Að spila niður væntingar

Það er auðvelt að gleyma sér í draumaheimi þessa dagana. Það hefur nú ekki verið oft á undanförnum árum sem maður hefur getað litið á töfluna og brosað, viku eftir viku. Það er auðvelt að láta sig dreyma um að sjá Stevie G lyfta bikarnum stóra í maí. En jörð kallar, við breytum ekki dagatalinu svo gjörla og það er alveg sama hvernig á málin er litið, nóvember er nýbyrjaður. Deildin vinnst ekki í nóvember, hún vinnst ekki heldur í desember, né janúar, febrúar, mars eða apríl. Það er liðið sem er í efsta sæti í lok leiktíðarinnar sem vinnur deildina. Að sjálfsögðu byggist það upp á leikjum sem eru spilaðir í þessum mánuðum, og hver einn og einasti leikur er mikilvægur í þessu langhlaupi.

Ég held reyndar að við stuðningsmenn Liverpool FC séum það reyndir í þessum bransa að við erum ekkert að fagna sigri núna. Menn gleðjast vel yfir hverjum 3 stigum sem komið er heim í húskofann okkar og vonast eftir öðrum þremur í næsta leik. Það er mikil klisja að taka einn leik fyrir í einu, en nú sem svo oft áður eru það þessar svokölluðu klisjur sem virka best. Liðið þarf að gera einmitt þetta, taka einn leik fyrir í einu og horfa ekkert lengra. Leikmennirnir virðast vera vel á jörðinni, og ég vil meina að við stuðningsmennirnir séum það líka. Það er í rauninni bara fínt að stuðningsmenn annarra liða séu að spila okkur niður í sínu tali. Það eru fáir sem telja okkur raunhæfa í baráttunni um titilinn, og það er bara fínt. Það er meira að segja fínt ef við sjálf spilum þetta áfram niður.

Liðið hefur verið að raka inn stig, en eins og Rafa hefur einnig sagt réttilega, þá eigum við fullt inni. Lykilmenn eru ekki að spila af fullri getu og þar liggur okkar helsta von. Menn eins og Gerrard, Torres, Mascherano, Babel og Agger hafa ekki verið að spila af fullri getu að mínu mati. Það eru ýmsar ástæður fyrir því, og kannski einhverjar sem við náum ekki að benda á í fljótu bragði. Beinast liggur við að það séu meiðsli (Gerrard, Torres og Agger) en einnig hefur það haft áhrif á aðra (Mascherano og Babel) að þeir náðu ekki fullu undirbúningstímabili með liðinu vegna þátttöku í Ólympíuleikunum. Kannski eiga einhverjir þessara leikmanna ekki eftir að ná fullum hæðum á þessu tímabili, en það er þó alveg ljóst að þarna liggur talsvert mikið aukanlega sem hægt væri að nýta vel.

Við erum engu að síður einnig búin að sjá aðra leikmenn rísa upp og spila betur en oft áður (Xabi, Arbeloa, Aurelio og Kuyt) og svo eru það nýju mennirnir sem hafa tekið mislangan tíma við að komast inn í þankagang Rafa (Riera, Dossena og Keane). En það er svo hrikalega stutt milli hláturs og gráturs. Spyrjið bara Arsenal menn að því. Einn daginn er allt svart hjá þeim, þann næsta vinna þeir góðan sigur á Man.Utd og allt er í blóma á ný. Þó staðan í dag líti vel út hjá okkur (núverandi gengi plús það sem við gætum átt inni hjá lykilmönnum) þá geta hlutirnir breyst á einni nóttu. Eitt til tvö vond töp og við erum á byrjunarreit. Það er því um að gera fyrir okkur stuðningsmennina að halda okkur á jörðinni, en jafnframt gleðjast yfir hverjum sigri okkar manna. Þó svo að maður haldi væntingum í lágmarki, þá má maður samt aldrei missa trú á liðið. Ég hef þá trú að við getum alveg blandað okkur í baráttu um titilinn, ég hef tröllatrú á þessu liði, eeeeen ég mun ekki detta í þann pytt að byrja að fagna of snemma. Hvað um ykkur, hvar stendur væntingavísitalan?

20 Comments

 1. Góður pistill.
  Ég gaf það út að meðal vinnufélaga minna og vina í Ágúst að ég held að Chelsea verði krýndir meistarar í vor og við verðum í 2 sæti, já núna þegar ég skrifa þetta þá man ég að spá mín með 4 efstu var alveg eins og staðan er núna.
  Þetta þýðir þó ekki að ég hafi ekki trú á okkar mönnum, öðru nær, ég held að þetta verði spennandi fram í loka umferð, en Chelsea eru bara með svo svakalegan mannskap að mér finnst bara ólíklegt að nokkur geti skákað þeim.
  En við unnum þá á Brúnni og ef við höldum okkar striki og vinnum þá á Anfield líka þá er auðvita þetta í okkar höndum.

 2. Sæl öll.
  Ég geri miklar væntingar til liðsins á þessu tímabili. Liðið hefur verið að spila gríðarlega vel og búið að vinna tvo helstu keppinautana sem eiga svo sjálfir eftir að keppa innbyrðis. Það er rétt að tímabilið vinnst ekki í nóvember eða desember en það getur hins vegar tapast á þessum tíma. Það er ekki að fara að gerast hjá okkur.

  Í mínum huga hefur Rafa náð að skapa afar sterka liðsheild sem hefur sýnt að hún er haldin sigurþorsta og menn eru reiðubúnir að leggja sig fram fyrir hvorn annan. Það má til sanns vegar fær að hinir og þessir séu ekki komnir í sitt besta form. Hins vegar þá eiga þeir alla möguleika á að ná því þar sem til að mynda Agger, Torres, Gerrard og Masch munu allir fá tækifæri til að spila sig í sitt besta form. Babel mun líka reynast okkur mikilvægur sanniði til.

  Nú leggur Rafa höfuð áherslu á deildina. Segir sjálfur að “rotation” kerfið hafi verið mistök og keyrir á sterkasta liðinu. Nú eru öll stig mikilvæg og ekki gengið út frá neinu gefins. Hvenær hefur það til að mynda gerst að spjall stjórnendur geta í svona 90% tilvika giskað á byrjunarlið Liverpool leik eftir leik.

  Við erum með frábæra vörn og markmann. Hvenær gat Liverpool leyft sér það að hafa tvo heimsklassa haffsenta í starholunum þegar Skrtel meyðist? Og svo hafa bakverðirnir okkar heldur betur sprungið út. Arbeloa algerlega frábær og Aurelio allur að koma til. Hann hefur svo vinstri bakvörð Ítala og einn efnilegasta bakvörð Argentínu til að leysa sig af.

  Miðjan hefur svo sjaldan verið sterkari. Gerrard getur leyst þá Masch og Alonso af sem báðir eru virkilega góðir og Leiva er fínn. Sérstaklega sannar Alonso það að menn þurfa einfaldlega að spila sig í form eftir meiðsli til að ná fyrri getu. Og ef Gerrard er á miðjunni en ekki í holunni þá getum við stillt þeim Torres, Kuyt, Kean og Riera frammi sem allir hafa sýnt frábæra leiki í vetur. Babel, Benayon og Ngog geta svo leyst þá af hólmi án þess að veikja liðið mikið.

  Já ég ætla að gera miklar vonir við að þetta lið geri harða tillögu að titlinum í vor þá ég átti mig líka á því að önnur lið eins og Chelsea og manu séu ógnarsterk. Spái að við verðum í fyrsta sæti um áramót og þá getur allt gerst.

  Þetta verður tímabilið okkar.

  Áfram Liverpool!

 3. væntingar mínar eru þær að liðið spili til sigurs í hverjum einasta leik, taki einn leik í einu og reyni sitt besta. ef menn gera það þá er ég ánægður og stoltur liverpool aðdáandi. en svo kemur þetta bara í ljós.

 4. Þetta er einfalt mál í mínum huga: ef við vinnum alla leiki sem eftir eru verðum við meistarar.

  Ég sagði líka “ef”…

  En raunhæft þá finnst mér það algjörlega vera réttmæt krafa og raunhæfar óskir að berjast um titilinn til síðasta leiks. Eins og SSteinn segir, þá eiga margir leikmenn mikið inni og meðan Rafa er að spila liðinu eins og það er núna … þá hef ég ekki áhyggjur. Tölfræði segir ýmislegt en hefur ekki áhrif á gengi liða. Mér hefur fundist Liverpool vera mun sterkara eftir áramót síðustu keppnistímabil og með það í huga lít ég björtum augum á titlabaráttu.

  Ég spái því hiklaust þessari röð liða í lok móts:
  1. Liverpool
  2. Chelsea
  3. Manure

  Væntingavísitalan stendur því í einum (1) hjá mér … en þegar feita konan hefur sungið þá sést hvort hún hafi staðist eða ekki.

 5. Þetta liggur nokkuð ljóst fyrir. Hagfræðingar segja að allt hafi farið aftur á bak um 20 ár sökum kreppu Fyrir 20 árum urðum við meistara þannig að þetta er ekki flókið mál.
  hugheilar

 6. Ég er í raun sammála þórhalli í þessu. Væntingavísitala mín er í 4839 stigum, en að baki hennar standa flóknir útreikningar. Ég ber sem sagt væntingar til þess að við verðum meistarar í vor. Það yrði ákaflega ánægjulegt og góður plástur á allt fokkið sem er búið að vera í gangi.

  En ég get sagt ykkur eitt: Ef við eigum möguleika á því að verða meistarar þegar kemur að síðasta heimaleik okkar, þá er mér slétt sama hversu verðlítil krónan verður, ég ætla að vera á svæðinu !!

  Ef það hreinlega verða ennþá samgöngur til og frá landinu á þeim tíma, þá ætla ég til liverpool ef þessi staða kemur upp.

  Carl Berg

  p.s: Ég bíð ennþá eftir mikilvægri staðfestingu frá pistlahöfundi þess efnis að við höfum slátrað síðasta leik, svo ég geti um frjálst höfuð mitt strokið.

 7. …og ef við erum komin 30 ár aftur í tímann, þá vann Liverpool líka ´79 þannig að þetta er bara gefið mál.
  En án gríns, þá er þetta fínn pistill og hið allra besta mál að vera í öðru sæti á markatölu í nóvember. Ég man samt alltaf eftir bestu byrjun Houllier, 9 3 0 og svo komu 2 mánuðir án sigurs ef ég man rétt.
  Við höfum þó verið að fá of mikið af mörkum á okkur, reyndar verið að fara í gegnum erfitt prógram og verðum að vinna alla leiki fram að jólum til að halda okkur við toppinn. Ef það tekst þá er tímabilið og endaspretturinn okkar.

  1. eða 2. sætið hugsa ég að sé alveg raunhæft.

  2. og 4. sætið hefur verið okkar undanfarin ár og við erum með betra lið núna og höfum verið að skrapa inn slatta af stigum sem við vorum ekki að fá t.d í fyrra (gegn Man Utd og Chelski svo dæmi séu tekin) þannig að öllu öðru óbreyttu vonast ég eftir sæti 1 – 2 í ár.

 8. Jæja já …. þetta átti semsagt að vera svona:

  Fyrsta eða annað sætið hugsa ég að sé alveg raunhæft.
  Þriðja og fjórða sætið hefur verið okkar undanfarin ár og við erum með betra lið núna og höfum verið að skrapa inn slatta af stigum sem við vorum ekki að fá t.d í fyrra (gegn Man Utd og Chelski svo dæmi séu tekin) þannig að öllu öðru óbreyttu vonast ég eftir sæti 1 – 2 í ár.

 9. Ég passa mig á að keyra ekki væntingarvísitöluna upp úr öllu valdi. En Liverpool lítur út fyrir að ætla að vera í toppbaráttunni í vetur og það eitt og sér er mikið fagnaðarefni. Síðustu ár hefur “pre season” hafist í janúar vegna þess að þá hefur toppbaráttan verið úti fyrir Liverpool og maður farinn að hugsa um næstu leiktíð.

  Hópurinn er klárlega sterkari en síðustu ár, betra byrjunarlið og bekkurinn líka líklegur til að gera eitthvað til að breyta töpuðum leik í sigur. Mér fannst í haust að liðið ætti enn eftir að tryggja sér betri bakverði en það hefur ekki verið mikið upp á þá félaga að klaga. Helst finnst mér vanta meiri samkeppni við Arbeloa.

  Ég hef ekki trú á því að Liverpool verði meistarar í vor. Chelsea virðast ógnarsterkir og það verður erfitt að enda fyrir ofan þá. Það má líka búast við Man Utd á fljúgandi siglingu þegar liðið hrekkur almennilega í gang. En þessi leiktíð virðist, hingað til, vera skref í rétta átt. Það virðist líka vera þannig að lið þurfa að berjast um titil áður en þau taka síðasta en jafnframt erfiðasta skrefið. En njótum þess að sjá Liverpool við toppinn og vonumst eftir 3 stigum í næsta leik. Maður veit nefninlega aldrei…

 10. Þetta mun mikið til ráðast í jólatörninni:
  21. des Arsenal-Liverpool
  26. des Liverpool-Bolton
  28. des Newcastle-Liverpool
  Ef Liverpool tekst að halda sér á toppnum eða við toppliðin eftir törnina er ég tiltölulega bjartsýn að liðið haldi það út tímabilið. En það er langur vegur framundan, nóvember rétt að byrja og margt eftir að gerast.
  Væntingavísitala mín er enn tiltölulega hófstillt.

 11. Og gaman að heyra að Javier Mascherano var nefndur fyrirliði Argentínu af D. Maradona

 12. Mig langar eiginlega að deila þessu með ykkur. Tek þetta úr Mailboxinu frá Football365. Þarna er verið að segja frá orðaskiptum Carragher við einn áhorfenda á Anfield.


  When Footballers Use The ‘C’ Word
  I have to admit that the restraint shown by most footballers given the level of abuse they get from certain members of the crowd is highly commendable. You know the type, never shut up for the whole game, passing negative comment (albeit occasionally humorous) at every opportunity, knowing full well that players can barely even make them out, never mind do anything about it.

  At the Liverpool-West Brom game on Saturday, our usual culprit was in fine form as ever. F’in this and F’in that.. Even threw in a few Chinese takeaway jokes aimed at West Brom’s Asian player, whose name escapes me, just for good measure. Only today was the day when he got his comeuppance.

  Carragher has the ball in the right-back position, not much movement up ahead, so Arbeloa gets his usual Scouse mouthful courtesy of Jamie. Back comes the loudmouth with “You F’in carry it Jamie you lazy something or other…” So this is usually the bit where the player gives a quick glance and then carries on like it never happened.. Not today my good man! Carragher responds in full high pitched scouse squeal “F’ off you crying c**t!”

  Silence…Shock and perhaps a hint of fear amongst the Red faithful. I don’t think any of us could actually believe it.
  Surprisingly we never heard a peep out of the culprit for the rest of the game. Not finished there though, next time in the same position Carragher, ball at feet, looks across and says “you want me to F’in carry it”. Brilliant!

  Now I don’t in any way condone his choice of language, especially given the presence of children, but it was well worth it to shut the idiot in the crowd up, even if it is just for one game.
  Warren Brady

  Algjör snillingur þessi maður !!!

 13. Þar sem menn eru að deila hérna, þá vil ég benda mönnum á þessa slóð:

  http://www.youtube.com/user/ElNino9Tornado

  Þarna er að finna Fernando Torres Story sem sýnt var á LFCTV á sunnudaginn. Fínasta mynd um ævi Torres frá því að hann fæddist til dagsins í dag. Þetta er í 5 pörtum þarna.

 14. Flottur pistill Steini!
  Hárrétt að við skulum halda okkur á jörðinni, vitandi það að þetta lið er besta liðið í alrauða búningnum lengi. Ég spáði í haust að Chelsea ynni titilinn í blálokin, en við yrðum næstir þeim. Ég held ennþá í þá spá, þar sem mér finnst Chelsea líta betur út en við að mörgu leyti, en tel okkur komna framúr United og talsvert framúr Arsenal.
  Það er ég verulega ánægður með í dag og vona að haldist fram á vorið. Ef hins vegar við verðum í sénsinum í aprílbyrjun ætla ég að leyfa mér að kitla von um titil, því Rafa hefur allan sinn feril sem þjálfari náð því besta út úr liðum sínum í lok leiktímabila.
  Er líka sammála þér í matinu á leikmönnum, stóru ásarnir eiga enn eftir að koma inn sterkir þó Gerrard hafi auðvitað skilað miklu nú þegar. Arbeloa og Aurelio klárlega að vinna framfaraverðlaun og nýliðarnir auðvitað óstöðugir, enda ólíkur leikstíllinn hans Rafa samanborið við þaðan sem þeir koma.
  En glaðastur er ég í dag að maður skuli geta leyft sér aftur að dreyma….

 15. Ég er ennþá að reyna að átta mig á því um hvað þessi pistill er. Það talar heldur enginn um að spila niður væntingar á íslensku.

  Annars geri ég jafnan þá kröfu á hverju ári að liðið vinni nú titilinn. Mér finnst að lið eins og Liverpool eigi ekki að sætta sig við minna, úr því að hin stóru liðin eru alltaf hundfúl ef þeir vinna ekki titilinn. 18 ár eru allt of langur tími í bið eftir titli.

  en einare: Þessi jólatörn gæti ekki verið betri fyrir Liverpool. Er til í að veðja íbúðinni minni á það að við tökum einn svona skyldu 4-0 sigur á Bolton eins og við gerum farnir að gera jafnan á móti lélegu liðunum, og Newcastle er orðinn algjör brandari.

 16. Sælir félagar
  Fínn pistill hjá SSteini og það að menn haldi sig í jarðsambandi er nauðsynlegt. En samt – liðið hefur verið að spila til sigurs í hverjum leik og með sama áframhaldi og hugarfari er ekki óraunhæft að gera sér vonir um titil í vor.
  Ég hefi annarstaðar bent á ákveðna veikleika í liðinu og var skammaður fyrir. Ég ætla ekki að endurtaka það hér en það taldi ég – og tel hluta af því að halda sig við jörðina en fara ekki með himinskautum. Amk. ekki strax.
  Liðið er sterkara nú en það hefur verið áður undir RB. En samt eru í því veikleikar sem þarf að ráða bót á. Væntanleg endurkoma Torres mun ráða bót á slysum eins og gerðist í Tottenhamleiknum. Veikleikar vinstra megineru til staðar og það er veikleiki að þurfa að vera með menn eins og Benayoun og Aurelio í byrjunarliði. Þeir eru einfaldlega ekki nógu góðir leikmenn til að eiga heima meistarabyrjunarliði. Menn eins og Babel eru vonarpeningur sem ástæða er til að ætla að verði alvörugjaldeyrir í framtíðinni.
  Hrygglengja liðsins; Reina, Carra, Mascherano/Alonso, Gerrard og Torres er ógnarsterk og er mér til efs að nokkurt lið í deildinni hafi af jafn burðarmiklu baki að státa. Til viðbótar eru svo magnaðir leikmenn eins og Arbeloa, Kuyt, Riera, Agger/Skrtel, Keane og svo menn eins og Leiva og Babel sem eiga eftir að verða sífellt betri.
  Að viðbættum alvöru vinstri bakverði sem er bæði fljótur, leikinn og sókndjarfur er komið lið sem getur unnið hvað sem er hvenær sem er.
  Það er semsagt bjart framundan og eðlilegt að væntingar séu miklar. En við skulum samt, eins og pistilhöfundur bendir á, halda okkur við jörðina en trúa samt.
  Það er nú þannig.

  YNWA

 17. Oft er spádómsgildi í því hverning lið standa sig á móti hinum stóru liðunum. Þessa samantekt sá ég á soccernet:

  2002/03
  PREMIER LEAGUE: Man U 83pts, Arsenal 78, Chelsea 67, Liverpool 64
  BIG FOUR LEAGUE: Man U 14pts, Arsenal 7, Liverpool 5, Chelsea 5

  2003/04
  PREMIER LEAGUE: Arsenal 90pts, Chelsea 79, Man U 75, Liverpool 60
  BIG FOUR LEAGUE: Arsenal 14pts, Chelsea 7, Man U 6, Liverpool 6

  2004/05
  PREMIER LEAGUE: Chelsea 95pts, Arsenal 83, Man U 77, Liverpool 58
  BIG FOUR LEAGUE: Chelsea 14pts, Man U 12, Arsenal 5, Liverpool 3

  2005/06
  PREMIER LEAGUE: Chelsea 91pts, Man U 83, Liverpool 82, Arsenal 67
  BIG FOUR LEAGUE: Chelsea 15pts, Man U 11, Liverpool 4, Arsenal 4

  2006/07
  PREMIER LEAGUE: Man U 89pts, Chelsea 83, Liverpool 68, Arsenal 68
  BIG FOUR LEAGUE: Arsenal 14pts, Man U 11, Liverpool 6, Chelsea 5

  2007/08
  PREMIER LEAGUE: Man U 87pts, Chelsea 85, Arsenal 83, Liverpool 76
  BIG FOUR LEAGUE: Man U 13pts, Chelsea 10, Arsenal 6, Liverpool 4

Sunnudagspælingar

Tottenham á morgun í deildarbikar