Derby County á morgun!

Gleðileg jól! Vonandi borðuðuð þið yfir ykkur af jólasteikinni í gærkvöld. En hvað um það, við verðum víst að snúa okkur fljótt að knattspyrnumálum á ný á þessari síðu, þar sem knattspyrnumenn Englands gera eitthvað þveröfugt við að hvílast og borða góðan mat yfir hátíðarnar. Á morgun ferðast okkar menn yfir á Pride Park og mæta þar heimamönnum í Derby County. Þessi lið hafa mæst áður í vetur og þá unnu okkar menn 6-0 heimasigur í Úrvalsdeildinni.

Það er alveg ljóst að þetta er leikur sem liðið á allan tímann að vinna. Það er eitt að gera jafntefli á útivelli gegn liðum eins og Portsmouth og Blackburn, og það eitt og sér er ekki svo slæmt, en það er annað að ætla að láta lið eins og Derby hirða stig af okkur. Ég hef séð þetta lið spila við Liverpool, Everton og Man Utd í vetur og þeir virka einfaldlega númeri of litlir fyrir þessa Úrvalsdeild. Jafnvel þótt þeir hafi skipt um stjóra og Scouserinn Paul Jewell sé tekinn við hefur spilamennska liðsins ekki batnað og þeir sitja á botni Úrvalsdeildarinnar núna sem fyrr. Ofan á það bætist að þeir eiga víst í vandræðum með meiðsli lykilmanna fyrir leikinn á morgun, þannig að í ofanálag við allt annað getum við búist við vængbrotnu Derby-liði í þessum leik.

Hjá okkar mönnum er mjög athyglisvert að spá í byrjunarliðið. Það er ljóst að Rafa Benítez ætlar að nota hópinn sinn í þennan leik og að það verða einhverjir af fastamönnum undanfarinna leikja hvíldir, sérstaklega með það í huga að aðeins fjórum dögum síðar er erfiður útileikur gegn Man City.

Ég er á því að Rafa muni nota tækifærið á morgun og hvíla Sami Hyypiä, Harry Kewell, Steve Gerrard, Javier Mascherano og Fernando Torres. Þeir munu þá væntanlega flestir verma bekkinn fyrir þennan leik. Þegar fréttir berast af því að Rafa ætli að rótera hópnum fyrir stakan leik er jafnan nánast ómögulegt að giska rétt á liðið hjá honum, en ég ætla að skjóta á að hann byrji með eftirfarandi lið á morgun:

Reina

Arbeloa – Carragher – Hobbs – Aurelio

Benayoun – Alonso – Lucas – Babel

Voronin – Kuyt

**Bekkur:** Itandje, Riise, Gerrard, Kewell/Sissoko, Torres.

Eins og ég segi, það er erfitt að giska á rétt lið hjá Rafa, en jafnvel þótt hann geri allt eins og ég spái því og hvíli alla þessa leikmenn stendur sú staðreynd augljós eftir að þetta er nógu gott lið til að vinna Derby County á útivelli. Það verða engar afsakanir um róteringu teknar gildar á morgun, þetta lið á að vinna.

MÍN SPÁ: Ég spái því að Derby-liðið muni berjast grimmilega í þessum leik og reyna allt hvað þeir geta til að velgja okkar mönnum undir uggum, en munurinn á gæðum liðanna mun segja til sín frá fyrstu mínútu. Þetta verður ekki annar 6-0 stórsigur, en okkar menn munu vinna svona **2-0** á morgun og það er komið að Voronin að skila sínu með eins og einu marki. Og hana nú! 🙂

Áfram Liverpool!

31 Comments

  1. Þetta er skyldusigur og við sættum okkur ekki við neitt annað en 3 stig. Helst myndi ég vilja sjá svipaða frammistöðu og gegn þeim í haust en ef við vinnum einungis 1-0 þá er ég ánægður. 3 stig og málið er dautt.

    Sammála KAR að það er nær ómögulegt að spá fyrir um byrjunarliðið en líklegast munu einhverjir af lykilmönnunum fá að hvíla í þessum leik. Vonandi bara að það komi ekki að sök og að hópurinn sýni styrk sinn.

    Gleðilega hátið.

  2. Derby 0 – Liverpool 3 —- Voronin, Babel og Kuyt með mörkin. Engill kom og sagði mér þetta …

  3. Ef við á annað borð sigrum (sem ætti að vera öruggt), þá setjum við klárlega 3-4 mörk á þá …. bara eins og við höfum verið að gera í undanförnum sigurleikjum.

  4. Hvíla Torres og Gerrard ? Hvaða bévítans kjaftæði er það ? Bara trúi því ekki. Ætlum við ekkert að skora í þessum leik ???? Hljóta að byrja inná.

  5. Silva hints at Liverpool move

    Gaman að lesa þetta svona á jóladag, væri til í síðbúna jólagjöf 🙂

    En að Derby, okkar næstumþvísterkastalið skal spila, ekkert rugl. Annaðhvort Torres eða Gerrard og svo er þetta kjörinn leikur fyrir Xabi til að koma sér í leikform.

    Gleðileg jól og áfram Liverpool!

  6. Uss skemmtileg frétt Andri Fannar.
    En ég hef ekki trú á því að RB hvíli bæði Gerrard og Torres. Þeir eiga að geta spilað alla leiki… fara frekar snemma útaf ef við verðum komnir 2-0 yfir. Það er allavega mín Philosophy-a.

  7. Sammála upphitara… skiptir ekki máli hvaða 11 byrja. Eigum alltaf að vinna þetta lið. Annað væri stórslys.

    Kewell skorar í þessum leik í það minnsta —pottþétt. Þið heyrðuð fyrst hér.

    0-4 og ekkert múður… kannksi 1-4. En öruggur sigur okkar manna.

    Koma svo Liverpool

    Svo alvöruleikur á móti Man city. Sá leikur líka must win!! Fjandakornið ég er kominn með hugann við þann leik! Ekki gott. Vonandi boðar það ekki eitthvað slys á morgun. 🙁

  8. Hef enga trú á öðru en að við tökum þetta eins og síðast. kæmi ekki óvart ef kyyt myndi skora loksins mark 😉 en ég held að leikurinn fari 4-0 kannski stærri sigur en við munum pottþétt taka etta létt 😉

    En annað vitiði hvernag leikurinn byrjar á morgun?

  9. Voronin og Kuyt frammi. Megi almættið forða okkur frá því … Torres frammi takk og Babel við hlið hans. Höfum ekki efni á að klúðra svona leikjum.

  10. Til hvers að vera að hvíla þessa menn ?

    Vilja menn fá annan leik eins og leikin á móti Reading ?

    Bestu menn LFC eiga alveg að getað klárað þetta.

    Í lagi að hvíla Gerrard og Kewell en alls ekki Torres.

  11. Hvernig væri að hvíla bara Benitez í einn leik.. Hann kæmi ábyggilega ferskari inn í þann næsta.. Bara spurning hver myndi stjórna, við erum alveg pottþétt ekki komnir með mann fyrir Pako?

  12. Ég býst við kraftmiklum baráttuleik, en þegar að það fer að líða undir lok fyrr hálfleiks setur Lucas eitt og svo byrjar skothríð…0-4 fyrir okkar mönnum, Lucas, Torres 2 og Arbeloa!!

  13. Er á því að Torres verði með Voronin, annars sammála liðsuppstillingunni.

  14. ómögulegt að spá í liðsuppstillingu. en að sjálfsögðu fer maður fram á 3 stig, annað er hneyksli.

  15. Koma Skippy í form, hann er farinn að skjóta á markið og hann skorar á morgun. 1-3 Babel kemur í stað Benna Jóns og skorar og Skippy á hinum kantinum og Alonso en ekki frá miðju samt.

  16. Það er stórhættulegt að hvíla bæði Torres og Gerrard….ég trúi ekki að Benítez taki sénsinn á því. Þá gæti þessi leikur breyst úr auðveldum sigri í hreina martröð.

    Annars skil ég ekki ást manna á Aurelio og Kewell. Fyrir mér er vinstri hliðin orðinn veikasti hlekkurinn í liðinu. Aurelio er mjög takmarkaður leikmaður og ef maður tekur allt inn í hjá Kewell þá má hann alveg missa sín. Alltaf meiddur og án undantekninga lélegur í stórleikjum. Ég er ekki að segja að þeir séu lélegir en ekki nógu góðir ef liðið ætlar að vera í toppbaráttu.

    Ég segi 0-1 og Torres skorar.

    Áfram Benítez!!

  17. Úff…ég óttast að þetta verði svipuð frammistaða og í Reading leiknum, hef trú á að þetta verði svipuð uppstilling og í deildarbikarnum nema að sjálfsögðu verður Crouch ekki með.
    Ætla samt að leyfa mér að spá þessu 1-3 svona til að vera Bjartsýnn.

  18. Skyldusigur maður getur varla sagt annað en að Derbu eru alltof lélegir fyrir efstu deild. Spái því 0-4 fyrir okkar mönnum og held að liðið verði svona:

                                          Reina
    

    Arbelo carra hobbs rise

    benayoun alonso gerrard babel

                            crouch                kuyt
    

    Held að hann hafi gerrard í liðinu svo það sé einhver inn á sem getur gert eitthvað einn. Ef maður hefur alonso þá verðu maður að vera með einhvern sem getur tekið við boltanum og gert eitthvað úr því eins og Torres getur og Gerrard en ef við hefðum bara alonso og Lucas þá mundi ekkert gerast frammi.

  19. Crouch er í banni þannig að hann getur ekki spilað 😛
    Hef það samt á tilfinningunni að Babel og Torres byrji frammi. Þetta er leikur sem á að vinnast auðveldlega sama með hvaða liði, þessvegna er hægt að prófa nýja hluti eins og að setja Babel og Torres saman í fyrsta deildarleiknum (er ekki alveg viss en haeld að þeir hafi aldrei byrjað frammi í deild) síðan hefur El Nino verið á skotskónum og sé því enga ástæðu fyrir því að hann byrji ekki inná.
    Og ef það verða einhver félagsskipti í janúar megi það vera S-menn Silva inn Sissoko út.
    Gleðileg jól 😀

  20. Daginn.Til hvers að hvíla menn ef þeir eru í lagi,láta aðal liðið spila,ekki vera að spara menn út af næsta leik.Rafa hefur alltaf sagt:við tökum einn leik fyrir í einu:.Spila með besta liðið og svo má spá í næsta leik,maður skiftir ekki um dekk áður en springur.

  21. Að sjálfsögðu á að fara í leikinn með sterkasta lið sem völ er á annað væri heimska. Maður á reyndar von á ýmsu þegar að varnartröllið Benitez á í hlut.

  22. Sammála þér Þórhallur, ég held að við byrjum með sterkt lið og ef vel gengur þá fá Gerarrd og Torres skiptingu snemma í leiknum.
    0-3 ; )

  23. Benayoun – 1
    Alonso – 1
    Lucas – 1
    Babel – 1
    Voronin – 1
    Kuyt – 1

  24. Ég ætla að halda áfram að spá því sem ég geri fyrir hvern einasta leik og spái því að Carragher skori í 4-0 sigri þar sem Carragher og Torres skora 2 mörk hvor

  25. Því miður er ég ekki jafn bjartsýnn og aðrir hér inni. Líst illa á það að hvíla Gerrard og Torres, við megum einfaldlega ekki við því!

    1-1 jafntefli á Pride Park í dag. Derby að rétta aðeins úr kútnum undir stjórn Paul Jewell.

  26. Það endar líklega me því að Carr skorar Anton ,en 2 mörk ,það gerist ekki í þessu lífi

  27. Hvaða rugl er þetta? Auðvitað megum við við því að hvíla Gerrard og Torres. Eruði með öðrum orðum að segja að lið með Alonso / Mascherano á miðjunni og Voronin / Kuyt frammi sé ekki nógu gott til að vinna Derby? Rosalega hafa menn litla trú á breiddinni í hópnum.

  28. Ég held ég viti hverjir eiga lagið sem er spilað undir á þessu myndbandi með “El Nino”..

    http://www.youtube.com/watch?v=EkJ9hEO_6oU

    En getur einhver sem þekkir það 100% sagt mér hvað hljómsveit þetta er. Og hvað diskurinn heitir sem það er að finna á!!

    Fyrirfram Takk.. 🙂

  29. @ Jón H. Eiríksson:
    Lagið heitir Starlight og er með hljómsveitinni Muse. Lagið má finna á disknum þeirra Black Holes and Revelations.

  30. Einar Örn við meigum alveg við því að hvíla Gerrard og Torres ,en hvers vegna?Láta þá spila þeir verða bara betri og betri og sprækari. Nota okkar bestu menn meðan þeir eru ekki veikir o s f.Ég mæli með því

Gleðileg jól!

Liðið gegn Derby: Torres og Alonso byrja