Bæting milli ára?

Jæja er ekki best að hefja ferilinn hérna megin borðsins. Eins og Einar Örn bendir svo réttilega á í lok leiksýrslu sinnar þá er þetta svo sannarlega byrjað aftur, loksins er hægt að setja (Viðbót: Mæli ekki með þessum link) næst versta tímabil í sögu þessarar íþróttar á bakvið sig og byrja upp á nýtt, klisja sem við höfum svo sannarlega þurft að nota allt of oft undanfarin ár en við því er lítið hægt að gera nema halda í vonina um að þetta tímabil verði betra en það sem var að klárast!

Hvað upphaf þessa tímabils varðar get ég ekki annað sagt en að maður hefur svolítið blendnar tilfinningar, aftur er reynt leikkerfi sem var ekki að gera sig á síðasta tímabili, ennþá virðast flestöll sömu vandamál vera til staðar frá því í fyrra og byrjun liðsins er vægast sagt róleg og ósannfærandi og spurning hvort ekki hefði farið verr á móti sterkari andstæðingum. Eftir síðasta tímabil þá voru helstu áhyggjuefnin sem við tókum með okkur inn í sumarið að við þyrftum að endurnýja mikið í vængstöðunum og sókninni og eins voru ágreiningsmál eigendanna ekki nærri því úr sögunni eða leyst eins afgerandi og maður hafði vonað.

Núna er staðan aðeins breytt en það verður seint sagt að það hafi verið einhverjar ofur róttækar breytingar á liðinu sem hafa fengið hárin á bakinu til að rísa, Dossena er klárlega bæting frá Riise eins og flest allir bakverðir og á vonandi eftir að aðlagast betur. Degen er ennþá jafn óskrifað blað og hann var og ég er hræddur um að hann komi aðallega til með að styrkja sjúkrahúsið, N´gog virkar ekki á mann sem mjög stór kaup en hann hefur engu að síður komið skemmtilega á óvart, aðallega vegna þess að maður hafði engar væntingar til hans. Stóru kaupin, Robbie Keane, er svo klárlega bæting frá Crouch þar sem sá kappi gat ekki unnið sig inn í byrjunarliðið og bara afar spennandi kaup heilt yfir, en auðvitað ekki jafn spennandi og stóru kaupin voru á sama tíma í fyrra (Torres). Ofan á þetta virðist sem einhvað af úr kjúklingaverksmiðjunni verði tekið inn í ár og er það vel, nú er tækifærið fyrir El Zhar, Insua, Plessis og co til að brjóta sér af og til leið inn í aðalliðið og ná sér í reynslu. Ég hef trú á að það verði meira um þessa kappa inná í ár heldur en áður undir Rafa, bæði vegna þess að nú má vera með 7 varamenn og einnig vegna þess að nú hefur Rafa verið það lengi hjá klúbbnum að einhvað af þessum fjölmörgu unglingakaupum hans ætti að fara skila sér ca. núna. Að lokum má svo ekki gleyma því að endurkoma Agger kemur til með að styrkja liðið verulega, sérstaklega hvað upphaf sóknarleiks varðar og eins ætti þetta að vera mjög stórt ár fyrir Lucas og Babel, enda báðir afar efnilegir og nú búnir að riðja úr vegi sínu fyrsta tímabili í nýju landi.

Þannig að með þetta að leiðarljósi þá erum við kannski með mun öflugri hóp heldur en í fyrra og eins má ekki gleyma því að það var kannski ekki þörf á svo rosalega róttækum breytingum, við vorum ekki svo langt á eftir United og Chelsea í fyrra og því fráleitt að fara gerbreyta hópnum milli ára, miklu nær er að halda áfram að byggja liðið upp smátt og smátt eins og Rafa hefur gert undanfarin ár, það er eiginlega ekki fyrr en loksins núna sem maður hefur það einmitt á tilfinnigunni að það sé nóg að kaupa fáa leikmenn og gera breytingar á fáum stöðum milli ára, hryggsúlan er nokkuð solid, nú þarf að fara byggja upp smá vöðva. Vonandi er þetta þó ekki alveg búið enda vita líklega allir að Rafa hefur ekki ennþá fengið sínar óskir alveg uppfylltar þetta sumarið og á enn inni nokkuð stór kaup á vinstrifótar manni sem getur spilað á kanntinum (í staðin fyrir Kewell). Hvort þetta er nóg til að brúa bilið sem verið hefur á milli okkar og hinna risanna á Englandi er svo ekki víst, þau hafa líka styrkt sig verulega eins og alltaf, en ég hef það ennþá mjög mikið á tilfinningunni að Rafa sé á uppleið með klúbbinn.

Fyrir utan augljósa þörf á að bæta leikmannahópinn þá var hitt vandamálið sem við tókum með okkur inn í sumarið blessuð eigendamálin. Það virtist sem þeir væru að gera sitt allra besta á síðasta tímabili til að gera mann geðveikan með ótrúlegri stjórnarmennsku sem hjálpaði klúbbnum svo sannarlega ekki nokkurn skapaðan hlut og tóku m.a. upp á því að fara í dramatískari fýlu út í hvorn annan en Paris Hilton og Nicole Bitchy fóru!!! Fyrir neðan þá er svo Parry blessaður og staða hans hjá klúbbnum í dag er afar óskiljanleg, annar eigandinn (Hicks) kenndi honum um flest allt sem væri að klúbbnum og hinn (Gillett) styður hann og kemur í veg fyrir að hann sé rekinn. Hvernig samskipti Hicks og Parry eru í dag veit ég ekki en þau hljóta að vera ansi stirð. Svona sirkus og gelgjuleg fýluköst gera lítið til að hjálpa klúbbnum og enn síður til að skapa traust á þessum mönnum og einhvað er ég hræddur um að þessar sættir þeirra Hicks og Gillett séu þunnur þrettándi, því miður.

En hvað um það, ef þeir treysta Rafa áfram, útvega honum áfram peninga til leikmannakaupa, standa við orð sín hvað nýjan leikvang varðar og segja bara sem minnst í fjölmiðlum um sín samskipti á þessu tímabili þá er ég tilbúinn að spá sem minnst í þeim í ár, efa samt einhvernvegin að það verði raunin.

Þetta er allavega byrjað aftur, við unnum tvo fyrstu leikina okkar á hálfum hraða sem er klárlega kostur og mjög líklega það eina sem kemur til með að sitja eftir úr þessum leikjum þegar þetta tímabilverður gert upp (ok og það að Carra skoraði). Tímabilið 05/06 byrjuðum við gegn Sunderland og Boro og komum út úr þeim leikjum með 4 stig og enduðum svo níu stigum á eftir meisturum Chelsea, eigum við ekki að segja að þetta sé fyrirheit um að nú gerum við ennþá betur. Ég er þó mest fyrir þá stefnu að taka bara einn leik fyrir í einu og mikið ofboðslega vona ég að þessi ósannfærandi byrjun verði okkur ekki að falli í meistaradeildinni í þessari viku.

Væntingarnar fyrir þetta tímabil eru allavega ekki beint í hæstu hæðum hjá mér, en kannski er það einmitt það sem Liverpool þarf, að hefja tímabil með örlítið minni væntingar á bakinu en undanfarin ár.

24 Comments

 1. Já, til hamingju með þinn fyrsta póst. Ágætis póstur, ágætis pælingar. Hópurinn hefur klárlega styrkts milli ára og þegar Keane dettur í gang þá styrkist hann enn meira.

  Eins og ég hef áður sagt að þá eru væntingar mínar í stigafjölda, ég vill að liðið fá fleiri stig enn í fyrra helst úr 76 stigum í svona 83-85 og þá verð ég sáttur. Á meðan þróunin milli ára heldur áfram þá er ég sáttur.

  Í fyrra unnum við Sunderland úti og Middlesbrough heima og gerðum það aftur núna, svo þar erum við ekki að tapa stigum frá því í fyrra svo það boðar gott. Nú bara gera betur í fyrra á móti liðum sem við töpuðum stigum gegn, eins og Wigan og þá fáum við bætingu.

 2. Settu endilega viðvörun með link eins og þeim fyrsta. Það er grimmilegt að smella á linkinn og sjá svo þennan viðbjóð. Hefði e.t.v getað sagt mér þetta sjálfur, en ég fékk hroll og gæsahúð af viðbjóði (og ég meina það í fúlustu alvöru).

  Góður póstur annars.

 3. Já fínn póstur og ágætis pæling. Það er sama með mig, væntingarnar eru ekkert sérlega miklar fyrir þetta tímabil. Ég ákvað eiginlega um áramótin í ár/fyrra 07-08 að ekki gera mér neinar væntingar um titilbaráttu fyrr en liðið kæmist yfir áramótin og væri ennþá í titilbaráttunni.

  En punktur sem gaman væri að fá álit manna á. Núna í þessum upphafleikjum hefur Rafa haft Carra í liðinu en leyft Hyypia, Agger og Skrtel að spreyta sig í byrjunarliðinu. Hann virðist því ekki velja sjálfkrafa Agger í liðið heldur ætlar hann að leyfa Hyypia og Skrtel að sanna sig við hlið Carra. Það var nokkuð talað um þetta á síðasta tímabili og menn voru að velta því fyrir sér hvað Rafa myndi gera. Hann virðist því ekki sjálfur vera búinn að ákveða sig hvað verður hans miðvarðapar í vetur. En það verður fróðlegt að sjá hver verður við hlið Carra í vikunni og hvort að það verði miðvörðurinn sem maður mun koma til með að sjá við hlið Carra í vetur.

  En ég væri allavega til í að sjá Carra og Agger í miðju varnarinnar en Skrtel er ekki langt frá þeim tveimur. Væri einnig áhugavert að sjá Skrtel og Agger saman en það þýðir að markamaskína Carra yrði settur í bakvörðin sem er því miður ekki hans besta staða.

  Afsakið að ég sé að fara út fyrir umræðu efni færslunnar.

 4. flottur póstur babu og til hamingju með að vera kominn af stað 🙂

  bæting milli ára?
  -já. leikmennirnir sem hafa komið núna í sumar eru einfaldlega sterkari knattspyrnumenn heldur en þeir sem hafa farið þannig að bætingin er augljós. en ég er á því að ef við kaupum ekki alvöru kantmann fyrir þetta tímabil þá höldum við einfaldlega áfram að sækja upp miðjan völlinn með tilheyrandi fyrirsjáanlegum sóknum. því miður. við einfaldlega þurfum mann á hægri kantinn sem kemst í gegnum varnarmúra sem minni liðin setja upp á móti okkur, annars lendum við í vandræðum og tæpum leikjum eins og um helgina.

  ég persónulega vill sjá rafa nota 4-2-3-1 kerfið eins og hann hefur gert og ég vill setja gerrard í holuna, með masch og alonso fyrir aftan sig. ástæðan er einföld, mér finnst gerrard sterkari í þeirri stöðu heldur en robbie keane.

  svo um eigendamál…jesús góður, það skelfir mig að hafa ekki hugmynd um hvað gillet og hicks munu gera í vetur. fáum við annan sandkassaleik eða fáum við stabíla og örugga eigendur sem maður treystir? eða eiga þeir eftir að koma manni algjörlega á óvart með einhverju bölvuðu rugli…?
  maður hefur ekki hugmynd um það og það skelfir mig. traust manns til þeirra er algjörlega 0.

  en fínn póstur babu og gott að byrja á smá hugleiðingu/pælingapósti, þeir eru oft skemmtilegastir 🙂

 5. Góð og skynsöm rödd þarna komin af stað. (Ekki það að hinir pennarnir séu ekki skynsamir). Það sem hræðir mig hvað mest í vetur eru þessir blessuðu eigendur, það kæmi mér ekki á óvart að DIC myndi kaupa klúbbinn og ráða nýjan framkvæmdastjóra. Sem væri stórt og mikið skref niður á við. Og þessi dramamelódía Hicks og Gillett kemur væntanlega mest niður á þeim sjálfum (og okkur aðdáendum) þar sem verðgildi klúbbsins hlýtur að hraka ef þeir láta áfram eins og í fyrra. En tek líka undir með ykkur sem setjið væntingar í hóf, ég yrði sáttur með rúmlega 80 stig í vetur, það verður erfiðara að sækja sum stigin í ár heldur en í fyrra, t.d. Portsmouth, Newcastle, Wigan ofl.
  http://www.knattspyrna.bloggar.is

 6. sammála #02, linkurinn er skelfilegur og ætti að vera varúðarmerki við hann.
  Óska eftir lagfæringu þess efnis 🙂

 7. Flottur póstur Babu … en ég er svo harður og ósanngjarn í mér varðandi Liverpool … að ég geri alltaf miklar kröfur. Ég geri kröfu um harða baráttu um deildartitilinn og tel þá kröfu sanngjarna.

  Mér yrði líka alveg sama þó svo að Liverpool fengi ekki nema 75 stig í deildinni… svo lengi sem ekkert annað lið fengi fleiri 😉

  Áfram Liverpool!

 8. Fínn jómfrúarpóstur Babu!
  Leikkerfi speikkerfi. Þ.e. þau eru ekki endilega málið heldur hvernig er hægt að leysa þau með þeim mönnum sem maður hefur. Í fyrra var ljóst að Rafa vildi ekki láta Torres og Crouch vera saman og því lét hann Gerrard spila “second striker”. Sem svo þýddi að við höfðum ekki mikið “stál” á miðjunni.
  Það er alveg ljóst að hann keypti ekki leikmann fyrir 18 milljónir punda til að sitja á bekknum og því er viðbúið að Gerrard verði ekki svo glatt að spila þessa stöðu. Ég held að Rafa vilji spila 442 og hafa Torres, Keane, Kuyt og svo Ngog í framherjanum.
  Þess vegna hefur hann verið að eltast við Barry, því hann getur spilað vel í 442, en Masch er einn annarra miðjumannanna sem eru sannfærandi þar. Lucas á enn eftir að sanna sig og Xabi ræður alls ekki við það!
  Svo held ég að Carra sé orðinn hafsent nr. 1, en ég er ferlega hræddur um að hægri bakvörðurinn okkar sé ekki nægilega góður og við gætum séð Carra enda þar.
  Ég hef eilitlar áhyggjur af Agger, hann virðist ekki alveg hrokkin í gír……

 9. Flottur póstur Babu. Kop.is er svo sannarlega ríkara á að hafa þig í pennanum.

 10. Góður pistill, velkominn til starfa ætla svo sem ekki að segja meira í bili ; )

 11. Sammála því sem Babu segir um blendnar tilfinningar vegna vandamála sem enn hefur ekki tekist að laga (hvað sem verður). Enn höfum við ekki séð almennilegt flæði í leik liðsins og alltof stór hluti af leiknum fer fram um og aftan við miðlínu. Stundum finnst mér menn einfaldlega ekki trúa því að hægt sé að pressa ofar á vellinum en kannski er það bara varkárni sem kemur til af því að suma leikmenn skortir hraða. Það á sérstaklega við þá ónafngreindu leikmenn sem hafa spilað næst kantinum (varla hægt að segja að þeir spili sem kantmenn). Þeir ná aldrei að ógna bakvörðunum nógu mikið eða skapa vandræði. Því erum við of oft strand á þeim svæðum vallarins.
  Hvað miðverðina varðar tel ég örugg að Agger spili þar mest með Carra. Benitez hefur sagt að helsti vandi liðsins í fyrra hafi verið fjarvera Aggers sem þess leikmanns sem getur borið boltann upp völlinn og fært allt liðið framar í leiðinni. Carra, Skrtel og Hyypia eru meira í langspyrnunum sem eru heldur hvimleiðar og óskiljanlegt að spyrna stöðug YFIR vel spilandi miðjumennina! Fljótir og leiknir kantmenn er vonandi næsta skref í uppbyggingunni en kannski vantar fjármagn í þann pakka. Hver veit:-)

 12. flottur póstur….
  Er nokkuð sammála þessum pælingum sem og kommentum sem hafa komið og sérstaklega þeim sem segja að við þurfum kanntmenn, þetta var álíka fyrirsjáanlegt um helgina eins og þáttur með “VINUM” í 4 seríu.

 13. Tel ég liðið vera betra í ár, en í fyrra.. já vissulega. En bæting milli ára…. Það verður eiginlega bara að koma í ljós. Það er mín skoðun að það sé ekki hægt að bæta sig, nema á kostnað hinna liðanna í deildinni. Það verður seint mælikvarði á bætingu, nema við vinnum fleiri lið en í fyrra.. (fáum fleiri stig), en það dugir skammt ef það eru svo tvö lið sem bæta sig ennþá meira en við.

  Við sjáum hvað setur, en ég er allavega ekki tilbúinn að dæma liðið af verkum þeirra “so far”. Ég held að liðið eigi mikið inni, og eigi eftir að sýna okkur að þeim er alvara í að gera atlögu að titlinum sem við þráum allir.

  Gerrard hefur sjálfur sagt að hann sé um það bil 3 vikum á eftir “áætlun” hvað leikform varðar, og biður um þolinmæði gagnvart því… ég er nú ekki þolinmóður að eðlisfari, en ég fer létt með að sýna fyrirliðanum mínum þessa þolinmæði.

  Ég vil hinsvegar fara að sjá eitthvað sniðugt frá Robbie K, sem allra allra fyrst…. þar á ég ekki eins mikla þolinmæði og gagnvart fyrirliðanum…en einhverja þó.

  Varðandi sirkusinn í kringum eigendurna og allt það. Þá get ég ekki lýst því með orðum hvað þessi staða fer mikið í geðið á mér, og ég óska þess á hverju kvöldi að ég vakni morguninn eftir við þær fréttir að búið sé að leysa þau mál, í eitt skipti fyrir öll.. hvernig á að leysa þau er mér að verða alveg sama um.. bara að þetta verði leyst.

  Insjallah…Carl Berg

 14. Ég geri tvímælalaust kröfu um titilbaráttu….annað er óásættanlegt. Það er eitthvað að ef við förum að minnka væntingarnar núna. Rafa er ákveðin vorkunn með ástandið en ekki gleyma að hinir stjórarnir eiga líka í ýmsum vandræðum með sitt og sína, sbr. Ronaldo meiddur hjá United og Roman iðulega með vesen á Brúnni þar sem hann þarf alltaf að hafa puttana í öllu. Það er alls ekki sjálfgefið að vinna titilinn en ég vil ekki trúa öðru en að það sé raunhæft og það hefur verið markmið #1, 2 og 3 síðan Rafa kom og ef liðið dettur úr baráttunni fyrir jól eins og áður þá hefur honum mistekist. Eins og allir hafa nánast bent á vantar þó amk 1 sem getur spænt upp vænginn, tekið menn á og sent fyrir. Hef trú á að Rafa reddi því fyrir 1 sept. Ef það tekst þá erum við tvímælaust með sterkara lið en í fyrra.

 15. Til hamingju með fyrsta póstinn. Ég hef svosum lítið við þetta að bæta. Framfarir verða metnar í lok tímabils.

  (Svona til að vera með einhver leiðindi, að þá væri fínt ef þú gætir skrifað “eitthvað” í staðinn fyrir “einhvað”)

 16. Guðm. nr11;
  “Enn höfum við ekki séð almennilegt flæði í leik liðsins og alltof stór hluti af leiknum fer fram um og aftan við miðlínu. Stundum finnst mér menn einfaldlega ekki trúa því að hægt sé að pressa ofar á vellinum en kannski er það bara varkárni sem kemur til af því að suma leikmenn skortir hraða. Það á sérstaklega við þá ónafngreindu leikmenn sem hafa spilað næst kantinum (varla hægt að segja að þeir spili sem kantmenn). Þeir ná aldrei að ógna bakvörðunum nógu mikið eða skapa vandræði. Því erum við of oft strand á þeim svæðum vallarins.”

  Ég get bara ekki verið meira sammála þér hérna!!!!!!
  Eins og einn Kjöthleifur sagði svo vel hérna um árið: you took the words right out of my mouth””

  ninni

 17. Nú hef ég þetta bara eftir þér Carl Berg þar sem þú segir um Gerrard að hann sé um það bil 3 vikum á eftir “áætlun” hvað leikform varðar og líka að hann hafi beðið um þolinmæða með það, en ég spyr hvarnig getur hann ekki verið í leikformi?
  Jú hann átti við smávæg meiðsl að stríða fyrir 2-3 vikum síðan en er það ástæðan?
  Ekki var hann á EM eða ÓL.
  Ég meina hann var ekki með í leiknum fyrr er 10 mín voru eftir, aðeins skugginn af sjálfum sér, reyndar eins og allt liðið og það er bara spurnig um hvenær ekki hvort okkur verði refsað fyrir svona sofandahátt.
  Deildin er byrjuð og við verðum ekki svona heppnir mikið lengur, það er öruggt.

 18. Hafliði #17

  sofandahátt ? Ef leikmenn eru að ná sér eftir meiðsli , eru þeir þá með sofandahátt ? Ég man nú ekkert hvar ég las þetta viðtal við hann, og þykir miður að geta ekki vísað í heimild með það..kanski einhver nördinn hérna geti fundið það fyrir mig og sett það hérna inn. En ég hef hingað til ekki talið það sofandahátt að vera að ná sér af meiðslum, og allra síst þegar S.Gerrard á í hlut.
  Þú spyrð hvernig hann geti ekki verið í leikformi, svarið við því er einfalt. Hann er að ná sér eftir meiðsli og hefur ekki getað æft eins og aðrir og eins og hann segir sjálfur, þá er hann sirka 3 vikum á eftir öðrum hvað leikform varðar. Hann náði lítið að æfa á undirbúningstímabilinu sökum meiðsla og spilaði til að mynda ekki mikið heldur.

  Rétt er það, að deildin er byrjuð, en við skulum ekki gleyma því, að við erum komnir með 6 stig í hús, af sex mögulegum og við skulum því hinkra með að slátra liðinu alveg strax… Það er lágmark að leyfa mönnum að drepast áður en þeir eru jarðaðir.

  Carl Berg

 19. Ef Riera er góður, sem hann er víst. Þá er hægt að álykta að með þessari viðbót sé liðið sterkara nú en í fyrra.

  Ps.
  Til ham með fyrstu færsluna þína Babu. Fín færsla.

  • Ég geri tvímælalaust kröfu um titilbaráttu….annað er óásættanlegt. Það er eitthvað að ef við förum að minnka væntingarnar núna

  Auðvitað gerir maður líka kröfu á titlibaráttu, en ég ætla samt að stilla væntingunum í hóf þetta árið og láta þá frekar koma mér á óvart. Kröfur og væntingar eru ekki alveg það sama og mér þótti aðeins of mikill munur á United/Chel$ki og Liverpool í fyrra þó stigataflan sýndi að það væri ekki óyfirstíganlegur munur. United getur nánast skipt um gír og sett af stað hápressu sem andstæðingarnir eiga í miklu basli með að þola, hjá okkur hefur þetta oftar verið meira happa glappa. Það muna það kannski ekki allir en í fyrra byrjuðum við t.d. með Sissoko sem framliggjandi miðjumann og verri leikmann hef ég varla séð í Liverpoolbúning, í dag erum við minna í að sóa svona mikilvægum stöðum á vellinum og erum klárlega sterkari, en á sama tíma hafa United og Chelsea ekki beint verið að veikjast, þannig að, ég set væntingarnar fyrir tímabilið ekkert endilega í botn ef ég reyni að líta raunsætt á þetta, en ætlast auðvitað til þess að liðið verði í toppbaráttunni.

  • en ég spyr hvarnig getur hann ekki verið í leikformi?

  Ertu ekki að grínast? Það segir sig sjálft að ef menn ná ekki að beita sér að fullum krafti í undirbúningstímabilinu þá verða þeir ekki í toppformi í byrjun móts, hann er nú ekki búinn að vera svo rosalega úr formi samt.

 20. Babu nr. 21.
  Ég get engan veginn verið sammála að hápressan hjá okkur hafi verið happa/glappa. Mér fannst oftast hápressan vera sett mjög vel og skipulega upp og ganga oftar en ekki upp. Nú er væntanlega ekki til statistík yfir það hversu oft lið unnu boltann á vallarhelmingi andstæðingsins en ég held að við værum ansi ofarlega í því. Ég myndi segja að í flestum heimaleikjum hafi verið um nánast stöðuga hápressu að ræða.

 21. Ívar, dregur þú þá ályktun út frá öllum jafnteflunum sem við náðum eða?
  Liverpool í fyrra gat ekki skipt eins hressilega um gír og t.d. United í leikjum, ekki nógu oft í það minnsta og þ.a.l. virtist okkur stundum vera fyrirmunað að klára leikina.

 22. Babu: Það er allt annað að ná boltanum og gera síðan eitthvað við hann. Það skorti á hugmyndaflug og breidd þegar við vorum með boltann. En ég tek alveg undir það að liðið var ekkert að skella sér skyndilega í hápressu eins og United virtist gera, þetta var meira stöðugt og kom því andstæðingnum ekkert endilega í opna skjöldu.

Liverpool 2 – Middlesboro 1

Fatboys leiðir keppnina með einu stigi.