Liverpool – PSV 3-1

Meistaradeildin er orðin þannig í dag að maður er orðinn svo góðu vanur að maður er hálfpartinn farinn að ætlast til þess að Liverpool taki flesta andstæðinga sína á þessu stigi keppninnar nokkuð örugglega, sérstaklega á heimavelli. PSV hafa verið Hollenskir meistarar undanfarin 4 ár, verið gríðarlega sterkir í meistaradeildinni undanfarin ár og haft í sínum röðum gríðarsterka leikmenn. Engu að síður býst maður við nokkuð öruggum sigri og ég er hræddur um að allt myndi nú loga ef hann fengist ekki.

Það er samt enginn hætta á miklum hita eftir leik kvöldsins, Liverpool hélt áfram mjög góðri spilamennsku sinni og gjörsamlega labbaði yfir PSV, nánast án þess að setja í 3.gír. Einhverjir vilja örugglega meina að þetta PSV lið sé arfaslakt, ég vil samt heldur meina að þetta PSV lið var látið líta út fyrir að vera arfaslakt. En rennum yfir þetta:

Rafa kemur ennþá á óvart og hafði lið Liverpool hefðbundið í dag, nánast sama lið og spilaði gegn Stoke og Everton:

Reina

Arbeloa – Skrtel – Carragher – Aurelio

Gerrard – Alonso
Kuyt – Keane – Riera
Torres

Bekkur: Cavalieri, Dossena, Agger, Mascherano, Babel (80.mín f/Gerrard), Benayoun (67.mín f/Riera), Lucas (75.mín f/Keane)

Fyrri hálfleikur var gjörsamlega eign Liverpool, PSV lagði leikinn upp eins og flest lið virðast ætla að gera gegn Liverpool í vetur, með mjög stífum varnarleik. 5-3-2 kerfi og allir fyrir aftan miðlínu. Þessi uppstilling var hinsvegar engin hindrun fyrir Liverpool sem byrjaði leikinn vel og skoraði strax á 4.mínútu eftir …wait for it……góða hornspyrnu. Torres var einn á auðum sjó í markteig og náði fínu skoti sem Isaksson varði vel með löppunum, af honum barst boltinn út í teig beint í lappirnar á Kuyt sem hammraði knöttinn í Isaksson sem fékk hann líklega í hnéð og þaðan fór hann í netið, 1-0. Smá heppni yfir þessu hjá Kuyt en gott mark engu að síður enda engin smá fjöldi varnarmanna fyrir framan hann þegar hann lét skotið ríða af.

Eftir markið var bara eitt lið á vellinum, Liverpool var með boltann í station útgafunni af reitarbolta án þess þó að opna PSV neitt sérstaklega. Það var helst að Ambrabat væri með lífsmarki hjá Hollendingunum enda hljómar nafnið ekki ólíkt undrabarn, en tilburðir PSV verða seint skráðir í sögubækurnar.

Á 19.mínútu átti Robbie Keane að fá víti þegar varnarmaður PSV fór klaufalega í lappirnar á íranum sem féll í teignum og heimtaði strax víti, réttilega enda boltinn aldrei nálægt varnarmanninum og dómarinn í afar góðri stöðu til að sjá þetta. Það þýddi þó ekki að svekkja sig á þvi og yfirburðir Liverpool héldu áfram þrátt fyrir að PSV hresstist örlítið þegar leið á hálfleikinn.Stuðningsmenn Liverpool voru vel með á nótunum þó þeir hafi á tímabili virkað smá rispaðir enda mátti heyra þetta góða lag í hátt í tíu mínútur frá The Kop.

En á 33.mínútu gerðist sögulegur atburður, Kuyt fékk boltann út á hægri kannti, kom honum upp í hornið á Torres sem tók bakvörðinn á sprettinum, kom boltanum inn í teig þar sem enginn annar en Robbie Keane var mættur og setti boltann laglega í vinstra hornið, 2-0 fyrir Liverpool og alsæll Keane tók spariútgáfuna af fagninu sínu góða fyrir framan stuðningsmenn Liverpool, sem var öllum með tölu mjög létt að þessi hindrun væri loksins frá. Fínn fyrri hálfleikur, yfirburðirnir algerir og mesta furða hvað fagnið hjá Keane var lítið ekkert pirrandi núna.

2-0 í hálfleik og það gjörsamlega áreynslulaust.

Seinni hálfleikur byrjaði svipað og sá fyrri, Liverpool var með boltann og leikinn gjörsamlega í sínum höndum. Þó lifnaði örlítið yfir hollendingunum sem fóru líklega að sýna vott af þeim bolta sem þeir spila allajafna. Á 52.mín var manni örlítið brugðið þar sem Torres var sparkaður niður og lá á eftir, slíkt er alltaf svolítið stress en hann hristi þetta af sér og hélt áfram að hrella varnarmennina. Torres hefði með smá heppni getað skorað í leiknum en var alltaf ógnandi og átti eitthvern þátt í öllum okkar mörkum. Þegar klukkutími var liðin af leiknum var ég farinn að skilja betur hvernig Kuyt tókst að vera markamaskína í Hollandi , það var bara einfaldlega gríðarlegur styrkleikamunur á þessum liðum.
Á 65.mín skipti gamla hetjan okkar Jan Kromkamp aftur um lið í andartak, honum hefur alltaf langað til að spila með Torres og sendi því góða sendingu á spánverjann sem komst við það einn í gegn, en ekkert varð úr færinu þar sem Torres skaut framhjá, kudos engu að síður á Kromkamp.

Næstu fimm mínútur fóru Hollendingarinr aðeins að gera sig líklega og færðu sig aðeins framar á völlinn, við það skapast smá pláss fyrir Torres sem var við það komast í gegn þegar hann var felldur af arguably aftasta varnarmanni PSV. Aukaspyrna var dæmd á hættulegum stað og gult spjald fór á loft. Áður en spyrnan var tekin gerði Benitez aðra skiptingu á liði Liverpool, setti Lucas inn fyrir Keane. Lucas var svo varla kominn inná þegar Gerrard HAMMRAÐI knöttinn í netið úr aukaspyrnunni, geggjað mark hjá fyrirliðanum og eins mikið a la Gerrard og hægt er, 3-0. Skiljanlegt reyndar að hann tæki spariútgáfuna á þetta enda hans hundraðasta mark fyrir klúbbinn.

Fljótlega eftir að staðan var orðin 3-0 slysuðust hollendingarnir upp kanntinn, þaðan kom fín sending frá Kromkamp að mig minnir inn á varamanninn Danny Kovermas sem minnkaði muninn í 3-1 með góðu marki. En þetta var held ég í eina skiptið sem eitthvað reyndi á Reina í leiknum, ekki að ég sé að kenna honum um það.

Eftir þetta fjaraði leikurinn nánast út. Babel sem kom inná fyrir Gerrard fékk slæman slink á ökklan og virtist vera meiddur en harkaði þó af sér og kláraði leikinn. Síðasta færið kom svo eftir góðan undirbúnig frá Torres sem komst enn eina ferðina næstum í gegn, hann ákvað að skjóta ekki þegar hann var í færi til þess, tók þess í stað feik og setti boltann á Lucas sem var í úrvalsfæri sem vörn PSV varði í horn.

Þetta var það síðasta sem gerðist markvert í þessum mjög góða leik okkar manna sem var sá 250. undir stjórn Rafa Benitez.


Frammistaða okkar manna
var heilt yfir bara skrambi góð, andstæðingurinn var látinn líta illa út, varnarmúrinn strax brotinn á bak aftur sem var, eins og Stoke kenndi okkur, mjög mikilvægt. Það var svosem enginn að bera neitt sérstaklega af í kvöld þannig séð heldur bara góð frammistaða liðsins heilt yfir. Ef ég renni yfir frammistöðu leikmanna:

Reina – Þessi leikur var þannig að ég hefði verið pollrólegur þó Peggy Arpex..whatever væri í markinu. PSV fékk eitt færi sem fór á markið og reyndar í markið, en það er ekki hægt að saka Reina mikið um það mark.

Arbeloa – Byrjaði frísklega og var að ná ágætlega saman við Kuyt í upphafi. Leikurinn bauð ekki upp á mikla möguleika á mistökum hjá Arbeloa og því frekar hlutlaus frammistaða hjá honum í kvöld.

Skrtel – þetta skrímsli var að mati Agger leiðinlega gott í kvöld. Skrtel er að verða hrikalega traustur miðvörður og gerir það erfiðara fyrir Agger að komast aftur í liðið með hverjum leiknum sem líður.

Carragher – Hann var bara samur við sig í dag, en það er auðvitað mikið hrós þegar talað er um Carra. Það reyndi svosem ekki mikið á vörnina.

Aurelio – Gaman að sjá hann aftur í liðinu og ég tala nú ekki um klára heilan leik. Átti nokkra líflega spretti upp kanntinn, en þessir leikur verður ekkert lengi í minnum hafður hjá honum held ég.

Gerrard – Fyrirliðinn var góður í dag, við áttum gjörsamlega miðjuna og Gerrard átti nokkrar efnilegar sendingar sem sköpuðu hættu. Þar fyrir utan átti hann mark helgarinnar í meistaradeildinni, þvílíkt sem það er alltaf gaman að sjá þessar neglur syngja svona í netinu.

Alonso – Líkt og Gerrard var Alonso afar traustur í kvöld, dreifði spilinu vel og líkt og ég sagði eftir síðasta leik þá er hann alltaf að líkjast sjálfum sér meira og meira….það er gaman að sjá.

Kuyt – Hefðbundinn leikur hjá honum, Kuyt er að eiga nokkuð góða leiki þessa dagana og var að vanda þræl duglegur í dag og skoraði meira að segja gott mark. Hann dalaði aðeins þegar leið á leikinn og ég er ekkert spenntur fyrir því að sjá mikið meira af samvinnu Kuyt og Bennayoun sem við fengum í lokin.

Keane – Ágætisleikur hjá Keane, hann er komast betur inn í leik okkar manna og náði auðvitað loksins að setja mark fyrir okkur í þessum leik. Það var nokkuð augljóst að þetta var honum afar kærkomið og mikið óskaplega má hann fara gera þetta reglulega.

Riera – Sæmilegur leikur hjá Riera, var að skila boltanum ágætlega frá sér og stríða hollendingunum af og til. Hefur þó verið meira áberandi, maður er samt að fá það meira og meira á tilfinninguna að Rafa hafi gert góð kaup í þessum kappa.

Maður leiksins

Fernando Torres – Í nokkuð jöfnu liði Liverpool í dag vel ég Torres sem mann leiksins. Hann var alltaf ógnandi og bara óheppinn að skora ekki í kvöld. Hann átti skotið sem varð til þess að boltinn barst til Kuyt í fyrsta markinu, hann sendi á Keane í fyrsta marki írans fyrir Liverpool og hann fiskaði aukaspyrnuna sem Gerrard skoraði úr. Þar að auki var hann rétt búinn að leggja upp mark fyrir Lucas undir lokin. Þetta gull er ekki bara að skora fyrir okkur heldur skapar hættan af honum einnig helling af mörkum.

En mjög góður sigur hjá okkar mönnum og ekki hægt annað en að vera sáttur. Gerrard náði 100.markinu og Keane braut ísinn, semsagt allt eins og það á að vera.

Takk fyrir mig

Babú

48 Comments

 1. Jæja frábært fyrir Keane að skora loksins og núna fer hann vonandi að raða þeim inn. Skemmtilegt að sjá þetta fagn loksins þegar LFC skorar en ekki á móti okkur 🙂

 2. Flott mark hjá Keane og loksins byrjar hann að skora..
  Fínn leikur …áttum þennan leik síðan í byrjun !

 3. Glæsilegur sigur okkar manna, hefði átt að vera miklu stærri. Loksins gaman að sjá framherjana setja’nn.

 4. Af hverju spilar Liverpool ekki á þessu tempói í deildinni?
  Frábær sigur.

 5. Góður sigur hjá okkar mönnum, gaman að sjá afgreiðslurnar hjá Kuyt og Keane, flott hundraðasta mark hjá Gerrard. Skelfileg varnarvinna hjá Skrtel í markinu hjá PSV, spái að Agger fái séns á laugardaginn á móti stóra liðinu í Manchesterborg ;o)

 6. Nei, kommon, trúi ekki að Skrtel missi stöðu sína í liðinu fyrir þetta smáræði. Í alvöru talað … en við erum svosem í góðum málum með Agger 🙂

  Annars fínn leikur, en óþarfi að fá þetta mark á sig. Held bara að menn hafi ekki verið búnir að ná sér eftir þrumufleyginn hjá Gerrard.

 7. Ætla bara að minna ykkur á það að ég spáði 3:1 sigri … – hafði að vísu markaskorara ekki rétta, en er sáttur. Góður leikur að því leytinu til að hann var frekar hægur meirihluta leiks, það þurfti ekki að hafa mikið fyrir þessum sigri. Ég fagnaði ógurlega yfir mörkum Keane og Gerrard, og auðvitað fagnaði ég Kuyt … en ef tempóið hefði verið aðeins hraðara hjá okkur … þá hefði sigurinn verið stærri. Torres tengdist öllum mörkunum 🙂

  Maður leiksins: Fyrirliðinn hefði átt að fá þetta bara vegna 100. marksins, en fyrirliði vor átti óvenju margar slappar sendingar og móttökur … á meðan mér fannst Keana vera á fullu allan tímann. Ég ætla að velja Keane.

 8. 4 Kjartan –

  Af hverju spilar Liverpool ekki á þessu tempói í deildinni?

  Ég ætla rétt að vona að við gerum það ekki – það var lítið tempó í þessu hjá okkur fannst mér og menn voru ekkert að ofkeyra sig 🙂

  En það er náttúrulega bara þvílíkt jákvætt að geta tekið hollenskt stórlið með annari liggur við. Okkar menn eru farnir að líta hrikalega solid út, boltinn farinn að rúlla almennilega á milli manna og hreyfanleiki án bolta er kominn – eitthvað sem vantaði svo oft seinasta vetur!

 9. ótrúlega auðveldur sigur. Liðið að komast á gott flug. Sammála að keane hafi verið góður, hann var að vinna mjög vel til baka líka sem hjálpaði miðjunni mikið að halda góðri pressu. Allt liðið var bara að spila vel. Allir að vinna fyrir hvern annan og það virðist vera góður móral í gangi. Mjög gott mál.

 10. Ég á við að a.m.k. fyrsta hálftímann var Liverpool að láta boltann ganga hratt á milli manna og með jörðinni ig virkuðu almennt beittir í öllu spili. Maður er vanur að sjá Liverpool dóla með boltann inni á eigin vallarhelmingi, Carra röltandi með boltann áður en hann fretar honum hátt fram bara e-ð. T.d. eins og bara á móti Stoke. Stundum sagt um lið að þau hafi ekkert plan B í sóknarleik ef hlutirnir eru ekki að ganga en Liverpool hefur alltof oft í gegnum tíðina virkað eins og það hefði ekkert plan A…eins og gegn Stoke. Þess vegna lýsi ég yfir ánægju minni með þetta flæði í spilinu a.m.k. í byrjun.

  Auk þess verð ég að vera ósammála pistlahöfundi um Aurelio. Fannst hann spila virkilega vel og sýna að heill er hann besti bakvörður okkar. Átti t.a.m. margar fínar hornspyrnur sem, undur og stórmerki, drifu yfir fyrsta varnarmann. Það eitt og sér ætti að gefa honum maður leiksins verðlaun 😉

  • Auk þess verð ég að vera ósammála pistlahöfundi um Aurelio.

  Var ég að hallmæla honum eitthvað? Ég var nú bara þræl sáttur með að sjá hann í liðinu og heilan heilsu!!

 11. Óóó þvílík pína að hafa Kuyt. 😉 MAJOR KALDHÆÐNIS ALARM

  Alonso missti bara næstum engan bolta held ég á hættulegum stað í þessum leik né gegn Everton, djöfull er það mikill léttir. Líkar hann bara nokkuð vel þessa stundina. Rest = awesome.

 12. “Aurelio – Gaman að sjá hann aftur í liðinu og ég tala nú ekki um klára heilan leik. Átti nokkra líflega spretti upp kanntinn, en þessir leikur verður ekkert lengi í minnum hafður hjá honum held ég.”

  Minntist bara á það út af þessari síðustu klásu. Fannst hann einmitt standa upp úr í kvöld í annars jafngóðu liði Liverpool ásamt Kuyt.

 13. Gott og vel, mér fannst reyndar hvorki hann né Kuyt skara eitthvað frekar frammúr. Báðir fínir bara í kvöld.

 14. Rosalega margt jákvætt í kvöld. Liðið hápressaði fyrstu 30 og skoraði snemma. Afar jákvætt.
  Robbie Keane spilaði frábærlega og var minn maður leiksins af mörgum góðum, rosalega jákvætt.
  Liðið hélt boltanum gríðarlega vel og stjórnaði leiknum allan tímann.
  Vörnin hélt tilraunum sem enduðu á ramman í 1. Vissulega mark en á síðustu 180 mínútum hafa mótherjar okkar átt 1, EITT, skot á rammann. Þvílíkt jákvætt og marklaust að breyta vörninni. Stærstu mistökin í markinu sem við fengum á okkur var að Aurelio átti að gera betur í að komast fyrir sendinguna.
  Neikvætt er bara eitt. Þessi keppni verður stöðugt slakari. Í gær sáum við Porto, í dag PSV. Fyrir 15 árum hefðu þetta verið alvöru leikir en staðreyndin er orðin sú að það eru 10 lið tops í Evrópu sem geta unnið þessa keppni og bilið milli stærstu landanna og stóru landanna í álfunni eykst stöðugt.
  Það er strax orðið ljóst að stóru nöfnin fara létt upp úr þessum riðlum, með sigri í næsta leik erum við í raun komnir áfram og þrír leikir eftir.
  En það er bara keppnin, frammistaða okkar manna í kvöld var flott!

 15. Góður punktur með Meistaradeildina og fákeppnina í henni. Væri forvitninglegt ef þú nefndir þessi 10 lið því ég kemst bara upp í 5-6 möguleg sigurlið..

 16. Já einmitt fákeppnin í Meistaradeildinni.

  Zenit átti að vinna Real í gær, Bate Borisov vann Juve, Barca marði Shaktar, Cluj gerði jafntefli við Chelsea. Bara svona sem dæmi. Liðin sem geta strítt stóru liðunum eru bara að færast austar í álfuna.

 17. Alonso vs. Barry…..Held að Alonso sýnt það og sannað að hann er margfalt betri leikmaður en sá síðarnefndi. Virkilega ánægjulegt að sjá hann kominn í sitt besta form. Ef Liverpool þarf að styrkja sig einhversstaðar þá er það klárlega ekki á miðjunni.
  Aðrir leikmenn áttu fínan leik. Skrtel gerði vissulega mistök en hann kemur tvíefldur tilbaka um helgina gegn City.

 18. Já, Skrtel gerði mistök, en afhverju að horfa og tala um 1 mistök, en minna talað um 10 góða hluti. Hið neikvæða verður oftast ofan á, því miður…..

 19. Flottur sigur. Kom mér verulega á óvart hvað þetta var “auðvelt”. Hjartanlega sammála vali á manni leiksins. El Nino var bara hreint út stórkostlegur. Það var alltaf hætta þegar hann fékk boltann. Þessi strákur er martröð allra varnarmanna.

  Segir allt sem segja þarf:

  “En mjög góður sigur hjá okkar mönnum og ekki hægt annað en að vera sáttur. Gerrard náði 100.markinu og Keane braut ísinn, semsagt allt eins og það á að vera.” 🙂

  YNWA

 20. Ágætis leikur, en mér fannst þó að við værum á hálfum hraða lengi vel – kærlausar sendingar þarna aftast á köflum , en við vorum bara það mörgum klössum fyrir ofan að við gátum leyft okkur þetta.

  Varðandi Skrtel, þá er hann ekki enn búin að sannfæra mig – ég tel að “in-form” Agger sé betri leikmaður en Skrtel, en þegar Benitez er loksins ekki að skipta mönnum út og inn none-stope þá á maður bara að vera ánægður. Liðið á fínu flugi og vonandi að við tökum 3 stig nk sunnudag.

 21. Afar góð leikskýrsla hjá Babu. Þetta virkaði furðulega áreynslulaust og það segir manni bara það að óhemju mikil gæði eru komin í liðið. Ég verð að minnast á Alonso. Er sammála einare. Síðustu leikir hjá honum hafa verið frábærir og það er enginn, nema kannski kafteinninn á góðum degi, sem getur dreift spilinu á líkan hátt og Alonso gerir. Frábærar þversendingar sem minna á Ásgeir Sigurvinsson upp á sitt besta.
  Það sem kemur mér sérstaklega á óvart, líkt og tekið er fram í skýrslunni, að nú virðist Benítez vera hættur að rótera, allavega virðist hann ekki telja það nauðsynlegt svona í byrjun móts. Enda er miklu betra að rótera eftir Madrídarleikina – ef við náum 4 stigum í þeim – því þá verður liðið vonandi komið áfram og lykilmenn geta fengið tvær vikur í frí frá Meistaradeild. Sem getur komið mjög til góða og ætti að duga.
  Að öðru leyti er áhugavert að pæla í stöðu fótboltans í Evrópu. Ég var einmitt að hugsa í gær, eftir að CFR Cluj náði jafntefli gegn Chelsea – og miðað við úrslit BATE – að peningarnir í boltanum virðast hafa færst til A-Evrópu. Frönsk, portúgölsk, hollensk og jafnvel þýsk lið virðast ekki vera eins mikil ógn og rússnesk, úkraínsk og jafnvel rúmensk.
  http://www.knattspyrna.bloggar.is

 22. Torres á svo sannarlega heiður skilið fyrir sitt framlag í leiknum og auðvita er maður guðlifandi feginn að Keane skoraði. Mér fannst þetta ekkert sérlega skemmtlegur leikur, meira segja stóð mig að því að skipta einu sinni um stöð??

  Ég skil ekki afhverju Aurelio er í þessu liði hann er nógu góður að mínu mati.Hann skilar boltanum illa fyrir og var slappur að mínu mati

  Ég var ánægður með stiginn. Torres, Kyut Gerrard og Keane fá prik fyrir góða framistöðu þó ég hefði viljað sjá Torres setja hann.

 23. Flott þetta, verður áhugavert að sjá Liverpool eiga við Atletico. Spái 4-4 og svo seljum við Texas Rangers til að kaupa Sergio Aguero í janúar.

  Lengi lifi minn maður, Dirk Kuyt!

 24. Flottur sigur hjá okkar mönnum!

  Einn punktur : Riera er með mjög góðar sendigar frá kantinum á milli síðasta varnarmanns og markvarðar, hvers vegna er ALDREI liverpool maður mættur í plássið þarna á milli????? Næstum allir leikir sem Riera hefur tekið þátt í hefur svona sending komið og aldrei er nenn sem er mættur í svæðið…….held að þetta sé eitthvað sem Benitz þurfi að skoða betur (ekki það að hann sé þekktur fyrir að pæla of lítið í hlutunum).

  Eruði ekki sammála?? Hafið þið ekki tekið eftir þessu??

  En allavega, góður sigur í gær.
  Go Liverpool!!

  • Riera er með mjög góðar sendigar frá kantinum á milli síðasta varnarmanns og markvarðar, hvers vegna er ALDREI liverpool maður mættur í plássið þarna á milli

  Það er nú alveg skiljanlegt, einn þeirra er í Newcastle eins og er, annar kominn í Blackburn og Rush er því miður nýlega hættur.

 25. Tíu lið sem geta unnið meistaradeildina í ár:
  Líklegust:
  Manchester United, Chelsea, Liverpool, Arsenal, Real Madrid, Barcelona, Internazionale.
  Outside chances:
  Juventus, Lyon, Bayern Munchen.
  Með allri virðingu fyrir öllum einstökum úrslitum eru þessi 10 lið nú þegar 99% örugg um að komast áfram og þau sex sem fylgja þeim komast mest í 8 liða úrslit.
  Svona verður þetta næstu tíu ár……

 26. Góður Babu!
  Hjartanlega sammála því, við eigum engan boxsenter, nema kannski Keane. Enda væri ég til í að fá stóra afsökunarbeiðni frá Owen og svo láta hann hafa tíuna hans Voronin…..

 27. 29

  Í augnablikinu hef ég bara ENGA trú á Barcelona – og ég tel að Real séu ekki með nægilega góða miðju og vörn til þess að sigra CL.

  Ensku liðin verða að teljast lang líklegust, og ég ætla að gefa Jose meiri tíma áður en ég dæmi þá.

  En ég er nú búin að sjá 3 leiki með Barcelona í ár, og þeir eru alveg hrikalega lélegir. Stálu sigrinum í gær, Shaktar var með unnin leik en náðu ekki að skora fleiri mörk og klára hann endanlega. Auðvitað er tímabilið ný hafið, en Barca var svona í fyrra líka, og árið þar á undan. Of mikið af “söddum” leikmönnum…. Messi sá eini í þessu liði sem virðist gefa sig 110%.

  Eto og Henry þarna frammi ….. eins frábærir leikmenn og þeir eru, þá eru þeir bara ekki að finna sig í ár, frekar en í fyrra. Sú ákvörðun að halda þeim tveimur en selja Ronaldinho verður að teljast í meira lagi skrítin.

 28. Frábært að klára þennan leik svona létt. Leikurinn var auðvitað búinn eftir 4 minútur og restin í raun formsatriði. Það voru nokkrir góðir punktar í þessum leik.
  Í fyrsta lagi er Rafa að gera litlar eða engar breytingar í enn einum leiknum, vonandi að hann sé hættur að hvíla leikmenn sem þurfa ekki hvíld.
  Í annan stað var frábært að Keane skyldi skora. Ég veit ekki hvort margir eru sammála mér en mér finnst litlu máli skipta hort hann sé að skora mikið á leiktíðinni, því breytingin á því hversu miklu betur liðið pressar andstæðingana frá því í fyrra má að mínu mati þakka honum af stórum hluta. Hann er rekandi menn fram á við í tíma og ótíma og er sjálfur nánast óþreytandi. Þar að auki finnst mér fagnið alltaf jafn skemmtilegt, en hann ætlaði víst bara að gera þetta í fá skipti fyrir púllarana.

 29. Er ég einn um það að hafa skellt uppúr yfir síðasta marki okkar í gær? Boltanum er rennt til hliðar en allir leikmennirnir í veggnum standa kjurrir.

 30. Góð skýrsla Babú. Þetta var áreynslulaus sigur umfram allt, en það er samt liðinu að þakka þar sem boltinn gekk mjög vel milli manna og mikið um einna snertinga bolta sem var gaman að sjá.

  Aðallega tvennt sem kom mér á óvart í leiknum:
  1) Hinn alræmdi vinnuhestur Diðrik nokkur Káti varð að lúta í gras hvað varðar km hlaupna í leiknum. Alonso hljóp meira en hann skv tölfræðinni á Sky. Annars góðu leikur frá Dirk.

  2) Skrtel átti algjörlega þetta mark. Minnti mig á man utd markið sem Tevez skoraði sem var skellt á Mascherano, vantaði að hann myndi fylgja manninum sínum tilbaka. Fyrir utan þetta var hann mjög stöðugur ásamt Carragher.

  Ég held það sé búið að covera flest önnur atriði í leiknum nokkuð vel.

  Það er nú þannig

 31. Zenit átti að vinna Real í gær, Bate Borisov vann Juve, Barca marði Shaktar, Cluj gerði jafntefli við Chelsea. Bara svona sem dæmi. Liðin sem geta strítt stóru liðunum eru bara að færast austar í álfuna.

  Zenit VANN ekki leikinn (m.a.s. heimaleikur), Bate gerði jafntefli við Juve á sínum heimavelli og Cluj gerði 0-0 jafntefli á heimavelli gegn meiðslahrjáðu Chelsea. Á meðan vinna Liverpool, United og Arsenal sína leiki lygilega auðveldlega, Barcelona tók þetta á gæðunum og heppni á endanum og enginn gerir ráð fyrir öðru en að Inter fari áfram þrátt fyrir jafntefli á heimavelli.
  Sammála Magga með þetta en ég get bara séð að Chelsea, United, Liverpool, Barca og Real eigi raunhæfa möguleika á að vinna keppnina og kannski Inter og Villarreal sem mögulega kosti ef allt gengur eftir. Þessi keppni er hönnuð af og fyrir stóru liðin, allt fyrirkomulagið hyglir þeim. Ef Liverpool hefði átt svipaða frammistöðu í gömlu Evrópukeppni Meistaraliða og þeir áttu síðasta vetur í riðlunum hefðu þeir dottið út í fyrstu umferð. Þannig geta lið eins og Chelsea og Inter tapað stigum núna en á endanum skiptir það engu. Þau fara áfram hvað sem á dynur.

  Eto og Henry þarna frammi ….. eins frábærir leikmenn og þeir eru, þá eru þeir bara ekki að finna sig í ár, frekar en í fyrra. Sú ákvörðun að halda þeim tveimur en selja Ronaldinho verður að teljast í meira lagi skrítin.

  Stöðu Ronaldinho hjá Barca var ekki bjargandi úr því sem komið var og raunar tel ég líklegt að tíma hans sem topp-fótboltamanns sé lokið sökum metnaðarleysis. Henry hefði átt að fara í sumar enda var hann búinn síðasta hálfa tímabilið hjá Arsenal og hefði aldrei átt að vera keyptur.

 32. Gummi, þetta er ekkert nýtt að Alonso sé að hlaupa meira en Kuyt. Þetta kemur ansi oft fram á sky, ég talaði margoft um þetta í fyrra, og Kuyt er yfirleitt þriðji í röðinni á eftir Alonso og Gerrard.

  Kuyt er duglegur, engin spurning, en hann hleypur ekki mest í liðinu og hefur aldrei gert.

  En þegar menn hrósa Dirk Kuyt fyrir vinnusemi þá verða menn að hrósa einni Robbie Keane, þvílík vinnusemi í þeim dreng…plús dass af knattspyrnuhæfileikum. Hann var útum allan völl í gær pressandi og loka svæðum. Hann var virkilega duglegur og góður í gær

 33. Ég held að það sé eðli miðjumanna að hlaupa mest í hverjum leik. Við getum kannski orðað það þannig að Kuyt hleypur mest af öllum framherjum í heimi 🙂

 34. Já þetta var glæsilegur leikur hjá okkar mönnum. Eina sem stóð uppúr(en kemur trúlega engum á óvart) er hversu hrikalega góður knattspyrnumaður Fernando Torres er. Fyrsta snertingin hans og snerpa eru eitthvað sem öll lið hljóta að hafa áhyggjur af. Ekki myndi ég vilja vera sá varnarmaður sem þyrfti að gæta hans.

  Varðandi þessa vegalengda tölfræði þá er þetta ekki alveg lýsandi fyrir hversu duglegur leikmaður er, t.d. myndu flestir tala um Robbie Keane og Dirk Kuyt sem duglega leikmenn áður en þeir myndu nefna Xabi Alonso. Ástæðan er sú að pressan sem þeir setja á öftustu varnarmennina, og það á harða-spretti, er gríðarlega erfið til lengdar. Þeir hlaupa þá uppi og varnarmaðurinn verður hreinlega að losa sig við boltann fljótt.
  Ég er þó ekki að segja að Alonso sé latur, þvert á móti. Hann hleypur bara allt öðruvísi. Hann er meira í að hlaupa í svæði og jogga fyrir framan vörnina en lítið í hápressu og sprettum fram völlinn.

  Kveðja,

 35. Mér þykkir bara nokkuð gott að 6 til 7 lið eigi “raunhæfa” möguleika að vinna Meistardeildina. Getur einhver bent mér á aðra deild þar sem 7 til 10 lið þykkja til tölulega jafn líkleg að vina þá deild?

 36. Er það gott að 6-7 af 32 liðum í riðlunum eigi séns á að vinna keppnina? Ef við tökum öll liðin sem komast í keppnina (frá forkeppninni og upp úr) þá er þetta hlutfall ennþá lægra og þar að auki eru þessu 6-7 lið í raun aðeins frá tveimur löndum af 53-4 sem eiga aðild að UEFA. Auk þess er fáránlegt að bera saman Meistaradeildina við aðrar deildarkeppnir.

 37. Rosalega leiðinlegt að sjá að Everton komst enn og aftur ekki í riðlakeppnina í UEFA Cup ! Muahaha

 38. Góður leikur hjá okkar mönnum.
  En ég verð að segja að ég á varla orð yfir það hvað Kyut er orðinn góður. mér finnst hann vera einn af lykilmönnum í liðinu í dag. Hann stendur einhvernveginn alltaf fyrir sínu og hleypur eins og andskotinn. Leggur sig 100% fram og það er það sem mér finnst skipta miklu máli. Steve Finnan fannst mér líka vera þannig leikmaður fyrir 2-3 árum. Klikkaði aldrei en skaraði kannski ekkert sérstaklega framúr og var ekki oft valinn maður leiksins. Það sem liverpool hefur vantað síðustu ár eru menn eins og hann, það er nefnilega erfitt að vinna titla þegar maður þarf að treysta á að 2-3 lykilleikmenn standi sig í hverjum einasta leik, vegna þess að þeir geta átt slæma daga eins og allir aðrir. Ég vona að Babel, Keane, Riera, Arbeloa, dossena o.fl taki Kuyt til fyrirmyndar, því hann var ekkert sérstakur til að byrja með en með þrautsegju og þolinmæði hefur hann eflst og eflst og spilar frábærlega um þessar mundir

 39. Verð nú bara að segja að mér fannst Gerrard hundlélegur í gær :/ Fyrir utan þetta eina mark gerði hann lítið af viti.. var með lélegar sendingar og missti boltann.

  Markið sem við fengum á okkur skrifa ég að mestu leiti á Skrtel þar sem að hann gleymir manninum sem hann á að passa, þó svo að Aurelio hafi átt að setja meiri pressu á mannin sem á stoðsendinguna, þá á Skrtel að gera miklu, miklu betur.

  Öll mörkin okkar hörku flott og ég var frekar ánægður með leikinn í gær, finnst samt eins og við séum bara komnir í 4. gír af 6, held við eigum slatta inni ennþá 🙂

 40. Ja ef ég má það ekki Kjartan # 41 þá veit ég ekki hvað ég á að miða Meistaradeildina við. En okey, hvað með Evrópukeppni landslið í sumar hvað voru mörg lið þar sem áttu “raunhæfa” möguleika á að vinna. Mig minnir að umræðan um sigurvegara hafi verið sú sama og alltaf fyrir þessa keppni. Flestir töluðu um Frakkland, Ítalía og Þýkaland sem líklegustu sigurvegara og á eftir þeim komu Spánn, Holland og Króatía. Það kom hins vegar á óvart hversu slappir Ítalir og Frakkar voru og hvað Rússar vour sprækir en annars nokkuð eftir bókinni.
  Það geta bara 4 lið verið í hópi fjögurra bestu liða Evrópu. Við vitum nokkurn veginn hveru þau eru og því ætti það að koma á óvart ef þau vinna ekki.
  Hins vegar Kjartan minn, ef þosti þinn í neikvæða umræðu er þetta mikil þá ætla ég ekki að reyna breyta því frekar.

 41. við vinnum Meistaradeildina en í januar kaupum við Sergio Aguero og selja Craig Lindfield. og við seljum lika Miki Roque og Voronin og kaupa David Villa.

 42. …já, og á sléttu er það ekki GUMMI eða heldurðu að við þurfum að borga eitthvað á milli?
  😛

 43. Verð nú bara að segja að það er mikill stígandi í liðinu um þessar mundir og vonandi heldur hann áfram. Þá gæti þetta orðið skemmtilegt. Allavega allt annað að sjá liðið í síðustu leikjum en í upphafi tímabils.

Byrjunarliðið gegn PSV

Nú er lag