Marseille á morgun!

Á morgun leikur Liverpool-liðið næstsíðasta leikinn í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu þetta árið. Um er að ræða heimaleik gegn Marseille, en við þekkjum það af erfiðri reynslu að það er sýnd veiði en alls ekki gefin. Þessi lið mættust einnig í riðlakeppninni í fyrra og eins og menn muna unnu Liverpool útileikinn þá (og svo aftur nú í haust) en töpuðu óvænt á Anfield, þannig að þótt okkar menn séu líklegri getur allt gerst á morgun.

Fyrir leikinn er staðan í riðlinum skýr; Atletico Madrid og Liverpool eru efst og jöfn með 8 stig hvort, PSV og Marseille reka lestina með 3 stig hvor. Ef okkar menn vinna annað kvöld, eða gera jafntefli og PSV nær ekki að vinna Atletico, erum við öruggir í 16-liða úrslitin eftir áramót. Það er því afskaplega mikilvægt fyrir okkar menn að ná góðum úrslitum því það myndi gera útileikinn gegn PSV – sem fellur í miðri jólatörninni í Úrvalsdeildinni – allt að því tilgangslausan og Rafa gæti því leyft sér að hvíla menn í þeim leik og lagt allt kapp á deildarleikina í desember.

Af leikmönnum Liverpool er það helst að frétta að Skrtel og Degen eru enn frá og Hyypiä sem fyrr ekki í Meistaradeildarhópnum þannig að vörnin er nánast sjálfvalin fyrir þennan leik. Þá er Gerrard orðinn leikfær en ég geri ráð fyrir að Rafa hafi hann á bekknum á morgun, á meðan Alonso ætti að koma inn í liðið eftir að hafa hvílt í síðasta leik.

Ég spái því að Rafa stilli upp eftirfarandi byrjunarliði:

Reina

Arbeloa – Carragher – Agger – Aurelio

Alonso – Mascherano
Kuyt – Babel – Benayoun
Torres

**Bekkur:** Cavalieri, Dossena, Lucas, El Zhar, Gerrard, Riera, Keane.

Keane og Riera hafa leikið nær alla leiki liðsins að undanförnu og á meðan sá spænski hefur staðið sig vel og unnið sér inn örlitla hvíld fyrir desemberátökin held ég að Keane hafi gott af því að setjast aðeins á bekkinn. Hann hefur verið duglegur og liðið er að vinna með hann innanborðs en hann veit manna best að hann getur leikið betur og kannski nær hann aðeins áttum ef hann byrjar á bekknum í einn eða tvo leiki.

Á móti kemur að Benayoun hefur yfirleitt skilað stöðugu framlagi þegar hann byrjar inná, og þá sérstaklega í Meistaradeildinni, auk þess sem ég held að það gæti verið gott að gefa Babel byrjunarleik í sinni uppáhaldsstöðu – frammi með Torres – til að reyna að endurræsa tímabilið hjá honum, en það hefur ekki verið upp á marga fiska hingað til.

Hjá Marseille-mönnum er lítið að frétta. Ég býst við þeirra sterkasta liði á morgun, utan Mathieu Valbuena sem skoraði eins og frægt varð sigurmarkið gegn okkur á Anfield í fyrra. Raunhæft séð eru Marseille-menn í baráttu við PSV um þriðja sætið í riðlinum og þátttökurétt í Evrópukeppni félagsliða eftir áramót, þannig að þeir selja sig eflaust grimmt í þessum leik.

**MÍN SPÁ:** Eftir daufa frammistöðu og markaþurrð um helgina ætla ég að spá því að okkar menn hrökkvi aðeins í gang á morgun og skori fleiri en tvö mörk. Hins vegar hefur Marseille-liðið spilað fínan sóknarbolta í Meistaradeildinni í haust og gæti nýtt sér óöryggið sem skapaðist við að missa Skrtel úr vörn okkar í haust. Ég held að þessi leikur fari **3-2 fyrir Liverpool** og verði hin fínasta skemmtun.

Áfram Liverpool!

20 Comments

  1. haa ég irði nú ekki hissa ef að marseille mindi rústa þessu, liðið gat ekki tekið fullham á ainfield, þá er þeta lið sem þeir hafa sko ekki, gúrkuhalar bara þarna

  2. Félagi minn sendi einu sinni svipað vel orðað SMS (og Nr.1) kl 5:30 á sunnudeginum á þjóðhátíð í eyjum!!

    Reyndar ekki með neinu skítkasti.

  3. Gríðarlega sáttur við þessa upphitun, sammála henni completely og vona að KAR hafi rétt fyrir sér með liðsvalið.

  4. Já, fín upphitun, en ég set stórt spurningamerki við Babel í “holunni”. Get alveg séð hann virka uppi á topp (þegar Torres er ekki) en mér finnst hann persónulega vera þannig leikmaður að hann eigi ekki heima í þessari stöðu fyrir aftan Torres. Ég tel hann vera ekki með nægilega gott auga fyrir leiknum sem slíkum til að vera í þeirri stöðu og eins nýtist hraði hans ekki jafn vel þar. Ég myndi því frekar svissa á honum og Benayoun, hafa Babel á kantinum og hinn fyrir aftan Torres (sem ég tel vera hans bestu stöðu). Annars bara nokkuð sáttur við uppstillinguna. Ef ég mætti ráða þó, þá myndi ég byrja með Stevie inná og Riera á kantinum, með Keane fyrir aftan Torres. Keyra á Marseille með okkar allra sterkasta liði því mér finnst gríðarlega mikilvægt að tryggja okkur í 16 liða úrslitin í þessum leik.

  5. Alveg sammála Steina með það að ég sé Babel alls ekki fyrir mér í þessari stöðu. Annars vonast ég eftir að sjá Stevie í liðinu og þá inni fyrir Keane.

    —-Alonso-Masch
    Kuyt—Gerrard—Riera
    ——–Torres

    Það skiptir miklu máli að loka þessum riðli bara eins og skot og það gerum við með okkar bestu mönnum.

  6. Sorry, meinti auðvitað að Stevie kæmi inn í liðið í holuna, Keane sem sagt á bekkinn. Ætlaði sem sagt að stilla upp liðinu eins og Julian gerir hér að ofan.

  7. Babel kannski á hægri og Kuyt frammi með Torres. Annars vill ég ekki sjá Keane í byrjunarliðinu, ollið mér miklum vonbrigðum og hefur ekkert með aðlögunartíma þegar menn eru að klikka svona einn á móti markmanni aftur og aftur…

  8. Í mínum huga mjög mikilvægur leikur. Það skiptir öllu máli að ná fyrsta sæti í riðlinum og fá “léttari” andstæðing í 16 liða úrslitunum.

    Við vinnum báða þessa leiki – vinnum svo leikinn í 16 liða útslitum og komumst í 8 liða úrslit.

    Þá fyrst verður þetta spennandi.

    Áfram Liverpool!

  9. SSteinn, þessi spá mín með byrjunarliðið er byggð á þeim líkindum að Gerrard sé orðinn leikfær en Rafa ákveði að taka enga sénsa og byrja með hann á bekknum. Ef hann er heill til að byrja inná myndi ég sennilega setja hann þarna inn í stað Babel eða Benayoun.

    Varðandi “holuna” er ykkur frjálst að líta á þetta sem 4-4-2 þar sem Babel og Torres fá einfaldlega að spila saman frammi. Það þarf ekkert endilega að vera slæmt þótt þeir séu svipaðir leikmenn.

  10. Samkvæmt mjög óáreiðanlegum heimildum er Real Madrid að undirbúa 15 milljón punda tilboð í Ryan Babel. Ég mundi ekki sjá eftir honum ef svona upphæð er á boðstólnum. En allavega hefur hann ekkert gert að undanförnu til að verðskulda byrjunarliðssæti á morgun. Minnir samt að hann hafi spilað einn af fáum góðum leikjum sínum í Liverpool-treyju í fyrri leik þessara liða í Frakklandi. Man reyndar bara eftir einum afbragðs leik hjá Babel fyrir LFC það var gegn Bolton í fyrra þar sem hann gjörsamlega saltaði Grétar Rafn.

    En að leiknum á morgu þá býst ég við svipuðu liði og spáð er í upphituninni nema Gerrard og Riera verða í liðinu í stað Babel og Benayoun. Ætla að vera svo frumlegur að spá 2-0 og G ‘n’ T skora mörkin.

  11. Sælir félagar.
    Fín upphitun og ég fellst á hana með “áorðnum” breytingum (#5 og #6). 😉 Hef svo sem ekkert annað um þetta að segja nema að ég er viss um að okkar menn tapa ekki aftur á heimavelli fyrir Marseille. Þó er þetta gott og skemmtilegt lið og þetta ætti því að verða skemmtilegur leikur. Mín spá 3 – 1
    Það er nú þannig.

    YNWA

  12. Ég hef nú einhverra hluta vegna enga trú á þessum orðrómi um tilboð Real Madrid í Babel, var það ekki Agger í síðustu viku hjá þeim, Tevez í dag og spurning um hver það verður á morgun.

  13. Hef ekki skoðun á byrjunarliðinu en spái öruggum 4-0 sigri í kvöld og treysti því að menn rífi sig upp á rassgatinu eftir Fulham-hörmungina, Benayoun 2, Torres 1 og Gerrard 1.
    Ég hef þó einhverja ónotatilfinningu varðandi meiðsli í leiknum.

  14. Góð upphitun og sammála að mörgu leiti. Ég gef mér hins vegar að Gerrard sé klár og því sé byrjunarliðð nákv. eins og KAR setur upp nema að Babel dettur á bekkinn.

    Síðan komi Keane og Babel inná fyrir Gerrard og Torres í seinni hálfleik.

    Þetta fer annars 3-0 þar sem Torres, Gerrard og Benayoun skora mörkin.

  15. Robbie Keane er í 4-7 sæti yfir flestar stóðsendingar í Ensku Úrvalsdeildinni samkvæmt úttekt sem Opta gerir(hægt að sjá á Vísi). Gott að sjá að þrátt fyrir að hann sé að spila langt undir sinni getu að þá sé hann þó búinn að leggja upp 4 mörk.

  16. Rakst á þetta í grein um Villarreal – Man Utd 🙂

    ,,The Manchester United vs Villarreal classics DVD is really one to avoid this Christmas. That’s unless you have problems getting to sleep.”

  17. Alveg hræðilegir leikir í keppninni í gær!
    Hljóta að breyta þessu fyrirkomulagi, 7 af 8 sætum riðla gærkvöldsins ráðin þó ein umferð sé eftir. Algert bull finnst mér. Kominn tími á 48 lið í 16 þriggja liða riðlum í september og tvö efstu lið hvers riðils í 32ja liða úrslit sem dregið er í eins og í venjulegri bikarkeppni!!!!
    Mín skoðun allavega…….. Ekki síður eftir kvöldið þar sem svipað verður upp á teningnum held ég, síðasta umferð CL verður örugglega marklítil og klárlega marklaus hjá okkur!!!!

  18. The Liverpool team in full: Reina, Arbeloa, Aurelio, Carragher, Agger, Mascherano, Alonso, Riera, Kuyt, Gerrard, Torres. Subs: Cavalieri, Dossena, Benayoun, Lucas, Babel, Keane, Kelly.

Xabi Alonso

Liðið í kvöld…