Chelsea – Liverpool= 2-0

Þá er þátttöku okkar manna í deildarbikarnum lokið leiktímabilið 2007 – 2008. Henni lauk á Stamford Bridge í kvöld. Rennum okkur í leikskýrsluna snöggvast.

Byrjunarliðið í kvöld var:

Itandje

Arbeloa – Hobbs -Carragher – Aurelio

Lucas – Alonso – Sissoko

Voronin – Crouch – Babel

Eiginlega bara nokkuð eins og við var að búast. 4-3-3 þegar við sóttum, 4-5-1 þegar við vörðumst. Spegilmynd af Chelsea liðinu sem var feykivel mannað í kvöld. Ég tek það skýrt fram að ég ætla ekki að tala um varalið okkar manna í kvöld. Trúi ekki lengur á svoleiðis, mér fannst í kvöld bara vera hægt að tala um Hobbs sem leikmann sem ekki er klárlega hugsaður sem leikmaður sem á að vera tilbúinn í alla leiki aðalliðsins. Hvort þeir eru það er spurning, en mér leiðist tal um kjúklinga- og varalið.
Þetta lið var nógu vel mannað til að taka vel á Chelsea.

Sem varð raunin. Leikurinn byrjaði hægt, Chelsea kannski meira að reyna fyrstu 15 mínúturnar, án stórra færa og það sem upp kom sá Itandje karlinn vel um.

Upp úr fyrstu 15 jafnaðist leikurinn vel út og við fórum að gera okkur líklega til að sækja. Fengum enda fyrsta dauðafærið þegar Lucas komst einn gegn Cech, en kláraði færið illa og því miður sá Tékkinn með púðahúfuna við honum. Áfram hélt jafnræðið og í blálokin áttum við flotta sókn þangað til að aumingja Momo karlinn Sissoko steig á boltann í upplögðu færi. Voronin reyndar náði skoti upp úr því, en framhjá.

Hálfleikur, 0-0, allt í fínu. Hafði reyndar smá áhyggjur af Lucasi sem mér fannst frábær í hálfleiknum. Var eilítið á því að hann fengi nú annað gult.

Fyrstu 15 í seinni vorum við áfram sterkari, reyndar tók Itandje sig til og sýndi þvílíka blaðamannavörslu frá Essien. En við fengum svo þvílíkt dauðafæri þegar Crouch gerði vel að komast inn í sendingu Carvalho til markmannsins áðurnefnda. Varð svo djarfur að reyna að vippa, bara nokk vel gert, en Cech varði. Málið er bara það að þegar maður fær svona færi gegn Chelsea eins og Lucas og Crouch fengu er bara skylda að klára. Annars er manni refsað.

Og það varð. Frekar meinlaus sókn endaði á löppunum á Lampard sem skaut í Carragher á þann hátt að boltinn skrúfaðist upp í loftið og yfir algerlega hjálparlausan Itandje í markinu. 1-0 fyrir Chelsea.

Það verður alltaf erfitt að vinna svoleiðis upp. Hvað þá þegar örfáum andartökum seinna Crouch vinur okkar missti sig eftir að Mikel var búinn að vera brjótandi pirrandi brotum allan leikinn. Missti það í augnablik, klaufatækling og auðvitað sá dómarinn um rest.

Skoðið hvað Rafa sagði um málið í kvöld

Eftir þetta varð málið afar erfitt. Rafa tók Alonso útaf og setti Nabil El Zhar inná, Babel upp á topp. Chelsea lokuðu bara og sóttu á fáum. Eina færið sem við fengum féll fyrir fætur El Zhar sem skaut framhjá eftir fína sendingu Voronin. Chelsea virtust nokkuð sáttir, en á 90.mínútu fékk Wayne Bridge alltof mikinn tíma við endalínuna, sendi hann fyrir og Úkraínumaðurinn ósýnilegi þrumaði í markið. 2-0 staðreynd og við út.

Svo var dregið í undanúrslitin. Chelsea spilar á móti Everton. Viðurkenni alveg að ég er feginn að losna við að spila tvo “derbyleiki” í janúar!

Drögum saman, byrjum á neikvæðu. Sissoko. Er á útleið úr þessu liði held ég hljóti að vera. Arbeloa og Aurelio fannst mér slakir og Voronin er ekki að virka alveg finnst mér.

Ef við förum svo í jákvæðnina, ég var mjög glaður með fyrstu 60 mínúturnar. Liðið átti í fullu tré við Chelsea á öllum sviðum og átti að komast yfir. Eftir mark Chelsea og það rauða í kjölfarið var málið úr sögunni. Mér fannst Itandje mjög flottur í markinu, Lucas átti enn einn fínan leikinn og Crouch og Babel voru líflegir. En það er engin spurning í mínum huga, fyrirliðinn Jamie Carragher var bestur í kvöld. Bara einfalt.

Þannig var nú það, enn eitt tapið fyrir Chelsea staðreynd, ekki of alvarlegt samt, nema fyrir þá yngri sem sennilega verða sendir í lán í janúar fyrst svona fór.

En nú er það bara að einbeita sér að jólaprógramminu í deildinni og leyfa öðrum að keppa um þennan bikar. Næst er það Portsmouth á Anfield, það er algerlega klár „must win“ leikur!

50 Comments

 1. Sælir – þetta voru ekki góð úrslit eða hvað? Ég sá ekki leikinn en fylgdist með í gegnum netið.
  Ég er ekkert ósáttur við þessi úrslit. Það er að mínu mati ágætt að þurfa ekki að hugsa meira um þessa keppni og nú getum við einbeitt okkur að þeim keppnum sem skipta máli.
  Benitez gerir nokkrar breytingar en stillti samt upp sterku liði. Þetta lið hefði getað unnið mörg lið en Chelsea menn fóru inn í þennan leik með virkilega sterkt lið og þeir uppskera sigur heima.
  Við eigum ekkert að gráta þennan leik heldur að fagna því að Alonso sé að koma aftur eftir langa fjarveru.
  Nú er bara að vinna þessa næstu leiki í deildinni og ef það gengur eftir þá erum við í virkilega góðri stöðu og eigum alveg séns í titilinn.
  Það eru 6 stig í Man U ef við vinnum leikinn sem við eigum inni. Það er ekki heimsendir.

 2. shSælir félagar
  Svo sem ekkert um þetta að segja nema dómgæslan slök svo ekki sé meira sagt. Svo olli það vonbrigðum hvað Leiva var slakur og reyndar hvað Crouch var slappur líka. Annars alveg sama um þennan leik nema ég hefði viljað tapa honum fyrir einhverju öðru liði. Manni er farið að leiðast hvað árangur liðsins og Benitez er arfaslakur gegn stóru liðunum.
  Það er nú þannig.

  YNWA

 3. Ég er ekkert að tapa mér yfir þessu, þar sem þetta er jú deildarbikarinn.

  Að mínu mati voru okkar menn betri í dag, en aftur dugði það ekki til. Það er orðið verulegt áhyggjuefni. En ég jafna mig fljótt ef við vinnum Portsmouth á laugardaginn.

  Ætli það sé til heppnari leikmaður í þessum heimi en Frank Lampard? Ég stórlega efast um það.

 4. Ég vona að þetta hafi þau áhrif á liðið að það rífi sig upp á móti Portsmouth næsta laugardag. FA Cup, meistaradeildin og deildin er alveg nóg.
  Þetta er auðvitað óþarfa Pollýönnuleikur en Chelsea lagði meira í leikinn miðað við leikmenn sem spiluðu og unnu samkvæmt því.
  Það er samt einhvern veginn ekki eins súrt að tapa fyrir Chelsea eftir að Moroniho hætti.

 5. vá hvað Momo var að brilera í þessum leik
  ….hann er bara brandari.

 6. Ekki það að ég nenni að svara mikið frekar fyrir þær skammir sem ég á eftir að fá, en Momo var að mínu mati næstbesti maður Liverpool liðsins á eftir Carragher.

 7. Jæja, svona fór um árabátsrúnt þann.

  Eins og Einar sagði höfðum við undirtökin í leiknum en náðum ekki að skora. Í kvöld kom það til af því að framherjarnir þrír á vellinum voru í algjöru óstuði. Babel var reyndar skárri en hinir tveir en samt ekki nógu beittur í þeim tækifærum sem hann fékk. Voronin og Crouch voru hins vegar skelfilegir í þessum leik. Voronin kórónaði sinn leik með því að skjóta úr öllum stöðum þegar maður var hálf gargandi á hann að vera rólegur og spila inn í teiginn. Crouch var áhorfandi í þessum leik þangað til hann lét reka sig útaf og kom sér í frí fram á næsta ár. Þeir verða báðir að gera betur en þetta ef þeir ætla sér fram fyrir Kuyt (og Babel) í goggunarröðinni.

  Á miðjunni voru Lucas og Alonso góðir en eftir að Alonso fór útaf datt Lucas alveg úr stuði. Það var gott að sjá Momo spila af smá krafti og sjálfsöryggi í kvöld, hann var í alvöru einn af okkar skárri mönnum. Hins vegar var líka vont að sjá Momo spila af smá krafti og sjálfsöryggi, þar sem kappofsinn í honum var miðjuspilinu nánast til trafala á stundum. Samt, skárra en í síðustu leikjum.

  Arbeloa var góður, Hobbs gerði nokkur slæm mistök, þar á meðal þau sem kostuðu á endanum fyrsta mark Chelsea, en stóð sig annars vel þess á milli, á meðan Aurelio var fínn.

  Carragher var okkar besti varnarmaður í kvöld, en ómægod hvað hann er að gera mig brjálaðan þessa dagana í framspilinu. Carra hefur að mínu mati dottið allt of mikið niður í það á undanförnum vikum að negla boltanum bara í loftið við fyrsta tækifæri. Hann verður að slaka aðeins á, annars gætum við sleppt því að hafa menn eins og Alonso og Lucas inná miðjunni.

  Itandje var sennilega okkar besti maður í kvöld, að mínu mati … þangað til hann hleypti slöku skoti Schevchenko inn undir lokin. Það var frekar slappt, en annars góður leikur á heildina séð.

  Já, og Frank Lampard skoraði með gríðarlegu heppnisskoti eftir að hann fór í varnarmann og skoppaði þaðan yfir markvörðinn. Það hefur ALDREI gerst áður, er það nokkuð?

  Allavega, ég græt þetta tap varla þar sem mér er slétt sama um Deildarbikarinn nú orðið, en það er samt slæmt fyrir liðið að hafa tapað þremur leikjum í röð í Englandi. Þetta skal leiðréttast á laugardaginn, það er eins gott!

 8. Sissoko var mjög góður í þessum leik. Hann Carragher og Alonso voru að spila mjög vel.
  Það var gaman að sjá Alonso koma svona sterkan til baka og er greinilegt að liðið hefur saknað hans mikið.

 9. Hvað var Momo eiginlega að gera af sér? Einn besti maður vallarins.
  Það sem stendur samt upp úr eftirfarandi: 1. Hversu Lucas lofar góðu, amk. fyrstu 60 mínúturnar. Loksins einhver sem alltaf reynir að spila boltanum. 2. Það er skaup að Voronin sé að spila fyrir aðallið Liverpool.

  Það var verið að draga. Hefði Liverpool nennt að vinna þetta þá hefði liðið verið að spila á móti Everton í undanúrslitum.

 10. Carra var svo sannarlega lang besti maður Liverpool í dag.
  Helsta vandamál Liverpool er þessi andskotans fjarlægðarpressar…
  Sem sannaðist best í seinna markinu þegar Arbeloa stóð og horfði á chelski leikmanninn leggja boltann vel fyrir sig svo hann gæti gefið hann fyrir.
  Hitt atriðið sem er að, en hefur lagast, er sendingageta leikmanna Liverpool. Hún er alveg fyrir neðan allar hellur og að sjá muninn á getu hinna þriggja liðanna sem við berum okkur nú alltaf við… Sendingar og móttaka liverpool leikmanna er á við miðlungs úrvalsdeildarlið…
  Það sem er líka áberandi hvað ungir leikmenn virðast blómstra í öðrum liðum en ungir leikmenn hjá liverpool fara bara í feluleik…
  Ég ætla nú ekki að eyða orðum í dómarann því hann var alveg arfaslakur og gerast þeir varla verri.

  Allt þetta kjaftæði um að það sé gott að vera dottnir úr þessari keppni hlusta ég ekki á… Þetta eru atvinnumenn gera ekkert annað en að spila fótbolta og það á alltaf að berjast um hverja dollu sem í boði er.

 11. Er e-r með tölfræði yfir hvað Frank Lampard hefur oft skotið í leikmann og inn? Svei mér þá ef hann hefur ekki skorað fleiri slík mörk á ferlinum heldur en hitt. Þetta er hætt að vera fyndið.

 12. Við vorum slakari í dag og á sunnudag.

  EN þetta fer að detta inn hjá okkur…

 13. ég man ekki eftir marki frá Lampard sem var ekki víti eða af leikmanni…

  annars var alveg hægt að sjá jákvæða punkta við þennan leik… Alonso er kominn aftur, Lucas og Babel eru gríðarleg efni (verður fróðlegt að sjá þá þegar líður á tímabilið, svo ekki sé minnst á næsta tímabil…) og mikið djöfull er gott að sjá Aurelio í vinstri bakverðinum í stað Riise…

  Annars… maður kvartar varla mikið þegar lið sem samanstendur af mönnum sem eru að koma úr meiðslum, varaliðsmönnum og einstaka fastamönnum (sem urðu að spila sökum skorts á leikhæfum mönnum) tapar rétt svo fyrir fullskipuðu Chel$kí liði (fyrir utan reyndar Terry og Drogba 😉 )

 14. hvað getur maður sagt?

  mér fannst við spila ágætisbolta. gaman að sjá alonso koma til baka og hann spilaði vel. sissoko spilaði kannski eins og hann best getur, en það er bara langt frá því að vera nógu gott því miður fyrir hann og liverpool. annars er ég sáttur við flesta leikmennina í kvöld fyrir utan crouch, þetta brot var út í hött að mínu mati. kannski ekki mikil snerting og hálf kjánalegt af chelsea manninum (man ekki hver það var) að vera að velta sér þarna eins og hann hefði verið skotinn með haglabyssu. en þetta brot var bara rugl og brottvísun réttur dómur að mínu mati. eftir það var þetta of erfitt. en við getum alveg verið bjartsýnir fyrir laugardaginn, gerrard og torres eru úthvíldir og hungraðir í að sýna hvað í þeim býr eftir ósanngjarnan leik á sunnudaginnn síðasta.

 15. Ég hef ekki mikið bloggað hér… but here goes:
  Þetta er slæmt tap hvort sem við berum virðingu fyrir þessari keppni eða ekki. Við erum búnir að tapa tveimur leikjum í röð fyrir þeim liðum sem við teljum okkur þurfa að keppa við til að vinna titilinn. Ekki beinlínis uppbyggjandi fyrir liðið okkar sem heild.
  Ég sá ekki leikinn í kvöld þannig að ég veit ekki hvort við vorum að standa okkur og áttum meira skilið. Einhvernveginn eru það samt úrslitin sem skipta máli.
  Það má samt fara að spyrja sig að á fjórða tímabili hvort að liðið fari ekki að taka á sig þá mynd sem knattspyrnustjórinn setur upp. Houllier var alltaf að tala um 5 ára áætlunina sína, spurning hvort það sé eitthvað svipað með Benitez? Búið er að selja bróðurpartinn af leikmönnum sem GH keypti og margir þeirra voru í sigurliði CL 2005. RB hefur í staðinn fyrir þá keypt mikið af leikmönnum og mótað liðið eftir eigin höfði. Í sumar keyptum við nokkrar dýra leikmenn sem voru með mikinn fókus á sóknarleik. RB var hinsvegar ekki á því að við værum að eyða nóg til þess að vinna titilinn og gaf það út í sumar að meira þyrfti ef duga skyldi. Það hlýtur hinsvegar að teljast vafasöm þróun ef við eigum að vera á eftir “dýrustu” eða “bestu” leikmönnunum ef við ætlum að vinna titilinn. Við hljótum að þurfa að leggja áherslu á eitthvað meira en eingöngu það, er það ekki annars? Hvernig fór til dæmis síðasta Evrópukeppni landsliða? Eða var eitthvað óútskýranelgt í gangi þegar Reading gekk eins vel og raun bar vitni á síðasta sísoni?
  Eftir að hafa séð flesta leiki með Liverpool, í deild og Meistaradeild þetta síson er ég ekki alveg viss um hvað er að gerast með liðið. Stundum erum við að spila finan bolta sem skilar árangri en í næsta leik er eins og ekkert ætli að ganga upp. Óstöguðleiki virðist vera einum of oft að koma í bakið á okkur sem leikmenn bera að hluta til ábyrgð á en hlýtur þó að hvíla þyngst á stjóranum. Þetta á ekki eingöngu við um leiki við stóru liðin því við virðumst vera jafn út á þekju á móti minni spámönnum ef þannig ber við. Þá hljóta “dýrustu” rökin að vera brostin. Ég er hreinlega farinn að efast um það að Benitez hafi fulla stjórn á mannskapnum, þá aðallega sem snýr að því að mótivera menn fyrir leiki. Einnig finnst mér vanta uppá að leikmenn beri virðingu fyrir klúbbnum og spili fyrir klúbbinn en ekki eigið ágæti fyrst og fremst.
  Að mínu mati er gaman að fylgjast með því hvernig lið eins og Grikkir eða Reading geta hreinlega takið á móti mun betri (á bókinni) andstæðingum og boðið þeim byrginn. Þetta hlýtur að vera eitthvað sem lið eins og Liverpool getur tekið sér til fyrirmyndar.
  Rfirildið um daginn hlýtur að vera sprottið af því að ákveðnar væntingar voru fyrir þetta tímabil. Væntingar sem eru ekki að verða að veruleika. Nýir eigendur koma með nýjar áherslur og hvort sem að RB er í þeim eða ekki þá vona ég það að þeir beri fyrst og fremst hag klúbbsins fyrir brjósti þegar þeir meti það hvort halda eigi áfram á þessari leið eða taka nýja stefnu.

 16. Ég verð að vera sammála Benitez sem hefur sagt að Crouch hefði átt að vera betur verndaður af dómaranum. Það var klárt brot þarna áður á Crouch fyrir þessa glórulausu tæklingu. Hún er á engan hátt afsakanleg. Ég af öllum mönnum vil helst ekki vera að kvarta yfir dómurum. En þessi dómgæsla var sú allra slakasta sem ég hef orðið vitni af í sjónvarpsleik. Hún var hreinasta hörmung.

  Nóg af því. Liverpool liðið lék ekki vel í þessum leik og virtist sem hálfgjört metnaðarleysi einkennast liðið. Bara þegar nærmyndir komu af leikmönnum þá skein metnaðarleysið af þeim. Það þýðir ekki að gráta Björn bónda og þennan blessaða bikar. Það sem þarf að lagast er að fá upp vinningseðlið og byggja upp sjálfstraust. Ef það kemst á laggirnar verða þetta þægilegir jólamánuðir með púns og marengs.

  Jólin allir.

 17. (Eftirfarandi eru hugleiðingar undiritaðs og þurfa ekki að endurspegla skoðanir annarra lesanda og höfunda hér)

  Það segir kannski allt um getu Sissoko þegar ykkur finnst hann vera með betri mönnum í kvöld því ef þetta er með því betra þá er hann ekki nógu góður til þess að spila með Liverpool. Hvað ætli hann hafi klikkað á mörgum sendingum? hvað steig hann oft á boltann og sáuð þið ekki þegar hann tók boltann af Alonso, samherja sínum og tapaði honum svo til Chelsea? maður roðnaði bara. Svo ég nefnið nú annað atriði þá fékk hann boltann ofarlega á vellinum eða á vinstri kanti algjörlega óvaldaður og í stað þess að ná stjórn á boltanum eða spila honum á næsta mann þá sendir hann boltann viðstöðulaust lang leiðina að eigin hornfána og útaf.
  Barátta hans er vissulega hetjuleg svo ekki sé meira sagt og hjartað er á réttum stað. Hann vann eflaust 20 bolta í kvöld eins og alltaf þegar hann spilar, en því miður kom bara ekkert útúr því.
  Ef lið ætlar að vera með í topp baráttunni þá þurfum við að lágmarka mistökin og maður sem gerir sig sekann um svona mörg mistök í leikjum verður að vera í algjöru aukahlutverki. Þetta kom berlega í ljós í leiknum á móti manutd þar sem liðið sem gerði færri mistök vann.

 18. Ég væri alveg til í að vera með leikmann sem skorar jafn mörg mörk og Lampard í andstæðing og inn… mörkin telja hvernig sem þau koma. Fyrir utan Gerrard er ekki hægt að segja að eftirfarandi miðju og kantmenn Liverpool skili mörgum mörkum:
  Pennant, Alonso, Kewell, Mascherano, Sissoko
  Leyfum Lucas og Benayoun að njóta vafans í bili.

 19. Ingi, þetta er alveg týpískt hugarfar gagnvart Sissoko. Hann og Alonso lentu í misskilningi og boltinn glataðist … en af því að Alonso er fullkominn og menn eru búnir að afskrifa Sissoko er þetta sjálfkrafa honum að kenna.

  Þetta var þeim báðum að kenna. Þetta var misskilningur.

 20. Ég hef aldrei skrifað á þessa síðu en hef aftur á móti lesið hana um nokkurt skeið. Ég sá ekki þennan leik enda lítið spenntur fyrir honum. Mér finnst alltof mikil neikvæðni í mönnum. Ég tel að United leikurinn sitji einfaldlega í mönnum út af því að við áttum leikinn og við vorum óheppnir að skora ekki amk 2 mörk. Svona er fótbolti og við verðum að sætta okkur við það. Hinsvegar á þetta nokkurnveginn að jafnast út og það kemur að því að United og Arsenal misstígi sig og við finnum fjölina. Ef liverpool heldur sig boltann sem það hefur verið að spila (utan reading og chelsea) þá mun árangurinn koma. Liverpool er að bæta sig að mínu mati töluvert miðað við fyrra tímabil og það er aðalatriðið, allt annað er röfl og óþolinmæði.

 21. Carra var alveg fáránlega góður í þessum leik. Sissoko var mjög góður í leiknum líka og það þýðir lítið að ætlast til að hann sé að senda úrslitabolta eða gera eitthvað stórkostlegt með boltann. Hans kostir eru að hann er ódrepandi á miðjunni (og stundum út um allt) og tæklar allt sem hann sér. Hann er frábær í því en minna góður í öðru. Ef hann spilar eins og í dag þá á hann klárlega erindi í hópinn en ef hann spilar eins og hann gerði í Marsille leiknum á Anfield þá á hann ekki heima í þessari deild.

  Annars var ég ánægður með flesta í leiknum…..nema þá Voronin sem ég skil ekki að fái að spila og einnig er líklegt að Crouch hafi verið að stimpla sig út í þessum leik.

 22. Sissoko átti alveg fínan leik í kvöld fannst mér miðað við að þetta var Chelsea. Ekki nóg með það. Þetta var Chelsea með Mikel, Essien og Lampard. Heimsklassa miðja alveg.
  Svosem gömul saga og ný að hann er playstopper, ekki playmaker. Rafa þarf bara að fara koma því í hausinn á honum að um leið og hann nær að stoppa sókn andstæðingana á miðjunni (í flestum tilfellum) þarf hann að koma boltanum á annan miðjumann.

 23. Að mínu mati hefur maður sem ekki getur sent 2 metra sendingar í lappirnar á samherja sínum ekkert í atvinnumennsku að gera. Það er ekki nóg að geta unnið boltann mörgum sinnum ef þú gefur svo boltann um leið á andstæðinginn.

 24. Þessi keppni er ekki stór, en við vorum með álíka sterkt lið inná og Chelsea og atvinnumenn hafa engan áhuga á tapa. Sérstaklega þegar liðið er með sært stolt eftir sunnudagsleikinn.

  Enn og aftur leikur gegn liði úr Top 4 og við skorum ekki. Við töpum þessum jöfnu leikjum gegn þeim eins og oftast hefur gerst undir stjórn Rafa.
  Við nýtum ekki færin, jafnvel dauðafæri einn á móti markmanni. Hörmungar árangurinn gegn toppliðunum heldur áfram.

  Pirrandi. Óásættanlegt.

  Þetta minnti á KR hér heima, með góða fótboltamenn á miðjunni en boltinn bara kemst ekki til þeirra því varnarmenn dúndra háum fallhlífarboltum yfir þá í hvert sinn.
  Ekki það sem maður vildi sjá eftir síðasta leik en best að taka pollýönnu á þetta….

  Gott að þetta tap var ekki í deildinni, enginn meiddist, allir leikmenn vallarins skildu eftir sem vinir, fagmannlegt tap, höfum einni færri keppni að detta útúr, getum núna einbeitt okkur að erfiðustu keppnunum, Liverpool er besta lið í heimi.

 25. Daginn. Sá ekki leikinn.Segi enn og aftur ,nota B-liðið í þessum bikar,öll liðin ættu að gera það ,,,,, takk

 26. Ég er nú ekki sammála mönnum hér, mér fannst Lucas koma mjög vel frá þessum leik þrátt fyrir tap. Það var rosalega flott spil í kringum hann og hann getur sent hann í fyrsta annað en Sissoko gerir. Drengurinn er klárlega box to box leikmaður þótt mér finnst hann betri fram á við. Hann var mun betri í gær en þegar hann hefur leikið með Gerrard á miðjunni því þá liggur hann meira til baka. Verður gaman að fylgjast með þessum gaur í famtíðnni, hann verður stjarna.
  En mér fannst liverpool alveg ágætir í þessum leik farm að markinu sem Lampard þurfti hjálp eins og vanalega til að skora.

 27. var ekki ósáttur við allt í leiknum, hata samt að tapa. Skil ekki menn þegar þeir segja að þeim sé alveg sama þó leikurinn hafi tapast. Hverskonar metnaðarleysi er þetta eiginlega? Er . Áttum aldrei séns eftir að við lentum undir og misstum Peter réttilega af vell hann hefur trúlega spilað sinn síðasta í rauðu treyjunni því fyrir utan rauða spjaldið var hann afar slakur og fór illa með 2 mjög góð færi. Momo var ágætur en skil samt ekki hversu framarlega hann er á vellinum. RB gafst upp þegar hann tók babel af velli hann var sá eini sem hugsanlega gat gert eitthvað sóknarlega eftir að við lentum undir með hraða sínum. Getum enn bjargað tímabilinu með því að vinna þær 2 döllur sem raunhæfir möguleikar eru á

 28. Vorum líklegir í fyrra hluta leiks en við áttum aldrei séns eftir að Crouch missti sig, einfalt það.

  Var bent á þennan link af Arsenal manni í gær :
  http://biawc.110mb.com/

  Kveðja,
  Hrafnj

 29. Þetta var alls ekki alslæmur leikur. Alonso spilaði ágætlega og miðað við að hann hefur ekki spilað í 10 leiki í röð þá leit hann vel út. Mikilvægt að fá hann tilbaka. Babel er áræðinn að vanda og þarf að spila meira. Það gekk ekki allt upp sem hann ætlaði sér en hann reynir og hefur bæði tæknina og líkamann í þetta. Sissoko spilaði ágætlega en gerir klaufaleg mistök líkt og að stíga ofan á boltann þegar hann er kominn í hálffæri. Itandje stóð sig vel í rammanum, betur en ég átti von á. Hobbs er ungur en lofandi. Carragher var öflugur að vanda en er sammála KAR með uppspilið hjá honum. Bæði Arbeloa og Aurelio voru allt í lagi en ekkert meira en það.

  Heilt yfir var þessi leikur slappur og bæði lið frekar áhugalítill. Mikið um tæknifeila og ljóst að bæði lið mættu ekki 100% klár.

  Næst er það Porstmouth og vonandi náum við að vinna þann leik því annars….

 30. 3 töp í 4 leikjum. Einn sigur á móti firmaliði Marseilles sem þvílikt var blásinn upp. Glæsilegt? Næst Portsmouth sem getur á góðum degi unnið hvaða lið sem er.

 31. Kristján Atli #19, já þetta er alveg dæmigert hugarfar gagnvart honum enda alveg dæmigerð mistök hjá manninum. Kannski líka alveg dæmigerð viðbrögð hjá þér 🙂 þið þurfið ekki alltaf fara svona í vörn þó svo að einhver sé gagnrýndur.

 32. Við förum ekkert alltaf í vörn þegar að einhver leikmaður er gagnrýndur.

  En ef menn gagnrýna menn (einsog ég er til dæmis MJÖG gjarn á að gera yfir Dirk Kuyt og Finann og fleirum), þá viljum við bara að menn séu sanngjarnir. Það er ekki sanngjarnt að taka Sissoko útúr þessu liði í gær og segja að hann hafi verið hræðilegur, þar sem hann lék ágætlega.

  Menn mega vel gagnrýna Sissoko og alla aðra (lesið bara alla gagnrýnina á Crouch á þessari síðu, sem að ENGINN okkar hefur mótmælt undanfarna daga) – en reynum að vera sanngjarnir og gleymum því að það gerir gagnrýni fólks trúverðugari þegar að þeir geta hrósað mönnum fyrir góð verk.

 33. Eins og við sáum þá vantar gífurlega breidd í hópinn til að geta notað varaliðið. Olíuliðið er auðsjánlega með mun betri hóp. Og svo missti Crouch sig algjörlega sem gerði vonir okkar að eingu. Dómarinn hefur fengið nokkrar olítunnur fyrir að vera 12 maðurinn í liði Chelsky. Þeir meiga frá Crouch mín vegna.

  EN ÁFRAM LIVERPOOL!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!

 34. MAÓ, ég tek undir með þér að dómarinn í gær var slæmur og mér fannst hann á tímabili augljóslega ákafari í að spjalda okkar menn en Chelsea-menn. Og ég tek líka undir með Benítez að dómarinn verndaði Crouch ekki nægilega í leiknum og því er kannski eðlilegt að hann hafi verið orðinn pirraður. Hins vegar er tæklingin hans óafsakanleg. Hann er heppinn að slasa Mikel ekki meira en gerðist, en ásetningurinn er greinilega til staðar.

 35. Já svona tækling á sér enga afsökun, svona lagað getur/hefur eyðilagt ferilinn hjá mönnum.
  Alltaf fúllt að tapa, en einhvernveginn var mér bara svo innilega sama með þennan leik.
  Leikurinn um næstu helgi verður hinns vegar að vinnast því “hin stóru liðin” eiga líka erfiða leiki, og það eru líkur á að toppliðin tapi stigum í leikjum helgarinnar, það má bara ekki vera við !
  Mín spá:
  Arsenal-Tottenham X
  Liverpool-Portsmouth 1
  Man. Utd-Everton 1
  Blackburn-Chelsea X
  En ég hef yfirleitt ekki rétt fyrir mér : )

 36. Já, alltaf ömurlegt að tapa á móti Chelsea, það verður aldrei litið framhjá því. Mér fannst hins vegar margt gott í leik liðsins sem slíkum. Mér finnst MAÓ til dæmis ekki á réttri línu hérna þegar hann er að tala um að gífurlega breidd vanti í hópinn og af þessu að dæma sé Olíuliðið með mun betri hóp. Hvernig fær hann það út? Rafa gerir heilar 9 breytingar á byrjunarliðinu frá leiknum gegn Man.Utd. Á meðan var Chelsea að spila á nánast öllum sínum sterkustu mönnum sem voru available.

  Kannski er orðin spurning um að selja Sissoko. Ekki vegna þess að ég sé endanlega búinn að gefast upp á honum sem knattspyrnumanni, síður en svo, heldur vegna þess að það verður alveg sama hversu vel hann spilar í framtíðinni, ákveðinn hlutur stuðningsmanna mun bara sjá þau atriði hjá honum sem teljast slæm. Ég er til dæmis alveg handviss um það að ef Momo Sissoko (sem hefur verið hörmung undanfarið) hefði verið í einhvers konar Stevie G búningi, þá væru flestir hérna að velja hann mann leiksins. Jú, hann átti einar 3-4 sendingar sem voru vondar (engin þeirra hafði þau áhrif að það skapaði hættu, bara venjulegt posession loss eins og gerist reglulega hjá Stevie líka) og einu sinni steig hann óvart á boltann (sem við höfum jú líka séð hjá snillingum). Samt koma menn hérna og segja hann ekki geta send venjulega 2 metra sendingu á samherja. Ég skora á þessa aðila að horfa á leikinn aftur og telja fjölda heppnaðra sendinga í þessum leik. Þetta er farið að jaðra við Sissoko fordóma verð ég að segja.

  Crouch tæklingin var heimskuleg, engin spurning og hann getur bara sjálfum sér um kennt. Ég er heldur ekki hrifinn af því að Rafa sé að reyna að afsaka hana með því að Obi fáviti hafi verið búinn að pirra hann. Það er engin afsökun fyrir þessu. Vandamálið sem ég sé í þessu er hvort þetta var í rauninni beint rautt eða ekki og svo tvískinnungshátturinn í þessum Grant vitleysingi sem stýrir Chelsea. Þannig var það nefninlega fyrir stuttu síðan að þessi sami John Obi átti alveg svaðalega tæklingu gegn Scott Parker á heimavelli Chelsea. Hún var í þeoríunni svipuð þessari að því leiti að hann kemur og fer með lappirnar í loftinu sitt hvorum megin við löppina á andstæðingnum. Munurinn var bara sá að sú hjá Obi var margfalt harðari, tók manninn beint aftan frá og gjörsamlega klippti hann niður. Svo vældi þessi vesalingur og Crouch varla náði að snerta hann. Mitt mat, báðir rautt og að Grant fábjáni ætti að spóla tilbaka og skoða brotið hjá sínum manni og Obi að hætta að væla því þú vælir ekki yfir því að vera kýldur á kjammann ef þú sjálfur skaust mann vikunni áður.

  Annars ánæður með Itandje, Lucas, Aurelio, Babel, Xabi, Carra og Momo í leiknum. Fannst við betri aðilinn alveg þar til Mr.Deflected kom til leiks. Var afar óánægður með Voronin og Crouch. Hobbs átti erfitt uppdráttar kall greyið og Arbeloa komst skammlaust frá sínu.

  En því miður, einum titlinum færra að berjast um. Nú er það bara fókus á næstu leiki.

 37. Sælir félagar.
  Ég get fallist á að Leiva hafi verið góður í fyrri hálfleik en hann var arfaslakur í þeim seinni. Ég er sammála nokkrum hér um að Carra og Sisso hafi verið góðir og ég er líka orðinn þreyttuer á úthaldsleysi Rafa þegar hann tekur Babel útaf. Einnig get ég fallist á að Crouch megi fara á sölulista mín vegna með Riise og Sisso. Gott að sjá hvað Alonso var þrátt fyrir að hafa ekki spilað mánuðum saman. Leiva og Babel eru feiknaleg efni og ég VIL að Rafa fari að nota Babel með Torres frami. Kuyt, Voronin og Crouch eru ljósárum á eftir þessum tveim.
  Það er nú þannig.

  YNWA

 38. SSteinn, ég held að Liv hafi ekki verið að BERJAST um þennan titil ,ef svo væri. hefðu aðrir leikmenn verið notaðir

 39. Sissoko er leikmaður góður í að tækla, vinna boltann. Hrós

  Sissoko er leikmaður lélegur í flestu öðru. Neikvæð Gagnrýni.

  Liverpool FC hlýtur að geta fundið leikmann sem er góður í að tækla og vinna boltann og líka sæmilegur í flestu öðru, eða jafnvel góður. Hann getur ekki unnið sér stöðu í liðinu bara fyrir það að geta unnið boltann og er ekki einu sinni nógu góður til að vera batti í spili.

  Hann tekur skref með boltann, missir hann of langt frá sér og endar oft með sóknartæklingu.

  Sama hvaða leikmaður þetta væri, í hvaða Gerrard búning og hvað það er, á hann ekkert erindi í þetta lið. Ég veitti honum hrós hér í byrjun svo þetta er lögmæt gagnrýni.

 40. Enda var ég fyrst og fremst að meta ÞENNANN leik hjá honum Vilhjálmur, ekki Momo Sissoko sem slíkan og in general. Ef hann hefði verið klæddur í “Gerrard búning” í þessum leik, þá er ég viss um að hann hefði verið valinn maður leiksins af mörgum. Breytir engu um hversu lítið/mikið álit ég hef á honum sem leikmanni í heildina séð.

 41. Eina jákvæða við þennan leik er að Crouch fer í leikbann. Þá er hann ekki að eyðileggja fyrir liðinu á meðan.

  Vonandi fær hann meira en 3 leikja bann.

 42. Maður getur svosem alveg notað þennann leik til þess að ná mesta þunglyndinnu frá því á sunnudaginn úr sér…Svo sem ágætis leikur hjá okkur í fyrrihálfleik og ef við miðum við það að það voru ekki það margir “byrjunarliðsmenn” að spila og við vorum að spila á móti olíuliðinu á þeirra heimavelli með nánast þeirra sterkasta lið,þá var þetta ekkert svo slæmt ef út í það er farið,þeir skor heppnismark eins og gerist oft þegar lampart skorar (þeir skora sem þora),og nokkrum mínutum síðar þá missum við mann út af.Eftir það var þetta bara búið og ekki hægt að ætlast til neins mikils…..En samt margt jákvætt

 43. „Eina jákvæða við þennan leik er að Crouch fer í leikbann. Þá er hann ekki að eyðileggja fyrir liðinu á meðan.

  Vonandi fær hann meira en 3 leikja bann.“

  Ja hérna. 🙄

 44. Crouch á skilið að fara í leikbann fyrir þessa heimskulegu tæklingu en þessi setning dæmir sig sjálf frá þér Gunni.

 45. Mér finnst ekki hægt að segja að Sissoko hafi átt góðan leik. Hinsvegar var hann skárri en oft áður en þessi frammistaða sæmir samt ekki leikmanni hjá Liverpool og við sem stuðningsmenn eigum ekki að sætta okkur við leikmenn sem eru á þessum standard.
  Einnig er ég mjög óánægður með metnaðarleysið sem virtist vera í gangi í gær. Flestir leikmanna á vellinum virtust ekkert vera stressa sig of mikið yfir því að liðið væri að tapa (nema Carragher sem átti frábæran leik)

 46. Haldið þið að við horfum á leiki Liverpool bara til þess að rakka einstaka menn niður? Ég horfi á þetta sem funheitur stuðningsmaður eins og þið og lifi mig inní þetta af lífi og sál. Ef einhver er að mínu mati slakur eða góður þá kemur upp þörf hjá mér til þess að ræða það og er það ALVEG óháð því hvað menn heita og í hvaða treyju þeir spila. Gefið okkur meira kredit en það…
  Sem betur fer höfum við mismunandi sýn á þetta allt saman.

  Ég vissi ekki að gagnrýni þyrfti að vera sett fram í sérstöku formi hér svo að hún yrði tekin trúverðug. Ég hrósa að vísu konunni minni áður en ég þarf að segja eitthvað neikvætt því þá verðu hún ekki eins fúl. ég skal passa mig á þessu næst.

 47. Ingi, ég er alveg sammála þér í því að við gagnrýnum menn þegar þeir eiga það skilið. Ég hef t.d. gagnrýnt Kuyt mikið undanfarið (þó ekki jafn mikið og Einar Örn 😉 ) en gat samt hrósað honum fyrir Marseille-leikinn, þar sem mér þótti hann góður.

  Eins með Sissoko; hann hefur verið mjööög slakur á þessu tímabili, svona á heildina litið, og það er óljóst á þessari stundu hver hans framtíð hjá félaginu er, en hann var samt fínn í gær og það er óþarfi að reyna að halda öðru fram bara af því að menn eru búnir að ákveða að hann eigi ekki langtíma framtíð hjá Liverpool.

  Það er eins og menn horfi á Sissoko, sem er góður miðjumaður en hefur þó þann galla að vera mjög slappur sendingamaður, spila vel eins og í gær en segi samt alltaf, „já hann spilaði vel en hann steig á boltann!“, til að geta mögulega haldið áfram að segja sjálfum sér að Sissoko geri ekkert rétt fyrir Liverpool.

  Það er bara einfaldlega ekki satt. Hann, eins og Kuyt, eins og Crouch, eins og Riise, og fleiri, er mjög góður knattspyrnumaður. Hann er bara, eins og þeir, takmarkaður að einhverju leyti en mjög hæfileikaríkur að öðru leyti, og það verða alltaf skiptar skoðanir um það hvort pláss er fyrir slíka menn hjá Liverpool. En á meðan við ræðum langtímaframtíð þessara leikmanna hljótum við að geta skrifað leikskýrslur þar sem þeir eru dæmdir af aðeins einu; hvernig léku þeir í þessum leik? Momo er hugsanlega ekki nógu góður fyrir Liverpool, en hann var samt nokkuð góður í gær.

Liðið gegn Chelsea: Xabi með

Rafa vill endurnýja samninginn