Middlesbrough á morgun

Fyrsti heimaleikur tímabilsins er framundan og veit ég að það er mikil eftirvænting í Menningarborg Evrópu 2008. Erfiður útileikur í fyrstu umferð vannst og næst fáum við lið Miðlungsbrough í heimsókn á Anfield. Það er nokkuð ljóst mál að ef okkar menn ætla sér að blanda sér fyrir alvöru í baráttuna um titilinn, þá verðum við að vinna svona lið á Anfield, ósköp einfalt mál. Auðvitað er ég ekki að reyna að halda því fram að baráttan sé búin tapist stig á morgun, síður en svo. En engu að síður þá eru það akkúrat svona leikir sem eiga að útvega okkur 3 stig í sarpinn. Eins og Daniel Agger sagði í viðtali við official síðuna í dag, þá þarf að gera heimavöll okkar að óvinnandi vígi, við töpuðum of mörgum stigum þar á síðasta tímabili.

Þetta Middlesbrough lið er ekki hátt skrifað hjá mér og hefur aldrei verið það. Þeir hafa tollað í deildinni núna í nokkur ár, náðu einu sinni að krækja í deildarbikarinn og komust í úrslit UEFA keppninnar, þar sem þeir urðu sér svo sannarlega til skammar. Ég veit ekki alveg af hverju þetta lið fer svona í pirrurnar á mér. Þeir hafa í gegnum tíðina verið með gjörsamlega óþolandi stjóra og segir það margt um þá að Southgate er sá skársti í seinni tíð (hef samt nákvæmlega ekkert álit á honum sem stjóra) en þar á undan var þar Steve McClaren (need I say more?) og þar á undan var líklega hæfileikalausasti stjórinn sem komið hefur fram í seinni tíð, Brian Robson. Hann er frábært dæmi um það að þó þú getir sjálfur sparkað tuðru á sæmilegan hátt, þá gerir það þig sjálfkrafa ekki að góðum framkvæmdastjóra.

Það verður seint sagt að mótherjar okkar hafi styrkt sig mikið fyrir tímabilið. Þeir eru búnir að missa markvörðinn sinn og mér að vitandi enginn komið í hans stað. Þeir festu kaup á hinum stórbrotna bakverði Justin Hoyte, en ekki er búist við að hann hoppi beint inn í liðið. Aðrir leikmenn sem þeir hafa keypt eru Digard og Emnes. Fyrir utan markvörðinn sinn þá hafa þeir George Boateng, Lee Cattermole og Luke Young horfið á braut. Að mínu mati mun veikara lið en á síðasta tímabili. En við vitum jú alveg að pappírar telja ekki neitt þegar stigunum þremur er úthlutað, menn verða að mæta í leikinn og það af krafti.

Þá að skemmtilegri hlutum, okkar mönnum. Ég var svo ólánssamur að missa af leiknum um síðustu helgi, en mér skilst á mönnum að þetta hafi verið bæting frá Standard Liege leiknum (annað hreinlega ekki hægt) en ekkert mikið meira en það. Ennþá er greinilega þungi eftir erfitt undirbúningstímabil, og er það bara vel skiljanlegt. Allt snýst þetta um að koma mönnum í gott form á réttum tíma og það segir sig sjálft að menn eru ekki í sama spilaformi núna eins og þeir verða í þegar á líður tímabilið. Þetta á ekki bara við um okkar menn, þetta er reglan almennt. Það er þó gott þegar góð úrslit nást þrátt fyrir takmarkaða spilamennsku. Ég reikna algjörlega með því að menn finni sig betur á sínum heimavelli og vonandi rífa menn sig endanlega upp á rasshárunum og koma vel stilltir inn í leikinn og fá sæluhrollinn við að heyra í stuðningsmönnunum á bakvið sig eftir langt og strangt sumar.

Eitt er ljóst þegar kemur að upphitunum þetta tímabilið, það verður ekkert auðveldara að ráða í uppstillingu liðsins, því hópurinn er alltaf að verða þéttari, betri og jafnari. Rafa er aðeins búinn að vera að rótera, en Ólympíuleikarnir og meiðsli hafa þrengt þetta aðeins hjá honum. Maður hefur lítið heyrt af meiðslamálum hjá liðinu. Síðast þegar fréttist þá voru þeir Fabio Aurelio, Steve Finnan og Martin Skrtel klárir í slaginn á ný og því Degen sá eini sem er á sjúkralistanum. Hann ku þó vera nærri endurkomu. Ryan Babel er einnig mættur og ætti að vera klár fyrir leikinn, en Lucas er væntanlega einhversstaðar á flugi yfir Atlantshafinu núna og verður því ekki með okkur fyrr en eftir þennann leik. Svo er það bara meistari Mascherano sem verður pottþétt ekki með. En hvernig á maður þá að stilla þessu upp? Það er ekki gott að segja, ég reikna þó fastlega með að Ryan Babel byrji á bekknum og Rafa mun halda áfram að spila sitt 4-2-3-1 kerfi. Svona ætla ég að raða í stöður:

Reina

Arbeloa – Carragher – Agger – Dossena
Alonso – Gerrard
Kuyt – Robbie Keane – Benayoun
Torres

Bekkurinn: Cavalieri, Skrtel, Aurelio, Plessis, Pennant, Babel, Voronin,

Ég ætla sem sagt að tippa á það að Plessis missi sæti sitt á kostnað Stevie G, sem mun spila aftar en undanfarið. Sókndjarft lið þó vægt sé til orða tekið og veitir væntanlega ekki af þar sem það verður líklega tjaldað inni í teig Boro manna. Ég er bjartsýnn maður að eðlisfari þegar kemur að boltanum og spái því að þetta verði sigur, en hann kemur seint og með fyrirhöfn. Gerrard mun opna markareikninginn sinn í þessum leik, sem og Robbie Keane (og já, ég ætla að leggja það til að verði regla hér á síðunni að við notum annað hvort Robbie nafnið eða fullt nafn hjá honum, þar sem mér finnst ekki passa að sjá bara Keane í uppstillingu). Þetta verður sem sagt 2-0 baráttusigur hjá okkar mönnum. Bring it on.

22 Comments

 1. það kæmi mér samt ekkert á óvart ef að babel myndi byrja inná,hann ætti að vera í góðu formi,og það sást í leiknum á móti sunderland að það var ekki mikið verið að fara upp kanntana,(fyrir utan dossena sem átti ágætis spretti) sem að við þurfum að gera,annars fáum við að upplifa annan bragðdaufan leik rétt eins og í síðustu viku

 2. Hvaða rugl er þetta, banna að nota nafnið Keane eitt og sér? Er þetta ekki full barnalegt SSteinn?
  Ég veit, bönnum líka öll önnur nöfn sem tengjast Man Utd. Kaupum samt Ince og Heinze ef við getum.

 3. Verð að koma einu að, er Íslenski þjóðsöngurinn ekki örugglega til í Peking, Ólafur Ragnar hlýtur að vera með hann á sér. Held að Babbel verði í byrjunarliðinu, annars samála S Steini. Ekki ertu Snorri Steinn, ha nei ? Koma svo LIVERPOOOOOL og áfram ÍSLAND.

 4. Hvaða rugl er þetta? Barnalegt? Má mér ekki finnast þetta? Er þetta ekki blogg? Heitir þú Keane, eða þorir þú ekki að koma fram undir nafni? Þér má alveg finnast ég barnalegur og þú hefur reyndar komið þeirri skoðun þinni á framfæri, gott mál og allir sáttir.

 5. Ég skil ekki hvaða minnimáttarkennd þetta er gagnvart þessum gamla rugludalli sem nú stjórnar sunderland. Í dag er aðeins einn leikmaður spilandi í ensku deildinni sem ber nafnið Keane og hann spilar fyrir Liverpool. Það væru þá frekar manchester menn sem ættu að vera með einhverja stæla og neita að kalla hann bara Keane. Annars er ég sammála SSteini með allt annað, eina spurningin er Benayoun/Babel en held þó að Rafa bíði fram í seinni hálfleik með að skoða ástandið á Babel. 2-0 sigur og framherjarnir skora hvor sitt markið.

 6. Ég ætla að spá því að Boro eigi aldrei séns, við setjum fyrsta markið snemma (fyrstu 25) og eftir það verður ekki snúið, leikurinn endar 3-0 , Torres með 2, Keane með sitt fyrsta mark og það fyrir framan The Kop – fagnar með sínu “klassíska” fagni svona í tilefni dagsins.

 7. Tek undir með Eyþóri, hef trú á stórum sigri á morgun. Líka sammála SSteini með leiðindaliðið Boro, þeir eru samt yfirleitt ansi erfiðir heim að sækja. Babel verður á bekknum og kemur inn á 65 mínútu fyrir Benayoun. Að lokum langar mig að benda á að þegar maður flýgur frá Peking til Englands þá flýgur maður ekki yfir Atlantshafið – nema maður vilji fara lengri leiðina:)
  http://www.knattspyrna.bloggar.is

 8. Mér þykir heldur hart vegið að Boro í þessari ágætu færslu. Hef reyndar tekið eftir því í skrifum þessa spekings, að hann á það til.

  Þetta er ykkar síða og allt það, en mér finnst skrifin einkennast
  vanþekkingu ofangreinds höfundar á Boro og einhverja persónulega
  gremju í þeirra garð.

  Hér kemur smá klausa:

  “Þetta Middlesbrough lið er ekki hátt skrifað hjá mér og hefur aldrei
  verið það. Þeir hafa tollað í deildinni núna í nokkur ár, náðu einu
  sinni að krækja í deildarbikarinn og komust í úrslit UEFA keppninnar,
  þar sem þeir urðu sér svo sannarlega til skammar.”

  Hið rétta er að Boro hafa verið í úrvalsdeild í tólf ár samfleytt.
  Oftar en ekki í neðri hluta deildarinnar, en hafa hæðst náð 6. sæti.
  Þeir Komust í úrslit í bæði FA og League cup 1996, og unnu League Cup
  2003. Tvisvar hafa þeir komist í UEFA Cup og annað skiptið í
  úrslitaleikinn, og eru eina enska liðið utan þeirra fjóru stóru sem
  hafa gert það. Ártölum gæti skeikað um ár til eða frá.

  Liðið kemur frá hrútleiðinlegri verksmiðjuborg í N-Englandi, og eiga
  erfitt með að fá til sín stórstjörnur, enda fjárráð dræm. Þeir hafa
  því keypt minni spá menn og treyst nokkuð á Akademíu sína, sem Bryan
  Robson setti á laggirnar í sinni stjórnartíð. Þaðan hafa sprottið upp
  fínir leikmenn, m.a. Stewart Downing og nú nýlega David Weather sem
  Capello valdi í landsliðið undir lok síðasta tímabils.

  En sem fyrr segir, ykkar síða, málfrelsi og allt það. En það er
  vandræðalegt í besta falli að lesa skrif svona spekinga.

  Þið vinnið eflaust á laugardaginn, Gerrard skorar alltaf á móti Boro. Það væri samt stuð að taka ykkur, myndi veita mér gleði að hugsa til höfundar í leikslok.

  J.

 9. Já, ég er að vissu leyti sammála Jóni með þetta. Mér finnst þetta Boro lið alls ekki eins slæmt og SSteinn vill meina. Fannst þeir oft á tíðum spila fínan bolta í fyrra – og þeir hafa verið að leggja talsverða áherslu á unga menn. Einnig er þetta lið sem að gerir leikina hjá Chelsea, ManU og Arsenal spennandi því þeir geta alltaf tekið stig af þeim liðum.

  Það sem truflar mig alltaf við Boro, sem og Wigan, er að þessi lið eru alltaf að spila á hálf-tómum völlum. Það gerir einhvern veginn spil þeirra meira óheillandi.

 10. Sælir félagar
  Sigur og ekkert annað en sigur. Lokastaða leiksins verðu 3 – 1, engin spurning. Torres með 2 og Robbie með eitt. það verður upplifun fyrir hann (Robbie) að skora sitt fyrsta mark fyrir Liverpool á heimavelli.
  Það er nú þannig.

  YNWA

 11. Einar kemur með góðan punkt, sem ég er algjörlega sammála, varðandi aðsókn á leiki Boro, og fleiri liða. Það er vandræðalegt að horfa upp á þetta. Boro hafa reynt að bæta þetta, með ódýrari ársmiðum, enn ódýrari fyrir börn osfv. – aðsókn á Tottenham leikinn var með ágætum og vonandi heldur það áfram.

  Varðandi aldurinn hjá Boro, þá er Alfonso Alves elstur í hópnum, 27 ára og meðalaldurinn er tæp 23 ár. Mér líst ágætlega á tímabilið en illa á leikinn á morgun. Sú leiðindahefð virðist nefnilega hafa skapast, að Steven Gerrard skori gegn Boro. Spái 2-0.

 12. Ég hef nú bara eitt til málanna að leggja. Ég sat hér heima í gærkvöld þegar ég skipti á stöð2 sport og sé þar að það er verið að endursýna leik Boro – Tottenham. Þar sem ég hef verið svolítið spenntur að sjá alla nýju leikmennina hjá tottenham ákvað ég að horfa á þennan leik og ekki skemmdi fyrir að við erum að spila við Boro um helgina. En ég verð að viðurkenna eitt, mér leist stórvel á þetta Boro lið og mér finnst þeir virka töluvert sprækari heldur en undanfarin ár. Þeir voru gríðarlega hreyfanlegir, snöggir, liprir með og án bolta og alveg þokkalega spilandi. Eftir að hafa séð þetta verð ég að viðurkenna að ég er ekki eins sigurviss fyrir leik morgundagsins eins og ég var áður en ég sá þennan annars ágæta leik. En að sjálfsögðu vona ég að við tökum þá, en þá þýðir ekki fyrir okkar menn að mæta til leiks eins og í síðustu tveimur leikjum.
  Áfram Liverpool

 13. Já, vel getur verið að þetta sé vanþekking á liði Boro Jón, en svona er þetta bara í boltanum. Ég hef alltaf haft vondar tilfinningar til þessa liðs, hvers vegna? Veit það ekki alveg ef ég á að segja alveg eins og er. Það er bara eitthvað við Boro sem mér hefur aldrei líkað og þessi leikur snýst nú oftar en ekki um tilfinningar frekar en annað. Það eru margir sem þola ekki Liverpool út af eflaust mörgum misjöfnum ástæðum. En af hverju er vandræðalegt að lesa þannig skrif? Eins og oft áður hefur komið fram þá er þetta blogg og það sem mér finnst skemmtilegast og best við blogg er að þar skrifar maður nákvæmlega það sem manni býr í brjósti. Mér hefur aldrei líkað við lið Middlesbrough og ég skrifaði um það. Eina sem mér sýnist þú vera að tala um vanþekkingu hjá mér varðar “nokkur ár” þar sem þeir hafa verið í efstu deild. Hands up, fyrst þau eru tólf, þá telst það svo sannarlega meira en “nokkur ár”.

  En það er hárrétt hjá þér að þetta er fyrst og fremst persónuleg gremja í garð Boro og eins og áður sagði þá ekki út af neinum einum ákveðnum hlut heldur fyrst og fremst tilfinningu. En það er fínt að vera kallaður spekingur 🙂 Þó ég þykist vita að það hafi í þetta skiptið verið í neikvæðum tilgangi.

 14. Ívar Örn ,vil benda á það að þó að boro séu erfiðir heim að sækja, þá eiga þeir að heimsækja LIVERPOOL.

 15. já SSteinn ég er sammála þér með að babel byrji á bekknum, ég efast um að rafa skelli honum í byrjunarliðið strax eftir ólympíuleikana. hann er eflaust þreyttur eftir ferðalagið og það er gott að eiga hann á bekknum ef illa gengur að skora, sem gæti vel orðið raunin.

  en ég hef góða tilfinningu fyrir leiknum og held að 3-0 sigur vinnist þar sem keane setur 1, torres 1 og gerrard 1 úr víti 🙂

 16. Ég er ekki að átta mig á því þegar mönnum finnst það voða smart að hata Man.Utd. út af lífinu af því að þá eiga þeir víst að kallast harðir Liverpool menn. Ég er heldur ekki að átta mig á því af hverju má ekki kalla manninn Keane eins og hann var skírður og er vanalega kallaður…..hvað í ósköpunum skiptir það máli þó einhver leikmaður sem spilaði fyrir nokkrum árum í deildinni hafi heitið sama nafni!!??

  Jájá…..þetta er blogg og allt það, en kommon!

 17. Sammála Júl.la

  án annarra liða væri þetta frekar leiðinlegt allt saman.

 18. Vel mælt spekingur SSteinn.

  Ég hef í raun núll tilfinningar gagnvart Boro því þeir eru svona lið sem enginn tekur eftir og flest stórliðin vinna. Kæmi mér alls ekkert á óvart ef Boro væri við fallsætið þegar tímabilið er gert upp.

 19. Jæja daginn, margt athyglisvert hér eins og alltaf 🙂 Að mínu viti hefur Boro farið mikið fram undir stjórn Soutgate, ég hafði persónulega enga trú á þessu liði en þeir hafa lagast mikið með nýjum stjóra. Verður ekki auðveldur leikur, þeir spila aftarlega og eru með góðar skyndisóknir og eru hættulegir í föstum leikatriðum (Alves, wheater). Er alveg sammála með byrjunarliðið, Alonso hlýtur að taka stöðu Plessis, eftir 2 mörk í landsleik í vikunni og Sunderlandleikinn. Torres mun setja nýtt met, mark í 9. leiknum í röð á heimavelli, Robbie Keane setur 1 og Alonso 1 (og leggur upp 2), semsagt 3-0.
  Góða helgi!!

 20. vinnum 3 0 keane og torres með mörkin
  vonadi f+aum við almenilegan katara á næstunni

Tilboði hafnað í Sami

Gleðifréttir