Wigan á morgun

Jæja, þá er enn einu landsleikjahléinu loksins að ljúka og á morgun byrjar félagsliðaboltinn að rúlla á ný í Evrópu. Fyrir okkar menn þýðir það að lærisveinar Steve Bruce í Wigan Athletic mæta í heimsókn á Anfield í leik sem Liverpool-liðið verður eiginlega að vinna.

Af hverju verður liðið að vinna þennan leik? Af eftirfarandi ástæðum: liðið hefur byrjað leiktíðina mjög vel og er á toppi deildarinnar ásamt Chelsea. Það má segja að eini leikur Liverpool í deildinni til þessa sem hefur valdið vonbrigðum sé jafnteflið á heimavelli gegn Stoke City í september. Í fyrra var það einmitt of mikið af jafnteflum gegn lakari liðum sem gerði út um atlögu liðsins að titlinum og miðað við að liðið hefur þegar átt eitt slíkt jafntefli á heimavelli er að mínu mati algjörlega nauðsynlegt að liðið vinni sigur á Wigan á morgun. Jafntefli (eða verra, tap) gæti haft þau áhrif, auk þess að tvö stig tapist, að óttinn við þennan sama veikleika grafi um sig meðal leikmanna liðsins og hafi áhrif á næstu leiki í deildinni. Þessi leikur verður því, að mínu mati, að vinnast.

Wigan-liðið hefur átt upp og ofan leiktíð. Steve Bruce tók við liðinu í janúar og stýrði því nokkuð þægilega úr fallbaráttu, þar sem áður virtist allt útlit fyrir að liðið væri á leiðinni niður. Í haust hefur hann svo byrjað betur með liðið, en það er nú um miðja deild eða í 13. sæti. Liðið hefur leikið ágætis bolta á köflum, sem sýnir sig best í því að hinn egypski framherji þeirra, Amr Zaki, er markahæstur í Úrvalsdeildinni ásamt Jermain Defoe, og því að hinn framherjinn, Emile nokkur Heskey, er verðskuldað orðinn fastamaður í byrjunarliði Englands á nýjan leik. Hins vegar hefur óstöðugleiki háð liði Bruce, sem t.a.m. tapaði síðasta deildarleik á heimavelli 0-1 gegn Middlesbrough.

Eitt er þó víst og það er að Steve Bruce kann að fara á Anfield og forðast tap. Ég man ekki hversu oft hann gerði það með Birmingham-liðið, og svo með Wigan-liðið á síðustu leiktíð, en það er engu líkara en hann mæti með nokkra verndarengla með sér á Anfield sem grípa jafnan í taumana með slysalegum hætti fyrir Liverpool-liðið og redda Bruce frá tapi. Hver man t.d. ekki eftir aulalegu marki sem Jerzy Dudek fékk á sig á lokamínútunum í 1-1 jafntefli liðanna tímabilið 2004-5, eða sjálfsmarki Xabi Alonso sem tryggði sömu úrslit ári síðar? Á síðustu leiktíð tókst honum svo að stilla upp liði þar sem Titus Bramble gerði sér lítið fyrir og skoraði jöfnunarmark Wigan. Geri aðrir betur.

Hjá Liverpool er allt í hers höndum eftir þetta (ritskoðað) landsleikjahlé. Torres og Babel eru meiddir (sem og Skrtel, að sjálfsögðu), og þeir Mascherano og Lucas Leiva eru tæpir en þeir eru víst enn að ferðast í dag til Englands eftir landsleiki í Suður-Ameríku á miðvikudag. Ef við gerum ráð fyrir að Babel, Mascherano og Lucas geti í besta falli náð á bekkinn fyrir þennan leik finnst mér líklegt að Rafa stilli upp eftirfarandi liði:

Reina

Arbeloa – Carragher – Agger – Aurelio

Gerrard – Alonso
Kuyt – Benayoun – Riera
Keane

Yossi lék mjög vel með Ísrael í vikunni að mér skilst og því eðlilegt að hann komi inn fyrir Torres, úr því að Babel er tæpur og Mascherano mætir væntanlega of seint til Melwood til að geta æft af viti fyrir þennan leik (hann yrði annars nær örugglega inni og Gerrard færður framar).

Þá grunar mig að einhverjir fúlsi við því að sjá Fabio Aurelio í byrjunarliðinu, þar sem sá brasilíski átti sannkallaða martröð gegn Man City í síðasta deildarleik, en sá leikur var undantekning hjá honum á þessu tímabili og á meðan Andrea Dossena lék báða leiki Ítalíu í þessu landsleikjahléi var Aurelio einn fárra sem sat eftir á Melwood og Rafa hafði því nægan tíma með honum til að undirbúa Wigan-leikinn. Yfirleitt notar Rafa þá leikmenn sem hann hefur mestan tíma með yfir landsleikjahléin í næstu leikjum og því finnst mér líklegt að Aurelio verði inni í þetta sinn.

Þá má ekki gleyma því að Aurelio og Agger hafa spilað miklu oftar saman en Dossena og Agger, þannig að það er eðlilegra að Rafa umkringi Agger með leikmönnum sem hann þekkir á meðan sá danski er að finna fæturna aftur í aðalliðinu. Svo er líklegt að bakverðirnir okkar hafi stórt sóknarhlutverk á morgun gegn liði sem leggst nær örugglega í vörn á Anfield, og Aurelio er með betri fyrirgjafir en Dossena.

Sem sagt, Aurelio byrjar þennan leik.*

**Mín spá:** Eins og ég fór yfir hér að ofan segir sagan okkur að heimaleikir gegn liðum Steve Bruce endi 1-1, en ég ætla að vera bjartsýnn og segja að við náum loks að brjóta þessa sérgrein hans (þ.e. að tapa ekki á Anfield) aftur. Þessi leikur endar **3-0** fyrir Liverpool og Keane verður á meðal markaskorara.

* Það er að sjálfsögðu klárt, eftir að ég eyddi svona mörgum orðum í að rökstyðja af hverju Aurelio byrjar á morgun, að Rafa mun velja Dossena og gera mig að fífli. 😉

36 Comments

 1. Ég veðja á að Dossena byrji . Ég veðja heiðri mínum út mánuðinn 🙂

  Ég spái leiknum 1-1 en vona að ég hafi rangt fyrir mér í þeim efnum.

 2. Við vinnum að sjálfsögðu þennan leik, og Agger mu stimpla sig rækilega inn í liðið með marki og Kuyt mun setja hitt í 2-0 sigri.
  Og ekki orð um það meir.

 3. Finnst lykilatriði að spila Dossena þangað til hann kemst í sitt besta form.
  Ég tel að það seé mjög mikilvægt þar sem hann er búinn að vera blómstra í síðustu 2 leikjum með ítölunum. Enda er Dossena ekki búinn að spila margar mínutur í enska boltanum ef við ætlum að fara að miða við aðra leikmenn sem hafa spilað þessa stöðu fyrir Liverpool.

 4. já ég er sammála með Dossena.. hann er svona fimm hundruð sinnum betri en Aurelio varnalega! Reyndar flest allir betri en hann varnalega! og til hvers að hafa bakvörð inná sem getur bara sent góðar sendingar? og í þokkabót er Robbie Keane ekki maðurinn sem vill fá háar sendingar! Get alveg lofað ykkur þvi að Aurelio byrjar ekki! annars er Benitez búin að skíta uppá bak!

 5. Já OK, er Benítez búinn að skíta upp á bak ef hann teflir fram Aurelio! Ekki þarf nú mikið til. Eigum við kannski að reka hann líka ef hann teflir honum fram, alveg sama hvort liðið muni sigra eða ekki?

 6. Heheheh, þetta er brandari! Ef að hann teflir fram Aurelio og liðið vinnur þá er hann dýrlingur en ef við töpum er þetta helvítis fífl og fólk vill reka hann, er það ekki þannig alltaf? jææja!

  En þetta verður 3-1 sigur hjá okkar mönnum, Yossi skorar 2 og Gerrard 1!

 7. Þettað er fín uppstiling og ef Dossen verður með þá er það líka í lagi. Ef LIVERPOOL tapar. þá þarf það ekki að vera Dossen eða Aurelio að kenna. Tökum þettað 3-0, Keane 1 Kuyt 1 og svo Gerrard með eitt stikki show mark..

 8. Aurelio er allavena búin að skíta upp á bak.. okei hann er góður að senda boltann! en er það nóg fyrir bakvörð hjá liverpool? ..Svo finnst mér bara virkilega heimskulegt að stilla Aurelio í bakvörðinn þar sem Torres er meiddur og kannski engin til að vera í boxinu þegar Aurelio nýtir sinn eina kost sem knattspyrnumann.. og það er að senda boltann! Dossena byrjar allavena pott þétt þennan leik.. bara mín skoðun!

 9. Sama hvaða byrjunarliði Liverpool stillir upp, liðið á að vinna þennan leik. Allt annað en 3 stig er stórslys og óafsakanlegt.

 10. Já ég held það þurfi nú ekkert að deila um að Dossena er mun betri en Aurelio. Aurelio er nánast alltaf veikasti hlekkurinn í liðinu þegar hann spilar þó hann hafi átt ágæta leiki undanfarið. Það er því miður ekki nóg og því VERÐUR Dossena að festa sæti sitt í liðinu. Annars þarf einfaldlega að kaupa nýjan bakvörð…..enn eina ferðina.

  En það þurfa nokkrir leikmenn að sanna sig í þessum leik, eins og Keane, Agger og vinstri bakvörðurinn hvor sem það verður. 2-0 fyrir Liverpool. Riera og meistari Kuyt skora.

  En hafa þessir fjarrelíumenn hjá Wigan ekki líka þurft að ferðast mikið, Figueroa, Palacios, Valencia, Zaki og fleiri. Þannig að það þýðir lítið að kvarta yfir okkar mönnum í þessu landsleikjahléi (veit reyndar ekkert hvort Honduras eða Ecuador hafi verið að spila).

 11. Þessi leikur leggst vel í mig! Kominn tími til að vinna þessi lið sem Bruce mætir með á Anfield. Höldum hreinu og skorum 2 eða 3 mörk. Ef að þessir tveir eru ekki að standa sig í vinstribakverðinum þá held ég að við þurfum ekki að bíða lengi eftir því að sjá nýjan mann inn, hann er þegar til staðar hjá klúbbnum, Insua!!!

 12. Aurelio eða Dossena…. Maður er bara svo glaður að Riise er ekki í boði að manni er skítsama hvor byrjar. Veðja samt á Aurelio.

  Afleitt að tveir skemmtilegustu menn liðsins séu meiddir. Á móti kemur að Agger kemur inn og vonandi er hann kominn til að vera. Hef nettar áhyggjur af markaskorun fyrir leikinn. Ef Youssi fær að spila í stöðunni sem Kristján Atli setur hann í gæti verið von á góðu. Þetta er sú staða sem hann er hvað hættulegastur í. Vonandi ná okkar menn að skora snemma leiks. Spáí 2-0, Riera og Agger með mörkin.

 13. Flott upphitun meistari.
  Held þú farir mjög nálægt byrjunarliðinu og vona að þú verðir sannspár. Ég held að stór faktor verði síðustu úrslitin á Anfield. Leikmenn hljóta að vilja leiðrétta þau almennilega í dag. Hins vegar verður ekki litið framhjá því að stór hópur liðsins lék mikið með sínum landsliðum og þar sem þetta eru ekki vélar, heldur menn með líkama, er viðbúið að við sjáum engan silkileik í dag.
  Miðað við þína uppstillingu í dag spiluðu fimm leikmenn þar 180 mínútur og aðrir komu inná, allir nema Aurelio og Carra á ferðalagaflandri. Það tekur á…..
  Ég heimta auðvitað sigur, en myndi alveg sætta mig við 1-0 á svona degi eftir þetta hlé. Ætla ekki að segja annað um bakvarðadeiluna en það að ég tel Dossena mun betri kost en Aurelio í dag. Hlakkaði mikið til að fá Aurelio en finnst hann aldrei hafa náð að sýna sitt rétta andlit, nema kannski á San Siro í fyrra. En liðsval í vinstri bakvörðinn gegn Wigan á ekki að ráða úrslitum í dag……

 14. Er bara staddur í sumarbústað eins og er – og allt stefnir í að þetta verði fyrsti Liverpool leikurinn í áraraðir sem ég missi af…

  Er einhversstaðar hægt að ná lýsingu á honum á netinu, fyrir utan liverpoolfc.tv ? Helst þá hljóðlýsingu þar sem ég efast um að þessi tenging ráði við mynd 🙂

 15. Hvernig tengingu ertu á? Ertu á 3G pung-neti? 🙂 Ef svo er myndi ég ekki hika við að prófa netstrauma t.d SopCast, ég hugsa að 3G dugi alveg í það.

 16. Trúi ekki að menn eru strax byrjaðir að velta þessum landsleikjahléum fyrir sér, þau skipta nákvæmlega engu núna. Menn eru rétt byrjaðir á nýju móti og þeir eiga að hafa úthald eftir 15-17 leiki (nenni ekki að leita hvað eru margir búnir) ekki satt? Það er allavega enginn afsökun að menn hafi spilað fyrir hönd landsliðs síns í vikunni hvort þeir tapi eða geri jafntefli, annað hvort gerði þetta þeim gott betra, Agger t.d. eða breytti engu. Þá meina ég að sjálfsögðu með heilu mennina. Þeir geta meiðst með Liverpool líka og hver verður afsökun Benítez þá!

  Allavega ég vill þetta lið:

         Reina
  

  Arbeloa Carra Agger Dossena
  Yossi Alonso Gerrard Riera
  Kuyt Keane

  Ástæða! Agger frekar en Hypiia. Betri og ferskari. Yossi átti víst góðan leik fyrir Ísraela í vikunni og er ágætlega lipur, væri samt frekar til í Pennant með fyrirgjafirnar (ATH: Þær þurfa ekki alltaf að vera háar, sá að einhver vildi ekki crossana hjá Aurelio útaf engum Torres væntanlega útaf sköllunum, Kuyt er stór, sterkur og góður skallamaður og Keane getur ábyggilega stungið sér í boltan sem dettur inn á milli mark og varnarmannar.) Svo er annað bara sjálfgefið.

  3-0 er mín spá. Kuyt skorar tvö þeirra og Keane eitt. Þeir munu sýna sama gæðaleik og gegn United en nuna koma mörkin.

  Sindri R

 17. Chelsea komið yfir gegn Middelsbro. Vona að það verði ekki þannig þegar leik verður lokið. Sammála Sindra þettað með landsleiki, menn geta meiðst nánast hvar sem er, og ef menn vilja ekki spila landsleiki þá geta þeir gert eins og Carr og spilað bara fyrir sitt lið, já þettað er nú þeirra atvinna……KOMA SVO LIVERPOOOOOOOOOOOL

 18. En það er deginum ljósara að þessi leikur verður að vinnast. Chelsea eru nánast með varalið í dag á útivelli gegn Boro og eru að vinna 0-3. Chelsea er ekki að fara að tapa mörgum stigum á tímabilinu gegn þeim litlu sem þýðir að við megum ekki fara að byrja á því aftur.

  Þótt að Torres, Babel, Reina, Gerrard, Carragher, Skrtel, Mascherani, Keane, Alonso og Agger væru meiddir í dag þá ætti þessi leikur samt að vera skyldusigur og það skiptir engu máli hvort Dossena eða Aurelio byrja, hvorugur þeirra er match winner.

  Ég hræðist 1-1 úrslit gegn Steve Brús enn á ný, en vona að við náum að 3 stigum með 1-0 eða 2-1 sigri. Giska á að Heskey smelli honum einu sinni með bakfallspyrnu en Gerrard jafnar, svo fær Kuyt dauðafæri í lokin sem ákvarðar hvort 1 eða 3 stig komi í hús.

 19. Reina
  Arbeloa Carra Agger Dossena
  PENNANT Alo gerrard Riera
  Kenae Kuyt

  Eins og ég spái. Nú vonast ég bara eftir úrslitunum.

 20. Flehhhhh 🙁

  Verður þetta kannski annar 3-2 leikurinn í röð? (Hinn var reyndar 2-3)

  Held að við séum ekki að fara að slá nein met varðandi að halda hreinu, þetta tímabilið ….

 21. Þið bara fyrirgefið en mitt álit er að Dossena er ekki skömminni skárri en Riise. Maðurinn er bara hryllingur. Þar fyrir utan átti hann skilið að fá rautt áðan fyrir rudda tæklingu.

 22. Verulega slakur fyrri hálfleikur. Hvernig stendur á því að þessi Zaki er að spila með Wigan Athletic!!! Þvílíkur leikmaður!

 23. jæja.. var að skoða mörkin á 101greatgoals.com og þvílik klúður í því fyrsta… held að þetta megi nú alveg skrá á reina eins og þeir gera á 101…. en júm 1 snertingin hjá agger er ekki sú besta… en markvörðurinn á ekki að senda svona bolta.. en auðvelt að segja það núna… einhve bilun á markinu hjá Kuyt, en öruglega ágætis mark 🙂
  en hvað er svo þessi dossena að gera… riise var bara myklu skárri kostur… en vona að við komum með 2 í þeim seinni 🙂

 24. Eru menn í alvöru að reyna að kenna Reina um þetta mark?

  Það er náttúrulega bara hlægilegt

 25. Dirk Kuyt, það er aðeins einn Dirk Kuyt, einn Dirk Kuyt já það er aðeins einn Dirk Kuyt 😀

 26. Óþolandi þessar varnarsinnuðu breytingar alltaf hjá hr. Benitez, að taka út RK og setja inn SH. 🙂
  Að hafa mann eins og Kyut í liðinu!
  Vona að þessi leikur hafi kennt mönnum það að hafa trú á liðinu sínu.
  Sennilega réttvís útvísun Valencia tvö klár gul spjöld.

 27. Kuyt og Alonso okkar bestu menn í nokkuð slökum leik. Ekki það að þeir sýna enn og aftur mikinn karakter og koma til baka, sem er frábært. En leikur liðsins var ekkert til að hrópa húrra fyrir.

  En það er átakanlegt að horfa á vinstri bakverði okkar og þá skiptir litlu hvort hann er Ítali eða Brassi. Spurning hvort við séum ekki bara sterkari 10.

 28. Eftir jól er málið bara að spila Agger í vinstri bak, nema við kaupum einhvern góðann í janúar.

 29. 4 sinn í röð sem er brotið á´alonso og leikmaðurinn fær rautt:d

Torres og Babel meiddir (uppfært)

Liverpool 3 – Wigan 2