EM 2008: Undanúrslitin framundan

Fyrir helgina hnoðaði ég í eins og eina spá fyrir 8-liða úrslit EM. Sú spá byggðist nær eingöngu á stórfenglegri innsýn í knattspyrnuna, enda kom það á daginn að ég hafði meira og minna rétt fyrir mér; Þjóðverjar kunna þetta og tóku Portúgali, Hollendingar toppuðu of snemma og brotlentu gegn drullugóðum Rússum og Spánverjar sigruðust á bölvuninni gegn Ítölum. Það eina sem eyðilagði annars fullkomna spá var þetta ævintýralega jöfnunarmark Tyrkja gegn Króötum í lok framlengingar, og í kjölfarið sigur í vító þar sem Króatarnir voru enn of sjokkeraðir til að geta skotið á mark.

Í ljósi þess hve vel sú spá tókst til finnst mér tilvalið að hita upp fyrir undanúrslitaleikina með því að hnoða í eins og aðra spá. Negli hér með skoðun mína við vegginn. Þið sem viljið ekki vita úrslitin fyrirfram skulið hætta að lesa núna. 😉

Miðvikudagur: Tyrkland – Þýskaland

Tyrkirnir hafa háð mikið taugastríð undanfarna daga með því að hrópa það hæst allra sjálfir hversu fámennur leikmannahópurinn sem eftir stendur hjá þeim er. Emre og fleiri farnir í meiðsli, markvarðavesen og svo framvegis. Þeir reyna að nýta sálfræðihernaðinn til að fela það hversu veik staða þeirra er fyrir þennan leik, en ég skal hundur heita ef Þjóðverjar gera eitthvað annað en að mæta fyllilega klárir í slaginn. Michael Ballack og félagar eru komnir með blóðbragðið og eins og þýskir hákarlar knattspyrnusögunnar hingað til munu þeir elta bráðina uppi annað kvöld og éta hana lifandi.

Mín spá: Tyrkirnir sjá fljótlega í leiknum að við ofurefli er að etja, eru saddir eftir að hafa óvænt komist svona langt og munu njóta stundarinnar í stað þess að berja höfðinu við steininn. Þjóðverjar fara í úrslitin með stæl.

Fimmtudagur: Rússland – Spánn

Hér er úr vöndu að ráða. Á annan bóginn ertu með besta sóknarliðið í keppninni, tvo bestu framherja keppninnar og lið sem (a) spilar örsjaldan leiki án þess að skora og (b) var að klára einn slíkan, þannig að líkurnar á að þeir skori á fimmtudag eru yfirgnæfandi. Á hinn bóginn ertu hins vegar með agaðasta lið keppninnar, mögulega það lið sem er í bestu formi og skartar bestu liðsheildinni, og einhvern albesta landsliðsþjálfara heims, ef ekki þann langbesta.

Ég á erfiðara með að spá í úrslitin hér en í fyrri leiknum en ég ætla að treysta innsæinu og þeirri staðreynd að ég hef horft nógu mikið á ákveðinn leikmann síðasta árið til að vita með ágætri vissu að eftirfarandi fullyrðing er déskoti líkleg: Fernando Torres hefur haft furðu hægt um sig í þessu móti og það þýðir bara eitt, Rússar eiga ekki von á góðu. Ég spái Spánverjum hér sigri í markaleik þar sem Fernando Torres nýtir sér alla athyglina sem David Villa er að fá þessa dagana til að skjóta Rússunum ref fyrir rass og minna Evrópu á það hver er númer eitt.

Ef þessi spá rætist munu svo Spánverjar og Þjóðverjar mætast í sjálfum úrslitaleiknum. Ég held reyndar að úrslitaleikurinn verði stórskemmtilegur hvort sem Rússar eða Spánverjar komast þangað, eins lengi og Þjóðverjar vinna varnarsinnaða Tyrkja, en ef spá mín er rétt mun það væntanlega auka eftirvæntingu margra enda tvö frábær lið þar á ferðinni.

Sjáum hvað setur. Ég verð allavega hissa ef Tyrkir komast lengra. Hin þrjú liðin geta öll unnið mótið og verið vel að því komin.

Breytingar á kommentum

Hver er Mikel San Jose?