppa upp til að skalla.

Teignum er skipt niður í svæði, hver maður dekkar eitt svæði og ef boltinn stefnir inn á það svæði á viðkomandi leikmaður að ráðast á boltann og skalla hann frá. Hugsunin er sú að fyrir vikið sé hvergi óvaldað svæði í teignum og það sé sama hvar boltinn sé sendur fyrir, alltaf sé rauðklæddur varnarmaður til staðar til að ráðast á boltann og hreinsa hann frá markinu. Svæðisvarnarkerfið klikkaði ekki í gær heldur klikkaði Alonso á því að ráðast á boltann. Í seinna markinu er Ivanovic staddur á svæði Gerrard, ýtir á hann með skrokknum svo að Gerrard fer að hugsa um manninn í stað boltans, sem gefur Ivanovic tækifæri til að koma með plathreyfingu sem færir Gerrard úr stað og skilur Ivanovic eftir óvaldaðan í svæðinu til að skalla. Enn og aftur er það ekki kerfið sem er gallað heldur klikkar Gerrard á að framfylgja kerfinu. Hann sér að markaskorarinn Ivanovic er hjá sér og fer að hafa of miklar áhyggjur af honum, í stað þess að horfa á boltann og vernda sitt svæði, og því fór sem fór.

Ég held það sé engin tilviljun að Ivanovic skoraði tvö mörk í gær. Það er heldur engin tilviljun að hann var í byrjunarliðinu. Svæðisvarnarkerfið er stórfínt og svínvirkar en það er ekki gallalaust frekar en önnur kerfi. Meistarastjóri eins og Hiddink getur alveg hafa fundið galla á kerfinu og nýtt sér hann. Hiddink stillti upp mjög hávöxnu liði í gær því hann hefur sennilega verið búinn að sjá það út að hávaxnir menn ættu (eðlilega) betri séns á að vinna boltann á ákveðnu svæði fram yfir lágvaxnari varnarmann. Í liði Chelsea í gær voru frábærir skallamenn, og hávaxnir einstaklingar, á borð við Terry, Alex, Ivanovic, Ballack, Lampard, Kalou og Drogba. Ef þið horfið á mörkin aftur og skoðið staðsetningar Chelsea-manna í teignum sést að þeir dreifa sér um teiginn, í eins konar svæðissókn, til að vinna gegn svæðisvörn okkar manna. Boltinn kemur fljúgandi fyrir, í bæði skiptin á svæðið sem Ivanovic er á, og í bæði skiptin nær hann að sjá við varnarmanninum og skalla á mark. Í fyrra skiptið af því að Alonso svaf á verðinum, í seinna skiptið af því að Gerrard hafði áhyggjur af honum vegna fyrra marksins og hann gat nýtt sér þær áhyggjur til að draga Gerrard úr stöðu.

Sem sagt, til að ítreka þetta einu sinni enn: svæðisvarnarkerfið er frábært og skilvirkt kerfi en ekki gallalaust. Það hefur skilað frábærum árangri fyrir Liverpool-vörnina síðustu fimm árin og þótt leikmenn liðsins hafi klikkað á að framfylgja því í gærkvöldi er ekki þar með sagt að Benítez eigi að kasta fimm ára vinnu fyrir borða. Það er með öllu óþolandi að þessi umræða skuli poppa upp í þau tvö eða þrjú skipti á ári sem Liverpool fær á sig mark úr föstum leikatriðum (sem er, nota bene, mun sjaldnar en flest öll önnur lið fá á sig mörk úr föstum leikatriðum).

Ég held það sé óhætt að segja að Hiddink sé fyrsti stjórinn á fimm árum sem nær að úthugsa og útpæla Benítez á Evrópusviðinu. Vonandi endurtekur hann ekki leikinn eftir viku.

Staðan eftir gærdaginn er einföld. Okkar menn þurfa að fara á Stamford Bridge og skora að lágmarki þrjú mörk. Hvort sem þeir skora ekkert eða eitt, eða fleiri, þá er alveg ljóst að ekkert minna dugir. Það eina góða við þessa stöðu er að hún getur verið hálf frelsandi fyrir liðið. Rétt eins og við sáum Chelsea-liðið hálf frelsast við að lenda snemma undir í gær, vitandi að þeir höfðu engu að tapa og hreinlega urðu að leita að útivallarmarkinu, þá getur það að hafa engu að tapa virkað eins og jákvæð vítamínsprauta á okkar menn í Brúnni. Vonum það allavega.

Fyrst er það samt Blackburn. Það fylgir því að vera með í baráttunni í báðum stóru keppnunum, aldrei þessu vant, að menn fá ekki langan tíma til að vorkenna sér. Í hádeginu á laugardag mæta okkar menn Blackburn á Anfield í enn einum Verður-Að-Vinnast leiknum, þannig að þeir fá eingöngu tvær æfingar í dag og væntanlega tvær léttar á morgun til að undirbúa þann leik. Javier Mascherano, maður sem við hefðum virkilega getað notað í gær, kemur væntanlega inn í þann leik eftir vikufrí og svo er spurning hvort Benítez reynir að stilla upp svipuðu liði og koma því aftur á réttu brautina eða hvort hann róterar og reynir að komast upp með að hvíla lykilmenn fyrir seinni leikinn gegn Chelsea. Sumir hafa stungið upp á því að hann einbeiti sér algjörlega að deildinni og hvíli menn gegn Chelsea fyrir deildarleikina, en ég held að við þekkjum öll Benítez það vel nú orðið að geta sagt að hann er ekki búinn að gefast upp í þessu einvígi.

Að lokum bendi ég á þrjár góðar greinar um leikinn í gær:

Chelsea-hliðin: Chelsea Blog: leikskýrsla.
Liverpool-hliðin: Paul Tomkins: Serenity now.
Hlutlaus: Phil McNulty, ritstjóri BBC Football: Hiddink’s sweet smell of success.

Nóg í bili. Upphitun fyrir næsta leik kemur inn á morgun.

13 Comments

  1. Það væri nú gaman að sjá tölfræðina úr hornspyrnum.. hversu mörg við höfum fengið á okkur og svo hversu mörg við höfum skorað í vetur??:)

  2. Þarf lítið að ræða zonal marking. Bara einhverjir misvitrir pundits sem vilja skella einhverjum fyrirsjáanlegum stimpli á öll smáatriði sem úrskeiðis fara hjá sterku liðunum eins og þeir fái borgað fyrir það! Þó það líði margir mánuðir á milli, finnst þeim þeir alltaf hafa verið að uppgötva einhvern gífurlegan veikleika.
    Það er eitt annað sem ég hef hinsvegar verið að pæla, sem hefur verið að gerast í hverjum einasta leik. Það eru sóknirnar þar sem allir/margir eru komnir fram og það er eins og það sé lagt upp með það að Alonso/Gerrard komi sér í stöðu aðeins hægramegin fyrir utan teig og sendi himinháan fallhlífarbolta á fjærstöngina, nema ég held ég hafi ekki séð eina einustu af þessum sendingum heppnast.. þær fara alltaf beint aftur fyrir. Ég fæ alltaf pínu ælu upp þegar þetta gerist, sérstaklega því þetta virðist vera eitthvað plan og kveina að allt annað í stöðunni hefði verið skárra. Eruði að sjá þetta eins mikið eða er ég að mikla þetta upp fyrir mér?

  3. Þessi Chelsea leikur minnti mig ansi mikið á þennan leik fyrir tæpum 8 árum síðan.
    http://news.bbc.co.uk/sport1/hi/football/champions_league/1664247.stm
    http://www.guardian.co.uk/football/2001/nov/21/championsleague.sport1

    1-3 tap gegn Barcelona á Anfield í CL. Við komumst snemma 1-0 yfir með marki frá okkar aðalsóknarmanni Owen (Torres) og verðum síðan passívir og ætlum að halda fengnum hlut. Sækjum hvorki né verjumst, karakterslaus skyndisóknarbolti.

    Þá byrja andstæðingar okkar að spila boltanum mjög hratt með stuttum sendingum, þríhyrningum og hröðum sóknum og við lendum í eltingarleik við boltann og missum algerlega stjórn á leiknum. Hljómar þetta kunnuglega? http://www.youtube.com/watch?v=srui70ZzPC8
    Ég man enn vel eftir þessum Barcelona leik og vonbrigðunum eftir hann. Réðum ekkert við Patrick Kluivert (Drogba) og vinstri kantmanninn Marc Overmars (Malouda) og Xavi.

    Vorum þá eins og núna með hæga miðjumenn (Murphy, McAllister) sem réðu alls ekki við þennan hraða possession bolta hjá Barca. – Vorum þá eins og nú með sókndjarfan vinstri bakvörð, Riise (Aurelio). – Vinstri kantmann Berger (Riera) sem var með frábæran vinstri skotfót en gat ekki tekið menn reglulega á upp kantinn. – Hægri kantmann Smicer sem keyrði mikið skáhallt inná teig (Benayoun). – Sóknarmann Heskey (Kuyt) sem skoraði ekki nóg en vegna vinnusemi notaður hægra megin fyrir aftan Owen. – Hraður súperstriker frammi Torres (Owen) sem stöðugt var reynt að mata á sendingum, háum boltum og stungum.

    Líkindin eru rosaleg á milli þessara 2 leikja og liða hjá Liverpool. Merkilegt að Nicholas Anelka leikmaður Chelsea spilaði með Liverpool eftir áramót 2002. Tilviljun? Í stað þess að halda honum keypti Houllier, El Hadji Diouf nokkurn. Tímabilið 2001-2002 byrjaði Liverpool tímabilið mjög vel og leiddi deildina mest með 8 stiga forskoti í kringum nóvember. Rétt eins og 2008-2009 en enduðu tímabilið í 2.sæti með 80 stig. Misstu þá af titlinum í lokin til Arsenal og duttu út í 8 liða úrslitum CL gegn Bayern Leverkusen. Lið sem við keyptum Voronin frá en erum að losa okkur við næsta sumar líkt og Anelka.

    Am I sensing a pattern here?

  4. fokkk Sölvi ég er hjátrúafullur og eftir þess lesningu þá er ég búin að gefa upp sigur í deildinni :S sætti mig við annað sætið ;S

  5. Ég er búinn að lesa þessa síðu daglega í all langann tíma. Mjög ánægður með flest enn það er eitt sem angrar mig….. hvers vegna þurfa pistlahöfnundar að blóta svona mikið?

    Með kveðju,

    Snorri

  6. Snorri, greinin hér að ofan er alls 1.330 orð. Í henni er eitt blótsyrði og það orð er viðurkenndur hluti af íslensku málfari. Þar að auki erum við ekki fréttamiðill eða tímarit, sem þurfa mögulega að halda uppi einhverjum háfleygum skrifstíl, heldur bloggsíða þar sem menn tjá sig á almennan hátt.

    Hvað áttu því við þegar þú segir að við „blótum svona mikið“?

  7. Snorri: Hvað með það að blóta ? það blóta allir.. og Sölvi, … ég er hræddur eftir þetta.

  8. Snorri þeir blóta yfir höfuð ekki mikið. En í fótbolta er mikið blótað og þetta er hin hliðin af fótbolta 😉 og ef að það kemur blót fyrir þá er það þarna af ástæðu 😉

  9. Ef að 1-3 tap gegn Chelsea í CL á ANFIELD gefur ekki tilefni til svosem eins blótsyrðis, þá veit ég ekki hvað gerir það 🙂

    Fínn pistill og ég bíð spenntur eftir LFC – Blackburn á morgun. Tækifæri til að “bounce-a back” og vonandi setja nokkur kvikindi.

    • Snorri þeir blóta yfir höfuð ekki mikið.

    Jú víst, helvítis ósiður ég veit, en það er ekki eins og við séum að skrifa um fermingar og kirkjustarf hérna inni.

  10. Vona að leikurinn við Chelsea sitji ekki í okkar mönnum á morgun. Ef við töpum eru allar meistaravonir farnar.

    ÁFAM LIVERPOOL!!!!!!!!!!!!!!!!

  11. hehe Snorri með þráðrán!!!

    Hiddink út-taktíkeraði Rafa, sjaldgæft en staðreynd. Mér finnst að hann hefði mátt droppa Gerrard fyrr niður á miðjuna til að rugla Essien og miðju Chelsea, opna svæðið aftan við Torres…Svo finnst mér Pepe hafa mátt fara útí þessar hornspyrnur (fengi jafnvel aukaspyrnu) og droppa í staðin einum eða tveimur varnarmönnum niður á marklínu.

    En það þýðir lítið að pæla í því núna… Það þarf stórskotaárás á Brúnna í næstu viku… Einsog þú segir; engu er að tapa!!

    YNWA

  12. Smá tilgangslaus punktur …..
    Ef Ivanovic hefði verið í hóp Liverpool, þá hefði hann verið fjórði dýrasti leikmaður liðsins (fimti ef verðmiða er skellt á Gerrard)

Liverpool – Chelsea 1-3

Blackburn á hádegi á morgun