Liverpool – Chelsea 1-3

Ég ætla að koma tveimur staðreyndum á hreint áður en ég held áfram:
Þetta var sanngjarn sigur Chelsea.
Ég er BRJÁLAÐUR!

Ok þá er það komið á hreint.

Fyrir það fyrsta þá stillti Rafa okkar sterkasta liði upp í þessum leik og svona leit það út:

Reina

Arbeloa – Carragher – Skrtel – Aurelio

Alonso – Lucas
Kuyt – Gerrard – Riera

Torres

Liverpool skoraði snemma í leiknum með flottu marki frá Torres og þar með var þátttöku Liverpool lokið í leiknum.

Þetta er með verstu leikjum Liverpool á Anfield sem ég hef horft uppá!

Þeir sem hafa áhuga á að lesa ítarlegri leikskýrslu um þennan leik er velkomið að gera það á íþróttasíðum veraldarvefsins því ég hef ekki áhuga né nennu til að skrifa meira um þennan leik.

Þið sem munið kommentera á þessa skýrslu þá segi ég bara eitt: Ekki reyna að kenna Rafa um þetta tap, það er ekki hægt því hann stillti upp okkar sterkasta liði í dag. Eitthvað annað klikkaði í dag, andlegt?

Maður leiksins: Pepe Reina sem bjargaði Liverpool frá stærra tapi.

89 Comments

 1. Einfaldlega versti leikurinn á tímabilinu. Nákvæmlega ekkert gekk upp og enginn leikmaður að spila af eðlilegri getu.

  Chelsea áttu leikinn með húð og hári og unnu þetta verðskuldað. Við vorum heppin með að sigurinn hafi ekki verið stærri hjá Chelsea.

  Ég man ekki hvenær þetta Liverpool lið var síðast yfirspilað svona gjörsamlega.

  Algjör hörmung.

 2. hvernig geturu sagt að þetta sé sterkasta lið liverpool, það vantar mascherano þarna inn en Lucas er ekki partur af okkar sterkasta liði.

 3. Kenny: Ég segi það í ljósi þess að Javier var í banni og gat því ekki spilað leikinn í dag.

 4. Hiddink vann ,,tactiskan” sigur í þessari baráttu. Essien hélt sig algerlega hjá Gerrard og útilokaði hann frá leiknum, um leið varð Torres einangraður og liðið búið! Svo einfalt er þetta:-( Rafa hefur í gegnum tíðina látið lið sín koma í veg fyrir að anstæðingarnir nái að spila sinn leik en nú gerði Hiddink það sama. Liðið á samt að geta betur en þetta, allir leikmennirnir voru á hælunum eftir fyrsta korterið og tvö mörk sama mannsins úr horni er ömurlegt!!!!!!!!!

 5. 1-3 tap á Anfield. Chelsea voru ekki að spila stórkostlega, það er bara ekkert sjálfstraust í okkar liði og vantar allan hraða í Liverpool. Við erum að tapa nánast öllum návígjum á miðjunni. Allt gengur útá að finna Torres með háum boltum, allt sem heitir kantspil vart sjáanlegt.

  Þarf eitthvað að ræða Lucas Leiva frekar? Hann er bara 1-2 númerum of lítill fyri stórleikina. Hans líkamlegu takmarkanir koma mjög vel í ljós í svona hröðum leikjum. Hann og Alonso saman á miðjunni er uppskrift að hugmyndasnauðum og hægum sóknarleik.

  Það verður bara að segjast að Rafa Benitez gerði stór mistök að setja ekki Gerrard á miðjuna og Benayoun eða Babel í holuna fyrir aftan. Guus Hiddink tók hann ósmurt í þessum leik.

  Vorum hrikalega staðir og hratt kantspil sem þarf á móti svona fljótandi miðju, við höfum bara ekki leikmenn í það eins og er. Svo þarf Benitez aðeins að fara kíkja betur á þessa svæðisvörn í föstum leikatriðum. Dossena með hörmulega innkomu o.s.frv.

  Við vorum bara fullkomlega geldir og heppnir að tapa ekki jafnvel enn stærra. Hættum bara að spila fótbolta eftir að Torres skoraði. Það þarf að selja ákveðna leikmenn frá Liverpool og fá alvöru karlmenn í staðinn.

 6. “The night is always darkest before the dawn…” —

  Við töpuðum … en erum ekki úr leik. Við unnum betra lið en Chelsea á útivelli 1:4 (lesist: Manure). 1:4 eða 0:3 sigur kæmi okkur í undanúrslitin. Ég hef alla vega ekki heyrt feitu konuna syngja.

  Rafa gerði það sem hann gat gert, leikmennirnir klikkuðu. Einfalt mál. Nú rífum við okkur upp úr þessu volæði, gleymum leiknum, mætum dýrvitlausir í seinni leikinn og vinnum alla deildarleikina sem eftir eru.

  Áfram Liverpool!

 7. Gerrard + varnarlínan voru ekki með í dag. Af hverju Gerrard reyndi ekki eitthvað að draga sig utar á völlinn eða aftar á meðan Essien var svona með hann í vasanum skil ég ekki alveg. En svona er þetta, ef við hefðum náð að læða einu inn í stöðunni 1-0 eða 1-1 værum við kannski að tala um hvað Gerrard væri æðislegur og þar fram eftir götunum.

  Án gríns, þá unnum við kannski svona 15% af skallaeinvígum í þessum leik. Ég var samt semi byrjaður að hlæja þegar Malouda var farinn að vinna Skrtel í skallanum. Chelsea unnu þennan leik vegna þess að þeir voru alveg gjörsamlega með okkur í loftinu í dag.

  Btw, sá einhver þegar Terry gaf Torres olnboga þegar Torres var að elta háan bolta upp völlinn? Rétt áður en Aurelio fékk gult…

 8. jæja það eru 90 mín eftir og þetta er alls ekki búið… þetta var alls ekki nógu gott hjá okkar mönnum, en þetta er ekki búið

 9. Ég ætla nú að leyfa mér að óska Guus Hiddink og Chelsea til hamingju. Þeir einfaldlega stilltu upp frábæru leikskipulagi, hafa einfaldlega tekið okkar leik á OT og kópíerað hann. Essien var ótrúlega góður og gersamlega át Captain Fantastic, réð algerlega svæðinu milli miðju og sóknar og braut allt spil þar niður.

  Svo voru Kalou og Malouda að pressa bakverðina okkar verulega vel, Aurelio og Arbeloa réðu ekki við það og þegar við bætist að mér finnst Kuyt mjög þreyttur var ljóst að þetta var erfitt gegn góðu Chelsealiði.

  Ég veit ekki með ykkur hin, en ég horfi enn á PL sem okkar bikar þennan vetur og er ekkert að svekkja mig á því að losna við undanúrslitaleik í Meistaradeildinni gegn Barcelona í lok apríl, þegar United verða komnir á hælana…….

  En fyrst og síðast lék Chelsea vel og snýtti okkar mönnum. Ef liðin dragast svo saman í þessari keppni næsta vetur legg ég til að við hættum þátttöku. Ekki sérlega mikil spenna í þessu dæmi lengur!

 10. ÖMURLEGT!!!! Tekur því ekki að nafngreina einstaklinga, því allt liðið var ömurlegt. Hreinlega trúi ekki hversu andlaust og slakt liðið var. Eftir að Chelsea jafnaði var eins og liðið missti allra trú á verkefninu. Það er ljóst að liðið er dottið út úr CL í ár. Liðið getur nú farið að einbeita sér að meistaratitlinum en ljóst er að ekkert má út af bregða á næstu vikum ef tímabilið á ekki að enda fljótlega. Það er óskandi að þetta tap í kvöld hafi ekki mikil áhrif á sjálfstraust liðsins en liðið hefur oft verið ansi viðkvæmt í kjölfar tapleikja.

 11. Liv, var ekki að spila eins og þeir hafa verið að spila undanfarið, þeir voru eins og í jan og feb. Og þessi spörk fram, bara eitthvað gengur ekki. Og ég fatta það ekki þegar að leikmaður er með boltann og hefur marga kosti en kýs að gefa á mann sem er dekkaður af 2 ef ekki 3 mönnum. M U eru upp við vegg en við erum staddir bak við vegg og það var enginn að vinna vinnuna sína nema kanski Reina, helv……. fokk

 12. Úff …. sorglegt að segja það en til hamingju Chelsea með að hafa náð að brjóta á bak aftur hið eina sanna Evrópulið Liverpool og það á Anfield.

  Að fá á sig tvö skallamörk eftir hornspyrnur er einfaldlega bara rugl. Í kvöld bara klikkaði eitthvað. Mér hefur sjaldan liðið eins óþægilega við að horfa á Liverpool leik á Anfield, maður bara sá strax að það var eitthvað óöryggi í mannskapnum.

  Mest vorkenni ég þó Magga kunningja mínum að hafa verið í Carlsberg stúkunni á Evrópukvöldi á Anfield einmitt þegar Liverpool á svona hundlélegan leik.

  Svekkkkkkk ……………………….

 13. hvað er maðurinn að spila alltaf lucas leiva hann gerir ekkert og þegar hann gerir eikkað þá er það klúður eins og sást aðan og afhverju spilar maðurinn ekki babel eða benayoun í staðin fyrir riera í svona stórum leik

 14. Chelsea voru einfaldlega betri í dag. Betur stemmdir og börðust eins og ljón. Það er engin skömm að tapa fyrir þeim og Liverpool er ekki allt í einu orðið lélegt lið . Stemmingin trúin og dagsformið var Chelsea megin í dag.
  Við fengum líka færi.
  ef Kuyt hefði nýtt færið eftir fyrsta mark Chelsea hefði leikurinn þróast öðruvísi.
  Það eru 90 mínútur eftir við skoruðum fjögur mörk á gömlu torfunni , afhverju ekki 4 á Stamford.
  Við vitum að Liverpool eru alltaf bestir með bakið upp við vegginn.
  Áfram svo og ekki missa trúna.

  Áfram Liverpool. You never walk alone

 15. Það er skrítið að horfa á jafngott lið og Liverpool spila svona andvana bolta í kvöld. Það er áhyggjuefni ef 1-2 menn eru ekki með í spilinu svona andlega séð (Gerrard sérstaklega) þá hrynur liðið. Það er ekki traustvekjandi. Torres var í fýlu mestmegnið af leiknum og lét allt fara í taugarnar á sér. Liðið var bara ekki tilbúið. Sem er stórskrítið því það var búið að auglýsa leikinn um alla Evrópu og sennilega í Rússlandi líka þar sem Abróhamóvítz var að telja rúblur. En eins og maðurinn sagði: Það er bara hálfleikur. Staðan var verri í hálfleik 25. maí 2005. Þá var 0:3 og bara 45 mínútur eftir. Núna eru þó 90 mínútur eftir. Og Terry í banni ef ég kann að telja. Þannig að. Allt er hægt. Liverpool hefur sannað það áður.

 16. Hræðilegur leikur allir leikmennirnir lélegir

  Carri þó með ágætt save

 17. “Þið sem munið kommentera á þessa skýrslu þá segi ég bara eitt: Ekki reyna að kenna Rafa um þetta tap, það er ekki hægt því hann stillti upp okkar sterkasta liði í dag. Eitthvað annað klikkaði í dag, andlegt?”

  Mjög heimskuleg setning.

  Þú ert í rauninni að segja að það eina sem knattspyrnustjórar þurfi að gera sé að stilla upp bestu leikmönnunum í hverjum leik.

  Ég hélt að menn spiluðu manager og skildu að það er til eitthvað sem heitir team-talk, tactics, opposition instructions og fleira.

 18. Hvenær ætlar maðurinn að fara skilja að svæðisdekkning í föstum leikatriðum er ekki og hefur aldrei virkað!!!

 19. Sælir félagar
  Ég hefi ekki lesið eitt einasta komment hér á síðunni. Ég er fullkomlega sammála leikskýrslunni og hefi engu þar við að bæta nema einu orði; dru…

  Það er nú þannig

  YNWA

 20. Fannst engum vanta Sami inná í kvöld, bæði sóknar og varnarlega?

 21. Úff. Ég ætlaði ekki að skrifa neitt um þennan leik fyrr en á morgun þar sem ég er svo pirraður yfir úrslitunum en ég verð að segja eitt í kvöld:

  LÁTIÐ LUCAS LEIVA Í FRIÐI! ÞROSKIST AÐEINS!

  Lucas byrjaði vel en skeit svo á sig í 75 mínútur í kvöld. En hann var bara einn af ellefu leikmönnum sem skeit á sig. Þetta var ekki honum einum að kenna, og þessi leikur er engin sönnun þess að hann ráði ekki við stóru leikina (hann lék á miðjunni gegn Utd á Old Trafford, til dæmis). Hættið þessum dramaköstum út í sömu einn eða tvo leikmennina í hvert sinn sem liðið vogar sér að vinna ekki. Bara, hættið. Þetta er þvílíkur ruglvinkill á umræðuna að það hálfa væri nóg.

  Hvað leikinn sjálfan varðar hef ég ekkert að segja. Ég á erfitt með að halda vatnsglasinu sem ég drakk fyrir leikinn niðri, þannig að það verður að bíða betri tíma að ég reyni að setja „frammistöðu“ liðsins í kvöld í eitthvað samhengi.

  Úps. Ég ældi aðeins og kyngdi því strax aftur. Hafið mig afsakaðan …

 22. Slakið ykkur á að drulla yfir lucas. Hann var ágætur í fyrri og í raun miklu betri en Alonso. Alonso er stærra nafn og þá má fyrirgefa honum allt, hann var næst slakasti maðurinn í dag. Hann var frbær varnarlega í hornspyrnunum HA!!!!
  Lucas hefur verið að spila ágætlega eftir að hann fór í klippingu 🙂 nei svona í alvöru. Allavega er hann að láta tuðruna fljóta og fær oft gott spil í þetta.

  Varðandi stjórann þá þarf og á hann ekkert að vera að lesa yfir mönnum til að fá þá í gírinn fyrir leik. Menn hljóta að geta gert það sjálfir, allavega fyrir 1 eða 2 millur eða svo. Í svona leikjum kemur oft fram hvað menn hafa að geyma og 1 maðurinn sem eitthvað vit var í og var að reyna var eins og alltaf Carra. 11 stk af Carra og leikurin unninn !!!

 23. Strákar, haldið ró ykkar og sæmd. Ég segi bara eins og Travis Bickle í Taxi Driver: You talkin to me?

 24. Svona er lífið stundum. En það þýðir ekki að örvænta. Þó maður sjái það kannski ekki hendi sér þá er enn möguleiki. Liverpool skoraði fjögur mörk á Old Trafford, þeir ættu alveg að geta sett þrjú á heimavelli Chelsea. Ekkert ómöglegt þá staðan sé svört.

 25. Lucas stóð sig töluvert betur en Alonso í þessum leik og meira að segja betur en Gerrard (sem var fjarverandi allan leikinn).
  Og til nr 7 og 16 sem vildu fá Babel inná spyr ég bara hvað gerði hann eftir að hann kom inná?? Akkúrat ekki neitt.
  Það sem var að í þessum leik var að miðjan gjörsamlega klikkaði og þar var Gerrard fremstur í flokki, síðan kom Riera og þar á eftir Kuyt. Þessir menn hvorki hjálpuðu miðjunni (Alonso & Lucas) né studdu þeir við Torres, sem var eins og Palli einn í heiminum þarna frammi.
  Vörnin var svo eins og þorskur á þurru landi af því að Alonso og Lucas fengu enga hjálp við að kljást við miðjumenn og kant menn chelsk$…
  Það má eiginlega segja að Essien hafi verið lykilmaðurinn í þessum leik.
  Skulum bara vona að Mascha komi eins og óður hundur í seinnileikinn og taki Ballack og Lampard í nefið…

 26. ókei fyrri hálfleikur var fínn hjá fremstu tveim pörtum liðsins. hins vegar þá spiluðu allir undir getu í seinnni hálfleik. Nema Nota bene Lucas.
  Lucas var besti maður liðsins ekki Reina. ég set spurningarmerki við Reina í fyrsta markinu. Lucas var alveg eins og mascha nema að hann dirfðist til að fara framm á við. Alonso var skelfilegur og herra Gerrard var ömurlegur. það segir kannski mestu um leik liverpool að Lucas var bestur.

 27. Heppni að ég missti af leiknum. Hefði ekki þolað að horfa á fagnið hjá Dídí.

  Þetta er bara okkar ástkæra lið. Rússibanalið. Þetta tap boðar eitthvað magnað með vorinu…… 🙂

  YNWA

 28. Ég minni á að það er annar leikur eftir. Meira að segja heilar 90 mínútur + tafir Chelsea manna. Liverpool hefur skorað 3 mörk á 5 mínútum í Meistaradeildinni. Það sem einu sinni hefur gerst getur alltaf gerst aftur. Sá hlær best sem síðast hlær.

 29. Þetta var skítur af verstu sort, ekkert flóknara en það. Annars er ég alveg sammála Kristjáni og Kristjáni (24 og 25). Að taka út einn leikmann og skíta yfir hann sérstaklega er fáranlegt…Það komu 14 liverpool menn við sögu í dag og enginn átti góðan leik (jú Reina var fínn).

 30. hvað langar manni að segja eftir svona leik….

  það er svo margt sem hefði og hefði ekki átta að gera í þessum leik… ég veit það ekki ég er ekki góður í CM og held að ég sé haldur ekki góðru í að stjórna liverpool…

  hefði samt vilja sjá Benna inn fyrir luka og færa Gerrard aftur á miðjuna, og það fljótlega í seinni.. :S þar sem hann var alveg tíndur þarna við teginn… betra að hafa meyra pláss þar fyrir einhvern annan ef að hann or Essien sem var eins og plástur á hann væru bara á miðjuni …

  en berst er að segja bara ekkert meyra… gerum bara okkar besta á Brúnni og þá er alt hægt…

  gleðilega páska allir Púllarar 🙂

 31. Hvað er að kvarta, guys & dolls? Liverpool átti 12 skot (2 á rammann) á meðan Chelsea skaut x21 á markið (9 á rammann). Er það ekki nokuð!?! Á sama tíma var Chelsea 42% með boltann. Þið kunnið að reikna hinn hlutann en ég nenni því ekki. Kvartanir berist beint til leikmanna: notgoodenough@liverpool.com

 32. Það vantaði að anda ofaní hálsmálið á leikmönnum Chelsea.

 33. Þótt að Rafa hafi stillt upp sterkasta liðinu þá getur vel verið að hann hafi klikkað bara taktískt séð.

  Efast um að hann velji byrjunarliðið og segi “Ok guys… go win the game”

  Ég veit ekki hvort ég muni horfa á seinni leikinn, því þetta er lost cause að mínu mati.

 34. Javier verður með í næsta leik en ekki John Terry!! það ætti að gefa okkur e-ð!!! Mikið óskaplega saknaði ég hans í kvöld, fáar skyndisóknir Chelsea stöðvaðar, bakvörðunum okkar leið eins og litlum börnum fyrsta daginn í skólanum án mömmu (mascha).

  Svo er alltaf hægt að vera vitur eftir á og kenna Lucas um þetta. Hann var nú ekki sá versti inni á vellinum og hann hefur alveg sýnt að hann getur spilað á móti þeim stóru sbr. Man Utd. Eina sem má hugsa sér er að Benítez hafi fallið í þá gryfju að treysta um og of á Gerrard/Torres dúóið frammi í stað þess að færa Gerrard aftar með Alonso og setja Benayoun í holuna fyrir aftan Torres. Kannski hefði það einhverju breytt, Essien hefði þá hugsanlega eytt kröftunum á röngum stað á vellinum og leikurinn opnast.

  Svo vorkenndi ég bara Dossena að þurfa að koma inná þegar Anelka var að koma inná, hann er ekki VARNARMAÐUR, hvað eiga Utd og Real leikirnir sameiginlegt? Jú Dossena kom inn á á kantinn og blómstraði. Það er hans staða, hann fer á taugum í bakverðinum.

  Svo er ég ekki sammála að vörnin hafi verið arfaslök, Carra bjargaði frábærlega og gerði fá mistök, Skrtel var sæmilegur og Arbeloa var ógnandi. Mistökin voru dekkningar í hornspyrnum! Það er eitthvað sem skrifast á þjálfarann að mestu leyti. Auðvitað eru það varnarmistök en ekki var það varnarmaður sem klikkaði í báðum mörkunum hjá Ivanovic, Hann heitir Gerrard sá maður.

  Við áttum líka helling af færum í byrjun og einnig eftir fyrsta markið og hefðum með heppni getað verið búnir að gera útaf við leikinn á fyrstu 20 mínútunum. En svona er fótbolti, þegar tvö svipað sterk lið mætast þá er það oft heppnin sem ræður úrslitum eða dýr mistök.

  YNWA
  vona það besta á Stamford en er hóflega bjartsýnn.

 35. Jæja þannig fór um sjóferð þá. Chelsea liðið var miklu betra í kvöld og vann mjög sanngjarnt. Okkar menn voru einfaldlega yfirspilaðir og úrslitin í samræmi við það. 1-1 hefðu verið vond úrslit og 1-3 er einfaldlega of stór biti. Til lukku Chelsea og gangi ykkur vel á móti Barcelona í næstu umferð.

 36. Talandi um inákomu dossenna 🙂 ekki kanski gott að setja hann inná þegar eftir er að skora 4 markið…. sagði það þegar hann kom inn á að hann myndi skora 4 markið fyrir Chelsse… það munaði ekki myklu.. :S en sem betur fer .. varði reina frá honum 🙂

  maður verður að brosa af þú sem hægt er að brosa af í þessum leik 🙂

 37. Svona til að bæta við staðreyndirnar tvær sem þú, Magnús Arnar, komst með að þá er staðan 0-2 Benitez í óhag þegar hann fer á “Ferguson-veiðar” á blaðamannafundum fyrir leiki.

  Hiddink átti þennan sigur algjörlega skilið og að tapa 1-3 var í raun bara gott miðað við hvernig við vorum étnir upp. Essien var klárlega maður leiksins en hann útilokaði Gerrard algjörlega frá því að geta linkað sig við Torres eins og þeir hafa gert svo oft. Það sást einnig svo greinilega í kvöld að okkur skortir breidd sem og að opna vörn Chelsea með því að spila upp kantana. Það hefði verið gaman að sjá Barca vs. Liverpool í næstu umferð en svona fór um sjóferð þá. Chelsea vinnur dolluna í ár með Hiddink sem stjóra.

 38. “Mistökin voru dekkningar í hornspyrnum! Það er eitthvað sem skrifast á þjálfarann að mestu leyti. Auðvitað eru það varnarmistök en ekki var það varnarmaður sem klikkaði í báðum mörkunum hjá Ivanovic, Hann heitir Gerrard sá maður.”

  Þarna var flott setning. Átti þjálfarinn að dekka? Andy Gray sleikjur allra landa sameinist um að láta heyra af svæðisvörninni. Málið var einfaldlega það að í liði Chelsea eru ansi margir flottir skallamenn. Í kvöld voru inni í teig Terry, Alex, Ballack og Drogba. Það þýddi það að Ivanovic sótti inn á svæði þar sem oft mun lágvaxnari maður dekkar og átti frábæra skalla báða. Í fyrra skiptið klikkar Alonso og svo Gerrard. Hvaða kjaftæðisbull í heiminum er það að ætla að kenna þjálfaranum um að mótherjinn er með frábæra skallamenn og tveir lykilmenn gera smávægileg mistök sem er svo refsað.

  Svo glaður að sjá Kristján verja Lucas, enda sú umræða svakaleg. Menn sem gagnrýna Lucas en verja Alonso í kvöld finnst mér úti á túni og eiginlega örugglega helteknir af FIFA. Liðið var yfirspilað. Allt.

  Og ef það voru einhver stærri vonbrigði en önnur var það innkoma Benayoun og Babel. Ryan Babel er enn einu sinni að koma inná og vekja hjá mér verulegar efasemdir að hann ráði við það að verða alvöru leikmaður hjá Liverpool.

  En í guðs bænum, ekki taka utd-dramann og deyja oní bringu. Stundum lendir maður í því að tapa, við gerðum það í kvöld, í FJÓRÐA skiptið í vetur og við skulum ekki höggva allt í spað.

  Næst er Blackburn á Anfield, það þarf að klára. Svo einfalt. Þar á eftir kemur Stamford Bridge.

  Trúa áfram. Trúa áfram!

 39. REYNIÐ BARA AÐ ÞROSKAST SJÁLFIR OG SJÁ LJÓSIÐ! 🙂

  Tek það skýrt fram að ég vil selja BÆÐI Lucas Leiva og Xabi Alonso. Ég hef talað fyrir því lengi hvað Alonso sé geldur og hægur sóknarlega. Við töpuðum þessum leik á miðjunni, Alonso og Leiva töpuðu nánast öllum einvígjum á miðjunni, skiptir engu hvort það voru skallaboltar, tæklingar eða 50/50 klafs. Tókuðu eftir því þegar Alonso hleypti Ivanovic bara í gegn í fyrsta marki Chelsea?
  Hvorugur hefur líkamlega ná andlega burði til að spila í enska boltanum. – Og í gvuðana bænum strákar ekki bera Xabi Alonso saman við Jan Mölby. Það er árið 2009, ekki 1987.

  Góður punktur hjá Herði Magnús í kvöld með Benitez. Að hann hefði miðað við fyrri viðureignir liðanna og búist varnarsinnuðu Chelsea liði. Vorum fyrirsjáanlegir og Hiddink einfaldlega las leik Liverpool. Vissi að Gerrard yrði í holunni fyrir aftan Torres og setti Essien á hann í 90mín.
  Lét sóknarmennina pressa okkar tiltölulega hægu bakverði (Arbeloa, Aurelio) til að gefa stuttar óyfirvegaðar sendingar. Lét svo hraða fljótandi 3 manna miðju pressa Alonso og Leiva stöðugt.
  Síðan þegar þeir unnu boltann náði hápressa Liverpool aldrei að virka því Chelsea spiluðu sig alltaf úr vandræðum með stuttu þríhyrningaspili. Voru
  bara miklu skipulagðari en við og sigruðu okkur á okkar eigin bragði.

  Við bara koðnuðum niður undan hraðanum ásamt líkamlegum yfirburðum Chelsea og náðum aldrei stjórn á leiknum. Ég spáði 3-2 fyrir Liverpool en var fullviss um að Chelsea næðu útivallarmarki/mörkum.

  Vonandi verður þetta blessun in disguise. Ég fyrirgef þessa hörmung ef Liverpool vinnur rest í deildinni og Man Utd missir af báðum aðaltitlunum. Ég fyrirgef Benitez klár taktísk mistök í þessum leik ef hann gyrðir sig í brók og lærir af þessum mistökum, kaupir alvöru karlmenn á miðjuna og tekur föst leikatriði liðsins algerlega í gegn, bæði sóknar og varnarlega. Ekki einleikið hvað það er fullkomlega engin hætta frá Liverpool úr hornspyrnum, enginn sem keyrir af hörku í teiginn ef við erum það heppnir að þessar spyrnur drullast yfir fyrsta varnarmann.

  Einn mjög pirraður að fullkomlega ordinary leikmaður eins og Ivanovic láti Liverpool líta út eins og smástelpur í föstum leikatriðum…

 40. Djöfull er ég ánægður með þessi úrslit.
  Þetta var akkúrat sem ég vonaðist eftir, tap á Anfield á þessu stigi í meistaradeildinni.
  Væri alveg til í að sjá Benitez hvíla þá leikmenn sem eru búnir að vera undir mesta álaginu í vetur í seinni leiknum.
  Leikmennirnir geta einbeitt sér að deildinni og klárað hana með stæl, unnið rest og vonandi gera Man Utd einhver mistök.

  1. Maggi. Hver heldurðu að þjálfi upp varnartaktík og dekkningar í hornspyrnum, sorry en við fáum á okkur alltof mörg mörk úr hornspyrnum og það ekki bara í þessum leik! Það hlýtur að vera vandamál þjálfarateymissins að laga það!?

  Ekki það að ég hafi nokkurn tímann starfað í kringum atvinnumannalið á meginlandi evrópu og efast ég um að margir sem lesi þetta blogg hafi þá reynslu 🙂

 41. Vá hvað menn eins og Sölvi fara svakalega í taugarnar á mér, þetta er fyrsti leikurinn sem við töpum á móti þessum stóru 3 í ár ! 4 sigrar, 1 jafntefli og 1 tap. Menn verða aðeins að koma niður á jörðina og átta sig á því að jafnvel bestu liðin tapa leikjum og hitta ekki alltaf á sína bestu leiki, það er það sem gerðist í kvöld. Hefði ekki stillt liðinu öðruvísi í kvöld.

  YNWA

 42. Verð bara að kommenta á þetta. Hvaða endalausa rugl er þetta í ykkur poolurum(flestum) einn daginn eruð þið með besta lið í heimi og allir voða æðislegir en svo kemur eitt tap og nota bene þau eru ekki mörg, þá verður allt vitlaust. Þessi kann ekki fótbolta þó hann hafi verið æðislegur fyrir hádegi. Og loksins þegar menn hættu að drulla yfir Kuyt þá kemur bara Lucas í staðinn. Það er ekki eins og þið hafið verið að tapa fyrir Luton. Chelsea er með hörkulið sem hitti á góðan dag. Hættiði nú að drulla yfir þennna hóp ykkar, það er nú ekki langt í Utd. Er reyndar alveg dauðfeginn að þurfa ekki að mæta ykkur í 4 liða úrslitum 😉

 43. Strákar, ef við gátum unnið AC Milan í Istanbul, eftir að vera 3-0 undir í hálfleik, ítalskt lið sem eru sérfræðingar að verjast eftir að þeir skora mark, þá er þetta hægt. Trúið mér, ég er ekkert alltof bjartsýnn, en maður verður að trúa. Ef við skorum snemma, þá verða Chelsea menn vonandi óöruggir. In Rafa I believe!!!!
  YNWA

 44. Sölvi, það er ljóst að þú hefur ekkert vit á fótbolta, alla vega miðað við Alonso pælinguna!

 45. Siggi þó þetta sé ekki málefnalegt svar þá er það rétt og er ég 100% sammála, Alonso hefur verið einn besti maður liðsins í ár. Er með frábæran leikskilning, sendingagetu, skotgetu og með staðsetningarnar alveg á hreinu. Ok hann er ekki sá sterkasti og hleypur hægt en hitt bætir það svo svakalega upp.

 46. Því miður sanngjarn Chelsea sigur í kvöld. Ekki rétt að drulla yfir einstaka leikmenn hjá okkur, enginn náði sér á strik og Chelsea mun beittara.
  Það vakti athygli mína hversu okkar mönnum gekk illa í stutta spilinu og löngu boltarnir voru svívirðilega margir. Þeir skiluðu engu þar sem Torres og Gerrard voru í strangi gæslu og Kuyt og Riera eru ekki fljótir og mun hægari en bakverðirnir sem þeir glímdu við í kvöld.
  Sem sagt, þetta gekk illa í kvöld og við líkast til úr leik. Meistarakeppnin er brútal þegar komið er á þetta stig, það gengur ekki að fá á sig mörk á heimavelli. Það hentar okkar mönnum að eiga seinni leik í útslætti heima og sú virðist ætla að verða raunin í ár.
  En vonandi gírast menn upp í deildinni og taka þá leiki sem eftir eru.

 47. Fokk.. Ég sem spáði 4-0, og bjóst við miklu þegar Torres skoraði.. jæja, við tökum þá úti 3-1 og svo vító. (sem við vinnum að sjálfsögðu)

  Ég er ekki spes ósáttur við liðið, nema bara varnalega séð, og eins og ég hef tekið ítrekað framm, þá VERÐUR þetta liverpool lið að læra á hornspyrnur! bæði horn hjá mótherjum, og okkar horn. Við erum algjörlega glórulausir þegar það kemur að þessu, og eigilega líka hinum föstu leikatriðunum.

  (Terry verður ekki með næst, en þá er Masche með!)

 48. Sæl,
  Fyrst, takk fyrir að rústa Man Utd. Annars, ég er Chelsea maður og les síðuna hér reglulega og Essien bætir annarri vídd í þetta Chelsea lið og er besti maður liðsins. Hann var lykillinn að þessum sigri ásamt Ivanovic. Ivanovic lokaði vörninni sín megin, hljóp upp menn og stöðvaði Gerrard þegar hann komst niður vinstri kantinn. Svo skoraði hann líka. En ég þori ekki að vera of bjartsýnn. Fyrir nokkrum árum vann Chelsea Barcelona 3-1 og tapaði síðan seinni leiknum 3-1 og fengu tvö mörk á sig í framlenginguj. Hræðilegt. Ég hafði litla trú á Chelsea fyrir leikinn enda hefur þeim ekkert gengið á móti stóru liðunum í deildinni á þessari leiktíð, tapað flestum leikjum meðan Liverpool hefur farið á kostum. En ég held að Chelsea þrauki þetta og hafi ykkur, því miður. jæja, ég hlakka til að hitta ykkur eftir tvær vikur og vonandi verður leikurinn jafn fjörugur og þessi.

  kveðja, Robo

 49. Mér þykir vænt um þig líka Kiddi. 🙂

  Enn og aftur þarf ég að setja þennan fyrirvara…. Xabi Alonso er heimsklassa leikmaður (frábærar sendingar, leikskilningur o.fl.) en hentar bara ekki vel í hraðann í enska boltanum. Hefur og mun aldrei aftur sýna sama form og hann gerði fyrsta árið sitt með Liverpool. Punktur og basta.

  Þetta er ekkert knee-jerk reaction mitt við einu tapi gegn Chelsea. Ég hef viljað selja Alonso í rúmt ár, og komst á þá skoðun fyrir 3 mánuðum að Leiva verði aldrei betri fyrir Liverpool en hann er í dag, þrátt fyrir ungan aldur Hann er enginn Fabregas, skortir andlegan styrk til að spila fyrir stórlið og láta að sér kveða inná vellinum og stjórna leikjum. Ein skammlaus frammistaða þegar Liverpool spilaði þéttan skyndisóknarbolta gegn Man Utd segir ekki neitt. Hann verður aldrei þessi silkimjúki box to box sendingamaður sem Rafa ætlaði honum að vera. Punktur og basta.

  Þetta er mín skoðun, þið megið gera við hana það sem þið viljið. Afneita henni eða rökstyðja af hverju hún er röng. En ekki falla í þá barnalegu gryfju að tala um að aðrir hafi ekkert vit á fótbolta eða að þið þolið ekki viðkomandi.

  Miðjumennirnir tveir í 4-2-3-1 eru þeir mikilvægustu í leikkerfi Rafa Benitez. Þess vegna kaupir Rafa svona mikið af miðjumönnum.
  Nái þeir ekki að spila með í sókninni, dreifa spili á kantana, séu hreyfanlegir að bjóða sig, brjóta niður hraðar sóknir og verja vörnina verða Liverpool alltaf fyrirsjáanlegir sóknarlega og í stökustu vandræðum varnarlega. Allt þetta klikkaði í kvöld.

 50. Úfff… mikið er ég feginn að hafa misst af þessum leik. Það er nógu slæmt að lesa athugasemdirnar. Þetta verður erfitt á Brúnni, mjög erfitt en ekki ómögulegt. Nú er bara að girða í sig brók og hugsa um næsta deildarleik. Við verðum að vinna hann.

 51. munið bara að leikurinn er búinn – fátt getur getur gerst hér eftir – nema hugsanlega vondar hugsanir – flestar komnar vegna skapsins vonda og alls þess sem því fylgir … því enginn þolir tap … ekki ég heldur … you talkin to me? you talkin´to ME?
  PS. Travis Bickle, Taxi Driver.

 52. Mér er slétt sama þó svo að menn séu að slá skjaldborg utan Lucas. Sorry hann er einfaldlega ekki valda því hlutverki sem þarf til þess að verðskulda að vera miðjumaður í Liverpool. Það má telja góða leiki hans í Liverpool treyjunni á fingrum annarar handar. Lets face it,,,,hann hefur ekki staðið undir væntingum. Ég er ekki enn farinn að sjá hvað hann hefur uppá að bjóða fyrir Liverpool. Hann skorar ekki mikið af mörkum, er ekki að leggja upp, sendingageta miðlungs og hann er ekki að uppfylla hlutverk varnarmiðjumanns.

  Alonso átti skelfilegan dag í dag, en hann hefur verið einn besti maður liðsins í vetur en því miður hitti svo á að hann náði sér ekki á strik og því miður var ekki almennilegur miðjumaður til þess að dekka hans leik upp.

  Aurilio var úti á þekju í annars mjög slakri Liverpool vörn heilt yfir. Skrtel átti einn sinn allra versta dag og Carra hélt áfram að eiga í vandræðum með Drogba, tvímælalaust sá andstæðingur sem hann á hvað mestum vandræðum með.

  Gerrard var pakkað saman af Essien og Riera og Kuyt hreinlega sáust ekki leiknum. Torres átti fínar rispur en fékk úr litlu að moða.

  Niðurstaðan: Chelsea lagði leikinn fullkomlega upp. Þeir lokuðu á helstu hættur Liverpool. Pressuðu þá ofarlega og létu heimamenn gera mistök aftarlega á vellinum. Enn og aftur fá Liverpool á sig mörk úr föstum leikatriðum og það eitthvað sem á að vera hægt að laga á æfingasvæðinu. Þetta hefur verið að gerast alltof oft í vetur að liðið sé að fá á sig mörk úr föstum leikatriðum. Ætla ekki að kenna Benitez alfarið um það, leikmenn eiga bera ábyrgð á sínum svæðum og sínum leikmönnum. Chelsea var einfaldlega miklu betra í kvöld.

 53. Djöffull hlakkar mig til á þriðjudaginn eftir viku. Ég hef góða tilfinningu fyrir þessu. Terry er í banni og chelsea leikmenn mæta værukærir til leiks. Ekki gleyma því að við erum alltaf bestir þegar að við erum upp við vegg en það má kannski segja að við séum inní veggnum núna sem að er bara enn betra. Ég neita að gefast upp því að við erum að tala um Liverpool sem að gerir ótrúlega hluti þegar að enginn á von á því. Mér er drullu sama þó að seinni leikurinn sé á Brúnni því að það skipir engu máli hvar hann fer fram ef að leikmenn eru tilbúnir að deyja fyrir sæti í undanúrslitum.
  Hættum þessu væli og sendu góða strauma til okkar manna því að leikurinn er aðeins hálfnaður!!!!!!
  YNWA

 54. Mikið var það rétt ákvörðun hjá tjelskí mönnum að ráða einn færasta þjálfara veraldar til að stýra þeim út leiktíðina.
  Því miður tapaði Rafa þeirri orustu í kvöld en sjáum til, þetta einvígi er bara hálfnað.

  Heyra í stuðningsmönnunum okkar á Anfield í stöðunni 1-3, ótrúlegt. manjúr fólkið hefði hlupið út með rækjusamlokurnar sínar í þessari stöðu.

 55. Það sem maður myndi gera til að hafa Essien í sínu liði. Þessi maður er yfirnáttúrulega góður, nýkominn úr margra mánaða meiðslum!.

 56. Ok, er það bara ég eða finnst einhverjum öðrum Liverpool alltaf vera að fá á sig mark úr hornspyrnum á þessum tímabili. Þessi svæðisvörn sem Benítez leggur upp með í hornunum er algjör hörmung.

  Ég hvet stjórnendur síðunnar til að taka saman einhverja tölfræði um mörk sem við fáum á okkur úr hornspyrnum. Ég er sannfærður um að það verður mjög svört skýrsla.

 57. Ömurlegt metnaðarleysi gegn góðu Chelsea-liði. Ætla að vera að heiman í seinni leiknum. NIÐURLÆING!!!!!!!!!!!!!!!!

 58. Þetta er bara hálfnað! Liverpool hefur áður þurft að skora 3 mörk þegar einvígi var hálfnað í meistaradeildinni en þá höfðu þeir bara 45 mín. til þess ekki 90 eins og núna, höfum trú á okkar mönnum. YNWA

 59. Það er mjög ömurlegt að fá á sig 2 mörk úr 2 föstum leikatriðum, sá ekki nógu vel seinnna markið en eina sem ég hef að segja, horfið á Alonso, hefði þetta ekki verið svæðisvörn, þá hefði Alonso, maðurinn sem hefði átt að dekka hann ekki verið nálægt honum, ekki átt séns í það að dekka hann. Ég held að þetta komi ekki nálægt svæðisvörn! Það má kenna hverju sen er um, en að kenna svæðisvörn um er bara vitleysa. Einfaldlega þá voru Chealsea góðir og þetta bara datt bettur fyrir þeim, ekki það að þeir hafi ekki átt þetta skilið en eins og aðrir segja þá skoruðu þeir úr nokkrum færum á meðan við klúðruðum þeim.
  Benayoun, Babel, Dossena komu inná, gerðu ekki neitt sem skiptimenn, ekki hægt að kenna aðgerðaleysi Benitez um.
  Ætla einfaldlega að segja það aftur, þetta datt betur fyrir Chelsea, Gerrard, og Aurilo voru lélegir. annars bara datt þetta betur fyrir þeim, vona bara að við verðum góðir eftir viku, og Chelsea verði lélegir á Brúnni.
  Ekki hægt að kenna Lucas, Alonso, Torres eða öðrum mönnum um, þetta einfaldlega var ekki okkar kvöld.
  Það er þunn lína milli sigurs eða taps!!

 60. Brynjar 51#, varðandi Alonso og svar Sölva um að við þyrftum að selja Xabi, þá fannst mér ég ekki þurfa að færa rök fyrir máli mínu. Bara að horfa á Alonso spila í nánast öllum leikjum okkar í vetur og sjá hversu yfirvegaður leikmaður hann er og yfir hversu miklum leikskilningi hann býr yfir, finnst mér vera nægilega góð rök fyrir svari mínu. Menn sem telja Xabi Alonso vera slakan leikmann…..ja, say no more…

 61. Jæja félagar, nýr og fallegur dagur runninn upp.
  Þessi leikur var mjög slakur. Það er ljóst. Það er líka ljóst að Chelseamenn felldu okkur á eigin bragði. Benítez hefur ekki búist við þessari pressu Chelseamanna og það var einfaldlega snilldarbragð hjá Hiddink, mæta á Anfield og þora í hápressu er eitthvað sem ekki mörg lið gera. Af hverju var liðið lélegt? Jú, vegna hápressunnar og af því að menn fengu ekkert pláss til að athafna sig. Leikmenn Liverpool, varnarmenn og miðjumenn þurfa pláss og tíma og pláss því þeir eru ekki þeir kvikkustu í heimi. Aurelio og Arbeloa áttu slakan dag, Alonso og Lucas líka. Skrtel og Carra voru alls ekki traustvekjandi. Gerrard sást ekki og Riera og Kuyt gerðu fátt markvert, Kuyt komst jú í færi en nýtti það illa. Mér fannst Torres reyna en varð auðvitað lítið ágengt. Reina var bestur í þessum leik.
  Öll mörkin sem við fengum á okkur í þessum leik voru vegna varnarmistaka. Svæðisvörnin gengur út á það að menn eigi sitt svæði, menn klikkuðu á sínum svæðum og Ivanovic náði að smeygja sér á milli manna.
  Það er mjög sjaldgæft að svona margir leikmenn eigi slakan dag en það skrifast á Hiddink, hann núllaði okkar bestu menn og vann frábæran taktískan sigur. Nú er bara að vona að fleiri lið fari ekki að taka upp uppskriftina hans því leikmennirnir okkar eru flestir hverjir ekki nógu kvikkir til að ráða við að vera pressaðir stíft. Hef áhyggjur af Arsenalleiknum hvað það varðar.

 62. Það er kannski fáranlegt að segja það en mér fannst Liverpool ekki spila neitt illa, svo sem ekki mjög vel heldur. Chelsea voru einfaldlega frábærir í leiknum. Liverpool byrjaði betur en viðbrögð Chelsea eftir markið voru aðdáunarverð. Allt liðið steig upp, baráttan krafturinn og sigurviljinn skein af öllum leikmönnum. Þeir unnu baráttuna um miðjuna og það var aldrei spurning um að þeir mundu svara fyrir sig.

  Í mínum huga var þetta bara einn af þeim dögum þegar Liverpool átti meðalleik en Chelsea leik lífs síns. Bara svo einfalt og eitthvað sem gerist. Engum að kenna.
  Ef það snýst við í seinni leiknum þá eigum við möguleika.

 63. Ég er að mörgu leiti sammála Gumma Daða varðandi Chelsea (þó ég telji reyndar að Liverpool hafi spilað MJÖG illa). Chelsea léku einfaldlega frábærlega í gær. Menn einsog Essien og Ivanovic voru algjörlega frábærir.

  Ég ætla ekki að fara að dissa svæðisdekkningu, enda bendir tölfræðin til þess að hún virki klárlega. En hvað í ósköpunum var eiginlega í gangi, sérstaklega í seinna horninu? Það var einsog enginn vissi hvað hann ætti að gera, það virtist ríkja algjört chaos.

  Það er sennilega það sem Rafa er fúlastur útí. Hann á að leggja upp varðandi föst leikatriði og þau brugðust algerlega í gær.

 64. Núna hef ég ekki skoðað öll kommentin og veit ekki hvort einhver hafi talað um þetta. En var ekki Chelsea að gera nákvæmlega það sama við Liverpool og Liverpool gerðu við Man U um daginnn. Núlla út Lykilleikmenn og gjörsigra andstæðingana. Alveg ótrúlegt að sjá varla Gerrard í leiknum. Það þýðir bara að planið sem Hiddink hefur sett upp gekk allt upp. Hiddink er greinilega betri Tacktik-er en ég hélt. Alveg eins og Benítiez sá við öllu hjá Ferguson á Old Trafford um daginn að þá sá Hiddink við öllu hjá Benítez.

  En eins og Gary McAllister sagði í sófanum á Sky Sport, Chelsea hafa ekki spilað svona vel alla leiktíðina, ég held að enginn hafi búist við þeim svona góðum og svo fór sem fór.

  Hvað vaðar þessa Zonal Marking-dekningu. Fyrir mér er það eins og að bera saman epli og appelsínu og spyrja hvort er betra. Góð Svæðisvörn er betri en léleg “Maður á mann” dekning og öfugt. Þó svo að Svæðisvörnin hafi klikkað í þessum leik að þá er ekki hægt að kenna henni um. Hvernig væri nú frekar að kenna leikmönnunum (sem áttu að spila svæðisvörnina betur) um.

 65. Þessari blessuðu svæðisvorn er nú alltaf kennt um þegar við fáum á okkur mörk en lítið talað um hana þess á milli.

  Veit einhver hvenær Liverpool fékk síðast á sig 3 mörk á Anfield? Það hlýtur að vera ansi langt síðan.

 66. Svona er orðalagið á Soccernet varðandi mörkin hjá Ivanovic:”but two headers from set-pieces by Branislav Ivanovic against Liverpool’s zonal marking system put Chelsea in control” Það er sérstaklega tekið fram að Liverpool spili svæðisvörn og það er ekki í fyrsta skipti sem ég sé það. Er sérstaklega tekið fram þegar önnur lið fá á sig mörk úr hornspyrnum að þau spili maður-á-mann vörn? Eða þarf þess kannski ekki? Fá lið aldrei á sig mörk sem spila slíka snilldarvörmn?!

 67. Mig minnir að það séu rúm tvö ár síðan að Liverpool hefur fengið á sig 3 mörk heima og það var í deild gegn Arsenal. Fengu reyndar á sig 6 mörk heima nokkrum dögum síðar gegn sama liði í deildarbikar.
  Man ekki eftir leik í CL þar sem liðið fékk á sig 3 mörk heima.

 68. Þetta var fyrsti tapaði leikurinn á Anfield í 14 mánuði las ég á official síðuni..
  Ég veit lítið um zonal-marking og aðra varnarmöguleika, en ég veit að við höfum fengið á okkur slatta af mörkum úr hornum, og skorað fá. Höfum við yfirleitt skorað eitthvað mark BEINT úr horni í ár? kanski eitt eða tvö, ég veit það ekki.

 69. Einar Örn >Athyglisvert að Belletti er ekki í liðinu og þess í stað er Ivanovic í bakverðinum.

  hehe, svolítið fyndið að lesa þetta svona eftirá.

 70. ég er sammála Einari Erni (71) að Chelsea hafi spilað frábærlega og okkur menn hittu ekki á góðan dag. En að tala um metnaðarleysi eins og Magnús (65) er náttúrulega bara bull.
  Liðið hefur verið að spila frábærlega undanfarið en hitti á slæman dag núna, slíkt gerist hjá bestu liðum. Þetta er létt óþolandi að sjá menn vera svona fljótir að skipta um skoðun, liðið er frábært í síðustu leikjum en nú er það metnaðarleysi og á að selja ákveðna menn ! Alonson t.d. hefur verið mjög góður undanfarið og ég skil ekki umræðu um að selja hann.
  Síðan dissa menn Dossena hér og hann á það alveg skilið m.v. leikinn í gær en sá sem hann kom inná fyrir, Aurelio átti einn sinn slakasta leik í langan tíma, gaf lítið af sér nema að bjóða Chelsea uppá marktækifæri með slökum sendinum.
  en þetta er nú bara mín skoðun og þarf ekki að endurspegla mat þjóðarinnar (poooooolara).

 71. Okkur var skotið fast niður á jörðina eftir gott run og nú þurfa menn að núllstilla sig og byrja að gíra sig upp fyrir hörkuleik á móti Blackburn og svo er bara annað stríð á Brúnni í næstu viku……við erum ekki úr leik en þetta verður erfitt.

 72. Það er eitt sem mér finnst athugavert við þessa svæðisdekkningu og það er staða markmannsins. Það er greinilegt að hann á að halda sér á línunni en í tilvikum eins og í gær er hann alveg varnarlaus þegar það kemur skalli frá markteig, jafnvel þó boltinn sé ekki langt frá honum eins og í fyrra markinu í gær. Mér finnst að markmaðurinn eigi að fara út í alla bolta inni í markteig og þar rétt fyrir utan. Ef hann missir af honum er hann alveg jafn varnarlaus eins og ef hann stendur á línunni. Ef hann fer út í teig hefur hann hendurnar umfram útileikmennina og við vitum að markmenn “mega” ryðja vel frá sér nálægt markinu. Hann myndi þá að minnsta kosti trufla skallamanninn sem næði ekki fullum krafti í skallann.
  Annars er ég alltaf hrifinn af markmönnum sem “eiga teiginn” og finnst Reina gera það vel í opnum leik en, eins og ég sagði, þá á hann greinilega að vera á línunni í hornum, þetta hefur gerst áður í vetur, skalli frá markteig.

 73. Þrátt fyrir að hafa tapað leiknum gjörsamlega á miðjunni þá var það þrátt fyrir allt einungis tvö föst leikatriði sem felldu okkur og það með mök frá Branislav fokkings Ivaonvic…….það eitt segir okkur að þetta var einn af þessum dögum. Síðasta markið var svo kæruleysi af okkar höndum og hræðilegur varnarleikur og eins og liðið væri ekki með eftir annað markið. Ef ég man rétt gerðist það líka í framlengingunni á Stamford í fyrra.

  En það var í mínum augum klárlega á miðjunni sem við töpuðum þessum leik, Lucas er afar efnilegur og hefur átt ágæta leiki, en hann átti EKKERT í Ballack Lampard (sem var ekki einu sinni í stuði) og hinn geggjaða Essien. Okkur vantaði hroðalega sópinn okkar og fyrirliða Argentínu sem var í banni enda coverar hann svæði og tekur á sig skítavinnu sem Lucas gæti aðeins dreymt um…..í raun svipað og Essien var að gera hinumegin. Mascherano er líka drjúgur í því að hjálpa bakvörðunum og guð minn góður hvað þeir hefðu getað þegið smá hjálp í gær, Aurelio átti sinn alversta leik í Liverpool búning, var gjörsamlega alveg bless og Arbeloa var ekki að gera mikið betri hluti hinumegin.

  En miðsvæðið tapaðist ekki bara vegna Lucas, Alonso átti dapran dag einnig og var ekkert að finna Gerrard eða Torres fyrir framan sig. Svo er það bara þannig í leikjum sem við þurfum að sækja í gegn góðum og skipulögðum liðum að okkar kanntmenn opinbera illilega hversu takmarkaðir þeir eru. Kuyt átti flotta sendingu í markinu en gat að öðru leiti akkurat ekki neitt í leiknum og Riera sást voðalega lítið, man ekki eftir því að hann hafi tekið Branislav fokkins Ivaonivc á einu sinni og ekki var neitt overload af krossum frá honum.

  En við hittum á hræðilegum tíma á algjöran TOPPLEIK hjá Chelsea og einn versta leik Liverpool sem ég man eftir þegar svona mikið liggur við. Þeir felldu okkur á eigin bragði með því að núlla okkur út og þeir einfalldlega burstuðu okkur á miðjunni. Því eigum við bara ekki að venjast.

  p.s. DJÖFULL er helvítið hann Essien samt góður

 74. Sá ekki leikinn í gær og ætla ekki að tjá mig um hann.
  Bestu lið í heimi eiga vonda daga og góða daga. Dagurinn í gær var greinilega vondur dagur fyrir LFC. Það eru 90 mínútur plús eftir á Stanford Bridge og þá er bara að fókusera á að negla inn 3 mörkum þar til að komast áfram.
  Liverpool er það sterkt lið að það er hægt. Það verður samt erfitt.
  Það krefst topp leiks og líka útsjónarsemi / klækinda sem ég treysti Rafa fyrir algjörlega.
  Hiddik verður svo viðbúinn.
  Eitt í lokinn drengir, LFC hefur 3x komist í gegnum Chelsea í CL ef ég man þetta rétt. Haldiðið virkilega að Chelsea vilji ekki hefna?
  En, það kemur dagur eftir þennan dag, leikur eftir þennan leik. Núna er að gera að sárum og plana næsta múv.
  Hættiði svo í guðanna bænum að væla yfir því hvort einhver hafi ekki eitthvað verið á hælunum/tánum/latur ….. fyrir viku voru þeir Guðir ….
  Life goes on.

 75. Fuck this kjaftæði hvaða rugl er þetta er að tapa 3-1 heima það þarf að kaupa alvöru leikmenn í þetta lið svona útreið á maður ekki að fá henda lucas riera babel og öllu þessu rusli

 76. Liverpool var gjörsamlega yfirspilað í þessum leik, óhemju erfitt að fylgjast með liði sínu eiga engin svör á sínum eigin heimavelli. Flestir leikmenn liðsins spiluðu langt undir getu, munaði þar mestu um Steven Gerrard. Eftir á að hyggja hefði verið ráðlegt að draga Gerrard fyrr aftar á völlinn, í stað hundsins Lucas, til að reyna að koma honum betur inn í leikinn. Hann hefði kannski átt eitthvað í miðjumenn Chelsea í gær ólíkt Lucas og Xabi. Aurelio spilaði sinn versta leik í langan tíma, það var átakanlegt að horfa á hann færa Chelsea nokkur færi á silfurfati. Það hafði kannski áhrif á varnarleik Liverpool að enginn Mad Masch var til að skýla varnarlínunni.

 77. Það er svo sem litu við þetta að bæta. Liðið var gjörsamlega á hælunum, því enginn spilar betur en andstæðingurinn leyfir. Vörnin var allann tíma mjög óörugg og veikleikar hennar voru augljósir, bakverðirnir sem báðir voru slakir. Vorum síðan saltaðir á miðjunni. Ég hef samt fulla trú á því að við getum slegið þá út með topp leik á brúnni. Mér finnst barnalegt þegar menn eru að gleðjast yfir því að við höfum tapað því þá getum við einbeitt okkur að deildinni. Fyrir leikinn var nefnilega meistaradeildin okkar lang líklegasti möguleiki á dollu. Nú eru möguleikarnir ca jafnir

Sigurliðið í kvöld!

Nýr dagur, ný áskorun