Hálf öld liðin frá Munich-flugslysinu

Þann 5. febrúar 1958 lék lið Manchester United gegn Red Star frá Belgrad í Evrópukeppninni, á útivelli. Leiknum lauk 3-3 en með því tryggði United sér þátttökurétt í undanúrslitum Evrópukeppninnar, annað árið í röð. Þetta var blómatímabil United-liðsins undir stjórn Sir Matt Busby, en því miður fyrir enska knattspyrnu var sú blómatíð skammlíf. Degi eftir útileikinn gegn Red Star, þann 6. febrúar fyrir hálfri öld í dag, stoppaði vél United-liðsins í Munich í Þýskalandi til að fylla á eldsneytistönkum sínum. Skömmu síðar fór vélin í loftið en komst aldrei á leiðarenda.

Tuttugu og þrír fórust í slysinu, þar af átta leikmenn Manchester United og einn fyrrverandi leikmaður Manchester City, sem var með í för sem blaðamaður.

Mér finnst á degi sem þessum við hæfi að við leggjum niður fána okkar liðs í smá stund og minnumst þess að þegar öllu er á botninn hvolft átti sér stað harmleikur sem snerti ekki aðeins enskan almenning heldur enska knattspyrnu almennt. Í dag er eins og áður sagði liðin hálf öld síðan United-liðið, sem þá var fánaberi enskrar knattspyrnu í Evrópu, vængbrotnaði svo um munar. Við Liverpool-menn erum stoltir af fræknum afrekum okkar liðs í gegnum árin á alþjóðlegum grundvelli, en ef við erum samkvæmir sjálfum okkur getum við tekið undir það með United-mönnum að ef Busby-börnin svokölluðu hefðu ekki farist í Munich-flugslysinu gætu United-menn alveg verið talsvert nær Liverpool í fjölda Evróputitla en raun ber vitni.

Þetta er reyndar eitt af því sem ég hef alltaf átt erfitt með að skilja á milli United- og Liverpool-stuðningsmanna. Auk Munich-slyssins má segja að Hillsborough-slysið og Heysel-harmleikurinn hafi verið þeir þrír hryllingsatburðir sem hafi mótað bæði enska knattspyrnumenningu og framgöngu enskra liða í Evrópu meira en flest annað. Liverpool og Manchester United hafa fyrir mér alltaf verið tengd, ekki bara vegna erkifjandskaparins í garð hvors annars, heldur vegna þess að stuðningsmenn þessara tveggja liða þekkja afleiðingar slíkra harmleikja betur en flestir.

Því finnst mér við hæfi að minnast þeirra ensku knattspyrnumanna sem fórust í Munich-slysinu. Þeir hétu Roger Byrne, Billy Whelan, Tommy Taylor, Duncan Edwards, Mark Jones, Eddie Colman, Geoff Bent og David Pegg, auk Frank Swift, blaðamannsins sem leikið hafði fyrir Man City. Svo skemmtilega vill til að United og City munu mætast í Úrvalsdeildinni á næsta sunnudag, en þá munu bæði liðin klæðast hálfrar aldar gömlum treyjum til að minnast slyssins.

Ef þið viljið lesa frekar um harmleikinn getið þið farið inn á vef BBC eða ManUtd.com, þar sem finna má haug af fréttum og frásögnum af slysinu.

18 Comments

 1. Vel gert Kristján. Er alveg sammála þér í að maður verður að sýna svona hlutum mikla virðingu. Þetta var hræðilegt slys og markaði djúp sár hjá Man Utd sem og enskri knattspyrnu í heild. Auðvitað eiga menn að leggja niður stríðsöxina á svona dögum og sýna samhug.

 2. Flott færsla hjá þér, Kristján. Það er mikil virðing og samhugur sem koma frá mér héðan frá Akureyri – Benni Jón segir það sem maður vildi segja sjálfur.

 3. Eins mikið og maður þolir ekki united,þá bara eru sumir hlutir t.d þessi 3 atvik sem Kristján nefnir sem á ekkert skilt við fótboltann og ríginn sem er á milli þessara liða.
  Hér eru 3 stef sem oft er sungið á leikjum united

  it was the ice on the runway

  whos that dying on the runway

  Always look on the runway for ice.

  Þetta er ekki fallegt og einnig má oft heyra menn syngja á Liverpool leikjum
  you all die in Hillsborough.

  Það er ekki mikil virðing borin fyrir þeim mönnum sem dóu í þessum hörmungar atburðum og fjölskyldum þeirra..

 4. Flott grein Kristján, sorglegt slys.

  Vil þó kvarta yfir einu, af hverju í ósköpunum kallarðu þetta Munich? Á íslensku heitir borgin Munchen, eða er ég að misskilja eitthvað?

 5. Góð grin Kristján og virðingarverð. Það er ekki að efa að þetta er með stærri harmleikjum enskrar og evrópskrar knattspyrnusögu. Þetta slys er MU mönnum álíka hugleikið og okkur Hillsborough og Heysel-harmleikirnir.
  Hafa má í huga í sambandi við Munchen slysið að það þýddi að MU er örugglega einhverjum titlum fátækari fyrir vikið.
  En eins er með LFC. Útilokun á besta félagsliði í Evrópu á sínum tíma gerði það að verkum að LFC er örugglega einhverjum titlum fátækara. Því má segja að munurinn sé í raun eðlilegur í dag!?!
  Þetta sjá allir menn.

  YNWA

 6. Nei þú ert ekkert að misskilja. Við köllum borgina Munchen en þetta hefur alltaf verið kallað Munich-slysið, að því er ég best veit, og því fannst mér óþarfa flækja að kalla slysið Munich-slysið og borgina svo Munchen. Það skiptir svo sem ekki öllu máli.

 7. Það er rangt hjá þér Kristján, þetta hefur alltaf verið kallað Munchen-slysið, eðlilega, þar sem slysið átti sér stað þar. Munich er heitið á borginni á ensku. Soldið einkennilegt að smella fram enska heitinu í íslenskri grein.

 8. Flott mál að sýna United virðingu með þessari grein. Svona atburðir eru hafnir yfir ríg á knattspyrnuvellinum. Ánægður með þetta.

 9. Fyrirgefðu Dóri. Ég skal bara skammast mín.

  Ég sem hélt að aðalmál greinarinnar væru efnistök hennar, ekki málnotkunin. Svona getur maður verið vitlaus. 🙄

 10. Aðeins útfyrir efnið en sá að Torres var tekinn útaf á 21min með spánverjum á móti frökkum. Vonum að það sé ekki einhvað alvarlegt

 11. vonum að hann verði 100% fyrir Chelsea leikinn…

  Annars flott framtak hjá þér.

 12. Ef einhverjir stuðningsmenn skilja harmleik eins og Munich slysið þá eru það Liverpool stuðningsmenn.

  Munich slysið fyrir Man.Unt stuðningsmenn er partur af þeirra sögu og verður alltaf. 50 ára minning Munich-slysins þessa dagana ber því vitni.

  Takk Krisján Atli fyrir að grafa stríðsexina og sýna þessu slysi tilhlýðilega virðingu. Ég tek undir hvert orð.

  Ég mæli með viðtalinu við Bobby Charlton sem hægt er að finna á BBC.

  YNWA

 13. Alltaf verið Liverpool maður en þessi grein sýnir að í Kristjáni Atla býr prúðmenni. Burtséð frá flokkadráttum í knattspyrnunni þá væri það þokkaleg blindni að geta ekki dáðst að hæfileikum mótherjanna öðru hvoru. Talandi um prúðmenni þá er hér fyrst glæsilegt mark og síðan athyglisvert viðtal. Fyrir þeim sem finnst knattspyrna stórkostlegasta íþróttin á þessari plánetu, þá skiptir engu máli fyrir hvaða lið þessi náungi spilaði fyrir.

  http://www.youtube.com/watch?v=YLXXL36EmJg

  http://www.truveo.com/Charlton-recalls-Munich-crash/id/4215274979

One Ping

 1. Pingback:

Gerrard verður fyrirliði… gegn Sviss.

Skrtel skráður til leiks í Meistaradeildinni.