Aðeins um Meistaradeildina

Í gærkvöldi réðst endanlega hvaða lið það eru sem verða í hattinum föstudaginn 19.desember kl. 11:00 að íslenskum tíma þegar dregið verður í 16 liða úrslit Meistaradeildarinnar. Reyndar eru menn löngu hættir að nota hatta, eru bara með glerskálar og marglitar kúlur, enda alls konar reglur um hvað má og ekki má þegar kemur að drættinum.

Ég hef nú stundum hér í athugasemdum verið að lýsa ákveðinni skoðun á þessari ágætu keppni sem mér finnst því miður hafa tapað ákveðnum ljóma og ekki verið alls kostar góð fyrir evrópskan fótbolta. Langar aðeins að útskýra skoðunina og kasta fram hugmyndum um breytingar á fyrirkomulaginu sem gætu orðið til góðs!

Meistaradeildin er auðvitað byggð á hinni gömlu góðu Evrópukeppni meistaraliða sem fór fyrst af stað árið 1955 og lauk vorið 1956 með sigri Real Madrid. Frá því ári og allt til vorsins 1992 var um að ræða keppni eingöngu meistaraliða allra Evrópulanda, með útsláttarfyrirkomulagi heima og heiman frá fyrsta leik að þeim síðasta.

Haustið 1992 var svo keppnisfyrirkomulaginu breytt og „Meistaradeildin“ varð til. Fyrst í stað voru áfram einungis meistaraliðin sem hófu keppni, en þegar 8 lið stóðu eftir var svo farið í riðlakeppni sem svo leiddi af sér undanúrslit og úrslit. Það má ekki gleyma því að á þessum tíma var talsverð pressa frá 14 stórliðum Evrópu að auka fjölda „gæðaleikja“ í álfunni, að öðrum kosti hótuðu þessi lið að ganga út úr heimadeildum sínum og stofna „Evrópudeild“ sem einungis þau bestu léku í, og yrði að kaupa sig inn í hana.

Undir kröfum um frekari þátttökurétt stærstu knattspyrnulanda Evrópu varð þróunin sú að liðum frá þeim löndum fjölgaði. Fyrst liðum sem endað höfðu í 2.sæti og smátt og smátt varð til sú mynd sem við þekkjum í dag, að stóru löndin eiga þrjú til fjögur sæti í þessari keppni sem hefst í byrjun júlí með forkeppni minni landanna.

Og kálfurinn fór að verða gullkálfur og allir vildu auðvitað vera með. Fram að 1990 fullyrði ég að fjárhagslegur ávinningur af keppninni var ekki það sem umræðan snerist um en fimm árum seinna var það orðið lykilatriði í rekstri margra félaga að komast í hana. Ríku félögin spenntu bogana hærra og allt í einu urðu sæti deilda nr. 3 og 4 þau „merkilegustu“ og lið með stór nöfn sættu sig við þau því þar með varð til aðgöngumiði að Meistaradeildinni! Svo þegar eitt árið stórlið komst ekki í keppnina var það þungt fyrir félagið að komast ekki, tvö ár þýddi svo allt að gjaldþroti. Leeds er þekktasta dæmið auðvitað, en á undan þeim var t.d. rætt um IFK Gautaborg og nú er talið að sú staðreynd að Valencia hafa nú ekki leikið í deildinni um sinn sé lykilatriði í þeirri staðreynd að gamla liðið hans Rafa rambar á barmi gjaldþrots. Sagan frá Ítalíu nú er sú að AC Milan verði að komast í CL á næsta ári, annars verði brunaútsala!

Keppnin snýst nú að mestu leyti um peninga. Gott eða slæmt? Ég veit ekki alveg en fróðlegt verður að fylgjast með næstu árum þegar ljóst er að skórinn mun kreppa að, ég er á því að þessi keppni sé eins og fíkniefni, þegar efnið verður dauft eða framboðið fer þarf í afvötnun. Stundum með skelfilegum afleiðingum!

Forkeppni deildarinnar hefur þýtt það helst að „stóru“ liðin í Evrópu þurfa ekki að mæta til leiks fyrr en í fyrsta lagi í 3.umferð forkeppninnar og mörg bara þegar riðlarnir byrja. Það hefur þýtt að smærri lönd álfunnar hafa verið að kroppa hvert í annað þegar að keppninni kemur, ólíkt því sem áður var.
Í dag spila okkar meistaralið á Íslandi við Hvít-rússnesk, finnsk, armensk eða lettnesk lið. Auðvitað allt í lagi, en ég hef séð Juventus, Barcelona og Monaco spila hér á Íslandi, Barca tvisvar! Ógleymanlegt og momentið þegar Rikki Daða skoraði gegn Barca ógleymanlegt. Í dag eru þessir leikir óhugsandi og það þykir mér afar leitt! Með virðingu fyrir BATE Boresov og öðrum liðum sem hafa slegið okkur Íslendinga út á undanförnum árum. En þegar óánægjuraddir fóru að heyrast frá litlu löndunum stökk UEFA til og hækkaði fjárframlög til meistaraliða þessara landa fyrir þátttöku í keppninni og þar með þögnuðu allar þær raddir. FH fékk í ár 45 milljónir vegna þátttökunnar árið 2007.

Hvað hefur þetta leitt til í „smærri“ fótboltalöndum álfunnar?

Jú, meistaraliðin hafa orðið ríkari og ríkari. Við þekktum Rosenborgardæmið, óþarfi að minnast á Frakkland, Lyon vinna alltaf og í austur Evrópu er þróunin að verða sú að auðmenn kaupa sér lið, hrúga í þau bestu leikmönnum sinna landa og halda CL sætinu ár eftir ár. BATE er gott dæmi og í Úkraínu er Shaktar dæmi um slíkt lið.

Hvað haldiði að sé að gerast í Val núna? Á dauðum íslenskum leikmannamarkaði kaupa þeir alla molana í konfektkassanum, því þeir vita hvað þeir fá. Sama gætu FH gert ef þeim verður lánað fram á árið 2010 þegar greiðslan fyrir CL 2009 kemur. Ég vona að ég hafi rangt fyrir mér en ég er hræddur um að FH og Valur sitji að titlinum næstu ár, en ég vona að svo verði ekki.

En í stærri löndunum? Hvernig hefur þróunin orðið þar?

England: Sömu fjögur liðin tekið þátt frá hausti 2004, reyndar fékk Everton að komast í forkeppni haustið 2005. United verið í 15 ár í röð í keppninni!

Spánn: Real Madrid og Barcelona áskrifendur, Villareal, Valencia og Deportivo lengi vel til skiptis (Depor og Valencia í hættu) og nú bættist Atletico í hópinn.

Ítalía: AC og Juve voru alltaf, en nú að undanförnu hefur Inter átt sætið með AC Milan.

Þessi lið bera ægishjálm yfir önnur í sínum heimalöndum. Höfðu hann vissulega stóran hér áður en núna enn miklu stærri.

Sú staðreynd að nú eru þessi lönd líka búin að ná í gang gríðarlegum verðlaunafjárhæðum í sínum heimalöndum hefur svo leitt til þess að Frakkland og Þýskaland eru nú stóru skrefi aftan við þau, og Portúgal, Holland, Belgía auk Norðurlandanna eru týnd eða að týnast í evrópsku fótboltasamhengi. Marseille, Ajax og Borussia Dortmund urðu meistarar á fyrstu árum keppninnar, en slík lið hafa ekki mikla von þessa dagana. PSV leit t.d. skelfilega út sem merkisberar hollenska skólans! Enda var hrikalegt að sjá hversu létt lið frá þessum löndum komust í gegnum riðlana sína!

Þetta hefur auðvitað þýtt að þegar í 8 liða úrslit er komið er nú líklegast að einungis komi lið frá þessum þremur stóru og í ár gæti staðreyndin orðið sú að í 8 liða úrslitum léku 4 lið frá Englandi og 4 frá Spáni!
En hversu mörg hinna 16 liða sem nú eru í glerskálunum eru meistarar???

Ítölsku meistararnir eru Inter, Roma vann síðast 2001 og Juve 2003.

Spænsku liðin? Real eru meistararnir, Barcelona unnu 2006, Atletico Madrid 1996 og Villareal, þátttakendur í Meistaradeildinni hafa ALDREI orðið meistarar.

Á Englandi ætla ég ekki að rifja upp af þeirri augljósu ástæðu að þar stöndum við aftast í röðinni varðandi síðasta meistaratitil…

Porto eru sitjandi meistarar í Portúgal og Sporting unnu síðast 2002

Bayern eru sitjandi meistarar í Þýskalandi.

Lyon urðu fyrst franskir meistarar 2002 og hafa síðan unnið sjö sinnum í röð.

Panathinaikos urðu síðast meistarar 2004.

Þannig að staðan nú er að í 16 liða úrslitum eru 6 sitjandi meistarar, 5 lið sem hafa orðið meistarar á síðustu fimm árum, 3 lið sem hafa orðið meistarar á síðustu tíu árum, 1 lið á síðustu 20 árum (no names) og 1 lið sem aldrei hefur orðið meistari í sínu heimalandi.

Því segi ég fullum fetum að afrek Liverpool frá ´77 til ´84 verður aldrei endurtekið, það að vinna fjóra evróputitla í kjölfar meistaratitils í heimalandi. Annar sigur Scum United kom t.d. ekki í kjölfar meistaratitils þeirra. Það ER AUÐVELDARA að verða Evrópumeistari nú en áður, því það ER AUÐVELDARA að fá aðgöngumiðann að keppninni.

Frá næsta hausti verða breytingar á keppninni, með það að markmiði að slakari lönd álfunnar (frá sæti 13 til 53) eigi meiri möguleika á að komast í riðlakeppnina. Í stuttu máli eru reglurnar sem taka gildi næsta haust þessar:

• Sömu 16 sæti og áður gáfu þáttökurétt beint inn í riðlakeppni gilda áfram. (2 efstu á Englandi).

• Liðin í þriðja sæti þriggja best röðuðu landana komast beint inn (Í dag England, Spánn og Ítalía – nokkuð ljóst að þetta mun þýða þrjú lið beint frá Englandi næsta haust)

• Meistarar landa 10 – 12 á listanum (Í dag Skotland, Tyrkland og Úkraína. Þó líklegt að Grikkland taki sæti Úkraínu) fara beint inn.

Þá eru 22 lið komin beint inn og síðustu tíu koma úr forkeppni. En forkeppnin hefur breyst, þau tíu lið sem komast áfram koma nú úr tveimur ólíkum áttum.

• Fimm lið munu koma úr hópi meistara landa frá sæti 13 – 53 (Fjórar umferðir í þeirri forkeppni)

• Fimm lið munu koma úr hópi liða sem ekki urðu meistarar í löndum sæta 1 – 15, þau lið sem ekki komast beint í riðlana. (Enska liðið í 4.sæti lendir í því, kemur inn í 2.umferð þeirrar forkeppni og þarf þaðan að komast inn í riðlana)

Að öllu þessu sögðu finnst mér þó verst að riðlaformið er orðið hundleiðinlegt og hámarkið var í gærkvöldi, þegar enginn leikur skipti almennilegu máli! Svo hefur mér hundleiðst sú staðreynd að okkar menn hafa undantekningalítið lent gegn samlöndum sínum í útsláttarkeppninni, nógu oft erum við nú að hitta þessi lið samt!

Mig langar því að lokum að setja fram mínar hugmyndir að breytingum þessarar keppni með það að markmiði að gefa litlu löndunum meiri séns á alvöru leikjum, aukningu leikja sem skiptu máli og fækkunar leikja milli liða frá sömu löndum þegar lengra er komið í keppninni. Gaman væri að heyra hvort ég er að vaða villu og reyk, þ.e. ef einhver nennti að lesa svona langt!!!

• Meistarar 20 efstu landanna komast beint í 48 liða riðlakeppni.

• Meistarar landa 21 -30 keppa við meistara landa 31 – 40 um tíu laus sæti (heima og heiman)

• Lið í 2.sæti 10 efstu landanna keppa við meistara landa 41 – 50 um tíu laus sæti (heima og heiman)

• Lið í 2.sæti landa 11 – 20 keppa við meistara landa 51 – 53 og lið í 3.sæti landa 1 – 6 og 4.sæti 1 – 3 um síðustu 8 sætin (22 lið myndu hefja þá forkeppni svo eitthvað yrði að skoða uppsetningu þeirrar keppni, engar reglur um að innbyrðis leikir landa yrðu stoppaðir)

• Að því loknu yrði skipt upp í 16 þriggja liða riðla þar sem leikin yrði einföld umferð í september og október, (eða tvöföld sem myndi þó þýða leiki sem litlu máli skiptu) og tvö lið færu upp úr hverjum riðli.

• 32ja liða úrslit og fram í úrslit myndu svo bara vera einfalt, heima og heiman útsláttur, þar sem fyrsta umferðin yrði í nóvember og desember þar sem tapliðin færu í UEFA. Einungis átta hæst röðuðu liðunum yrði haldið í sundur, engar „landareglur“.

Þá held ég að þetta maraþon mitt sé búið, er búinn að vera hugsa þetta í vetur, því mér finnst stöðugt leiðinlegra og fyrirsjáanlegra að fylgjast með þessari keppni. Því verður að breyta finnst mér….

10 Comments

 1. Já fínar hugmyndir og þörf umræða. Keppnin (eða öllu heldur riðlakeppnin) er einfalda bara hundleiðinleg. Og þetta árið var alveg sérstaklega súrt. Hún er einfaldlega hönnuð til að stóru liðin slátri litlu liðunum.

  Varðandi þínar hugmyndir eru þær flottar, þó ég myndi vilja endurskoða með lið sem er í 2. sæti í topp 10 myndu væntanlega slátra meistaraliðum 41-50 og sennilega myndu liðin í 2 .sæti í 11-20 og 3-4 í 1-6 líklega fara illa með meistaralið 51-60.

  Allavega vil ég sjá fleiri stiga útsláttarkeppni. Þar einfaldlega hafa liðin ekki efni á því að pakka í vörn og gera jafntefli. Þeir leikir eru by far skemmtilegastir og eftir allt saman á þetta að vera skemmtun fyrir áhorfandann.

 2. Það sem ég var að hugsa líka var að lönd sem ekki eru viðbúin og vön að fá heimsókn alvöru liða fengju það.
  Við erum t.d. í sæti nr. 37 núna og myndum þá fara beint í lokabaráttu við meistara landa eins og Serbíu, Ísreal, Svíþjóðar, Slóvakíu, Póllands, Ungverjalands, Króatíu, Kýpur, Slóveníu eða Finnlands. Ef við svo myndum slá þau út fengjum við tvo flotta leiki, þar af annan á Íslandi!
  Sennilega er það rétt að liðum 41 – 50 yrði slátrað, en þá t.d. ættu fótboltaáhangendur í Kazakstan og Armeníu möguleika á að sjá Liverpool, Real Madrid eða Roma…
  Sama pæling varð með 3. og 4.sætisliðin, en líka sú að þau þyrftu fleiri leiki til að komast í riðlana en meistaralið minni landanna….

 3. Svo kannski ætti maður að bæta við að UEFA cup mun frá næsta hausti heita UEFA Europa League og talsverðar breytingar verða á henni. Þar sem við treystum því að hún sé að baki, ætla ég ekki að ræða hana í bili….

 4. Það má kannski segja að maður sé þröngsýnn þegar að þessu kemur, en svoleiðis er það nú bara. Það er voðalega fallegt í hugsun að “leyfa” liðum frá Kazakstan og Íslandi að fá tækifæri á móti þeim stóru, en persónulega sé ég akkúrat enga rómantík í því. Fyrirkomulagið í dag er varðar undankeppnina finnst mér í ágætu lagi. Vandamálið finnst mér vera meira tengt riðlakeppninni sjálfri. Væri til í að sjá útsláttarformið byrja fyrr og þar með alvöruna. Erfið ferðalög í undankeppni á tíma þar sem liðin eru á undirbúningstíma sínum held ég að komi of mikið niður á liðunum og þeim bolta sem menn vilja borga fyrir að sjá. Þó svo að mikið snúist um peninga í dag (hvernig sem mönnum líkar það) þá eru það áhorfendur sem borga brúsann.

 5. Flottar pælingar en ég er ekki að öllu leyti sammála þeim, reyndar er ég að mestu leiti ósammála þeim 🙂 Ég sé engan tilgang í því að fjölga meistaraliðum minni landanna. Ég verð að segja fyrir mína parta að ég hef miklu meiri áhuga á að sjá Villarreal, Atletico Madrid, Roma, Liverpool og önnur stórlið sem hafa ekki unnið titil í háa herrans tíð spila heldur en að fá fleiri lið eins og BATE Boresov eða Basel í þessari keppni. Þetta á að vera keppni þar sem sterkustu lið Evrópu mætast, ekki bara meistarar landanna. Það var lógíkin með stofnun Meistaradeildarinnar. Eflaust eru ekki allir sammála mér en þetta er alla veganna mín skoðun.

  Það ER AUÐVELDARA að verða Evrópumeistari nú en áður, því það ER AUÐVELDARA að fá aðgöngumiðann að keppninni.

  Ég er engan veginn sammála þessari fullyrðingu. Það er enn þá jafnerfitt að vinna þessa keppni. Það er vissulega auðveldara að fá aðgöngumiðann en það er mun erfiðara fyrir liðin í keppninni að vinna hana núna því liðin í keppninni eru miklu sterkari. Það er einmitt ástæðan fyrir því að það er orðið nokkuð síðan við sáum lið eins og Ajax, Dynamo Bucharest eða Marseille vinna þessa keppni. Það er ekki nema þegar Porto vann hana 2004 undir stjórn Mourinho sem að eitthvað af “smærri” liðunum vann keppnina. Reyndar var Liverpool nú ekki búið að vera stórt númer í Evrópu árin áður en við unnum keppnina. Þannig á heildina litið þá er núna auðveldara fyrir þessi lið sem hafa verið í keppninni án þess að verða meistarar eins og Liverpool og fleiri en það er töluvert erfiðara fyrir Dynamo Bucharest að vinna þessa keppni í dag heldur en það var fyrir 20 árum 🙂

  Ég er sammála því að þessi riðlakeppni var ekkert ýkja spennandi þetta érið en gleymum því þó ekki að lið eins og Chelsea þurfti allar 6 umferðirnar til að tryggja sig áfram og Anorthosis Flamagusta frá Kýpur var hársbreidd frá því að komast áfram og enda þá í efsta sæti riðilsins, fyrir ofan Inter. Svo breytist þetta á milli ára, hugsanlega verður riðlakeppnin á næsta ári æsispennandi. Þetta gengur í hringi.

  Fyrir mína parta sakna ég líka svolítið 16 liða riðlakeppninnar þar sem þú lentir í riðli með 3 öðrum liðum og öll liðin voru þrususterk og nánast allir leikir því upp á líf og dauða.

  Annað sem mér finnst líka svolítið gagnrýnivert er leikjavalið hjá Stöð2sport. Ég veit að flestir halda með ensku liðunum en ég verð að segja eins og er að það er töluvert áhugaverðara að fylgjast með leikjum eins og FC Bayern – Lyon heldur en Álaborg – Manchester United. Eins fannst mér Werder Bremen – Inter töluvert áhugaverðara sjónvarpsefni heldur en Cluj – Chelsea. Ég skil ekki alveg af hverju það þarf alltaf að sýna leiki ensku liðanna. Ég veit að það eru margir ósammála mér þarna en mér hefur oft fundist valið á aðalleiknum vera svolítið skrýtið. Ég held það hafi verið enskt lið í aðalleik Stöð2sport í hverri einustu umferð. Meira að segja þegar Juventus – Real Madrid mættust sem mér fannst nú einn stærsti leikurinn í keppninni en þá var Man Utd – Celtic (sem er vissulega stór leikur en fyrir mér er hinn leikurinn stærri) valinn aðalleikurinn ef ég man rétt. Ég held að það geti verið hluti af ástæðunni fyrir því að fólki finnst riðlakeppnin óáhugaverð, að áherslan á þessa stærstu leiki hefur verið svo lítil.

  Jæja, þá er þetta komið gott hjá mér í bili, lengd þessa komments er farin að slaga upp í pistilinn 🙂

 6. Ég held það hafi einmitt aldrei verið erfiðara að vinna þessa keppni, oft sem lið kýs þessa keppni jafnvel framyfir deildarkeppnina heima. Mín tilfinning er sú að fyrir 20+ árum hafi þessi keppni verið meira eins og heimsmeistarakeppni félagsliða er núna.

 7. Það var gerð ágætis breyting á fyrirkomulaginu í keppninni þegar undanriðlunum var fækkað og í framhaldi farið beint í útsláttarkeppni. Að vinna sig upp úr tveimur riðlum og spila að því loknu í útsláttarkeppni er auðvitað hvaða liði sem er ofaukið í álagi. Ég held samt að það sé nauðsynlegt að hafa milliriðil. Í hreinni útsláttarkeppni er engin líflína, ein óhagstæð úrslit geta því skipt sköpum. Þá vill ég alls ekki sjá minni spámenn inni í keppninni, þetta er keppni bestu félagsliða í Evrópu og þannig á hún að vera áfram.

 8. Langar samt aðeins að ítreka það í mínum pistli að þessar breytingar hafa þýtt að við fáum ekki mikið af alvöru liðum til Íslands.
  Aston Villa næstum fyllti Laugardalsvöllinn!!!
  Það var frábært að sjá þessi nöfn sem hingað komu í eigin persónu og ég sakna þess heilmikið!
  Held að 451 áhorfandi hafi verið á eina CL leiknum hér í sumar…..
  En kannski er staðreyndin sú að við erum að verða meiri “sófaáhorfendur” en þeir sem vilja sjá liðin koma hingað. Á þessum tíma var nú ekki mikið verið að flakka erlendis að líta á leikina.
  Svo er ég alls ekki sammála því að þessi keppni hafi verið með eitthvað minni áherslu áður. Þegar lið komust í keppnina lögðu þau sig fram, en það bara var svo erfitt að komast í hana.

 9. Þetta eru mjög áhugaverðar pælingar og koma kannski helst á þann punkt hvernig maður horfir á fótboltann. SSteinn hefur áður lýst því yfir að hann sjái enga sérstaka rómantík í því að fá að sjá flotta leikmenn spila á Íslandi en við erum kannski sammála um það Maggi, enda man ég mjög vel eftir því þegar mínir menn úr Vesturbænum skoruðu tvisvar hjá Neville Southall fyrir ekki svo mörgum árum. Þetta var svo sannarlega alvöru keppni fyrir 20+ árum þótt hún hafi ekki heitið meistaradeildin, enda hét hún þá Evrópukeppni meistaraliða og eingöngu meistaraliðin komust í hana.
  Fyrirkomulagið er á margan hátt morkið en það mun án efa leita jafnvægis. Ég get alveg tekið undir að það mætti hafa meiri útsláttarkeppni sem þýðir líka færri leiki og minna álag á leikmenn en það þýðir líka minni peningar. Sem er þá gott fyrir heimadeildirnar. Það er út í hött að Meistaradeildin búi til þvílíkan himin og haf á milli liða í heimalandinu en peningarnir ráða því víst, þeir fara að mestu til þeirra liða sem ná hvað lengst. Sósíalistinn ég er nú samt á því að þeim pening eigi að dreifa jafnar út um álfuna og stuðla að uppbyggingu grasrótarinnar í stað þess að búa til þetta bil.
  Kerfið sem þú býrð til Maggi er heldur flókið fyrir minn smekk. Ég myndi einfaldlega vilja að 2 lið kæmust tops áfram úr hverju landi þannig að alls yrðu 64 lið í Meistaradeildinni. Öll lið þyrftu að spila frá upphafi, sem gerði litlu þjóðunum kleyft að keppa við þær stóru – með stóru liðin eru ekki í góðu formi, sem býður upp á jafnari leiki. Þið munið þegar okkar menn spiluðu við TNS, það var ágætis miðsumarsskemmtun. Síðan myndi ég vilja spila útsláttarkeppni að 8 liða úrslitum, spila þau í tveimur riðlum, þá væru allir leikirnir alltaf toppleikir, og síðan myndu tvö efstu í hvorum riðli spila undanúrslit heima og heiman.
  Efast samt að nokkuð verði snúið til baka af þeirri braut sem þetta er á núna.
  http://www.knattspyrna.bloggar.is

  ps. mér finnst mjög gaman að lesa svona vangaveltur og taka þátt í umræðum sem þessum. Þið félagarnir hérna mættuð alveg gera meira af þessu, sérstaklega þegar lítið er að gerast í boltanum, t.d. landsleikjahlé eða í vikunni á milli leikja.

 10. Þetta er mjög góður pistill Maggi og ég skil vel þínar pælingar. Það er einfaldlega hægt að færa rök með og á móti núverandi fyrirkomulagi versus því eldra.

  Núverandi fyrirkomulag hentar Liverpool vel og þó að riðlakeppnin hafi verið frekar óspennandi í ár (er það ekkert alltaf) þá er þetta vissulega frábær keppni. Tek líka undir með SStein að þessir leikir, eins og t.d. FH – Villa eru afar óspennandi……þó auðvitað frábærir fyrir þessu litlu lið.

  En núvernadi fyrirkomulag finnst mér ágætt, aðalvandamál þessarar keppni, heimskulegt eins og það nú er, er að þau lið sem keppa þarna fá bara allt of mikinn pening fyrir það, mikið nær væri að þessar summur myndu dreifast meira á öll liðin í þeim deildarkeppnum sem á endanum skila af sér liðum í þessa keppni.

  Með núverandi fyrirkomulagi verður á endanum gengið að góðum deildarkeppnum dauðum, hvar er skemmtanagildið í því að sjá Lyon bara vinna frönsku deildina, Celtic eða Rangers bara skosku deildina, Rosenborg (í den) bara þá Norsku, PSV þá Hollensku o.s.frv. nánast eingöngu vegna þeirra gríðarlegu sjóða sem þessi lið komast í, umfram liðin sem þau eru FYRST OG FREMST að keppa við í sínu heimalandi. Þetta er frekar ósanngjarnt að mínu mati. Auðvitað á að umbuna bestu liðinum, en þetta er komið langt út fyrir að vera öfgar.

  Ég vil ekki sjá einhverja evrópudeild sem yrði til þess að stóru liðin færu úr sínum heimadeildum, ég hef óbeit á þessu ameríska fyrirkomulagi og vil sem minnst hrófla við fótboltanum.

Liðin komin á hreint í Meistaradeildinni (uppfært með könnun)

Uppfærsla – Myndir