Newcastle á morgun!

Ah, jólavertíðin. Á meðan aðrar knattspyrnudeildir á meginlandi Evrópu fara í jólafrí í nokkrar vikur spila Tjallarnir eins marga leiki og hægt er yfir rauðu dagana á dagatalinu. Eftir sigurinn í gær á Bolton ferðast okkar menn norður og mæta Newcastle á morgun á St James’ Park og mig grunar sterklega að Sammy Lee og strákarnir ætli sér að halda toppsætinu fram yfir þennan leik.

Hvað byrjunarliðið varðar þykist ég vita hvað Benítez ætlar sér að gera fyrir þennan útileik. Þótt það sé engin leið að segja til um það strax hvort hann verður nógu heilsuhraustur til að taka sér stöðu á bekknum (það sama má segja að gildi um Fernando Torres og Martin Skrtel) er ljóst að það er stjórinn sjálfur sem velur byrjunarliðið og ég held að hann muni byrja með sömu uppstillingu og gegn Arsenal sl. sunnudag, með tveimur breytingum:

Reina

Carragher – Hyypiä – Agger – Insúa

Mascherano – Alonso
Kuyt – Gerrard – Riera
Keane

**Bekkur:** Cavalieri, Darby/Skrtel, Lucas, Benayoun, Babel, El Zhar, Ngog/Torres.

Sem sagt, Rafa fer aftur í 4-2-3-1 kerfið sitt heittelskaða; Carra heldur áfram í hægri bak í fjarveru Arbeloa, Mascherano kemur heill og úthvíldur inn á miðjuna í stað Lucas eftir flensuskít og þrátt fyrir góða frammistöðu gegn Bolton í gær missir Benayoun stöðu sína og Kuyt verður færður aftur út á vænginn.

Hjá Newcastle-mönnum skilst mér að óvenju fáir leikmenn séu á sjúkralista. Ég veit ekki með Mark Viduka, og maður getur svo sem aldrei verið öruggur um heilsu leikmanna eins og M. Owen (þekki hann ekki, væntanlega einhver nýliðinn) og D. Duff (sem er sláandi líkur kantmanninum hjá Chelsea hér um árið. Sá var frábær, þessi er glataður) fyrr en komið er í búningsklefann (og jafnvel þá er það ekki öruggt, menn gætu hrasað á leiðinni á klósettið eftir upphitun). Þó veit ég að miðvörðurinn Sebastien Boussong verður ekki með, en hann var rekinn útaf í 2-1 tapi Newcastle gegn Wigan á útivelli í gær, auk þess sem Habib Beye var borinn útaf illa meiddur í sama leik og verður því ekki með á morgun.

Gengi Newcastle-manna í vetur hefur verið svipað og oft áður. Þeir ætluðu að leggja undir sig heiminn í sumar en það var fljótt að fara til fjandans. Kevin Keegan hætti eftir einhverja 2-3 leiki í haust og eftir mikla og árangurslausa leit réði Mike Ashley, eigandi Newcastle Joe Kinnear (joke in here) til að sinna starfinu í einhverja 3-4 leiki á meðan þeir héldu áfram að leita að alvöru stjóra. Það gekk þó ekki betur en svo að (a) þeir fundu engan sem ekki fékk spekinga til að tárast af hlátri við tilhugsunina og (b) Kinnear reyndist bara nokkuð seigur í þessu þjálfarabrasi eftir allt saman. Í dag sitja Newcastle-menn í tólfta sætinu, tveimur stigum frá fallsæti og þremur stigum frá áttunda sætinu í þessari jöfnu Úrvalsdeild, og hefur Kinnear verið gefinn starfsfriður til loka tímabilsins.

Engu að síður veit enginn hvaða Newcastle-lið mun mæta til leiks á morgun. Við vitum nokkurn veginn hvaða Liverpool-lið mun mæta til leiks – vel skipulögð, þaulæfð og gríðarlega varnar- og miðjusterk mulningsvél sem tapar örsjaldan á útivöllum – en hvort Newcastle-liðið mun leggjast niður og leyfa okkar mönnum að hirða stigin án vandræða eða hvort þeir muni kaffæra okkur í stemningunni á St James’ Park verður bara að koma í ljós.

**MÍN SPÁ:** Ég held að síðarnefnda Newcastle-liðið muni mæta til leiks. Ég held hins vegar einnig að Liverpool-liðið verði ögn betur í stakk búið til að díla við góðu hlið Newcastle-liðsins en þeir hafa oft verið undanfarin ár og því verði útkoman stórskemmtilegur leikur þar sem okkar menn hafa á endanum sigur. Ég held að Robbie Keane verði á meðal markaskorara í leik sem endar **3-1** fyrir Liverpool eftir að heimamenn komast yfir. Ég held einnig að Benítez muni horfa á þennan leik frá hliðarlínunni en þeir Torres og Skrtel úr stúkunni.

Vonandi gengur þetta vel. Okkar menn eru rétt að koma sér vel fyrir í toppsætinu og það væri synd að gefa það eftir og þurfa að svissa yfir í eltingarleiks-gírinn svona rétt fyrir áramótin.

Áfram Liverpool!

21 Comments

 1. Newcastle missti þrjá varnarmenn í gær, Jose Enrique meiddist í upphitun, Habib Beye var borinn útaf, meiddur og Bassong fékk rautt kort.

  Það verður því athyglisvert hvernig stjórinn hjá þeim stillir upp varnarlínunni.

 2. Vörnin hefur nú sjaldan verið talinn til sterkari hliða Newcastle, það gæti orðið fjör ef þeir er varnarlausir. LFC 5 Newcastle 0

 3. Við skulum nú ekki fara að halda að liverpool fari með sjálfsagðan sigur, það gerist mjög sjaldan að leikir hjá okkur eru léttir. Þetta lið gerði nú jafntefli við Chelsea um daginn svo að þeir eru til alls líklegir. En vonandi að við tökum þennan leik á seiglunni í okkar liði.

 4. Held að Newcastle hafi varla vantað fleiri menn á tímabilinu! Auk þeirra sem þú taldir upp vantar þá Ameobi, Obafemi Martins (verður líklega ekki með), Alan Smith og Joey Barton allir frá 🙂 Þetta eru sex til átta menn sýnist mér…

  Held að þú verðir annars með rétt byrjunarlið okkar manna. Annað er aukaatriði 🙂

 5. Ég held að Torres og Masch hafi ekki komið við sögu í leiknum gegn Bolton því þeir verið með gegn Newcastle á morgun. Við vitum að Benitez kemur til með að skipta um 2+ menn í liðinu, því hann vill ferska fætur og það eru einingis 48 tímar á milli þessara leikja.

  Ég tel það öruggt að Masch komi í byrjunarliðið, svo er spurning hvort að Torres byrji leikinn eða komi inná ef á þarf að halda.

  Ég held að síðasti leikur hafi gerið okkur nægilega gott sjálfstraust til þess að fara í leikinn á morgun og sækja 3 stig, spái 0-2, Gerrard og Keane með mörkin.

 6. en Lucas byrjaði ekki inná á móti Bolton þannig að þetta er bara ein breyting frá síðasta leik er það ekki rétt hjá mér…. eða er ég úti í fjöru með þetta allt

  áfram LFC

 7. Ég held að Torres sé klár og hann verður með á morgun, hvort að hann byrji eða verði á bekknum veit ég ekki, en hann verður að fá að spila, því að hann er orðin góður, og því ekki að vera með á morgun?

 8. Ætli að Hyypia treysti sér í aðrar 90 mínútur á jafn stuttum tíma. En ef Arbeloa er meiddur þá er það bara val milli Hyypia og Darby

  Finnst líklegt að liðið verði svona:

  Reina
  Carra – Agger – Hyypia – Insúa
  Mascherano – Alonso
  Kuyt – Gerrard – Babel
  Keane

  Mun verða shokk að sjá Babel byrja en hann setur eitt kvikiindi í 2-1 sigri. Keane með hitt. Vonandi verða Torres og Skrtel á bekknum og jafnvel fá nokkrar mínútur til að fá blóðbragð í munninn.

 9. Eins og Newcastle liðið getur stundum spilað góðan bolta á góðum degi, er ekkert sem bendir til að sá dagur sé a´morgun. 0-4 sigur Keane með 1, Carra 1 og Gerrard 2

 10. 10Anton
  vona að Carra setji stefnuna á mark andstæðinganna í þetta sinn

  áfram LFC

 11. já, ég held að þetta verði öruggur sigur 0-3 en spái liðinu svona:
  ————–Reina———–
  Carra-Hyppia-Agger-Insúa-
  ——-Masc——-Alonso—–
  Kuyt—————–Riera/Babel-
  —–Gerrard——————–
  ——————Keane——-

 12. Ég er all verulega bjartsýnn á þennan leik. Með svipuðum leik og á móti Bolton verður Newcastle ENGIN fyrirstaða. 0-2 eða 0-3 tel ég líkleg úrslit á morgun.

 13. Já ekkert tap sem af er desember. Ég er handviss um að það helst þannig og desembergrílan sé dauð.

 14. Þar sem vörnin er nánast engin hjá N’castle þá held ég að við endum með 3 mörk eða fleiri ! OOG Robbie nokkur Keane verður með eitt stykki þrennu eða meira.. já bjartsýnn er ég !:)

 15. Verður fróðlegt að sjá hvernig Rafa stillir upp þegar svona stutt er á milli leikja, þetta gefur honum færi á að hræra aðeins í liðinu og honum hefur nú ekki leiðst það undanfarin ár. Mér finnst eins og menn reikni með því þetta sé unnið fyrir fram, maður skal hafa varan á sér hvað það varðar, en samt vonar maður það besta. Og ég spái því að Torres verði ekki með í þessum leik. En Keane setur 2 og við vinnum 0 – 0 Kuyt setur eitt líka…

 16. Ef við vinnum þennan leik þá fer ég alvarlega að trúa því að þetta gæti verið árið sem allir hafa beðið eftir.

 17. Liðið er komið: Reina, Carragher, Insua, Agger, Hyypia, Mascherano, Lucas, Gerrard, Kuyt, Babel, Benayoun. Bekkur: Cavalieri, Keane, Riera, Alonso, Ngog, El Zhar, Skrtel.

 18. Díííííííííiíí´seeeessss krææææææsssstt!!!!!!!!!!!!!!!!! Robbie settur á bekkinn eftir 3 mörk í síðustu tveimur leikjum….. þetta kallast að gefa klapp á bakið. Fáránlegt.

 19. Aldrei bjartsýnn þegar Lucas er í byrjunarliðinu, en vonum það besta! Áfram Liverpool.

Liverpool – Bolton 3-0

Liðið gegn Newcastle