M’boro 1 – Liverpool 1 (Glasið er fullt!)

Eins og Einar Örn útskýrði fyrir leikinn munu birtast tvær leikskýrslur fyrir þennan leik; Einar mun sjálfur skrifa neikvæða skýrslu um leikinn en ég ætla að skrifa mjög jákvæða skýrslu. Mín skýrsla er hér fyrir neðan, en ef þið viljið vera þunglyndir asnar er skýrslan hans Einars hérna.

Liverpool fóru í dag á einn af sínum óhappavöllum í Úrvalsdeildinni ensku, Riverside Stadium í Middlesbrough, og gerðu þar **1-1 jafntefli** í fjörugum leik við Middlesbrough. Mikið gekk á í þessum leik sem hefði hæglega getað fallið fjörugu Liverpool-liði í skaut en því miður varð ósanngjarnt jafntefli raunin. Þetta er fjórða jafntefli Liverpool í röð og alveg hreint með ólíkindum hvað liðið er óheppið þessa dagana.

Rafa Benítez stillti upp firnasterku liði í dag:

Reina

Finnan – Carragher – Hyypiä – Arbeloa

Benayoun – Gerrard – Mascherano – Riise

Voronin – Torres

**Bekkur:** Itandje, Agger, Alonso, Babel, Kuyt.

Leikurinn fór ágætlega af stað og okkar menn virtust strax ná stjórn á miðjunni. Mascherano og Gerrard réðu þar lögum og logum og dreifðu spilinu til samherja sinna sem reyndu án árangurs að finna glufur á þéttri vörn Middlesbrough. Hinum megin á vellinum voru þeir Tuncay og Aliadiére einir frammi og náðu nokkuð að sækja með skyndisóknum en það bar lengst af lítinn sem engan árangur, þökk sé vörn okkar manna. Meira um það síðar.

Það hefur oft verið sagt að ef vinnusemi og/eða háttvísi gæfu stig væri Liverpool með langbesta liðið í Úrvalsdeildinni og það sannaðist aftur í dag. Liverpool-liðið er það prúðasta í deildinni, hefur ekki enn fengið á sig rautt spjald, og hélt uppteknum hætti í þeirri „deild“ í dag, auk þess sem hver einasti maður barðist af þvílíkum krafti og áfergju að maður var hálf hissa að Boro-menn skyldu geta staðist þeim snúning.

Þrátt fyrir góð tök á leiknum gekk okkar mönnum eins og fyrr segir illa framan af að brjóta niður varnarmúr Boro, og eins og oft vill verða með slíka leiki kom það í bakið á okkur. Á 26. mínútu leiksins kom **George Boateng** Boro-mönnum yfir, þvert gegn gangi leiksins, eftir einu góðu sókn heimamanna í fyrri hálfleik. Staðan orðin 1-0 fyrir Middlesbrough og okkar mönnum brugðið.

Benayoun fór nálægt því að jafna á 34. mínútu þegar gott spil okkar manna upp kantinn endaði með því að hann fékk boltann dauðafrír inná teig Boro en Schwarzer varði skot hans, auk þess sem línuvörðurinn flaggaði rangstöðu á okkar mann. Eftir það fjaraði fyrri hálfleikurinn út í baráttu og staðan í leikhléi var því 1-0 fyrir heimamönnum, sem verður að segjast frekar ósanngjörn staða.

Benítez beið ekki boðanna heldur skipti Arbeloa út í hálfleik fyrir Ryan Babel. Væntanlega hefur Arbeloa verið meiddur þar sem hann hafði átt góðan leik og barist mikið í fyrri hálfleik (eins og Riise, Voronin, Benayoun og aðrir baráttuglaðir sem áttu góðan, baráttumikinn dag í baráttunni fyrir baráttuglatt lið Liverpool). Babel henti sér strax út í baráttuna af fullum krafti og hamaðist í varnarmönnum Boro sem mest hann mátti. Þessi ungi hollenski leikmaður lífgaði mikið upp á leikinn í seinni hálfleik og hefði með smá heppni getað skorað eitt eða tvö mörk, en hann barðist vel og það er fyrir öllu.

Annars er skemmst frá því að segja að okkar menn tóku nær öll völd í seinni hálfleiknum, og er þar fyrst og fremst frábærri vörn fyrir að þakka. Þeir Carragher og Hyypiä voru í heimsklassaformi í dag sem sást best á því að Aliadiére og Tuncay í sókn Boro fengu á sig heilan haug af rangstöðum. Rangstöðuvörn er eitthvað sem menn taka oft sem sjálfsögðum hlut en það er virkilega falleg knattspyrna á að horfa þegar menn eru svo samstilltir eins og Liverpool-vörnin var í dag og þeir gripu Boro-menn hvað eftir annað í landhelgi. Frábær leikur hjá okkar mönnum, hvað rangstöðutaktík varðar!

Í eina skiptið sem Aliadiére náði að sigrast á öflugri rangstöðuvörn okkar manna, á 67. mínútu, kom *hitt* góða færi Boro í leiknum, þar sem Stewart Downing fékk boltann í teignum og skaut að fjærstönginni en Reina rétt náði að ýta boltanum út á stöngina og þaðan út í teig þar sem Gary O’Neil skaut yfir fyrir opnu marki. Þar hefði staðan getað orðið 2-0 fyrir heimamenn sem áttu eftir að naga sig í handarbökin að hafa klúðrað þessu færi.

Það fór svo að okkar menn náðu loksins að láta yfirburði í vörn og á miðju skila sér fram í framlínuna, en á 71. mínútu fékk **Fernando Torres** allt of mikinn tíma með boltann fyrir utan teig Boro og þá er jafnan ekki að spyrja að leikslokum. Varnarmenn Boro biðu eftir að Torres keyrði inn í teiginn á þá en hann lét bara vaða í stöngina og inn, óverjandi glæsimark hjá besta sóknarmanni deildarinnar! Þetta var ellefta mark Torres í Úrvalsdeildinni í vetur og sautjánda mark hans í öllum keppnum. Þvílíkur leikmaður!

Eftir jöfnunarmarkið settu okkar menn svo í fluggírinn í tuttugu mínútur og reyndu allt til að knýja fram sigur. Benítez kláraði skiptingarnar með því að setja Alonso og Kuyt inn fyrir Benayoun og Voronin og okkar menn fengu hvert dauðafærið á fætur öðru undir lokin – þ.m.t. frábæran skalla frá Hyypiä sem Schwarzer rétt varði og hörkuskot rétt framhjá frá Torres, Babel og Gerrard – en því miður er lukkan ekki okkar mönnum hagstæð þessa dagana og heimamenn sluppu því með **1-1 jafntefli** úr þessum leik.

**MAÐUR LEIKSINS:** Babel lífgaði mikið upp á sóknarleik okkar manna í seinni hálfleik, á meðan Carragher og Hyypiä áttu stórleik, rangstöðulega séð, í vörn okkar manna. Eins börðust þeir Voronin, Riise og Kuyt feykivel í dag og hafa hreinlega ekki leikiðbarist betur í vetur en þeir gerðu í dag. En maður leiksins var klárlega undrið okkar, **Fernando Torres**, sem kórónaði baráttuglaðan útileik liðsins með frábæru jöfnunarmarki.

Eftir þetta jafntefli má segja að staðan sé nánast óbreytt í baráttunni um 4. sætið í Úrvalsdeildinni. Manchester City, okkar helstu keppinautar, töpuðu fyrir Everton í dag og því náðum við þeim að stigum og fórum upp í 4. sætið á betri markatölu. Everton og Aston Villa náðu okkur hins vegar að stigum með sigrum sínum í dag, þannig að það er ljóst að framundan er hörkubarátta á milli þessara fjögurra liða um það hvaða lið er fjórða besta lið Englands. Ég hef þó fulla trú á Benítez sem hefur unnið mikið og gott starf fyrir Liverpool og það væri sannarlega til að kóróna uppgang liðsins undanfarin ár ef hann næði að tryggja okkur þátttökurétt í Meistaradeildinni að ári, fimmta árið í röð undir hans stjórn!

Og hver veit nema við náum að vinna eins og eina bikar- eða Evrópukeppni líka til að kóróna baráttuglaðan vetur. Það væri ekki amalegt! 😉

28 Comments

 1. Enginn spilar betur en andstæðingurinn leyfir… Boro stóðu sig vel og við getum prísað okkur sæla með 1 stig úr þessari viðureign.
  Torres skoraði glæsilegt mark og hrein unun að horfa á þennan dreng. Fín skipting hjá Rafa í hálfleik og Babel sprækur.

 2. Er ótrúlegt en satt mjög bjartsýnn. Færðumst upp um sæti eftir þetta jafntefli, Torres skoraði, Babel virkaði ferskur og var næstum því búinn að skora. Ég gæti verið sjúklega neikvæður og skrifað heila ritgerð hérna í þræðinum á undan en ég nenni þvi ekki. Í mínum huga var þetta einfaldlega þannig að Boro getur spilað vil og ömurlega, í dag spilaði Boro vel og er eina liðið sem hefur unnið Arsenal, sem sýnir hvað þeir geta á góðum degi. Torres skoraði Momo er á leiðini burt og Agger og Skrtel eru að koma inn í liðið sem þýðir að við getum spilað framar á vellinum. Ég sé fram í bjarta tíma.
  Kveðja Anton, einn af rúmlega 100 Liverpool mönnum á jörðinni sem er jákvæður núna.

 3. Þetta er klassík:

  þannig að það er ljóst að framundan er hörkubarátta á milli þessara fjögurra liða um það hvaða lið er fjórða besta lið Englands. Ég hef þó fulla trú á Benítez sem hefur unnið mikið og gott starf fyrir Liverpool og það væri sannarlega til að kóróna uppgang liðsins undanfarin ár ef hann næði að tryggja okkur þátttökurétt í Meistaradeildinni að ári, fimmta árið í röð undir hans stjórn!

  Ah, lífið er gott.

 4. Tveir af betri leikjum hjá liverpool á þessari leiktíð eru góðir sigrar á bolton og newcastle og þá voru á miðjunni lucas og gerrard eftir þetta hafa þeir tveir ekki spilað saman á miðjunni ég er bara ekki allveg að skilja það.

 5. Já góð leikskýersla og gott að þú hefur það í þér að skrifa svona skýrslu. Það er þá vonandi ljós í myrkrinu. En ég verð að viðurkenna það ég ég fékk svona nettan verk í augun að lesa þetta. En um að gera að reyna að líta þetta björtum augum, hvað eigum við að gera annars. Þú átt samt alla mína samúð Kristján að þurfa að skrifa um jákvæðu punktana í dag, því miður. Ef allt hefði gengið að óskum hefðir þú verið að skemmta þér konunglega við skriftir en Einar hefði átt enn erfiðara verk fyrir höndum. En því miður stóðu okkar menn ekki undir því, því miður segi ég enn og aftur.
  YNWA Hjalti

 6. Sammála Unnari. Skil ekki út af hverju Mascherano er fastur maður í Liverpool liði, sem er stöðugt að spila gegn liðum sem pakka í vörn. Uppstilling byrjunarliðs dagsins var sérkennileg í því besta, skelfileg lýsir því betur.

 7. Ég er ekki frá því að það sé þefur af 1.apríl í þessari skýrslu 🙂

 8. hvert er eiginlega markmiðið hjá þessum klúbbi?? veit það einhver?
  ef markmiðið er að sigra þessa deild þá eru þessi úrslit djók, þá erum við í vandræðum sem þarf að laga núna strax og koma sér aftur á beinu brautina. eru leikmenn liverpool andlausir eða er getan ekki meiri?

  flest lið virðast pakka í vörn á móti okkur og við fáum varla opin marktækifæri gegn þeim. þetta eru allt svona hálf-færi sem hyypia fær eftir hornspyrnur og e-ð svoleiðis fokk. við einfaldlega getum ekki brotið þessar skipulögðu varnir á bak aftur, face it!

  við getum ekki brotið þessar varnir aftur fyrr en að við fáum TEKNÍSKA leikmenn til liðs við okkur. það VERÐA einhverjir AÐRIR að láta til sín taka í markaskorun því þessi lið eins og wigan og middlesbrough passa sérstaklega upp á þessa 2, en hafa litlar sem engar áhyggjur af riise og félögum.

  babel er að valda mér vonbrigðum. hann ætlar oft að reyna sjálfur en það gengur lítið hjá honum að komast framhjá mönnum og í stað þess að spila boltanum þá reynir hann að “sóla” menn og tapar oft boltanum á hættulegum stöðum. EN, babel leggur sig fram hann má eiga það!

  ég veit ekki hvað er hægt að tuða meira yfir þessu gengi liðsins. liverpool eru að fá á sig algjör (afsakið dónaskapinn) tussumörk og eru steingeldir fram á við líka. við erum með 1 framherja sem er nógu góður fyrir enska boltann og það er líka besti framherjinn í enska boltanum. af hverju spilum þá ekki bara 4-5-1 eins og chelsea gerir, með 2 kantmenn sem spila sem hálfgerðir framherjar, þurfa ekkert að hugsa um vörnina.

  svo langar mig bara að segja eitt hérna í restina. ég sársakna luis garcia vinar míns 🙁 hann er leikmaður með tækni sem gat komið manni á óvart þegar maður var að horfa á liverpool leiki, það vantar svoleiðis leikmenn, MATCH WINNERS.

  bless.

 9. Torres er kominn með 17 mörk. 17 mörk!
  Án hans veit ég ekki hvar við værum…

 10. Kristján Atli, þetta er snilld:
  “Það hefur oft verið sagt að ef vinnusemi og/eða háttvísi gæfu stig væri Liverpool með langbesta liðið í Úrvalsdeildinni og það sannaðist aftur í dag. Liverpool-liðið er það prúðasta í deildinni, hefur ekki enn fengið á sig rautt spjald, og hélt uppteknum hætti í þeirri „deild“ í dag, auk þess sem hver einasti maður barðist af þvílíkum krafti og áfergju að maður var hálf hissa að Boro-menn skyldu geta staðist þeim snúning.”

  Þetta kallar maður jákvæðni 🙂

 11. Frábær umfjöllun, hélt að ég væri úberjákvæður eftir þennan leik.
  Bravó KAR

 12. Ég fékk þessa áskorun upp í hendurnar og gat ekki skorast undan. Fyrst ég átti að vera úberjákvæður í dag skyldi ég sko vera sólskinsbarn, no matter what! 😉

 13. Staðan er eins og hún er. En það er nánast fyndið að hugsa til þess hvar við værum ef Gerrard og Torres hefðu ekki bjargað ákveðnum leikjum. Við værum um miðja deild og það eru engar ýkjur.

 14. Vorum nú án Gerrard og Torres í einhverjum leikjum fyrr á tímabilinu unnum samt.

 15. Pistillinn hans KAR er álíka raunveruleikafirtur og viðtalið við Rafa á bbc….

  http://news.bbc.co.uk/sport2/hi/football/default.stm

  Auðvitað ætlaði KAR sér að skrifa úber jákvæðan pistil og horfa aðeins á jákvæðu punktana.

  Þessa stundina er ég þreyttur á jákvæðni Rafa. Þreyttur á jafnaðargeði hans. Þreyttur á sömu svörunum leik eftir leik. Hvort sem um sigur, jafntefli eða um tap er að ræða!!!!!

  Ég upplifi að það ríki sama andleysi yfir Rafa eins og við höfum orðið vitni að inn á vellinum hjá Liverpool undanfarna mánuði. Það er eitthvað mikið að þessa stundina á Melwood. Eitthvað mikið.

  Ég hef dýrkað Rafa sem þjálfara. Jarðbundinn… rólegur og fær þjálfari. En eitthvað hefur farið úrskeiðis þessa leiktíð. Hann er ekki með sama glampann í augunum og hann var með í byrjun og nú tala ég í myndlíkingu.

  Ég vona innilega að ég hafi svo rangt fyrir mér og liðið fari að smella í flugírinn hvað á hverju. En ég er ekki bjartsýnn þessa stundina. Og með þessu áframhaldi getur þessi leiktíð endað með skelfingu. Engir titlar. Engin Meistardeild og ef til vill engin Evrópukeppni félagsliða!!!! Það er svo sannarlega raunhæfur möguleiki að við lendum um miðja deild með sama áframhaldi. En ég tel nú ekki stórar líkur á því, satt best að segja. 🙂

  Koma svo Liverpool… Rífa sig upp.

 16. Jón, ég skil þig að vissu leyti varðandi viðtölin. En mér finnst samt að mörgu leyti eðlilegt að Rafa sé jákvæður eftir leiki þar sem það er óvíst hvaða tilgangi það þjónar að vera að úthrópa mönnum í viðtölum.

  En ég ætla bara rétt að vona að Rafa sé ekki að meina það sem hann segir í viðtölum um að hann sé ánægður með viðhorf manna

  The attitude of the players was really good and you can see that they were trying to win

  Give me a fokking breik!

  Ó, ég bara vona svo innilega að Chelsea eða Arsenal taki þennan titil, annars mun ekkert stoppa Man U frá því að komast fram úr okkur í titlasöfnun. Það er grátleg tilhugsun.

 17. Þetta er afskaplega furðuleg staða sem þetta lið er í . Er ég t.a.m. einn um að sjá Riise og Voronin í byrjunarliðinu og vita fyrirfram að fá mörk munu verða skoruð og að jafntefli eða tap sé líklegasta niðurstaðan?
  Ég segi nú bara fyrir mitt leiti eftir að hafa fengið liverpooltv inná digital ísland og átt kost á að sjá nokkra leiki þar með varaliðinu. Afhverju meðan að við erum ekki að finna menn til að kaupa erum við ekki að nota menn þaðan? T.d. insúa í vinstri bak? Einu ári eldri c.a. en þegar hann spilaði síðast og hefur verið að spila glimrandi vel með varaliðnu. Svo eru þarna centerar eins og németh og hvað þeir heita sem eru að setja mörk og eru líflegir.
  Ég reyni yfirleitt að forðast að hafa ofurtrú á ungum leikmönnum, maður sér oft ýmsar óraunhæfar kröfur gerðar til þeirra á svona spjallborðum. Ég verð líka að viðurkenna að ég held að okkur muni ekkert endilega ganga betur með þessa gutta innanborðs. en fjandinn hafi það okkur getur ekki gengið verr og þeir fá þá allavega dýrmæta reynslu. Insúa t.d. getur bara ekki verið verri en Riise í bakverðinum og á líklega 8-10 ár á hann. Kuyt og Voronin eru algjörlega vonlausir fótboltamenn (granted að Benitez virðist vera að reyna að gera þeim eins erfitt fyrir og mögulegt er, hver setur sóknarmann inná, skipar honum að fara á vinstri kantinn og biður vinstri kantmanninn um að spila fyrir aftan centerinn? ég veit vel að babel á að geta spilað frammi, en ég veit ennfremur að kuyt getur ekki spilað á kantinum) Crouchy ætti að vera senter númer 2 með Torres eða þá að við ættum að nota 4-5-1 sem gaf ekki svo góða raun um daginn en það hefur ekki gefið neitt betri raun að nota 4-4-2. Miðað við mannskap þá er 4-5-1 eða ef mönnum líður betur 4-3-3 okkar besta kerfi.

 18. Ó, já segi það með þér Einar #23. Tilhugsunin um að Man. Unt vinni í ár er létt óbærileg. Vona heitt og innilega að það gerist ekki.

 19. Mér finnst það fullkomlega ljóst að United er að fara að vinna þessa deild. Frammistaða þeirra í gær kom úr geimnum, hefðu léttilega getað unnið Newcastle 14-0, eða 14-1 í það mesta. Eigum ekki að skoða það meir að vinna þessa deild, heldur reyna að benda eigendum félagsins á hvað þeir þurfa að gera.
  Til að Liverpool liðið vinni titil, þarf 4 – 6 hágæða leikmenn, þar af 2-3 í algerum heimsklassa, 15 til 20 punda leikmenn!
  Þess vegna varð ég hálf fúll í gær þegar ég las í gær að Liverpool hefði snúið sér frá einhverjum leikmönnum vegna verðmiða á bilinu 8 til 16 milljónir.
  Með kaupum þessara manna á félaginu áttum við að komast á þann stall að keppa um Nani, Tevez, Anelka og þau nöfn sem eru í dag að koma liðinu okkar lengra frá titlinum.
  Ég bara heimta það að menn fari í það í vetur að hreinsa út leikmenn, eða allavega setja í varaliðið, sem eiga aldrei eftir að skipta máli í titilbaráttu. Nenni ekki að rifja þá upp, við vitum öll hverjir það eru, frammistaða þessara manna bara versnar.
  Ég skil heldur bara alls ekki út af hverju Rafa er aldrei spurður út í það hversu varnarsinnaðan leik hann leikur. Í haust, t.d. í Sunderland fannst mér liðið koma með “all guns blazing”, en síðan dróg úr því og eftir tapið gegn Reading í desember er greinilega aðalmálið að fá ekki á sig mark.
  Mascherano er klassa leikmaður en skilar nær engu í sóknarleik. Bakverðirnir eru yfirleitt handónýtir, en eru hættir að koma upp völlinn, nema í einstaka tilvikum. Maður hefði haldið það að þegar Masch er með væri það nú óhætt!!!
  En svo að lokum, hvað fannst mönnum um ró Rafa í gær, miðað við fullkomið brjálæði hans gegn Wigan? Miðað við það sem ég les í ævisögu hans myndi hann ekki hika við að tala um rifrildi sitt við eigendur liðsins, atvikið í vetur var EKKERT miðað við það stöðuga stríð sem hann stóð í við eigendur Valencia, í blöðum, útvarpi og sjónvarpi.
  Ég held að þar á milli ríki fullkominn friður og í gær heyrði ég sönginn hans úr stúkunni, í stöðunni 0-0 og 1-1. Engin pressa er lengur frá Mascherano, ég er sannfærður um að hann verði áfram. Miðað við ummæli allra í því máli, tel ég ljóst líka að Rafa hafi traust eigenda, Javier er hans maður, eins og Skrtel virðist vera líka.
  Mitt mat í dag er það að Rafa sjái enga hættu í spilunum.
  Ef svo er þá er mikilvægt að skilaboð gærdagsins verði eigendunum ljós. Lið sem vinnur meistaratitla gera ekki 1-1 jafntefli, þau vinna leiki svona 4-0 og 6-1.
  Við þurfum nýja leikmenn! Ef það tekst ekki í janúar verðum við í ströggli um 4.sætið við City og Everton. Ef það tekst ekki í sumar fara sumir okkar heimsklassaleikmanna að hugsa sinn gang.
  Og please ekki tala um leikmenn eins og Luis Garcia, þann indæla dreng, sem einhverja sem falla undir slíkt.
  Þurfum miklu betri leikmenn og fleiri ása á hendina, ekki svona tíur og gosa eins og Garcia.
  Hvað þá fjarkana eins og……….

 20. “The global credit crunch has made it harder for Hicks and Gillett to raise new revenues elsewhere and also affected the value of their other assets. Should they fail in their efforts to repay the £350m acquisition debt on Liverpool when it comes due in just over six weeks, there would be the possibility of the next owner of the club becoming RBS.”

  Áhugaverð frétt í Guardian. Hicks og Gillett keyptu klúbbinn með 100% lánum sem þeir ætluðu svo að skuldbreyta en geta það svo ekki vegna bankakreppunnar. Það eru allt aðrir tímar á fjármálamörkuðum heldur en fyrir ári síðan. Gæti farið svo að Dubai International Capital eignist Liverpool eftir allt saman fyrir 500 milljónir punda. Í fljótu bragði myndi það þýða að óvissu um nýjan völl yrði eytt og að aukið fjármagn yrði sett í leikmannakaup. Ekki alveg víst hvað þetta þýðir fyrir Benitez ef af verður.

  http://football.guardian.co.uk/News_Story/0,,2240166,00.html

 21. Okkar menn ættu að skammast sín…
  Algjörir aumingjar og eru að vanvirða besta félag í heimi.
  Burt með þjálfarann og burt með þessi amerísku gerpi.
  skál í tætlur..

One Ping

 1. Pingback:

Middlesboro 1 – Liverpool 1 (Glasið er tómt!)

Liverpool aftur til sölu?