Ritstjórn og Rafa

Undanfarnar vikur, eftir því sem jafnteflunum hefur fjölgað, hefur borið nokkuð á því að ummælum sem brjóta í bága við einfaldar reglur okkar hér á Kop.is hefur snarfjölgað. Vissulega helst svona lagað í hendur með gengi liðsins – það voru t.d. fáir hér inni með skítkast þegar liðið var með þriggja stiga forskot á toppi deildarinnar – en það er samt því miður svo að við í ritstjórn síðunnar þurfum reglulega að henda út ummælum sem brjóta þær reglur sem við biðjum fólk að virða.

Í gærkvöldi átti sér síðan stað ákveðið hámark á þessu tímabili hvað þetta varðar. Okkar menn misstu sigur niður í jafntefli á lokamínútunum, margt umdeilt átti sér stað í þeim leik, og fyrir vikið komu menn hér inn í fússi eftir að leik lauk og helltu úr skálum reiði sinnar. Þegar þetta er skrifað hafa meira en 140 ummæli verið skrifuð við leikskýrslu gærkvöldsins og eru þau öll í lagi, enda hefur umræðan farið að mestu vel fram, en þó þurfti ritstjórn síðunnar að henda út einhverjum tíu ummælum og banna einn einstakling eftir leikinn í gær.

Við höfum rætt þetta okkar á milli undanfarna daga og erum á þeirri skoðun að á síðunni ríki ákveðið ástand sem við þurfum að sporna við. Ekki einungis munum við halda áfram að taka óhæf ummæli út og/eða banna notendur sem svara ekki ítrekuðum tilmælum og ávítunum heldur ætlum við einnig að vera harðari hvað varðar það sem kalla má „þráðrán“.

„Þráðrán“ er í raun það sem gerist þegar pistill eða færsla er skrifuð hér inná síðuna um ákveðið málefni, en svo kemur annað hvort einn einstaklingur hópur einstaklinga inn í ummælakerfið við téðan þráð og fara að ræða um eitthvað allt annað. Það er að sjálfsögðu í lagi þótt menn nefni eitthvað utan umræðu stöku sinnum en þegar það er farið að gerast trekk í trekk að nærri því hver einasta færsla á síðunni endar í sömu, síendurteknu umræðunni sem sömu aðilar byrja á í ummælaþráðunum er um klárt „þráðrán“ að ræða. Þeir sem lesa ummælaþræðina á þessari síðu vita nákvæmlega um hvaða umræður, og hvaða ummælendur, ég er að tala. Það er gott og blessað að menn segi sitt álit á ákveðnum leikmönnum, framkvæmdarstjórum og slíku en við höfum ákveðið að sporna gegn því að hverri einustu færslu sé snúið upp á sömu umræðuna og því munum við framvegis einnig henda út ummælum sem virðast greinilega til þess hönnuð að „ræna“ umræðunni.

Af þessu tilefni er einnig tilvalið að benda mönnum á að gamlir þræðir á síðunni haldast opnir og fyrnast ekki, þannig að ef menn vilja halda áfram að ræða eitthvað sem var rætt í gær eða síðustu viku geta menn gert það í vikugömlum þræði. Það er óþarfi að „ræna“ nýjasta þræðinum við færslu sem fjallaði um eitthvað allt annað til að geta haldið áfram að ræða sama hlutinn aftur, og aftur, og aftur, og aftur …

Sem sagt, bara til að árétta þá munum við taka ritstjórn ummælaþráðanna á síðunni aðeins fastari tökum en venjulega. Eins og venjulega hvetjum við menn til að hafa samband við okkur með tölvupósti telji þeir að ummælum sínum hafi verið eytt út að ósekju. Það er talsvert betra að útkljá slíkt með tölvupósti en að reyna að kvarta yfir því í ummælaþræði, sérstaklega þar sem slík ummæli tengjast væntanlega viðkomandi þræði ekki mikið og verður því væntanlega einnig eytt út. Nýtið ykkur upplýsingarnar sem við gefum um ritstjórn hér til hliðar og sendið okkur tölvupóst ef þið hafið einhverjar athugasemdir, jákvæðar eða neikvæðar.

Fyrir hönd ritstjórnar,
Kristján Atli


Annars langar mig að halda aðeins áfram með hugleiðingu mína um Rafa Benítez og stefnu titilatlögu liðsins í vetur, sem ég hóf eiginlega í lok leikskýrslu minnar í gærkvöldi. Í dag hef ég lesið aragrúa greina frá Englandi þar sem menn annað hvort losa út pirringinn yfir ástandinu eða lýsa almennt frati á Benítez. Ég er enn á þeirri skoðun að við getum verið þakklát fyrir að hafa haft hann sem knattspyrnustjóra síðustu tæpu fimm árin og maður sér það greinilega á liðinu í dag að hann hefur unnið mikið og gott starf.

Hins vegar er erfitt í dag að mótmæla því sem ég las á einum staðnum að þó það sé honum að þakka að við erum komin svona nálægt toppnum í deildinni er það líka, að vissu leyti, honum að kenna að við virðumst ekki enn ná að yfirstíga síðustu hindrunina og sigla fram úr keppinautunum í toppbaráttunni.

Ég þarf ekkert að endurtaka það sem ég sagði í gær um jafnteflin og íhaldssemi í innáskiptingum, en í dag hefur annað angrað mig í þessu öllu og langar mig til að deila þeirri hugsun með ykkur.

Ég hef sagt það áður og ég segi það aftur að ég vil engan stjóra hafa frekar en Benítez þegar kemur að því að spila stórleiki. Það er einfaldlega enginn í Evrópu honum fremri þegar kemur að því að spila refskák í útsláttarkeppnum eða einstökum stórleikjum. Fyrir leikinn á sunnudaginn kemur gegn Chelsea hef ég fulla trú á honum, því ég veit að hann kann að gera hættur Chelsea-liðsins að engu og passa að við töpum slíkum leik ekki, og ef einhver er líklegur til að geta breytt jöfnum toppslag í sigur er það hann, sbr. þá tölfræði að hann hefur þrisvar á fjórum árum komið okkur í undanúrslit Meistaradeildarinnar og unnið bæði United og Chelsea í deildinni í vetur.

Vandamálið hjá Rafa er hins vegar það að hann virðist spila eins gegn minni liðum og hann spilar gegn toppliðunum. Gott dæmi um slíkt er leikurinn í gær. Þar byrjaði hann með Mascherano og Lucas á miðjunni og Gerrard í holunni fyrir framan þá. Þetta er að sjálfsögðu feykisterk miðja og það kom engum á óvart að sjá þá drottna yfir andstæðingum sínum á því svæði í gær. Hins vegar er það alveg spurning hvort það var þörf á því að spila heilum tveimur hershöfðingjum – Lucas og Mascherano – fyrir aftan sjálfan aðmírálinn – Gerrard – í svona leik. Ég hefði persónulega frekar viljað sjá slíka miðjuþrennu gegn liði eins og Chelsea eða United á útivelli, þar sem við þurfum á mjög sterkri miðju að halda, sérstaklega varnarlega.

Í gær hefði ég samt frekar viljað sjá hann byrja t.d. með Alonso og Gerrard á miðjunni, Benayoun og Riera á köntunum og svo annað hvort Babel eða Keane bara með Torres frammi. Eins vel og 4-2-3-1 kerfið hefur reynst okkur er það takmarkað að því leyti að það er bara pláss fyrir einn framherja í einu inná vellinum, og staðreyndin er einfaldlega sú að stundum þarf Rafa einfaldlega að taka hlekkina af liðinu, henda öllum fallbyssunum inná í einu og segja, „kaffærið þá, drengir!“

Eitt skýrasta dæmi vetrarins um þetta er sennilega heimaleikurinn gegn Hull City í desember s.l. Þá lentum við 0-2 undir eftir hörmulegt fyrsta kortérið en við það vöknuðu okkar menn ærlega og lögðu upp í allsherjar stórsókn gegn gestunum. Kortéri seinna var leikurinn orðinn jafn, 2-2, og stórsókn okkar manna þvílík að það var hálfgert kraftaverk að Hull-liðar hafi ekki farið inn í leikhléið einu eða fleiri mörkum undir.

Hvað gerðist svo? Jú, Rafa gerði breytingar í hálfleik. Ekki af því að við vorum enn að tapa, ekki af því að liðið var að leika illa, heldur af því að leikurinn var of opinn. Okkar menn voru ekki að stjórna leiknum og því höfðu Hull-menn náð að skora tvö mörk. Því gerði hann breytingar í hálfleik og hvað gerðist? Jú, Liverpool-liðið stjórnaði seinni hálfleiknum algjörlega og Hull-menn komust varla í færi, en það gerðu okkar menn heldur ekki og leikurinn fjaraði út í leiðinlegt 2-2 jafntefli. Eins og hann var að spilast fyrir leikhléð er ég 110% viss um að okkar menn hefðu unnið öruggan sigur ef þeir hefðu fengið að hefja seinni hálfleikinn eins og þeir enduðu þann fyrri, en það skipti Rafa meira máli að ná stjórn á vellinum og vinna 3-2 heldur en að halda áfram stórsókninni og vinna kannski 5-3, og því fór sem fór.

Þetta er að mínu mati Rafa í hnotskurn. Ég ber mikla virðingu fyrir honum og er enn á því að hann sé rétti maðurinn til að klára dæmið fyrir okkur, en til þess að það gerist er ég hræddur um að hann þurfi að breyta nálgun sinni að leikjum gegn minni liðum til að okkar menn geti unnið fleiri leiki. Það er einfaldlega of dýrt að hafa stjórnað gangi leiksins í níu heilum leikjum í vetur og gert jafntefli í þeim öllum. Þá vil ég frekar fá smá öngþveiti og fimm sigra og fjögur töp. Fimm sigrar og fjögur töp í þessum jafnteflisleikjum gæfu okkur sex stigum meira en jafnteflin hafa gefið. Vinni United leikinn sem þeir eiga inni eru þeir með fimm stiga forskot á okkur. Við gætum verið á toppnum með fimm leiki tapaða í deildinni ef Rafa bara spilaði ögn ævintýragjarnara á köflum.

Undanfarið, þegar ég á í hrókasamræðum um Liverpool, hef ég notað Barcelona-liðið í vetur sem góða samlíkingu. Fyrir 3-4 árum voru Barca með besta lið Evrópu og urðu Evrópumeistarar ári á eftir okkur, vorið 2006. Eftir það fór liðið að dala undir stjórn Rijkaard sem virtist festast um of í einhverri formúlu sem hafði eitt sinn virkað en gerði það ekki lengur. Hann reyndi að troða Thierry Henry inn í þessa formúlu sína, sem og Eiði Smára, Bojan Krkic og fleiri slíkum, en það gekk ekki. Þeir léku á köflum vel en ekki nógu vel til að sigra deildina heima fyrir, né Evrópu, og því varð Rijaard að víkja.

Sl. sumar tók Pep Guardiola við liðinu og gerði örfáar breytingar. Hann lét Ronaldinho og Deco fara og fékk Dani Alvés og Seydou Keita í staðinn. Á pappírnum má segja að það hafi hvorki veikt né styrkt liðið, en það sem Guardiola gerði í framhaldið varð til þess að Barca-liðið stökkbreyttist í sennilega langbesta knattspyrnulið plánetunnar þennan veturinn.

Það sem Guardiola gerði var einfalt: hann sleppti mannskapnum lausum. Hann gaf Henry, Eto’o og Messi skýrar rullur í sókninni og róterar svo skynsamlega mannskapnum fyrir aftan þá (þó aldrei Xavi og Puyol sem eru eins og þeirra Gerrard og Carra, spila alla leiki sem þeir geta). Árangurinn er augljós. Auðvitað er auðvelt að segja að þetta sé gott af því að hann er með svo marga góða leikmenn innanborðs en hann er með nánast sama mannskap og kostaði Rijkaard starfið. Rijkaard náði aldrei eins miklu úr þeim stórkostlega sóknarauði sem hann hafði til yfirráða – Guardiola hefur hins vegar tekist það, allavega enn um sinn.

Hjá Liverpool eru leikmennirnir Fernando Torres, Steven Gerrard, Dirk Kuyt, Albert Riera, Robbie Keane, Yossi Benayoun, Ryan Babel og Xabi Alonso. Þessir leikmenn geta auðvitað aldrei spilað allir í einu, og síst af öllu í tvísýnum stórleikjum þar sem refskákin skiptir öllu máli, en ef Rafa gæti hnoðað þessu saman í sóknarsveit sem gæti mætt liðum eins og Wigan, Fulham, Stoke, West Ham og Everton af fullum þunga ætti ekkert þessara liða að geta staðist okkur snúning.

Rafa er snillingur í útsláttarkeppni og hinni taktísku refskák sem einkennir stórleiki. Hann hefur náð frábærum árangri með takmörkuð fjárráð á fyrri árum og er enn gríðarlega vinsæll á meðal flestra stuðningsmanna Liverpool. En ef hann nær ekki að beisla þann gífurlega sóknarþunga sem býr í leikmannahópi hans, ef hann lærir ekki að Sleppa Dýrinu Lausu gegn lakari liðum í Úrvalsdeildinni gæti það hreinlega orðið honum að falli sem knattspyrnustjóri Liverpool.

Menn hafa farið fyrir minna.

47 Comments

  1. Er þetta ekki oftast kallað þráðarán, með fleirtölu á spjallborðum, en ekki þráðrán?

    Annars styð ég þessar aðgerðir fullkomlega.

  2. Frábær pistill KAR og í raun akkúrat það sem menn hafa verið að tala um hérna að undanförnu. Rafa þarf að læra að “go for the kill”. Það er ekki nóg að hafa stjórn á leiknum ef þú getur ekki skorað þannig. Það býr svo miklu meira sóknarlega í þessu liði en það hefur sýnt og Rafa þarf að nota sér það. Auðvitað er þetta þunn lína og við eigum ekki alltaf að vera á útopnu að sækja, en ég held að allir sem þetta lesi viti um hvað ég er að tala.

    …ég sé síðan að þú hefur lesið greinina sem ég póstaði inn í hinn þráðinn…þessa með jafnteflin 9 þar sem 5 sigrar og 4 töp eru 6 stig meira…4 sigrar og 5 töp eru 3 stig meira 🙂

  3. Flottur KAR og segir allt sem þarf.
    Ég reyndar vill fara yfir málið aftur í apríllok og sjá hvernig mál standa þá. En er hundfúll með stöðuna síðustu leiki!
    Varðandi Guardiola er málið þar að á ferð var maður sem þekkti Barca alveg og spænska boltann. Hafði fylgst með og vissi strax hvað hann vildi gera, en vissi líka alveg hvað þurfti að gera, auk þess sem leikmennirnir voru búnir að ganga í gegnum slæma hluti og þráðu breytingu. Nokkuð sem ég er ekki handviss um að sé hjá Liverpool.
    En ef breyta á um þjálfara, sem ég er ekki tilbúinn að heimta núna, er þetta uppskriftin. Það þarf að finna mann sem þekkir okkar lið og enska boltann út í gegn, þarf ekki sumarið eða næsta tímabil til að finna út hvað þarf að gera. Hann þarf ekkert að hafa unnið einhverja stóra titla, miklu mikilvægara er að á ferðinni sé maður sem er sterkur karakter en auðmjúkur fyrir félaginu og langar að vinna þar sigra.
    Semsagt, Martin O’Neill……
    Varðandi ritstjórnina er óþarfi að taka það fram að við stöndum allir þétt við þessa ákvörðun og ég er sannfærður um að hún er hárrétt og mun kippa síðunni enn ofar! Þráðrán, eða þráðarán, er stórkostlegt nýyrði!!! Nú er bara að hætta því félagar, en vera óhræddir að vera ósammála, vera svekkt þegar illa fer og gleðjast þegar vel gengur!
    Come on you Reds!!!

  4. Frábær pistill
    Við erum vel inni i myndinni enn þá. Eins og góður vinur minn sagði við mig í dag, ”ÞAÐ ERU 45 STIG EFTIR Í POTTINUM”. Í fyrra vorum við óstöðvandi eftir slakan janúar mánuð og það er ekkert sem segir að það endurtaki sig ekki aftur.
    Við erum í bullandi titilbaráttu við Man U og Chelsea, sem eru á pappírunum mun sterkari en við, og það er nú Benitez að þakka. Það er frábær viðureign í vændum í CL á móti Real Madrid, og eins og pistla-höfundur skrifar ( sem ég er sammála) er enginn betri en Benitez í svona stórleikjum. Og svo toppbaráttu slagur á Sunnudag, sem við komum dýrvitlausir í. Er þetta ekki svona sem við viljum hafa það ?
    Það eru spennandi tímar framundan

  5. Klárlega þráðarán að fara tala um Martin O’Neill hérna, út með þig Maggi 🙂

    En í þessari Pep Guardiola líkingu, hvað með Sammy Lee? Þar er maður sem þekkir liðið betur en konuna sína og er “örlítið” inní málunum á Anfield. Hann er frábær að peppa menn upp og hugsanlega okkar Guardiola.

    Ég er á því að það er of snemmt að tala um að reka Rafa, en EF það gerist þá eigi nýr stjóri einmitt að gera svipað og títtnefndur Guardiaola. Koma með sínar áherslur inn án þess þó að umturna öllu eins og Rafa þurfti að gera og halda þannig áfram. Með öðrum orðum, byggja eftir eigin höfuði ofaná það starf sem Rafa hefur unnið. …ræðum þetta mál betur í sumar 🙂

  6. já skemmtilegt nokk að þessi þróun umræðu, gróft skítkast, skuli koma á þessum tímapunkti þar sem við erum á stað í janúar þar sem við höfum ekki verið í mörg ár. Spurning hvort að margir stuðningsmenn Liverpool höndli ekki pressuna? Við skulum heldur ekki gleyma því að þrátt fyrir þessa “skelfilegu spilamennsku” þá höfum við ekki tapað leik og erum í raun búnir að vera mjög óheppnir að 2 leikir hafi ekki unnist. Þannig að við ættum aðeins að slaka á og veita liðinu okkar meiri stuðning í stað þess að bölsótast og draga umræðuna niður á svo miður málefnalegt stig og þannig draga hvorn annan niður í leiðinni. því við þurfum ekki á því að halda.
    Ég styð því þessa ákvörðun um þráðrán eða þræðarán fullkomnlega.
    p.s. Annað Spurning um að setja kannski upp einhvers konar hugmyndabanka þar sem hægt er að koma með tillögur að umræðum ef einhverjir hafa mikla þörf fyrir að ræða e-h.

  7. “Fimm sigrar og fjögur töp í þessum jafnteflisleikjum gæfu okkur sex stigum meira en jafnteflin hafa gefið.” – Ég tárast næstum við tilhugsunina.

    Annars bara býsna góður pistill 🙂

  8. Halldór – Ég kalla þetta þráðrán því það er aðeins verið að ræna einum þræði í einu á þessari síðu, skilurðu. 😉

    Benni Jón – Sammy Lee er klárlega okkar Guardiola-týpa. Enda myndi ég, í fullri hreinskilni, frekar vilja gefa honum séns en að reyna að ráða e-n utanaðkomandi ef til þess kæmi á næstu misserum að við þyrftum að ráða nýjan stjóra.

    Maggi – Martin O’Neill er ekki málið. Hann er frábær þjálfari en ekkert sérstaklega vel liðinn í Bítlaborginni að mér skilst (sem undirtylla Brian Clough á sínum tíma) og hann þekkir Liverpool-liðið ekkert betur en Rafa þó hann sé frá Bretlandseyjunum.

    Anton Rafn – eins og ég sagði, nýtið ykkur ritstjórnina. Ef menn vilja endilega ræða eitthvað sem hefur t.d. ekkert verið nefnt á síðunni er sjálfsagt að henda á okkur tölvupósti. Við getum þá hent inn færslu fyrir umræður um slíkt ef vilji er fyrir hendi.

  9. Tek undir þetta og ítreka þess vegna: Benítez á ekki að vera framkvæmdastjóri liða heldur aðstoðarþjálfari eða ráðgjafi. Hann hefur vissa sýn á fótboltan sem nær svo og svo langt en það þarf einhver aðeins víðsýnari mann til þess að fara alla leið.

  10. Tek fullkomlega undir með KAR

    Eins og talað úr mínu hjarta

    Flottur pistill

    Ekkert meira um það að segja

  11. Heyr heyr KAR, magnaður pistill sem þurfti að henda hingað hinn.

    algjörlega sammála þér með rafa, hann er vonandi ekki það þrjóskur að hann geti ekki breytt þessu og farið að spila soltið wild á móti minni spámönnum þegar á þarf að halda.

  12. Þráðrán er rosalega flott orð. Sennilega er þetta nýyrði.

    YNWA

  13. Frábær pistill og skemmtileg lesnig.

    Þegar menn segja að þeð eigi að reka Rafa, þá hugsa ég oft… Hvar á að taka við??? Það er ekkert mikið af stjórum sem mér finnst vera verðugir til að taka við liðinu á lausu. Rafa er búinn að gera mjög góða hluti með liðið, rífa það upp úr meðal mennsku. Staðan væri önnur ef hann hefði fengið allan þann stuðning sem hann hefði viljað og fengið þá leikmenn sem hann vill hverju sinni, ekki taka alltaf 2 og 3 kost.

    Tek tvö dæmi um stuðninginn. Hann vildi fá Simao á sínum tíma, en ágreiningurinn voru einhverjar 2 milljónir punda. Frábær leikmaður þar á ferð, góðir möguleikar á kanntinn. Dani Alves, sama dæmi upp á teningnum, enhverjar 2 millur. Vildu bara borga 10 í stað 12, þar misstum við besta hægri bakvörð í heimi í dag. Barcelona kaupa hann ári seinna á 20+ millur.

    Rafa er snillingur og vonandi fær hann nýjan samning þar sem hann fær að ráða því sem David Morse virðist vera að klúðra.

    Kröfurnar eru háar að halda með Liverpool og liðið á að vera í toppbaráttu, og liðið er búið að standa sig betur en ég átti vona á satt að segja. Núna fer þessum down-kafla að ljúka með glæsilegum sigri á sunnudaginn.

    YNWA

  14. Sammála flestu sem sagt er hér ad ofan, einnig tel eg lika ad lidid turfi ad halda afram ad saekja tott ad lidid se komid i 2-0 eda eitthvad álika, ekki nog med ad tad komi ser vel a markatolu(samanber united i fyrra tar sem ef chelsea hefdu ekki misst lokaleikinn i bull ta hefdu united unnid a markatolu) heldur er fatt betra fyrir lidsmoral heldur en ad busta lid, tetta vita allir sem hafa stundad fotbolta a aevinni og hvada lid sem er sem vann sidasta leik 4,5,6-0 kemur inn i naesta leik af rosa krafti og fullir sjalfstraust

  15. Fínn pistill. Segi bara aftur það sem ég hef sagt áður. Ég vil bíða með semja við Rafa þangað til eftir tímabilið og þá á að meta árangurinn.
    Verð að játa að ég er orðinn ansi þreyttur á leik Liverpool undir stjórn Benitez. Mér þykir liðið ekki spila skemmtilega knattspyrnu, takmarkað árangursríka, jú,,fínn árangur í CL. Premier League er náttla það sem allt snýst um og þar hefur liðið ekki náð góðum árangri. Liðið stefnir enn eitt árið að vera keppast um 4 sætið. Einhverjir kunna segja manni að hætta þessari svartsýni og benda á að liðið sé bullandi toppbaráttu,,,,,en lets face it. liðið hefur einfaldlega ekki nægjanlegt quality til þess að berjast um meistaratitilinn, einfaldlega of mikið af meðalskussum innan um Gerrard, Torres, Alonso, Carra og Reina. Liðinu vantar 2-3 leikmenn í Torres/Gerrard klassa til að keppa um titill….that is a fact.
    Hverjum er um að kenna??? Benitez, sem hefur farið illa með fé til leikmannakaupa. Keane, Riera, Dozzena og Ngog,,,einfaldlega öll kaup fyrir þetta tímabil hafa engan veginn virkað.
    Það að engin sé þjálfari sé á lausu betri en Benitez sé á lausu er bara bull,,,álíka trúvilla Sjálfstæðisflokkurinn hefur troðið inní hausinn á fólki að hann sé ómissandi við stjórnvöldin, annars fari allt til andskotans.
    Það er nóg af öðrum hæfileikaríkum managerum þarna úti sem myndu vilja taka við Liverpool.
    Það væri virkilega ánægjuleg tilfinning að sjá framkvæmdastjóra hjá Liverpool sem myndi fagna marki sem þegar liðið skorar og myndi sýna smá ástríðu fyrir leiknum. Fyrir mér sýnis mér liðið vera áhugalaust og algjörlega án allrar leikgleði undir stjórn Benitez. Sjáið bara Pennant sem dæmi sem átti stórleik með Portsmouth í síðasta leik og virtist virkilega njóta þess að spila fótbolta…..verð að játa að ég hef ekki séð mikla leikgleði í leik Liverpool undanfarið. Það ríkir jarðarfararstemmning í leik liðsins undir stjórn Benitez…..

  16. Sammála maðurinn er frekar sorgmæddur svona oftast nær..eða kannski er hann bara svona feiminn…veit ekki

  17. Mér finnst einhver veginn betra flæði í orðinu “þráðarán”.
    En hvað sem öðru líður þá hefur Rafa allavega fært okkur upp um eitt þrep á þessum árum sem hann hann hefur stjórnað liðinu, það er tekið alvarlega í toppbarátunni í ár.
    Svo er spurning hvort hann ráði við að taka síðasta og erfiðasta skrefið upp á toppinn.

  18. Væri ekki líka réttara að segja “þráðarrán” en “þráðrán”? Jæja, nóg um það 🙂

  19. Benni Jón og KAR. Skal alveg taka undir það með ykkur að við ættum að skoða Sammy Lee. Líst ekkert illa á það í sjálfu sér, hann yrði þó að mínu mati að fá mann með sér í kringum leikmannakaup og slíkt að mínu mati. Kannski kóngurinn Kenny gæti orðið Director of Football með vini sínum Lee og Parry þá látinn fara.
    Ég er búinn að lesa þennan snilldarpistill þinn KAR oft og verð alltaf meira sammála honum. Það er alveg ljóst að síðasti leikur, og þá sérstaklega skiptingar Rafa hafa vakið hneykslun og reiði á meðal okkar, stuðningsmanna þessa góða liðs. Þær skiptingar höfðu þau áhrif á mig líka og ég verð að viðurkenna að í fyrsta sinn lengi, síðan við töpuðum gegn Barnsley, sá ég alveg skynsemi í því að láta karlinn fara.
    Það er ennþá alveg inni í mínu höfði, en!
    Besta lausnin teldi ég vera einfaldlega þá að Sammy Lee færi nú í það verk að finna aftur Rafann frá í haust sem vann United, Middlesboro’, Wigan og Man City eftir að hafa lent undir.
    Eina leiðin til þess held ég líka að sé einföld. Spilaðu þínum bestu 11 og hættu að spá í leiki eftir vikur eða mánuði. Starfið hans er á línunni og ef hann er eins hamingjusamur í borginni og hjá liðinu og ég veit hann verður hann nú að skilja sálina í liðinu og vera tilbúinn að taka áhættur. Ég hlusta ekki lengur á það að við “stjórnuðum leik”, eða “nýttum ekki færin”. Vísan KAR í Hull-City leikinn er frábært dæmi, ef við svo berum það saman við Wigan á heimavelli sést augljóslega hvar munurinn liggur.
    En Benitez á einn stóran ókost. Hann er þrjóskur. Ef sá eiginleiki fær að ráða næstu vikur er ástarævintýri Spánverjans að fara að enda.
    Þrátt fyrir frábært starf hans í uppbyggingu félags sem var í tætlum þegar hann tók við.
    Því vona ég enn að hann sjái hvað þarf að breytast og liðið hrökkvi í haustgírinn, karlinn haldi liðinu að verki, vinni titil og fái alvöru sóknarvængmenn í sumar, læri að vinna á veikleikum sínum í enska boltanum og verði á Anfield lengi.
    En vona er ekki það sama og að trúa……..

  20. Góður pistill KAR. Er búinn að vera ræða sömu nálgun varðandi Benites við nokkra poolara undanfarið. Tek heilshugar undir með þér.

  21. Það er ekkert nýtt að Rafa gangi illa á móti “litlu” liðunum, og hann hefur oft verið gagnrýndur fyrir að vera betri í Evrópu en í deildinni. Þetta átti nú að lagast með Sammy Lee sem aðstoðarstjóra. Annaðhvort er hann ekki að standa sig frekar en Rafa, eða þá að hann er ekki að taka mark á Lee.

    Semsagt, Sammy Lee hefði alveg getað og átt að gera eitthvað í mörgum þessum leikjum, eða þá að hafa breytt hugarfari Rafa.

    Myndi ekki vilja sjá hann sem aðalstjóra Liverpool.

  22. Frábær pistill, get til dæmis sagt frá því að ég hef ekki litið inná Wigan ummælinn, hreinlega nenni ekki að lesa þetta lengur. Ég segi bara bjargið http://www.kop.is Skiftir engu hvaða aðferðum verður beitt, með þessu áframhaldi er hún dauðadæmd hvort sem er

  23. Les þessa síðu á hverjum degi en kommenta sjaldan. Verð að hrósa KAR fyrir pistilinn og algjörlega sammála honum. Þú átt greinilega mjög auðvelt að koma hugsunum/skoðunum niður á blað – virkilega vandað.
    Eitt sem ég nefni yfirleitt þegar ég þá kommenta er svo hversu mikið ég sakna þess að sjá strákum úr varaliðinu gefið tækifæri. Búið að að sækja fullt af efnilegum strákum en lítið skilar sér upp í aðalliðið. Er samt mjög sáttur að Insua sé loksins farinn að fá tækifæri og vonandi uppfylla þær vonir sem við hann voru bundnar.
    Er samt að átta mig á því að ég er kominn út af sporinu með efni þráðarins (tengist samt Rafa :-)) og biðst fyrirfram afsökunar á því. Kannski kemur kemur einhvern tímann þráður um vonarstjörnur okkar.

  24. Sælir félagar,
    Ég hef eflaust verið einn af fáum sem las sig í gegnum allt spjallið eftir Wigan leikinn. Mér fannst nú umræðan að mörgu leyti ágæt, kannski var búið að taka mesta skítinn út. Að halda svona spjallborði á gullnum meðalvegi er mikil list. Það ber að varast of mikla ritstjórn en það þarf líka að halda uppi gæðum á spjallinu. Ég verð að segja að hingað koma margir góðir pennar, ekki eingöngu ritstjórnin heldur líka menn sem færa rök fyrir máli sínu. Þar má nefna Þórhall Jónsson, Sigkarl og Benna Jón, sem eru nú oftar en ekki með Benítez á hornum sér, en setja (oftast) rök með máli sínu og það ber að virða. Spjallið yrði mun fátækara án þessara – og annarra – sem eru ósammála meginþorra spjallverja.
    Hins vegar koma síðan menn eins og umræddur Grétar, sem ekkert er hægt að gera við annað en að banna og styð ég ritstjórnina fullkomlega í því.
    Það sem ritstjórn ber að varast, og hún hefur í flestum tilfellum gert vel, er að passa að tala ekki niður til spjallverja þótt þeir séu ósammála. Þeim ber að varast að þurrka út ummæli sem eru ekki þeim að skapi ef þau eru vel sett fram og rökstudd. Ég held að þetta gangi í meginatriðum ágætlega. Við verðum að horfast í augu við að spjallverjar koma brjálaðir inn eftir tapleiki og hella úr skálum reiði sinnar. Það verður að mega.
    En að greinu KAR á Benítez, þá er ég algjörlega sammála. Það eina sem má kannski bæta við í þetta er að hann er í sjálfu sér bara með einn “flair” spilara – Benayoun. Hann virðist ekki vera sérlega hrifinn af svona leikmönnum og kaupir þá ekki. Þetta eru leikmenn sem eru kannski óstöðugir og ekki sterkir varnarlega og það er einfaldlega eitthvað sem Rafa þarf að sætta sig við. Það þarf svona leikmenn í þessa leiki til að klára smærri liðin, það þarf að stilla upp fleiri svona leikmönnum í þessa leiki. Þá er alveg óhætt, eins og menn segja, að spila Alonso einum á miðjunni í þessum leikjum, með Gerrard fyrir framan hann og Torres og Keane sem senterapar. Eða Torres og Kuyt. Eða, ef Crouch hefði ekki farið, Torres og Crouch.
    Benítez hefur gert margt gott og leyst mörg vandamál. Hann á þónokkur eftir, en hann er á réttri leið. Við höfum ekki verið í eins góðri stöðu í mörg ár og það ber að hafa í huga, hvort sem menn segja að það sé af því að hin liðin séu slakari.

  25. Ég veit nú ekki alveg með Sammy Lee sem næsta knattspyrnustjóra? Hann er auðvitað frábær karakter og mótivator og nær vel til leikmanna á persónulegu leveli. Ég efast þó um færni hans og leiðtogahæfileika sem knattspyrnustjóri og strategískur leikstjórnandi. Ég held að hann ætti erfitt með aga leikmenn til. Hann er eiginlega of viðkunnalegur. Kannski of viðkunnalegur að leikmenn sýni honum þá óttablöndnu virðingu sem er nauðsynleg til að halda þeim á tánnum? Þá sýndi hann nú ekki mikið í frumraun sinni sem knattspyrnustjóri Bolton, liðið var saurslakt og spilaði hrútleiðinlegan fótbolta undir hans stjórn, einhvers konar “random football”. Keypti jú Heiðar Helguson, voru það sniðug kaup? Það er kannski ósanngjarnt að dæma hann af svo stuttum ferli og með þann efnivið sem hann hafði úr að moða , en þó finnst mér Megson hafa stýrt liðinu betur eftir að hann tók við. Ég held hinsvegar að hann sé einn sá besti nr. 2 sem hægt er að hafa í deildinni og sannarlega frábær viðbót í teymi Liverpool, eða eins og Stefán Friðrik myndi segja:”frábær viðbót heilt yfir”.

  26. Sammála biggun nr.24 … væri vel til í að lesa góðan pistil um vonarstjörnur okkar í varaliðinu eins og hann orðaði það. Maður þekkir þá bara ekki nógu vel sem leikmenn.

  27. Flottur pistill, þó að ég komi hingað nokkrum sinnum á dag þá commenta ég örsjaldan, nema ég hreinlega verði að koma skoðun minni í ljós. En neikvæðnin á þessari síðu skín skært með þessum ummælum, enda les ég öll og blöskrar stundum hvað menn geta verið svakalega pirraður og skrifað það hérna heldur en að hugsa aðeins jákvæðara og fengið útrás á eitthverju til að róa sig.

  28. Ívar Örn, það sem við eyddum í Wigan þræðinum var nánast alltaf skítkast, eða eitthvað sem bætti engu við umræðuna. Þar með talið uppnefningar á Benitez eða öðrum leikmönnum.

    Við ætlum að ganga lengra í því að eyða ummælum. Því fer auðvitað fjarri að við ætlum að eyða út öllum ummælum sem við erum ósammála, enda sér það hver maður að það höfum við ekki gert eftir Wigan leikinn. Heldur bara vitleysunni og skítnum. Ég hef ekkert á móti því að menn vilji reka Benitez. En þegar að kommentið er bara “reka benitez” þá sé ég ekki tilganginn í að halda því inni, ekki frekar en “gerrard er æði”. Það bætir engu við umræðuna.

    Því það er oft svo að það eru ekki bara skítakommentin sem skemma fyrir ein og sér heldur fara aðrir oft í því að þræta við þá sem koma með ruglkommentin og það skemmir hlutina enn meir.

    Ég held einmitt að ein ástæðan fyrir því að umræðan eftir Wigan leikinn lítur ágætlega út (miðað við svekkelsið) var einmitt að við vorum duglegir við að eyða strax út mesta skítnum. Þannig gafst þeim sem vildu ræða málin af skynsemi betra næði til að gera það.

  29. Sælir félagar.
    Flottur pistill og býður uppá umræðu af viti. Sem vonandi gengur eftir. Ég vil ekki reka RB fyrr en þá á sumri komanda en það er þá alfarið árangurstengt.
    Að öðru leyti tek ég undir með Benna Jóni (skrítið hvað ég er oft orðinn sammála honum 🙂 og Ívari Erni #25.
    Pistill KAR bendir á ýmislegt sem menn sem gagnrýna RB hafa verið að kvarta undan. Mér finnst eins og vanti drápseðlið í hinn blóðheita spánverja. Það að taka einhverja sénsa framávið, að skora bara fleiri mörk en andstæðingurinn. og vinna leiki hvað sem það kostar, þetta er ekki til í hans orðabók,
    Tölfræði og varfærni, massívt skipulag sem oft virðist ófrávíkanlegt, og þar af leiðandi skringilegar uppstillingar og skiptingar er oft að fara með mitt takmarkaða sálarlíf. Ég sé ekki fram á að það breytist neitt og án þeirra breytinga er Rafael Benitez einfaldlega á leið frá Anfield. Hvort sem mönnum er það ljúft eða leitt.
    Það er nú þannig.

    YNWA

  30. PS.
    Eru hinar fallegu myndir af fallegum L’pool aðdáendum dottnar út fyrir lífið???

  31. Toggi og Carsten, lesið það sem ég skrifaði um „þráðrán“ í pistlinum hér að ofan. Og svo ég svari þér stuttlega, Toggi, svo þú haldir ekki að ég sé að reyna að blokka út dylgjur þínar um að pistillinn minn sé stolinn, þá sagði ég í pistlinum hér að ofan að ég hefði lesið ýmsar greinar sem gáfu mér mikið til að hugsa um í kjölfar Wigan-leiksins. Times-greinin var ein þeirra og fékk ég t.a.m. Hull-ábendinguna þaðan. Það er ekki þar með sagt að ég hafi verið að hermiskrifa þessa færslu.

    Höldum áfram með umræðuna sem var í gangi. Ef þið eruð ósáttir við þetta, sendið mér þá póst.

  32. Ég skil vandamálið með ummælin en finnst svolítið gamaldags og vandmeðfarið að ritskoða ummæli. MBL virðist hafa aukið þetta nýlega og ekki gengið vel, ég veit ekki til þess að þeir hafi birt neinar leiðbeiningar um hvaða reglum þeir fylgja við ritskoðun ummæla og hefur ritskoðunin verið umdeild.

    Það þarf að sjálfsögðu að eyða út færslum á útlensku (þmt þegar enskuslettur s.s. ,,róteringar” ganga of langt 🙂 ), hatursbréf, kynþáttahatur, fordóma gegn samkynhneigðum og slíkt. En þráðrán finnst mér engu skipta og best væri að láta fólk vita ef ummælum þeirra eytt með tpósti. Svo mætti líka nota tæknina og setja vafasöm ummæli neðst í ummælahrúguna eða jafnvel leyfa lesendum að dæma ummæli neðar í hrúguna.

    Sjá til samanburðar reglur Guardian um ritskoðun ummæla, þessar reglur reyndar orðnar alltof langar og líklega vegna þess að þær hafa verið umdeildar: http://www.guardian.co.uk/talkpolicy

  33. Umræðan um Benitez er mjög áhugaverð og spjallverjar mjög margir á því að hann eigi að fara af því að hann hafi ekki enn skilað ÁRANGRINUM, þ.e. enska meistaratitlinum. Óskaplega væri nú ánægjulegt að upplifa þá tíma aftur og sú ósk er væntanlega í brjóstum allra Liverpoolmanna. Í upphafi leiktíðar áti ég ekki von á að við værum í þeirri stöðu sem við nú erum einfaldlega af þeirri ástæðu að ég tel að það vant ennþá upp á að liðið nái þeim gæðum sem þarf. Við berum okkur gjarnan saman við United, Chelsea og Arsenal og viljum að sjálfsögðu vera betri en þau. Það þarf tvennt til að það takist, gæði leikmanna og hvernig þeir ná saman. Rafa hefur verið í þeirri stöðu undanfarin ár að endurnýja lið frá grunni og ná inn bæði breidd og gæðum. Hann hefur ekki haft úr nægu fjármagni að spila og hefur því farið þá leið að kaupa mikil gæði (t.d. Torres) í ,,litlum mæli“ og minni gæði (t.d. Benayoun, Arbeloa) í meira mæli. Ferguson, Mourino/Scolari og Wenger hafa fengið að kaupa þá leikmenn sem þeir báðu um en Benitez hefur þurft að bera málin undir Parry og niðurstaðan oft orðið kostur nr. 2. Þar töpuðust til dæmis Simao, Alves og Barry. Þá yfirbuðu United okkur t.d. hvað Vidic varðar. Frammistaða liðsins í haust hefur því komið þægilega á óvart enda Torres búinn að vera mikið frá og Keane hefur komið mjög á óvart með því að hafa verið skelfilega slakur í heildina. Þrátt fyrir þetta erum við alveg við toppinn og höfum sýnt frábæra leiki en um leið grátið jafnteflin. Mín skoðun (kalt mat) er sú að það hafi ekki verið raunhæft að við ynnum titilinn þetta árið (vonandi rangt) en með kaupum á tveimur gæðaleikmönnum í sumar sé markmiðið orðið raunhæft . Það er þó háð því að stjórnin drullist til að ganga frá samningum leikmanna, t.d. Aggers, svo við missum þá ekki en það er bara sérstakt rannsóknarefni hvernig kaup/sölur/samningar ganga hjá Liverpool!

    Mönnum er tíðrætt um að Benitez hafi ekki það sem til þarf til að landa TITLINUM en hve margir framkvæmdastjórar hafa unið titilinn sl. 10 ár og úr hverju hafa þeir haft að moða? Mörgum er tíðrætt um Martin O´Neil sem er góður stjóri en að mínu viti hefur Benitez mun fleiri kosti… og stærri verðlaun. Mín skoðun er sú aðBenitez eigi að vera áfram en um leið er alveg bráðnauðsynlegt að hann sjái sjálfur um val þeirra leikmanna sem á að kaupa.

  34. Ég bara trúi því ekki að af 38 ummælum skuli enginn hafa gagnrýnt hershöfðingjatign þá sem Kristján Atli felur Lucasi! Pant allavega ekki vera í hans, sá leikmaður hefur ekkert sýnt sem sannfærir mig um að hann eigi erindi í þessa deild, viðurkenni að hann var að komast óvenjuþokkalega frá leiknum gegn Wigan m.v. hans standart þangað til hann gefur þeim annað stigið upp á sitt eindæmi.

  35. Ofboðslega er þetta þreytt umfjöllun um það hverjir stjórni síðunni. Snúið ykkur og einbeitið ykkur að Liverpool. Einu sinni var bara til einn guð sem heitir Fowler, nú eru til miklu fleiri (NB: ekki stjórnendur síðunnar). Er maður að verða ásatrúar? 🙂 Gerrard….. Torres….. o.fl…..o.fl……………..YES

  36. Steingrímur ekki reyna þráðrán um hábjartan dag vinsamlegast :), hér er Rafa og ristjórn til umræðu, ekki ásatrú þó að sú trú sé nú yfirleitt kaffærð af þjóðkirkjunni, þá er þetta ekki réttur vettvangur til að draga það óréttlæti fram í dagsljósið.

    Held að menn séu orðnir smá þreyttir á að ræða Rafa enda ljóst hvar veikleikar hans liggja og styrkur sbr. prýðilega samantekt KAR hér að ofan, og þá staðreynd að ekkert hefur gengið upp eftir hina löngu ásökunarræðu Rafa fyrir nokkrum vikum.

  37. Fínn pistill KAR. Ég held að vandamálið með RB sé þessi þrjóska sem býr í honum og að hann þurfi að taka til í sjálfum sér. Pennant og Redknapp eru báðir búnir að tjá sig( sjá Liv,klúbburinn) og þeir skilja hvorki upp né niður. Skiptingarnar hjá honum fá margann manninn til að gapa. Maður hefur það á tilfinninguni að hann sé búinn að ákveða hverjir fari útaf og kl: hvað (70 mín) áður en leikurinn sé hafinn. Koma svo LIVERPOOL.

  38. Sammy Lee er þar sem hann er bestur, sem #2.

    Martin O’Neil???? Ef menn eru svona áfjáðir í breskan manager þá bendi ég þeim hinum megin við garðinn þar sem David nokkur Moyes ræður ríkjum. Ef Rafa færi á morgun þætti mér margt vitlausara en að gefa honum séns. Hann er búinn að eiga mörg svona tímabil eins og O’Neil er á núna, nema bara með minna fjármagn.

  39. Ég vil það besta úr báðum heimum…
    Rafa uppí stúku og Lee á línunni!
    Við skoruðum 8 mörk í 2 leikjum, eftir uppskurð Rafa, móti Newcastle og Bolton… Láta Lee hvetja þá af línunni meðan Rafa les í taktíkina úr stúkunni

  40. Ég held að Liverpool sakni dáldið Insua núna. Hann var að ná góðum sprettun upp kantinn og fínum fyrirgjöfum. klassa betri bakvörður heldur en Carra og Aurelio. Svo er eins og það vanti aðeins dampinn í liðið eftir handtöku Gerrards. Getur verið að sú uppákoma hafi sáLræn áhrif á liðið.

  41. 32 Eitt svarið á þessum þræði sem þú hlekkjar í segir allt sem segja þarf: “If Rafa’s decision was the worst ever according to John Aldridge, then putting a penalty in exactly the same place in the cup final as every other you’ve taken all season comes a close 2nd.” Varðandi skiptinguna á Gerrard þá held ég að það hafi verið tilviljun sem réð því að hann fór útaf strax eftir markið. Stuttu áður hafði hann tekið sprett upp allan völlinn sem varð til þess að við fengum innkastið. Ef svo það er skoðað þegar þeir fengu vítið þá sést að Arbeloa, Carra, Skrtel Masch, Kuijt og Lucas er komnir uppað vítateig okkar meðan Aurelio er kominn inná miðjan okkar helming. Gerrard, Babel og Riera eru hinsvegar ekki í mynd. Mig grunar að þessi skipting hafi verið ákveðin áður en innkastið örlagaríka var tekið. Þess utan hafði Gerrard, líkt of Torres, varla verið með allan seinni hálfleikinn.

    Annars hefur mér oft þótt sem skríbentar á Bretlandseyjum og “sparkspekingar” hafi af einhverjum ástæðum ákafa óbeit á RB. Oft hefur það virðst sem það sé sama hvað hann geri, því það sé svo augljóslega rangt. Tökum sem dæmi hræringapólisíu hans. Af skrifum sumra þá mátti halda að þetta væri eitthvað sem hann hefði fundið upp. Hinsvegar ef vel var gáð, þá voru þeir stjórar sem í svipaðri stöðu voru að gera nákvæmlega hið sama. Minnir að ég hafi séð í grein eftir Tompkins að SAF hafi meir að segja hrært meira í sínu liði milli leikja. Í dag kemur síðan Torres fram og vill meina að heilsufarsvandamál hans megi rekja til þess hve mikið hann spilaði síðastliðinn vetur, og svo því að hann fékk sama og ekkert sumarfrí. Ef ég man rétt, þá voru einmitt margir á hinum ýmsu spjallborðum síðasta haust að bísnast yfir því að hann skyldi ekki spila alla leiki frá upphafi til enda.

    Annað sem mikið hefur verið blásið upp í vetur er svokölluð ill meðferð hans á Keane. Það er ekki laust við að ég hvái! Sé vel að gáð þá spilaði hann ca. 2/3 af mínútum liðsins í deildinni, og var þar einungis handfylli leikmanna sem spilað höfðu meir en hann. Þá vilja margir eflaust minnast á það hve oft hann var tekinn útaf. Hinsvegar virðist þá gleymast að t.d. Riera hafði oftar verið skipt útaf. Ágætis úttekt á hans ferli hjá Liverpool má finna hér … http://www.redandwhitekop.com/forum/index.php?topic=236032.msg5346135#msg5346135 . Annað því tengt sem margir hafa kokgleypt eru sögusagnir um að Keane hafi verið einhver sem Parry vildi fá, þvert á vilja RB, og hafa sumir gengið það langt að halda því fram að meint framkoma RB hafi verið einhver mannvonskuleg tilraun hans til að ná sér niður á Parry og eða kúrekunum að vestan. Þetta þykir mér allt ákaflega fjarstæðukennt. Hinsvegar er klárt að Keane, líkt og oft áður, átti í erfiðleikum með að höndla það að til hans væru gerðar einhverjar kröfur (sleggjudómar?). Má vera að hann hafi svo áttað sig á því að sumstaðar sé liðið og þarfir þess sett framar einstaklingnum og því tekið því fegins hendi þegar honum bauðst að fara aftur þangað þar sem hann hafði áður verið ás #1?

    Hér fyrir ofan er einnig rætt um meinta þrjósku RB, og er þar m.a. rætt um að hann ríghaldi í 4-2-3-1/4-5-1 kerfið sitt. Nú nýt ég þess að rita þetta eftir leikinn gegn Porstmouth. Þar er gott dæmi um leik þar sem hann bregst við styrk andstæðingsins og nýtir sér annað leikkerfi, og svo hvernig hann notar skiptingar til að bregðast við því þegar mótherjinn lagar sig að því. Ekki má heldur gleyma því að fram að ca, þessum tíma í fyrra, þá hafði Liverpool svotil eingöngu spilað 4-4-2 undir hans stjórn. Og það að hann skipti yfir má tengja við það að liðið fór á “run” seinni hluta síðasta tímabils og tryggði sér þáttöku í UCL.

    Þegar því er haldið fram að hann kunni ekki að spila við “litlu”, að það sé það er hindrar okkur, þá virðist það gleymast að ef Liverpool hefði unnið leikina gegn Chelsea og United síðasta vetur, þá hefðu þeir endað sem meistarar.

    Jæja, þetta voru nokkrar hugleiðingar mínar, vonandi ekki of samhengislausar. Vona að mér hafi tekist að halda mér innan þráðar og hafi ekki sært neinn.

    Hörður

Wigan 1 – Liverpool 1

Chelsea á morgun!