Skrtel alvarlega meiddur

Jæja, ekki byrjar landsleikjahléð vel: klúbburinn staðfestir í dag það sem við óttuðumst; Martin Skrtel skaddaði krossbönd í hnénu á sér í gær og verður frá í einhvern lengri tíma. Samkvæmt talsmanni klúbbsins, Ian Cotton, mun það verða ljóst á næsta sólarhringnum eða svo hversu langan tíma nákvæmlega er verið að tala um, en þetta er sennilega meira spurning um mánuði en vikur. Því miður.

Þetta er ákaflega mikið kjaftshögg fyrir Martin Skrtel. Þessi áður óþekkti leikmaður var keyptur frá Rússlandi í janúar þegar það dagaði uppi fyrir mönnum að Agger væri ekkert á leiðinni aftur í bráð (þá var Agger þegar búinn að vera frá í fjóra mánuði og var alltaf alveg að verða leikfær, en Hyypiä og Jack Hobbs höfðu séð um stöðuna hans á þeim tíma). Það segir sitt um frammistöðu Skrtel þessa fyrstu sjö leikmánuði sína með Liverpool að hann er ekki aðeins orðin hálfgerð költ-hetja hjá stuðningsmönnum félagsins heldur hefur hann það sem af er tímabili haldið fullfrískum Agger út úr liðinu. Miðað við að menn virðast almennt vera sammála um að Agger sé okkar hæfileikaríkasti miðvörður er það dágott afrek.

Þetta er líka blóðtaka fyrir Rafa Benítez. Hvaða skoðun sem menn hafa á málinu persónulega er Benítez hér að missa einn af þeim leikmönnum sem hann hefur haft fyrsta á blaði í byrjunarliði sínu í haust. Það er einfaldlega neikvætt þegar þjálfari missir slíkan valkost, jafnvel þótt varaskeifan heiti Daniel Agger. Fyrir Agger sjálfan er þetta hins vegar gullið tækifæri – eins dauði er annars brauð og allt það – og það er vonandi liðsins vegna að hann geti gert það sama og Skrtel gerði, þ.e. að spila það vel að Skrtel komist ekki í liðið þegar hann er orðinn heill.

Eitt er það þó sem ég hef áhyggjur af varðandi þessi meiðsli. Ef Agger eða Carra skyldu nú meiðast líka eigum við að sjálfsögðu snillinginn Hyypiä ennþá inni, en hann er ekki gjaldgengur í Meistaradeildinni út af þessari skrýtnu reglu um uppalda leikmenn (þótt Sami sé búinn að vera hjá okkur í tíu ár og flestir „uppöldu“ leikmennirnir talsvert skemur) þannig að ef Carra eða Agger skyldu lenda í meiðslum gætum við lent í að spila einhverja Meistaradeildarleiki með bakvörð eða óreyndan kjúkling í miðri vörninni. Það er verulega mikið áhyggjuefni.

Allavega, ég vona að Skrtel láti sér batna sem fyrst, og ég vona að Agger noti tækifærið á meðan og minni okkur á hvers vegna hann er í svona miklum metum hjá okkur Púllurum.

11 Comments

  1. Ég óttaðist þetta þegar ég sá þetta gerast og því er ljóst að Skrtel er frá næstu 5-7 mánuðina. 4 mánuðir í endurhæfingu og síðan 1-3 að byrja að sparka í tuðru og síðan koma sér í leikform. Það hefur nú tekið Agger töluverðan tíma að komast í gang eftir að hann missti af öllu síðasta tímabili.

    En þetta á við ef já EF aðgerðin heppnast og engir kvillar verða í kjölfarið í endurhæfingunni (sem gerist oft ef farið er of hratt af stað).

    S.s. raunhæft áætlun er að Skrtel sé í hóp í lok Apríl og byrjunarliðinu í síðstu leikjum tímabilsins (CL og FA Cup úrslitum) 🙂

  2. Ég held að ég fari rétt með …

    … að það verði opnaður smá gluggi í Janúar til þess að skrá leikmenn í CL hópinn (eða úr honum), sbr við opnun kaupgluggans. Þá er ljóst að einhver “erlendur” verður að víkja fyrir Hyypia, en sigur í næsta leik ætti að fara langt með að tryggja okkur uppúr riðlinum og þar með eru þetta óþarfa áhyggjur.

    (Nennti nú ekki að fletta þessum reglum upp, en þetta er í sömu grein og var vitnað í þegar Barry gat aðeins spilað með okkur í CL í janúar eftir að hann spilaði gegn FH)

  3. Eyþór, ef Skrtel er frá út tímabilið er klárt að Hyypiä kemur bara inn fyrir hann í CL-hópnum í janúar. En vonandi lendum við ekki í vandræðum með að stilla upp miðvarðapari fyrir þann tíma.

  4. Við skulum bíða og sjá. Bólgan enn of mikil til að hægt sé að ákveða neitt. Ég er bara svo glaður að Rafa hafði bein í nefinu til að neita tilboðum í Hyypia, því nú er ljóst að við þurfum þann höfðingja með okkur!
    Ef að Agger eða Carra meiðast þurfum við vissulega að færa til innan liðsins, setja Arbeloa í hafsent í CL. En þá verður bara svo að vera held ég, ef við lendum í að missa tvo slíka í burtu á ekki að vera sjálfgefið að við getum bara leyst það.
    En vonum samt að sköllótti naglinn verði snöggur til baka, hann er búinn að vera frábær frá byrjun!

  5. Ég held að það þurfi ekkert mikið að velta sér upp úr því að Hyypia kemur inn í meistaradeildarhópinn á kostnað Ngog í janúar nema meiðslin hjá Skrtel séu þeim mun alvarlegri og honum verði þá einfaldlega fórnað úr hópnum.

    Ég hef verið einn ötulasti stuðningsmaður Agger og fer ekkert leynt með það að í mínum huga er hann besti varnarmaðurinn okkar í dag en þetta var ekki leiðin sem ég vildi fá hann inn í liðið. Það er skelfing að missa Skrtel í lengri meiðsli en það er líka nánast fáránlegt að segja það en við það að missa okkar besta varnarmann það sem af er tímabili í meiðsli er ég á því að byrjunarliðið er að styrkjast. Breiddin minnkar hins vegar mikið og það er slæmt, Hyypia mun þó seint teljast einhver aukvissi í bransanum og ef liðið má einhvers staðar við svona skakkaföllum er það klárlega í miðvarðarstöðunni.

  6. Já, slæm tíðindi

    Var einmitt farið að finnast Skrtel betri og betri, fannst hann sérstaklega farinn að vera duglegri í sóknarleiknum upp á síðkastið + það að hann var duglegur að snýta helstu kraftframherjum deildarinnar, eins og sást t.d. í Everton leiknum þar sem Yakubu var eins og lítill krakki í höndunum á honum. Það er alveg ljóst að hann var einn af kannski 6 mönnum (Reina, Carra, Gerrard, Torres, Masch+Skrtel) sem voru fastir á liðsuppstillingunni hjá Rafa og það virtist ekkert vera að fara að breytast fyrr en hann myndi gera einhver stór mistök.

    Ef við horfum á björtu hliðarnar þá er þetta líklega sá af “lykilmönnunum” okkar sem við eigum hvað besta staðgengla fyrir (Agger og Hyypia). Ef einhver af hinum myndi meiðast í slíkan tíma þá yrði það mikið áfall, sem myndi líklegast enda með töpuðum stigum á einhverjum vígstöðvum, en þetta er að minnsta kosti minna áfall.

    Óskum Skrtel skjóts bata en að sama skapi biðjum til guðs að Agger finni sitt gamla form frá því í hittifyrra aftur.

  7. Ferlega leiðinlegt fyrir kall greyið, hann var búinn að, stimpla sig rækilega inn í liðið og er örugglega stór partur af þeirri staðreynd að liðið fær ekki mörg mörk á sig.
    Nú verður bara Agger að koma sterkur inn verjast sem brjálæður væri og setja eitt og eitt mark 🙂
    Annars verð ég að minnast þess að okkar ástsæla lið virðist á hverju tímabili þurfa að missa lykil mann út í lengri tíma vegna meiðsla, nægir að nefna þetta núna og Agger í fyrra svo fótbrotnuðu Cisse og Carra þar áður, man ekki lengra aftur sem betur fer 🙂
    Annars er ég vissu um að Skrtel komi til baka grjótharður fyrr en búist er við, hann er svolítið eins og Tortímandinn, dældast við mótlætið en kemur alltaf aftur…..alltaf 🙂

  8. það er nú skemmst frá því að minnast að Mascherano leysti miðvarðarstöðuna með stakri prýði, hjá argentínska landsliðinu á ólympíuleikunum í peking. þannig að það gefur okkur enn einn möguleikann, ef einhver annar skyldi nú meiðast. því er engin ástæða til að örvænta, tel ég. skrtel kemur svo vonandi tvíefldur til baka, hvort sem það verður á þessu ári eða næsta. en djöfulsins bömmer er þetta fyrir drenginn.

  9. Já það er slæmt að missa robocop úr vörninni. Það jaðrar auðvitað við landráð að segja þetta, en ég er ekki viss um að ég myndi velja Carragher á undan Skrtel í miðvörðinn ef ég þyrfti að gera upp á milli þeirra. Klárlega einn okkar besti maður á yfirstandandi tímabili.

  10. hræðilegar fréttir. hann verður að ná sér sem fyrst.

    en nú ert tíminn fyrir agger að stimpla sig rækilega inn.

  11. Frábærar fréttir frá klúbbnum. Skrtel þarf líklega ekki uppskurð og gæti farið að spila í kringum áramót. Vægast satt góðar fréttir.

Man City 2 – Liverpool 3

Eins dauði er annars brauð. (uppfært)