Real Madrid 0 – Liverpool 1

Okkar menn fóru í kvöld til Spánar og heimsóttu stórlið Real Madrid í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Það er skemmst frá því að segja að okkar menn unnu feykisterkan 0-1 útisigur á sjóðheitu Real-liði, en það er langt því frá í fyrsta skipti sem okkar menn vinna slíkt afrek undir stjórn Rafa Benítez í Evrópu. 🙂

Benítez stillti upp eftirfarandi liði í kvöld:

Reina

Arbeloa – Carragher – Skrtel – Aurelio

Mascherano – Alonso
Benayoun – Kuyt – Riera
Torres

Bekkur: Cavalieri, Hyypiä, Dossena, Lucas (inn f. Kuyt á 90. mín.), Gerrard (inn f. Riera á 86. mín.), Ngog, Babel (inn f. Torres á 61. mín.).

Sko, það er hægt að ræða það fram og til baka hvort þessi leikur hafi unnist af því að okkar menn voru svo góðir í að stöðva Real eða af því að Real voru svona slappir sjálfir en staðreyndin er sú að fyrir utan fyrstu tíu mínútur leiksins eða svo ógnuðu heimamenn marki okkar manna aldrei af neinni alvöru. Raúl fékk stungusendingu í svæði eftir um fimm mínútur en skaut beint á Reina og þar með lauk hans þátttöku í þessum leik, og í raun allra Real-manna utan Arjen Robben sem tók eitt af sínum týpísku sólóstuðum í seinni hálfleik, án árangurs.

Eftir nokkrar stressaðar upphafsmínútur náðu okkar menn fótfestu í leiknum, lokuðu einfaldlega á hlaupasvæði Real-manna og tóku einfaldlega stjórnina. Ég hafði á orði við sessunauta mína undir lok leiksins, áður en sigurmarkið kom, að Real-liðið hafði aldrei náð að gera mig eitthvað stressaðan yfir þessum leik. Þeir pressuðu okkar menn aldrei, náðu aldrei stórsókn eða neinum dauðafærum og fyrir utan eitt langskot frá Robben í seinni hálfleik og eitt rangstöðumark í fyrri hálfleik var ég einfaldlega rólegur yfir þessum leik, þar sem það var ljóst að okkar menn voru með alla stjórn á aðstæðum.

Hvað okkar menn varðar var þetta klassískur útisigur í Evrópu undir stjórn Rafa. Torres komst í gegn eftir varnarmistök í fyrri hálfleik en Casillas varði meistaralega frá honum, og svo fengum við nokkur hálffæri sitt hvorum megin við hléð en spurningin var alltaf bara hvort Liverpool næði sigurmarkinu, ekki hvort Real næði því. Næst því komust okkar menn sennilega undir blálok fyrri hálfleiksins þegar Xabi Alonso var næstum því búinn að grípa Casillas í landhelgi með 55 metra þrumuskoti sem Casillas þurfti að hafa sig allan við að blaka yfir slána. Slakur dómari leiksins, hinn ítalski Rosetti, leyfði okkar mönnum ekki að taka hornspyrnuna eftir 45 mínútna og 11 sekúndna leik, þrátt fyrir að það væri í tvígang búið að stöðva leik í fyrri hálfleik vegna meiðsla leikmanna. Segir allt um hans frammistöðu sem dómara.

Það gerðist svo þegar sex mínútur voru til leiksloka að boltinn hékk í loftinu úti við hægra horn vítateigs Real og þar voru þeir Dirk Kuyt og Gabriel Heinze að berjast um hann. Heinze tók þá óskiljanlega heimskulegu ákvörðun að toga í Kuyt og gaf Liverpool því aukaspyrnu á stórhættulegum stað. Okkar besti maður í kvöld, Fabio Aurelio, tók spyrnuna og smellti henni beint á kollinn á Yossi Benayoun sem var óvaldaður á vítapunktinum og hamraði boltann með höfðinu inn, óverjandi fyrir Casillas. 0-1 fyrir Liverpool og sterk staða fyrir seinni leikinn á Anfield eftir hálfan mánuð!

MAÐUR LEIKSINS: Reina steig ekki feilspor í kvöld (en rann þó tvisvar á grasinu) á meðan vörnin öll stóð sína vakt vel. Fyrir framan öftustu línuna voru Mascherano og Alonso með stjórn á öllu og sérstaklega fannst mér Alonso góður. Torres og Kuyt voru fínir í fyrri hálfleik en hurfu í þeim seinni með meiðslum Torres, en Kuyt kom þó aftur inn í þetta þegar leið á. Babel kom inn fyrir Torres og var ekkert sérstakur. Þá voru Lucas og Gerrard of stutt inná til að hægt sé að meta þá. Slakasti maður okkar í kvöld var Albert Riera sem komst aldrei í takt við leikinn og það segir sitt að maður hafi verið hálf feginn þegar hann fékk gult spjald undir lok leiksins (algjör bulldómur, by the way) því þá missir hann af seinni leiknum.

Ég verð að nefna Yossi Benayoun sérstaklega. Hann byrjaði leikinn frekar illa en vann sig inn í hann og var mjög góður í seinni hluta seinni hálfleiks, og skoraði að sjálfsögðu markið sem öllu skiptir. Yossi er einfaldlega búinn að stíga upp og vera sennilega besti maður okkar frá áramótum og það var því viðeigandi að hann skoraði sigurmarkið í kvöld.

Okkar besti maður var þó klárlega Fabio Aurelio. Brasilíski bakvörðurinn fékk það hlutverk í kvöld að vera mjög varnarsinnaður og stöðva heitasta mann Real, stórleikarann Arjen Robben, og félaga hans á vængnum, Sergio Ramos (sem var mjög dapur í kvöld – vilja menn hann ennþá frekar en Arbeloa í Liverpool-liðið?) og það er skemmst frá því að segja að Aurelio einfaldlega pakkaði hollenska flugmanninum saman. Undir lok leiksins kórónaði hann svo frammistöðu sína með frábærri fyrirgjöf sem Benayoun eiginlega gat ekki annað en stangað á markið. Frábær leikur hjá Aurelio.

Næsti leikur er um helgina gegn Middlesbrough og svo klára okkar menn einvígið við Real á Anfield eftir tvær vikur. Miðað við það sem maður sá til Real í kvöld ætti seinni leikurinn bara að vera formsatriði, en lífið er þó yfirleitt ekki svo einfalt. Við höfum allavega sterka stöðu eftir sigurinn í kvöld.

75 Comments

 1. Þvílíkur sigur! Og Rafa náði meira að segja að gera grín að Real með því að setja Lucas inn og vinna samt! Snillingur…

 2. úff.. er hægt að biðja um betri dag… sit hérna sveittur fyrir framan tölvuna, fárveikur, það veikur að ég bauð ekki neinum upp á að þurfa að hafa mig hjá sér að horfa á leikinn… hef verið að glugga á sky live score.. og vá hvað ég var ánægður að sjá að það var skorað 🙂 frábær endir á ömulegum degi 🙂

 3. Hvað sagði ég, jálkarnir ykkar? Fyrir einhverjum dögum spáði ég því (vissi upp á hundrað hár að Real Madrid myndi ekki vera á skotskónum í dag eftir 6 marka leik) hér á þessari síðu að við myndum vinna, reyndar spáði ég 0:2 eða 1:2. Skítt með það! Ég vissi ekki að Torres myndi klikka á dauðafæri. Benni Jún bætti það upp. JESS! Nú er gaman að lifa.
  Verð að hætta þessu kjaftæði. Bjórinn bíður eftir mér inni í stofu!

 4. Sælir félagar
  Frábær sigur. Og af því að maður hefur oft bölvað Rafael Benitez þá það bæði ljúft og skylt að þakka honum fyrst og fremst fyrir þennan sigur. Frábært skipulag og lestur á andstæðingnum ásamt með háréttri uppstillingu liðsins skóp þennan sigur fyrst og fremst. Og motivering leikmanna fullkomin. Glæsilegt!!!! 🙂 🙂 🙂
  Það er nú þannig

  YNWA

 5. Vá hvað við vorum góðir. Mascherano er gerður fyrir svona leiki… Og tilraunin hjá Alonso, að detta þetta í hug gegn Iker Casillas! Benayoun með sigurmark með skalla?! Geggjaður leikur!!

  Plís enga Evrópu-þynnku gegn Boro á laugardaginn… Fingers crossed.

 6. Bjórinn er góður þegar hann er kaldur. En ég verð að kommenta á SOCCERNET bullið. Þar er starfsmaður sem þolir ekki Liverpool. Hann hlýtur að búa í hinni leiðinlegu Manchester borg, og það nálægt OT. Bullið og bolaskíturinn sem drýpur af manninum er einstakt. Hann þolir það ekki að Liverpool -SEM SANNARLEGA ER ENSKT LIÐ- gangi vel. En hann slefar af aðdáun ef Man Utd vinnur útspark.
  Jæja, meiri bjór.

 7. Frábær leikur. Við vorum betri nær allan tímann, fyrir utan kannski korter í fyrri hálfleik.

  Yossi Benayoun er búinn að vera magnaður eftir áramót. Frábært mark og frábær sending frá Aurelio. Mikið rosalega var þetta gaman. Ég missti mig heldur betur í öskrinu inná bar, sem var aðallega fullur af Real Madrid stuðningsmönnum hérna í Stokkhólmi.

  Benitez 1 – Real Madrid 0

 8. Djöf#### flott, ég ætti kanski að spá okkar mönnum oftar ósigri. :-);-)

 9. Til hamingju púllarar nær og fjær. Nú er bara að bíða spenntur eftir 10 mars!

 10. Reyna: öruggur
  Vörnin: frábær. Aurelio algerlega pakkaði Robben saman.
  Xabi og Masch: Áttu þessa miðju með manni og mús
  Riera: Skilaði sínu.
  Benni: Frábær. Maður leiksins.
  Torres: Erfitt að dæma hann vegna meiðslana. Guð lofi að hann sé ekki meiddur.
  Babel: alls ekki nógu gott. Heldur ekki boltanum, ógnar ekkert. Það eina neikvæða sem hægt er að segja í kvöld.

  Plísplísplís. Látið Benitez hafa það sem hann vill!!!!

 11. Þetta var ekki leiðinlegt og RB setti upp snilldarleik okkar manna í kvöld. Vonandi komum við til með að fylgja þessu eftir um helgina vegna þess að það er alls ekki svo langt í aulana í 1 sæti. Áfram Liverpool og meira svona.

 12. Flottur leikur og Aurelio og Benayun voru helvíti magnaðir í þessum leik. Hvíldum Torres og Gerrard, notuðum Lucas og unnum samt á Bernabeu. Gaman að sjá hvað forseti Real blaðrar um í fjölmiðlum á morgun.

  Afhverju er samt ekki hægt að plana svona leiki í úrvalsdeildinni? Hugsa þetta þannig að ef Rafa væri í Football Manager spilar hann ensku deildina á Fast meðan CL er í Slow svo hann geti fylgst betur með og gert breytingar.

 13. Takk fyrir ábendinga, Einar. En ein spurning: af hverju er Rafa eignaður sigurinn í kvöld? Er það honum að þakka þegar vel gengur og liðinu þegar illa gengur? Mér finnst það ekki sanngjarnt. Þjálfari er foringi hvernig sem fer. Anað hvort er honum eignaður heiðurinn af sigri en horrorinn af tapi. Framan af ferlinum var ég hliðholur Rafa. Fannst hann mannlegur, svona miðað við aðra þjálfara sem flestir eru vélmenni (Mourinhio einhver? Ferguson á leikdegi), og þar að auki viðkunnanlegur sem persóna. Einhvern veginn öðruvísi persóna á þessu háa levelli. En síðan hefur mér fundist halla undan fæti, en einhver padda með góð eyru segir mér að ástæðan sé ekki Rafa sjálfur heldur eigendurnir og valdabaráttan þar. Það truflar mig mikið sem Púllara síðan 1970, þegar ég var átta ára. Vona að þessi valdabarátta sé ekki alvarleg en hún er að sönnu til staðar. Því miður. Ég hugsa að án hennar værum við búnir að vinna fleiri titla.Ég ætla að gefa Rafa fleiri sénsa. Hann kann eitthvað kallinn. Fleira en spænsku.

 14. Lífið er yndislegt ég geri það sem ég vil
  með Liverpool mér við hlið.

  Þetta er það sem Liverpool er og stendur fyrir, er ekki gaman að vera til…

 15. Já Lolli mikið verður gaman að sjá hvað þeir segja á morgun, bíttu ætluðu þeir ekki að vinna okkur 3 – 0… Vonandi verður þetta leikurinn sem Liverpool fer á flug og sjáfstraustið hrinur yfir strákan okkar…

 16. Maður lifir fyrir þessi kvöld, að horfa á okkar menn í Meistaradeildinni. Þvílík snilld! Hafði góða tilfinningu fyrir leiknum og drengirnir klikkuðu ekki. Flott hjá Yossi. Hann, Alonso og Mascherano voru að mínu mati menn leiksins, þó allir hefðu lagt sitt af mörkum.
  Nú er bara að taka þetta heima eftir 13 daga, er hvergi nærri búið, þó staðan sé góð.

 17. Þetta var magnað og lætin á Allanum þegar markið kom loksins voru mögnuð. Real áttu svona fyrstu tuttugu mínúturnar eða svo en urðu bara að lúta í gras fyrir mögnuðu Liverpool liði. Svona mættu þeir spila alla leiki:)

 18. Frábær leikur!!!
  Það er í lagi að hafa sjálfstraust en ekki sýna andstæðingnum vanvirðingu!! Þetta ætti að kenna leikmönnum og aðstandendum Real Madrid að spara yfirlýsingarnar fyrir næstu viðureign og sýna Liverpool FC smá virðingu.

  Annars er bara hálfleikur, best að spara yfirlýsingar og halda sér á jörðinni. Ef það er eitthvað lið sem getur skorað á útivöllum þá er það Real, samt sem áður góð úrslit. Markið frá Benayoun gulls í gildi.

 19. Flott frammistaða okkar manna. Kom mér ekkert á óvart enda hefur frammistaða liðsins í deildarleikjum ekkert forspárgildi varðandi leikina í Meistaradeildina. Ég átti satt best að segja alltaf von á hagstæðum úrslitum í þessum leik en hélt þó að 1-1 jafntefli yrði niðurstaðan. En ég er sáttur við að hafa rangt fyrir mér þegar niðurstaðan er á þennan veg. Þetta er hvergi nærri búið og seinni leikurinn á Anfield verður alvöru Evrópukvöld!

 20. Massíft kúl. Ánægður með leikinn og þetta var bara helv. þétt hjá okkar mönnum.

  Er alveg að fá nýja tilfinningu fyrir Aurelio, sem var sterkur aftast og svo Benajún, sem á góðum degi er match winner #3 hjá okkar félagi.

  Ein neikvæð tilfinning gerði vart við sig: Babel er farinn að minna mig á Stan Colllymore.

 21. Mikið er ég hissa að enginn tali um FORM Liverpool í desember sem hefur hrakað og FORM Real Madrid sem hefur batnað frá því drátturinn átti sér stað. Það eru svo margir blðamenn sem þola ekki Liverpool og gera allt til að gera hlut liðsins sem minnstan. Ég skal mæta þessu liði með sverði – ef þeir þora þessir anskotar. Annars segir konan að ég verði að hætta að pikka – eða hætta í bjórnum! Mér finnst það ekki einu sinni fyndiuð.
  En samt, döfull er gaman að lifa sovna daga.

 22. Veit einhver hvort og hvar þá maður getur nálgast post match interview

 23. Aurelio klárlega maður leiksins að mínu mati og að mínu mati er Robben f…… k…a!!! en þetta var sweet!!

 24. Sanngjarn sigur og á allur hópurinn skilið hrós fyrir hann. Það eina sem skyggir á kvöldið er froðusnakkurinn hann Arnar Björnsson ömurleg frammistaði eins og ávalt hjá honum. Hann sá ekkert gott við leik okkar heldur tuðaði bara um hversu Madridarmenn væru slakir. Hann ætti að vita manna best að enginn spilar betur enn andstæðingurinn leyfir.

 25. Sælar þetta var aðeins of gott. Ég gef Rafa Benites heiðurinn að því hvernig liverpool virðist hafa undirbúið sig undir þennan leik. Leikmenn liverpool virtust hafa skýr skilaboð um hvernig bæri að haga sér gegn leikmönnum Madrid og stigu varla feilspor í þeim efnum, sérstaklega varnarlega og gekk það allt saman upp.

  Það var gaman sérstaklega að sjá Mascherano eiga einn sinn besta leik í rauðri treyju á þessu seasoni, það er orðið langt síðan maður hefur séð hann sýna viðlíka takta og baráttu og hann gerði í dag.

  Tek undir með val á manni leiksins, Aurelio var virkilega góður í örugglega einu erfiðasta hlutverkinu á vellinum í liði liverpool, að halda aftur af Robben og Ramos. Ég hefði þó deilt titlinum með Benayoun (eins mikið og ég bölvaði manninum fyrri hluta tímabilsins), hann var alltaf í boltanum, barðist eins og ljón og skapaði mikið í kringum sig auk þess að skora markið sem meikaði fyrir mér daginn. Benayoun treyja verður næsta í safnið með þessu áframhaldi.

  Nú er ég glaður.

 26. Sammála #28 Arnar B ætti bara að lýsa krull eða hvað það nú heitir.

 27. Veit einhver hvernig er best að haga sér ef maður vill komast á seinni leikinn?

 28. Frábært kvöld, sérstaklega eftir að hafa verið spáð hrakförum af svo mörgum! Aurelio var geðveikur! En Arnar Björns: “nú er það svart!” ..hann var á einhverju í kvöld!

 29. Sammála með Aurelio og Benayoun

  En ég verð að hrósa Arbeloa og og Mascherano líka.
  – Arbeloa er hreinlega frábær bakvörður. Hann stendur alltaf fyrir sínu þó hann sé ekki alltaf áberandi. Dáldið svipað og Finnan….nema að Arbeloa er betri.
  – Ég sá gamla takta hjá Masch í kvöld. Sendingarnar hafa ekki verið hans sterka hlið en loksins er eins og honum langi að éta alla bolta sem koma nálægt honum. Vonandi heldur hann þessu áfram.

 30. Bara haga sér almennilega Sigurjón, þá hlýturðu að eiga einhvern séns 🙂

 31. Þarna sannast það enn og aftur að enska deildin er laaaangsterkasta knattspyrnudeild í heiminum í dag. þessir teknísku gæjar við miðjarðarhafið eru bara grátlega langt frá því að eiga séns í grjóthörð og vel skipulögð ensk lið, sem gleður mig.

  en það er skemmst frá því að segja að real madrid átti bara hreinlega ekki séns í þessum leik, eina alvöru færið þeirra var langskot arjen robben. fyrir utan það þá ráku þeir boltann á miðjunni og köntunum, hentu sér ítrekað í jörðina við minnstu snertingu og tjahh, gerðu bara lítið annað í leiknum, afar þægilegt fyrir liverpool.

  reina gerði sitt í markinu og varði vel skotið frá robben, annars var hann bara að lesa moggann.
  vörnin var heilt yfir mjög góð en fabio aurelio stóð þar uppúr, frááábær frammistaða, bæði varnar- og sóknarlega.
  annar maður sem stóð uppúr var xabi alonso sem sýndi ótrúleg tilþrif og spilaði einn besta leik sinn á tímabilinu. masch var ok.
  kuyt og riera voru allt í lagi en benayoun var okkar hættulegasti leikmaður í kvöld og skoraði gull af marki.
  torres virkaði pirraður og náði sér engan vegin á strik. ég held að síðasta tímabil hafi orsakað það að þetta yrði ekki eins gott hjá honum á þessu tímabili. hann er einfaldlega töluvert frá því að spila jafn vel og í fyrra, en þar koma meiðslin væntanlega til sögunnar sem afar líklega orsakast af miklu leikjaálagi síðustu leiktíðar.
  þurftum ekki gerrard og torres í þennan leik, sýnir styrk liðsins. Juande Ramos niðurlægður af Rafa Benítez og enn og aftur sýnir Rafa hversu magnaður þjálfari hann er með stórkostlegum leik og sigri.

  en bestu menn vallarins hjá liverpool í kvöld að mínu mati voru þeir aurelio, alonso og benayoun.

 32. Þvílík snilld!
  Fátt annað um það að segja, týpískur Rafael Benitez.

  Verðum svo að valta yfir M’Boro um helgina – gleyma þessum leik og einbeita okkur að deildinni í nokkra daga.

 33. Þetta var flottur útisigur og hálfnað verk þá hafið er.
  En mig langar að minnast á eitt svona í sigurvímunni og það er hvað okkar menn áttu erfitt með að halda boltanum innan liðsins.
  Oftast þegar við unnum boltann þá var enginn að bjóða sig eða þá að leikmaðurinn sem vann boltann puðraði honum bara eitthvað og við misstum þar af leiðandi boltann jafnóðum.
  Það eru allt of margir leikmenn sem geta ekki sent boltann frá sér í fyrsta eða tekið almennilega við honum.
  En við skulum ekki fagna of snemma, rm á van der vaart og sneijder inni…

 34. Match commentary á soccernet:

  “Aurelio is penalised for high feet, largely because Robben screamed for the free kick like a little girl. The replay showed Robben’s foot touched the ball. Does it really hurt that much?”

 35. Frábær leikur og enn sýnir Benitez hversu frábær hann er að setja upp þessa stóru leiki. Við erum bara búnir að fara á hvern stórvöllinn af öðrum í þessari keppni á undanförnum árum geislandi af sjálfstrausti og skilað hverjum snilldarúrslitunum eftir öðrum.
  Og í kvöld gerðum við það án þess að Gerrard og Torres spiluðu mikið inn í þá staðreynd!!!
  Sammála skýrslunni í öllum meginatriðum, nema að ég vill fá að gera meira úr þætti Dirk Kuyt í kvöld. Mér fannst hann leika feykivel en styð KAR í vali hans á Aurelio, mikið óskaplega sem ég er glaður að hann er að koma upp sterkur. Var gríðarlega glaður þegar hann kom á Anfield en var að gefast upp. Í kvöld sýndi hann sína hæfileika og Yossi Benayoun er flottur leikmaður og frábær kaup fyrir einungis 5 milljónir punda. Vill samt ennþá fá Ramos í stað Arbeloa KAR :).
  Vonandi finna blaðamenn gulu pressunnar eitthvað annað á morgun en bullumræðu um að Rafa verði rekinn.
  Vissulega vill maður að árangurinn í Englandi fylgi svona frammistöðu en svona kvöld sýna manni fram á þá miklu hæfileika sem í Rafa búa og helst hefði ég viljað að hann hefði skrifað undir nýjan samning í klefanum!!!

 36. Takk fyrir það gummi 🙂
  vissi ekki að þetta væri svona einfald 🙂

 37. Virkilega flottur leikur hjá okkar mönnum. Ótrúlegar einkunnir sem þeir hjá Sky gefa Liverpoolmönnum (samlöndum sínum) allir með 5 og 6 í einkunn nema Alonso og Skrtel sem eru með 7, hvar er þjóðarstoltið hjá þessum mönnum!!!! Alonso var frábær í kvöld og margir aðrir með hörku fínan leik s.s Skrtel, Carragher, Reina, Mascherano, Kuyt. Fannst reyndar Riera afspyrnu slakur, maðurinn er einfaldlega alltof hægur fyrir bolta á þessu kaliberi, átakanlegt að horfa á manninn REYNA að spretta á eftir boltanum. En frábær leikur hjá okkar mönnum og nú bíður maður bara spenntur eftir seinni leiknum.

 38. #35
  “Þarna sannast það enn og aftur að enska deildin er laaaangsterkasta knattspyrnudeild í heiminum í dag. þessir teknísku gæjar við miðjarðarhafið eru bara grátlega langt frá því að eiga séns í grjóthörð og vel skipulögð ensk lið, sem gleður mig”

  Það var einn enskur leikmaður inn á í kvöld (1 1/2 þegar skugginn af Gerrard kom inn á). Liverpool var með fimm Spánverja í byrjunarliðinu, Real með þrjá (tveir frá Madrid, einn frá Sevilla sem er langt inni í landi). Veit ekki til að nokkur í Real-liðinu hafi nokkur tengsl við Miðjarðarhafið nema Cannavaro sem er frá Napoli 🙂

 39. Fyrir leik var Real búið að spila betur en Barca hefur verið að gera, var með 9 sigra í röð og markatöluna 22-2, og annað af þessum mörkum kom gegn Betis í leik sem þeir slátruðu 6-1…..í fyrri hálfleik. Þetta er lið í bull formi á meðan við erum í lægð, meiðslum og tómum pirringi.

  ………..m.ö.o. gjörsamlega handritið orðrétt af fræknum útisigri a la Rafael Benitez í Meistaradeild Evrópu. Þegar það hefur á einhvern magnaðan hátt náð að skapast fáránleg pressa á störfin hjá þér þrátt fyrir góðan árangur, er það óneitanlega sterkt að fara með alla þessa pressu heim til sín (þegar heim þýðir Santiago Bernabeu) og vinna þar eitt sigursælasta og heitasta lið heimsins, Real Madríd.

  Það að segja að Real hafi verið að spila illa er bara fyrirsláttur, þessi góðu lið spila ítrekað “illa” þegar þau mæta Liverpool og það er akkurat engin tilviljun, Real liðið t.a.m. var gjörsamlega kortlagt fyrir þennan leik, komst ekkert áleiðis og þeir voru á endanum kláraðir af afar vel skipulögðu Liverpool liði. Ég gæti trúað að þessi frammistaða Liverpool og þessi úrslit hafi verið nánast fullkominn miðað við það sem lagt var upp með fyrir leik.

  Leikskýrslan er annars bara nánast því fullkominn. Kudos KAR.

  Sóknarleikur okkar var reyndar alls ekkert æðislegur eins og oft vill gerast með Riera, Kuyt og Benayoun saman ásamt Torres á hálfum hraða. Ég var reyndar búinn að tuða yfir því mest allann leikinn að þegar við stillum þessu svona upp þá bara verðum við að ógna mikið mun meira úr þeim föstu leikatriðum sem við fáum. Svo þegar við fengum aukaspyrnuna sagði ég að líklega myndi nú hægrifótarmaður henta betur í þetta (og bjóst við boltanum upp í stúku innan skamms) en mikið djöfull var ég sáttur við þessa spyrnu og hvað þá þetta mark hjá Benayoun. Þeir mættu drattast til að fara æfa þetta afbrigði frekar.

  Annars sammála skýrslunni með mann leiksins, Aurelio frábær og gerði grín að besta leikara í aukahlutverki (Eboue vann fyrir aðalhlutverk), Robben hefur alltaf talað mikið en aldrei getað mikið gegn Liverpool og á líklega von á “góðum” móttökum á Anfield. Benayoun var samt mjög nálægt því að fá heiðurinn líka og Alonso var heldur ekki langt undan, sýndi í kvöld hversu viðbjóðslega mikilvægur hann er.

  Umfram allt var bara gaman að fokkings vinna leikinn.

  og að lokum –

  Sergio Ramos (sem var mjög dapur í kvöld – vilja menn hann ennþá frekar en Arbeloa í Liverpool-liðið?)

  uuu já takk í allann dag, ekki láta þennan leik plata þig, sá væri sannarlega flottur í Liverpool og er betri en það sem fyrir er. Ekki gleyma t.d. að Riera sást ekki og gat mest lítið.

  og

  Helgi, reyndu bara Guardian lýsinguna næst.

  Afar sammála þessu, þetta eru algjörir snillingar og maður les þetta stundum eftir leiki

 40. Hver veit nema Real Madrid og aðrir suðrænir séu stórlega ofmetnir fótboltakappar. REAL MADRID? Eru þeir svo skelfilegir eins og Stöð2 segir? Eða er LIVERPOOOL kannski ágætt lið sem stendur þeim á spori? Ríkisstjórnin sem níu stendur hefur ekki hugmynd um það!

 41. Vissulega var Aurelio góður og hann skilaði sínu og rúmlega það. Mér fannst hinsvegar Alonso og Mascha gjörsamlega FRÁBÆRIR. Þeir hlupu allan tímann og voru sko ekki á neinu skokki, þeir sprettu á eftir hverjum einasta bolta. Spánverjarnir voru svo staðráðnir að sanna sig í þessum leik að það sást langar leiðir. Torres var pirraður og ég fann virkilega til með honum að sjá hann haltrandi þarna í einhverjar 35 mín. Þið hljótið líka að hafa tekið eftir því að Pepe var að bögga Torres allan leikinn og svo fór hann mjög hart í hann þegar að Torres átti þetta flotta skot á markið í fyrri hálfleik sem að Casillas varði með ólíkindum. Held að það hafi orðið til þess að Torres meiddist. Allir leikmenn LFC voru að spila frábærlega í þessum leik. Nokkrir ykkar segið að Riera hafi verið slakur en það var ekki rétt, hann skilaði virkilega góðu varnarhlutverki í kvöld, hann var alltaf mættur á kantinn til að loka á sendingar og komst inn í þær nokkrar. Vissulega hefði hann mátt vera duglegri fram á við en það var greinilega ekki dagsskipunin. Við ætluðum að VERJAST og svo lauma inn einu sem svo varð raunin. Ég fylltist aðdáun eftir þennan leik og þetta sýnir hvað Rafa er asnalega góður þjálfari. Ef hann verður látinn fara þá mun það taka Liverpool nokkur ár að jafna sig. Við erum loksins að ná fótfestu í deildinni og allt liggur uppá við.
  Forza Liverpool, til hamingju kæru vinir :0)

 42. Frábær leikur að okkar hálfu =)
  Hvernig við getum spilað svona leiki eina vikuna og svo leiki eins og gegn City, Stoke, Birmingham þá næstu mun ég aldrei skilja!

  Sammála með vali á manni leiksins, var ekki leiðinlegt að sjá Robben tekinn og snýtt upp úr blaðaummælum sínum fyrir leikinn, sannast kanski að hæst blæs í tómri tunnu.

  YNWA

 43. Voðalega skemmtileg svona kvöld, en merkilegt hvað maður verður alltaf fáránlega þyrstur við að horfa á fótboltaleiki í sjónvarpi 🙂

  En við skulum ekki fagna of snemma, rm á van der vaart og sneijder inni…

  Sammála að við skulum alls ekki fagna of snemma, en vill bara benda á að LFC á Gerrard og Torres inni 🙂

  Annars bara frábær frammistaða liðsins í heild sinni og Real Madrid var bara lesið af Rafa Benítez eins og harðspjaldabók fyrir yngstu kynslóðina. Aurelio algjörlega frábær, einn besti leikur hans í Liverpool treyju. Skýrslan hjá KAR er virkilega góð og segir í rauninni allt sem segja þar og er ég sammála henni í nánast öllu.

  En þetta er ekki búið, eins marks munur og þetta Real Madrid lið mun ekkert leggjast á bakið og bjóða okkur rúnt þegar þeir koma á Anfield. En þetta er góð staða, VERULEGA góð staða.

 44. Góð skýrsla Kristján Atli. Það er ekki lítið góð tilfinning að vakan í sigur vímu sem stoltur Púlari… Ég verð að segja að fyrir leik var ég nú svoldið smeikur en þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður var sem allri pressu væri létt af manni og það var augljóst hvert stefndi. Ég er sammála að Aurelio hafi verið besti maður liðsinns / vallarins, og ég man ekki eftir honum svona góðum, hann sýndi mikkla yfirvegun með boltan og var með algerlega frábæran leik. Mér fanst virkilega gaman að sjá hvað leikmenn voru fljótir að loka á svæði og pressa menn fljótt og þetta var farið að fara í pirrunar á þeim Real mönnum, og mikið held ég að forseti félagsins sé ánægður með 3 – 0 sigurinn sem hann ætlaði sínum mönnum að vinna. Alveg óskiljanlegt að menn skuli vera með svona yfirlísingar í þessari keppni… Rafa sýnir enn og aftur að hversu færa hann er í að lesa veikleika liða þegar kemur að þessari keppni, og ef einhverjir vilja fá hann burt (sem er búið að vera mikð í umræðunni) þá held ég að menn ættu að endurskoða þá ákvörðun, það væri óðsmans æði að leyfa sér að svo mikið að hugsa um það… Eitt er það sem mér fannst skera sig úr í þessum leik og það eru stuðningsmenn Liverpoll, þeir voru ámilli 3 og 4 þús og þeir áttu stúkuna, það heyrðist varla í stuðningsmönnum real, mena endrum og eins, og svo að maður vitni í orð Torres, það er fín stemning á stórum völlum en það er engin völlur sem jafnast á við Andfild og þá sérstaklega á Evrópukvöldi, það verður magnað í seinni leiknum… og bara að við tökum þá þar líka, við skulum hafa það hugfast að það er bara hálfleikur og það er alveg víst að Rela mæta tírvittlausir í síðari leikin. En eins og einn félagi minn sagði eftir leikin, Real velkomnir á Andfild… Og að lokum það allra mikilvægasta, það er bara að vona að þessi leikur verði það sem kemur okkur á sigurbraut heima fyrir og við setjum verulega pressu á Man Utd í titilbáráttuni, það eru þessir tveir titlar sem við viljum fá í hús….. Áfram Liverpool.

 45. SSteinn, það er nákvæmlega þetta við skulum ekki fagna og snemma og víst er að Real á marga menn inni, en við eigum líka Gerrard inni og ef þú mættir velja á milli að hafa van der vaart og sneijder eða Gerrard í liði Liverpool hvort myndir þú velja, bara smá pæling, þú þarft ekki að svara ég veit svarið…

 46. Þessi leikur var ótrúlegur af hálfu okkar manna, og er rós í hnappagatið á Rafa, ef hann gæti lesið ensku liðin svona út, þá væri staða okkar betri í ensku deildinni. En það er bara hálfleikur og við skulum ekki bóka liðið áfram.

  ÁFRAM LIVERPOOL!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!

 47. Slæmar fréttir fyrir okkur Púlara. Torres verður frá í tvær vikur vegna öklameiðsla sem hann varð fyrir í leiknum í gær gegn Real Madrid

 48. Valli, það er ekkert komið um það á opinberu síðunni, sem er eina síðan sem ég treysti fyrir svona fréttum.

 49. Afbragðs sigur. Real getur þó skorað á hvaða velli sem er í heiminum. Við getum ekki lagst í vörn gegn þeim á Anfield því þeir hafa frábæra skotmenn og Arjen Robben og Ramos í góðu formi á hægri kantinum.

  Sé að menn tala sumir um mjög slakan leik hjá Riera. Mér finnst slíkt ósanngjarnt vegna þess hvernig Rafa stillti liðinu upp.
  Rafa var greinilega búinn að skilgreina Heinze sem veika hlekkinn í vörn Real Madrid, þess vegna fóru nánast allar sóknir Liverpool upp hægri vænginn. Heinze hafði ekkert í hraðann á Benayoun þar og svo voru þessir löngu boltar til hægri stöðugt að skapa vandræði hjá þeim.
  Hlutverk Riera í leiknum var aðallega hjálparvörn á Robben og að koma í veg fyrir að Ramos næði sínum hlaupum upp hægri vænginn. Hann var því sem varnarbatti í þessum leik og stóð sig einstaklega vel í varnarvinnunni. Ef Riera hefði verið of sókndjarfur hefði það ruglað leikskipulagið okkar og gefið Real meira pláss. Gerði 100% það sem þjálfarinn bað um. Frábær samvinna.

  Annars er Real átakanlega hægt lið í dag. Þeim hentar fremur illa að spila gegn ensku liði. Spænska deildin er í smá lægð í augnablikinu og Barcelona eina spænska liðið sem á möguleika í pressuna og hraðann frá ensku liðunum.

  #52
  Rafa reynir að lesa öll ensk lið svona út eins og hann gerði gegn Real Madrid. Það hefur í raun verið hans akkilesarhæll í ensku deildinni. Hann ber jafnmikla virðingu fyrir heimaleik í deildarbikarnum gegn 3.deildarliði og úrslita deildarleik gegn Man Utd eða Chelsea á útivelli.
  Liverpool skortir eigin karakter í ensku deildinni og litlu liðin hræðast okkur ekki þar jafnmikið þar og þau óttast Man Utd og Chelsea sem eru með 90-95% skor gegn botnliðunum.
  Þessu þarf að breyta með 2 auka matchwinnerum (sóknarmaður og hægri kantur) og auka mjög hraðann og sendingargetu í okkar sóknarleik.

  Enn já, frábær sigur hjá Liverpool. Vörnin var nánast fullkomin í gær og hélt 120% einbeitingu allan tímann. Vonandi bara að Real fari ekki að hrífast að snilld Rafa í CL og geri allt í veröldinni til að lokka hann til sín og skapa enn meiri óróa utan vallar á Anfield. Það er það sem við megum síst við núna.
  Nú til loka leiktíðar þurfa allir í kringum klúbbinn að leggjast á eitt og standa saman. Áfram Liverpool.

 50. Valli, Einar Örn og allir aðrir. Þetta segir Rafa um meiðsli Torres á opinberu síðunni: “He twisted his ankle in the first half and we were waiting but we could see that he wasn’t fully fit and it would be a risk for the next games.”

  Þannig að, maður veit ekkert enn. Hann talar um að það gæti verið áhætta að nota hann í næstu leikjum…

  Þetta kemur í ljós.

 51. Eitt sem fór gríðarlega í taugarnar á mér í gær var hvað benitez var líflegur á hliðarlínunni… Þegar við erum að spila í deildinni þá situr hann hinn rólegasti að skrifa í bókina sína en í evrópuleikjum er hann á fullu á hliðarlínunni… Þarna finnst mér vera hægt að leggja saman 2 og 2 og sjá hvorn bikarinn hann vill!!!

 52. Sælir félagar.
  Ég skrifaði hér í gær áður en leikskýrslan kom. Ég vil bara þakka KAR fyrir frábæra leikskýrslu þar sem ég er sammála nánast öllu sem þar kom fram. Tel þá þrjá sem menn nefna helst eiga nokkuð jafnan hlut og svo var vörnin fyrnasterk undir stjórn Carra. Frammistaða Alonso kemur ekki á óvart en bæði Masca og Fabio Aurelio (minn uppáhalds leikmaður 😉 ) stóðu sig framar öllum vonum.
  Það er nú þannig

  YNWA

 53. Sammála #58 að vissu leyti. Væri alveg til í að hafa kallinn aðeins líflegri á hliðarlínunni í öllum leikjum, tala nú ekki um að sjá hann fagna þegar liðið skorar og svona. Mér hefur alltaf fundist það vanta aðeins hjá honum. Væri gaman að sjá hann renna sér á hnjánum á hliðarlínunni með kreppta hnefa svona ala Mourinho. Aðeins að óhreinka jakkafötin 🙂

  En þetta er svona bara til að geta kvartað yfir einhverju, sem ætti í raun að vera ástæðulaust.

 54. Skrýtið hvað ég var sallarólegur fyrir þannan leik, eða kanski ekki ef maður spáir í hvaða stórlið við eru búnir að slá út síðan Benitez tók við. Hér er það helsta sem ég man (held ég)

  AC Milan
  Barcelona
  Roma
  Juventus
  Chelsea x2
  Inter
  Og núna Real Madrid
  Og svo krítisera men Rafael Benitez. Maðurin er snillingur, áður en hann kom drulluðumst við ekki uppúr riðlunum. Og núna erum við alment viðurkendir sem besta CL liðið

 55. Þú getur bætt Arsenal á þennan lista Jónas.
  En er alveg sammála þér, var með fiðring í maganum í gær en aldrei þessu vant var ég alveg sallarólegur og nagaði bara ekkert neglurnar upp á enni. Það er eitthvað við þetta lið okkar þegar kemur að Evrópukeppnum nú orðið, maður hreinlega hefur ofurtrú á liðinu.

 56. Jónas,
  Það er enginn að gagnrýna Benitez fyrir árangurinn í CL, heldur er það árangurinn gegn litlu liðunum á heimavelli í úrvalsdeildinni sem Benitez er aðallega gagnrýndur fyrir. Það vita það allir hver megnugur Benitez er í að leggja upp tveggja leikja rimmu gegn sterkum andstæðingum í CL.

 57. Ég var ekki alveg jafn rólegur og Jónas og Steini en róaðist svo sem þegar leið á leikinn þar sem það lá fyrir að okkar menn höfðu svör við öllu sem Real hafði fram að færa. Ég horfði líka á leik Inter og Utd og finnst það alveg skína í gegn hvað ensku liðin hafa (for a lack of a bettar word) hreinlega meiri pung en þessi lið frá Ítalíu og Spáni. Liverpool og Utd sýndu í þessum tveimur leikjum mun meiri kraft og sigurvilja að mínu mati og ljóst að yfirburðir enskra liða eru ekkert að fara minnkandi í ár.

  Einn punktur Jónas: við skulum bíða í 2 vikur með að bæta Real Madrid formlega á listann 😉

 58. Geggjaður leikur hjá okkar mönnum, ég vil sérstaklega minnast á Aurelio, Alonso og Benayoun, tveir fringarar sem spiluðu óaðfinnanlega í leiknum.

  Það er eitt sem er svolítið magnað við þetta lið okkar, veit ekki hvort það tengist Benítez eða leikmönnunum meira – eitthvað í karakter þeirra.

  Það er að þetta lið hefur algjörlega tvö andlit. Annað er þetta stórleikjaandlit, lið sem klárar öll bestu félagslið heims nánast með vinstri – Real núna, Chelsea og Man Utd þar áður á þessu tímabili. Lið sem neutralíserar ótrúlega sterk lið og nýtir sér fáa veikleika þeirra. Svo er það hitt andlitið, sem ekki nær að klára veik lið, jafnvel á heimavelli. Þessi íþrótt er nú ekki það flókin að það sé slíkur eðlismunur á upplagi leikja, það er alveg hægt að draga litlu liðin framar á völlinn og keyra síðan hratt á þá. Því veltir maður fyrir sér hvort pressuvörnin eigi að vera á fullu í slíkum leikjum því þá er einfaldlega styttra til baka fyrir þau.

  En það er allavega mjög ánægjulegt að Evrópuformið sé ennþá til staðar. Ef einhver ætlar til Rómar 27. maí, þá má alveg taka mig með…

 59. flott hjá okkar mönnum mér fannst alonso mascerano benayoun bestir
  en af hverju er raf ben með babbel í liðinu af hverju fór hann ekki sömu leið og robby? Er þessi leikur ekki að segja okkur hvað spönsku liðin eru léleg á móti madrid og barcelona? Kannski erfitt að segja ekki fær maður að sjá neina aðra leiki en barce og real madrid og finnst mér það algört bull. en ykkur?

 60. Eru menn núna hættir við að vilja reka Rafa?

  Frábær sigur en kom mér persónulega ekkert mikið á óvart. Vil þakka sérstaklega Robben og þessum forseta RM fyrir að setja endalausa pressu á lið sitt með yfirlýsingum sínum fyrir leikinn. Verður gaman að vita hvað þeir segja fyrir seinni leikinn en þetta einvígi er langt frá því að vera búið.

  Núna væri gott að vera með Robbie Keane til að getað hvílt Torres nægilega í þessum ökklameiðslum!

 61. # 67 Ívar Örn:
  Að mínu mati dregur þú ekki smálið framar á völlinn sem mæta til að ná í stig. Liðin sem mæta til að taka stig fara ekkert að sækja neitt frekar ef “Evrópu” Benitez mætti á svæðið. Það yrði bara ömurlegur 0-0 leikur út úr því eða útiliðið myndi grísa inn marki úr föstu leikatriði á einhverjum tímapunkti.

  # 69 Svavar:
  Nei, ég vil enn að Rafa hætti og hvernig fer hjá liðinu í evrópukeppninni mun ekki breyta því. Við höfum enga vissu fyrir því að þótt Rafa fengi því framgengt sem hann er að reyna að fá í samningi sínum að hann færi ekki á “trúnaðarfyllerí” með heimspressunni einhvern daginn fyrir leik í deildinni í framtíðinni. Ef Rafa verður áfram (sem ég tel meiri líkur á) vil ég að Sammy Lee sem aðstoðarmaður fái að spreyta sig oftar fyrir framan pressuna og losa Rafa undan þeirri pressu. Pressan VIL fá Benitez rétt eins og Mourinho forðum til að tala við svo þeir geti sagt einhverja vitleysu.

  Þetta er alls ekki búið og vil ég sjá sama liði stillt upp í heimaleiknum með þeirri breytingu að Gerrard kemur inn fyrir Torres (sama hvort hann sé heill eða ekki) og fer í anchorinn á milli miðju og sóknar, Kuyt fer fram og Riera-Benayoun verða á köntunum. Kuyt er mun betri kostur en Torres í framlínunni á þessari stundu vegna vinnusemi hans en ég tel að Rafa nýti sér hann á katninum þar sem hann vinnur svo vel aftur. Þetta endar með Torres frammi eða jafnvel Babel.

 62. Ég vil annað hvort:

  A) Að Rafa fái samninginn sem tryggir honum yfirráð yfir leikmannamálum og lýsi yfir tryggð sinni við félagið.

  B) Að hann gangi út.

  Það dylst engum að hann hefur fært liðið á annan stall þegar maður ber saman þennan leik og Barcelona leikinn hans Houllier. En nú þarf hann að fá að komast á næsta þrep og til þess þarf hann amk. 2 topp sóknarmenn.
  Ef hann fær ekki það sem hann vill, þá gengur ekki að hafa þessa óvissu mikið lengur.

 63. eikifr, Riera er í banni í seinni leiknum ef þú tókst ekki eftir því, þannig að eina breytingin sem ég vil er Gerrard inn fyrir hann.

 64. Menn eru greinilega enn hátt uppi. Minni á að það er bara hálfleikur í þessu einvígi og Liverpool er alls ekki búið að slá Real Madrid út.
  Benitez má eiga það að hann er snillingur í CL þá nær liðið að gera það sem það getur best. Liggja aftarlega, spila öflugan varnarleik og beita skyndisóknum.
  Árangurinn snýst hins vegar við þegar liðið spilar í deildinni gegn lakari liðum, sérstaklega á heimavelli. Þá þarf liðið að sækja og stjórna leiknum. Þar kemur veikleiki Benitez og liðsins í ljós. Hann hefur nú fengið 5 ár til að bæta úr því með misjöfnum árangri.
  Menn verða svo að gera það upp við hvort að Benitez sé rétti maðurinn til að taka Liverpool alla leið á báðum vígstöðum. Það eru skiptar skoðanir um það en hann hefur heldur betur sannað sig á öðrum vígstöðunum.

 65. eru 5 ár svo langur tími?

  Mér finnst það óraunhæfar kröfur að Liverpool fari að hirða Englandsmeistaratitilinn af núverandi englandsmeisturum, evrópumeisturum og heimsmeisturum sem bættu við sig einu stykki 30mp. leikmanni í sumar.

  Mér finnst það ósanngjörn ástæða fyrir því að reka manninn. En það er að sjálfsögðu mitt álit.

  Ég er kannski bara einn af þessum þolinmóðu stuðningsmönnum. Mér finnst ég bara einhvernveginn alltaf vera að sjá batamerki á þessu liði og jú bíddu bíddu.. við erum jú enn í baráttunni um titilinn, við erum í öðru sæti, þrátt fyrir að langt sé liðið á tímabilið…. hvenær gerðist það síðast ?

  Hvað eru menn eiginlega að fara fram á hérna ?

 66. Vel mæl Hjálmar #74.
  Ég er hjartanlega sammála þér.
  Sú staðreynd að við erum í 2. sæti og vonandi komumst við í 8 liða úrslit í CL en höfum samt einungis átt ca 5-6 virkilega góða leiki í vetur. Þeir eru ca þessir:

  Man. city
  Manutd
  PSV Eindhoven
  Chelsea
  Chelsea
  Newcastle

  Hvernig verður þetta þegar góðu leikjunum fjölgar??

Liðið komið: Gerrard á bekknum!

Rafa, samningamál og væntingar