Newcastle á morgun

Það er ekki langt á milli leikja þessa dagana, og í rauninni er það bara gott mál á meðan liðið er á svona góðu skriði. Það er ansi stutt á milli hláturs og gráturs í boltanum. Fyrir ekki svo löngu síðan duttum við út úr bikarnum gegn Barnsley og þá var ekkert nema svartnætti í kortunum hjá Liverpool FC. Ekki löngu síðar þá líta hlutirnir mun betur út. Þrír síðustu leikir í deildinni hafa endað með sigri og ekkert tap í síðustu 5 leikjum. Þó svo að það sé fjarri lagi að við séum að fara að blanda okkur í baráttuna um titilinn, þá engu að síður eru ekki nema 12 stig í toppsætið. Það eru þó engar líkur á að öll 3 liðin sem fyrir ofan okkur eru, séu að fara að misstíga sig svo illa það sem eftir er tímabils að við förum að blanda okkur í baráttuna. Þessa stundina er raunveruleikinn sá að við erum í hörku baráttu við bláliðana úr Liverpool borg um 4 sætið í deildinni.

Ég hef löngum kallað lið Newcastle “næstumþvílið”. Þeir eru oft sterkir á pappír en ekki á velli og það er alls engin undantekning á því á þessu tímabili. Ég skil ekki ennþá þessa ráðningu á Kevin Keegan, sér í lagi þar sem hann hefur verið algjörlega frá boltanum í nokkuð mörg ár. Hann bíður eftir sínum fyrsta sigri með liðið í deildinni og vona ég svo sannarlega að hann sé ekki að koma í næsta leik. Ég hef þó alltaf líkað við lið Newcastle, þeir eru með öflugan stuðningsmannahóp og hafa löngum verið skemmtilegir á að horfa. Michael Owen er orðinn fyrirliði þeirra og það finnst mér segja meira en mörg orð. Í mínum huga hefur hann aldrei verið þessi svokallaði “leader”. Hann má nú muna fífil sinn fegurri, en ætti í rauninni að vera á hápunkti ferils síns. Einhverra hluta vegna þá varð hann aldrei jafn vinsæll meðal stuðningsmanna Liverpool eins og hann hefði í rauninni átt að vera. Það eru eflaust margar skýringar á því, en ekki ætla ég að fara að grafa ofan í þær núna.

Newcastle hafa ekki náð sigri í síðustu 11 leikjum í deildinni, tapað 8 og gert 3 jafntefli. Þeir eru með heil 23 mörk í mínus og hafa fengið á sig hvorki meira né minna en 53 mörk á tímabilinu. Aðeins Reading (55) og Derby (57) hafa fengið á sig fleiri mörk. Það eru aðeins Derby sem eru með fleiri mörk í mínus heldur en lið Newcastle. Þeirra markahæsti maður er Martins með 6 mörk, svo Viduka með 5 og svo Owen með heil 4 kvikindi. Hjá okkur er Fernando Torres lang markahæstur með 18 mörk, og svo kemur Stevie G með 9. Joey Barton fær ekki að spila á morgun, þar sem hann á dómsmál yfir höfði sér í Liverpool og það er eina borgin sem hann má ekki spila í. Þeir Mark Viduka og Emre ættu að vera klárir í slaginn eftir meiðsli, en sömu sögu er ekki að segja af Shay Given og Carr. Hjá okkar mönnum er Mascherano tæpur eftir árásina úr síðasta leik og ekki er vitað með stöðuna á þeim Finnan og Voronin. Daniel Agger er síðan mjög nálægt endurkomu í liðið.

Þá að okkar mönnum. Rafa hefur lítið verið að breyta liðinu undanfarið og virðast menn vera að ná að spila sig betur og betur saman. Hann hefur mest verið að rótera með bakverðina, og það er af nauðsyn frekar en free will. Ég vil sjá sem minnstar breytingar fyrir leikinn á morgun (surprise, surprise). Reina stendur að sjálfsögðu á milli stanganna, en hvernig verður vörnin? Hún var að virka vel í síðasta leik og reikna ég bara með henni óbreyttri. Arbeloa er að mínum dómi alveg klassa bakvörður og ég vil sjá hann í hægra megin í vörninni ALLTAF þegar hann er heill. Riise kom inn í síðasta leik vinstra megin og stóð sig bara vel, aldrei þessu vant (miðað við þetta tímabil). Ég vil þó sjá Aurelio í þessari stöðu, mér finnst hann hreinlega betri leikmaður. Ég reikna þó með að Riise haldi sæti sínu. Í miðvörðunum vil ég svo sjá óbreytta stöðu. Carra er auðvitað sjálfvalinn, og ég verð að segja eins og er að ég heillast mjög af Skrtel. Þetta er no nonsense gæi, hrikalega sterkur líkamlega og virðist vera að lesa leikinn vel.

Þá að miðjunni. Gerrard og Alonso halda þar sætum sínum, en eins og áður sagði er það Javier sem er mesta spurningamerkið. Ég reikna ekki með því að hann verði orðinn heill, held bara að Rafa taki ekki sénsinn fyrir leikinn mikilvæga gegn Inter í næstu viku. Ég á því alveg von á að sjá Lucas aftur inni í liðinu. Framliggjandi vængmenn vera svo áfram Hollendingarnir tveir, Kuyt og Babel. Það voru margir búnir að afskrifa Kuyt kallinn, en hann hefur komið mjög sterkur inn undanfarið og er að leggja mikið upp af mörkum og hefur skorað líka. Babel er líka að vaxa með hverjum leiknum, og það er enginn vafi í mínum huga að þessi strákur á eftir að verða frábær fótboltamaður. Frammi er síðan hinn stórkostlegi Fernando Torres. Þvílíkir hæfileikar, þvílíkur hraði, þvílíkur karakter. Hann er ekki að væla þótt brotið sé á honum og ekki dæmt, hann heldur bara áfram og svarar með því að skora mörk. Ég myndi ekki skipta á honum og nokkrum öðrum framherja í heiminum í dag, stór orð en ég stend við þau. Ég reikna því með liðinu svona:

Reina

Arbeloa – Carragher – Skrtel – Riise

Lucas – Alonso
Kuyt – Gerrard – Babel
Torres

Á bekknum verða svo einhverjir leikmenn, ég giska á að þeir verði 5.

Sigur og ekkert annað en sigur kemur til greina á Anfield. Við verðum að vera í ökumannssætinu þegar kemur að baráttunni um toppsætin, við viljum breikka bilið í Everton og um leið nýta okkur hvert feilspor sem liðin fyrir ofan okkur kunna að taka. Ég ætla að spá því að við höldum uppteknum hætti og skorum mikið af mörkum. Ég ætla því að giska á að leikurinn endi 3-1 okkar mönnum í vil og að sjálfsögðu heldur Torres áfram að skora, reyndar mun hann bara setja eitt. Gerrard mun setja annað og Babel það þriðja.

22 Comments

 1. Flott upphitun Steini og ég er sammála þér í því að Benítez á að rótera liðinu sem minnst fyrir þennan leik. Lucas inn fyrir Mascherano ef hann er meiddur, annars á liðið frá því á miðvikudag að fá að halda áfram þar sem frá var horfið. Svo er frekar hægt að taka menn eins og Torres, Gerrard og Babel snemma útaf (ef vel gengur) til að hvíla gegn Internazionale.

  Þess má geta að Everton eru að spila útileik gegn Sunderland á sunnudag og því aldrei að vita, ef þessi helgi fer vel, nema við séum komnir með þriggja stiga forskot á þá bláu eftir þessa umferð. Það væri frábært og myndi létta talsverðri pressu af okkar mönnum, sem gætu þá einbeitt sér fyllilega að Meistaradeildinni eftir helgina.

  Ég spái því að hriplek vörn Newcastle haldi áfram að dropa í þessum leik. Aldrei hélt ég að ég myndi segja það, en vörn þeirra er ekki svipur hjá sjón síðan Titus Bramble yfirgaf liðið! 😀

  Allavega, þetta verður svona 4-1 sigur fyrir Liverpool. Martins læðir einu inn eftir að við erum búnir að innsigla sigurinn snemma. Torres blandar sér í hóp með Ian Rush (í nóv. ’82) með því að skora þrennu í þriðja heimaleiknum í röð í deildinni!

  Líst vel á þetta. Góða helgi. 😉

 2. Sælir félagar.
  Sammála Kristjáni þetta er flott upphitun og hægt að skrifa undir allt sem þar stendu – nema eitt. Ég veit ekki hvort ég á að þora að segja það en – það er Fabio Aurelio. Riise er betri en hann og þó hann hafi verið í lægð (er hægt að vera í lægð ef maður er af sama kaliber og Riise) undanfarið tímabil þá á hann sögu hjá Liverpool sem sterkur miðlungsleikmaður. Það er meira en hægt er að sega um Aurelio.
  Ég vona að okkar menn haldi stemmingunni og komi til leiks af krafti og án vanmats á andstæðingunum. Þó Newcastle sé ekki að spila vel um þessar mundir er alltaf hættulegt að vanmeta andstæðinginn. En að öllu eðlilegu ætti þessi leikur að vinnast stórt.
  Það er nú þannig

  YNWA

 3. Sælir!

  Ég ætla að spá stórsigri okkar manna…….5-0 og ekkert kjaftæði!!
  Torres 1
  Gerrard 2
  Babel 1
  Alonso 1

  Newcastle menn eiga ekki eftir að sjá til sólar í þessum einstefnu leik. Þar sem Alonso mun gjörsamlega eiga miðjuna og mun einnig leggja 2 mörk upp með frábærum sendingum!

  Þýðir ekkert annað en að vera bjartsýnn…..

  Áfram Liverpool

 4. Róbert, mér líst vel á þessa bjartsýni hjá þér, en ef þú ætlar að spá Alonso marki gegn Newcastle á Anfield hlýturðu að fara alla leið og spá því að hann skori frá miðju. 🙂

 5. 4-0 Torres með eitt, Babel 2 og væææææææntanlega Carragher með þrumufleyg af 30 metra færi.

  Mascherano er meiddur þannig að hann verður pottþétt ekki með

 6. Erum herna fjorir felagar a hoteli i Manchester (allt fullt i `liverpool) tvilik upplifun vid vorum ad fa midana i hendurnar… svaka fjor herna… afram Liverpool…

 7. Helvítið hann Noble… honum tókst að afgreiða JM í meiðsli. Svo mikill fjandans óþarfi þetta spark frá honum að það hálfa væri nóg. Ég er enn reiður yfir þessu atviki. Það verður rosalegt ef JM verður ekki með á móti Inter. Urrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrr.

  Núna er bara að vona Liverpool haldi dampi og vinni Newcastle. Ég er samt svartsýnn á þennan leik. Nú eru þeir röndóttu komnir upp að vegg og í raunverulega fallhættu. Ekki gott.
  Eigum við ekki bara að segja jafntefli…. ^^

  Áfram Liverpool

 8. Ég ætla að vera virkilega bjarsýnn og spá 4-0 sigri og það verður Torres með 2 mörk, Gerrard 1, og Babel með eina sleggju.

 9. Vel mælt SSteinn.

  Eina sem ég vil er að Newcastle dettur ekki í gír í þessum leik.

 10. 4-0 Leikmaður febrúar í úrvalsdeildinni setur 2, babel 1 Gerrard 1 og Kuyt 1
  Hallelúja !

 11. Ætla ekkert að vera með leiðindi en er ekki að fara koma pistill um leikmann mánaðarins Fernando Torres!?!?

 12. Flott upphitun bror.

  Samála liðinu alveg 100%. Held að Lucas verði með og Marche verði hvíldur fram á seinustu stundu gegn Inter (hoppi inní hópinn án þess að enginn taki eftir og allt verður vitlaust ;)..)

  Persónulega held ég að þessi leikur fari 3-1 og Torres seti tvö og Babel eitt. Held að Newcastle skori rangstæðumark alveg í byrjun og okkar menn verða alveg dýrvitlausir 😉

  YNWA – Takk og bless!

 13. Hef enga trú á þessu Newcastle liði, Bramble er sárt saknað! Okkar menn setja ein fjögur stykki, Babel, Carra, Pennant og Torres. Vonandi að þetta verði leikur fyrir augað.

 14. Spilar hann ekki bara sókndjarft 3-5-2 eins og í fyrra, eða hitt í fyrra og slátrar Newcastle enn einu sinni?

  Arbeloa – Carragher – Skrtel
  Pennant – Lucas – Gerrard – Alonso – Riise
  Torres – Kuyt

  Smá raunhæft, og líka að leyfa mér aðeins að dreyma (myndi skipta út Kuyt og Crouch ef ég fengi einhverju ráðið). Hef aldrei verið jafn sigurviss í tengslum við einhvern leik á ævinni. Væri nánast til í að leggja milljón á leikinn ef mér stæði það til boða.

 15. Verður vef-útsending frá þessum leik?

  Glæsileg upphitun SSteinn! Ég ætla að spá 4:0 og Torres verður með þrennu! Lucas skorar fjórða markið.

 16. Er ansi hræddur um að Kevin Keagan vinni sinn fyrsta sigur í dag. Held að okkar menn verði með hugann við meistaradeildarleikinn og vanmeti Newcastle sem hefur verið afleitt að undanförnu. Einnig er ég hræddur um að sjálfur foringinn Benitez vanmeti gestina gríðarlega og stilli upp liði sem greinilega mun ekki spila gegn Milan. Það er nefnilega sjaldan “hugsað um næsta leik” þar á bænum heldur þar næsta og oft þar þar næsta og er ég hræddur um að það smitist í leikmennina sjálfa.

  Vona þó að ég hafi rangt fyrir mér en þessi leikur lyktar af taumlausu vanmati.

 17. The Liverpool line-up in full is: Reina, Riise, Arbeloa, Skrtel, Carragher, Benayoun, Pennant, Lucas, Alonso, Gerrard, Torres. Subs: Itandje, Hyypia, Crouch, Kuyt, Babel.

 18. Frábært, gæti vart verið glaðari með að hafa rangt fyrir mér! Snilld að fá annan jákvæðan leik fyrir CL.

Eigendamál

Torres leikmaður mánaðarins