Xabi Alonso

Undanfarið hefur verið svokölluð Gerrard vika á Official síðunni þar sem keppst er við að hrósa fyrirliðanum og þeirri “ótrúlegu” staðreynd að hann hafi haldið tryggð við klúbbinn í heil 10 ár. Ég set nú spurningarmerki við svona vikur á meðan leikmaðurinn er ennþá í fullu fjöri, en gott og vel, það er ekki eins og hann eigi þetta ekki skilið!

En á sama tíma og Gerrard er hrósað í hástert hefur spænskur fóstbróðir hans loksins stimplað sig aftur inn á Anfield og er byrjaður að sýna þá takta sem hann sýndi á sínu fyrsta tímabili með Liverpool, þá takta sem fengu Benitez til að kaupa hann. Líkt og flestir muna eftir þá var Xabi Alonso hreint frábær oft á tíðum á sínu fyrsta tímabili, loksins var kominn nýr Jan Molby og það með six pack, ekki kút (ég skal samt ræða við ykkur heilt kvöld um hversu mikið hagkvæmara það er að hafa kút).

Xabi gat sent blöðruna nánast hvert sem hann vildi og nánast því tekið leiki yfir og stjórnað tempóinu gjörsamlega. Tímabilið 2004/2005 var reyndar mjög mikið meiðslatímabil hjá okkar mönnum og virtist lengi vel sem okkar bestu menn fengju ekki að spila saman, annaðhvort var Gerrard frá með smá meiðsli eða Alonso ef ég man þetta rétt, ásamt því að Gerrard var mikið í frjálsu hlutverki út frá hægri kannti Meiðslin í upphafi árs 2005 gengu meira að segja svo langt að Igor Biscan náði á endanum að sanna að hann er einn af betri leikmönnum sem spilað hefur fótbolta (ásamt Andrei Voronin auðvitað).

Þetta fyrsta tímabil Alonso (og Rafa) var Liverpool nokkuð eðlilega vil ég meina í þónokkru basli í deildinni og gaf þá keppni nánast upp á bátinn löngu fyrir lok tímabils, en í meistaradeilinni var allt annað lið að spila. Uppi voru spurningar um hvort Alonso hefði hraða eða úthald í deildina enda hann og Hamann ekki þeir fljótustu í boltanum og tóku því ekki eins mikinn þátt í sóknarleiknum og maður vildi sjá frá miðjunni. En í meistaradeildinni fékk Alonso örlítið meiri tíma á boltann og meira svæði. Alonso er leikmaður sem er stórhættulegur ef honum er gefið svæði og tími með boltann.

Því er óhætt að segja að maður hafi verið spenntur fyrir þessum nýja leikmanni og hreint ákaflega bjartsýnn á framhaldið þegar hann hefði aðlagast enska boltanum betur.

Til að meta þetta fyrsta tímabil Alonso hefur mér oft fundist ágætt að nota hið hræðilega fíaskó sem Gerrard í samvinnu við umboðsmann sinn efndi til, örfáum vikum eftir flottasta úrslitaleik í sögu evrópukeppninnar í fótbolta, sem mælikvarða á það álit sem mjög margir höfðu á Alonso eftir hans fyrsta tímabil. Hann var búinn (að því er manni fannst) taka stöðu mið miðjumanns af sjálfum Steven Gerrard og spilaði frábærlega (seinna kom það í ljós að Gerrard spilar alls ekkert alltaf á miðjunni undir Benitez). Gerrard sem nú er verið að hrósa fyrir hollustu við lið sitt var ótrúlega nálægt því að guðlast meira heldur en spaugstofan gerði árið sem hún tók upp páskaþáttinn sinn fræga. Hann gaf út að hann vildi yfirgefa Liverpool og sendi okkur poolara, sem varla voru hættir að brosa eftir Istanbul, í háttinn 95% vissa um að við værum að missa fyrirliðann okkar til No Way Jose og strákana hans í $%%&$ Chel$ki. Á þessum tíma slagaði það í að vera bara alveg eins og ef hann hefði bara sagst ætla að ganga til liðs við United.

En þar sem við poolarar erum jú bjartsýnismenn að upplagi sem horfum jafnan á björtu hliðarnar og höfum sannarlega gengið i gegnum súrt og sætt þá litum við ekki á að þetta þyrfti endilega að vera einhver heimsendir. Gerrard færi auðvitað ekki frítt, það kæmi maður í manns stað og já, við áttum núna Xabi Alonso, sem ef eitthvað, var betri heldur en Gerrard.

Snilldar ummæli hjá EÖE 04.07.2005

– Ég legg til að Gerrard taki hausinn útúr rassinum á umboðsmanni sínum og hætti þessari vitleysu. Eða þá að pabbi hans tali vit í hausinn á Stevie líkt og hann gerði í fyrra. Þetta er svo fáránlegt að það hálfa væri nóg.

– Ef að okkar næstbesti leikmaður fer útaf einhverju svona kjaftæði, þá verð ég brjálaður. BRJÁLAÐUR!

Auðvitað var þetta litað því að menn voru gríðarlega reiðir út í Gerrard fyrir að vilja fara og það til Chelsea, en segir samt mikið um það álit sem við höfðum mjög margir á Alonso.

Gerrard sá nú að sér eins og við vitum öll og hefur núna skráð nafn sitt kyrfilega, með blekpenna, meðal okkar allra dáðustu leikmanna, eitthvað sem hefði gleymst eins og skot kæmi hann fram í bláum búning. Alonso hinsvegar náði ekki alveg að fylgja eftir þessu góða fyrsta tímabili, hann hefur verið að lenda í meiðslum af og til, virkar oft hægur og er lengi að koma sér í gang eftir meiðsli, ásamt því að andstæðingar okkar voru mun meðvitaðari um hættuna sem skapaðist af því að leyfa Alonso að leika lausun hala og einbeittu sér mun meira að því að slökkva á þessu hjarta í miðjunni hjá okkur. Hann þjáðist líka svolítið af því að missa Hamann og þurfa að spila með mönnum á við Momo Sissoko en það er önnur saga. Þetta var ekki sami Alonso og við sáum fyrst. Hann var ekkert lélegur og auðvitað mikilvægur hlekkur í liðinu en það var pirrandi við hann að maður vissi svo innilega að hann gat mun meira. Þetta gekk svo langt að í sumar munaði bara engu að við hefðum álpast til að selja kappann.

Að vanda reyndum við að réttlæta það okkar á mill en ég held samt að flestir okkar hafi nú innst inni alls ekki viljað losna við Alonso, okkur líkar vel við leikmenn eins og Molby og Alonso.

Ég var því afar feginn þegar leikmannaglugginn lokaði að við hefðum ekki selt spánverjann og mikið óskaplega held ég að Ranieri stjóri Juventus hefði nú frekar viljað fá þennan Alonso, sem hann sagði of hægan þegar hann hætti við að kaupa hann, heldur en Poulsen. Hvað þá vælukjóinn Arsene Wenger sem sagður var heitur fyrir Xabi, það lið gæti nú aldeilis notað Xabi núna og tönglast nallarar á þessu oft þessa dagana.

En þar með er ég kominn að ástæðu þessa pósts, sem er tvíþætt, fá menn til að gleyma leik gærdagsins og umræðunni hérna í kjölfar hans.

En þó aðallega til að tilkynna ykkur lesendur góðir að………………………

………….Xabi Alonso er kominn aftur, hinn raunverulegi Alonso.

í þessum ham er hann í flokki með Torres, Gerrard og Reina, okkar mikilvægustu leikmanna.

22 Comments

 1. Sammála, frábær leikmaður.

  Væri samt svo til í að hann gæti skotið almennilega, væri virkilega ljúft að fá fleiri mörk frá honum. En annars er hann bara bjútí.

 2. Á síðasta tímabili þá var Mascerano klárlega að spila miklu betur en Alonso og var Alonso eiginlega orðinn varaskeifa.

  Í ár er liðið að standa sig best með Gerrard og Alonso í liðinu(reyndar frábært að hafa Mascerano með þeim tveim á móti stórliðum). Því segji ég velkominn aftur Alonso

 3. Alonso er búinn að vera okkar besti maður á tímabilinu. Mikið er ég feginn að Martin O’Neill setti fáránlegan verðmiða á Gareth Barry.

 4. Heldur betur frábær leikmaður, bara feginn að hann fór ekki til Juve eða Arsenal. Mætti samt skora meira en gerir frekar sóknir.

  -afmælisbarnið kveður

 5. Ég segi bara fyrir mitt leyti að ég er stórkostlega feginn að hinn eini sanni Xabi Alonso er kominn aftur. Ég var farinn að sakna hans óstjórnlega mikið og það er engin tilviljun að endurreisn hans hefur skilað sér á sama tíma og liðið er í toppbaráttunni. Síðast þegar hann lék svona vel náði liðið þriðja sætinu tímabilið 2005/6 og vann bikarkeppnina. Vonandi gera menn enn betur núna.

 6. Eftir áramót 2005 spilaði Liverpool sitt besta “hálfa tímabil” frábær árangur í deildinni og úrslitaleikurinn í meistaradeildinn. Gerrard var mikið frá á þessu tímabili vegna meiðsla og kom svo inn í liðið á kantinn. Kóngurinn á miðjunni sem dró vagnin á þessum tíma var Alonso og finnst mér hann aldrei hafa fengið það lof sem hann átti skilið fyrir það. Og hana nú

 7. Gott að fá gamla góða Xabi aftur. Viðurkenni að ég var tilbúinn að selja hann í sumar.

  En……Ég verð að spyrja, er einhver hér á blogginu sem er impressed af honum Lucas greyinu Leiva? Ég hef ekkert séð frá honum sem að réttlætir það að hann sé að spila með landsliðinu hjá Brasilíu og Liverpool. Hlýtur að vera með frábærann persónuleika eða eitthvað því að ég hef aldrei séð neitt frá honum sem að bendir til þess að hann eigi eftir að verða stórt nafn í boltanum.

 8. Xabi Alonso er í fantaformi þessa dagana og meðan svo er þá er ég ákaflega glaður.
  Var einn af þeim sem taldi Xabi ásættanlegan fórnarkostnað fyrir því að fá Barry, en auðvitað ekki eins og hann spilar í dag.
  Hins vegar hefur frammistaða hans alls ekki minnkað áhuga minn á Gareth Barry sem ég tel fantagóðan leikmann og einstakling sem myndi bæta hóp okkar mikið og einmitt í leikjum eins og um helgina. Barry væri flottur miðjumaður MEÐ Alonso og svo Gerrard fyrir framan. Mascherano er snilldarleikmaður en í leikjum eins og gegn Fulham finnst mér við þurfa leikmann með meiri sóknarstyrkleika. Þannig að ef að við losum pening í janúar vill ég kaupa Barry, en ekki lengur fórna Alonso. Pennant og jafnvel Benayoun leyfilegur fórnarkostnaður fyrir það. Barry gæti alveg verið á vinstri kanti eða í bakverði líka…..
  Lucas Leiva er auðvitað enn ungur maður og við skulum ekki gleyma því að fáir Brassar hafa meikað það í enska boltanum. Ég horfði á brasilíska ólympíulandsliðið í sumar og þar fannst mér hann leika mjög vel. Hann var þar í hlutverki Mascherano að mestu leyti, sópa undir miðjumönnum og bera boltann frá varnarmönnunum. Ég held reyndar að það sé eilítið erfitt að dæma strákinn fyrr en hann er að spila með almennilegum mönnum í öllu liðinu. Segjum t.d. lið þar sem hann og Alonso væru fyrir aftan Gerrard og Torres. Veit ekki hversu oft það hefur gerst, alveg eins og með Babel er eilítið erfitt að segja endanlega til um hann fyrr en hann fær að vera einn af þeim stóru. Ég fer t.d. ekki enn ofan af því að mér fannst hann leika betur en Masch um helgina. En hann hefur ekki eins afgerandi hæfni og Javier, sem er náttúrulega svakalegur takklari og sópur. Ég er ekki búinn að afskrifa hann, en viðurkenni alveg að ég vonaðist eftir meiru. Hann þarf samt meiri tíma fyrir minn smekk, í alvöruliðinu……

 9. Mér þætti gaman að lesa kommentin frá því í sumar þar sem menn kepptust um að úthúða Alonso og voru jafnvel tilbúnir að fara fórna honum fyrir miðlungsleikmanninn Garreth Barry!!!!.
  Ég hef alltaf verið aðdáandi Alonso enda man ég meira en 6 mánuði aftur í tímann. Vissulega var Alonso ekki að spila vel á síðasta tímabili enda átti hann við erfið meiðsli að stríða.
  Þegar Alonso er í sínu besta formi þá er hann klárlega betri kostur en Masche og Lucas sem varnamiðjumaður, þar sem allt spilið fer í gegnum hann.

  • Mér þætti gaman að lesa kommentin frá því í sumar þar sem menn kepptust um að úthúða Alonso

  Var nú eitthvað verið að úthúða honum?

  Annars er ég nú sammáa því að ég væri mjög mikið til í að hafa Barry upp á að hlaupa núna, hvort sem það væri á miðju, kannti eða í bakverði. En bara ekki á kostnað Alonso.

 10. Gott að sjá að menn eru farnir að muna eftir Alonso eins og hann var bestur. Ég var alla tíð efins um að selja hann, því þegar menn eru aðeins 26 ára (27 ára reyndar á morgun), þá verða menn ekkert verri heldur en þeir voru 23-24 ára. Alonso er eins og Ásgeir Sigurvinsson var, hann heldur utan um leiki síns liðs og er líka öflugur tæklari og frábær skotmaður (þótt skotið á laugardaginn hafi farið yfir á Goodison). Staðan okkar í deildinni væri önnur ef hans nyti ekki við – Barry hefði pottþétt þurft tíma til að aðlagast (sjáið bara Robbie Keane) og það hefði ekki dugað okkur þetta tímabil. Ég vil halda Alonso amk. til þrítugs – næstu 3-4 tímabil. Þá mun hann skrá sig í bækurnar líkt og Mölby gerði – bara slatta öflugri leikmaður.

 11. Mér þætti gaman að lesa kommentin frá því í sumar þar sem menn kepptust um að úthúða Alonso og voru jafnvel tilbúnir að fara fórna honum fyrir miðlungsleikmanninn Garreth Barry!!!!.

  Þessi komment eru öll til staðar á blogginu. Þú þarft bara að leita að þeim. Það að sumir (ég meðtalinn) töldu það gáfulegt að skipta Alonso, sem hafði verið arfaslakur í tvö ár, út fyrir Gareth Barry, sem hafði verið einn besti miðjumaðurinn í deildinni á sama tíma, er ekki það sama og að “keppast um að úthúða” viðkomandi leikmann.

 12. ‘Eg segji það en og hef sagt það áður að “sjúkrabílinn hann babu” er besti penninn á bloggi þessu.
  Snildarpistill um xabi alonso, og tek undir það sem áður hefur komið fram að hann fer í flokk með reina,torres,gerrard og carrager sem mikilvægustu menn okkar ástkæra liðs liverpool.

 13. Alonso er nú góður en á ekkert í menn eins og Michael Thomas, Jean Michelle Ferri og Oviende Leonardsen, þessir menn voru gæði í gegn og á góðum degi hefðu þeir slátrað öllum

 14. Alonso er klárlega búinn að vera einn albesti leikmaður liðsins á tímabilinu, hann hefur greinilega farið í rækilega naflaskoðun í sumar og ákveðið að sanna sig og það hefur hann gert svo um munar.
  Ég hef aldrei séð af hverju Rafa ákvað að eyða 6 millum í Lucas. Að mínu mati er hann miðlungsleikmaður og finnst mér ekkert benda til þess að hann geti einhvern tímann orðið fyrsti kostur í liðið. Það kom mér virkilega á óvart að Rafa skildi ekki taka hann útaf í hálfleik á móti Fulham. Alveg óskiljanlegt að hann sé búinn að spila landsleiki fyrir Brassana.

 15. Þessi vika á official síðunni er nú meira í þá átt að fanga 10 ára afmæli Gerrard í aðalliðinu eeen það annað mál.

  Alonso. Gaman að sjá hann koma svona rækilega til baka en 4 mánuðir af mjög góðri spilamennsku bæta bara einfaldlega ekki upp 2 ár af hreinlega hundlélegri spilamennsku. Ég set t.d. spurningamerki við það hvað hann er lengi að komast í form, en hann er töluvert lengur en þessi venjulegi 26 ára maður að komast í sitt besta form. Það er einfaldlega of dýrt fyrir mann á hans reki. Ímyndið ykkur hvernig þetta verður eftir þrítugt. Þess vegna er algjört lykilatriði að hann haldi sér heilum og fari ekki að detta í meiðsl og leiðindi. Vil bara ekki að menn gleymi að hann var tvö ár í hreinni meðalmennsku.

  Ég er samt alls ekki að segja hér með að hann sé eitthvað verri en einn eða neinn. Ekki misskilja mig. Það eru fáir meiri aðdáendur sendinganna hans en ég og hvernig hann stjórnar leikjum. Núna vil ég hins vegar sjá hann stíga upp á næsta level og halda þessu performance til lengri tíma.

  Garet Barry. Hann er líka búinn að vera frábær á þessu tímabili og ég vona að Liverpool næli í hann fyrr en síðar. Hann býður líka upp á töluvert meiri fjölbreytni en gengur og gerist í boltanum.

  Lucas. Hann er einfaldlega bara ungur og þarf sinn spilatíma. Ótrúlegt að það séu sömu menn sem eru að gagnrýna aðra fyrir að sjá ekki lengra aftur í tímann í tilfelli Alonso en kjósa svo að drulla yfir 21 árs gamlan strák sem er að stíga sín fyrstu skref í aðalliðinu. Ég, fyrir mína parta allavega, er mjög hrifinn af Lucas og sé í honum þennan fjandi góða miðjumann með góða tækni, flotta sendingagetu og góðan leikskilning. Þetta er uppskriftin af þessum “ideal” leikmanni Rafa. Sammála hér að ofan að hann þarf að fá sénsinn með stóru strákunum.

  Friður

 16. Brúsi þú talar um að Alonso hafi verið lengi að ná sér af meiðslum, og segir að hann eigi að reyna að halda sér heilum.

  Ef ég man rétt þá hafa öll þessi meiðsli hans verið “utanaðkomandi” þ.e. hann gat lítið gert í þeim, tækling í CL 2005 og brotnaði, svo brotnaði hann í fyrra var það ekki og kom of snemma til baka gegn Arsenal, eða var það hitt í fyrra? Og brotnaði í endurkomunni, hann hafði verið bestur á vellinum það sem af var þeim leik.

  Annars er gaman að sjá hann standa sig núna eftir erfitt sumar, orðinn gallharður Liverpoolmaður og gaman að fylgjast með honum. Mér finnst hann þó geta verið örlítið sóknarsinnaðri, oft sem hann situr helst til of djúpt og er of seinn í seinni bylgjuna en það er líklega gert af ásettu ráði svo Gerrard fái að leika sér út um allt.

  Talandi svo um Lucas(á líka við um Babel) þá verðum við strákar að gera okkur grein fyrir því að þó að þeir teljist ungir þá eru þeir orðnir báðir meira en tvítugir. Komist í gegnum öll þessi youth kerfi í sínum löndum og búnir að spila marga marga landsleiki með yngri landsliðum og A landsliðum og sérstaklega Babel hjá Hollandi. Ég sé því ekkert því til fyrirstöðu að þeir eigi að fara að geta stigið upp hjá okkur, það er ekki alltaf nóg að fela sig bakvið aldurinn.

 17. Okey gott og vel, utanaðkomandi meiðsli. Svo sem ekkert sem maðurinn getur gert í því (er líka búinn að fá nokkrar alveg gúrmei tæklingar þetta tímabilið), en þegar menn einmitt brotna er það yfirleitt skárra en vöðva -og liðameiðsl, þar sem að beinin gróa alveg saman og verða sterkari ef eitthvað er, meðan hitt getur enst lengur og tekið sig upp aftur og aftur.

  Punkturinn minn er einfaldlega sá að fyrir mann á sennilega hápunkti síns líkamlega ferils, er það einfaldlega of dýrt að taka sér heilu mánuðina að koma sér í form. Ég er ekki svo viss um að ef hann meiðist aftur illa og tekur sér svipaðan tíma í að jafna si að Rafa verði svona ljúfur við hann og hann einfaldlega seldur. Ég hins vegar vona af öllu hjarta að sú verði ekki niðurstaðan.

 18. Þú gleymdir Jamie Carragher í hóp þessara mikilvægustu (Reina, Torres, Gerrard og Xabi). Annars var þetta fínn gúrkupistill 🙂

 19. Þess má til gamans geta að kvikindið á afmæli í dag. Óskum honum til hamingju með daginn.

Liverpool 0 – Fulham 0

Marseille á morgun!