Chelsea á morgun!

Á morgun taka okkar menn á móti Chelsea á Anfield í stórleik helgarinnar í ensku Úrvalsdeildinni. Þegar þetta er skrifað er Man Utd að vinna Everton og auka þeir þá væntanlega forskot sitt á liðin sem mætast á morgun úr tveimur stigum í fimm og eiga svo leik til góða eftir leikinn á morgun.

Þetta þýðir í raun bara eitt. Oft hefur verið sagt að menn þurfi að passa sig að tapa ekki á móti hinum toppliðunum og ná svo sigurhrinu gegn minni liðunum en eftir að bæði okkar menn og Chelsea hafa verið duglegir í vetur að tapa stigum gegn minni liðunum eru bæði lið í rauninni komin í þá stöðu að allt annað en sigur á morgun er algjört áfall fyrir titilatlöguna. Það gildir alveg jafnt um Chelsea og okkur, þeir hreinlega verða að sækja sigur á Anfield og því er hætt við að það verði hart barist á morgun.

Ef við rennum yfir leikmannamálin þá eru þær fréttir víst að berast á milli manna í Bítlaborginni að Robbie Keane hafi verið settur út úr leikmannahópnum fyrir leikinn á morgun. Ef hann er, á næstsíðasta degi leikmannagluggans, ekki í 18-manna hópi í must-win leik gegn Chelsea á Anfield (nota bene, við unnum útileikinn gegn þeim í haust með hann einan frammi þannig að það er eðlilegt að ætla honum eitthvað hlutverk á morgun) má leiða líkur að því að hann sé jafnvel á förum frá félaginu á næstu tveimur sólarhringunum. Það kemur þó allt betur í ljós á morgun.

Hvað uppstillingu Rafa á morgun varðar held ég að við getum öll meira og minna komist að sömu niðurstöðu. Eins lengi og hann ákveður að koma Scolari hjá Chelsea ekkert á óvart ættum við að sjá þetta lið byrja leikinn:

Reina

Arbeloa – Skrtel – Carragher – Aurelio

Mascherano – Alonso
Kuyt – Gerrard – Riera
Torres

**Bekkur:** Cavalieri, Hyypiä, Agger, Dossena, Lucas, Babel og Benayoun.

Að mínu mati er einna helst spurning hvort Hyypiä eða Agger koma inn e-r staðar í vörninni, að öðrum kosti finnst mér augljóst að Rafa muni ætla að nota ofangreint lið á morgun. Sjálfur myndi ég vilja finna Benayoun stað í byrjunarliðinu, sennilegast á kostnað Kuyt eða Riera, þar sem hann var okkar langhættulegasti maður gegn Wigan á miðvikudag og á það skilið, en Rafa er sennilega með taktíkina klára fyrir þennan stórleik og hnikar ekkert frá því.

**Mín spá:** Alonso vann leikinn fyrir okkur síðast og var sá sigur fyrst og fremst taktískur að ég held. Rafa hitti þar naglann á höfuðið gegn feykisterku Chelsea-liði og við verðum að vona að hann nái að hamra þennan sama nagla aftur á morgun.

Ég ætla hins vegar að fylgja eðlisávísuninni og vera hreinskilinn. Þessi leikur leggst ekki vel í mig. Það er eitthvað sem segir mér að þetta muni ekki enda með jafntefli en ég get heldur ekki losnað við þá tilfinningu að vonbrigði janúarmánaðar hafi tekið sinn toll, og þá sérstaklega af baráttuanda okkar manna, á meðan Chelsea-liðið hefur hægt og bítandi verið að klóra sig upp úr gröfinni sem það virtist hafa grafið sér á Old Trafford í byrjun janúar er þeir töpuðu 3-0 fyrir United.

Í stuttu máli sagt, þá er ég svartsýnn fyrir þennan leik og ég held að við töpum þessu **0-2** í leik sem gerir endanlega út um titilvonir okkar þetta árið. Ég vona að sjálfsögðu að ég hafi kolrangt fyrir mér en þetta er engu að síður sú tilfinning sem ég hef fyrir þennan leik. Eitt er þó ljóst að ef ég hef rétt fyrir mér verða umræðurnar á þessari síðu frekar athyglisverðar.

**Áfram Liverpool! YNWA!**

50 Comments

 1. Fínn upphitun hjá þér sammála með liðið og ég er bjartsýn að við náum að halda þessum leik í jafntefli. og þar með kveðjum við Man Utd :S en ef við vinnum þá eru komin sterk skilaboð sem ég vona að innilega gerist 😉

 2. Ef þetta er rétt með Keane, þá er ég hættur að skilja Benitez. Hvernig er hægt að réttlæta það þegar að við eigum í ótrúlegum vandræðum með að skora mörk að taka útúr hópnum okkar næst dýrasta leikmann og þann leikmann okkar, sem hefur skorað flest mörk í Úrvalsdeildinni.

  Ég einfaldlega skil það ekki.

  Og hvað gerum við ef við seljum Keane á síðasta deginum? Erum við þá að gefast upp á þessum titli? Hvers lags skilaboð sendir það? Ok, við getum ekki skorað mörk – seljum þá eina framherjann (utan Torres) sem er líklegur til að skora mörk fyrir okkur.

  Ég er ansi hræddur líka um að við töpum þessum leik. En þetta lið hefur svo sem oft sýnt okkur að þegar að við aðdáendur erum hvað svartsýnastir, þá koma þeir okkur á óvart. Vonandi að það gerist á morgun.

  Já, og Everton hafa ekki unnið á Old Trafford í yfir 10 ár að mig minnir, þannig að þeir eru ekki að fara að hjálpa okkur.

 3. Bjartsýnin er ekki í hámarki fyrir þennan leik, ef maður hugsar til undanfarinna leikja. Ætla samt að tippa á 1-0 sigur Liverpool og markið kemur frá engum öðrum en Kuyt. Og ég er alveg hættur að skilja Benítez, ef maður sem kostaði 20 milljón pund, fær ekki tækifæri út leiktíðina og þar að auki smá “run” í byrjunarliðinu, þá er eitthvað mikið að. En auðvitað er slúðurmaskínan öflug þarna handan hafsins og ekkert víst að það sé eitthvað að marka þessar fréttir af Keane. Vonum allavegana það besta.
  Þorrablótskveðjur að norðan.

 4. algjörlega sammála kommenti EÖE. AF HVERJU er keane ekki í hóp? ef hann er ekki tæpur vegna meiðsla þá er mjög erfitt fyrir Rafa að rökstyðja þetta.
  annars vona ég að þetta verði byrjunarliðið og ég er hreint ekki bjartsýnn fyrir þennan leik, það er bara frekar erfitt.

  en everton gat lítið gert gegn man utd og dómaranum, þvílíkt bull, hef sjaldan eða aldrei séð jafn ódýra vítaspyrnu.

 5. Ég er gjörsamlega hættur að reyna að skilja þessar fáranlegu ákvarðanir Benitez.
  Hvernig stendur á því að hann hefur Keane ekki í hópnum ?
  Var hann neyddur til þess að kaupa Keane ?
  Eru þetta hans aðgerðir gegn þessum kaupum sem hann vildi kannski ekki ?
  Allavega þá finnst mér Benitez vera hrikalega þver stjóri og hann er á góðri leið að skemma allan móral í liðinu með þessu rugli.

  Það á að spila Keane í form og ekkert rugl.
  —————Reina————-
  Arbeloa–Carra—Skrtel—Aurelio
  Gerrard—Alonso—-JM—-Riera
  ———-Keane—Torres——

  Þetta tel ég okkar sterkasta lið og vonandi að Benitez fari ekki að halda þessu rugli áfram.

 6. Ég er sammála Ásmundi, eigum að setja þetta í 4-4-2 nema hvað ég vil ekki sjá Mascherano í þessu liði, Kuyt inn á kantinn og Gerrard á miðjuna. Þannig sé ég einu leiðina á að vinna þetta Chelsea lið. Ég hef trú á okkur og að við vinnum þennan leik 1-0 eða jafnvel 2-0 ef Benitez stendur fyrir sínu. En ef allt klikkar, 4-0 tap, og við endum í 5. sæti í kjölfar þessa. Nú er tími til þess að treysta á Benitez.
  ÁFRAM LIVERPOOL

 7. Kar ég hef séð þessa uppstillingu áður og það gekk hvorki né rak. Hvað? er það rétt að Keane sé markahæðstur í úrvalsdeildini (Einar Örn # 2) Ég hélt að hann væri búinn aðskora 3 mörk og að Gerrard væri efstur. Mér líst ekki vel á leikinn á morgun. 1 við á heimavelli og höfum ekki verið að ríða feitum hesti þar á móti slappari liðum, 2 Torres og Keane verða að vera í eldlínuni. 3 engan Lucas nema þá á bekknum. 🙂

 8. P S kanski er ég aðeins að misskilja Einar Örn. Mér hefur alltaf fundist Torres dýrastur, allavegana getum við selt hann á hærra verði en Keane… KOMA SVO LIVERPOOL

 9. Sælir félagar.
  Ef þetta er rétt með Keane þá virðist sem RB sé algjörlega búinn að miss það og þá er með hann eins og aðra vanhæfa. Hann verður að segja af sér annars kemur búáhaldabyltingin og setur hann af með potta og pönnuslætti 🙂 Nei ég vil bara ekki trúa þessu.
  Þessi leikur leggst ótrúlega illa í mig (ótrúlega, af hverju ótrúlega) En gengi liðsins, stjórn þess, uppstilling og skiptingar hafa verið með þeim hætti að maður er með hjartað í buxunum fyrir hvern leik og kvíðahnút í maganum.
  Það er nú þannig.

  YNWA

 10. Ja, ég er allavega nógu bjartsýnn til að bjóða tveimur Chelseamönnum heim til mín á morgun. En tek samt undir það að þetta Keane mál er allt að verða hið undarlegasta. Núna hefur Benítez sitt sterkasta lið allt tiltækt þannig að það verður fróðlegt að sjá uppstillinguna – sem ég tel að Kristján Atli hafi hárrétta. Þetta er einfaldlega sterkasta byrjunarliðið.
  En 1-1 kæmi mér ekki á óvart og þar með Goodbye blue sky…

 11. Gæti það ekki einmitt verið málið með Keane, að Benitez hafi verið “neyddur” til að kaupa hann? Það kom fram í DV að mig minnir að Ferguson hafi ætlað sér að kaupa Van Der Saar ´99 en fengið Bosnich í staðinn vegna þess að einhverjir stjórnarmenn hafi ákveðið það. Er ekki líklegt að svipað hafi verið í gangi í haust þegar Keane hafi verið keyptur?

  En að leiknum. Ég efast um að það verði skoruð fleiri en eitt mark í leiknum. Bæði lið vilja sigur en hvorugt liðið er tilbúið til að tapa heldur. Ef Liverpool vinnur mun það vera Carragher sem skorar markið eftir horn, en ef Chelsea skorar markið þá mun það vera Lampard sem setur hann efst í vinkilinn eftir skyndisókn.

 12. Addorri – það er naumast að menn eru með villtar spár! 🙂

  Annars er í Daily Mail í kvöld frétt um að við séum við það að semja við Tottenham um sölu Keane til baka fyrir um 15m punda. Samkvæmt fréttinni á þetta að hafa verið ákveðið á fundi Benítez og Hicks í dag og er búist við að þessi mál verði kláruð fyrir lokun markaðarins á mánudaginn, og því er hann ekki í hópnum á morgun.

  Í fréttinni er svo einnig talað um að samningamál Benítez séu að klárast, en þau eru víst lykilatriði í þessu Keane-máli öllu. Ég skil þetta svo að Benítez hafi nefnt Keane á lista yfir nöfn sem hann vildi fá sl. sumar en þar hafi Barry hins vegar verið forgangsatriði #1. Hins vegar hafi einhver (væntanlega Parry) ákveðið að það væri betra að eyða peningunum í Keane en Barry og því fór sem fór, sem pirraði Rafa greinilega það mikið að hann hefur fryst Keane síðan Torres komst aftur til heilsu.

  Í fréttinni segir svo ‘heimildarmaður’ um samningaviðræðurnar:

  ‘If Manchester United were in the market for two players who cost the same money, the board would let Sir Alex Ferguson choose which one he needed the most – the same applies for Arsene Wenger and David Moyes. The owners understand Rafa should be given the same deal.’

  Sem sagt, Keane er að fara og Benítez er að fá sitt í gegn með að fá framvegis að forgangsraða leikmannakaupum sjálfur. Seinna atriðið þykir mér mjög jákvætt en ég er ekki viss um að það sé gott að missa Keane án þess að kaupa annan framherja í staðinn, á þessum viðkvæma tímapunkti í tímabilinu.

  Kemur í ljós, kemur í ljós. Ég vona bara að Rafa sé ekki að gambla of mikið með að selja Keane aftur. Hvað gerum við ef við seljum hann og Torres meiðist svo … ? Notum Ngog?

 13. Trúi ekki að maðurinn hafi ákveðið að taka Keane af lífi hjá okkur með því að hafa hann ekki í hóp hjá okkur á morgun. Frekar myndi ég henda Babel úr hópnum hann hefur ekkert sýnt sem réttlætir það að hann eigi þar frekar heima en Keane. Ég myndi koma þeom bláu á óvart með sókndjörfu liði og hafa með benayoun og alonso á miðjunni og riera og gerard á köntunum síðan með keane og Torres frammi og keyra síðan á helvítin en ég reikna ekki með fjörugum leik því miður óttast 0-0 eða þaðan af verra. Þetta er lykilleikur upp á framhaldið svo maður vonar það besta.

 14. Þetta þykja mér afar slæmar fréttir ef satt reynist, Þetta sýnir þvílikur sirkus er í stjórnun klúbbsins. Ef eiinhver verður keyptur í staðinn verður það sjálf sagt einhver varnarsinaður

 15. ég ætla að vona að EF notabene EF Keane verður seldur þá á Rafa eitt tromp í erminni sem verður stórt nafn sem hann kaupir…. en greyið Keane maður þetta hlítur að vera ömurlegt fyrir greyið manninn sem var með stjörnur í augunum þegar Liverpool Football Club spurðist fyrir hann fyrst í sumar eða síðasta vor…. svo er hann gersamlega eyðilagður núna. Þetta er sama keis eins og með Pennant, sama hvað hann gerir það er bara ekki nógu gott til að komast í liðið eða hópinn….

  Áfram LFC

 16. Úr Guardian:

  With Liverpool having to face ­Chelsea tomorrow and Everton in the Cup in midweek there was no better time for United to post a seventh successive ­victory in the three weeks that have passed since Rafa Benítez opened fire on Sir Alex ­Ferguson. Liverpool have still not ­managed a single win in that period, which is one of the reasons why United are now five points clear at the top of the Premier League.

  Ég gæti grátið.

 17. Ég ætla að gerast svo djarfur að spá þessum leik jafntefli.

 18. Það segir sig sjálf að Robbie Keane hefur;
  a) “glasað” Benitez yfir morgunverðarborðinu.
  b) Gefið þjálfaranum “írskan koss” eftir of margar taktískar skipanir á æfingu.
  c) Sent Benitez SMS og kallað hann… afturhaldskommatitts keisaramörgæs með há kollvik.

  Keane var frystur fyrir 5-1 útileikinn gegn Newcastle. Hann hefur ekki sætt við það eftir góða spilamennsku þar á undan og misst sig algjörlega útí Benitez. Þetta hefur verið þagað í hel og tekið fyrir innanbúðar á Anfield.
  Sumir höndla bara ekki pressuna að spila fyrir alvöru stórlið eins og Liverpool. Benitez vill hafa stjórn á öllu og losar sig ávallt við leikmenn sem hann treystir ekki lengur, nánast sama hversu góðir þeir eru.

  Leikurinn á morgun verður mjög athyglisverður. Spurning hvort Benitez hristi af sér slyðruorðið og fari í all-out attack öllum að óvörum. Ég ætla að vera bjartsýnn og spá 2-1 sigri Liverpool. Gerrard og Kuyt með mörkin.

  Forza Liverpool.

 19. Alltaf þegar við búumst við engu af Liverpoolliðinu koma þeir sterkir til leiks og þagga niður í gagnrýnisröddum. Vinnum 2-0 . Torres með bæði mörkin.

 20. Þetta er líklega það grófasta sem Parry hefur gert ef satt reynist, hefur auðvitað verið ýjað að þessu áður en þetta var bara of gróft til þess að maður trúði því. Jafnvel þó Rafa hafi verið að reyna að laga samninginn sinn til að koma meira að leikmannakaupum, þá hélt ég að það væri bara í tengslum við hægagang Parry og almenna vanhæfni í að ná í leikmenn. En þetta er engu líkara en að Parry haldi með Manchester United, vinnur gagngert gegn stjóra liðsins??? Finnst það sína mikinn vilja til að vera áfram hjá lfc og þolinmæði að Rafa hafi ekki farið á stundinni þegar ljóst varð að Keane væri kominn og það á hærra verði en maðurinn efst á óskalistanum, ekki eins og þessir menn séu einu sinni að spila sömu stöðuna heldur.

 21. Heyrðu ég ætla að vera rosa jákvæður og Liverpool leikmennirnir þagga niður í öllum blöðunum og því rugli og skora innan vip 30 mín og við vinnum leikinn 3-1

  Torres , Gerrard og Riera

 22. Hvað ertu að tala um Sævar #22?
  Ég hélt í augnablik að Drogba væri að koma og vætti buxurnar af hamingju. Svo er auðvitað ekkert að finna um þetta á netinu.

 23. Held að tími Benitez hjá Liverpool sé liðinn, hann er orðinn eins og Davíð Oddsson, úrillur, hrokafullur og tekur ákvarðanir sem enginn skilur. Báðir eiga þeir það sameiginlegt að þeir skynja hvorugir sinn vitjunartíma. Ef að það er rétt að samningaviðræður Benitez séu að klárast þá þykir mér það bölvað að þurfa horfa á hugmyndasnauðan sóknarleik og baráttu um 4 sætið í 4-5 ár til viðbótar.

  Hvað sem því liður, þá finnst mér meðferðin sem Keane hefur fengið fyrir neðan allar hellur. Keane sýndi loksins lífsmark eftir erfiða byrjun í des. þegar hann skoraði 3 mörk í tveimur leikjum og sjálfstraustið virtist vera koma hjá honum. Þá ákvað Benitez að taka hann út úr liðinu og setja Kuyt í fremstu víglínu….algjörlega óskiljanlegt. Babel hefur þurft að þola sambærilega meðferð. Samtals kosta Babel og Keane um 30 mill.pund!!

  Allavega hef ég ekki góða tilfinningu fyrir þessum leik 1-1 eða 1-2 fyrir Chelsea. Það bjargar Liverpool að Chelsea hefur ekki verið að spila vel undanfarið.

 24. Liverpool vinnur 1-0 enda góðir á móti stórliðum og í útsláttarkeppni, og bestu mennirnir okkar eru hraustir.

 25. Keane til Tottenham ? hvað í staðinn ?? Sammála Einari í #2 að ég er hættur að skilja Benitez. En er hann með eitthvað útspil þá í staðinn?? Ég vona að það verði ekki eitthvað Darrean Bent rugl skipti. úúúúffffff. En ég er sannfærður um 2-0 sigur í dag (Torres bæði) og farinn að horfa á Liverpool leiki aftur eftir nokkra daga fýlu. 🙂

 26. Ég skil ekki suma hérna ….

  Er ekki aðeins líklegra að Benitez hafi ekki staðið að kaupunum á Keane og vilji hann því ekki frekar en að hann hafi keypt hann og vilji ekki einu sinni láta á hann reyna ?

  Það er sterkur orðrómur um það úti að stjórnin hafi keypt Keane, ekki Benitez. Samningaviðræður Benitez og LFC eru á “hold” vegna þess að Benitez er ekki sáttur, vill meiri völd. Á sama tíma neitar hann að hafa næst dýrasta leikmann í sögu Liverpool í leikmannahópnum leik eftir leik – og samband þeirra skrítið svo að ekki sé meira sagt.

  Það er ekki allt með felldu, ég efast um að þetta sé allt út af “hinum klikkaða Benitez”

 27. Það er mér til efs að liðið væri í betri stöðu ef það hefði keypt Barry en ekki Keane.
  Mér er það líka til efs að liðið hefði ekki unnið leik í janúar ef að Keane hefði verið sýnt traust frá byrjun líkt og Berbatov hjá United.

  Þrátt fyrir það á stjórinn að eiga fyrsta og síðasta orðið um kaup á leikmönnum og það hlýtur að vera óþolandi fyrir hann að komið sé fram við hann eins og vitleysing sem viti ekki hvaða leikmenn eru réttir við liðið. Hann á að fá að kaup þá leikmenn sem hann vill og hann á þá líka að standa og falla með þeim ákvörðunum.

 28. Ég eins og flestallir ef ekki allir hafa aldrei skilið kaupin á Keane. Hann hefur nánast ekkert gert fyrir Liv,,,, ég var til í að gefa honum séns vegna nokkra manna hér á síðunni sem nánast hafa heilaþvegið mig…. En málið er það að tímabilið er meira en hálfnað og hann er alls ekki að fara í gang…. Ég skil bara ekki svona bull, og ætla ekki að setja mig inn í það…. KOMA SVO LIVERPOOL………….

 29. Keane væri löngukominn í gang ef karlinn hefði ekki sett hann í skammarkrókinn í hvert skipti sem hann spilaði vel. Ég er ekki sammála því að hann hafi ekkert gert. Svo þegar að Ngog er tekinn fram yfir hann af því að hann skoraði 2 varaliðsleik er mér öllum lokið. Hvernig var Keane verðlaunaður fyrir mörkin tvö á móti Bolton í deildinni, jú hann var settur á bekkinn og sat þar allann tíman í næsta leik stórbrotin framkoma.

 30. Ég viðurkenni það að það er fátt sem gefur manni ástæðu til bjartsýni þessa dagana. Það er eins og örlaganornirnar hafi fretað yfir liðið okkar síðustu vikurnar!
  Ég hreinlega trúi því ekki að Keano verði seldur á þessum tímapunkti! Leyfi Rafa að njóta vafans þangað til.
  Bottom line-ið er samt að við erum í bullandi séns á stóra titlinum og erum í góðum séns í FA og CL.
  Ég treysti á að stóra Liverpool hjartað muni slá fast í dag og að við munum freta á örlaganornirnar og sigra, verður flottur turn over sigur og
  tölurnar 2-1 hljóma eins og synfónía í mínum eyrum. Gerrard og Torres skora.

  YNWA!!

 31. ætla menn að selja keane og hvað svo ef Torres meiðist, fer Kuyt upp á topp sem skoraði síðast á móti Wigan heima í október er það ekki?

  Bull. Rugl að hann hafi ekki fengið betri sjensa

 32. Ég man eftir viðtali við Phil Thompson síðasta vetur þegar hann sagði að klúbburinn ætti að kaupa Keane því að hann væri það sem vantaði í pússlið. Ýtir það ekki örlítið undir þær grunsemdir að einhver annar en Benitez hafi tekið þessa ákvörðun? Efast um að Benitez hafi sagt Phil frá þessu hvað þá að hann hafi hlustað á hann. Annars veit ég ekkert um hvað ég er að tala þetta bara mitt innlegg í þessa samsæriskenningu 🙂

  Áfram Liverpool

 33. Guillem Balague, sá maður sem einna best er hægt að treysta í dag varðandi Liverpool að mínu mati, segir að Keane vilji fara. Hann sé þreyttur á bekkjarsetunni og að Rafa vilji ekki hafa mann í hóp sem sé með annað augað á brottför frá félaginu.

  Tottenham vill hann aftur og bauð annaðhvort David Bentley eða Gareth Bale + pening. Liverpool hafði ekki áhuga.

  Liverpool vill ekki skipta á neinum manni heldur fá pening, og það jafn mikinn og það keypti Keane á.

  http://www.guillembalague.com/rumores_desp.php?id=167&titulo=Why%20is%20Keane%20really%20out%20of%20Liverpool%20squad?

  Ég hef áhyggjur ef hann verður seldur og enginn annar kemur í staðinn…

 34. Hjalti,,, hvern viltu kaupa á bekkinn í staðinn fyrir Keane. Getm við ekki bara fengið einhvern úr varaliðinu. ;-

 35. Mér finnst það dálítið athyglisvert hvað menn eru andsnúnir Keane hérna á síðunni, jú það er sjálfsagt að gagnrýna menn þegar að þeir eru ekki að standa sig og Keane hefur klúðrað góðum færum en það gera nú allir framherjar og að mínu viti er hann ekkert verri en aðrir í þeim efnum.

  Málið er einfalt finnst mér, framherjar þurfa þjónustu og þá þjónustu er bara ekki að finna í nógu miklum mæli hjá Liverpool þessa dagana. Sendingar fyrir markið eru af skornum skammti og þá er ég að meina góðar og af hvorum kanti sem er, af miðjunni er það bara Alonso sem hefur getuna nema náttúrulega þegar að Stevie G spilar þar. Nýtingin á horn- og aukaspyrnum er svo kapituli útaf fyrir sig!!

  Mér finnst vanta í þetta Liverpool lið 1 eða 2 ef ekki 3 mjög tæknilega góða leikmenn sem að geta spilað á köntunum og miðjunni þess vegna, sem að taka menn á og eru með góða sendingagetu. Ef að slíkum mönnum væri bara bætt í hópinn að þá þarf ekki að selja neinn og við myndum keppa um alla titla sem eru í boði, hell I could win with that team 😉 Liðið kemur væntanlega eftir 5 – 10 min og ballið er að fara að byrja, leikurinn fer 2 – 0 og þunglyndisskýjunum verður létt af okkur í bili!!!

 36. Liverpool: Reina, Arbeloa, Aurelio, Carragher, Skrtel, Mascherano, Alonso, Gerrard, Kuyt, Riera, Torres.

  ekki mikið sem kemur á óvart

 37. Ég væri til í að fá einhvern lánaðan út tímabilið, veit svosem ekki hvern. Ef Torres meiðist getum við notað Kuyt fremstan, en ég vil enn meina að Keane sé bestur fyrir aftan Torres með Gerrard á hægri kantinum, það sé okkar sterkasta lið í dag…

 38. Subs: Cavalieri, Dossena, Agger, Ngog, Benayoun, Dossena, Babel, Lucas. þ
  þetta þýðir bara eitt, Keane hlýtur að vera á förum

 39. Þá er það staðfest að Keane er farinn ! Spái því að Owen komi í staðinn….

 40. Óboj, liðið komið.

  Liverpool: Reina, Arbeloa, Aurelio, Carragher, Skrtel, Mascherano, Alonso, Gerrard, Kuyt, Riera, Torres. Subs: Cavalieri, Dossena, Agger, Ngog, Benayoun, Dossena, Babel, Lucas.

  Þá er það staðfest. Keane nýjasta victim treyju nr. 7 hjá Liverpool. David Villa næstur?

 41. guð minn almáttugur, ég er ekki helsti aðdáandi rafael benitez í dag

  hvað ætli dirk kuyt þurfi að gera til að spila ekki?

 42. Talað um að Aaron Lennon gæti komið í skiptum, sem myndi gera mig gríðarlega glaðan. Búinn að vera frábær undanfarið.

  Það er á BBC, í live commentery-inu…

  Það er einmitt það sem ég óskaði eftir hér um daginn, vonandi gengur það eftir. Þá erum við að tala um:

  ———Torres——–
  Riera–Gerrard–Lennon
  –Mascerano—Alonso—

 43. Jæja hef verið með mínar efasemdir um Rafa núna er þetta búið. Maðurinn er búinn að missa það. Aaron Lennon er drasl í samanburði við Robbie Keane.

 44. Sælir piltar!
  Vona ad tetta skilgreinist ekki sem thradran en veit einhver um goda sidu thar sem hægt er ad horfa a leikinn? Thar sem sidan sem eg nota oftast myp2p.eu liggur nidri.

  Annars verdur madur bara ad lysa undrun sinni med thetta Keane mal allt saman og thad verdur ahugavert ad heyra hvad Benni hefur um thetta ad segja thegar bladamenn spyrja hann um thetta fyrir og orugglega eftir leik. Thad bara hlytur einhver ad koma i stadinn fyrir hann, hopurinn er of thunnur nu thegar samanber ad Gerrard og Torres badir teknir utaf i sidasta leik vegna threytu.

  Afsakid utlenska lyklabordid.

  Afram Liverpool!

 45. Varðandi bakköpp fyrir Torres í 4-3-3 leikkerfinu þá lýst mér betur á N’Gog sem bakköpp fyrir Torres heldur en Keane. N’Gog skortir vissulega hraðan og líkamlega styrkinn en þetta er hans náttúlega staða. Maður hefur séð það að staðsetningarnar hans eru superb. Hann kann þessa stöðu. Það sama verður ekki sagt um Keane (með fullri virðingu fyrir honum). Þannig að ef Keane er ekki hugsuð glæstari staða í þessu liði en varamaður fyrir Torres, þá lýst mér betur á N’Gog.

Ritstjórn og Rafa

Liðið gegn Chelsea