Liverpool 2 – Middlesboro 1

Það er ekki alltaf skemmtilegt að skrifa leikskýrslur fyrir þetta blogg. Í fyrra var ég orðinn svo þreyttur á því að við ákváðum að taka inn nokkra nýja penna aðallega til að leysa mig af því ég var duglegastur í leikskýrsluskrifunum á þessari síðu.

Það er oftast gaman að skrifa eftir sigurleiki, en leiðinlegt eftir tapleiki. Stundum hefur það þó verið ágætt að skrifa eftir tapleiki. Eftir langar taphrinur eða þegar að langt er liðið á tímabilið þá hef ég oft fengið eitthvað útúr því að hella mér yfir allt og alla í kringum liðið. Í byrjun tímabils er það hins vegar mun erfiðara að skrifa um tapleiki, sérstaklega fyrsta tapleik tímabilsins. Þá bresta vonir manns og maður hikar við að gagnrýna þá sem spila illa því að tímabilið er kannski nýbyrjað.

Því var ég drullu stressaður þegar um 10 mínútur voru eftir af leiknum í dag því að leikskýrslan hefði svo sannarlega ekki verið skemmtileg og ekki margt ánægjulegt til að skrifa um. En á 10 mínútum tókst þessu Liverpool liði að snúa leiðinlegum tapleik uppí yndislega ánægjulegan sigurleik. Og hverjum var það að þakka? Jú, þeim tveim mönnum sem hafa síðustu árin oftast reddað hlutunum fyrir Liverpool: Jamie Carragher og Steven Gerrard. Það er þeim að þakka að í dag er Liverpool í efsta sæti ensku Úrvalsdeildarinnar í stað þess að við værum um miðja deild, með þá þunglyndustu talandi um að þetta tímabil væri búið eftir tvo leiki.

Byrjum á byrjuninni. Rafa stillti svona upp í byrjun:

Reina

Arbeloa – Carragher – Skrtel – Dossena

Alonso – Gerrard
Kuyt – Robbie Keane – Benayoun
Torres

Á bekknum: Cavalieri, Aurelio, Agger, Babel, Ngog, El Zhar, Plessis.

Þessi leikur var ekki góður. Í raun var hann slæmur mestallan tímann. Liverpool liðið var vissulega eilítið sterkara mestallan tímann, en þetta Middlesboro lið er líka mjög framværilegt lið, sem spilaði vel og sótti á mark Liverpool en hékk ekki bara í vörn einsog flest lið gera á Anfield. Þeir eru með marga mjög frambærilega menn einsog framherjana þrjá og Downing, sem að gerði varnarmönnum Liverpool oft lífið leitt.

Liverpool náði ekki að skapa sér nein frábær færi mestallan leikinn. Middlesboro fékk sennilega hættulegasta færi leiksins þegar að Reina varði frábærlega eftir meistartakta frá Tuncay. Hjá Liverpool var hins vegar mestallt liðið slappt.

Á 70. mínútu kom svo það sem virtist vera algjört rothögg þegar að Mido (sem kom inná fyrir Alves) skoraði glæsilegt mark með langskoti fyrir Boro. Mínúturnar á undan hafði ég verið að röfla við vin minn sem sat með mér hvað ég yrði fúll yfir jafntefli, en allt í einu virtist jafntefli vera það besta sem við gátum átt von á.

Það benti þó lítið til á að eitthvað myndi breytast. Rafa setti Babel inná þegar um hálftími var eftir, en hann átti einhverja skelfilegustu innkomu sem ég hef séð á ævinni. El Zhar kom svo inn fyrir Arbeloa og Aurelio inn fyrir Dossena.

Þetta breyttist þó allt þegar aðeins fjórar mínútur voru eftir af leiktímanum. Liverpool var með boltann útá hægri kanti þegar að boltinn fór í höndina á einum Boro manni, en (annars arfaslakur dómari leiksins) Mike Reily lét leikinn halda áfram – boltinn barst til **Jamie Carragher**, sem að skaut og skoraði fyrir Liverpool (með smá viðkomu í varnarmann Boro). Afskaplega sjaldgæf sjón, en samt frábært að sjá Carra skora.

Eftir þetta jókst pressan enn meira hjá Liverpool og þegar að **þrjár mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma** gaf Xabi Alonso háa sendingu inná teig þar sem að Robbie Keane tók boltann niður og þar kom fyrirliðinn okkar, **Steven Gerrard** og skoraði með frábæru skoti beint uppí samskeytin. Frábært mark hjá Gerrard, sem var óheppinn að skora ekki úr aukaspyrnu stuttu áður.

Ótrúlega sætur sigur hjá Liverpool þrátt fyrir slaka frammistöðu.


**Maður leiksins**: Liverpool liðið var alls ekki að leika nógu vel í dag. Torres var ágætur, en hann fékk úr litlu að moða. Þriggja manna línan fyrir aftan hann – Keane, Kuyt og Benayoun voru afleitir í dag. Það kom nákvæmlega ekkert útúr þeim.

Fyrir aftan þá var svo Xabi Alonso sem var líka afleitur. Það verður til að mynda að rannsaka það hvernig stendur á því að atvinnumaður í knattspyrnu getur ekki í einhverjum 4 tilraunum komið bolta úr horni framhjá fyrsta varnarmanni. Það var ekki fyrr en að Gerrard fór að taka spyrnurnar að boltinn dreif inná teig.

Ég ætlaði fyrst bara að velja einn mann leiksins, **Jamie Carragher**. Hann var einfaldlega okkar besti maður. Vann sína vinnu frábærlega og reddaði því algjörlega að Boro skoraði bara eitt mark í leiknum. En ég verð hreinlega að gefa **Steven Gerrard** líka nafnbótina, enda voru þeir félagar hetjurnar í dag og þeir minntu okkur enn einu sinni að sama hversu mikið við tölum um nýja menn – að þá eru þessir tveir menn algjörlega ómissandi partur af okkar liði. Gerrard spilaði ekki vel í dag, en hann reyndist okkur gulls ígildi á ögurstundu einsog svo oft áður.


Þannig að núna eftir tvo leiki er Liverpool með fullt hús stiga í **efsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar**. Chelsea, Arsenal og West Ham hafa enn tækifæri til að jafna okkur, en við verðum allavegana á toppi deildarinnar næstu tvo klukkutímana. Það er ánægjulegt. Þrátt fyrir að Sunderland og Boro séu ekki mestu glansliðin á Englandi, þá eru þau bæði gríðarlega erfið lið (Tottenham er til að mynda búið að tapa fyrir báðum þessum liðum) og það eru svona lið sem við þurfum að klára til að geta blandað okkur í baráttuna um enska titilinn.

Næst þarf Liverpool að klára pakkann í undankeppni Meistaradeildarinnar og svo er það heimsókn á Villa Park næsta sunnudag og svo Manchester United á Anfield tæpri viku síðar. Já, þetta er byrjað!

47 Comments

  1. Ég veit ekki alveg hvað maður á að segja um þennan leik. Á maður að líta á hann jákvæðum augum þar sem liðið er greinilega ekki tilbúið til að gefast upp fyrr en í fulla hnefana, Keane og Torres virðast vera að ná betur og betur saman og í lok dags erum við með 6 stig eftir 2 leiki? Eða á maður að vera neikvæður og einblína á að liðið spilaði í 2. gír í 80 mínútur og tók ekki almennilega völdin fyrr en boro byrjuðu að bakka og reyna að halda fengnum hlut, Skrtel virkaði óöruggur í vörninni, Alonso náði engum hornspyrnum yfir fyrsta varnarmann og Gerrard sást ekki fyrr en á 94. mínútu?

    Það er allavega ljóst að það má ýmislegt bæta í leik liðsins og það verður eiginlega að bæta það hratt því ég hef engan áhuga á að bíða með það í 94 mínútur að tryggja þáttöku í meistaradeildinni á miðvikudaginn.

  2. Ég á bara eitt orð.
    Ja hvur djöfullinn!
    Svona á að koma til baka.
    Tvær daprar frammistöður = 6 stig 🙂

  3. Vá vá vá!!!!! Ég þarf að skipta um rúðu í stofunni hjá mér!!

    Fyrst Carra og svo Gerrard!! 100% Liverpool.

    Þeir eru að vinna leiki þó þeir spili ömurlega, það vantaði í fyrra.
    Svo kemur Mascherano með Gullið í vasanum í næsta leik og stoppar upp í götin á miðjunni eins og gamla sokka…

    YNWA

  4. Hvernig gátum við unnið ? Ekki það að ég sé að kvarta, en við spiluðum hræðilega og náðum samt sem áður í 3 stig – við höfum verið að tapa stigum í þessum leikjum í gegnum árin, vonum að það sé búið að breyta því 🙂

  5. Á maður bara ekki að trúa því að það eru bara allra bestu liðin sem vinna skyldusigra með slakri frammistöðu?

  6. Ég var búinn að gleyma hornspyrnunum og ætlaði þrátt fyrir það að segja að Alonso var slakasti maðurinn á vellinum, ótrúlegur fjöldi misheppnaðra sendinga, boltin þvælist alveg ótrúlega fyrir honum þegar hann er með hann, fær vott af pressu og gerir mistök, getur ekki varist, hornspyrnur, allur pakkinn. Þar á eftir kemur Mike fokking Riley, á maðurinn í ástarsambandi við Huth? Láta leikinn halda áfram þar til Kuyt er kominn inn í markteig? Ótrúlegur.
    Er erfitt að vera neikvæður eftir þennan leik, en geri það bara af gömlum vana þar sem ég tel að áður fyrr hefði þessi leikur tapast. Liðið spilaði hræðilega og vinnur, yndislegt. 🙂

  7. Bara til að halda áfram sem ég og Bjöggi vorum að ræða í þræðinum á undan.
    Er Gerrard nægjanlega góður miðjumaður ? Mér finnst hann það allavega ekki þegar á að spila 4-4-2. Hann virkar óöruggur, stressaður og ‘out of place’ þegar hann er á miðjunni. Það þarf allavega mikið að breytast til að Liverpool geti spilað vel með tvo framherja og Gerrard á miðri miðju.

    Það væri annars mjög áhugavert hversu oft varnarmennirnir þrumuðu boltanum fram í leiknum. Mér fannst allar sóknirnar fara þannig, og ekki bara síðustu 10 mínúturnar.

  8. Reina var góður fyrir utan ein hræðileg mistök sem kostu sem betur fer ekkert þarna í lokin. Carra hefur oft verið mun betri en var þó ok. Alonso góður í fyrrihálfleik en skelfilegur í þeim seinni, Dossena sömuleiðis. Benayoun og Dirk Kuyt eiga að fara langt út úr hóp fyrir næsta leik og Robbie Keane þarf að fara sýna eitthvað af viti ef hann ætlar að ekki að fylgja þeim.

    En eins og þetta var skelfilega lélegt hjá okkur þá var alveg rosalega sætt að stela þessu í lokin.

    …og eitt enn, menn eru að reyna skrifa fyrra markið sem sjálfsmark??? Hverskonar djöfulsins mannleysur taka mark af Jamie Carragher??? Fat Bastard hefur skorað svona mörk svo árum skiptir og fær þau öll skráð á sig, ég verð alveg brjál ef þetta verður tekið af King Carra!!!

  9. það var engin að vinna vinnuna sýna nema kanski Torres og Alonso, sá síðarnefndi í fyrri hálfleik. Þeir verða að fara að spila sama og hætta þessum löngu sendingum sem eiga að hitta á Torres. Annars var dómarinn mjög slappur og slefti T D augljósri hendi á boro. Og enn og aftur, Keane verður að gera eitthvað í sýnum leik,hann var kanski stór í Tottenham en er alls ekki eins stór í Liverpool eins og ég hef áður bennt á, það kom EKKERT frá honum.Ég gleðst sam yfir sigri okkar manna, en þeir eru að byrja illa en vinna samt sem er gott mál

  10. Ég var búinn að ákveða það fyrir Liverpool mörkin tvö að sleppa mér ekki í neikvæðni og sleggjudómum eftir leik, þar sem tímabilið væri rétt nýbyrjað og kannski ekki svo út í hött að vélin hiksti eilítið svona rétt meðan menn eru að koma sér í gír. Ég var samt enn fegnari að sjá að hikstinn myndi þó ekki hirða af okkur stig þessa helgina, ekki frekar en um síðustu helgi.

    Það jákvæða við þennan leik er aðallega tvennt. Við unnum hann, sem er augljóslega aðalatriðið, og Carragher skoraði mark. Það síðarnefnda er svipað sjaldgæft og að fá eldingu í hausinn, þannig að ég mæli með að menn haldi sig innandyra í kvöld. Allt getur greinilega gerst.

    Það neikvæða er ansi margt. Spilamennska liðsins var algjör skita. Fyrir mér voru það helst Skrtel, Carragher og Kuyt sem stóðu fyrir sínu. Þó var enginn þeirra að gera neinar gloríur, að markinu hans Carraghers undanskildu. Hvað Kuyt varðar þá fannst mér hann spila sinn venjulega leik, hvort sem menn líta það jákvæðum eða neikvæðum augum. Aðrir leikmenn voru bara úti að drulla mestallan leikinn. Sérstaklega þó Alonso, hann gat ekki blautan í dag.

    En það sem bjátaði á í dag skrifast vonandi á byrjunarerfiðleika. Ég hef trú á þessum hóp og ég held í fullri alvöru að þetta tímabil eigi Liverpool möguleika á titlinum, þó ég sé ekki sannfærður um að hann vinnist. En ég vona fyrir mitt leyti að í næsta leik muni Liverpool detta í rétta gírinn og slátra andstæðingnum, það væri gott uppá sjálfstraustið og líka fyrir stuðningsmennina. Það er ekki gaman að horfa á leiðinlega fótboltaleiki, þó það skáni við að liðið manns vinni.

  11. þetta var svo mikið…….liverpool 🙂 tvö góð mörk unnu slakan leik.

    torres kláraði síðasta leik, gerrard kláraði þennan leik. að hafa þessa leikmenn innanborðs er ómetanlegt, þetta eru matchwinnerar sem hafa klárað dæmin fyrir okkur þegar allt virðist vera vonlaust. snilld. og carragher! hvaðan kom þetta eiginlega? þetta var með furðulegri augnablikum og maður kunni að meta mark hans enn betur eftir sigurmark gerrard.

    en nóg komið af jákvæðni, unnum leikinn en aðeins um spilamennskuna:
    við erum að spila skelfilega illa, leikmenn eru einfaldlega að velja rosalega vondar leiðir til að sækja. mér finnst leikmenn sem spila framarlega á vellinum ótrúlega staðir og þessar kýlingar verða að stoppa, en þær stoppa væntanlega ekkert fyrren að meiri hreyfing kemur á menn sem eru án boltans. það er ekki hægt að kenna einhverjum ákveðnum aðilum um svona hluti, þetta er LIÐ og lið sækja sem ein heild. allir eiga að reyna að fría sig og vinna á fullu og hjálpa boltamanninum, það finnst mér ekki vera að gerast hjá liverpool, allavega ekki í fyrstu leikjum tímabilsins.

    það er vissulega gríðarlega sætt að sigra þennan leik en við verðum að gera okkur grein fyrir því að þetta voru middlesbrough. ef við ætlum að spila svona gegn hinum toppliðunum þá einfaldlega töpum við, mitt mat.

    annars er ég mjög sáttur við varnarleikinn. við eigum frábæra miðverði og bakkararnir eru að leika fínan varnarleik. markið sem við fáum á okkur í dag, það er ekki hægt að krossfesta neinn fyrir sökina á því að mínu mati. mido fær smá tíma og hamrar boltann í bláhornið, lítið hægt að gera við svona flottum töktum. en heilt yfir er vörnin og miðjan að gera fína hluti í varnarvinnunni, allflestir.

    en við skulum gleðjast í dag yfir 6 stigunum, en þó mun ég fljótt jafna mig á þessum leik því að spilamennskan var langt frá því að vera ásættanleg. en 2 búnir í deild og hellingur eftir. þetta eru smá byrjunarhömlur á okkar mönnum, en ég er viss um að rafa og sammy finni lausn á ráðleysislegum sóknarleiknum og bæti ákveðna hluti, sjáum hvað setur. ég hef engar áhyggjur af þessu, það er nóg eftir af tímabilinu og ég held að liverpool liðið vakni núna almenninlega eftir þetta gullmark gerrard og fari að spila góðan bolta 🙂

    ynwa 🙂

  12. kannski er mig að misminna, en það er eins og Middlesboro sé alltaf til helv. leiðinda á Anfield, og LFC vinni alltaf samt 2-1 í ljótum kúkaleik. Ekki það að ég krefjist sexy football gegn þessu liði, til þess þarf einhvern merkilegri, t.d. Oldham, Everton eða Wimbledon.

    Middlesboro er svona eins og einhver hafi ákveðið að Tottenham væri ekki nóg; það bara YRÐI að vera eins annað lið, jafn ofmetið, sem leikur í rauðu….

  13. Það er allavega á hreinu að M’Boro ætlar að stríða stórliðunum þetta tímabil. Fóru illa með tottenham og næstum því jafn illa með okkur.

    Sætur Sigur í drepleiðinlegum leik.

  14. Það er mjög auðvelt að vera neikvæður eftir svona hörmung en held mig við það sem ég sagði síðast það þarf ekki að vera fallegt. Liðið virkaði sundurlaust, áhugalítið og hugmyndasnaut. Alonso hækkaði ekki á sér verðmiðnn í dag því miður átti sök á markinu með því að tapa boltanum illa á miðjunni eins og hann er reyndar vanur. Er líka ekki alveg sammála þeim sem segja að Keane hafi verið slakur hann var með skárstu mönnum lagði upp nokkur færi sem ekki nýttust og er greinilega að komast betur inn í þetta. Benayoun var mjög slakur og varla liðtækur í topplið. Gerard mætti ekki til vinnu fyrr en á 80 mínútu en mætti sem betur fer þá. En 3 stig telja og ég er sáttur með þau.

  15. Jæja 3 leikir búnir af tímabilinu og 3 hræðilega lélegir leikir af hálfu Liverpool. Það vantar alla hugmyndafræði enda erum við með algerlega, ég vil ekki segja hugmyndasnauða, menn á köntunum sem eru algerlega vanhæfir að framkvæma þær takmörkuðu hugmyndir sem þeir fá. Kuyt og Benayoun eru ekki leikmenn sem eiga að vera fastir í byrjunarliði meistaraliðs, þeir eru ágætir til að koma inná í leikjum eða svokallaðir “squad-players” Að vísu eigum við Babel sem á eftir að sýna mun meira en hann sýndi í þessum leik og kemur inn fyrir Benayoun en að hafa Kuyt sem fyrsta kost á vinstri kantinn er algerlega fáránlegt. Það kom akkúrat ekki blautur skítur út úr hvorugum þessara leikmanna í þessum leik. Ég er líka vonsvikinn með Alonso í þessum leik. Fyrst eftir að hann kom úr sumarfríi spurði ég hvað við hefðum við ákveðinn Aston Villa leikmann að gera, hann var að spila algerlega frábærlega og var einn af björtustu vonum síðasta leiks gegn Sunderland en í dag var hann fáránlega slakur.
    En svo ég snúi mér að björtu hliðunum þá er frábært að vinna svona leik þar sem við erum klárlega að spila fáránlega illa en vinna samt. Ég held að allt hverfið sé en að velta fyrir mér hvaða óhlóð þetta hafi verið þegar ég fagnaði sigurmarkinu, en það gengur ekki að treysta endalaust á að vinna og spila illa. Við verðum að fara að hysja okkur í brók.
    Við verðum að fá að minnsta kosti einn kantmann sem gefur einhverja ógn af kantinum svo ekki verði svona auðvelt að verjast sóknum Liverpool.
    Áfram Liverpool

  16. Eftir tvo vægast sagt hörmulega leiki í röð, á móti Standard og Sunderland, þá fannst mér liði spila ágætlega í dag. Það var allavega miklu meiri áræðni og ákveðni í liðinu þó svo að færin hafi látið á sér standa.

    Fínn 2-1 sigur í hús og svo er bara vonandi að liðið nái að leggja Standard af velli á miðvikudaginn.

  17. Þetta gat ekki verið meiri Liverpool sigur með mörk frá Carra og Captain Fantastic… En eitt er ég ekki ánægður með og það er hvað liðið er að spila illa og það ætla ég að vona að Rafa taki Dossena út ur liðinu maðurinn kann ekki að verjast, hann er plataður í 90% tilfella í leiknum. Það getur vel verið að hann sé sókn djarfur en engin varnamaður… en nú fer littli Argentínu maðurinn að koma til baka og þá förum við að geta stilt upp góðu liði.

  18. Svona on second thought, þá var kannski full gróft hjá mér að setja Keane í hóp með Yossi og Dirk. Keane getur miklu betur, en hann var ekki jafn slappur og hinir tveir.

  19. Liðið var ekki að spila vel en þó betur en í síðustu tvem. Keane var byrjaður að sýna einhvað í fyrri hálfleik, ágætur samleikur hans og Torres nokkrum sinnum. En mér finnst samt hafa skapast einhvað ójafnvægi á miðjuspilið með komu Keane. Gerrard var að spila alltof framalega eða það er honum eðislegt að sækja fram en þá skilur hann Alonso eftir einan á miðjunni.
    Alonso átti ekki góðan dag í dag og vil ég skrifa það að hluta á að hann hafði engan varnarsinnaðan miðjumann sér við hlið til að gefa auðveldar sendingar við og við. Þess vegna voru alltaf þessar löngu sendigar frá vörninni, yfir miðjuna á framherjanna.
    Í Benayoun/Babel skiptingunni hefði ég frekar sett Plessis inn og Gerrard í stöðuna hans Benayoun. Já, veit, vitur eftir á og allt það.

  20. Við erum að komast í form…….bæting í þremur leikjum í röð! Keane, Torres og Kuyt eru mjög sterkir fram á við en ennþá er vinstri kanturinn mjög veikur. Benayoun er alls ekki nægilega góður þarna. Ef Babel nær ekki að blómstra á þessu tímabili þá verðum við í miklum vandræðum.

    Gaman að sjá útlistun á leiknum í 442 á stöð2 sport. Það er ekki auðvelt fyrir Alonso að spila á miðjunni með Gerrard því hann sækir svo mikið fram og skilur Alonso eftir einan með 2 til 3 og stundum 4 leikmenn.

    Vörnin er góð og Skrtel er klárlega betri en Agger þrátt fyrir gagnstæða skoðun margra spjallverja á þessari síðu, Dossena bætir sig stöðugt. Við eigum bara eftir að vera betri í næstu leikjum!

  21. Carragher er maður leiksins hjá mér, þrátt fyrir að þessi spörk hans fram hafi farið svolítið í mig þegar leið á leikinn. Sem varnarmaður er hann bestur í heimi samt. Markið var algjört gull, og ég skal fúslega viðurkenna það að ég var kominn í fýlu út í dyragættina á Allanum þegar ég heyrði fagnaðarópin og fékk strax að heyra: Doddi, þú ættir að fara oftar út!!!

    Alla vega – vond spilamennska í dag, en ákveðin batamerki fannst mér ég sjá. Ég sé mikið í samvinnu Keane og Torres framundan.

    Ég var með kenningu um að Huth hefði eitthvað á hann Riley dómara, því vinskapur þeirra var ótrúlegur í leiknum. Fáránleg dómgæsla á köflum.

    Sammála því að innkoma Babel var hræðileg. Yfir það heila… hvernig getur maður verið annað en sáttur með sex stig eftir tvo slappa leiki? Meistaraheppni? 😉

    Tökum Belgana svo og sýnum Villa mönnum í þrjá heimana. Áfram Liverpool.

  22. Ég er algjörlega sammála ninna #16 og fannst það nokkuð augljóst í leiknum hvað vantar hjá okkur, enn og aftur.
    Kantspil!
    Það er fátt auðveldara en að verjast liði sem sækir aðeins á tvo vegu a) kraftaverkaspyrnur úr vörninni beint á framherjana, og b) reyna að þvæla sér gegnum miðjupakkann trekk í trekk. Ég tel að það sé algjört lykilatriði að nota 2 frambærilega kantmenn sem geta tekið menn á og dælt boltanum inní boxið og geta verið með Masche, Gerrard, Torres og Keane í miðju/sókn. En með því að þvæla öllu inná miðjuna erum við í leiðinni að gera allt miklu erfiðara fyrir framherjana okkar, og þó þeir séu frábærir fótboltamenn þá lítur Robert Huth næstum því vel út gegn svona spilamennsku.
    Annars sáust nokkrir jákvæðir punktar í leiknum, t.a.m. samvinna Torres og Keane í 2 skipti, en í heildina litið þá hef ég orðið fyrir miklum vonbrigðum með spilamennskuna í fyrstu 3 leikjum tímabilsins.

  23. Já gjörsamlega stórkostlegur sigur og vakti mikla gleði hjá mér.

    En mín spurning er þessi: hvernig verður þessu stillt upp þegar Mascherano kemur aftur??

    Og í framhaldi:

    -Verður Gerrard með honum á miðjunni og þá hvað um Alonso?
    -Verður Gerrard á hægri kantinum?
    -Verður Gerrard í holunni og á kostnað hvers?
    -Er Gerrard ekki einfaldlega betri með frjálst hlutverk en svona aftarlega á vellinum?

  24. Alonso verður vonandi seldur fyrir góða upphæð
    sé Mascherano og lucas fyrir mér á miðjunni framan við þá Gerard,Keane og babel
    og síðan torres frammi.
    Þessir þrír framliggjandi væri í frjálsu hlutverki sín á milli. held samt að hr Benitez finnist það fullmikið frjálsræði

  25. Í framhaldi af kommenti #24, þá er ég að horfa á Match of the Day í þessum töluðu og það var tekið sérstaklega fyrir “lack of width” hjá okkar mönnum í dag, og sýndar fjölmarkar sóknir þar sem við erum að sækja fram völlinn á svæði sem er mun mjórra en breidd teigsins.
    Ætla ekki að reyna að vera einhver Bessi, en þetta atriði er greinilega stór hluti af vandræðunum fram á við hjá okkur.

  26. Vá hvað ég verð að byrja að segja hversu hrikalega ég er ósammála þér Valli 19 #. Mér fannst Dossena einn af fáum sem sýndi þó einhvern baráttuanda.
    En mikil ósköp vorum við ömurlegir í alla staði og alveg greinilegt að Arbeloa er ekkert nema meðaljón. Einhvern veginn finnst mér samt eins og Benitez sé með þetta allt á hreinu og viti alveg hvað hann er að gera. En maður leiksins fannst mér án alls vafa vera Skertel. Ætla að hoppa í háttinn og vona eftir enn einni dramadöðlunni sem hefst eftir um 7 og hálfan tíma. Áfram Ísland og enn betur ÁFRAM LIVERPOOL…………………………………………………

  27. er einhver med slod tar sem madur getur sed morkin? visir gengur ekki her uti a spani.

  28. Því miður þá mun Liverpool ekki vinna ensku úrvalsdeildina með Dirk Kuyt og Yossi Benayoun á vængjunum. Ég hef ekki mikla trú á að Ryan Babel muni leysa vandann þó margir hafi tröllatrú á stráknum. Finnst einfaldlega vanta e-ð í hann sem leikmann, erfitt að útskýra hvað það er. Mér finnst nauðsynlegt að fá einn öflugan vængmann inn fyrir lok ,,gluggans” sama hvoru megin það verður og hætta þessum eltinaleik við Gareth Barry í eitt skipti fyrir öll.

    Ég sá bara seinni hálfleik í gær og mér fannst ég hafa séð þennan leik mörgum sinnum á síðustu leiktíð, þ.e. heimaleikur þar sem Liverpool hefur yfirhöndina og á í vandræðum með að skora og síðan komast andstæðingarnir yfir, oftar en ekki enduðu þessir leikir með jafntefli í fyrra en sem betur fer tókst að knýja fram sigur í gær.

    Þrír leikir búnir af tímabilinu og Liverpool hefur ennþá ekki náð að spila vel. Það finnst mér frekar dapurt en auðvitað er jákvætt að úrslitin hafa fallið með liðinu þrátt fyrir slælega frammistöðu. Vonandi fara menn að hysja upp um sig buxurnar og sýna sitt rétta andlit í næsta leik gegn Standard Liege.

  29. Jónsi #30

    þú segir
    “Mér fannst ég hafa séð þennan leik mörgum sinnum á síðustu leiktíð” og “sem betur fer tókst þeim að knýja fram sigur”
    Það er munurinn á þessum leik og þeim leikjum sem þú hefur verið að sjá á síðustu árum, við sóttum erfið 3 stig. Og í mínum augum er stórkostlegur munur á því.

    Heldur þú að Chelsea og Manutd hafi aldrei lent í vandræðum með lakari liðin?? Ó jú oft á leiktíð en þeir hafa náð að stela sigrum og það var einmitt það sem við gerðum í gær.

    Liverpool með fullt hús stiga eftir 2 umferðir og ekki einusinni komnir í gang.
    Frábært og það gefur mér einmitt vonir um að þetta gæti verið árið okkar.

  30. Tvö góð úrslit en tvær daprar frammistöður. Tímabilið rétt að byrja og við eigum eftir að koma til, hef t.a.m. trú á sammvinnu Torres og Keane.

    Vil ekki falla í tuðið en verð þó að undrast að Agger sé ekki að spila, í fyrra vantaði sárlega mann sem gat spilað boltanum út úr vörninni og tengt spilið við miðjuna. Þessi maður er Agger, hann er heill og á að byrja.

    Svo verð ég líka að lýsa furðu minni á því afhverju í ósköpunum við keyptum ekki kantmann fyrir seasonið. Eins og allir vita og eins og hefur verið rætt um hér og á öðrum Liverpoolsíðum í nokkur tímabil er öllum ljóst að liðinu vantar sterkan kantmann sérstaklega hægra megin.

    Annars er ég ánægður með Dossena og Keane, þeir koma til með að styrkja liðið og hver veit kannski verður þetta árið.

  31. stórkoslegt komment á soccernet gamecastinu fyrir Chelsea leikinn. Lampard looks to be limping a little – must be the weight of his wallet.”

  32. Flott úrslit!

    En leikurinn? tja…..
    Það vantar alla ró á miðjuna. Satt best að segja er erfitt að ímynda sér að Alonso sé 18 m. punda virði. Hann verður að fara að girða í brók.
    Reyndar ætla ég að vera svo grófur og hreinlega kenna Alonso um allt slæmt í þessum leik.
    *skilaði boltanum mjög illa.
    *Tapaði boltanum stanslaust á miðjusvæðinu.
    *Horn og aukaspyrnur þarf varla að nefna.

    Auðvitað geta bakverðinir lítið farið úr sínum stöðum þegar vörnin hefur ekki meiri stuðning en þetta.
    Að sama skapi höktir allt spil fram á við það taka þegar flæðið frá miðjunni er nákvæmlega ekkert.

    Áður en ég sakaður um óþolinmæði gagnvart Xabi þá ætla ég að taka það fram að ég hef alltaf verið mjög hrifinn af honum sem spilara, og ég er alls ekkert viss um að liðið verði betra (heilt yfir) verði honum skipt út.
    En almáttugur svona fíflagang verður að stoppa ekki seinna en í gær.

    Áfram Liverpool

  33. “Að sama skapi höktir allt spil fram á við það taka þegar flæðið frá miðjunni er nákvæmlega ekkert.”

    Þetta á að sjálfsögðu að vera

    Að sama skapi höktir allt spil fram á við þegar flæðið frá miðjunni er nákvæmlega ekkert.

  34. Mikið djöfull var Gerrard ævintýralega lélegur í þessum leik. Hann átti varla sendingu sem heppnaðist og ég var búinn að ákveða – áður en hann skoraði að þetta hlyti að vera hans slakasti leikur sem ég hef séð síðustu árin.

    Svo set ég nú ? við Dossena – þetta var ekki hans dagur.

    Reina – átti dapran dag – hefði að öllu jöfnu varið þetta skot frá Mido og svo átti hann glórulaust úthlaup sem hefði getað farið með leikinn.

    Arbeloa – allt í lagi – engin mistök en useless fram á við.
    Carragher – solid í vörn og skoraði, varla hægt að biðja um meira.
    Skrtl – allt í lagi – engin stór mistök en eins og hjá Arbeloa þá gerði hann ekkert framávið.

    Dossena – Arfaslakur a la Riise

    Kuyt – hljóp og hljóp og vann boltann nokkrum sinnum – la la.
    Gerrard – slakur
    Alonso – skárri en Gerrard sem er samt ekki nógu gott.

    Benayoun – arfaslakur – og langt síðan hann hfur verið svona slakur.

    Keane – allt í lagi – er að koma til.
    Torres – slakur.

    Varnarleikurinn í heild var í lagi
    Sóknarleikurinn var í molum rétt eins og fyrri daginn.

  35. Vil bara benda mönnum á það að Gerrard er ekki alveg heill af meiðslum.

  36. Það er nú ekki algjört svartnætti yfir þessu hjá okkur ennþá, liðið hefur ákaflega oft, eiginlega alltaf einmitt ekki unnið þessa leiki, en byrjunin hefur alveg verið í ætt við þessa hvað spilamennsku varðar. Þetta er marathon og sanniði til, vélin á eftir að fara í gang.

    Það sem mér finnst há okkur lang mest í upphafi er hreinlega leikkerfið, ég hef ekki séð 4-4-2 virka hjá okkur í mörg ár og skil ekki alveg ahverju við byrjum ekki við sama kerfi og við enduðum í fyrra. Þetta gæti auðvitað verið óþolinmæði í mér og kannski er ekkert óeðlilegt að það taki tíma af fá þetta til að virka smurt.

    Veikleikarnir okkar eru samt ákaflega augljósir og nánast allir á miðjunni. Gerrard og Alonso eru ekki mikið fyrir að spila sem varnar-miðjumenn, það er sóun á Gerrard að hafa hann mikið fyrir aftan miðju og Alonso gæti óhreinkað sokkana sína ef hann á að tækla mikið. Þeir virðast ekki ná saman þarna á miðjunni og ekki hjálpar það þeim að hafa Kuyt og Yossi sitthvorumegin við sig.

    Yossi er líklega ekki eiginlegur kanntmaður og ætti betur heima í holunni milli miðju og sóknar, enda leitar hann mjög mikið þanngað og á stundum baneitraða spretti þarna inn. Svo skil ég enganvegin afhverju í andskotanum við erum að sóa hægri kanntstöðunni í 4-4-2 kerfi á Kuyt. Sóknarleikurinn er vitavonlaus á hægri kanntinum og ekki hjálpar að hafa þar að auki bakvörð sem er ekkert spes sóknarlega. Ég hef það stundum á tilfinningunni að andstæðingar okkar gefi Kuyt smá pláss því hann gerir hvort eð er ekki neitt. Það þarf mikið fljótari mann á kanntinn sem getur búið til einhvað úr engu, ekki tvo frekar hæga með fáa lykla af vörnum andstæðinganna.
    Þetta miðjuspil opnar nánast aldrei varnir andstæðinganna upp á gátt og báðir sóknarmenn okkar fá ekki úr neinu að moða frammi, sjást varla.

    Miðjan er það svæði sem Liverpool á að vinna leiki á, en það gerist ekki þegar smá pressa frá liðum eins og Boro, Standard og Sunderland gera það að verkum að sóknarleikurinn verður jafn hugmyndaríkur og þegar Heskey var eðlilegt nafn í byrjunarliði Liverpool, þ.e. varnarmenn með sínar “drauma” sendingar yfir okkar miðjumenn og oftar en ekki víðsfjarri okkar sóknarmönnum.

    Ég gæti reyndar trúað að þetta hafi verið síðasti leikurinn í smá tíma þar sem við sjáum Alonso og Gerrard eina saman á miðjunni. JM kemur að öllum líkindum fljótlega inn í þetta sem gefur bakvörðum okkar gríðarlega mikið meira frelsi til að sækja og þar með opnað nýja vídd í sóknarleikinn.

    En ef það á að halda áfram með þetta 4-4-2 kerfi (efa það reyndar þegar líður á tímabilið) þá vil ég að okkar line upp verði:

    Gerrard – Alonso – JM – Babel

    og Gerrard þá auðvitað í free role út frá hægri kannti.

    Helst vil ég þó fá aftur leikkerfið sem við enduðum tímabilið með í fyrra ef leikur liðsins fer ekki að batna, meira að segja Kuyt var næstum ásættanlegur í því.

    En hvað Boro leikinn sjálfan varðar þá var þessi þjófnaður á mörkum þess að vera of sætur og lagði grunninn að því sem síðar (í dag) varð mesta þynnka Babú í svona 2-3 ár.

  37. Það jákvæða sem hægt er að taka frá þessari byrun í deildinni í ár eru 6 stig með hörmulegri frammistöðu; ólíkt því sem við hefðum gert í fyrra og árin þar á undan.

    Síðan vil ég koma inn í umræðuna um leikkerfi Liverpool en ég held að Rafa ætti að drullast til að hætta að spila leikkerfi sem krefst góða kantmenn en við bara erum ekki með hreinræktaða kantmenn! Ef spila á 4-3-2-1 (sama kerfi og Chelsea spilar, þá þarf að hafa leikmenn sem geta spilað úti á köntunum. Babel getur leyst það af en Keane og Kuyt eru ekki að fara að leysa það hlutverk af sem sannir kantmenn….aldrei! Mér finnst 4-3-2-1 kerfið vera virkilega flott kerfi og hentar okkur vel EF VIÐ HEFÐUM KANTMENN því þá getum við spilað með Gerrard-Alonso á miðjunni og haft Mascherano sem anchorman fyrir aftan rétt eins og Essien er hjá Chelsea. En eins og staðan er í dag þurfum við að spila 4-4-2 og hafa Keane í sókninni með Torres en ekki fyrir aftan eða á miðjunni þar sem hann týnist algjörlega. Miðað við þessa tvo leiki sem Keane hefur spilað (eða hefur hann ekki spilað þessa leiki?!?!?!?!), þá er hann ekki að koma vel út en það er allt of snemmt að dæma um það núna. Hann var hjá Tottenham að spila best í sókninni en svo þegar hann fór út á kantana kom ekkert út úr honum. “Planet Rafa” þarf aðeins að fara að opna augun gagnvart svona hlutum finnst mér en þetta er bara hlutur sem lang flestir virðast vera að sjá en ekki hann.

    Alan Hansen kom með góðan punkt um þetta í MOTD (Match of the Day á BBC) á laugardagskvöldið en þar sýndu þeir sóknir Liverpool þar sem þeir hlussuðu sér alltaf í gegnum miðjuna í hjarta varnarinnar sem reyndist Boro mjög auðvelt með að verjast. Það var í raun algjör heppni að við skoruðum þessi tvö mörk. Um leið og við fáum kantmenn til að teygja á vörninni og senda boltann fyrir markið, verðum við mun sterkari og miklu meiri ógn en við erum í dag. “Planet Rafa”…….kauptu Stewart Downing og það fljótt!

  38. Eitt það flottasta í leiknum var, að svona mínútu eftir að Carragher skoraði, bjargaði hann með glæsilegri tæklingu, þegar Reina var kominn langt út í teig.
    Jamie Carragher!

  39. “kauptu Stewart Downing…”
    hahahahahaha …… mánudagar eru nú alltaf leiðinlegir , en þessi setning er búin að bjarga þessum

  40. Ég er ekki frá því að Mascherano og LLeiva séu báðir komnir frammúr “ótrúlegri sendingargetu” Alonso, eða hann dottinn aftur fyrir þá.

  41. ..og Steven Gerrard í liði vikunnar á Sky Sports. Hversu góður er maður ef maður spilar sinn versta leik í langann tíma en er samt valinn í lið vikunnar? Eða er kannski bara farið eftir mörkunum?

  42. Úfff, það er nú oft að þeir sem velja í þessi lið hafi ekkert horft á leikina. Það eru oft bara valdir þessir Golden International Boys sem eru valdir, sama hvað þeir voru slappir.

  43. Mér finnst nú ansi langsótt að Gerrard hafi komist í lið vikunnar – auðvitað gerði hann vel að klára þetta í lokin, en framað því hafði ekkert heppnast hjá honum. Boltinn var ítrekað hirtur af honum, engar sendingar gengu upp osfrv. Þetta hlýtur að vera bara markið eða nafnið.

    En ég skal taka undir að 6 stig er frábært , en liðið á alveg rúmlega inni, það er að spila á svona 50%.

  44. Það var afar gaman og gott að horfa á töfluna í lok dagsins allavega!
    Eftir að hafa horft á leikinn í upptöku í gær ætla ég enn að heimta Barry. Dossena mun ekki standa af sér sterkustu vængmennina á fyrsta ári án meiri stuðnings og það er alveg ljóst að Alonso getur ekki spilað á miðju í 442 kerfi. Hann er of dýr varamaður. Kantmaðurinn okkar þyrfti að fara að finnast sem fyrst, þó ég hefði gaman af innkomu El Zhar þurfum við sterkari. En liðið mun verða í toppbaráttu. Sanniði til!

Liðið gegn Boro

Bæting milli ára?