Man.Utd á morgun

Háspenna lífshætta. Já, það er komið að því, algjör lykilleikur á morgun. Þar verður úr því skorið hvort leiðin verði greið fyrir Manchester United í átt að meistaratitlinum á Englandi eður ei. Töpum við þessum leik, þá verður brekkan ansi hreint brött á meðan mótherjar okkar keyra um sléttan og beinan veg. Við hreinlega verðum að sigra þá til að auka möguleika okkar á að veita þeim keppni um titilinn stóra. Þetta verður erfitt, um það er ekki nokkur spurning. Þetta snýst fyrst og fremst um það hvaða Liverpool lið mætir til leiks. Verður það sama grimma liðið og rassskellti Real Madrid í vikunni? Eða verður það liðið sem við höfum alltof oft í vetur séð í jafnteflisgírnum og ekkert gengur upp? Eitt er víst, það ætti ekki að vanta sjálfstraust í liðið okkar þegar það labbar inn á Old Trafford á morgun. En það er svo heldur ekki hægt að segja að mótherjar okkar hafi einhverja ástæðu til að skorta sjálfstraust heldur.

Að mínum dómi mætast þarna 2 af þremur sterkustu liðum í Evrópu í dag. Stór orð en ég er algjörlega sannfærður um að svo sé. Það þarf að sigra Man.Utd og það þarf að gerast á morgun. Hvað gerist hjá þeim ef það tækist? Liðin eiga svipað prógram framundan í deildinni til loka leiktíðar og það mun skipta máli í þeim hvernig sjálfstraustið er hjá þeim.

Það þarf nú ekki að fjölyrða mikið um mannskap mótherja okkar. Það ætti öllum að vera það ljóst að lið Man.Utd býr yfir mikilli breidd og þar innanborðs eru fjölmargir “matchwinners”. Ég vona þó að við náum áfram að halda aftur af portúgalska vælukjóanum, okkur hefur yfirleitt tekist að halda honum niðri í leikjum þessara liða og það þarf einnig að gerast á morgun. Ég ber mikla virðingu fyrir mörgum leikmönnum í liði andstæðinganna, en hann fellur ekki undir þann hatt, frekar en Rooney nokkur eða Ferdinand. Menn eins og Scholes og Giggs eru aftur á móti leikmenn sem hafa hlotið virðingar í fótboltaheiminum og það með réttu. Þeir eru loyal, haga sér ákaflega vel utan vallar og eru atvinnumenn fram í fingurgóma. Ég hræðist þá ávallt þegar kemur að leikjum þessara liða.

Við yfirspiluðum þetta lið á Anfield í vetur og ég er algjörlega á því að við eigum að keyra á þá frá fyrstu mínútu eins og við gerðum gegn Real Madrid í vikunni. Við unnum þá síðast sannfærandi án Steven Gerrard og Fernando Torres, þeir verða báðir með á morgun þannig að þetta er sko algjörlega vel mögulegt. Javier virðist vera að toppa á réttum tíma og miklu máli skiptir að hann og Alonso nái tökum á miðjunni þannig að Stevie geti leikið lausum hala fyrir framan þá. Fabio Aurelio hefur verið þvílíkt solid vinstra megin undanfarið og ég vonast til að hann þaggi niður í Cry Baby og haldi honum niðri. Ég á ekki von á miklum breytingum frá liðinu sem lagði Madrid og mín heitasta ósk væri sú að alls engu yrði breytt. Rafa, plís, stilltu upp sama liði og síðast, plís, gerðu það. Ef hann breytir einhverju, þá hugsa ég að það gæti orðið á vinstri kantinum, þ.e. að hann taki Riera inn fyrir Babel og væntanlega yrði ástæðan sú að Riera er betri í hjálparvörninni og myndi líklega aðstoða Aurelio betur í að eiga við Ronaldo heldur en Babel myndi gera. Babel átti stórfínan leik síðast og það væri ferlegt að droppa honum strax á bekkinn. Fyrir utan þessa einu stöðu (svo fremi að engin ný meiðsli hafi komið upp) þá held ég að restin muni halda sér frá síðasta leik. Ég giska sem sagt á að liðið verði svona (þó ég vonist eftir óbreyttu liði frá því síðast):

Reina

Arbeloa – Skrtel – Carragher – Aurelio

Mascherano – Alonso
Kuyt – Gerrard – Riera
Torres

Bekkurinn: Cavalieri, Hyypia, Dossena, Lucas, El Zhar, Babel og Ngog

Já, þetta er ekki flókið strákar mínir, þið þurfið að koma gjörsamlega dýrvitlausir til leiks. Berjast um alla mögulega og ómögulega bolta og gefa andstæðingunum engan frið, ENGAN. Við höfum sýnt það á köflum í vetur að við getum spilað fínan fótbolta, en hlutirnir þurfa að detta með okkur í þessum leik. Það eru veikleikar í þessu Man.Utd liði og ég vonast svo sannarlega að Rafa muni láta sína menn hamra á þeim. Vinstri vængurinn okkar gæti orðið lykillinn að sigri. Þeir hafa að ég held verið að nota John O’shea í hægri bakverðinum og það er akkúrat ástæðan fyrir því að ég vil sjá Babel byrja inná, keyra á þann gaur alveg hægri vinstri. Kristjana (kannski hægt að lesa það út úr þessu að ég ÞOLI ekki þennan leikmann 🙂 ) er ekki sú besta í að verjast og við ættum að nýta okkur það. Þetta verður erfiðara upp hægri kantinn því þar er fyrir líklega besti vinstri bakvörður deildarinnar. Megin markmiðið hjá Kuyt þeim megin verður að stoppa það að hann geti tekið mikinn þátt í sókninni, því Evra kemur mikið við sögu í allri uppbyggingu hjá þeim. Svo vil ég sjá Martin Skrtel pakk saddan í leikslok, með belginn út þandann eftir eitt stykki Berbatov máltíð.

Þetta verður fáránlega spennandi og ég er með hnút í maganum fyrir þessa viðureign. Það er alltaf þannig reyndar fyrir þessa leiki, en það er stærri hnútur núna en oft áður. Fyrst og fremst vegna mikilvægi þessa leiks fyrir okkur Liverpool menn. Ég spái hörðum leik og jöfnum. Ég hef svo mikla trú á okkar mönnum þegar kemur að þessum stórleikjum að ég hreinlega get ekki spáð þeim tapi og jafnvel ekki jafntefli. Ég ætla því að tippa á að við sigrum þennan leik með tveim mörkum gegn einu. Hin heilaga tvenna sér um markaskorunina, G&T takk fyrir. Bring it on…

63 Comments

  1. Alveg kemur þessi upphitun mér í gírinn.

    Málið er einfalt, ef við vinnum ekki á Old Trafford þá er titillinn farinn.

  2. Fín upphitun að vanda.
    Ég er líklega algerlega á skjön við flesta hérna, þegar ég segi að ég vilji frekar hafa Riera á vinstri, heldur en Babel, og ég kýs að útskýra það ekkert nánar að svo stöddu.
    Að öðru leyti vona ég að liðið verði óbreytt frá því í síðasta leik. það er þó klárt að 12.maðurinn sem hjálpaði okkur svo mikið í síðasta leik, á við ramman reip að draga, og veitir okkur eflaust ekki alveg jafn mikinn stuðning í þessum leik, þó hann glaður vildi.

    Ég spái að sjálfsögðu sigri í hörðum leik, en skemmtilegum. Ég vona að mínir menn mæti dýrvitlausir og hungraðir í þennan leik, en gleymi samt ekki að spila fótbolta þegar þeir hafa knöttinn.
    Gerrard : Nú reynir á þig drengur… STATTU ÞIG, EINS OG VIÐ HÖFUM STUTT ÞIG……..!!

    Insjallah…Carl Berg

  3. Er hjartanlega sammála öllu sem pistlahöfundur segir. Flott komment, G&T sjá um þetta:) Ég var sjálfur búinn að spá 1-2 sigri og að okkar stærstu menn myndu sjá um skorunina! Come on you reds.

  4. Þetta er síðasta hálmstráið okkar til eiga einhverja möguleika að titlinum.
    það væri mikið gleðiefni fyrir okkur Púllara að vinna þá á Old Shitford.

    Áfram Liverpool!!!!!!!!!!!!!!!!!!

  5. Í Inter leiknum þá var Brabrahamóvich látinn sækja á Ferdinant því hann er greinilega veikari hlekkurinn af miðvörðunum. Vonandi tekst Torres það sem Brabrahamóvich tókst ekki enda mun meiri stórleikjakall heldur en sá sænski!

    Áfram Liverpool !!!!!

  6. Við vinnum þennan leik, ég veit ekki hverjir skora og ekki hverjir verða inná. En ég veit að við vinnum.

    Ef ekki þá er það dómaraskandall aldarinnar

  7. Þetta verður rosalegt, er kominn með í magann strax á föstudegi. Vinnum þetta 2-0 og Rooney fær rautt í fyrri hálfleik.

  8. Væri til í að sjá Babel áfram vinstra megin eftir fínan leik gegn Real

  9. Þetta virðist alltaf fara á besta veg þegar ég er svartsýnastur þannig að ég ætla að spá 4-1 fyrir Man Utd.

  10. Maður þorir varla að segja neitt um þennan leik, þetta eru altaf baráttu leikir, en ég hef sem fyrr trú á mínu liði (annars væri nú til lítils að vera fylgjast með þeim) og ég held að við vinnum þetta með tveimur mörkum, 1 – 3. Og það kæmi mér ekki á óvart ef einhverjir fengju að sjá rautt í þessum leik. Ef við spilum eitthvað í líkingu við leikin og á móti Real og Man Utd eitthvað í líkingu og á móti Inter, þá gæti þetta jafnvel orðið stærri sigur, en aðal málið er að við verðum að vinna og það gerum við….

  11. Sammála öllu í upphituninni

    og Stefán Kr….hugurinn er kannski í lagi en hættu að lesa þennan klósettpappír !

  12. Ég hef lesið þessa síðu nokkuð oft í vetur og þið eigið hrós skilið fyrir gott framtak og vitræna umfjöllun um ykkar lið. En það breytir því ekki að ég hata stuðningsmenn Liverpool því þeir ná alltaf að halda því fram að þeirra lið sé það besta. Skýrt dæmi um það er, að þegar einn sigur í meistaradeildinni næst á móti vængbrotnum og andlausum spaníolum halda þeir allir að Liverpool sé yfirburðarlið.
    Varðandi leikinn á morgun er eitt víst, að hart verður barist og leikurinn ræðst af því hvort liðið nær yfirhöndinni á miðjunni og hvort liðið er með sína “matchwinnera” klára. Þið hafið Torres og Gerrard (G&T) en United hefur Ronaldo, Rooney, Berbatov og Tevez líklega kláran á bekknum. Ekki má gleyma Nemanja Vidic sem hefur verið mjög hættulegur í föstum leikatriðum á leiktíðinni.
    Eins og þið segið sjálfir á Torres eftir að fara að fordæmi Zlatan og herja á Rio Ferdinand í stað Nemanja Vidic. Ferdinand hefur ekki verið eins dominerandi í sínum leik og í fyrra, en það hefur ekki komið að sök þar sem slátrarinn frá Serbíu hefur stigið upp og verið ógnvænlegur í sínum leik. Torres sá ekki til sólar í síðustu rimmu sinni á Old Trafford við þá félaga og ég vona innilega að sama verði upp á teningnum á morgun. Stevie Gee hefur sjaldan getað neitt á móti United og vonandi heldur það áfram. Þið Liverpool menn ættuð klárlega að vonast eftir því að Ryan Babel verði með og keyri á Írsku fegurðardísina John O’shea því Írinn knái er allt annað en sannfærandi leikmaður þó hann skili nú oftast sínu.

    Ég spái hörkuleik á morgun þarsem hart verður barist og mörg umdeild atvik líti dagsins ljós. En ég hef trú á mínum mönnum og held að þeir klári verkefnið 2-1, þar sem Rooney og Berbatov skora fyrir United en Dirk Kuyt skorar fyrir ykkar menn.

    Adios amigos, megi betra liðið vinna í skemmtilegum leik á morgun.

  13. Damn Stefán Kr, ef þessi frétt sem þú ert að linka í fjallar um Zidane og ummæli hans, þá er hún um allt á veraldarvefnum, og því í ósköpunum að linka í skítasnepilinn sem nánast allir Liverpool menn fordæma?

    “Skýrt dæmi um það er, að þegar einn sigur í meistaradeildinni næst á móti vængbrotnum og andlausum spaníolum halda þeir allir að Liverpool sé yfirburðarlið. “

    Andlausir voru þeir en af hverju vængbrotnir? Búnir að vera á líklega sínu besta “rönni” ever í spænsku deildinni áður en þeir mættu okkur. Ég hef heldur ekki séð að menn hafi mikið verið að tala um það hérna að við séum með yfirburðalið. Við erum ekki efstir í deildinni og ég held að við gerum okkur flestir grein fyrir því. Maður hefur engu að síður trú á sínu liði 🙂

  14. Kobbi M U: þú veist að það má ekki nota orðið HATA. Líst drullu vel á þessa uppstillingu og góður pistill SSteinn. Eitthvað segir mér að Riera sé betri á kantinum en Babel, svona yfirleitt, en Rafa ætti að láta Babel birja vegna þess að hann var góður síðast, og svo má skipta ef ekkert gengur hjá honum. Held að við tökum þetta JESS JESS……..

  15. Í gær var ég með það á hreinu að Liverpool myndi tapa leiknum á morgun – við þekkjum mýmörg dæmi um það að liðið virðist ekki höndla deildarleiki eftir velgengni í Meistaradeildinni og tapar þess vegna (eða gerir jafntefli við smærri lið).
    Í dag er ég hins vegar á því að Shrek hafi gert okkur greiða með ummælum sínum, m.ö.o. hafi kveikt aðeins í mönnum og ætla því að spá 2-0 sigri með mörkum Gerrard og Torres.

    • Í dag er ég hins vegar á því að Shrek hafi gert okkur greiða með ummælum sínum

    Einmitt svipað og ég fékk á tilfinninguna (eða er að vona).

  16. Ég sá reyndar fréttina á Vísi fyrst og þar vitnar blaðamaður í viðtal Zizu við The Sun og ég ákvað því að linka á það sem ég hélt að væri upprunalega heimildin. Sjálfsagt er þetta bull og vitleysa í blaðamanninum. Kennir manni það að maður á hvorki að treysta innlendum né erlendum slúðurpennum, þó svo að fréttin sé væntanlega góð og gild. Ég biðst hér með afsökunar.

  17. Stærsti leikur Liverpool á þessari leiktíð. Jafntefli eða tap og það má kissa Englandsmeistartitil 2009 endanlega bless. Þetta er sex stiga leikur og bara do or die fyrir okkar menn. Núna er tíminn til að borga fyrir öll heimleiksjafnteflin. Koma svo Liverpool. 1-3…. Torres, Kuyt og Riera.

    YNWA

  18. Það er rétt hjá þér nr. 15 að vængbrotið er asnalegt orð í þessu samhengi. Stend hinsvegar við það að ég hata liverpool stuðningsmenn þarsem flestir af mínum bestu vinum eru poolarar og eru óþolandi eftir hvern einasta sigurleik liðsins.

  19. “Stend hinsvegar við það að ég hata liverpool stuðningsmenn þarsem flestir af mínum bestu vinum eru poolarar og eru óþolandi eftir hvern einasta sigurleik liðsins” Nákvæmlega það sama sem ég upplifi með United aðdáendur, er ekki hægt að finna leiðinlegri stuðningsmenn.

  20. Svei mér þá Kobbi…Það má vera erfitt að eiga óþolandi vini, en þeir verða alltaf liverpool stuðningsmenn. Eina sem ég sé í stöðunni er að finna nýja þolanlega vini, eða ganga til liðs með þeim gömlu.
    Ég ætla að gefa mér það að þú sért einn af þeim stóra hóp sem var að koma upp þegar MU fór að sækja í sig veðrið. Það loðir talsvert við þann hóp að vanta þroska til að geta tekið úrslitum með jafnaðargeði, hvort sem um sigur eða tap er að ræða. Treystu mér samt, að það er ekkert samasemmerki að vera óþolandi eftir leiki og að vera liverpool maður.
    Kv. einar

  21. þetta er akkúrat leikurinn fyrir kuyt að læða inn einu. 0-1 lokastað.

  22. “Kobbi United Maður”, trúðu mér að ég þekki marga Liverpool stuðningsmenn sem eru gjörsamlega óþolandi og vilja sjaldan eða bara nánast aldrei viðurkenna það að það sé til betra lið en Liverpool í heiminum. Hinsvegar tel ég mig ekki einn þeirra, jú ég verð dýrvitlaus þegar liðið spilar vel og sigrar leiki og að sama skapi verð ég brjálaður út í liðið þegar það tapar leikjum. Það hinsvegar gerir mig bara að sönnum stuðningsmanni og það er í í eðli sannra stuðningsmanna að halda því fram að sitt lið sé best og styðja það í góðu og slæmu. Everton stuðningsmenn segja að sitt lið sé það besta og fleiri stuðningsmenn á Englandi. Þú heyrir stuðningsmann einhvers klúbbs mjööööög sjaldan láta út úr sér orð eins og “nja við erum bara la la, svona miðlungsklúbbur”. Ekki til í dæminu. Held þetta verði jafntefli á morgun 1-1 eða 22, vonast samt innilega eftir sigri svo ég fái að vera ÓÞOLANDI Í EINA KVÖLDSTUND,hehehehe.
    Forza Liverpool

  23. Sigur eða tap, það breytir ekki þeirri skoðun minni að Man Utd verður Englandsmeistari í vor. Vonandi vinnum við, það mun setja smá spennu í þetta mót en ég á ekki von á því. Ég spái 2-0 fyrir MU. Djöfull vona ég að ég hafi rangt fyrir mér…

  24. Úff hvað ég er hræddur við þennan leik á morgun. Vona að liðið verði í sama gír og á þriðjudagskvöldið, þá höfum við ekkert að óttast.

    BTW, þeir sem treysta á upplýsingarnar hér undir “Næsti leikur”, þá var hann vitlaust skráður á kl 15:00. Ég var að laga gögnin á bakvið, því eins og eflaust flestir hérna vita hvort sem er, þá hefst rimman kl 12:45. Það er hér með lagfært.

  25. Langt síðan ég hef verið svona spenntur fyrir leik, efast um að ég nái svefn í kvöld.
    Annars spái ég 1-2, Monster Mach læðir inn einu og einn af þessum, Torres, Gerrard eða Arbeloa (já ég veit, ég hef bara hunch um þetta) hinu. Giggs setur síðan eitt í blálokin sem huggunarmark fyrir Djöfladýrkendurna.
    FORZA LIVERPOOL!

  26. Ég fer ekki ofan af því að heilt yfir eru okkar topp 11 leikmenn betri en topp 11 leikmenn Scum UTD. Ef allir eru heilir er liðsheildin okkar sterkari varnarlega og á miðsvæðinu og T&G jafnast vel á við senterana.

    En styrkur United liggur í matchvinnerum. Þeim Ronaldo, Giggs og Rooney. Ég tel Berbatov ekki verðan þess að vera með þessum mönnum í sama búningsklefa. Gegn Inter léku þeir illa, Vidic hélt vörninni og umræddir þremenningar kláruðu leikinn.

    Það er stóra spurning morgundagsins, verða allir okkar menn með og náum við að loka á þessa þrjá almennilega.

    Ef það tekst vinnum við á OT. Nokkuð örugglega.

    Ótrúlega sem þetta verður skemmtilegt!

  27. Fowler hefur ítrekað birst mér draumi.
    Liverpool vinnur 0-1 Carra Skorar með bombu af 30 m. færi á ca. 80 mínútu.

    Svo segir Fowler, svo sagði guð

  28. Af hverju eru United menn að lesa liverpool bloggið? Hvað þá að commenta hér.

    Frekar myndi ég allavegana skoða barnaland svo sólahringum skipti áður en ég færi að lesa United bloggið.

    Mér finnst nú á skrifum þessa Kobba að honum sé greinilega innst inni ansi hlýtt til liverpool miðað við hversu oft hann segist koma hingað. Ég hvet þig því hér með til að spara þér niðurlæginguna á morgun og ganga í lið með þeim sem þér þykir augljóslega svo áhugaverðir.

    Ég skal glaður gefa þér treyju og taka frá sæti fyrir þig á barnum á morgun.

    You´ll never walk alone Kobbi.

  29. “Af hverju eru United menn að lesa liverpool bloggið? Hvað þá að commenta hér”
    Nú útaf því að þetta er frábær síða!
    Ég er að fíla þetta sem Kobbi er að skrifa, sýnir vel þann hug sem við stuðningsmennirnir höfum til þessara tveggja liða : )
    Svo er líka bara gaman að fá loksins þroskaðan aðdáanda Man Utd hér í kommentin, þessir sem á undan hafa komið hafa nú ekki náð að auka álit manns á aðdáendum þeirra fína liðs, því miður.

    Annars er ég á því að við Poolarar verðum brosandi hringinn eftir leik, ójá : )

  30. Sammála Bigga(32) að maður les ekki man.und síður! Ég held að okkar möguleikar biggist á því að stöðva þeirra hornspyrnur sem er oftar en ekki vandamán hjá LFC og þeirra stærsti möguleiki til að skora. Þeirra veikasti hlekkur er hæg miðju-miðja og um leið eitt af okkar betri vopnum á góðum degi ásamt G&T frammi! Líklegustu úrlitin eru 0-0 eða 0-1 og sætti mig við það síðarnefnda. Áfram Liverpool!

  31. Flott upphitun og maður er þokkalega spenntur!
    Mín tilfinning er að við vinnum 0-2 en því miður er það bara ekki nóg úr því sem komið er.

  32. Fögnum við ekki alveg sjónamiði andstæðinganna og því að aðdáendur annara liða kíki hérna við, svo lengi sem þeir halda ummælum sínum innan siðsamlegra marka?

  33. Ég efast nú um að maður í United treyju með yfirlýsingar gengi um óáreittur á yfirlýstum Liverpool bar. Málefnalegur eða ekki. Þetta er einfaldlega bara Liverpool síða 🙂

    Djöfull er ég orðinn spenntur fyrir þessum leik.

  34. Veit einhver hvar er hægt að horfa á leikinn á netinu í góðum gæðum og þar sem útsendingin er ekki að detta út á fimm mínútna fresti?

  35. Ég tek undir með að PÚLLARAR brosi hringinn á morgun, En að M U menn brosi eins og Geir Haarde á hvolfi. Hef trú á okkar mönnum 0-2 JESS JESS. 😉

  36. getur prófað myp2p.eu , eða livefootballstreams.net eða ustream.tv , justin.tv o.fl

  37. Já mikið væri nú gaman að vinna á Old Trafford í dag. Hef reyndar ekki mikla trú á að það gerist en gaman væri það engu að síður. Ég held að þessi leikur endi annað hvort 2-1 fyrir verðandi englandsmeistara eða 1-1.

    Fyrir mér snýst þessi leikur um stolt og “bragging rights” en ekki um hverjir hampi bikarnum í maí. Þeim möguleika var einfaldlega klúðrað í jafnteflisleikjum á Anfield í vetur. Þó svo að LFC færi með sigur í þessum leik þá hef ég ekki mikla trú á að ManU sé að fara að tapa það mörgum stigum að okkar menn geti náð þeim.

    En hvað veit ég svo sem.

  38. Jeeee Kidda #8 Rooney fær rautt í fyrri hálfleik
    og þetta verður steindautt 0 -2
    við LFC erum í Gírnum og getum ekki tapað og allir mæta á Allann

  39. http://www.atdhe.net
    ágætissíða með hinum ýmsu kappleikjum líka ef menn eru að spá í linka á leiki og er alveg stöðug hjá mér allavega sá Real leikinn þar og var fínt.
    Annars er ég að gera í mig fyrir leikinn í dag.
    2-0 Torres og Kyut

  40. Lucas er í liðinu fyrir Alonso, frááááábært ! Vona að hann standi sig….

  41. The Reds XI in full is: Reina, Arbeloa, Carragher, Skrtel, Aurelio, Mascherano, Lucas, Kuyt, Riera, Gerrard, Torres. Subs: Cavalieri, Hyypia, Babel, El Zhar, Dossena, Insua, Ngog.

  42. I’m hearing that Lucas is set to start for Liverpool in place of the injured Xabi Alonso, which seems like a hammer blow for the Reds’

  43. Það er ekki laust við að maður sé orðinn aðeins spenntur!!!

    En helvíti eruð þið hér hjá kop.is að standa ykkur, frábært að vera með tvær öflugar íslenskar Liverpool síður! Vil varpa inn hugmynd, hvernig væri að taka vikulegt podcast (hlaðvarp)?

    Áfram Liverpool!

  44. Við verðum að stjórna miðjunni í þessum leik ef við eigum að eiga séns og við gerum það ekki með Lucas og Mascherano á miðjunni! fokk!!

  45. ANDSKOTANS HELV***** geta okkar bestu menn ekki hætta að fokkings meiðast.

    Sannarlega ömurleg tímasetning á þessu hjá Alonso.

  46. Sé svo ekki betur en að Hyypia sé kominn í byrjunarliðið og þá í stað Arbeloa!!

  47. Sælir félagar.
    Frábær staða í hálfleik og vonandi fær Rooney laun fyrir hatur sitt á L´pool.
    það er nú þannig.

    YNWA

  48. Reka Rafa, fagnaði ekki nógu mikið held ég. Svo er hann of mikið að skrifa á miða og eitthvað, af hverju er hann ekki bara að tyggja tyggjó.

  49. Kóngarnir sýna hversu mikilvægir þeir eru fyrir Liverpool. Þetta er bara níundi leikurinn sem Gerrard og Torres hafa byrjað saman í vetur, ímyndið ykkur hvernig staðan væri í deildinni ef þeir hefðu byrjað 20 leiki saman.

  50. Glæsilegur fyrrihálfleikur, united með vafasamt víti en okkar menn hreint út sagt magnaðir. Torres og Gerrard í öðrum klassa, nú er bara að klára hálfleikinn með stæl!!

  51. Þvílíkur sigur, þvílík vika! Markatalan 8-1.
    Glæsilegt,glæsilegt,glæsilegt,glæsilegt,

Rafa um framtíðina.

man utd 1 – Liverpool 4!