Meiri tölfræði

Olli setti hér á vefinn fínan pistil nýlega varðandi tölfræði liðsins okkar og þá datt mér í hug að sjá hvernig tölfræði leikmannanna okkar kæmi út.

Ég veit allt um það að tölfræði einstaklinga hefur ekki þótt skipta öllu máli í knattspyrnu, sem er töluvert frábrugðið öðrum íþróttum eins og körfu- og handbolta. Það er þó alveg morgunljóst að stærsti kostur þjálfarans okkar, og stærsti galli um leið, er að vera ákaflega yfirvegaður og vélrænn í sínum pælingum og taka heilmikið mark á tölfræði.
Ég veit auðvitað að hans tölfræði er byggð á mjög öflugum hópi leikgreinenda sem skoða sendingahlutfall, unna og tapaða bolta, heildarhlaup og alls konar hluti sem aðrir nenna ekki að fylgjast með.

En það eru nokkrir aðilar sem taka saman tölfræði og ég valdi mér þrjá til að skoða. Soccernet er með einfalda talning lykilatriða, Actim setur saman lykilatriði auk þess að meta heildaráhrif sem leikmaðurinn gerir, þ.e. bætir inn vinningshlutfalli liðs og þátttöku leikmannsins í lykilatriðum leiksins, Barclays úrvalsdeildarsíðan er svo með „Fantasy“ leik sem tekur til lykilþátta og svo dómnefndar sem setur upp bónus fyrir ákveðin atriði sem leikmennirnir leysa.

Ef við byrjum að skoða Soccernet tölfræðina og þá þætti sem þeir skoða þá kemur í ljós að við höfum leikið alls 30 leiki. Carra hefur tekið þátt í flestum, 29 talsins. Fernando Torres hefur spilað í 16.

Markahæstur er Steven Gerrard, með 13 mörk. Að meðaltali er það 0,52 mörk í leik. Meðaltal hans í þeim flokki er líka langhæst, næstur kemur Torres með 0,38 mörk í leik. Steven hefur átt langflest skot að marki, alls 105 eða 4,20 skot í leik. Í öðru sæti í meðaltalinu í skotum að marki kemur Dirk Kuyt með 2,72 skot í leik. Þar munar talsvert! Torres skýtur að marki 2,38 sinnum í leik. Skot á rammann koma flest frá fyrirliðanum og eru 37 talsins, 1,48 að meðaltali í leik.

Skothlutfall má reikna á marga vegu. Oftast er þó skoðað hlutfall heildarskota sem fara á rammann. Gerrard t.d. hittir 35,2% skota hans á markið. Hæsta hlutfallstalan er þó hjá Dirk Kuyt, 38,23% skota hans fara á rammann, Keane er með 35,71% og Torres er með 34,20%. Ef maður skoðar svo hjá þessum fjórum hlutfall þeirra skota sem enda í markinu af þeim sem fara á rammann??
Gerrard 35,10%, Kuyt 23,07%, Keane 46,70% og Torres 46,15%. Svo má draga alls konar ályktanir, Kuyt hittir oft á rammann en með léleg skot. Ef Keane og Torres hitta á rammann er oftast mark o.s.frv.

Flestar stoðsendingar á Steven Gerrard, 7 talsins. Hann hefur því átt lykilþátt í 20 mörkum liðsins. Svo eru sumir ekki ánægðir með hans frammistöðu í vetur…

Soccernet telur svo líka leikbrot sem leikmenn fremja eða verða fyrir. Javier Mascherano er sá sem brýtur oftast af sér, eða 1,88 sinnum í leik. Arbeloa er næstur með 1,74 og Lucas fær töluna 1,48. Arbeloa stendur þó verst ef gul spjöld eru skoðuð, hann hefur fengið 0,35 slík í leik, Skrtel 0,30 og Masch 0,18 . Oftast er brotið á Arbeloa! Það gerist í 1,91 skipti í leik, Riera verður fyrir því 1,54 sinnum í leik og Alonso 1,19 sinnum.

Þá er ekki úr vegi að líta á heildarstigagjöfina sem Úrvalsdeildin notar til að reikna út Draumaleikinn sinn. Þá er ofangreind tölfræði notuð en sérstök dómnefnd getur gefið bónusstig fyrir leik þar sem leikmaður hefur leikið sérstaklega vel en ekki endilega sést með tölfræðinni.

Steven Gerrard er þar langhæstur okkar manna, með 119 stig. Þar á eftir koma Reina, Carragher og Kuyt með 94 stig. Ef við skoðum hvernig þeir svo standa miðað við deildina kemst Gerrard einn leikmanna í 11 manna Draumalið deildarinnar en Reina og Carragher eru þó afar nálægt því. Dirk Kuyt er settur sem miðjumaður í leiknum en hann væri nálægt liðinu sem framherji.
Steven Gerrard er næsthæstur allra leikmanna í leiknum, en þó talsvert aftan við langefsta manninn, Frank Lampard. Þarna er einungis verið að skoða tölfræði Úrvalsdeildarleikja og ekki nein meðaltöl út frá mínútum.

Actim Index er svo hin eiginlegi tölfræðigrunnur deildarinnar. Þar er frammistaða leikmanna vandlega skoðuð út frá sömu þáttum en einnig bætt við frammistaða liðsins út frá þátttöku leikmannsins og leikgreinendur vinna nánar ofan frammistöðu einstaklingsins. T.d. telja þeir líka með brot sem dómari beitir hagnaðarreglu á!

Ef við skoðum okkar menn út frá heildarstöðu í þeim lista kemur eftirfarandi í ljós.

Pepe Reina er efstur í flokki markmanna, með 298 stig. Á eftir honum kemur Friedel og svo Cech. Jamie Carragher er efstur í flokki varnarmanna með 301 stig, en enginn annar okkar varnarmanna er á topp 10 listanum. Á eftir honum koma Bosingwa og Lescott. Steven Gerrard er hins vegar einungis í fimmta sæti miðjumanna en með 309 stig. Lampard er efstur, þá Barry. Við eigum svo hins vegar tvo leikmenn á topp tíu meðal sóknarmanna. Dirk Kuyt er í fjórða sæti með 320 stig og Robbie Keane er í sjöunda sæti með 256 stig. Anelka er efstur og Agbonlahor í öðru sæti.
Þegar lið ársins er skoðað eru Reina og Carragher okkar fulltrúar í því.

Ef við lítum á okkar lið er það semsagt opinbert mat ensku Úrvalsdeildarinnar að Dirk Kuyt sé mikilvægasti maður Liverpoolliðsins!!! Hann er með 11 stigum meira en næsti maður, Gerrard og er í 8.sæti á heildarlistanum fyrir leikmenn í deildinni.

Ef við drögum þetta saman er held ég ljóst að það er margt áhugavert. Mér finnst lítið gert úr frábærri frammistöðu Gerrard í vetur, án Torres, og tölfræðin er klárlega besti vinur Kuyt!

Það er svo hvers og eins að ákveða hversu mikið mark við viljum taka á tölfræði í uppáhaldsíþróttinni okkar, en á undanförnum árum hafa slíkar upplýsingar stöðugt aukið gildi sitt.

Og Rafael Benitez horfir GRÍÐARLEGA mikið á tölfræði sinna liða og leikmanna!

5 Comments

 1. mjög fín samantekt maggi og margt áhugavert þarna.

  gerrard að spila mjög vel í vetur og það kemur svolítið á óvart niðurstöðurnar með kuyt, sem skýra væntanlega hvers vegna hann er orðinn svona mikilvægur leikmaður, byrjar yfirleitt sem ég set ekkert út á enda fínn leikmaður.

  verður að gaman að sjá tölfræði torres á síðari hluta tímabilsins 🙂

 2. Sælir félagar
  Fínt yfirlit hjá þér <maggi og sýnir hvað tölfræði getur verið geggjuð. Og RB trúir á tölfræði. Þetta skýrir hvers vegna Kuyt er alltaf í byrjunarliði. Og tölfræðin mundi segja RB að ef hann ætti um að velja að hafa bara annaðhvort Gerrard eða Kuyt í liðinu mundi hann velja Kuyt. Er nema von að við höfum gert jafntefli við Stoke, ekki bara einu sinni á leiktíðinni heldur tvisvar. Og er nema von að við séum komnir í annað sæti.
  Það er nú þannig.

  YNWA

Us and Them

Samningavandamál!