Javier Mascherano

Síðustu vikur hefur Liverpool liðið verið að leika fínan fótbolta að mínu mati. Liðið tapaði síðasta leik gegn Barnsley sem var 16. febrúar, hefur spilað 6 leiki síðan þá og unnið þá alla. Fernando Torres hefur skorað 8 mörk í þessum 6 leikjum og hefur fengið mikla athygli sem er ekkert nema eðlilegt enda maðurinn að spila eins og engill. Steven Gerrard hefur einnig spilað mjög vel í hlutverki sínu að mata Torres og hugsa lítið um varnarvinnu í staðinn. Varnarvinna er puð, í hana þarf kraft, áræðni, hraða og menn þurfa að vera geggjaðir í þakinu og vera tilbúnir að fórna sér sama hvort það er 1. mín eða 90. mín. Þarna lýsti ég Javier Mascherano, uppáhaldsleikmanni mínum í Liverpool í dag. Leikur Argentínumannsins fer batnandi og batnandi með hverjum leiknum. Áður en ég renn stuttlega yfir feril þessa unga miðjumanns langar mig að rifja upp tvö atvik sem standa uppúr á síðustu vikum þegar kemur að baráttu.

Við erum stödd undir lok leiks gegn Inter á San Siro. Inter þurfti að skora 4 mörk til að komast áfram og leikmenn voru farnir að labba um allan völl, leikmenn beggja liða. En þó voru ekki allir labbandi. Mascherano elti Stankovic út að hornfána af krafti, tæklaði glæsilega boltann og náði honum af Stanko, hljóp af stað tilbúinn að snúa vörn í sókn þegar Stanko kemur á eftir honum og straujar hann aftan frá. Það besta við þetta atvik var að Mascherano stóð upp og gékk í burtu, enginn pirringur, ekkert vesen.

Seinna atvikið var fyrir nokkru síðan þegar að Masche setti höfuð sitt fyrir þrumuskot andstæðinganna sem stefndi að marki Liverpool. Ég stóð upp í stofunni og klappaði fyrir honum, þetta sér maður leikmenn ekki gera og þetta er sérstakt.

En mig langaði að kynna mér feril kappans og ákvað svo í framhaldi að því að deila honum með ykkur lesendum. Javier Mascherano fæddist 8. júní 1984, sem gerir hann 23. ára gamlan í dag. Hann kom upp í gegnum yngri flokka starf River Plate í Bueno Aires í Argentínu. Hann lék sinn fyrsta leik fyrir River í August 2003, þá 19 ára gamall. Það tímabil vann River Clausura Championship og nú voru lið eins og Real Madrid og Deportivo farin að renna hýru auga til Mascherano. River hafnaði öllum tilboðum og vildu halda í miðjumanninn unga. Næsta tímabil (2004-2005) átti River ekki góðu gengi að fagna og Mascherano var keyptur fyrir tæpar 7,5 milljónir punda til brasilísku risanna Corinthians. Eftir einungis 9 leiki hjá nýja klúbbnum meiddist Mascherano og var frá út tímabilið. Hann kom sterkur til baka og evrópsk lið voru farin að spyrjast fyrir um hann, en hann vildi hjálpa liði sínu að forðast fall þar sem Corinthias gékk hræðilega í deildinni. En nokkrum klukkutímum áður en félagaskiptaglugginn lokaðist sumarið 2006, voru Mascherano og liðsfélagi hans Carlos Tevez gengnir til liðs við West Ham.
Hjá West Ham fékk Mascherano lítið að spila þar sem félagið þurfti að greiða óuppgefna fjárhæð fyrir þá leiki sem hann spilaði. Argentíski landsliðsþjálfarinn, Alfio Basile, sagði að hann vonaðist til að ungi miðjumaðurinn myndi yfirgefa enska félagið sem fyrst svo hann gæti bætt sig sem leikmaður og fengið spiltíma. Þann 16. janúar 2007 fékk FIFA beiðni frá Liverpool um að fá Mascherano á láni frá West Ham.
Reglur FIFA segja hins vegar að leikmaður megi ekki spila fyrir fleiri en 2 félög frá 1. júlí – 30. júní, en Masche hafði spilað fyrir bæði West Ham og Corinthias á þeim tíma. Nú gerðust hlutirnir hratt, hann fékk leikheimild fyrir Liverpool bæði í ensku deildinni og í Meistaradeildinni. Hann spilaði sinn fyrsta leik fyrir Liverpool á móti Sheffield Utd. þann 24. febrúar og bæði Rafa Benítez og Steven Gerrard lýstu hrifningu sinni á leikmanninum eftir viðureignina. Mascherano stimplaði sig fljótt inn í lið Liverpool. Hann spilaði í stórum leikjum í Meistaradeildinni og var m.a. valinn maður úrslitaleiksins gegn AC Milan, á opinberri heimasíðu Liverpool. Nú á vordögum, nánar tiltekið þann 29. febrúar skrifaði svo Mascherano undir fjögurra ára samning við Liverpool. Liverpool keypti hann á rúmar 18 milljónir punda af Media Sports Investments.

Þegar maður rennur yfir landsliðsferil Mascherano þá kemur í ljós að hann hafði ekki enn leikið með River Plate þegar hann spilaði sinn fyrsta A-landsleik fyrir Argentínu í júlí 2003. En hann er lykilmaður í Argentíska landsliðinu í dag á miðjunni og mikilvægi hann sést þegar maður rennur yfir tölfræði hans t.d. á HM 2006. Þar spilaði hann hverja einustu mínútu fyrir landslið sitt. Hann var kosinn besti leikmaður Argentínu af liðsfélögum sínum í Copa America árið 2004 og 2007. Hann vann síðan Ólympíuleikana árið 2004 með Argentínu.

Það er ótrúlegt að renna yfir vægast sagt furðulegan feril kappans. Hann er dýrkaður af stuðningsmönnum Liverpool og er einn alduglegasti knattspyrnumaður sem ég hef séð spila. Hann tæklar mikið en ólíkt öðrum tæklurum í enska boltanum í dag, þá vinnur hann boltann mjög oft án þess að dómarinn flauti brot á hann, það er hæfileiki. Ég hreinlega elska þennan leikmann, hann er orðinn lykilmaður hjá okkur og ég er feginn því að hann sé í Liverpool.

21 Comments

 1. Góð samantekt, og ég get tekið undir orð þín um að hann er orðin einn af mínum uppáhalds leikmönnum í boltanum í dag, og var ég orðin frekar stressaður með að við myndum klúðra kaupunum á honum, miðað við þann tíma sem fór í það.

  Frábært myndband af kappanum, endilega kíkið á það.
  http://www.youtube.com/watch?v=lm45jyf9gpk

  Hann er utan sviðsljósið oft á tíðum skorar ekki mikið og er ekki með þessar 40m töfra sendingar sem menn sjá oft frá Gerrard, en þið getið alltaf verið viss um að hann gerir sitt og gott betur.
  Ég held að ég geti sagt að hann sé einn af betri afturliggjandi miðjumönnum í heiminum í dag, og það aðeins 23.ára gamall.

 2. Er að fara til England um helgina til þess að horfa á leikinn og ætla ég að fá mér Mascerano búning því hann er orðinn kóngurinn.

 3. Flottur pistill. Maður er að sjá það betur og betur hvað hann er mikilvægur liðinu. Frábært að hafa tryggt sér þennan kauða. 23 ára og sennilega besti ,,defensive” miðjumaðurinn í boltanum í dag. T.a.m. miklu betri en Carrick, það er óumdeilt. Hinn nýji Makelele. Hef trú á að hann verði Liverpool jafn mikilvægur og Makelele Chelsea.

 4. Ógeðslega gott video… það verður meirasegja fyndið á köflum að sjá litla djöfulinn koma hlaupandi og maður veit að hann er að fara að henda sér niður og tækla. Hann á klárlega stóran þátt í velgengninni undanfarið.

 5. Algerlega minn uppáhaldsleikmaður í dag. Alger snillingur.

 6. Takk fyrir frábæran pistil um þennan snilldar dreng sem J.M. er.
  Áfram LFC.

 7. Takk fyrir frábæran pistil Siguróli. Og brjánn…. get a life.

 8. Ég stóð upp í stofunni og klappaði fyrir honum, þetta sér maður leikmenn ekki gera og þetta er sérstakt.

  Í alvörunni? Varstu kannski einn að horfa á leikinn til að toppa þetta?

  Annars stórkostlegur leikmaður, og sannarlega ótrúlegt að West Ham hafi ekki getað notað hann. Lýsir kannski best þessum fávitum sem stýrðu liðinu að nota einhverja gelda leikmenn bara af því þeir eru reynslumeiri og innlendir í staðinn fyrir besta varnarmiðjumanninn í deildinni, og núna í heiminum.

 9. Mascherano á ótrúlegan mikinn þátt í velgengni LFC að undanförnu og er að spila gríðarlega stórt hlutverk hjá liðinu. Það verður auðvitað ekki tekið af Gerrard og Torres að þegar þeir leika líkt og þeir eru að gera núna þá er erfitt fyrir LFC að vinna ekki leiki. Hins vegar finnst mér akkerið á bak við þetta allt saman vera maðurinn sem vinnur þá vinnu sem þarf að vinna og enginn annar gerir, Javier Mascherano.

  Þrátt fyrir að vissulega séu eflaust menn menn hérna sem skilja ekki af hverju er verið ð eyða pening í þennan mann þá er hann er hinn fullkomni maður í þessa stöðu. Vinnur og vinnur í 90 mín og leggur allt að veði. Ólíkt svo Sissoko þá kann þessi fótbolta, sem þykir víst nauðsynlegt hjá stórliði í knattspyrnu.

  Þegar Gerrard var gríðarlega andlaus fyrr í vetur, sem og lang flestir í liðinu, þá var þessi gæi að berjast og leggja allt undir. Hann gerir það alltaf og þess vegna er hann jafn ógeðslega mikilvægur og hann er orðinn.

  Í framtíðinni mun Mascherano aldrei fá verðlaun fyrir að vera framúrskarandi fótboltamaður, enda valið í það samkvæmt hlutum sem minna máli skiptir finnst mér oft. En hann mun alltaf vera sá maður sem skiptir sitt lið hvað mestu máli. Einn mikilvægasti maður hvers liðs. Af hverju? Jú því hann leggur sig allan fram, setur fordæmi og mun gera ALLT til þess að liðið nái árangri.

 10. Vel mælt og hjartanlega sammála þér.

  Mascherano er góður og virðist bara ætla að verða betri (hvernig sem það er hægt).

 11. Inní þessu 18m punda kaupverði er lánssamningur hans og launapakki. Mér skylst að kaupverðið sjálft sé einhverjar 7-8m…sem er auðvitað bara grín.

  Gullmoli!

 12. Ómetanlegur leikmaður – í mörgum leikjum okkar er það hann sem er það sem skilur á milli sigurs og taps. Ég átta mig á að það eru Torres og Gerrard, sem hirða oftast kreditið fyrir sigrana okkar, en án Mascherano og Reina værum við í allt öðrum málum en við erum í dag. Í mínum huga eru það okkar öflugustu leikmenn á þessu sísoni – auk Torres – enginn vafi.

 13. Algjörlega sammála Olli. Þessi leikmaður er bara algjör demantur og gullmoli, ótrúleg yfirvegun og færni í leik hans, leikskilningur góður og hann á bara eftir að verða betri. Það kannski segir sitt um álit á honum JM, að ég las grein á netinu í gær um að kannski væri rétt í stöðunni að gera JM að fyrirliða og athuga hvort það myndi hjálpa Gerrard, hvað varðar spilamennskuna.

  Einhvern veginn efast ég um að Gerrard láti frá sér fyrirliðabandið 🙂 en ég hef trú á því að JM sé framtíðarfyrirliði hjá okkur.

  Flott samantekt Olli, þú ert toppur!

 14. Sammála og mjög flottur pistill.
  Ég var á Liverpool-Arsenal fyrr í vetur og seint liðið á leikinn og Mascherano var búinn að vera að tækla allan leikinn. Hann meiðist lítillega við vítateig andstæðinganna og Arsenal fer af stað í skyndisókn. Macherano lá ekki og beið eftir að boltanum væri sparkað útaf, hann spretti eins og fætur toguðu og var fyrsti maðurinn til baka, á meða t.d. Riise “frændi minn” (því hann er rauðhærður) joggaði til baka.

  Hefði keypt mér búning með hans nafni ef hann hefði verið orðinn Liverpool leikmaður á þeim tíma.

 15. Glæsilegur pistill Olli og er ég hjartanlega sammála þér með mikilvægi þessa manns. Ég gladdist mjög að sjá viðtal við Zanetti Inter mann í dag því þar kom fram hvað hann er kallaður félaga á milli og er þvílík stytting á löngu nafni. Ég mun nota þetta óspart í framtíðinni 🙂

  “I knew when we drew Liverpool it would be a difficult game because they have Gerrard and Torres, but because they have Jav too. He is hard to get past, and he makes them strong.”

 16. Sælir félagar
  Góður pistill Siguróli og takk fyrir það. Argentíska dvergtröllið er í mínum huga kominn upp að hinni lifandi goðsögn Carragher sem hefur verið minn uppáhaldsleikmaður um árabil.

  Í mínum huga standa þeir jafnfætis og þangað hefur enginn leikmaður komist fram að þessu. Í mínum huga hefur Carra skipað sess sem til dæmis Gerrard hefur ekki náð og Torres ekki heldur. Þó eru þessir menn snillingar.

  Hinsvegar hefur Mascherano heillað mig svo að hann er búinn að ná því að standa jafnfætis þessu goði mínu. Það finnst mér magnað og bjóst reyndar ekki við því að nokkur næði því meðan Carra er í fullu fjöri.
  Það er nú þannig

  YNWA

 17. Algjörlega sammála þessu. Flott yfirferð.

  Drengurinn er kominn í Guðatölu hjá mér! Elska þennan leikmann, við eigum 3 World Class leikmenn í dag að mínu mati, áttum bara 1 í fyrra! Svo er nátturulega spurning hvort maður taki ekki Reina inn í það líka, hann er svo sannarlega World Class markvörður!

  Kv. úr Liverpoolborg.

 18. Ég myndi hata að spila á móti honum… hann lætur andstæðinginn aldrei nokkurntímann vera í friði. Hann djöflast í þeim endalaust, óþolandi fyrir mótherjann geggjað fyrir Liverpool.

  Krissi

Stöð 2 Sport 2

Dregið í 8-liða úrslit CL (Uppfært: ARSENAL!!!)