Topp sex í enska boltanum í vetur!

Þá eru aðeins nokkrar klukkustundir fram að „kick off“ í deildinni og kominn tími til að upplýsa hvaða sex lið við á Kop.is spáum að verði sigursælust í vetur.

Spá okkar var fullgerð á þriðjudagskvöld og auðvitað röðuðum við liðunum upp miðað við hvernig leit út þá, áður en kaup og sölur vikunnar, eða evrópuleikir eða orðaskipti um leikmannakaup áttu sér stað.

En við stöndum við allt og nú skulum við henda okkur í þau lið sem við teljum að muni berjast á toppnum!

6.sæti: Portsmouth (88 stig)

Helstu nýir leikmenn: Peter Crouch (Liverpool) – Younes Kaboul (Tottenham) – Ben Sahar (Chelsea) – Glen Little (Reading) – Jerome Thomas (Charlton)

Helstu brotthvörf: Milan Baros (Lyon) – Sulley Muntari (Inter Milan) – Pedro Mendes (Rangers)

Við teljum að lærisveinar Harry Redknapp í Portsmouth muni enda í 6.sæti deildarinnar í vetur. Liðið lék afar vel seinni hluta vetrar og hefur öðlast mikið sjálfstraust með því að vinna FA bikarkeppnina síðastliðið vor. Kaupin á Peter Crouch og Younes Kaboul eru meðal þeirra bestu í sumar, auk þess sem búist er við að einhverjir leikmenn muni bætast við þegar þeir ná að selja fleiri af varamönnum sínum. Breiddin er góð, en þarf vissulega að vera það þar sem liðið leikur nú í UEFA keppninni auk ensku keppnanna. Redknapp er hins vegar mikill refur sem er að spila afar vel úr því sem hann hefur í Portsmouth og hefur sett saman skemmtilega blöndu reynslumikilla baráttujaxla eins og James, Campbell og Distin og síðan yngri hæfileikamanna eins og Kaboul, Kranjcar, Defoe og Crouch.

Semsagt, flottur vetur framundan á Fratton Park!

5.sæti: Tottenham (93 stig)

Helstu nýir leikmenn: David Bentley (Blackburn) – John Bostock (C.Palace) – Heurelho Gomes (PSV) – Luka Modric (Dynamo Zagreb) – Giovanni Dos Santos (Barcelona) – Cesar Sanchez (Real Zaragoza)

Helstu brotthvörf: Robbie Keane (Liverpool) – Younes Kaboul (Portsmouth) – Steed Malbranque (Sunderland) – Anthony Gardner (Hull) – Pascal Chimbonda (Sunderland) – Paul Robinson (Blackburn) – Teemo Tainio (Sunderland)

Lundúnastórveldinu Spurs er úthlutað 5.sæti Úrvalsdeildar hér á Kop.is, eftir hatramma baráttu um CL sæti við liðið sem við settum í 4.sæti. Svolítið skemmtilegt er að í rökstuðningi okkar teljum við bæði helstu ástæðuna vera gæði stjórans Juande Ramos, en svo eru líka til þar raddir sem telja hann ofmetinn og muni eiga erfitt með að ná árangri í Englandi! Þó erum við sammála um það að lið Tottenham sé feykisterkt á pappírunum og ætti að bæta sig verulega milli ára. Talsverðar breytingar hafa orðið á leikmannahópnum. Þó sjáum við að enn er í raun bara einn lykilmaður, Robbie Keane, farinn frá liðinu en einnig hafa mjög margir sterkra varamanna félagsins yfirgefið White Hart Lane. Afar sterkir leikmenn hafa verið keyptir, sér í lagi verður gaman að sjá Luka Modric og Dos Santos í enska boltanum! Á undirbúningstímabilinu hefur liðið skorað fullt af mörkum og krafa stuðningsmanna þess er að liðið blandi sér í baráttuna um sæti í Meistaradeildinni og nái langt í bikarkeppnum.

Það teljum við að séu raunhæfar kröfur og Tottenham mun berjast fram á síðasta leikdag, við…….

4.sæti: Arsenal (95 stig)

Helstu nýir leikmenn: Amaury Bischoff (Werder Bremen) – Samir Nasri (Marseille) – Aaron Ramsey (Cardiff) – Carlos Vela (Osasuna)

Helstu brotthvörf: Gilberto (Panathinaikos) – Alexander Hleb (Barcelona) – Jens Lehmann (Stuttgart) – Mathieu Flamini (AC Milan)

Kjúklingasalatið hans Arsene Wenger endaði í 4.sæti í spánni okkar, rétt ofan við nágranna sína og erkifjendur. Við teljum hið unga lið á Emirates nái að halda sæti sínu í topp fjögur hópnum í Englandi naumlega, og í raun geti brugðið til beggja átta þar! Liðið hóf síðasta leiktímabil með miklum látum en síðan fjaraði verulega undan er leið á. Í sumar misstu þeir svo tvo lykilmenn í liðinu og í staðinn hafa þeir enn ekki náð að krækja í leikmenn af sama gæðaflokki, heldur valið að kaupa fleiri efnilega fótboltamenn.

Enda er liðið efnilegt, eins og undanfarin Zilljón ár! Aðdáendur liðsins eru margir hverjir farnir að þreytast á stimplinum „skemmtilegasta liðið“ á meðan að engir titlar vinnast og ljóst er að ef að eins verður í vetur fer nú að harðna á dalnum hjá stjóranum. Hann hefur þó lofað aðdáendum liðsins að minnst tveir „stórir“ leikmenn verði keyptir fyrir lok mánaðarins, margir telja að annar verði Xabi Alonso, og þau kaup gætu vissulega breytt Arsenal í alvöru keppinauta um titilinn.

Miðað við stöðuna nú í dag, á fyrsta leikdegi, teljum við hins vegar að Arsenal verði í mikilli baráttu um að ná 4.sætinu, en takist það þó í lokin!

3.sæti: Manchester United (113 stig)

Helstu nýir leikmenn: Engir

Helstu brotthvörf: Danny Simpson (Blackburn) – Chris Eagles (Burnley) – Gerard Pique (Barcelona)

Eins og sjá má er talsverður stigamunur á 3. og 4.sæti í spánni okkar. Enda teljum við allir að þrjú lið muni skera sig úr og berjast um titilinn í vetur. Manchester United verða vissulega þar á ferðinni, enda ríkjandi meistarar. Þegar þetta er ritað hafa þeir enn ekki bætt neinum leikmönnum við sinn hóp, en vitað er að þeir munu kaupa framherja af dýrari gerðinni á allra næstu dögum. Við hins vegar teljum Ronaldo vera lykilatriðið í þeirri spá okkar að þeir vinni ekki titilinn í vor. Miðað við nýjustu fréttir verður hann ekki leikfær fyrr en í október hið fyrsta, auk þess sem hann er ennþá að tala um hvenær hann fari til Madrid. Þetta tvennt þýðir að United mun ekki fá líkt því það sama frá honum og síðasta leiktímabil, sem auðvitað var eign hans. Án Ronaldo eru Djöflarnir frá OT ekki sama liðið, það er bara svoleiðis!

Ef við bætum svo við brotthvarfi Carlos Queiroz til að verða landsliðsþjálfari Portúgals, sem var Fergie gamla mikið áfall, teljum við ljóst að titillinn verði ekki geymdur lengur í borginni vondu.

Á næsta hausti verður það því Manchester United sem mætir einhverju mið-evrópsku spútnikliði í undankeppni CL!

2.sæti: Liverpool (114 stig)

Helstu nýir leikmenn: Robbie Keane (Tottenham) – Andrea Dossena (Udinese) – Diego Cavalieri (Palmeiras) – Philip Degen (Borussia Dortmund) – David Ngog (Paris St. Germain)

Helstu brotthvörf: Scott Carson (W.B.A.) – Peter Crouch (Portsmouth) – Danny Guthrie (Newcastle) – Harry Kewell (Galatasaray) – Anthony Le Tallec (Le Mans) – John Arne Riise (Roma) – Sebastian Leto (Olympiacos)

Þá hafiði það. Spá okkar drengjanna fyrir okkar ástsæla lið er 2.sætið í deildinni eftir titilbaráttu fram á síðasta dag. Vissulega eru enn ákveðnar blikur á lofti varðandi bakland liðsins og erfið samskipti milli stjórans og eigendanna margfrægu, með leikbrúðuna Rick Parry sem óskemmtilegan millilið.

EN. Þrátt fyrir brotthvarf margra leikmanna teljum við liðið nú vera það sterkasta síðan titillinn var síðast í sínum heimahögum, vorið 1990. Við berum miklar vonir til nýju leikmannanna og þess að seinni hluti síðasta leiktímabils var afar góður. „Mænan“ í liðinu er góð, þ.e. Reina, Carragher, Agger, Mascherano, Gerrard og Keane og kantspilið þetta árið ætti að verða betra, því við erum fullvissir að minnst einn vængmaður birtist fyrir ágústlok.

Byrjunin mun ráða miklu, ljóst er að titringur er innan herbúðanna vegna ákveðinna leikmannakaupa og þrír mikilvægir leikmenn eru að hitta íslenska afreksmenn í sundi fyrstu daga/vikur tímabilsins. Ef byrjunin verður góð er full ástæða til bjartsýni.

Og satt að segja verður gott þegar 31.ágúst kemur og öllu röfli um leikmenn inn og út lýkur! En annað sætið verði semsagt niðurstaðan, en eftir hatramma baráttu við United og…….

1.sæti: Chelsea (115 stig)

Helstu nýir leikmenn: Deco (Barcelona) – Jose Boswinga (Porto)

Helstu brotthvörf: Tal Ben Haim (Man. City) – Khalid Boulahrouz (Stuttgart) – Claude Makelele (Paris St. Germain) – Steve Sidwell (Aston Villa) – Ben Sahar (Portsmouth)

Chelsea. Jafnmikið og mér leiðist að þurfa að viðurkenna það spáum við Chelsea meistaratitlinum í vetur. Nýr maður í brúnni, Luis Felipe Scolari, og það að lykilmennirnir Lampard og Drogba ákváðu að dveljast áfram á Brúnni þýða það í okkar huga að hinir bláklæddu vinni þriggja liða keppni um dolluna. Það að liðinu tókst næstum því að vinna enska titilinn og Meistaradeildinni með slökum stjóra og átökum innan liðsins síðasta tímabil gefur ágæta mynd af gæðunum sem í liðinu búa.

Í sumar seldu þeir leikmenn í litlum hlutverkum og keyptu (ennþá) einungis tvo í staðinn, en í báðum tilvikum leikmenn sem stjórinn þekkir og munu gegna lykilhlutverkum. Liðið mun vafalítið færa sig meira í áttina að skemmtilegri útgáfu af leiknum, enda býr mikill sóknarþungi í leikmannahópnum. Veikleikarnir eru vissulega þeir að liðið er að eldast og hægt er að taka undir orð manna um það að brátt verði tími margra leikmanna þar liðinn. Einmitt þess vegna verður enn meiri ákveðni til að vinna titilinn í vetur.

Og það teljum við að verði raunin, eftir eitt mesta spennandi mót í manna minnum, sem ræðst ekki fyrr en í síðustu umferð.

SAMANTEKT:

Ef við drögum spána okkar saman eru hér helstu atriðin.

Chelsea vinnur titilinn eftir mikla baráttu við Liverpool og United.
Arsenal og Tottenham berjast hart um fjórða CL sætið og Portsmouth, Aston Villa, Everton og Man. City slást um UEFA sætið.

Hull og Stoke munu falla örugglega og Bolton mun berjast við W.B.A. um þriðja fallsætið.

Ef við skoðum væntingar okkar til Liverpool FC í þessari spá eru skilaboðin skýr:

Alvöru titilbarátta, fram á síðustu leiki er krafan til Rafael Benitez og leikmanna Liverpool. Við teljum ekki óraunhæft að ætlast til titilbaráttu eftir fjögurra ára vinnu stjórans með liðið og auðvitað gerum við okkur vonir um númer 19 í vor!

BRING IT ON!!!!!!!

24 Comments

 1. Ótrúlega lítill munur á topp 3 og kannski mjög eðlilegt. Held að þetta sé mjög raunhæf spá, sérstaklega með tilliti til þess hversu mjótt er á mununum. Ég hef fulla trú á því að þetta verði fjögurra liða keppni í ár, þar sem allir geta unnið alla. Rafa mun taka Fergie í deildinni í ár og ég hef trú á því að Scolari geri gloríur. Ergo: ég spái hiklaust Liverpool titlinum í ár, en vá … hvað þetta verður sannarlega spennandi mót.

  Áfram Liverpool!

 2. Vonandi verður þetta svona spennandi upp við toppinn fyrir okkar menn. Ég hef þó enn efasemdir og þessi síðustu púsl – sérstaklega bakvarða og kantsenter/kantstöðurnar verða spurningarmerki framan af hausti. Mér finnst ennþá eins og bæði Chelsea og Man U verði fyrir ofan okkur og Arsenal verða ekkert langt í burtu heldur, nokkrum stigum neðar vonandi en gætu alveg verið fyrir ofan okkur. Ég get ekki tekið undir að leikmannahópur okkar sé á pari við Chelsea og Man U þar sem vængstöðurnar eru enn of veikar. Maður hefur nú séð það örugglega 15 sinnum síðustu 18 árin að nú hafi loksins síðasta púslið í púsluspilið komið til liðsins…Og svo vesenið utan vallar. Ekki bjartsýnn…
  http://www.knattspyrna.bloggar.is

 3. Af hverju eruð þið svo vissir um að það komi kantmaður fyrir ágústlok ? Þetta verður 3.-4.sætið eins og alltaf. Við eigum ekki séns í hvorki Chelsea né Man Utd hvað tímabilið varðar.

 4. Ég held að Liverpool endi í 3. sæti en hef væntingar um að liðið berjist um titilinn fram að vori. Yfirleitt þurfa lið að berjast um titilinn áður en hægt er að tala um þau sem líklega sigurvegara og dæmin sýna það. Man Utd og Chelsea berjast alla leið líkt og í fyrravetur en ég á erfitt með að átta mig á því hvort liðið sigrar.

  Hinsvegar má nota það sem hvatningu á leikmenn Liverpool að sigri Man Utd í vor þá jafnar liðið titlamet Liverpool. Ef það kveikir ekki í leikmönnum Liverpool þá veit ég ekki hvað þarf til!

 5. Bara ein spurning. Þessi stig fyrir aftan liðin, er það einhver stig sem þið gefið liðunum eða eruð þið að meina stigafjölda eftir 38 umferðir? Því mér reiknast svo til að það sé mest hægt að fá 114 stig á öllu mótinu (3×38) og chelsea vinnur með 115 stigum? :

  Burtséð frá því þá er ég nokkuð sáttur við spána. Við endum fyrir ofan united, scolari er gríðarsterkur þjálfari og því ekki óraunhæft að ætla að hann taki titilinn með þennan chelsea hóp og við Liverpool-menn fáum í það minnsta alvöru titilbaráttu í fyrsta sinn í mörg, mörg ár, jafnvel þá titillinn rati ekki alveg heim í hús.

 6. mér finnst framkvæmdarstjóri Chelsea Luis Felipe Scolari stórt spurningarmerki. Hann hefur getið sér gott orð með landslið en er hann jafn klógur og Rafa, Ferguson og Wenger í leikmanna kaupum og leikaðferðum og þess háttar. Ég er ekki viss. Hann tekur reyndar við góðu búi en stórt spurningarmerki samt.

 7. Stigin eru samtala þess sem við gáfum. Við erum sex sem spáðum og liðið sem var efst í spá okkar fékk 20 stig og það sem var neðst fékk 1 stig.
  Mest var því hægt að fá 120 stig og minnst 6 stig.

 8. Liverpool verða að berjast um þriðja sætið við Arsenal, það er alveg ljóst að mínu mati. Manutd og Chelsea eru bara með töluvert sterkari leikmannahópa, því miður. Ef við ætlum svo að fara inn í tímabilið með engan vinstri kantmann þá líst mér mjög illa á möguleika okkar.

 9. Svona er mín spá:

  1. Chelsea
  2. Man Utd
  3. Liverpool
  4. Arsenal
  5. Tottenham

  6. Everton

  1. Bolton
  2. Stoke City
  3. Hull City

  Bara 1 klt í fyrsta leik okkar á tímabilinu 08 – 09 🙂
  Gaman gaman.

 10. Nú eitthvað lítur þetta út öðru vísi en ég pikkaði inn : /
  En röðin er rétt, þrjú neðstu á listanum munu sem sagt falla.

 11. Scolari er þekktur í knattspyrnuheiminum sem afburða motivator. Nær liðum oft uppá hárrétt spennustig fyrir stórleiki.
  Hann er hinsvegar frekar íhaldssamur varðandi uppstillingar og átti í erfiðleikum í brasilísku deildinni við að hafa stjórn á liðshóp yfir langan tíma.
  Lítur á fótbolta á heimspekilegan hátt, vill hafa ákveðin egó og týpur í sínum hóp. Gerir stundum uppá milli manna og gæti því lent í að skilgreina lið Chelsea í a og b-lið. Þetta gæti haft áhrif á liðsmóralinn yfir heilt tímabil og þeir farið að missa stig á móti litlu liðunum þegar varamenn koma pirraðir inná yfir litlum spilatíma. Ég set síðan spurningarmerki um að Deco og Bosingwa henti vel í ensku deildina. Koma Bosingwa reyndar ýtir Essien aftur inná miðjuna sem styrkir Chelsea klárlega.

  Maður sem lítur þó út eins og síamstvíburi bandaríska sálfræðingsins Big Phil getur þó ekki gert mistök. Hann er bara maðurinn.

  Held að úrvalsdeildin í ár fari soldið eftir því hvaða lið byrja best og ná upp sjálfstrausti. Liverpool og Chelsea verða að ná einhverju forskoti á Man Utd fyrstu 2 mánuðina svo þeir tvíeflist ekki þegar C.Ronaldo kemur inní þeirra leik. Tottenham gæti haldið dampi út tímabilið ef þeir byrja á langri sigurhrinu. Sama má segja um kjúklingana hjá Arsenal.
  Öll topp5 liðin munu fara í gegnum mislanga lægð á tímabilinu. Hafi lið góðar minningar af fyrsta hluta tímabilsins geta þau verið fljót í gegnum slíkt.
  Man Utd eru búnir að toppa, held þó að þeir vinni nokkra grísaleiki útá reynsluna. Liverpool verður í hörkubaráttu, um hvað er ekki vitað. Benitez verður bara að vera aggressívari á móti toppliðunum, sérstaklega á heimavelli ef hann ætlar liðinu í alvöru toppbaráttu.

  Þau lið sem gætu strítt toppliðunum eru Portsmouth, West Ham og ég spái því að Newcastle komi á óvart og verði ágætlega sterkir í ár. Everton og Blackburn mun fara aftur á þessu ári.

 12. Ágæt og skemmtileg umfjöllun. En, ég tel að þið ofmetið LFC miðað við stöðu mála í upphafi móts. Það verða allir okkar leikmenn að eiga toppvetur til að LFC berjist um titilinn.

 13. Langar að láta vita af því að síðan virðist í erfiðleikum, við höfum enn ekki náð að setja í gang frétt með byrjunarliðinu og viðbúið að erfitt verði að setja inn leikskýrslu strax eftir leik!
  Reynum samt!!!

 14. Að þeir skuli fá að kalla sig atvinnumenn í fótbolta… geta varla sent á samherja, ef þeir geta það þá getur næsti maður ekki tekið á móti bolta fyrir utan það að þeir eru ekkert að hlaupa í svæði og enda bara á að sparka boltanum einhvert út í loftið…

 15. Ég hlakka til að sjá hvernig menn afsaki þessa frammistöðu gegn Sunderland í dag. Það er ekki hægt og menn vita það en ég hlakka til að sjá tilraunina.

 16. Eins og svo oft áður eru Liverpool aðdáendur í bjartsýnir fyrir hvert tímabil. Held að framistaða liðsins í dag ætti að koma mönnum á jörðina og gera mönnum ljóst að liðið er enn töluvert á eftir Man Utd og Chelsea. Liðið verður eins og svo oft áður í baráttu um 4 stætið, það vantar fleiri high quality players í liðið.

 17. torres torres torres torres torres torres
  torres torres torres torres torres torres
  rabbarabbarabbbara
  torres torres torres torres torres torres
  torres torres torres torres torres torres

 18. Það er ekki auðvelt að stjórna liði fullu af stjörnum. scolari á eftir að finna fyrir því. einnig set ég spurningamerki við vörna þeirra. svo veit maður aldrei
  hvernig liðið kemur út í meiðslum. en þeir byrja vel og flengja porthsmouth í fyrst leik og sýna mikinn styrk. Scum Utd mun eiga í basli framan af móti og
  meðan ekki allir þeirra beztu menn eru ekki leikfærir mun reynsluleysi sumra
  koma þeim í koll. Arsenal mun byrja mótið vel og vera í efsta sæti fyrstu 6-8 umferðirnar en síðan hallar undan fæti eftir jólasteik.
  Okkar menn verða einbeita sér að því að vinna ,,smáfuglana” í deildinni á þeirra heimavelli. Tapa ekki leik á Anfield og ná stigum í innibyrðisleikjum
  við scum utd-chelski og arsenik, helst að vinna þessi lið á Anfield.
  náum við að verða sæmilega meiðslaléttir getur allt gerst. Agger er kominn aftur. Mascherano og babel munu snúa aftur innan tíðar þanni að nóg er af góðum spilurum. Dossend – Degen og n´gogo(eða hvað hann heitir) eiga eftir að sýna af hverju þeir voru keyptir. vonandi kemur eitthvað gott frá þeim. voronin þyrfti að drífa sig í súrkálið í þýskalandi aftur. þyskaland er sennilega eina landið þar sem ponytail hja karlmanni er kúl. hann verður dýrkaður hjá liði eins og armenia bilefield eða þaðan af slappara liði.
  reyndar má spyrja af hverju hann var fenginn þó frír hafi verið.
  það er erfitt að benda á eitt lið og segja að það muni vinna deildina en
  klárlega má segja að scum utd-chelski-liverpool og arsenal hafi alla burði til að ná í dolluna. það verður allavega enginn meistari nema að kljást við þessi stóru.

Spáin, sæti 7 – 13!

Sunderland 0 – Liverpool 1