Það er allt að gerast

Eins og ég sagði í pirringspistli hér á síðunni eftir fyrri leikinn við Chelsea á Anfield fyrir rúmum tveimur vikum, þá reyndist sú skoðun mín rétt að það einvígi tapaðist á lokasekúndnum í þeim leik, með sjálfsmarki Riise. Fyrir rúmri viku fór síðari leikurinn fram og okkar menn gáfu sig alla í verkið, og tókst meira að segja að velgja Chelsea-liðinu undir uggum, en á endanum sagði heimavöllurinn til sín og þeir unnu. Það var 30. apríl og í fyrsta skiptið undir stjórn Benítez varð ljóst að maímánuður yrði leikinn án úrslitaleikja, án nokkru til að stefna að.

Það var líka annað sem sagði til sín í þessum seinni leik gegn Chelsea, og það voru varamennirnir. Við reyndar áttum ágætis varamenn í þann leik í Hyypiä, Babel og Pennant, sem kostuðu okkur örugglega um 20 milljónir punda samanlagt. En þegar maður skoðaði innáskiptingar Chelsea-liðsins – þeir settu Malouda, Anelka og Schevchenko inná, en það er pakki upp á rúmar 60 milljónir til samanburðar við okkar 20 – undirstrikaði það bara enn frekar hvað liggur fyrir eigendum og forráðamönnum Liverpool í sumar. Eigi skal gráta Björn bónda heldur fylkja liði.

Þrátt fyrir að eiga von á þessu tapi tók ég því frekar illa og var ansi svekktur. Ekki yfir því að hafa tapað á Stamford Bridge fyrir Chelsea, enda engin skömm í því, heldur því að þessir leikir höfðu sýnt okkur svart á hvítu (sem og leikirnir tveir við Man Utd í vetur, að mínu mati) hvað þarf að gerast í sumar. Vandamálið er bara það að við getum ekki með nokkru móti verið viss um að það sem þarf að gerast verði gert. Ekki á meðan eigendasápuóperan heldur áfram.

Í kjölfar Chelsea-tapsins fór ég úr bænum í fjóra daga og hef svo síðustu daga notið þess að standa aðeins tilbaka og horfa á flugeldasýninguna sem er hafin í enskum fjölmiðlum. Það á enn eftir að leika síðustu umferð deildarinnar í Englandi, og spila til úrslita í FA Bikarnum og Meistaradeildinni, en sirkusinn er samt kominn í fluggír.

Það er ljóst að meira og minna öll liðin ætla sér stóra hluti í sumar. Roy Keane hjá Sunderland er búinn að úthýsa nokkrum af leikmönnum sínum og segist ætla að kaupa fyrir 50m punda. Kevin Keegan er að þrýsta á sitt fólk að fá svipaðar upphæðir, á meðan Thaksin hjá Man City ætlar að réttlæta væntanlegan brottrekstur á Eriksson með því að fá Scolari sem stjóra liðsins og láta hann hafa allt að 100m punda til leikmannakaupa. Ljóst þykir að Roman Abramovich mun styðja sinn mann, hvort sem það verður Avram Grant eða einhver annar, með meiri upphæðum en þeir hafa eytt síðastliðin tvö ár. Slúðrið í Manchester-borg segir að ef United vinni tvennuna muni Ferguson setjast í helgan stein, en hvort sem það er rétt eða ekki er ljóst að United mun berjast um bestu bitana. Brottför Flamini hjá Arsenal, sem og möguleg sala á Hleb, þýðir að Arsenal munu fara af alvöru á markaðinn í sumar og þá ætla lið eins og Aston Villa, Portsmouth, Blackburn og West Ham sér örugglega að byggja enn frekar á framförum síðastliðins tímabils.

Hvað kemur þetta Liverpool við? Þetta skiptir okkar menn öllu máli, skal ég segja ykkur. Það segir sitt að ef ég á 100 kr. og þið eigið 50 kr., þá eruð þið engu nær því að vera jafn efnuð og ég ef þið eignist 50 kr. í viðbót í sumar en ég 150 kr. Að sama skapi er óraunhæft að ætla Rafa Benítez að nálgast United og Chelsea enn frekar ef þessi tvö lið eiga eitt árið enn að eyða miklu hærri fjárhæðum í leikmenn en við.

Tökum Chelsea sem dæmi. Fregnir úr virtum miðlum herma að Abramovich muni leyfa Grant að eyða allt að 100m punda í leikmenn og er þá víst frekar verið að horfa á 3-5 stór nöfn heldur en allsherjar endurnýjun á leikmannahópnum. Ef við tökum mark á þessum fréttum eru sem sagt á leiðinni um 3-5 leikmenn af þessum svokölluðu Torres-gæðum til Chelsea í sumar. Og eiga þeir nóg af stórkörlum í þeim verðflokki fyrir.

United hafa verið orðaðir við leikmenn á borð við Berbatov hjá Tottenham, Benzema hjá Lyon, Huntelaar hjá Ajax og Santa Cruz hjá Blackburn, auk þess sem þeir eru sagðir hafa augastað á Dani Alvés hjá Sevilla og Gattuso hjá AC Milan til að bæta vörnina og miðjuna hjá sér.

Við? Enn sem komið er virðist Gareth Barry vera stærsta nafnið sem er orðað við Liverpool, en auk hans er talað um menn eins og Philipp Degen og Maik Taylor á frjálsri sölu og menn eins og Maxi Rodriguez hjá Atletico Madrid eða Antonio Valencia hjá Wigan fyrir innan við 10m punda hvorn. Þetta eru allt góðir leikmenn en maður sér ekki alveg hvernig slík kaup, ef þetta er það eina sem kemur til, á að nægja til að minnka bilið á milli okkar liðs og Chelsea og Man Utd. Sérstaklega ekki ef sumarið í ár verður jafn stórt hjá þeim og útlit er fyrir.

Það sem er fyrir mér enn meira áhyggjuefni virðist vera það að þessir leikmenn virðast flestir vera hugsaðir til að fylla skörð þeirra sem munu fara. Menn segja að Riise sé á förum frá Liverpool og einhver eins og Degen eða Abidal hjá Barcelona munu þá koma inn í staðinn. Ef Crouch fer segja menn að Rafa muni reyna að kaupa Kenwyne Jones hjá Sunderland, sem er góður en varla einhver Torres, Berbatov eða Anelka. Ef Alonso fer er Barry hugsaður sem staðgengill hans, á meðan við munum selja Carson og Itandje og fá Maik Taylor í staðinn. Kewell er á förum og ef Pennant fer líka gætum við séð tvo leikmenn eins og Valencia og/eða Rodriguez koma inn í staðinn. Þetta bætir kannski gæðin í hópnum eitthvað aðeins á heildina litið, en eru varla þær stökkbreytingar á getu liðsins sem vantar til að setja lið eins og Man Utd og Chelsea aftur fyrir sig.

Við sjáum hvað setur í þeim efnum. Á öðrum sviðum er jafn mikið um fréttir af Liverpool. Búið er að samþykkja nýju teikningarnar af vellinum í Stanley Park en enn er engin dagsetning komin á fyrstu skóflustungu. Alex Miller er að hætta sem þjálfari hjá Liverpool og því þarf Benítez alveg örugglega að fylla a.m.k. eina stöðu í þjálfarateymi sínu, sér í lagi eftir að Paco Ayesteran hætti í september í fyrra og skarð hans var aldrei fyllt.

Ef þið spyrjið mig koma jákvæðustu fréttir klúbbsins þessa dagana frá varaliðinu okkar. Ungu strákarnir undir stjórn Gary Ablett unnu í gær Norður-umdæmiskeppni varaliða en þar sem þeir voru áður búnir að vinna varaliðsdeildina er ljóst að við – ekki Arsenal, Man Utd, Chelsea eða önnur lið – eigum bestu ungu strákana þetta árið. Í liðinu í gær voru leikmenn á borð við Emiliano Insúa, Nabil El Zhar, Lucas Leiva og Damien Plessis sem hafa leikið með aðalliðinu í vetur. Þar að auki voru menn á borð við Jordy Brouwer, Mikel San José, Stephen Darby, Craig Lindfield og Ronald Huth í liðinu, en þeir hljóta að fara að banka á sénsa með aðalliðinu á næstu eða þarnæstu leiktíð með framgöngu sinni í vetur. Þá hafa enn yngri leikmenn eins og Daniel Pacheco og Gerardo Bruna einnig minnt á sig og þykja mikil efni, auk þess sem þeir Jack Hobbs og Paul Anderson hafa slegið í gegn á láni í neðri deildunum.

Stjarna vetursins í varaliðinu hefur samt án efa verið ungverska nýstirnið Krisztian Nemeth, sem hefur skorað hvert markið á fætur öðru og gæti fengið hlutverk með aðalliðshópnum strax á næstu leiktíð eftir frábæra fyrstu leiktíð með Liverpool. Menn búast við að Insúa, Leiva og jafnvel Plessis og El Zhar fái stærri rullu með aðalliðinu næsta vetur en ef Nemeth skilar sér inn með einhverjum árangri gæti það reynst liðinu mikill styrkur – og gróði fjárhagslega – ef allavega einn af þessum strákum nær að verða að stjörnu í liði Benítez.

Það er bara allt að gerast og þessa dagana er mjög áhugavert að fylgjast með öllu slúðrinu. Það er ljóst að það er stórt sumar í vændum þar sem stórlið meginlandsdeildanna stóru munu setja allt á fullt við að ná ensku liðunum sem eru farin að drottna einum of reglulega yfir Meistaradeildinni, en einnig er ljóst að ensku liðin ætla ekki að sitja auðum höndum á þeirri grósku sem hefur átt sér stað þar. Liðin þrjú fyrir ofan Liverpool munu öll bæta sig, á meðan liðin rétt fyrir neðan munu gera sitt besta til að brjóta upp þessa fjögurra liða elítu í Úrvalsdeildinni. Það þarf ekki mikið til að Liverpool missi af lestinni og öll þau fyrirheit sem tímabilið sem senn líður undir lok hefur gefið fjúki út í bláinn. Það yrði enn meiri glæpur en sjálfsmarkið hans Riise.

Það eru athyglisverðir dagar framundan. Það er aldrei leiðinlegt að halda með Liverpool FC, og það á alveg jafn vel við nú og áður.

Sumarið 2008. Bring it on!

37 Comments

 1. frábær pistill frá þér 😉 með skemmtilegri pennum á netinnu 😉 Vonandi verða þessi eigendamál kláruð fyrir júli og þjálfarinn fái eitthvað af peningum til að keppa við topp 3 það er það eina sem ég hef segja 😉

 2. Þetta var eitthvað sem ég var búinn að gleyma, í prófavikum. Að lesa eitthvað sem maður hefur gaman af 😀

 3. Snilldar pistill hjá þér Kristján. Það er alltaf gaman að lesa það sem þú skrifar. Við þurfum klárlega að styrkja okkur með nokkrum mjög góðum (og þar af leiðandi dýrum) leikmönnum ef vð ætlum okkur að ná Enska meistaratitlinum. Vonandi fær Rafa það fjarmagn sem hann þarf til að svo geti orðið.
  Kærar þakkir fyrir frábæra síðu, ég fer inn á hana oft a dag til að fylgjast með því sem er að gerast.

 4. Var að lesa á RAWK að það er nánast staðfest að Sammy Lee komi inn sem aðstoðarmaður Rafa fyrir næsta season.

 5. Ég tek undir orð þín með munin á þeim nöfnum sem við erum “linkaðir” við og þau sem hin liðin eru linkuð við…

  Ég geri mér grein fyrir að hópurinn þarf að vera stór svo að við getum keppt um titilinn og í öllum keppnum , en þarf aðalliðið ekki að vera það líka ?
  Það eru margar veikar stöður sem þarf að styrkja með mönnum í amk sama styrkleikaflokki og þeir leikmenn sem eru í sömu stöðum hjá liðunum þremur fyrir ofan okkur…

  Ég er nú tiltölulega ungir, einungis ´82 model – og ég held að ég geti fullyrt að Liverpool FC hefur ekki haft almennilegan all-around bakvörð síðan ég hóf að fylgjast með liðinu á unga-aldri. Finnan komist næst því, en hann var meira þessi “solid” leikmaður frekar en leikmaður sem gat breytt gangi mála með upphlaupum sínum og svo framv. Svona svipað og Evra og Sagna gera fyrir sóknarleik síns liðs.
  Bakverði í þessu quality höfum við ekki haft lengi … eflaust ekki síðan við unnum deildina síðast.

  Svo þegar við erum komnir með sterkara lið (að mínu mati) en nokkru sinni fyrr í úrvalsdeildinni (ath, premierleague, ekki gamla) og virðumst loks vera að verða tilbúnir til að gera alvöru atlögu að titlinum, þá verðu …. við bara verðum að kaupa rétt – hver man ekki eftir svipaðri stöðu hjá Houllier, þegar sumarkaupin hans voru svo Diouf og Diao ?

  Barry er fínn leikmaður. Sem miðjumaður ? Kanski ef Alonso fer ….. ekki mikil aukning í gæðum þó að mínu mati, jafnvel miðað við spilamennsku Alonso síðust 2 tímabil… Ef Alonso fer ekki …. ætlum við þá að spila með 5 mann miðju næsta tímabil ? Þið verðið bara að afsaka en við höfum reynt að spila með miðjumenn úti á kannti of oft, og Barry er ekki kanntmaður fyrir fimmaura.
  En sem bakvörður ? Vissulega betri en þeir sem við höfum, en kæmist þó ekki í liðið hjá efstu þremur. Er að mínu mati svipað bil á milli Barry og Evra og Barry og Riise.
  Hvern þá ? Þennan svissneska sem kemur á frjálsum samningi frá Þýskalandi ? Ég hef ekki séð hann spila, skal viðurkenna það – en ég ætla að leyfa mér að efast um að hann sé í sama gæðaflokki og t.d Sagna. Er þá ekki til yngri leikmenn til þess að vera “squad-player”, við eigum jú að vera með svo sterkt unglinga- og varalið núna, ekki satt ?

  Hvað vantar okkur ?

  Markvörður = Nei, en líklega varamarkmann þó, nokkuð sama hver það verður.

  Miðverðir = Nei, Skrtel, Agger, Carra og Hyypia. Ein best mannaðasta staðaná vellinum

  Bakverðir = Já, Riise er rusl, hann myndi ströggla við að slá Warnock úr liði Blackburn. Finnan, kallinn hefur skilað sínu en virðist vera kominn á síðustu metrana. Arbeloa, hann er ágætis squad leikmaður, kemst ekki í liðið hjá top 3. Þetta er sú staða sem okkur vantar leikmenn hvað mest. Ekki fleiri 2-5.m punda meðalmenn takk.

  Kanntmenn = Babel og Kuyt eru þeir einu sem komast nálægt því að vera nægilega góðir. Pennant byrjaði frábærlega á tímabilinu, en kæmist hann í liðið hjá top-3 ? Nei. Hvað með Ísraelsmanninn ? Ágætur squad leikmaður, ekki 50 leikja maður á tímabili. Þarna vantar okkur KLASSALEIKMANN. Sem myndi þá um leið skapa samkeppni og einn af þessum þremur væri á bekknum í hvejrum leik.

  Miðjumenn = Gerrard, Alonso, Masch, Lucas greinilega ekki nóg, og með unga menn í vara- og unglingaliðinu (sbr plessi). Bæta Barry við ? Hann kæmist til að byrja með ekki í liðið hjá top 3 (nema kanski Arsenal eftir brottför Flamini). Og við erum einfaldlega fullir í þessari stöðu. Vel mönnuð, þurfum ekki fleiri leikmenn.

  Sóknarmenn = Torres, Kuyt og Nemeth á skilið séns. Ég tel ekki Crouch með því það er nokkið ljós að hann fer. Og ég tel ekki Voronin með því það er næstum því móðgun við Liverpool FC að telja hann með. Það svíður í augun að sjá hann fá að spreyta sig á meðan Nemeth fær það ekki… Þurfum einn leikmann hérna í viðbót.

  Sem sagt, þurfum tvo klassa bakverði ….. betri bakverði en þá sem við höfum haft síðustu 10 ár amk!

  Ætlar Benitez að spila með einn frammi og Gerrard fyrir aftan ? Þá vantar okkur klassamann inná miðjuna/kannt, þá meina ég mann í hæsta styrkleikaflokki , ekki “ágætis leikmaður” sem er oftar en ekki farþegi frekar en lestarstjóri.

  Ætlar hann að spila með tvo strikera ? Þá fáum við Steve inná miðjuna aftur, þurfum þá klassa mann með Torres, ekki voronin.

  Auðvitað er það fjarstæðukennt að halda að Benitez fáu bæði fjármunina til þess að kaupa þetta allt eða að þessir leikmenn séu falir …. fyrir utan það að þeir standi undir væntingu. En við þurfum samt að kaupa amk tvo alvöru menn. Einn bakvörð í heimsklassa, ásamt kanntmanni/2nd striker í heimsklassa.

  Ég vil ekki vera í baráttu við Everton, Pompey eða Aston Villa mikið lengur …. hvað næst ? Lucas Neil ævintýri aftur? Nei takk, ekki fleiri meðalmenn.

 6. Snilldar pistill KAR, verst að nú er ég líka með áhyggjur og er ekki að sjá hvernig þetta mun lagast!

  YNWA

 7. Tek undir comment hér að ofan, ávallt gaman að lesa pistla eftir þig Kristjan Atli!

  Óskalisti sumarsins:
  Eric Abidal – Stórskemmtilegur leikmaður sem bíður uppá meiri ógn vinstra megin með Babel, einnig sterkur varnarlega.
  Joaquin – Virkilega hæfileikaríkur hægri-vængmaður sem þekkir vel til Torres og Alonso og gæti eflaust skapað þónokkuð mörk fyrir Torres eða sett þau sjálfur. Bíður uppá stanslausa ógn og hraða á hægri kantinum sem okkur hefur oft skort.
  David Villa – Þarf að ræða það eitthvað frekar? Virkilega góður framherji, brjálaðar aukaspyrnur, gott auga fyrir færum og ætti auðvelt með að aðlagast á Englandi með alla þessa spánverja (spænskumælandi) í liðinu. Þekkir einnig vel inná Torres, enda framherjapar nr.1 í spænska landsliðinu.

  Bara þessi 3 kaup kosta sitt og eru kannski ekki raunhæf, eða hvað? Þessi nöfn væri ég allavega til í að sjá á Anfield næsta tímabil, í rauðum búning að sjálfsögðu!

 8. Þessir koma
  Sergio Aguero
  Gareth Barry
  Behrami
  Dani Alvés
  David Villa
  Klaas Jan Huntelaar
  Niko Kranjcar

 9. Eitt sem mér finnst samt að Liverpool megi bæta hjá sér og það er staða enskra leikmanna í liðinu. Það má reyna að fjölga þeim og þá koma Barry og Bentley sterkir inn. Þó að liðið eigi auðvitað að kaupa þá leikmenn sem eru í heimsklassa í hverja stöðu finnst mér persónulega að það megi líka alveg reyna að fá enska leikmenn í enskt lið. Finnst hálf fáranlegt að í leikjunum á móti arsenal þá voru 3 enskir leikmenn af 22. En það er auðvitað bara mín persónulega skoðun…

 10. hef trú á að koma 2 stórstjörnum og svo minni leikmenn.
  En hvað höfum við að gera við bakvörð í þýsku bundeslígunni sem er samningslaus hjá miðlungsliði , hann hefur ekkert að gera í lfc.
  Vill einnig sjá kantmann sem er virkilega tékníksur á borð við quaresma og alves á hægri vænginn þá er ég sáttur.
  Þarf að hreinsa til
  Vonum það bestra.
  YNWA

 11. Ég held að við getum allir verið sammála um að leikmenn sem eru orðaðir við Liverpool í fjölmiðlum endurspegla ekki endilega þá sem Rafa er að skoða! Hann á það nú til að tilkynna kaup á mönnum sem enginn hefur heyrt um áður eða enginn hefur heyrt orðaða við Liverpool áður, eins og t.d. Sissoko.
  Ég er einnig á þeirri skoðun að það að Chelsea skuli reglulega vera að kaupa leikmenn á 20-30 milljónir sem borga sig í 50 % tilvika (ok, dálitlar ýkjur en ég læt það eftir mér) segi meira um vitleysuna í þeim heldur en hvað Liverpool eyðir litlu í leikmenn. Snýst langmest um að finna leikmenn sem passa inn í liðið og leikstíl liðsins eins og Rafa hefur oft sagt.
  Leikmenn sem hafa floppað hjá þeim eru t.d. Schevchenko, Cole, SWP. Þetta eru allt mjög góðir leikmenn sem einfaldlega hafa ekki fundið sig hjá Chelsea eins og þeir gerðu hjá liðunum sem þeir voru hjá…

  Annars vil ég hrósa ykkur Einar og Kristjáni fyrir að halda uppi þessari frábæru síðu! Hún er svo oft uppfærð að maður stendur sig að því nokkrum sinnum á dag að tjékka hvort það sé ekki komið e-ð nýtt. 🙂

 12. Við þurfum hægri og vinstri bakvörð, kantmann og center. En það eru víst 2 á leiðinni í hægri bakvörðinn, Degen og Rafinha. Þeir sem ég væri til í væru Quaresma, Abidal, Henry/Villa og Rafinha. Þetta er alls ekki óraunhæft ef maður hugsar út í það, nú er það bara að bíða og vona.

 13. Nákvæmlega Geir #13, það þarf að ná réttu blöndunni og þarf hún ekki alltaf að vera dýr. Það er síður en svo sjálfgefið að menn geri liðið betra þótt þeir kosti 20 m. en vissulega er það líklegra.

  Hvað varðar karakterana þá held ég að kaupin á Torres séu svolítið lýsandi fyrir Benitez, þegar hann er að eyða svona miklum peningum kaupir hann ekki einhverja klikkaða egóista heldur svona solid stráka sem eru í lagi í hausnum og eru tilbúnir að spila fyrir heiðurinn á Anfeild. ( hum ekki þá svona cissé og El-Hadji Diouf gaura)

  Og annað, ég skil ekki alveg hvað menn eru að dissa þessa hugmynd með free transfer frá þýskalandi því síðasti maður sem við fengum þannig var nú Voronin sem hefur heldur betur markað djúp spor í sögu liðsins 🙂

 14. Skemmtilegur pistill. Maður heldur í vonina að óvænt útspil í eigendamálum færi Rafa digrari sjóði. Mér líst afar vel á Barry og vona að við náum frekar að kaupa fáa góða leikmenn en bland í poka af meðalmennum. Það sem stendur samt uppúr er fyrirhuguð sala á Riise. Ég á í stökustu vandræðum með að horfa á mína menn með kappann innanborðs. Ég ætla ekkert að fjölyrða um Voronin. Ef Crouch fer hljótum við að geta fest kaup á einum 20M striker.

 15. Já þetta er alltaf jafn skemmtilegur tími, en ég held að það verði keypt 2 stórstjörnur og þá tel ég að sjálfsögu ekki Barry með. en ef við erum að spá í það að kaupa Barry á 10m+ tvo leikmenn er það ekki málið að kaupa frekar lahm á einhverjar 15-18m.
  Það er eitt sem ég skil ekki við leikmanna kaupa liverpool þá erum við endalaust í þessum meðalmannakaupum, það er alveg ljóst að þú vinnur ekki deildina svoleiðis.
  Að vissuleiti treysti ég Rafa í þessum kaupum en ég gætla að vona að hann kaupi ekki neina meðalleikmenn eða svona squad-player, vill sjá leikmenn sem hoppa beint inní byrjunarliðið og styrkja það. Við erum með breiðan hóp og benitez hlýtur að sjá það, það þarf ekki að stækka hann heldur bæta starting eleven
  koma svo kaupa 2-3 með svipuð gæði og torres.

 16. Welcome back! Dálítið ólíkur sjálfum þér í þessum pistli en kannski er bara ekki ástæða til meiri bjartsýni.

  Ég hef trú á því að ef við löndum Barry og einum heimsklassa bakverði/kantmanni þá á Liverpool alveg jafn mikla möguleika á Englands meistaratitli eins og önnur lið! Svo lengi sem Alonso fer hvergi og Crouch ákveður að vera áfram. Ef annar hvor þeirra eða báðir fara þurfum við að styrkja hópinn enn frekar.

  En eitt er víst að næstu þrír mánuðir verða ákaflega fróðlegir.

  Annars er mig búið að dreyma fyrir því …. Liverpool fc. Englandsmeistarar 2009.

 17. Sæl öllsömul!
  Þegar talað er um gæði fjögurra efstu liðanna þá er samanburðurinn ekki gæfulegur þegar kemur að Liverpool. Chealse og Man. Utd eru klárlega með miklu sterkari hóp en Liverpool, en sennilega er Arsenal með svipaðan, kanski örlítið sterkari.
  Við skulum bara líta á samanburð á Liverpool og Chealse í seinni leiknum í meistaradeildinni á Stamford Bridge og taka fyrir stöðu fyrir stöðu og meta muninn á leikmönnum. Byrjum á markmönnunum og fikrum okkur upp völlinn.
  Mark: Pepe Reina -> Petr Cech = Ef þú ert ekki Liverpool-maður þá segir þú að Cech sé betri, við erum náttúrulega ekki sammála.
  Hægri bak: Arbeloa -> Essien = Essien klárlega
  Vinstri bak: Riise > Ashley Cole = Þurfum við nokkuð að ræða þetta
  Miðverðir: Carragher/Skrtel > Carvalho/Terry = Koma sennilega út á jöfnu og má koma með rök að C/T séu betri, hafa spilað lengur saman o.s.frv.
  Varnar miðja: Mackerano > Makalele = Prinsinn er að taka við af Kónginum, en Kóngurinn tók Gerrard í þessum leik og snýtti honum nánast, Gerrard sást lítið sem ekkert. (Ég segi kóngurinn vegna þess að Makalele er búinn að vera langbesti varnar-miðjumaðurinn í langan tíma en Mach er að taka við því hlutverki)
  Framliggjandi miðja: Gerrard > Lampard = Gerrard er klárlega betri leikmaður að mínu mati, en vinir mínir sem eru stuðningsmenn annara liða vilja meina að þeir séu álíka að getu.
  Miðja: Ballack > Alonso = Í dag er Ballack mun berti leikmaður, en með báða í sínu besta formi þá eru þeir álíka.
  Hægri kantur: Kuyt > Joe Cole = ég vildi í 100% tilvika vilja hafa Cole í mínu liði fram yfir Kuyt.
  Vinstri kantur: Benayoun > Kalou = Kalou klárlega betri leikmaður.
  Sókn: Torres > Drogba = Terres mun betri, en Drogba var klárlega betri í þessum leik eftir frábæra sálfræðitakta hjá hr. Benitez
  Skiptingar Liverpool: Hyypia, Pennant, Babel
  Skiptingar Chelsea: Malouda, Anelka, Shevchenko
  Dæmi nú hver fyrir sig hvort liðið hafi skipt inná sterkari leikmönnum.
  Þessi samanburður er nú ekki okkur í vil og því tel ég að það þurfi meira en tvö stór kaup til þess að við náum þessum liðum.
  Ég nenni ekki að bera saman Liverpool og Man. Utd mann fyrir mann en bet bent á að oft á tíðum sjáum við að þeir eru að skipta inn mönnum sem væru byrjunarliðsmenn í hvaða öðru liði sem er og þyrftu aldrei að verma bekkinn, og ekki bara einum heldur öllum 3 jafnvel.
  En maður lifir alltaf í trúnni, er orðinn vanur að segja á hverju vori: næsta tímabil verður okkar, og á hausti er maður að springa úr spenningi.
  kveðja
  Ninni

 18. Mikið til í þessu hjá þér Nonni..

  Reyndar eru vel flesitr af þeim sem ég tala um fótbolta við (ekki LFC eða Chelsea stuðningsmenn) sem segja að Gerrard sé mun betri leikmaður en Frank. Gerrard getur gert allt það sem Frank getur fyrir utan að vera mun betri sendingarmaður og meiri sprengikraftur í honum. Það sem Lamp hefur framyfir Gerrard er getan að nota leikmenn andstæðingsins sem svokallaða “batta” í skotum sínum, sem þá breytir stefnu boltans og endar í netinu, alveg merkileg tækni.

  En bottom-pointið er að til þess að skáka bestu liðunum þurfum við bestu leikmennina, sem auðvitað verða að henta okkar liði. En við erum bara búnir að reyna það of mikið og of lengi að kaupa Leonhardsen, Riise, Benayoun, Voronin og þessháttar kalla sem eiga að vera “ágætis leikmenn” …. eigum við þá ekki frekar að fara að nota unga leikmenn úr unglingaliðinu eða varaliðinu ?

  Við þurfum ekki fleiri ágætisleikmenn…. við þurfum virkilega góða leikmenn. Fjórða sætið … fjórðungsúrlit í CL … fjórða verðmætasta liði …. fjórðu bestu leikmennina ? Allavega myndi Barry ekki komast í lið Chelsea / Utd. Og menn meiga vera frá tunglinu mín vegna séð ef þeir eru nægilega góðir, þurfa ekki að vera enskir. Amk ekki fyrr en það stefnir í að Blatter fái sínu framgegnt með 5-6 reglunni.

 19. Já, góður pistill KAR en ein vitleysa í honum sem ég sé í fljótu bragði, Liverpool vann ekki Norður-umdæmiskeppni varaliða í vikunni, voru löngu búnir að því. Þeir tóku landstitilinn, Villa var búið að vinna Suður-Umdæmiskeppnina og Liverpool þá nyrðri, en þetta var sem sagt úrslitaleikur um landstitilinn. Skiptir kannski ekki höfuð máli, eða jú, það skiptir höfuð máli 🙂

  Mönnum er tíðrætt um að Rafa þurfi að hætta að kaupa meðalmenn og þurfi að fara að kaupa menn sem fara inn í byrjunarlið. Hvernig hafa síðustu kaup hans verið? Torres, Babel, Maschareno, Skrtel… er þetta ekki vísbending um að hann sé einmitt að kaupa leikmenn sem gera tilkall til aðalliðsins? Eru þetta allt “meðalmenn”? Ja, ekki í mínum huga. Menn geta hreinlega ekki metið kaupin á leikmönnum þetta sumarið fyrr en þau hafa átt sér stað. Það talaði einhver hérna að ofan um að Barry kæmist til dæmis ekki í lið Man.Utd, Arsenal og Chelsea. Ég er bara gjörsamlega ósammála því, hann kæmist í liðið hjá þeim öllum sem þessi holding midfielder. En það er bara mitt álit. Man.Utd eru með Carrick, og ég hreinlega tel Barry betri en hann. Arsenal eru með Flamini, sem er að fara og Chelsea eru með Makalele (sem spilar æ minna) og Obi Mikel. Svei mér þá, ég held að eina liðið sem Barry kæmist ekki í byrjunarlið hjá á miðjunni sé einmitt Liverpool.

  Ég er svo algjörlega sammála því að við þurfum að styrkja bakvarðarstöðurnar, helst báðar. Ef Crouch fer, þá þurfum við auka striker og ég hefði viljað sjá mjög öflugan framsækinn miðjumann/kantmann hægra megin, helst einhvern sem getur spilað bæði stöðuna sem Kuyt hefur verið að spila og svo Babel, þannig að þeir geti svissað á vængjum.

  Ninni ber saman Liverpool og Chelsea hér að ofan. Að mínu mati er Chelsea með lang sterkasta hópinn í Evrópu og mestu breiddina. Það er því vonlaust að bera sig saman við það lið, enda kostar það nú enga smáaura. Þeir eru með fringe player að nafni Sheva sem einn og sér kostaði nánast það sama og Babel og Torres gerðu hjá okkur. Held að það segi meira en mörg orð og menn verða hreinlega að horfa á þá staðreynd að Rafa mun aldrei geta eytt svipuðum fjárhæðum og stjórar Chelsea hafa fengið að eyða.

  Ég væri til í að sjá þá Voronin, Kewell og Riise hverfa á braut, og jafnvel Finnan líka. Öðrum væri ég til í að halda. Það verða stórir bitar á markaðinum í sumar, ég býst við því að einhverjir af Villa, Joaquin og Silva hjá Valencia gætu farið frá þeim, eins reikna ég með að Dani Alves eigi eftir að skipta um lið og svo væntanlega nokkrir aðrir. Ef maður sleppir sér í draumaheiminn þá væri ég alveg til í að sjá Lahm, Alves, Barry, Villa og Silva koma í sumar. Það verður samt ALDREI, enda verða þeir dýrir og við munum væntanlega ekki kaupa fleiri en 3 virkilega dýra menn. En einhverjir 3 af þessum, þá væri ég bara assgoti sáttur.

 20. Vel mælt KAR, líkt og endranær. Hef í raun engu við þetta bæta eftir að SSteinn kom með sitt innlegg. Góða helgi.

 21. Ég hef það nú eftir ábyggilegum heimildum að Sammy Lee sé í viðræðum við Liverpool. Þegar hann var spurður að því á Orry’s bar síðustu helgi þá brosti hann bara og sagði “næsta spurning”.

  En ég er alveg á því að við þurfum 4 stóra leikmenn í sumar.

  Út: Riise(4m), Voronin(500k)), Crouch(12m), Finnan(500k) og svo spurning með Alonso(15m)

  Inn: Abidal(6m), Villa(20m), Rafhina(6m), Silva(20m), og svo spurning með Barry(10m).

  Ég tel að Barry komi ekki nema Alonso fari. Samkvæmt þessu er þetta 17m í kassann á móti 52m í leikmenn….eyðsla uppá 35m. …gefum okkur að Alonso fari og Barry komi þá er þetta eyðsla uppá 30m…raunhæft?

  Það getur vel verið að þetta sé útúr kú…svo getur vel verið að Pennant, Benayoun eða einhver annar vilji fara, þá þarf að kaupa meira.

 22. Frábær pistill Kristján, þú hittir naglan á höfuðið.

  Það er svo sem ekkert ný speki að betri leikmenn þýðir betra lið. Ef við skoðum kaup toppliðanna síðasta sumar og árangur þeirra í vetur þá á þetta við (Inter?). Best mönnuðu liðin í evrópu eru að vinna sínar deildir. Ef við skoðum fjórar sterkustu deildirnar í evrópuboltanum þá er niðurstaðna þessi :

  Real Madrid vann sannfærandi sigur í spænsku deildinni, síðasta sumar voru keyptir mjög sterkir og dýrir leikmenn sem spilað hafa lykilhlutverk í árangri þeirra í vetur. Pepe, Sneijder, Robben, Heinze, Drenthe og Metzelder voru allir keyptir þrátt fyrir að Real hafi unnið spænsku deildina síðasta vetur. Ef maður skoðar kaup Real síðustu 3 árin þá eru bara Raul og Guti þeir einu sem spila í liðinu í dag sem ekki voru keyptir á þessum árum.

  Bayern Munich rúllaði upp þýsku deildinni í vetur, það er fyrst og fremst þeim leikmönnum sem keyptir voru síðasta sumar að þakka. Ribery, Luca Toni og Klose voru keyptir fyrir mikinn pening ásamt Altintop. Ribery og Toni hafa verið í algjörum sérflokki í vetur, klárlega bestu leikmenn deildarinnar.

  Inter er með einn besta leikmannahópinn í evrópuboltanum og hafa unnið ítölsku deildina síðustu tvö tímabili, stefnir allt í þriðja titilinn á þremur árum. Þeirra stærstu kaup voru fyrir tímabilið 2006/2007 enda rúlluðu þeir upp deildinni þann veturinn. Síðasta sumar bættu þeir við sig nokkrum sterkum leikmönnum sem dæmi Chivu og Maniche. En fyrst og fremst voru stóru kaupin sumarið 2006. Enda má segja framfarirnar í vetur hafi ekki verið miklar hjá þeim.

  Manu unnu ensku deildina 2006/2007 en þrátt fyrir það eyddu þeir um 80 milljónum punda í nýja leikmenn fyrir þennan vetur. Teves, Anderson, Nani og Hargreaves voru keyptir og má með sanni segja að það hafi borgað sig. Sé ekki að manu væri í sömu stöðu í dag án þessara leikmanna.

  Varðandi okkar elskulega lið þá er beinagrindinn mjög góð í dag, Reina, Carra, Skrtel, Macherano, Gerrard og Torres. Okkur vantar ekki svo mikið uppá, bakvarðarstöðurnar eru klárlega hausverkur nr. 1 og því næst hægri kantstaðan. Ég sé því miður ekki Rafa fá það fjármagn sem þarf til að landa toppleikmönnum eins og staðan er í dag í eigendamálum félagsins. Í draumheimi gætu Alves, Ribery, Villa og fleiri slíkir komið í sumar, en því miður er raunveruleikinn annar eins og mál standa í dag.
  Eina leiðin til að bæta liðið er að kaupa betri leikmenn en fyrir eru. Vonandi ná allir aðilar sáttum sem fyrst svo sumarið verði ekki vonbryggði fyrir okkur Liverpool stuðningsmenn.

  Kv
  Krizzi

 23. Tek undir orð síðasta ræðumanns, spot on.

  Maður getur samt tekið þessum eyðsluyfirlýsingum Man Utd og Chelsea með smá fyrirvara. Þeir eyddu t.d. 17m í Nani, 17m í Hargreaves, 30m í Shevchenko og 15m í Malouda, og miðað við árangur þessara mann í deildinni þá myndi ég ekki vilja sjá neinn af þeim í Liverpool.

  Svo má heldur ekki gleyma því að Ronaldo er orðaður við brottför frá Man Utd fyrir metfé, sem og Drogba frá Chelsea (og jafnvel Lampard ef Mourinho tekur við liði í sumar). Þannig að þessi lið eru kannski að fara að eyða af því þau eru að fara að missa lykilmenn.

 24. Á þeim tíma sem ég ætlaði að vera sammála síðasta ræðumanni komu nokkur komment, ég hélt sem sagt að ég væri með komment nr. 23.

  en Ninni, eitt sem þú sagðir “Miðja: Ballack > Alonso = Í dag er Ballack mun berti leikmaður, en með báða í sínu besta formi þá eru þeir álíka.”

  Ef Ballack er í sínu besta formi, þá er hann í svipuðum klassi og Gerrard og Lampard, og þ.a.l. mun betri Alonso (þótt þeir séu reyndar öðruvísi leikmenn).

 25. Alltaf gaman að lesa “áhyggjur” þínar, Kristján 🙂 Ég vil samt minna menn á að þótt Chelsea myndi eyða 100 MILLJÖRÐUM í sumar að þá geta þeir bara stillt upp 11 leikmönnum í hverjum leik eins og við hin, “venjulegu” liðin. Það eina sem maður biður um hjá Benitez í sumar er að kaupa GÆÐI en ekki magnið; ef hann gerir það þá er alveg sama hvað hin liðin eyða því við verðum búin að fylla upp í holurnar hjá okkur.

 26. Við skulum nú vona að árangur á knattspyrnuvellinum sé ekki farinn að snúast eingöngu um peninga og vonum að Liverpool verði liðið sem sannar það.

 27. Ég er kominn á þá skoðun að það eigi ekki að selja Alonso. Fáum Barry samt til liðsins, það er bara hið besta mál. En það má ekki koma róti á þær stöður í liðinu sem eru vel mannaðar. Þær stöður sem eru vel mannaðar í dag eru mark, 2 miðvarðarstöður, 2 miðjumenn, 1 sóknartengiður og 1 sóknarmaður. Með öðrum orðum snýst sumar, að mínu mati, um að auka gæðin í bakvarðar og kant/kantsenter stöðunum. Auk þess má kaupa annan sóknarmann til að spila með eða leysa Torres af í ákveðnum leikjum.

  Þess vegna á ekki að selja Alonso, hann er lykilmaður. Við erum með hann, Masch og Gerrard inni í miðjunni og þetta eru allt frábærir leikmenn sem hafa þó mjög ólíka eiginleika. Það sem Alonso, á góðum degi, hefur fram að færa hafa aðrir leikmenn í liðinu ekki. Hann er sá sem kemur taktinum í spili liðsins í gang og sér um að “smyrja” hjólið í uppspilinu. Svoleiðis maður er liðinu nauðsynlegur. Og eins og Maggi #7 nefnir þá verða þeir Masch og Lucas (sem ég hef mínar efasemdir um) ekki með í byrjun leiktíðar.

  Ég vil sjá 3-4 sterka leikmenn koma til liðsins sem bæta þær stöður sem ég tel þurfa að bæta. Síðan vil ég fara að sjá meiri árangur af unglingastarfinu. Varaliðið, sem er í raun unglingalið, rústaði varaliðsdeildinni og það hljóta 2-3 leikmenn þar að vera tilbúnir til að koma inn í aðalliðið af meiri krafti en verið hefur. Þó ekki nema til þess að við þurfum ekki uppfyllingarefni eins og Voronin.

  Ég tel Rafa vera á réttri leið. Ef honum tekst að auka gæðin í þessum stöðum og vera með þéttan 20 manna hóp í upphafi leiktíðar þá eigum við góðan séns næsta vetur!

 28. Ég sakna gamla góða Pollýönnu Kristjáns. Núna er það eintómt þunglyndi hjá honum. 🙂

  Annars er ég nokkuð bjartsýnn fyrir sumarið. Skoðið bara færslurnar frá því síðasta sumar. Það var ekki fyrr en 20.júní að ég setti inn fyrstu færsluna um að Fernando Torres væri efstur á óskalistanum hans Rafa (sjá hér: http://www.kop.is/2007/06/20/13.30.20/ ). Fram að þeim tíma vorum við að tala um Diego Milito, Malouda og einhverja aðra. Þannig að ég held að það sé ekkert komið fram hverjir eru aðalmennirnir í sumar. Svo er líka EM, sem getur tafið alla hluti einsog gerist vanalega.

  (gaman að lesa líka kommentin við Torres færsluna einsog):

  “Mig langar til að gráta. Arftaki Albert Luque í ensku deildinni kominn..” og “Spánverjar, og nánast allilr latinos í enska boltanum hafa iðulega skitið upp á bak” og “Ég vildi þvílíkt fá Martins”

  🙂

  Kveðja frá Sýrlandi.

 29. Það er verst með þessa amerísku vanvita sem keyptu félagið. Held þó að Gillete sé nokkuð heill. Þessi Hicks virkar slímugur upp fyrir haus.
  Hvernig gátu PARRY OG MOORES feilað svona bigtime í þessu máli?
  Hvað gerði MOORES við peninginn sem hann fékk fyrir klúbbinnn???
  Gat hann ekki selt 49% til einhvers ekta liverpool manns eins og steve morgan??…látið hann koma með pening inn í klúbbinn til að byggja völl og kaupa menn. Hvað lá karlskrattanum MOORES á að selja. Held nú að honum hafi ekkert vantað pening. Ég bara átta mig ekki á þessu dæmi.
  Það er eitthvað meira í þessu sem ekki liggur á borðinu. Kannski er MOORES spilafíkill og var alltaf að veðja hjá sjálfum sér..kannski er PARRY
  BDSM fíkill sem þorir ekki að taka ábyrgð. Maður bara veltir þessu fyrir sér.

 30. Fyrst að Einar Örn er nú að vitna í mig frá því síðasta sumar þá ætla ég aðeins að fá að verja mig því það var vitnað rangt í mig…af sjálfum mér 🙂

  Ég viðurkenni það alveg að ég var ekki yfir mig hrifinn af því að fá Torres á sínum tíma enda fannst mér hann vera frekar hæpaður hjá Atleti og hafði ekki heillað mig þar. Kom mér svo feykilega á óvart í vetur hversu solid gaur hann er bæði innan og utan vallar og hvað hann aðlagaðist fljótt og vel. Tek margt af því sem ég sagði upprunalega til baka og skammast mín ekkert fyrir það.

  Í málsbætur þá held ég nú á sínum tíma hafi verið vitnað hér á síðunni líka í grein sem ég skrifaði síðasta sumar um kaupin þar sem koma fram ástæður mínar fyrir að efast um hann. Bendi m.a. eins og rétt er að Liverpool var að leita sér að 25 marka striker á tímabili en hann hafði aldrei skorað meira en 13-14 á ári. Bendi líka á að hann hafi eiginleika sem gætu hins vegar gert hann að stjörnu á Englandi.

  Smá afsökun en ég viðurkenni að þetta var töluverð bakskita í fyrra…blessunarlega!

Crouch, Riise og Kewell

Leikurinn verður sýndur á Stöð 2 Extra 2