Stoke á morgun

“Stoke er djók, Stoke er djók, Stoke er, Stoke er helvítis djók…” Svona hljómaði texti hjá Ceres Fjórum á sínum tíma. Þá var Stoke tiltölulega nýkomið í eigu Íslendinga og mikið fár hér á landi og þá aðallega hjá þeim sem takmarkað fylgdust með boltanum (ég upplifði það allavega þannig). En það hefur margt breyst síðan þá. Síðan lagið kom út hefur Gaui Þórðar horfið á braut, Liverpool flengt þá á þeirra eigin heimavelli í bikarkeppni og þeir síðan komnir upp í Úrvalsdeildina. Þeir eru hreinlega ekkert djók lengur, það er alveg morgunljóst.

Á heimavelli sínum hafa þeir reynst ansi þrjóskir eins og Man.Utd komust að um daginn. Þeir voru hreinlega heppnir að vinna þar sigur 0-1. Stoke hafa svo lagt Aston Villa, Arsenal, Tottenham og Sunderland á sínum heimavelli. Það verður seint sagt um þá að þeir séu mikið í markaskorun, því þeir hafa einungis sett 18 kvikindi í þessum 20 leikjum sem þeir hafa leikið á tímabilinu. Varnarlega eru þeir svo eins og jójó, ef þeir fá á sig mark snemma, þá eru talsverðar líkur á því að himnarnir opnist og mörkin byrji að fossa inn. Eitthvað sem ég er pottþéttur á að hefði gerst ef löglegt mark okkar á Anfield gegn þeim hefði fengið að standa. Þeim mun lengri tími sem líður og þeir þrjóskast við að leyfa okkur að skora hjá sér, þeim mun líklegra er að þeir eflist og nái að halda hreinu. Ég hreinlega nenni ekki að fara út í umræðu um þessi yfirnáttúrulegu innköst hjá Rory Delap, þau eru bara út í hött. Sami takk, þú reddar þeim, ok?

Þeirra hættulegasti maður þegar kemur að markaskorun er klárlega Fuller, en ég held reyndar að hann sé í banni á móti okkur eftir að hafa tekið afar dömulegt “slap” á kinn félaga síns í leik og uppskar beint rautt spjald. Ég þori þó ekki að hengja mig upp á að hann sé ennþá í banni. Hann hefur skorað 6 mörk fyrir þá, helmingi meira en næsti maður þar á eftir. Það verður að segjast eins og er að mér finnst alltaf gaman að sjá svona underdogs eins og Stoke stríða stóru liðunum (eins og þeir hafa verið að gera) en þeir mættu alveg láta það vera að stríða einu þeirra og ég hafði ekkert gaman af stríðni þeirra á Anfield fyrr í vetur.

En hvað um það, ræðum aðeins um okkar menn. Toppliðið í deildinni. Efstir í töflunni. Þriggja stiga forskot. Orðnir meist… nei bíddu við, það er ennþá bara janúar og deildin klárast ekki fyrr en í maí. Ég væri falskur ef ég segði að ég nyti þess ekki í botn að vera í efsta sætinu og sjá alla hina þar fyrir neðan. En ég er þó ennþá algjörlega á jörðinni þegar kemur að titlinum sjálfum, það er mikið eftir af mótinu. Það er ég er ánægðastur með er það að síðustu tveir leiki í deildinni hafa verið frábærir hjá okkur. Mun meiri hugmyndaauðgi í sóknarleiknum, fallegt spil, boltanum leikið hratt á milli manna og svo reynt að slútta. Það er akkúrat þetta slútt dæmi sem hefur háð okkur hvað mest og þar þarf í raun lækningar við. En hvað, lækningin spilaði bikarleik um síðustu helgi, Fernando Torres er kominn aftur. Mikið agalega er ég ánægður með það. Það að vera í þessari stöðu á þessum tímapunkti og vitandi það að við erum búnir að vera án Torres stóran hluta af tímabilinu er bara frábært. En síðustu leikir telja akkúrat ekkert á morgun. Þessi leikur er dæmigerður leikur þar sem við hreinlega þurfum að halda dampi og ná í 3 örugg stig, sér í lagi þegar horft er til þess að liðin 2 sem spáð er baráttu um titilinn munu tapa stigum um helgina, annað hvort þeirra eða jafnvel bæði. Þetta VERÐUM við að nýta okkur.

Þá að liðinu. Mér skilst að Arbeloa sé ekki ennþá klár í slaginn, þó nærri sé. Alonso er minna meiddur en óttast var og ætti að verða fljótlega klár, þó þessi leikur komi líklega of snemma fyrir hann. Insúa er farinn til móts við U-20 ára lið Argentínu, sem er hrikalega vont mál fyrir okkur og hann sjálfan, en annars held ég að við séum með fullskipað lið (æj já Degen, I know). Ég reikna því með að Aurelio komi inn í vinstri bakvörðinn en annars haldist vörnin óbreytt (var mikið að spá í hvort jaxlinn Skrtel fengi sénsinn í stað Agger, en held ekki). Javier og Lucas munu marsa saman um miðsvæðið með Stevie G þar fyrir framan. Riera kemur inn á vinstri kantinn, en svo kemur að vandamálapakkanum hjá mér. Ég er hreinlega ekki alveg búinn að lesa hug Rafa með hægri kantstöðuna og framherjann. Fyrst ætlaði ég að tippa á Kuyt uppi á topp og Benayoun hægra megin. Svo breyttist það yfir í Kuyt hægra megin og Keane uppi á topp (reikna ekki með að Torres verði í byrjunarliðinu). Babel verður á bekknum, hann er bara akkúrat ekki að gera neitt til að réttlæta veru sína í byrjunarliði. Ég ætla að tippa á að Kuyt verði hægra megin og Keane frammi og liðið verði því svona:

Reina

Carragher – Hyypia – Agger – Aurelio

Mascherano – Lucas
Kuyt – Gerrard – Riera
Keane

Bekkurinn: Cavalieri, Skrtel, Dossena, Benayoun, El Zhar, Babel og Torres.

Ég er handviss um að við höldum góðum dampi áfram og vinnum öruggan 0-3 sigur á Stoke. Gerrard setur eitt, Keane setur eitt og svo kemur Fernando inn af bekknum og rekur smiðshöggið á þetta allt saman. Game on, við ætlum ekki að gefa þetta toppsæti eftir, ég bara neita því algjörlega. Díll?

28 Comments

  1. Flott upphitun.
    Ef að við skorum mark snemma þá munum við jarða þá en þeir eru seigir í vörninni hjá Stoke og gætu reynst okkur erfiðir.
    Ég hef ENGA trú á því að þeir skori mark á okkur, þetta er bara spurning hvort Liverpool nær að skora á þá.
    Ég vil sjá Liverpool spila 4-4-2 eða jafnvel fara í 4-3-3
    Allavega vill ég ekki sjá okkur spila með Robbie eða Kuyt eina á toppnum,
    Það er bara hægt að spila Torres einum frammi, hinir hafa ekki gæðin til þess.

  2. Menn keppast við að tala um mikla fjarveru Torres fyrir áramót og hvað sóknarleikur Liverpool muni stórbatna við tilkomu hans. Þetta verði alger ofurplús fyrir liðið. 2+2=5.
    Ég hvet menn nú til meiri raunsæis. Það getur gerst að leikmenn Liverpool horfi á og bíði bara eftir að Torres klári leiki með einstaklingsframtökum þegar hann kemur tilbaka. Benayoun og Gerrard, Mascerano o.fl. sem hafa bætt sig undanfarið detti í sama hægagang og þeir voru á í upphafi tímabils.
    Liðsheildin og hraða spilið sem hefur einkennt Liverpool síðustu leiki detti niður. Það er heldur ekkert gefið að Liverpool sé alltaf betra eftir áramót.

    Ég er á því eins og Alan Hansen að við þurfum 1-2 leikmenn í janúarglugganum til að fá meiri breidd ef við höldumst inni í öllum keppnum. Annars gefum við eftir á loksprettinum. Ef við fáum kannski Renato (hægri kantur) og einhvern góðan power-forward sem nýtist á móti liðum eins og Stoke sem pakka í vörn þá getum við unnið fleiri en 1 titil í vor.

  3. Get svo sem tekið undir það með þér að Babel hefur ekki verið að sýna byrjunarliðstakta undanfarið. En hvers vegna í óskupunum er þá Dirk Kuyt í byrjunarliðinu hjá þér? Hann hefur svo sannarlega ekki gert neitt gagnlegt síðan bara í september held ég, svei mér þá. Það hlítur að ganga það sama yfir hann…eða er hann á sér samningi?

    Ef Babel á ekki skilið byrjunarliðssæti útaf spilamennsku undanfarið þá á Dirk Kuyt ekki að fá að stíga fæti inní borgina útaf sinni spilamennsku.

    En hvert svo sem byrjunarliðið verður þá er ég ekki í nokkrum vafa að við vinnum þennan leik sannfærandi, 0-3 og Torres setur eitt eftir að hafa komið inná í lokin. Sami og Steve sjá um hin tvö.

  4. Sammála þér Steini.
    Held reyndar að við eigum að vera betur í stakk búnir að lenda í slagsmálum en mörg hinna stórliðanna, allavega Arsenal og United!
    Þess vegna einmitt held ég að Kuyt verði í liðinu á morgun og jafnvel Skrtel í stað Agger.
    Svo ætla ég að spá Torres í byrjunarlið en Keane á bekknum.
    Sigur, 0-1.

  5. Það helsta sem þessi grein sem Jonas (Nr. 9) bendir á skilur eftir sig hjá mér er gríðarlega fallegt nafn á öðrum blaðamannana.

    (ekki alveg með norskuna sko)

  6. MAGNAÐUR Rafael!!!
    Í stuttu máli lætur hann Ferguson heyra það hressilega, að sirinn sé sívælandi þrátt fyrir að fá allt aðra þjónustu í uppsetningu leikjaprógrammsins í deildunum. Auk þess sem þessi ágæti stjóri sé sá eini í deildinni sem fái að valsa inní búningsherbergi dómaranna fyrir leiki og í hálfleik.
    Segir svo að þetta séu “engir mind-games” því honum leiðist þeir. Þetta sé einfaldlega staðreynd.
    Með þessu var hann að svara hlægilegum kommentum Ferguson að LFC muni hrynja…

  7. Það er greinilega mikil frétt í uppsiglingu upp þetta mál í þeirri gúrkutíð sem er í dag.

    En til að einfalda þetta virðist Benitez óbeint vera að segja Fergie akkurat það sem flesta aðra langar að segja honum, að stein halda kj… og hætta að væla, enda yfirnáttúrlegur hræsnari þar á ferð.

    Ef þetta er ekki mind games hjá Rafa (þó hann segi það ekki vera) þá veit ég ekki hvað. Efa að Benitez sé eitthvað lamb að leika sér við í slíkum leikjum.

  8. Ef þetta var ekki “mind games” þá var þetta mjög líkt Keegan um árið og það er ekki beint hressandi.

  9. Reyndar sammála því Kári, en ég held að Rafa sé nú fyrir það fyrsta töluvert greindari heldur en Keegan og mikið betri stjóri. Eins er þetta nú ekkert svo rosalegt sem hann er að segja þó það sé auðvitað gert mjög mikið úr því, það þora bara svo fáir að gagnrýna Sir Tuðmund Ferguson.

  10. Sælir félagar
    Þetta verður gríðarlega erfiður leikur og fer 1 – 1 ef Stoke skorar á undan en ef okkar menn skora í fyrri hálfleik fer hann 4 – 0 eða 5 – 1
    Það er nú þannig

    PS Gæti því miður farið 0 – 0

    YNWA

  11. Ég held að Babel verði ekki í hópnum. Ástæðan, ef við lítum yfir bekkinn sem spáð er fyrir leikinn má sjá að það er enginn miðjumaður þar (Alonso væntnalega hvíldur vegna smámeiðsla). Ég held að vegna þessa muni Plesis koma inní liðið.

    Við tökum þennan leik 2-0 og mun Sami Hyypia stanga annaðhvort markið 😉

  12. Er nokkuð viss að Torres byrjar, hann er mjög kátur yfir því að vera klár í slaginn. þettað verður erfiður leikur, og hví ekki að nota okkar besta mann. 3-0 fyrir Liverpool, hvað annað. ;0)

  13. Það hefur gengið ágætlega fyrir mig að koma með svartsýnar spár undanfarið þannig að ég held því áfram. Giska á 1-1.

  14. Já fín upphitun takk.

    Ef einhver af þessum óstöðugu vinum okkar á að fá að spila þá er það Benayoun. Hann var virkilega góður í síðustu 2 leikjum hjá okkur sem er meira en Babel og Kyut geta sagt.

  15. Á Torres ekki að vera góður fyrir leikinn á morgun, algjör óþarfi að hvíla hann meira en þarf.

    Reina – Carra – Agger – Hyypia – Aurelio
    Mascherano – Lucas
    Benayoun – Gerrard – Riera
    Torres

  16. Sælir.Gríðarlega gaman að lesa það sem menn eru að setja hér inn.Ég held að Torres byrji á morgun en ég ætla að gera mér vonir um að Rafa verði með Robbie Keane uppi með honum og Gerrard og Mascherano verði á miðjunni, hættum að spila þessa blessuðu varnartaktík á útivöllum og förum að láta andstæðinginn hafa alvöru áhyggjur hvað við ætlum að gera.Eina leiðinn til að láta menn ná saman er að láta þá spila saman.áfram Liverpool.

  17. Það er ljóst að við verðum að sigra og líklega gerum við það en þetta verður alls ekki auðvelt nema… já klassískt nema að við náum marki snemma í leiknum. Annars verður þetta ströggla fram á síðustu mínútu.

  18. Sælir

    Veit nokkur hér um sportbar sem sýnir Liverpool leiki í Keflavík/Njarðvík ?

  19. Glóðin hliðin á Langbest og Langbest uppi á velli allavega.. og Paddys held ég

Óóó, Sami Sami …

Rafa um Ferguson