Bakland í bulli?

Undanfarin tvö ár hefur það verulega ásótt mig hversu mikil orka mín hefur farið í það að reyna að lesa mig í gegnum það hvernig liðið okkar er rekið sem fyrirtæki. Auðvitað höfðum við öll lesið um vandamál David Moores við það að reyna að halda liðinu samkeppnishæfu en það var eiginlega fyrst í upphafi ársins 2007 sem maður fór að skoða það hver staðan væri á skrifstofunum og bankareikningum félagsins.

Það var þá sem að tveir menn duttu skyndilega fram í dagsljósið og keyptu liðið okkar.

Við höfðum lengi reiknað með að vellauðugir Arabar keyptu liðið okkar. Ég hafði lesið feykilega mikið um þá menn og var satt að segja ekkert viss um að þeir væru það sem liðið vantaði. Virtust fyrst og fremst vera fjárfestar sem vildu selja liðið fljótlega aftur með hagnaði og höfðu verið afar “ruthless” í þeim fyrirtækjum sem þeir tóku yfir.

En skyndilega birtust tveir höfðingjar frá Ameríku, sögðu allt rétt, brostu og voru góðlegir. Ég held ég tali ekki svo mikið um það heldur fari kannski meira í það að spá í hvað breyttist í baklandinu með þeirri staðreynd að eigendur félagsins voru nú orðnir tveir jafnstórir og hvorugur búandi í Englandi.

Ábyrgðin á félaginu var lögð í hendur Rick Parry. Hagfræðingi frá háskólanum í Liverpool, fæddum 1955, argandi Liverpoolaðdáanda sem ráðinn var til félagsins upphaflega árið 1998, kom þá úr starfi framkvæmdastjóra ensku Úrvalsdeildarinnar og hafði gengið afar vel í því starfi.

Parry hafði verið falið sem fyrsta verk að finna samstarfsmann Roy Evans og hann var valinn franski eðalmaðurinn Gerard Houllier. Fljótt kom í ljós að tvöföld stjórnun virkaði ekki og Houllier varð einráður fljótlega. Houllier fékk leyfi félagsins til að vinna eins og hann lysti. Hann hóf ferilinn sem stjóri vel, losaði sig við leikmenn sem ekki höfðu staðið sig, fékk Phil Thompson til liðs við sig og keypti góða menn, m.a. Hyypia karlinn. Veikindi 2001 drógu úr honum mikið og svo fór að lokum að Parry sá um starfslokasamning Houllier 2004.

Á þessum tíma var liðið sokkið djúpt. Gríðarlegur launakostnaður leikmanna sem alls ekki réðu við enskan fótbolta (Diao, Cheyrou og Biscan) og algerlega ónýtt unglinga- og varaliðsstarf var arfleifð Houllier og valdatíma hans á Anfield. Sem byrjaði þó svo vel að við héldum öll að Messías væri mættur. Hann hafði fengið fullkomið frjálsræði með sínar hugmyndir og það fór illa. Kannski erum við enn að súpa seyði þess??

Frá upphafi árs 2004 var farið að hvísla að LFC væri farið að leita að arftaka Houllier. Fyrst í stað var mikið rætt um Martin O’Neill en siðan voru það stjórar liðanna sem voru að standa sig í Evrópu, Mourinho hjá Porto, Deschamps hjá Monaco og Benitez sem virtust vera í grandskoðun hjá Rick hinum hárprúða. Houllier hætti 24.maí, rétt fyrir lok tímabilsins í Evrópu og eiginlega um leið og úrslitaleik CL lauk þá stuttu síðar með sigri Porto gengu tveir kostir úr skaftinu. Roman hirti sigurvegara þeirrar keppni, Mourinho, og þar sem hinn var franskur og því ekki það sem vinsælast var tók Parry ákvörðun um það að einbeita sér að Benitez. O’Neill var líka í stöðunni, en þar sem hann var í erfiðleikum í einkalífi vegna veikinda konunnar sinnar fór öll orkan í Rafa.

En LFC sem Rafa tók við var á brauðfótum. Stóð illa fjárhagslega eftir mögur ár í Evrópu. Gríðarlegur launakostnaður, fámennt þjálfarateymi og gjá milli aðalliðsins og annarra liða. Frá hausti 2004 og allt fram í janúar 2007 varð því liðið að fara verulega varlega í leikmannakaupum og í öllum tilvikum fylgdi það árangrinum í deild og Evrópu. Þó náði eigandinn, David Moores að fjármagna nokkra leikmenn án þess að það kæmi niður á rekstrinum. Fyrstu slíku kaupin voru Luis Garcia og Xabi Alonso. Að öðru leyti féllu kaup og sölur fyrsta ársins að jöfnu. Enda enn verið að hreinsa til.

Sigurinn í CL gaf liðinu um 20 milljónir punda og það var sú upphæð sem Rafa fékk til að vinna með 2005 – 2006. Í janúar 2006 óskaði Rafa eftir því að Parry ræddi við Nemanja Vidic og Patrice Evra. En þar sem LFC hafði þá tekið ákvörðun að kaupa Daniel Agger og verið var að ganga frá samningi við Fabio Aurelio var Parry ekki tilbúinn í það. Í tilvikum Evra og Vidic hefur verið sagt á nokkrum stöðum að United hafi áttað sig á að þeir voru til sölu af því að LFC fór að tala við kappana.

Miðað við LFC-history.net er munur á kaupum og sölum þessa tímabils talinn vera 13 milljónir punda. Í lok tímabilsins var orðið ljóst að til að keppa við önnur stórlið varð að setja hærri upphæðir inn í félagið og söluferlið fór af alvöru í gang frá hausti 2006.

Þarna var Parry alfarið farin að sjá um kaup og sölur út frá þeirri fjárhæð sem Moores lagði til. Reyndar hafði Parry tvívegis nærri misst Gerrard frá sér, og klúðraði algerlega samningi við Simao haustið 2005 en Moores taldi það vera réttast að þar sem Parry var orðinn sá sem stjórnaði söluferlinu yrði hann að vera með aðgang að öllu hjá félaginu.

Sumarið 2006 vildi Benitez fá Dani Alvez, kantmann og minnst einn annan framherja. Hafði þá áður gengið frá málum varðandi Craig Bellamy og Fabio Aurelio. Parry ræddi við Barcelona og sagði Benitez strax að ef Alvez kæmi yrði hann sá eini auk Bellamy sem yrði keyptur. Punktur. Það var líka Parry sem kom með nafn Jermaine Pennant upp á borð eftir að hann var boðinn LFC í kjölfar falls Birmingham. Ljóst var að Parry var ekki haggað og þó að Benitez ræddi við Moores var svarið alltaf að Parry réði.

Eftir töluvert japl féllst Benitez á það að Alvez væri ekki raunhæfur kostur en hann heimtaði þá að vel yrði lagt í að kaupa annan framherja auk Pennant. Jafnframt benti hann á þá skoðun sína að hann teldi hægri bakvarðarstöðuna okkar veika og breidd vantaði á miðjuna. Afrakstur sumarsins varð því Dirk Kuyt, verðið var 9 millur punda og Moores lagði út fyrir því persónulega.

Svo kom að tíma Hicks og Gillett. Í janúar það ár hafði LFC misst af Lucas Neill til West Ham en á engum tíma greip Benitez til þekkingu sinnar á Spáni og keypti óþekktan bakvörð, Arbeloa fyrir þann pening sem hann fékk í janúar fyrir að selja Warnock, Diao og Potter. Þetta var klárað á 6 klukkustundum, enda nægilega ódýrt fyrir Parry. Ekki má svo gleyma því að Rafa talaði MSI inn á það að lána Mascherano til Liverpool. Það tók alveg óratíma, ekki síst fyrir það að Rick Parry taldi líkur á því að það ferli væri ólöglegt samkvæmt skilningi ensku deildarinnar og var að gera okkur ansi hreint örg áður en þorað var að skrifa undir.

Ljótar tungur töldu það vera 95% ákvörðun Parry að söðla um og fara frá Arabíu til USA. Ástæðan hafi verið einföld. Arabarnir voru tilbúnir með sinn mann til að stjórna liðinu en Hicks og Gillett vildu að Parry og Moores yrðu áfram lykilmenn í klúbbnum. Ekki veit ég hvort þetta er rétt, en þessi saga ferðaðist víða vorið 2007.

Fyrsta ergelsið heyrðum við morguninn eftir Aþenu 2007. Rafa alveg brjálaður á blaðamannafundi og heimtaði stuðning við sig og sína framtíðarsýn, enda búinn að vera að vinna hjá liði í hlekkjum í þrjú ár með góðum árangri.

Við hrukkum öll við og Kanarnir líka. Í fyrsta sinn kom alvöru fjárhæð til leikmannakaupa. 43 milljónum seinna vorum við komin með Torres, Lucas, Babel, Benayoun og Leto. Auk reyndar Voronin ókeypis sem Rafa hafði gengið frá fyrir komu Kananna, enda þá óvíst um fjármál félagsins. Við seldum svo það sumar fjögur stór nöfn, þar af þrjú sem Rafa keypti fyrir um 20 milljónir punda svo að nettóbreytingin var 23 milljónir.

En ég var þetta sumar verulega ósáttur hversu langan tíma tók að klára öll mál varðandi leikmannakaup. Marga daga beið maður frétta af Torres og síðar Babel. Oft kom að “verið væri að ganga frá smáatriðum” í þessum málum og satt að segja var ég oft á því að málin væru að detta uppfyrir.

Við munum eftir Klinsmanndellunni og þátttaka Parry í þeim bullfundi eyðilagði auðvitað allt traust milli hans og Rafa. Þegar Rick ákvað að þegja með eigendunum um fundinn varð auðvitað ljóst að Parry hugsaði fyrst og fremst um eitt. Rick Parry sjálfan. Þaðan frá hef ég viljað losna við hann frá félaginu og ég held að frá þessum tíma hafi David Moores haft martraðir um sölu sína á félaginu til manna sem ekki höfðu grænan grun um hvað þeir væru að kaupa og á ábyrgð manns sem hugsaði minna um félagið en sjálfan sig.

Janúar 2008 og Skrtel. Hann bjó viku á hóteli í Liverpool eftir að okkur var sagt að allt væri frágengið. Aftur var það Mascherano. Hann grét og grét í 4 – 6 vikur um að ganga yrði frá sínum málum áður en það var klárað. Oft hefur verið talað um vitleysuna sem fer í gang þegar svona mál eru í gangi hjá LFC. Parry les allt oní smáatriði. Hringir í Gillett. Menn frá Gillett hafa samband við Hicks, sem svo talar við Rafa. Ef Rafa er sáttur talar Hicks við menn Gillett sem tala við Parry. Aftur er ég bara að vísa í kjaftasögur en með hverju málinu af öðru sem dregst og dregst trúi ég því frekar að svona sé gangurinn.

Svo settum við sennilega heimsmet í klúðri með Gareth Barry. Allt sumarið fór í að ræða möguleg kaup okkar á honum, sem klárlega voru þau kaup sem Rafa sjálfur vildi helst. En Parry hélt um budduna. Eftir að Crouch fór taldi Parry mikilvægara að fá framherja og fór í að ræða við Robbie Keane sem Rafa vildi vissulega fá. Mér fannst fáránlegt að sjá LFC samþykkja að kaupa framherja fyrir 20 milljónir sem líklegt væri að yrði töluvert á bekknum með Torres heilan. Barry gat leyst margar stöður en stöðugt leið og leið. Eftir þrjá mánuði var orðið ljóst að Barry kæmi ekki og þá greip Rafa til spænsku njósnaranna, seldi Steve Finnan í snarhasti og keypti Albert Riera.

Í janúar kemur svo enn til kjaftasagna á spjallsíðum og umræðum sem enginn hvort eru á rökum reistar. Fyrst það að Glen Johnson hafi átt að kaupa en þar sem Parry hafi ekki talið ólíklegt að Pompey félli væri hægt að fá hann ódýrar í sumar. Enda værum við vel settir í hægri bak. Svo kom stóra samsæriskenningin sem auðvitað er hræðileg. Sú er að Valencia hafi samþykkt að selja David Villa til LFC fyrir 25 milljónir punda auk bónusa. Þegar það kom upp fór söluferli á Keane í gang, í óþökk Parry. Keane var ekki í liðinu gegn Everton og handviss um að málið væri klárt. Einn spjallarinn sem ég las hafði það eftir ættingja á Anfield að búið hafi verið að búa til LFC treyjur með 7 – Villa á!!! Svo hafi komið bakslag í Valencia og þeir ekki verið tilbúnir að selja Villa á þessum tímapunkti, enda ennþá með möguleika á CL-sæti. En þá vildi Keane fara og regla Rafa er einföld. Þeir sem ekki vilja spila fyrir LFC mega fara. Sem mér finnst rétt.

Í þessu öllu kristallast mín skoðun á því að í hæsta máta óviðunandi ástand sé í kringum rekstur liðsins. Óumdeilt er í knattspyrnuheiminum að Rafael Benitez er einn færasti fótboltaþjálfari í heimi. Hann hefur raðað í kringum sig hæfileikaríkum þjálfurum og er búinn að koma sér upp öfluga njósnarakerfi víðs vegar um heiminn.

En það er auðvitað óviðunandi með öllu að þegar hann telur eitthvað vanta inní liðið þurfi hann að fara að bera það undir hagfræðing og síðan bíða eftir því að hann nái samningum. Fyrst við tvo “útlendinga” sem ekkert vit hafa á fótbolta og síðan vonast til þess að smámunasemi Parry slái leikmennina sjálfa, eða umboðsmenn þeirra, ekki út af laginu.

Ég er alveg sannfærður um að ef að við værum að spila FM 2009 og við yrðum að búa við þetta yrðum við rosalega svekktir og segðum starfinu lausu þegar við myndum missa af þeim leikmönnum sem við vildum fá en aðrir yrðu keyptir!!!

Þess vegna snýst umræðan um brotthvarf Parry, eða Alonso/Barry málið ekki um persónurnar Parry og Benitez, heldur um það að framkvæmdastjóri þarf að fá að stýra liðinu sínu. Ef að Benitez fer munu þeir þjálfarar sem taka við heimta nákvæmlega það sama og Rafa er að biðja um.

Að fá að vera framkvæmdastjóri liðsins, innan þess fjárhagsramma sem liðið lifir í. Ef við ætlum að halda áfram á sömu braut og við erum á núna förum við að missa af lestinni vinir mínir.

Þ.e. þeir sem nenntu að lesa svona langan póst!!!

Heimildirnar mínar eru flestar í hausnum á mér eftir stanslausan lestur undanfarinna ára og margar hverjar byggðar á samtölum mínum á netinu og í persónu úti í Liverpool, auk lesturs spjallsíðna og umræðna á mörgum netsíðum. Sumt örugglega ekki ábyggilegt, en sumt þó! Ég áskil því öllum rétt að líta á þetta sem mínar vangaveltur, en ekki heilagan sannleik, en sannleik þó! (svei mér þá, ég gæti orðið pólitíkus)

Myndirnar koma frá Daily Mail

39 Comments

 1. Góður pistill og skemmtilegur aflestrar. Vona að í sumar fái Rafa völdin sem hann þarf yfir leikmannakaupum félagsins því ég treysti því að fái maðurinn að kaupa fyrsta valkost en ekki 2 til 4 þá megum við eiga vona á góðum hlutum á Anfield í framtíðinni.

 2. Ég hef verið að spá í þessu og tek undir með þér, erum búnir að missa of marga góða leikmenn út af seinagang, t.d. simao, alves.

  Flottur póstur!!! og vonandi betri tímar framundan

 3. Glæsilegur pistill! En já Alves var hjá Sevilla ekki Barca á þessum tíma ! Sammála öllu saman í þessu !

 4. magnaður póstur maggi, frábær.

  stjórnunin á LFC hefur hreinlega verið til skammar undanfarin ár. ég held að frávikin í rekstrinum og stjórnuninni gætu minnkað verulega, ef að boðleiðir yrðu styttar og einfaldaðar, þannig að hlutirnir gætu gengið hraðar fyrir sig. það virðist hafa verið illa staðið af mörgum samningum og málum hjá klúbbnum með parry í broddi fylkingar, sem er sorglegt hjá jafn sögufrægum og góðum klúbb sem liverpool er. það er hægt að gera mun betur.

  spáið í því ef að rafa benítez fengi að njóta sín, ef að allt þetta kjaftæði í parry og könunum væri ekki til, staðan væri klárlega önnur. vona að það komi nýjir tímar fljótlega og að stirðleiki í samninguagerð hverfi á braut með parry.

 5. mjög góð grein. Það tók mig að minsta kosti korter að lesa þetta, svo ég get ekki ímyndað mér hvað það tók langan tíma að skrifa þetta alt!
  en allavega, þá veit ég ekki hvað ég geri ef Rafa fer. Það væri ömurlegt. Hann á bara að fá svigrúm næsta tímabil, og nægan pening. Kaupa David Villa og góðan hægri kant. Gefa honum 50 millur punda að eyða, og svo bara láta hann algjörlega um þetta.

 6. Smashing póstur Maggi, vel gert.

  Það er reyndar mjög erfitt að geta í allar eyðurnar varðandi þessi samskipti og þá sérstaklega hversu stór og slæmur þáttur Rick Parry er. Það sem ég á erfitt með að sjá að geti komið klúbbnum vel, eins og bent er á, er það hvernig það geti hugsanlega komið sér vel að tveir gamlir jálkar sem vita ekkert um fótbolta og búa á sitthvorum staðnum í USA þurfi að koma sér saman um ákvarðanirnar. Þeir eru ekki einu sinni nálægt því að vera í sama tímabelti og Benitez/Parry.

  Synir Hicks og Gillett áttu að liðka eitthvað til hvað þetta mál varðar en það gerir nú varla margt annað en flækja hlutina ennþá meira. Fóru þeir ekki frá Liverpool borg með skottið milli lappana?

  Ég væri samt til í að heyra betri sannanir og rök…eða bara hans hlið, áður en ég fer að úthúða Parry algjörlega og kenna honum um allt sem hefur misfarist á leikmannamarkaðnum.

 7. Flottur pistill,,,,hellingur af samsæriskenningum en engu að síður þá er margt til í þessu. Það hefur ekki farið framhjá neinum að bakvið tjöldin hjá Liverpool er allt í rugli. Með Parry í þessu milliliða hlutverki hafa leikmannamálin verið í algjöru rugli. Það að losna við hann er aðeins eitt skref í rétta átt. Kanarnir verða að fara gera það upp við sig hvort þeir vilji eiga klúbbinn áfram og hvað þeir vilja gera með hann.
  Vissulega má gagnrýna Benitez fyrir ýmislegt en í því starfsumhverfi sem hann þarf að vinna þá á hann hrós skilið og hefur náð því mesta að ég tel sem hægt er útúr liðinu. Ég er ekki í vafa ef hann hefði fengið frjálsar hendur án Parry og með eigendur sem hefðu skilning á fótbolta væri liðið sterkara en það er í dag.
  Vissulega hafa komið stundir sem maður hefur íhugað hvort að Benitez ætti ekki að víkja en þegar maður horfir á jólasveinanna í kringum hann þá held ég að það skipti engu hvaða topp stjóri væri við völd þar sem vitleysingarnir myndu ávallt gera honum lífið leitt. Það verður mjög áhugavert að fylgjast með hvað gerist hjá Liverpool í sumar en einhvernveginn hef ég það á tilfinningunni að það eigi ansi margt eftir að gerast þá.

 8. Verðum við ekki að vona að Dick kaupi klúbbinn á uppboði í sumar,þegar Royal Bank of Scotland (sem er í eigu ríkisins) gjaldfellir lánið stóra .
  Ég á ekki von á að félagið verði sett í gjaldþrot vegna þess að Liverpool er jú big brand,svo að við sleppum sennilega við að horfa upp á annað Leeds dæmi.
  Það virðist alla vega vera ljóst að kanarnir eru ekki nægilega fjársterkir til að halda klúbbnum á sama level og ManUTD ,Chelsea og Man City.
  Mér finnst nú pistlahöfundurinn gera full mikið úr hlut Parrys í kaupum á leikmönnum,því mér sýnist Parry bara hafa reynt að passa upp á að ekki værir verið að eyða peningum sem ekki voru til og til þess var hann jú í vinnu hjá LFC. Nú vitum við allir að það eru nánast engvir peningar til sem sét best á því að ekki er hægt að klára samninga við leikmenn eins og Agger ,já og Rafa sjálfann.

 9. Frábær pistill að vanda Maggi, gott hjá þér að fríska upp Parry vitleysuna. Ég var svo sem búin að lesa/heyra megnið af þessu, en frábær samantekt. Endilega skrifa meira.

 10. jamm, flott grein og útskýrir t.a.m ýmislegt klúður sem maður hefur kannski í of miklum mæli kennt rafa um.

 11. Góðar pælingar í gangi hérna, en verð að vera sammála babu að ég myndi vilja heyra frá einhverjum í innsta hring um hvernig málum er háttað.
  Eins finnst mér pælingin um villa fyrir keane svolítið óstöðug. Mér finnst skrítið að valenciamenn hafi verið búnir að samþykkja sölu og síðan fattað að þeir ættu möguleika á cl sæti og þá hætt við söluna. Hér er orðið samþykkja áræðanlega ofaukið, kannski voru einhverjar viðræður í gangi sem voru jákvæðar til að byrja með en síðan slitnað upp úr.

  En það verður spennandi að sjá hvaða áhrif brotthvarfs Parry hefur á þróun mála hjá liðinu okkar.

 12. Ég vil alls ekkert heyra neitt frá neinum innsta hring Liverpool um þessi mál. 🙁 Þeir eiga að vinna vinnuna sína sem er að stjórna klúbbnum af festu og finna nýtt fjármagn inní klúbbinn. Þeir hafa andskotann ekkert með að vera tjá sig um hitt og þetta í fjölmiðlum.

  Þetta eru einu fréttirnar sem ég vil heyra frá forráðamönnum liðsins.
  http://www.metro.co.uk/sport/football/article.html?Liverpool_announce_sponsorship_deal_-_and_promise_theres_more_to_come&in_article_id=567765&in_page_id=43

  Ég hef engan áhuga á fortíðinni og innbyrðis deilum Parry og co. Hver sagði hvað, hvar og hvenær. Ég vil horfa áfram veginn og sækja til sigurs.
  Áfram Liverpool.

 13. Frábær pistill og skemmtilegur aflestrar, eitt það besta sem ég hef lesið hérna inná.

  Það eru örugglega 2 hliðar á þessu máli einsog öllum öðrum, sbr. hvaða hlið þú tekur vs komment 8. En það er þó væntanlega einhver millivegur og nokkuð ljóst að það er hægt að vinna hlutina á mun betri hátt en við höfum orðið vitni að síðustu árin.

  Svo er aftur annað mál að Liverpoolmenn gera eðlilega miklar væntingar til síns liðs og heimta ekkert minna en að standa jafnfætis Man Utd og Chelsea, þó svo að við séum búnir að vera langt frá þeim fjármálalega séð síðustu árin. Þessvegna er ekkert óeðlilegt að sá sem sér um peningamálin verði ekki vinsælasti maðurinn hjá stuðningsmönnum Liverpool í þannig umhverfi. Ef Rick Parry hefði verið í sama starfi hjá MU eða CFC síðustu árin hefði hann örugglega verið dæmdur öðruvísi fyrir störf sín, ef þið skiljið hvað ég er að fara. Þannig að rót vandans er e.t.v. ekki Parry sjálfur (þó hann sé hluti af vandanum), heldur sambland af háum væntingum LFC og litlu fjármagni til að standa undir þeim væntingum.

  En við verðum að vakna fyrr frekar en seinna því bæði Arsenal og Man Utd eru með mun stærri velli en við og því með ákveðið forskot (mæli með úttekt Deloitte sem sýnir að c. 30-40% af tekjum kemur frá sölu miða) og ef CFC getur haldið áfram að eyða peningunum hans Roman þá stöndum við ekkert sérlega vel í samanburði með 45,000 manna völl og blanka eigendur.

 14. (frh af 15, bara svo ég eigi 3 komment í röð)
  Arsenal þénaði £94.6m á miðasölu 2007/8 (á að vera sama hjá MU að ofan)
  Liverpool £39.2m á miðasölu 2007/8

  Þarna eru 60m punda munur, það munar alveg um minna.

  (afsakið hvað ég klúðraði framsetningunni!)

 15. Ég er þreyttur á þessu væli um að “buhu, við getum ekki keppt við ManU og Chelsea því þeir eiga miklu meiri peninga en við!”. Ég sé bara ekki hvernig það að bankainnistæður ManU og Chelsea komi því nokkuð við hvort að við getum eða getum ekki unnið Hull, Stoke et al. á heimavelli eða Middlesbrough úti (sama Middlesbrough sem Totteham, TOTTENHAM!!!, valtaði yfir í gær). Þessar afsakanir eru eins sorglegar og þær eru mikil hræsni.

 16. Nr. 17…Ég er þreyttur á þessu væli um að “buhu, við getum ekki keppt við ManU og Chelsea því þeir eiga miklu meiri peninga en við!”

  Ósköp einfalt, með meiri pening er hægt að kaupa dýrari og betri leikmenn sem ná síðan -væntanlega- betri árangri fyrir liðið.
  Mjög vel gerður pistill hjá Magga, bendi fólki líka á að lesa pistil Tomkins sem er bent á í commenti fyrir ofan

 17. Skulum ekki gleyma einni af gullsetningum meistara Bill Shankly:

  “Hin heilaga þrenning fótboltaliðsins er leikmennirnir, þjálfararnir og áhangendur. Eigendur og stjórnarmenn eru til þess eins að skrifa undir ávísanirnar”

  Mikið vildi ég að sá raunveruleiki kæmi aftur á Anfield Road…

 18. bara 1 dæmi þegar Liverpool van Meistarad 2005
  hei vá ekki neinar Liverpool vörur á markaði
  ruggl Parry skeit feitt
  hefði verið hægt að selja slatta
  markaðsmálin í bulli

 19. Þið eruð allir að eflast á nýjan leik í pistlagerðinni. Segi það enn og aftur að mér finnst mun skemmtilegra að lesa pistla sem þennan og mótiveringapistilinn um daginn heldur en leikskýrslur.
  En að efninu.
  Þú veist eflaust meira en margir hvað gengur á bak við tjöldin en maður veltir samt fyrir sér hvernig svona fótboltaklúbbur á að geta gengið þegar aðrir menn en fótboltastjórinn sér um innkaup leikmanna og þar af leiðandi uppbyggingu hópsins. Það er frægt þegar Benítez sagði við brottförina frá Valencia að þegar hann bað um sófa þá fékk hann lampa. Hann var sumsé að fara úr því umhverfi og í umhverfi þar sem hann átti að stjórna leikmannakaupum. Eitthvað virðist hann þá hafa verið plataður í djobbið.
  Og ef þetta er allt Parry að kenna, og það að hann hafi gúdderað öll fáránlegu kaupin sem gerðust á tíma Houllier og að liðið hafi verið komið í rúst árið 2004, af hverju fékk hann að halda áfram? Var þetta ekki honum að kenna þá? Eða hafði Houllier meiri völd en Benítez? Og af hverju hefur Benítez gúdderað þetta síðustu 5 árin?
  Og að lokum, ég hef miklar áhyggjur af því að Gillett og Hicks eigi ekki eftir að greiða risaupphæðina á þessum stóra gjalddaga, sem ég hélt reyndar að væri í mars en ekki í sumar. Ef það gerist ekki mun klúbburinn lenda í eigu RBS sem er í 40% eigu breska ríkisins (ef ég man rétt). Það er með öllu útilokað að breska ríkisstjórnin ætli sér að setja tugmilljónir punda í einn fótboltaklúbb á ári og því er nauðsynlegt að finna kaupendur, helst í gær.
  Og Kjartan nr. 17: Ef við ættum David Villa í senternum myndum við klára Hull, Middlesboro og þessi lið, tala nú ekki um ef Alves, Silva og Simao væru líka í liðinu við hliðina á Evra og Vidic!!
  Tek síðan undir með Sölva og Magga (Shankly), eigendurnir eiga ekkert að koma nálægt einu né neinu öðru en að láta pening í félagið og skrifa undir tékkana.

 20. Frábær linkur Varmenni!
  Endilega allir að lesa hann, mikið rosalega er ég sammála því sem hann talar um Mótormunninn Mourinho og svo þá tilhneigingu nútímans að það sem ekki gerist strax, og helst áreynslulaust, er vonlaust.
  Við urðum síðast meistarar fyrir 18 árum og liðið er enn í bulli á stjórnstiginu, en á sama tíma erum við brjáluð yfir því að vera ekki langefst, með skemmtilegasta lið í heimi!!!
  Frábærir póstar hjá Shanklyboy í athugasemd #22!!!

 21. Glæsilegur pistill Maggi
  Þetta er ábyggilega mest allt saman sannleikur, í það minnsta að einhverju leiti. Við höfum öll lesið vefmiðla og fylgst vel með því sem er að gerast á bakvið tjöldin sem erum Liverpool aðdáendur og þar hefur ýmislegt komið í ljós. Maður þarf ekki annað en að horfa á einn blaðamannafund með Rafa til að sjá gremjuna í andlitinu á honum. En þetta er klárlega rétt spor í þá átt að hlutirnir fari að lagast og að Rafa fái þau völd sem að hann á svo sannarlega skilið því sama hvað menn segja þá er hann frábær þjálfari og veit nákvæmlega hvað hann er að gera. Mætti taka aðeins meiri áhættur kannski í öllum þessum jafnteflisleikjum en hvað með það hehe. Það er von manns að þessir hlutir komist á hreint sem allra fyrst. Við sjáum nú bara hvernig eigendamálin hjá Manchester eru. Það heyrist ekki múkk í eigendum eða neinum vandræðum þar á bæ og klárlega einn maður sem þar ræður, Alex Ferguson. Hann væri löngu farinn ef hann fengi ekki að ráða því sem hann vill ráða og árángurinn kemur berlega í ljós þar þegar maður með vit og nef fyrir knattspyrnu er við stjórnvölin. En það eru bjartir tímar framundan þótt að englandsmeistaratitill sé kannski runninn okkur úr greipum þetta árið. Næsta tímabil verður einfaldlega að vera okkar tímabil þar sem að Manchester er á góðri leið með að jafna titla safnið okkar og verða þar með um leið sigursælasta lið Englands þar sem þeir hafa flesta bikarmeistaratitla í sínum fórum. Góður pistill YNWA

 22. Heyr Heyr frábær grein Maggi og eflaust mörg sannleikskorn í þessum skrifum þínum. Ég hef lengi haft lítið álit á Parry sem framkvæmdastjóra og ekki fundist hann vera rétti maðurinn til að stjórna stóru liði í nútímafótbolta. Maður þarf ekki annað en að horfa á markaðsmálin til að sjá hve heftur klúbburinn er. Enda var það eitt af því fyrsta sem Hicks kommentaði á að betur mætti gera.

  Svo man maður sérstaklega eftir Simoa og Alves klúðrinu þar sem Parry spilaði stórt hlutverk. Þú kemur inn á mál Pennants Maggi, ég man að LFC var búið að reyna við áðurnefnda Simoa, Alves ak meistara Figo áður en þeir enduðu með Pennant. Þau kaup eru svolítið lýsandi fyrir leikmannakaup LFC í tíð Moores og Parry, þ.e. liðið endaði oftast á því að kaupa 4 eða 5 kost þjálfarans.

  Svo var Parry næstum því búinn að klúðra málum Gerrards vegna seinagangs og sama virðist vera upp á teningnum með Agger í dag.

  Að lokum smá Ragnar Reykás á þetta. Ég las á erlendu spjalli hjá einhverjum innanbúðarmanni að vandamálið Parry væri fyrst og fremst það að hann væri með of mörg mál á sínum herðum. Af þeim sökum gæti hann ekki skilað eins góðu starfi fyrir LFC og í raun þyrfti (sel þetta samt ekki dýrara en ég keypti það).

  Kv
  Krizzi

 23. 18

  “ósköp einfalt, með meiri pening er hægt að kaupa dýrari og betri leikmenn sem ná síðan -væntanlega- betri árangri fyrir liðið”

  Það afsakar samt ekki neitt þegar menn eru að tapa stigum ár eftir ár gegn liðum eins og Hull, Stoke etc sem hafa eytt 456 sinnum minna en við. Vælið um relatíva fátækt dugar e.t.v. sem afsökun fyrir að geta ekki unnið United, Chelsea en dugar skammt til að útskýra burt töpuð stig gegn liðum sem kosta svipað mikið og einn Torres hjá okkur.

 24. Kjartan, svo ég blandi mér nú í þetta.

  Þegar ég hef horft á leiki með Liverpool í vetur, sérstaklega án Gerrard og Torres tek ég eftir því að gæði leikmanna eru kannski ekki alveg á því kaliberi sem við höldum. Þar munar jú um að Man U getur valið um nokkra 20+ milljónaframherja en Liverpool er bara með einn framherja sem er í þeirra klassa.

  Af hverju framherjar? Jú þeir skora mörkin. Í þessum leikjum sem þú taldir upp áðan var enginn Torres eða unfit Torres og þá vantar mikið uppá.

  Í nútímafótbolta geta flest lið varist lengstum í leiknum og haldið hreinu ef þau þurfa ekki að eiga við sóknarleg ofurmenni í 90 mínútur, hvað þá 3-4 slík stykki! ÞETTA ER MJÖG MIKILVÆGT ATRIÐI!

  Liverpool fær á sig fá skot og fá mörk, en eru oft að dominera leiki í possession og skotum en ná ekki að pota tuðrunni inn. Hverjir eru að klára leiki þessa leiki fyrir United? Í langflestum tilvikum Rooney, Tevez, Ronaldo, Berbatov, Giggs og Scholes. En ef þá vantaði alla þá væri liðið ekki líklegt til árangurs fyrir utan einstaka mark frá Fletcher og Vidic.

  Hvaða leikmenn eiga Liverpool af slíku sóknarkaliberi? Torres og Gerrard. Búið. Og annar spilar á miðjunni sem þýðir að í sóknarstöðum þar sem United er með 3-4 heimsklassaleikmenn uppi við teiginn er Liverpool oftast með 1 og í mesta lagi 2. Aðrir eru því miður ekki gerðir úr sama efni og þessir súpermenn hjá hinu liðinu.

  Þegar skoðað er hvað þessir leikmenn hafa kostað, þessir sem klára leiki, þá verður það ljóst að í flestum tilvikum er það engin tilviljun að það þurfi að borga 20+ fyrir þá þjónustu sem þeir veita. Þeir bjóða upp á hið óvænta, hið sérstaka, það sem skiptir mestu máli, mörk.

  Og án þeirra er ekki gífurlega mikið sem ber á milli í toppfótbolta ef lið eru rétt stemmd og vel skipulögð. Og þarna fara auka 40-60 millur að skipta miklu máli.

 25. Þetta er akkúrat málið Daði, okkur vantar meiri gæði framávið. Erum með svipaða vörn og svipaða ef ekki betri miðju en utd en Þessir sóknarmenn sem utd hefur eru nátturlega klassanum fyrir ofan alla okkar sóknarmenn (fyrir utan nátturlega Torres)

 26. Ekki búinn að lesa öll kommentin hérna, en mikið djöfull sé ég fyrir mér umræðurnar hérna í janúar 2010, tímabilið sem liðið átti helst að vera að vinna titil. Nei, nú verður það “fyrsta tímabilið þar sem Rafa ræður leikmannakaupum” og titill áætlaður árið 2012. Svo árið 2012 verður fundin einhver ný ástæða.

 27. Nr. 26 Kjartan
  Það var þessvegna sem ég setti Væntanlega inní 2 bandstrik. Það að vera með dýrasta hópinn þýðir einungis að þú ert með besta liðið á Pappírum en ekki endilega á stigatöflunni, sbr. Real Madrid. en það er morgunljóst að þegar þú skoðar leikmenn á 20 mills + þá ertu að skoða betir leikmenn en 8-15 mills. Liðinu vantar fleiri heimsklassa menn í liðið, færri miðlungs menn.
  Annars skil ég alveg þitt sjónarmið “no hard feelings”

 28. -Parry=legend

  Maradona í dópinu
  Gasgoigne í áfenginu
  Ronaldinho í djamminu
  Ronaldo í bakaríinu

 29. Fínn pistill hjá þér, Maggi þótt þetta sé mest allt byggt á þinni eigin kenningu og því sem þú heyrðir frá manni sem heyrði frá öðrum (grapewine-ið / word of mouth) sem ekki er alltaf áreiðanlegustu “fréttastofurnar”. 🙂 En það breytir ekki þeirri staðreynd að síðan nýju eigendurnir tóku við hafa kaup/sölur/samningaviðræður allar verið á “rússnesku” nótunum; þeas, farið beaurocracísku leiðinu sem venjulega tekur miklu lengri tíma. Eins og einhver orðaði það í ummælum sínum hér að þá er Parry bara að vinna sína vinnu og passa upp á að skynsamlega sé farið með peninginn.

  Það er hægt að pikka svo margt þarna út úr og spyrja hvað hefði gerst ef Vidic/Evra hefðu komið í staðinn fyrir Aurelio/Agger. Ef Martin O´Neill hefði komið en ekki Benitez. Ef Arabarnir hefðu keypt liðið en ekki Kanarnir. Ef Benitez hefð keypt í þær stöður sem vantaði en ekki látið leikmenn spila út úr sinni stöðu…..etc. Það sem mestu skiptir er að það þarf að fá botn í þessi leiðindi sem þarna eru, en ég er ekki í vafa um að allir eru með stefnuna í sömu átt; á toppinn.

  En til gamans vildi ég skjóta inn upplýsingum sem ég var að skoða inn á http://www.forbes.com í morgun varðandi “soccer team valuation” eins og þeir kalla þetta þar. Þar er hægt að sjá helstu upplýsingar um stöðu liða og hvernig baklandið er. Athyglisvert finnst mér að við erum það lið sem er með stærstu breytingu á milli ára (131%) en ég hef trú á því að búið sé að telja inn í þær framkvæmdir varðandi nýja leikvanginn sem síðan fór í rugl á endanum. Þannig að ég tel að matið á Liverpool ($1 milljarður) sé óraunhæft en sýnir þó samt svo ekki sé um að villast að innkoma okkar er mun lægri en hjá t.d. Arsenal og M** U**. Gaman að pæla í þessu samt.

  (hér er slóðin)
  http://www.forbes.com/lists/2008/34/biz_soccer08_Soccer-Team-Valuations_Rank.html

  Svo var önnur lesning sem sýnir bersýnilega hversu við þurfum á nýjum leikvangi að halda. Mjög góð lesning þótt um Arsenal sé að ræða og hvernig þeir fjármögnuðu sinn leikvang. Allavega gefur okkur smá innsýn inn í hvernig þeir fara að þessu. T.d. seldu Arsenal nafnið á leikvanginum til Emirates á 160 milljónir dollara til 15 ára sem er ágætis innborgun inn á 860 milljón dollara leikvanginn þeirra, og að “matchday revenue” hjá Arsenal hækkaði úr 82 milljónum dollara í 155 milljón dollara eftir að þeir fluttu sig á Emirate Stadium sem er ekkert smáræði!. Skora á ykkur að grugga í báðar slóðir.

  (hér er slóðin):
  http://www.forbes.com/forbes/2008/0519/107.html

 30. Svo eitt enn. Ég botna ekki alveg þennan verðmiða sem Knoll & Tott hafa sett á Liverpool (500 milljónir punda). Þeir kaupa liðið á mun lægri upphæð sem ég man ekki alveg hvað var eins og er (minnir um 300m) og hafa akkúrat ekkert gert sem verðskuldar þennan verðmiða. Er ég að missa af einhverju svaðalegu sem þeir hafa gert til að verðskulda þessa hækkun?!?! Maggi, Einar Örn, Kristján Atli…einhver….enlighten me please! Ég stend á gati! 🙂

 31. Já skemmtilegur pistill og ákveðið púsluspil raðað saman. Parry er að fara sem segir nokkuð. Ný maður kemur væntanlega sem mun sjá um væntanlega sjá um að reka klúbbinn sem fyrirtæki og vonandi gera bragarbót í markaðasmálum.
  Eina sem má ekki ske þó er að Benitez verði einráður, það þarf að útbúa þetta þannig að það sé líka sense í því sem hann gerir, sem er oftast … eða að öllu nema þá að skipta inn á mönnum …. þegar það VIRKILEGA þarf !

 32. Flottir tenglar eikifr!

  Það eina sem mér dettur í hug að Kanarnir noti sem ástæðu þess að liðið kosti meiri pening en þegar þeir keyptu er að þeir hafa keypt stór nöfn til liðsins og ráðið mjög öflugt þjálfarateymi.

  Er þetta ekki bara þegar maður kaupir hús og gerir það upp? Maður byggir ekki pallinn eða bílskúrinn en lagar gólfefnin og skiptir um baðinnréttingu og heimtar hærra verð í staðinn. Svo þarf að sjá hvað gerist í þeim málum.

  Það er auðvitað hrein della að biðja um 70% hærra verð fyrir félagið tveimur árum seinna, enda enginn viljað kaupa…

 33. Það er nógu geggjað að hækka verðið á okkar ástsæla knattspyrnufélagi um 67% á 2 árum. Hvað þá að gera það í miðri einni almestu efnahagskreppu sem gengið hefur yfir Vesturlönd.

  Væntanlega hugsa Kanarnir þetta þannig að þeir hafi sett nokkra tugi milljarða í liðið í formi leikmannakaupa og betrumbóta á æfingasvæði, unglingastarfi og öðru. Þeir vilji þannig koma út í smá plús sé miðað við gengisbreytingar, vaxtatap og annað.

  Veit það ekki, held þær ættu bara að sætta sig við smá tap á þessari fjárfestingu. Take the money and run, heim til USA með skottið á milli lappanna og einbeita sér að íþróttum sem þeir skilja blessaðir.

Liverpool 2 – Sunderland 0

Frí er bara ekki sama og frí