Smá tölfræði, sem vonandi kætir

Næsti leikur Liverpool er á mánudagskvöldið, sem er alltof langt! Mig langar að reyna að gera þessa bið bærilegri með færslu sem kemur að tölfræði liðsins á þessu tímabili og síðustu tímabil. Mig langar líka aðeins að ræða um markaskorun liðsins í ár.

Sóknarleikur liðsins hefur verið gagnrýndur í gegnum tíðina og á núverandi tímabili hefur pirringurinn á sóknarmennina okkar ekki leynt sér. Robbie Keane var keyptur fyrir stórfé í sumar til að spila með hinum magnaða Fernando Torres í fremstu víglínu. Það sem af er af tímabilinu hafa þeir kumpánar báðir byrjað saman í 6 deildarleikjum, 6 leikir af 21. Þá spyr ég, get ég gagnrýnt kaupin á Keane jafn harkalega og ég hef verið að gera undanfarið? Nei, ég held ég þurfi að draga þau ummæli aðeins í land þegar ég sé þessa tölfræði. Auðvitað á Keane að vera búinn að gera betur, það er engin spurning, en guð minn góður hvað Fernando Torres bætir sóknarleik Liverpool um svo mikinn helling og ég er nokkuð viss um að Robbie Keane væri búin að spila betur og skora meira ef Spánverjinn væri búinn að leika fleiri leiki. Málið með Torres er það að hann skorar ekki bara heldur leggur hann upp mjög mikið líka, sem við sáum öll á draumatímabili hans í fyrra. Ég ætla því að róa mig aðeins á Robbie Keane og gefa honum smá break, vonandi fá hann og Torres fleiri leiki á næstu mánuðum og þá er spurning hvort að sóknarleikurinn verði ekki betri og leikmennirnir í kringum Torres og liðið allt öðlist ekki meira sjálfstraust.

Áður en ég leit á tölfræðina (sem ég kem með hér að neðan) var ég nokkuð sáttur við núverandi tímabil, ekkert alltof sáttur samt. Eftir að hafa litið á þetta betur sé ég mikla bætingu á liðinu, hún leynir sér ekki, hún er mun meiri en ég gerði mér grein fyrir.

Fyrir mér er bætingin eftirfarandi: Albert Riera kemur með mun meiri gæði inn í sóknarleikinn, Dirk Kuyt hefur bætt sig mikið og skorað óvenju mikið, Xabi Alonso er að spila eins og engill á miðjunni og hefur aldrei verið betri, meiri breidd í framlínunni, Sami Hyypia er að spila meira og betur en áður, Insúa hefur leyst öll vandamál sem tengjast vinstri bakvarðastöðunni og nær vonandi að festa sig í sessi það sem eftir lifir tímabils, Arbeloa er stöðugt að vaxa að mínum dómi. Svo má ekki gleyma starfsliðinu sem leikmenn og stjórinn hæla í hástert, að fá Sammy Lee inn er mjög jákvætt og ég var ótrúlega ánægður með hvernig hann brást við þegar Rafa missti úr nokkra leiki vegna aðgerðarinnar.
Fyrir utan allt þetta eigum við tvo heimsklassa leikmenn inni sem skorta leikform, þá Fernando Torres og Martin Skrtel sem voru báðir algjörir lykilmenn í fyrra, annar þeirra þó síðari hluta tímabilsins í fyrra.

Talandi um síðari hluta tímabils. Undanfarin tímabil hefur Liverpool liðinu vegnað töluvert betur á síðari hluta tímabilsins heldur en á því fyrra.

Tölfræðin hér að neðan á einungis við um Premier League og engar aðrar keppnir. Mig langar að bera stigafjölda á milli ára annarsvegar, og markaskorun á milli ára hinsvegar og sjá hvort Rafa sé að gera eitthvað af viti eða hvort þetta standi allt í stað hjá kallinum.

Kíkjum á tímabilið 2006-2007. Eftir 21 deildarleik (á sama tíma fyrir 2 árum) var liðið með 37 stig og skoraði í þeim 29 mörk. Úr næstu 17 leikjum kom liðið með 31 stig í hús, þarna munar 4 leikjum og 6 stigum. Max stig úr 4 leikjum eru 12 stig, Liverpool er ekki 50% lið og því er þetta klárlega betri síðari helmingur, þó ekki eins afgerandi góður og næsta tímabil á eftir. Ég gæti tekið tölfræðina eftir 19 leiki þegar mótið er hálfnað en þá erum við ennþá stödd í desember og ég vill hafa jólatörnina utan við þetta. Liverpool hefur spilað mjög vel í jólatörninni undanfarin ár og það myndi einungis gera okkur OF bjartsýn að hafa þá leiki með í síðari helmingnum. Að auki vill ég sjá hvernig við vorum síðustu tvö tímabil miðað við stöðuna í dag og bera þetta saman.

Kíkjum á tímabilið í fyrra, eða 2007-2008. Eftir 21 leik vorum við með 39 stig og skoruðum í þeim 36 mörk. Úr næstu 17 leikjum sem eftir voru af því tímabili halaði liðið inn 37 stigum. Þarna munar 4 leikjum en 2 stigum sem segir okkur það að síðari hluti tímabilsins hjá Liverpool var miklu miklu miklu betri.

Í ár erum við með 46 stig eftir 21 leik sem er 7 stiga bæting frá því í fyrra og 9 stiga bæting frá því fyrir 2 árum. Í þessum 21 leik hefur liðið skorað 35 mörk sem er 1 marki færra en frá því í fyrra. En við sjáum að bætingin fer úr 2 stigum upp í 7 stig á milli ára, sem að mínum dómi er ótrúlega mikið. Sjá tveggja stiga mun á mynd, æjæj.

Tímabilið í ár er því töluvert betra en síðustu ár og ef að sagan endurtekur sig þá mun liðið setja í 5. gír hvað varðar stigasöfnun fram að vori. Þrátt fyrir allt þetta eigum við Torres og Skrtel inni og þeir geta ekki annað en styrkt liðið. Ég get ekki annað en verið bjartsýnn.

Fyrir mér er stigafjöldi besta leiðin til að sjá hvort að lið sé að bæta sig, því það sýnir svart á hvítu hvernig liðinu gengur. Það er augljóst að Rafa Benítez er á réttri leið með Liverpool liðið, að vera án aðalmarkaskorara síns í meira en helminginn af leikjum mótsins en vera samt á toppnum og vera 7 stigum ríkari en á sama tíma í fyrra, tjahh, það er mjög gott afrek fyrir mér.

Ég veit ekki með ykkur en ég er mjög sáttur með tímabilið fram að þessu. Kröfurnar eru gríðarlegar, eftir hvert tapað stig eru margir hverjir mjög þungir á brún, sem sýnir bara hversu stórt félag Liverpool er. Væntingarnar og kröfurnar virðast aukast með hverju tímabilinu, sem segir okkur aðeins eitt, Rafa Benítez er á hárréttri leið með liðið þrátt fyrir allt sem á undan er gengið. Það sem stuðningsmenn leitast eftir er fullkomnun, tímabil með eins litlum frávikum og hægt er, fyrir mér er það eðlilegt krafa á Liverpool FC í dag og nú er bara að sjá hvernig nýja árið fer af stað. En miðað við tölfræði fyrri ára, þá ætti liðið að vera aðeins duglegri að næla sér í stig á síðari hlutanum, ég er bjartsýnn!

Takk í bili.

22 Comments

 1. Takk fyrir!
  Siguróli þessi samantekt er mjög góð og kemur á góðum tíma.
  Eftir að vera búinn að lesa alla þunglyndispóstana (skrifa sjaldan sjálfur) eftir Stoke leikinn var ég farinn að trúa því að UEFA sætið væri eina vonin. En sé svo núna að auðvitað lítur þetta bara mjög vel út.
  Frábært að vera efstir og vonandi förum við að raða inn nokkrum mörkum.
  Gott að efla liðsandann með tveimur sigrum á EVERTON:)
  YNWA

 2. Flottur pistill Olli, gaman að spá í þessu, við erum á réttri leið. Ekki spurning.

 3. Skemmtilegur pistill hjá þér siguróli. var einmitt að skoða svona tölfræðinna hjá Liverpool eftir benitez tók við liverpool. áberandi hva seinni hlutinn er oftast góður hjá þeim, hver man ekki eftir síðustu 2 mánuðunum í fyrra rosalegt gengi á okkar mönnum og Torres skoraði og skoraði. Hefur verið svona ákveðinn stíll hjá Benna að vera með liðið oftast í fantaformi seinni hlutar tímabils. svo er bara sjá hvernig það er að vera stöðugu formi all seasion hvort við þurfum eitt season í viðbót í gott langt tímabil, ég vona ekki 😉

  Ps. flottar myndir af stigum vona að liverpool þurfi ekki að fara upp allar þessar tröppur 🙂

 4. Flottur Olli!
  Nákvæmlega það sem við þurfum að heyra eftir dapran leik. Staðhæfi ef að við náum jafn góðum árangri í síðustu 17 leikjunum og í fyrra verðum við meistarar.
  Fróðlegt væri líka að líta á tölfræði einstaklingana, t.d. á Soccernet sem sýnir alla leiki vetursins….

 5. Frábær póstur hjá þér.
  Þetta lýsir aðeins upp skammdegið hjá manni að sjá að auðvitað eigum við þokkalega möguleika á titlinum í vor og liðinu hefur verið að ganga vel þrátt fyrir að leikmenn eins og Torres og Skrtel hafi verið lengi frá.
  En mér finnst samt að ef við eigum að hafa séns í þetta þá finnst mér vanta einn léttleikandi hraðan leikmann á hægri kantinn, einhvern á svipuðu róli og Riera. Kuyt finnst mér fínn í stóru leikjunum en með hann og Carra á hægri gerist ekki mikið.

 6. Glæsilegt framtak Olli og þarna sér maður betur heildarmyndina sem jú skiptir mestu máli.

  takk.

 7. Flottur Olli…
  Þetta er akkurat það sem maður hefur séð með Benitez, liðið hefur verið að bæta sig jafnt og þétt. Ég kom inn á svipaða punkta í commenti við áramótakveðjum EÖE þar sem innihaldið var að mig minnir að bætingin nú væri sú að við töpuðum ekki fyrir neinu af toppliðunum og unnum tvö af þremur.

  Að sjá þetta svona er auðvitað gott til að horfa á hlutina í samhengi en það gerir pirringinn ekkert minni þegar við klúrðum ítrekað leikjum eins og í síðasta leik gegn Stoke….aftur. Liðið hefur bætt sig og eins og ég hef sagt áður á alveg helling inni.

  Fyrir seinni hlutann í ár verður líklega, og vonandi, meiri pressa á okkar mönnum. Það fylgir því að vera í toppbaráttunni. Versta er að United virðist eiga meira en nóg inni líka, hafa ekki tapað í allt of langan tíma og ekki fengið á sig mark í 2 mánuði. Með þá í svoleiðis formi megum við bara ekki lengur sætta okkur við að tapa stigum gegn þeim liðum sem eru að fara falla í vor eða í það minnsta gera heiðarlega tilraun til þess. Fjarvera Torres er eitt og auðvitað mjög slæm, en með Kuyt sem lausn við þeim vanda erum við að gefa andstæðingum okkar óþarfa forgjöf.

  Eins er ég mjög sammála við Keane, hann var afskrifaður allt of fljótt af mörgum hérna, þar er leikmaður sem við eigum að miklu leiti inni sem gæti nýst okkur vel, sérstaklega með Torres.

 8. Ég verð að koma með einn punkt sem gleymist oft í þessum umræðum. Það sem er breytt frá fyrri árum þar sem Benitez hefur verið við stjórn er það að róteringin fræga hefur ekki verið jafn áberandi á þessu leikári og hún hefur annars verið. Ég hef alltaf skilið góðan árangur Liverpool á seinni helmingi ársins sem beina afleiðingu af róteringunni þar sem leikmenn eiga þá væntanlega meira inni en leikmenn liða sem spila á færri mönnum út tímabilið. Þetta er kannski rangt hjá mér en samt punktur.

 9. Ég er ekkert viss um að ef það yrði skoðað væri eitthvað minna róterað! Torres t.d. auðvitað lítið sem ekkert verið með og Carra, Gerrard og Reina spiluðu líka eiginlega alla leiki í fyrra. Í rauninni bara Arbeloa sem hefur bæst við í föstu mennina. Xabi, Lucas og Masch eru látnir rótera. Babel, Benayoun, Riera og Kuyt á köntunum. Þrír vinstri bakverðir.
  Munurinn er tvíþættur held ég. Nær allir okkar leikmenn falla að leikkerfinu og kunna að spila það OG það eru bara miklu meiri gæði í liðinu öllu, þ.e. bæði á byrjunarliði og bekk. Nefni t.d. að í fyrra lék Jack Hobbs þrjá leiki, vissulega efnilegur, en alls ekki tilbúinn.
  Ég hlakka mikið til næstu vikna, nú tel ég að komi í ljós hvaða leikmenn eru tilbúnir í að gera liðið að besta liði Englands. Í vor vitum við það held ég og getum þá skilað þeim sem bogna undan pressunni…

 10. Það sem Maggi sagði…

  Efa að það sé mikið minna róterað þegar allt kemur til alls.

 11. Kaka á 100 milljón punda?

  AC Milan og umboðsmaður Kaká búnir að staðfesta viðræðurnar. Erum við að tala um kjánalegasta janúarmánuð í sögu knattspyrnunnar?

 12. Hvað er annars málið með þessa nýrnasteina hjá Rafa?
  Kall kvölin er að fara í þriðju aðgerðina vegna þeirra, í flestum tilvikum dugar ein minni háttar aðgerð.
  Vona að þetta sé ekki eitthvað bull og raunverulega vandamálið sé eitthvað miklu alvarlegra :/

 13. Kaka hafnar City vegna ást sinnar á Milan……Virðing mín gagnvart Kaka jókst til muna. Það mættu fleiri leikmenn taka hann sér til fyrirmyndar.

 14. Ég bíð þangað til í loka jan með að hrósa Kaka, enda hafa þeir góðan tíma til þess að yfirbjóða hann. En ég vona að hann segi nei við þá.

 15. Hver myndi samt hafna 500.000 pundum á viku? Við erum að tala um 26 milljón punda á ári sem eru sirka 4 milljarðar. Hann væri með meira en tíu milljónir á dag. Klukkutímakaupið hans er eitthvað sem flestir væru til í að hafa á mánuði. Finnst samt afskeplega líklegt að þetta er eitthvað sölutrikk frekar en sannleikur.

 16. 83 stig þá á árinu 2008? Er það eitthvað sem dugar til að klára titilinn? Bara smá hugarleikfimi hérna, eða þurfum við líka að bæta eftiráramótaárangurinn? Ég myndi segja að þetta ráðist fyrir okkar menn núna í janúar og febrúar. Mikilvægir leikir framundan og ef við náum að halda okkur á toppnum frameftir febrúarmánuði – með viskíandardráttinn ofan í hálsmálinu – þá verðum við í ansi góðum málum sérstaklega hvað varðar sjálfstraust. Vona bara að Torres komi eins og naut í flagi inn í þetta.

 17. 2006-07 21leikir 37stig 17 leikir 31stig
  2007-08 21leikir 39 stig 17 leikir 37stig
  2008-09 21leikir 46 stig 17 leikir 44/40 stig
  ég trúi því að 90stig í ár sé nóg til að vinna deilina, ohh hvað það hljómar vel bara að skrifa þetta…

 18. DJÖ****** heppnin á United!
  Wigan áttu minnst eitt stig skilið í kvöld!!!
  En jákvætt að Shrek er meiddur.

 19. Þá eru Man Utd komnir í annað sætið skuldlaust og ætla sér örugglega það fyrsta á laugardag þegar þeir mæta Bolton.

 20. Jæja þá erum við sennilegast að missa Agger til Milan á spottprís.
  Væri þá ekki alveg eins gott að bjóða City hann á 20 millur..

Guðjón Sigurjónsson – Minning

Us and Them