Man City 2 – Liverpool 3

Þvílíkur leikur.

Okkar menn fóru yfir til Manchester-borgar og kepptu þar við City í Úrvalsdeildinni. Eftir að hafa verið 2-0 undir í hálfleik, eftir að öll sund virtust lokuð, komu okkar menn til baka og sendu skýr skilaboð til hinna liðanna í Úrvalsdeildinni með **frábærum 3-2 útisigri gegn Manchester City**.

Byrjum á byrjuninni. Rafa stillti upp eftirfarandi liði í dag:

Reina

Arbeloa – Carragher – Skrtel – Aurelio

Mascherano – Alonso
Kuyt – Gerrard – Riera
Torres

**Bekkur:** Cavalieri, Agger, Dossena (f. Aurelio), Lucas, Babel, Benayoun (f. Riera), Keane (f. Mascherano).

Fyrri hálfleikurinn bauð upp á verstu frammistöðu Liverpool-liðsins það sem af er tímabilsins. Hins vegar segir það ekki alla söguna, því þetta var ekkert svo skelfilegt. Okkar menn byrjuðu leikinn miklu betur og stjórnuðu öllu á vellinum, þannig að það kom manni ekki á óvart þegar þrettán mínútur voru liðnar og við sáum á skjánum að Liverpool-liðið hafði verið með boltann 78% tímans.

Hins vegar, eins og oft áður, gekk okkur illa að skapa færi framan af leiknum. Það var helst þegar Riera fékk boltann maður á mann á móti Zabaleta hjá City að eitthvað gerðist, en sá spænski var okkar langbesti maður í fyrri hálfleik.

Það var hins vegar gegn gangi leiksins að City-liðið tók forystu um miðjan fyrri hálfleikinn. Fabio Aurelio, sem hefur verðskuldað verið valinn fram yfir Andrea Dossena hingað til í vetur en var skelfilegur í dag, reyndi að sóla Shaun Wright-Phillips í bakvarðastöðunni. Það fór þó ekki betur en svo að Wright-Phillips hirti af honum boltann, keyrði inná teiginn og reyndi fyrirgjöf sem fór í Skrtel og barst aftur til Wright-Phillips. Hann keyrði inn að endalínu með hann og renndi honum út í teiginn. Þar var Alvaro Arbeloa fyrstur á boltann en sneri illa og náði ekki að hreinsa vel frá heldur bara pota honum aðeins út í teiginn þar sem **Stephen Ireland**, besti maður Man City í þessum leik, kom aðvífandi og þakkaði fyrir sig með því að þruma knettinum upp í marknetið af stuttu færi. 1-0 fyrir heimamönnum.

Undir lok fyrri hálfleiksins kom svo annað markið. Aftur var það Shaun Wright-Phillips sem var arkitektinn en Mascherano braut á honum er hann var að sóla Aurelio úti við vinstra horn vítateigs Liverpool. Góður dómari leiksins dæmdi réttilega aukaspyrnu og úr henni skoraði **Javier Garrido** með glæsilegu skoti yfir varnarveginn og upp í nærhornið. Hugsanlega hefði Pepe Reina getað gert betur en skotið var gott og illviðráðanlegt.

Staðan í hálfleik var því 2-0 fyrir heimamenn og þrátt fyrir að okkar menn hafi haft tökin á fyrri hálfleiknum virtist bitleysið ætla að há liðinu og það fór að læðast að manni sá grunur að fyrsta tap vetrarins væri að líta dagsins ljós.

… og þá vaknaði Fernando Torres.

Rafa hlýtur að hafa lesið ærlega yfir liðinu í hálfleik því þeir stjórnuðu seinni hálfleiknum alveg jafn mikið og þeim fyrri, með þeim eina stóra mun að það var miklu meira líf í sóknarleik liðsins. Á 55. mínútu spiluðu Gerrard og Arbeloa skemmtilega upp hægri kantinn, Arbeloa lék inná vítateiginn og gaf svo góða, lága fyrirgjöf inná markteig City þar sem **Fernando Torres** (hver annar?) renndi sér fyrstur á boltann og setti hann í netið framhjá Joe Hart, markverði City. Staðan 2-1 fyrir okkar mönnum og leikurinn skyndilega orðinn spennandi aftur.

Á 67. mínútu var svo Mauro Zabaleta, hægri bakvörður City, rekinn útaf með beint rautt spjald eftir ljóta sólatæklingu á Xabi Alonso. Stuðningsmenn City á vellinum púuðu óspart á þessa ákvörðun dómarans, aðallega af því að Alonso var (sem betur fer) ekki mikið meiddur eftir tæklinguna, en þeir hefðu ekki púað ef þeir hefðu séð myndbandsupptökur af atvikinu. Þessi tækling var ekki síður gróf heldur en tæklingar Martin Taylor hjá Birmingham og Emanuel Pogatetz hjá Middlesbrough, sem stórslösuðu Eduardo da Silva hjá Arsenal og Rodrigo Possebon hjá Man Utd fyrr á þessu ári. Eini munurinn er sá að í þessu tilfelli stóð Alonso ekki alveg í fótinn sem gaf eftir við tæklinguna og slapp hann því heppilega við slæmt fótbrot. Dómarar byggja refsingar sínar fyrir brotlegar tæklingar ekki á því hversu illa fórnarlambið meiðist heldur hversu alvarlegur ásetningur brotaaðilans er. Þetta var klárt rautt spjald.

Liverpool-liðið hafði haft yfirburði fram að rauða spjaldinu en eftir það var þetta bara spurning um hvenær en ekki hvort Liverpool-liðið myndi jafna. Það gerðist svo loks þegar átján mínútur voru til leiksloka. Steven Gerrard tók hornspyrnu frá vinstri og sendi fasta fyrirgjöf inná nærstöngina, þar sem títtnefndur **Fernando Torres** reis manna hæst og sneiddi boltann með höfðinu í fjærhornið, óverjandi fyrir Joe Hart. Staðan 2-2 og nú var spurningin bara hvort Liverpool tækist að vinna leikinn eða hvort jafntefli yrði niðurstaðan.

Liðið sótti ákaft en þegar fimm mínútur voru eftir varð liðið fyrir mikilli blóðtöku. Martin Skrtel lenti í því að snúa sig illa á hné og var borinn útaf í spelkum eftir að hafa m.a. fengið súrefnisgjöf inná vellinum. Ég vona að varnartröllið okkar sé ómeitt því hann hefur verið frábær það sem af er tímabili en ég er satt best að segja ekki bjartsýnn, þar sem þetta virtust vera alvarleg hnémeiðsli. Við eigum reyndar fyrirtaks varaskeifur í stöðuna hans í þeim Daniel Agger og Sami Hyypiä en þetta er engu að síður mikil blóðtaka fyrir liðið þar sem Skrtel hefur verið frábær í vetur. Vona að hann komi sterkur til baka.

Þar sem Rafa var á þessum tímapunkti búinn að nota allar sínar innáskiptingar þurftu okkar menn að enda leikinn tíu gegn tíu en það skipti engu, leikurinn var rétt hafinn að nýju þegar Torres komst í skotfæri inná miðjum vítateig. Hann skaut boltanum beint í Richard Dunne og þaðan hrökk hann á fjærstöngina hægra megin þar sem **Dirk Kuyt** – sem hafði lítið sem ekkert getað í þessum leik – var fyrstur á boltann og sendi hann inn í netið og allt varð vitlaust í rauða hluta stúkunnar á City of Manchester Stadium. Lokatölur í þessum leik 2-3!

Það er eitt að sigra þetta “spútniklið” Manchester City en að gera það með þeim hætti sem liðið gerði í dag sendir að mínu mati skýr skilaboð til hinna liðanna í toppbaráttu deildarinnar. Eftir þessa umferð eru Liverpool og Chelsea búin að skilja sig aðeins frá næstu liðum; við erum á toppnum ásamt þeim bláu með 17 stig, næst koma nýliðar Hull City með 14 stig og þá Arsenal með 13 stig. United er svo með 11 stig en á leik til góða og getur því verið þremur stigum á eftir okkur taki þeir þann leik. Við erum sem sagt í toppbaráttu við Chelsea framan af vetri og vonandi verðum við á þessum slóðum lengur en við höfum afrekað hingað til.

**Maður leiksins:** Liðið lék ágætlega úti á velli í dag en var steingelt sóknarlega í fyrri hálfleik. Að mínu mati áttu Arbeloa, Aurelio, Mascherano, Kuyt og Gerrard allir miklu verri leik en við eigum að venjast af þeim í dag. Riera var okkar sprækasti maður lengst af og þá átti Robbie Keane sérstaklega líflega innkomu.

Maður leiksins er þó klárlega **Fernando Torres**. Liðið gróf sér djúpa holu í fyrri hálfleik en hann var ekki lengi að draga liðið upp úr henni, um leið og hann loks vaknaði. Nando var skelfilegur í fyrri hálfleik en eftir nokkur vel valin orð frá Rafa í hléi mundi hann að hann er jú einu sinni besti framherji deildarinnar og smellti einni tvennu í fésið á þeim sem segja að Robinho sé bestur á Englandi. Torres hefur að flestra mati farið frekar hægt af stað í Úrvalsdeildinni í haust en hann er samt kominn með fimm mörk í þeirri keppni. Geri aðrir betur. Maður leiksins.

Næst leikur liðið á heimavelli gegn Wigan í Úrvalsdeildinni, á Anfield eftir heila þrettán daga. Landsleikjahlé, nammi namm!

51 Comments

 1. Svo ég vitni nú í hina tvo svartsýnu félaga mína sem horfðu á leikinn með mér. “Lið sem spilar svona á ekki séns í að vinna EPL” 😀

 2. Svona eiga leikir að vera, þvílíkt comeback!
  Frábært frábært.
  Til lukku öll saman : )

 3. Spáði ekki alveg rétt í leikhléi, Kuyt náði þó einu af þessum 3 mörkum. 🙂

 4. Shiiiiiiiit! Þvílíkur character! Ég var að spá í að hætta að nenna þessu í hálfleik, en var einhvern veginn sannfærður um að við kæmum til baka í 4. skiptið á þessari leiktíð þannig að ég hélt áfram að horfa. DJÖFULL VAR ÞETTA SÆTT!!!!!!!!!!!

 5. Svooo sætt!! Vonandi bara að meiðslin hjá Skrtel séu ekki eins alvarleg og þau litu út fyrir að vera. Þvílíkt stolt í gangi! Til hamingju allir saman!

 6. Þessar endurkomur eru orðnar að ávana, skemmtilegt en neglurnar vaxa ekki nógu hratt ef þetta á að vera svona um hverja helgi 🙂

 7. Sælir félagar
  Eftir ótrúlega dapran fyrri hálfleik kom allt annað lið inná í seinni. Geysilegur karakter að vinna þennan leik. Allir léku helmingi betur enn í fyrri nema Fabio Aurelio. Glæsilegt í einu orði sagt.
  Það er nú þannig

  YNWA

 8. Frábær sigur og skemmtilegasti fótboltaleikur sem ég hef séð á þessu tímabili.

  Fyrri hálfleikur var mjög slakur. Enginn leikmaður LFC mættur nema Riera og svo var Kuyt raunar duglegur eins og alltaf.

  Seinni hálfleikur frábær. Torres er með þetta og skiptimennirnir stóðu sig vel, þá sérstaklega Keane og Benayoun. Gaman að sjá Kuyt setjann loksins í deildinni, auk þess sem mér fannst hann almennt standa sig vel í dag.

  Svona af því Kuyt og Benayoun eru báðir mjög vinsæl umræðuefni meðal aðdáenda LFC þá langar mig að henda inn í hringiðuna minni skoðun á þeim tveimur. Hvorugur finnst mér hafa átt skilið það tuð sem þeir hafa fengið undanfarið. Benayoun er fínn leikmaður, þó hann sé mistækur og nýtist misvel í leikjum. Að mínu góður varamaður, líkt og í dag. Kuyt hefur ekki fyrstu snertinguna, tæknina eða markheppnina – sem er að sjálfsögðu bagalegt fyrir sóknarmann. En hann hefur þó aðra kosti sem mér finnst aðdáunarverðir og réttlæta veru hans í byrjunarliðinu. Hann er hörkuduglegur í að pressa varnarmenn, hann hjálpar mikið til í vörninni og svo á hann það til að setjann nokkuð regluglega í meistaradeild og einstöku sinnum í deild. Það sem er þó mikilvægasti kostur hans að mínu mati er að hann hefur karakter. Kuyt er leikmaður sem gefst aldrei upp og í leikjum eins og þessum þá nýtist sá kostur svo sannarlega.

  Aurelio var samt úti að drulla allan leikinn fannst mér, þó mér finnist hann almennt ekki jafn ömurlegur og mörgum öðrum.

 9. Það er ákveðin hjátrú að skapast hjá mér varðandi Liverpool og þessa “erfiðari” leiki – ég ætla ekki að básúna um hana heldur halda hjátrúnni áfram meðan á þessu stendur! Lið sem kemur svona rosalega til baka er material í Englandsmeistara. Plain and simple.

  Hvað svo sem verður úr í framtíðinni … kemur í ljós … og veltur eingöngu á liðinu sjálfu, en þetta er stór framför frá því áður finnst mér.

  Torres maður leiksins – hjá mér alla vega. Hlakka til að lesa leikskýrslu meistara KAR.

 10. Eini svarti bletturinn á þessum leik var að þetta leit alls ekki vel út með Skertel, ég held að eitthvað hafi gefiið sig hjá kallinum. En þvílíkt comeback og karekters breyting á einu liði í seinni hálfleik, rosalegt, bara allveg rosalegt….

 11. Úff, maður á í raun erfitt með að koma orðum að um svona leik. Liðið lék ekki nægilega vel í fyrri hálfleik og gerði sér þetta full erfitt fyrir. Hinsvegar, eins og alltaf, var ég sigurviss og hafði trú á því að liðinu tækist að skora 3 mörk á móti þessu annars þrusu skemmtilega Manchester City liði.

  Torres er svo með ‘it’ að það hálfa væri miklu meira en nóg. Hann og Gerrard, sem átti ekki sinn besta leik á tímabilinu, sýndu það og sönnuðu að þeir eru með þeim allra bestu í sínum stöðum í heiminum.

  Frábær skemmtun þessi leikur og til hamingju Liverpool aðdáendur nær og fjær!

 12. torres baby er líka farinn að setjann á útivelli í ár sem er mjög jákvætt, einn af fáum þáttum sem hann gat bætt frá síðasta seasoni.. annars var aurelio skammarlega lélegur í dag og masche ekki heldur með sjálfum sér
  YNWA fokk je

  p.s. hvað er etta með kuyt hann er sorglega lélegur í flestu sem tengist fótbolta en hann heldur áfram að pota inn ljótum mikilvægum mörkum !

 13. Frábær frammistaða. Ég sagði það við vin minn í hálfleik að ég væri sannfærður um að við gætum klárað þennan leik. Þessi mörk City voru auðvitað ódýr og sigur okkar var fyllilega verðskuldaður í dag.

  Það er líka frábært að fara inní landsleikjahlé með svona sigur á bakinu. Frábært!

 14. Þvílík snilld, Liverpool átti þennan sigur fyllilega skilinn. Voru sterkari aðilinn og sást augljóslega í dag að svona liðsheild er erfitt að brjóta niður.

  Torres Torres Torres. Það eru engin orð sem fyllilega lýsa þessum leikmanni, hann er bara aðeins of góður. Þó hann láti ekki oft mikið yfir sér vaka í leikjum þá þarf hann ekki nema örlítið break og hann er búinn að setja mark, þvílíkur snillingur.

  Kuyt setti hann í fyrsta skipti í deildinni síðan á síðasta ári sem verður að teljast jákvætt, hann skorar ekki falleg mörk en hann skorar mikilvæg mörk.

  Riera er að stimpla sig vel inn í ensku deildina, mjög líflegur og lítur út fyrir að við höfum gert kostakaup í þessum manni. Einnig fannst mér Arbeloa eiga mjög góðann leik, sérstaklega í seinni hálfleik þar sem hlaup hans upp hægri kanntinn gerðu mikið fyrir sóknarleik liðsins. Aurelio í hinum bakverðinum fannst mér ekki eins mikið koma til í dag, þó svo hann gæfi sig allann í leikinn þá varð hann soldið undir í baráttunni í dag.

  Skrtel vona ég að sé í lagi, þetta leit ekki vel út í endursýningunni, en við höfum Agger til að koma inn í hans stað þannig að liðið ætti ekki að vera mikið veikara fyrir vikið.

  Ég var ekki hoppandi kátur við að sjá uppáhaldsvin minn Benayoun koma inná, hefði frekar viljað fá Babel í hans stað, en eins og alltaf þegar ég bölva Benayoun þá stendur hann sig vel og átti hann þátt í markinu sem tryggði okkur sigurinn þannig að ég get ekki verið mjög ósáttur.

  Overall mjög góður sigur á erfiðu liði á útivelli og góður endir á helginni. Áfram LIVERPOOL!

 15. Já, Kuyt er furðulegt fyrirbæri. Maður veit ekki hvort maður eigi að elska eða hata hann? Flestir ættu samt að taka elju hans til fyrirmyndar þótt manni finnist hann óttalega takmarkandi á mörgum sviðum. Flottu sigur! Hressir mann eilítið við í kreppunni.

 16. Sælir kappar!
  Til hamingju með flottan sigur áðan, algjör snilld.

  Er hræddur um að þetta séu krossböndin farin hjá Skrtel, því miður.

  Kristján Atli, þú segir að Kuyt hafi verið lélegur, nú vil ég fá rökstuðning fyrir því. Ég ætla að leyfa mér að vera 100% ósammála þér, hann hljóp virkilega mikið, vann og vann bolta, hjálpaði Arbeloa mikið og var duglegur að koma í tvöföldunina þegar Robinho var með boltann. Auk þess skorar hann sigurmarkið og svo sýnir hann að hann er ‘winner’ þegar við erum að tapa eða að gera jafntefli og sækir boltana til að taka innköst snöggt osfrv. Hann var með betri mönnum liðsins í dag.

  TILHVERS setti Benitez samt sem áður Mascherano í liðið, hann er useless fram á við. Sannaðist enn og aftur í dag það sem ég er búinn að segja síðasta árið, ef ekki meira. Hann þvælist bara fyrir Alonso sem var að leika frábærlega í dag.

  Frábær sókn í fyrsta markinu – glæsilegt hlaup hjá Arbeloa og sending frá Gerrard klassi. Með spilamennsku eins og í síðari hálfleiknum erum við til alls líklegir, City eru engin lömb að leika sér við á útivelli og ég er viss um að fleiri lið en við munu verða í stökustu vandræðum þarna.

  Við skulum þó bara taka einn leik í einu, núna er landsleikjahlé og vonandi að menn komi heilir til baka. Agger fær leikform í leikjum með Dönum(ekki satt?) og mætir eins og klettur fyrir Skrtel.

 17. Halló halló, hvernig nenni þið að setja út á Kuyt, hann er alltaf að brillera í hverjum leik og skora mörk . OK ok Reina átti til dæmis að verja þessa auka spyrnu sem city skoraði úr. En þettað mynnir mig á það ,þegar LIV, vann Meistaradeildina, aldrei að gefast upp, VIÐ ERUM FRÁBÆRIR

 18. Þvílik dramatík. þetta minnti mig á gamla daga. þá var Liverpool aldrei hættulegra en þegar það var undir í leik. og yfirleitt náði liðið að jafna og eða vinna. þetta var virkilega gaman að sjá. baráttan og hraðinn. það verður gaman að fara á brúna.

 19. Listavel skrifuð leikskýrsla og frábær síða. Takk aftur fyrir að halda henni uppi!
  Maður er varla búinn að átta sig á þessum sigri. Þvílíkt comeback!
  Þetta lið fer að minna mann á gullaldarliðið sem byrjuðu alltaf að spila eins og herforingjar þegar þeir lentu í vandræðum. Þessi sigur var mjög verskuldaður og maður getur ekki verið annað en bjartsýnn á framhaldið.

 20. Frábær sigur hjá okkar mönnum en hræðilegt að missa okkar besta mann hingað til í slæm meiðsli. Vill til að helv. landsleikjahléð er að byrja. Lán í óláni það.
  En mig vantar aðstoð við að hrista upp í gráu sellunum. Það sem af er leiktíðar hefur Arbeloa verið að margra mati verið að spila fanta vel, ég hef ekkert út á það að setja. En er það rétt munað hjá mér að í allt of háu hlutfalli marka sem við höfum fengið á okkur þá hafi Arbeloa litið afar illa út eins og í fyrra markinu í dag?

 21. Frábær frammistaða!
  Í hálfleik gaf ég mér von um stig ef við skoruðum á fyrsta kortérinu. Sem gerðist. Svo eftir að dómarinn sýndi kjark í að reka Zabaleta hárrétt útaf fannst mér Rafa skipta hárrétt, enda vann Dossena strax hornið sem við jöfnuðum og síðan var vinstri vængurinn ógnvænlegur. Alveg sammála öllu í leikskýrslu meistara KAR nema því að Aurelio verðskuldi að vera í liðinu framyfir Dossena. Hann var eini slaki leikmaðurinn í liði dagsins, en er algerlega sammála ummælum KAR um Arbe, Masch og SG.
  Yossi Benayoun og Dirk Kuyt skiluðu svo þremur stigum í hús. Í þeim hópi sem ég horfði á leikinn með vorum við alveg brjálaðir að Riera færi útaf og enn reiðari þegar Babel var geymdur á bekknum.
  Sem betur fer vorum við ekki að stjórna heldur Benitez. Yossi var virkilega líflegur og vann frábærlega að sigurmarkinu. Kuyt karlinn kláraði svo færið vel, sem féll óvænt til hans og stórkostlegur sigur á MJÖG ERFIÐUM útivelli staðreynd.
  Vona svo innilega að Skrtel sé ekki lengi frá, en spáiði í muninn milli ára, í fyrra meiddist Agger og við urðum að nota Hobbs og Arbeloa, núna er fyrsta backup Agger og síðan Hyypia.
  Fínt að fara inn í landsleikjahléið á toppnum og enn ósigraðir!

 22. Getur einhver gefið mér link þar sem ég get séð mörkin úr city leiknum? Ég er úti í Frakklandi og get því ekki séð mörkin á Vísi

 23. Mér fannst nú Arbeloa vera í afar erfiðri stöðu í fyrsta markinu en gleymið ekki hinni mögnuðu stoðsendingu hans á Torres. Auk þess gekk honum bara þokkalega að halda Robinho niðri í dag. Ekki beint auðvelt task.

 24. Aurelio átti dapran leik og undirstrikar að vinstri bakvarðarstaðan er ennþá vandræðastaða. Rieira átti fínan leik en dró allverulega af honum í seinni hálfleik.

  Kuyt átti fínan leik. Er ekki spurning um að dæma hann eftir frammistöðu hans á vængnum í staðinn fyrir að dæma hann sem framherja. Hann er búinn að eiga frábært tímabil hingað til. Kominn með þrjú mörk og er þriðji markahæstur okkar manna. Vinnslan hans skilar því að við erum að vinna fullt af boltum og koma í veg fyrir að lið geti náð upp sínu spili.

  Á sama tíma og verið er að hæla Keane fyrir góða vinnslu, sem er alveg rétt, þá virðist vinnsla Kuyt vera minna metin og endalaus pressa á honum að skora í hverjum einasta leik.

  En KAR, var það ekki Stephen Ireland sem skoraði fyrir City?? Einnig skilst mér að á leikskýrslunni hafi verið gerðar þrjár breytingar á liðinu þegar ég hélt að einungis ein hafi verið gerð..?

 25. bæting frá því í fyrra? -JÁ, eiginlega, allt nema vinstri bakvörðurinn. finnst dossena og aurelio ekkert mikið betri heldur en riise var. því miður.

  annars sýndi liðið gríðarlegan karakter að koma svona til baka og ekki hægt annað en að vera ánægður. þó svo að nokkrir leikmenn hafi spilað undir getu þá kláruðum við leikinn og áttum það svo sannarlega skilið.

  mér finnst xabi alonso vera að stimpla sig allverulega inn í liðið og stjórna miðjuspilinu mjög vel. það þýðir eiginlega að spiltími mascherano mun minnka. hann spilaði mikið í fyrra því að keane var ekki og alonso var að spila illa. en nú eru þeir báðir í toppformi og að báðir að spila mjög vel þannig að masch mun sjá fram á færri mín á þessu seasoni helg ég.

  ég er orðin mjög ánægður með keane, hann er að koma með mikinn kraft í liðið í dag og gæði líka. hann er líka búinn að réttlæta fyrir mér að fá að vera í holunni. þegar hann kom inn á þá datt gerrard aftar á völlinn og spilaði sínar bestu mínútur í leiknum. held að það þýði ekki að láta gerrard flakka svona um völlinn, í holu og úr holu. vona að rafa setji hann við hlið alonso og myndi þannig sterkasta miðjuparið í deildinni 🙂
  keane virðist vera kominn almenninlega í gang og þá finnst mér þetta réttasta og besta lausnin.

  torres vitum við öll hvað getur, hann sýnir enn og aftur hversu dýrmætur hann er fyrir liðið.

  þetta hefði ekki getað verið betra fyrir okka menn svona rétt fyrir derhúfuhléið. það er mjög mikilvægt að liðið fari í svona hlé með sjálfstraustið í botni. liðið er enn taplaust og á toppi deildarinnar. næstu leikir eru mjög spennandi og leikurinn á brúnni verður sá mikilvægast á tímabilinu hingað til held ég.

  leikurinn í dag er allavega skref í rétta átt til að brjóta niður frábært heimaleikjamet á stamford bridge. og ef ég á að vera hreinskilinn þá finnst mér liverpool liðið vera eina liðið í dag sem á möguleika að brjóta niður metið hjá chelsea.

  rafa segir eftir leik að meiðsli mascherano gætu verið alvarlega, en fregnir af því ættu að berast á allra næstu dögum. það er jákvætt samt að þetta gerist rétt fyrir derhúfuhlé, en að hann skuli hafa meiðst eru hræðilegar fréttir fyrir klúbbinn. nú er tækifæri fyrir agger að spila vel og þ.a.l. halda skrtel fyrir utan byrjunarliðið.

 26. á við meiðsli skrtel að sjálfsögðu en ekki masch, e-ð grillaður í lok komments.

 27. Þetta var frábær frammistaða og virkilega ljúfur sigur. Vonandi er Skrtel ekki alvarlega slasaður en ef leikmenn meiðast þá mega þeir gjarnan lenda í því þegar landsleikjahlé er framundan. Við erum nú vel settir með þá Agger og Hyypia í startholunum.

  Frábært að horfa á Kuyt skora sigurmarkið, þessir drengur er ótrúlegur og byrjar þetta tímabil vel. Og hvað getur maður sagt um Torres…úff! Snillingur!

  Þetta comeback eru skýr skilaboð: WE ARE IN THE TITLE RACE!

  YYYYEEEESSSS

 28. Þetta mark Kuyt var víst hans fyrsta í deildinni síðan í nóvember 2007!

  Ákaflega eiga menn auðvelt með að drulla yfir Aurelio, Arbeloa ofl (sem áttu mjög slakan leik) en þegar Gerrard sem var enn verri en þeir lungan af leiknum spilar illa þá er bara talað um að hann hafi oft spilað betur. Í raun finnst mér enginn Liverpool leikmaður hafa spilað það illa í lengri tíma að hann eigi skilda þá drullu sem sumir hérna eru gjarnan fljótir að ausa yfir vissa leikmenn.

 29. Frábær sigur hjá okkar mönnum og ekkert nema gleði. En guð minn góður hvað Aurelio er arfa slakur, verðum að leyfa Dossena að spila fleirri leiki til að aðlagast. Ekki það að Dossena sé búinn að vera e-ð frábær en hann hefur þó aðeins fengið að byrja inn á um ca 4 leikjum á meðan Aureliofengið alltof marga sjénsa og aldrei sýnt vott af hæfileikum. Finnst þetta eini stóri gallinn á annars glæsilegum hóp.
  Áfram Liverpool.

 30. Eru menn virkilega fastir neikvæðninni?? Það virðist vera að sumir hérna setjast neikvæðir fyrir framan skjáinn þegar Liverpool spilar og reyna að pikka út allt það neikvæða í leik liðsins til þess að geta fengið útrás hérna á netinu. Menn að drulla yfir Kuyt og Dossena í 3-2 sigri á útivelli gegn litla Chelsea. Man leikinn á sama velli fyrra þegar Liverpool sótti í 90 mín án þess að skora mark. Greinilegt að sjálfstraustið er meira í liðinu núna en í fyrra og stemmningin mun betri.
  Það er lágmark að gefa Dossena tækifæri fram yfir áramót áður en menn fara afhausa hann. Kuyt er bara eins og hann er, enginn snillingur á boltan, duglegur og skorar mikilvæg mörk. Meðan liðið er að vinna leiki er mér nákvæmlega sama hverjir byrja inná. Það er besta liðið sem vinnur leiki ekki 11 bestu einstaklingarnir.
  Það er ótrúlega margt jákvætt í leik liðsins, Rafa viðurkennir rotation mistök sín, keyrir á sama byrjunarliði, vonandi að það komi ekki um koll seinna meir, en liðið er þó allavega í toppbaráttunni í okt. sem er tilbreyting:)
  Þá finnst mér liðið halda boltanum vel innan liðsins, mikil leikgleði í gangi, mikið sjálfstraust, í heildina allt annar bragur á þessu liði.
  Það er vissulega hægt að finna einhverja veikleika, en eins og staðan er í dag tel ég tilfefni að hampa öllu því jákvæða sem hefur vantað á þessum árstíma undanfarin ár.

 31. yndislegt að sjá hvernig Xabi Alonso er að ná sér óðum eftir 1 herfilegt tímabil

  Viva Alonso

 32. Frábær sigur en full taugatrekkjandi Slæmt að missa Skrtel það mun veikja okkur varnarlega því hann hefur verið frábær á þessu tímabili. Sést líka hvað Keane er að verða mikilvægur fyrir liðið.

 33. Sammála mörgum hér að ofan, finnst KAR eiga ansi slakt skot og það verulega hátt yfir markið. Ég er handviss um að ef félagi Dirk hefði haft númerið 8 á bakinu og nafnið hjá fyrirliðanum, þá hefði honum verið hrósað í hástert. Ef Dirk hefði skilað frammistöðu líkri þeirri sem fyrirliðinn okkar skilaði í dag, þá hefði hann verið aflífaður. Auðvitað eiga menn mismikið inni hjá stuðningsmönnum liðsins, Stevie hefur unnið sér talsvert inn og honum fyrirgefast hlutir í dag umfram aðra, um það er ekki spurning. En meira að segja félagi Benni Jón hrósaði Dirk í hástert í dag, og þá segi ég að mikið sé sagt. Ég botna því akkúrat ekkert í þessu dæmi hjá félaga KAR.

  Annars fyrir utan afleitan leik hjá fyrirliðanum okkar, þá var Aurelio skelfilega slakur og meira að segja var hann Carra minn langt frá sínu besta. Javier var líka ansi dapur, en ekkert af þessu skiptir máli. Það sem skiptir máli var að liðið sýndi stórkostlegan karakter og vann útisigur gegn sterku liði. Annað skiptir hreinlega ekki máli. Ég er ennþá í freaking skýjunum og það er ekki út af engu sem við erum kallaðir the comeback kings. Elska þetta lið.

 34. Frábær sigur og flott komback. Ég minnist orða Ferguson um ManU leikinn um daginn:
  “Við lékum illa og áttum ekki skilið stig. Í fyrra fengum við yfirleitt samt stig en ekki hér. ” Er þetta ávísun á eitthvað stærra hjá okkur ….
  LFC átti á köflum skelfilegan dag en stóð samt uppi sem sigurvegari. Menn sem maður hatar verða hetjur og liðið virðist hafa breidd og getu til að taka skrefið lengra.
  Smalahundurinn sem maður hefur bölvað í ösku er að verða að verðlaunarakka, með hringað skott og ótrúlega elju og þor.
  Sjáum svo hvað gerist.

 35. nú fáum við betri mann í staðinn s´krtel, AGGER AGGER AGGER

 36. Það er af sem áður var. Á síðasta tímabili var ég oft kallaður Kuyt-dýrkandi og fleira slíkt þegar ég vogaði mér að verja hann gegn gagnrýni sumra hér á síðunni. Ég hef hins vegar alltaf haldið því fram að þótt ég hafi mikla aðdáun á hæfileikum og hlutverki Kuyt í liðinu verð ég að geta verið samkvæmur sjálfum mér og sagt þegar hann á lélegan leik.

  Kuyt var ekkert sérstaklega góður í dag. Hann barðist vel, gerir það náttúrulega alltaf, en það vantaði alla ógn upp hans megin á meðan Riera var miklu meira skapandi hinum megin. Þá fékk Kuyt tvö dauðafæri sem hann nýtti með afbrigðum illa, áður en hann skaut upp kollinum og skoraði sigurmarkið. Með því borgaði hann fyrir allt hitt að sjálfsögðu og ég tók ekki fram að hann hefði átt lélegan leik. Ég sagði að hann hefði ekkert getað fram að sigurmarkinu.

  SSteinn, þú tekur líka eftir því að ég tók Gerrard ekki fram þegar ég talaði um menn leiksins. Gerrard fannst mér ekkert sérstaklega góður í dag, né Torres í fyrri hálfleik, en þar sem fyrirliðinn átti tvær stoðsendingar í seinni hálfleiknum (plús sendinguna á Arbeloa í fyrsta markinu) fannst mér rangt að ætla að gagnrýna hann sérstaklega.

  Á endanum skiptir þetta ekki öllu máli og óþarfi að eyða deginum í að rífast um hver lék betur/verr en hver. Liðið vann og virðist á rosalegu róli, og maður spyr sig bara: ef liðið getur unnið svona leiki án þess að menn eins og Gerrard, Torres, Kuyt, Mascherano, Aurelio, Arbeloa og Reina nái sínum hæstu hæðum í frammistöðu … hvernig verður þetta þá þegar líður á veturinn og liðið smellur saman?

  Ég hlakka til að komast að því. 😉

 37. Nákvamlega Kristján Atli! Ef ég man rétt þá höfum við alltaf verið bestir á tímabilinu eftir áramót og eiginlega ekki getað neitt fyrir áramótin, en núna virðist þetta allt vera smella og ef liðið mun þróast eins og það hefur verið að þróast á tímabilunum á undan að við eigum eftir að sjá það besta frá liðinu eftir áramót, guð hjálpi þá mótherjum okkar!

  Hef eilitlar áhyggjur af því samt að afleiðingar þessarar litlu “róteringu” Benitez núna muni verða að liðið nær ekki sinu besta þegar líður á tímabilið en þá ætti hann bara að geta róterað meira þegar líður á tímabilið og verið með ferskari menn eins og Masch, Babel, Keane og fleiri sem verða búnir að spila minna og koma ferskir inn.

  Skiptingin að taka Masch út og setja Keane inn í gær var snilld og akkurat það sem ég vildi sjá. Í stöðunni 1-2 þá höfum við ekkert að gera með varnarsinnaðan miðjumann inná, gott hjá honum að taka sénsinn og það skilaði sér í 3 stigum í gær.

 38. Er bara ennþá brosandi hringinn, það er svo aaaagalega sætt að vinna svona leiki. Rússíbanareið enn og aftur hjá okkur.

  Reyndar get ég ómögulega séð þessa seinni stoðsendingu frá fyrirliðanum okkar KAR, en það kannski skrifast bara á augun í mér. Hann tók hornið þegar Torres skoraði, en Arbeloa átti stoðsendinguna í fyrsta markinu og svo átti Benayoun fyrirgjöfina í þriðja markinu og Torres með skot sem Dirk fylgdi svo á eftir. En þetta skiptir í rauninni engu máli. Er fyrst og fremst hrikalega sáttur við að liðið sýndi karakter og vann Man.City á útivelli með fyrirliðann okkar nánast ekki á svæðinu.

  Við verðum svo bara að vera algjörlega ósammála með leik Dirk Kuyt í þessum leik.

  Þá er það landsleikjahlé og svo Wigan. Ég vil reyndar helst hafa leikina annan hvern dag þegar gengið er svona (gengi liðsins, ekki Íslensku krónunnar).

 39. SSteinn, ég var að sjá mörkin á netinu. Ég gat svarið það í hringiðunni í gær að ég var viss um að Gerrard hefði gefið á Torres í þriðja markinu en jú, það var Benayoun en ekki Gerrard. 😉

 40. SSteinn eg verð nú bara að segja ef þú ætlar að fara bera saman kuyt og fyrirliðan okkar með því að segja ef hann hefði verið nr.8 ofl. þá held ég að þú hafir ekki verið að horfa á boltann síðustu ár. Ég get verið sámmala því að Gerrard hafi verið slakur lungan úr leiknum en þegar hann datt inn á miðjuna þá fannst mér hann verða besti maðurinn á vellinum og bjó til nánast öll okkar færi sem við fengum undir lokin sem voru þó nokkur.
  Og Torres er bara snillingur hvar værum við ef hans nyti ekki við færið sem hann klikkaði undir lokin til að setja þrennuna þegar hann skaut yfir, maður varð pirraður en út af þetta var torres vissi maður að hann mundi bæta upp fyrir þetta seinna og maður þurfti ekki að bíða lengi því hann átti mikinn þátt í sigurmarkinu.
  En þessir tveir ásamt carra eru búnir að vinna sér inn mikla virðingu frá stuðningsmönnum og eiga hana skilið þótt þeir eigi einn og einn down leik,því maður veit að þeir klára bara næsta leik fyrir okkur upp á sitt einsdæmi og í guðanna bænum maður vill ekki sjá að Kuyt sé borin saman við Gerrard því það er himin og haf milli þessara leikmanna.

 41. Það væri þá kannski ekki úr vegi kæri bjorn að þú myndir lesa allan textann minn því þetta var einmitt sett inn í hann:

  Auðvitað eiga menn mismikið inni hjá stuðningsmönnum liðsins, Stevie hefur unnið sér talsvert inn og honum fyrirgefast hlutir í dag umfram aðra, um það er ekki spurning.

 42. Ég er held ég bara sammála KAR í nánast allri hans umfjöllun á þessum þræði. Það var alveg ofsalega sætt að ná að vinna þennan leik eftir að hafa verið 2-0 undir í hálfleik. Sérstaklega þar sem þetta City lið er nú þegar orðið alveg helvíti sterkt.

  Hvað vin minn Kuyt varðar þá bjargaði hann sé fyrir horn með því að pota markinu inn í lokin, ég var reyndar búinn að fræða félaga mína um að hann myndi nú klárlega gera einmitt þetta enda alveg eftir því eftir frammistöðu dagsins. Hann hefur verið góður undanfarið en í leiknum í gær var hann afleitur lengstum hvað sóknarleik varðar. Eða eins og oft var sagt í útsendingunni á Stöð 2 Sport 2 Vinstra Megin Uppi (eða hvað sem þetta heitir) “En Kuyt var aðeins og seinn”
  En baráttan í honum var eftir sem áður frábær og skilaði loksins marki í deild……. ég get samt ekki annað en spáð í, hvað væri t.d. Babel búinn að skila okkur mikið fleiri mörkum eða stoðsendingum?

  Þessi Kuyt umræða er auðvitað áframhald af mörgum leikjum, Gerrard átti ekki sinn besta dag í gær en það er ekki alveg hægt að úthúða honum fyrir þennan leik. Eins með Torres, hann var alveg út á túni á köflum, sérstaklega í upphafi leiks, en setti sín 2 mörk og “stoðsendingu” þegar flautað var til leiksloka. Hvað bakverðina varðar þá finnst mér það vera ákveðin vonbriðgi að þessar stöður hafa ekki verið bættar neitt gríðarlega frá því fyrra, eigu fína bakverði, en langt í frá þá bestu í Englandi.

  En þrátt fyrir gagnrýni og pælingar þá má ekki misskilja að það sem svo að ég hafi ekki verið sáttur eftir leikinn, ég var mjög kátur með þennan sigur og þessa baráttu hjá okkar mönnum. Maður var líka langt í frá búinn að gefa upp vonina í hálfleik þrátt fyrir að staðan væri 0-2, það er gott að geta haft slíka trú á liðinu. Eina sem skyggði á þetta voru þessi hræðilegu meiðsli Skrtel, hrikalegt að missa hann í langan tíma, þó að við eigum Agger kláran.

 43. En þú settir líka inn Ef Dirk hefði skilað frammistöðu líkri þeirri sem fyrirliðinn okkar skilaði í dag, þá hefði hann verið aflífaður. Fyrirliðinn átti mjög mikin þátt í tveim mörkum og lagði upp fjölda annarra færa mér fannst hann bjarga dálítið sinni framistöðu þegar hann var færður á miðjuna því hann var ekkert inn í spilinu þegar hann var í holunni fyrir aftan torres en ég er ekkert að segja að kuyt hafi verið lélegur langt í frá og hann var hetjan í dag ásamt Torres.
  EN það sem skiptir mestu máli er,
  SIGUR OKKAR MANNA SVO ALLIR ERU GLAÐIR.

 44. Auðvitað er maður sáttur við sigurinn í gær. En merkilegt að menn geti látið frá sér setningar eins og “ef Dirk hefði skilað frammistöðu líkri þeirri sem fyrirliðinn okkar skilaði í dag, þá hefði hann verið aflífaður”. Þá væri nú búið að aflífa Dirk Kuyt fyrir löngu síðan, og meira segja oft og mörgum sinnum, væri hægt að aflífa menn oftar en einu sinni.

  Þeir áttu það sameiginlegt í 90 mínútur í gær að báðir áttu slakan leik þangað til Kuyt skoraði. En annars er getumunurinn á milli þessara leikmanna svo mikill að Gerrard þarf nú að leggja mun meira af mörkum til að vinna sér inn hrós. En þegar menn hafa hæfileika Gerrards þá eru gerðar meiri kröfur og ekkert óeðlilegt við það.

  En frábært mark hjá Kuyt (fyrsta deildarmarkið í 27 leikjum) en við þurfum betri mann í þessa stöðu. En þangað til erum við svosem ekkert illa settir með Kuyt. Hann leggur sig alltaf fram, en hann bara vantar meiri getu.

 45. Ég á ekki orð yfir þessari umræðu um Kuyt í þessum leik. Fyrir mína parta var hann yfirburðamaður í fyrri hálfleik ásamt Riera. Þessi fyrri hálfleikur var annars skitinn hjá okkar mönnum og rúmlega það. Við vorum vissulega með boltann mikið, en City menn gerðu þó e-ð með hann annað en við og þegar þeir fengu boltann leit út fyrir að þeir vildu skora. Þegar við fengum boltann gerðist ekkert, nema þegar Riera eða Kuyt voru nálægt. Hvers vegna? Jú vegna þess að þeir hreyfðu sig og gáfu félögum sínum séns á að gefa boltann innan síns liðs fram á við. Þetta er akkúrat það sem fólk virðist blint fyrir að horfa á. Menn vilja oft bara horfa á lokasnertinguna í sókninni. Ef við tökum fyrsta mark Keanes fyrir félagið sem dæmi að þá er í fjölmiðlum eftir leik aðeins sýnt snilldar-move og sending Torres á Keane sem klárar vel, þar á undan tók Kuyt 3 menn á og kom honum á Torres uppúr engu, bjó í rauninni til möguleikann á færinu alveg upp á sitt einsdæmi. Þetta var lítið sem ekkert talað um, hefði þetta hinsvegar verið öfugt, Torres farið í gegnum 3 og Kuyt sent fyrir get ég nánast fullyrt að þetta hefði verið umtalað marga daga á eftir (ég er ekki að segja að þetta hafi farið framhjá öllum mönnum hér). Þetta var meira að segja óvenju augljóst dæmi. Það sem enþá færri virðist sjá eru sóknarhlaupin sem Kuyt er einnig alltaf að taka, oftar en ekki frábær og gríðarlega mikilvæg hlaup sem opna svæði. Oft fyrir Arbeloa og enþá oftar fyrir Torres. Þessu tók ég amk mjög oft eftir í leiknum gegn City.

  Og svo þetta frá Babu: “Eða eins og oft var sagt í útsendingunni á Stöð 2 Sport 2 Vinstra Megin Uppi (eða hvað sem þetta heitir) “En Kuyt var aðeins og seinn” “

  Þetta finnst mér magnað, og það var í raun hlegið af þessari setningu á Players (ef við erum að tala um sama atriðið). Ég leyfi mér að spyrja, hvar voru guðirnir Torres og Gerrard? Jú ef ég man rétt voru þeir báðir á lallinu við vítateigslínunu með skituna jafn hátt upp á bak og allan fyrri hálfleikinn! Kuyt var þó að reyna og var þó allavega að taka hlaup, allir aðrir voru staðir! Hitt er svo annað mál að guðirnir tveir (sem eru sko vissulega almennilegir guðir og ég dýrka) rifu sig upp í lokin.

  En svona atriði og comment gera alveg útslagið fyrir mér, og eru í besta falli ósanngjörn. Í síðari hálfleik var Kuyt svo einnig góður og heilt yfir bara frábær leikur hjá honum eftir að hann skoraði markið. Að mínu mati er Kuyt bara orðinn alger lykilmaður í þessu liði, afar fáir leikmenn í dag (ef einhverjir) sem hafa kosti Kuyt.

  Ég hef oft ætlað að leggja orð í belg hér vegna Kuyt en aldrei komist í það, ágætt að vera búinn að koma þessu frá sér 😉

  Og ég trúi í raun ekki að ég hafi skrifað neitt svona neikvætt eftir þennan frábæra sigur, maður er í skýjunum enþá!

Liðið gegn City komið

Skrtel alvarlega meiddur