Slúður: Verður Rafa rekinn?

Ég vildi taka umræðuna um fréttina í NOTW útúr síðustu færslu, þar sem sá pistill er afburðagóður og fínt að fá umræður um hann.

Allavegana, Chris Bascombe sem skrifaði áður í Liverpool Echo skrifar í dag baksíðufrétt í News of the World þar sem hann segir að Rafa verði rekinn og Jose Mourinho muni taka við Liverpool. Vanalega myndu menn taka þessu sem hverju öðru rugli, en Bascombe hafði (allavegana einu sinni) tengsl inní Liverpool og er stuðningsmaður liðsins, þrátt fyrir að hann hafi oftar haft rangt en rétt fyrir sér að undanförnu.

Vanalega leggjum við okkar mat á svona slúður (þessi færsla fellur undir flokkinn “slúður” og ég myndi vanalega ekki setja þetta inn, en það er ljóst að allir eru að tala um þetta slúður þessa stundina, þannig að við setjum þetta inn hér. Mitt mat á þessu er þó að ég treysti almennri skynsemi Gillett og Hicks. Það væri glórulaust að láta Rafa fara einsog staðan er núna (og Kristján fjallar um í [sínum pistli](http://www.kop.is/2007/11/25/04.40.04)), því Rafa er enn gríðarlega vinsæll meðal aðdáenda og nýjir eigendur hafa ekki unnið sér inn sömu vinsældir meðal aðdáenda Liverpool og t.a.m. Roman hafði unnið sér inn hjá Chelsea.

Ímyndið ykkur líka hversu vitlaust það væri að reka Rafa útaf einhverju rifrildi. Og hver væri þá lógíkin í að ráða Jose Mourinho í staðinn? Af því að hann væri auðveldari í umgengni???

En það er líka magnað hvernig menn hafa túlkað orðin í gær. Sumir fjölmiðlar slá því upp sem meiriháttar árás á Kanana að Rafa hafi sagt:

“I think they don’t understand what the transfer window means in Europe,”

“When you sign a player he needs to settle down. They don’t understand how difficult it is to sign players.

En svo “gleyma” þessir fjölmiðlar að láta fylgja með næstu setningar, sem birtust í viðtalinu á Sky.

“We will keep calm and I will try to keep focused on winning games for my supporters.

“I think it’s not serious. If they understand what the market means for football here in Europe, they will understand I am trying to do my best for the club.”

Ég held að þetta sé einfaldlega Bascombe að leggja tvo og tvo saman og fá út 7. Hann hefur sýnt það að þrátt fyrir meint tengsl hans við Liverpool þá hefur hann mjög oft haft rangt fyrir sér. Ég vona að svo sé líka um að ræða núna.

Hérna er umfjöllun í spjallþætti á Sky um þetta mál. Þar eru menn að lesa eitthvað í það að Rafa var í æfingagalla í gær í stað þess að vera í jakkafötum. Spekingarnir segja að það hafi verið óbein skilaboð til eigendanna um að hann sé núna bara “þjálfari” en ekki “framkvæmdastjóri”.

72 Comments

  1. Menn segja að Bascombe hafi mist allt “inside info” þegar GH fór frá liðinu. Maður tók nú alltaf mikið mark á honum í denn en ég trúi þessu alls ekki. Ég get reyndar alveg trúað því að Rafa fari eftir tímabilið, það er allavegana ekki ótrúlegt en að Jose Mourinho taki við…
    …ekki séns (sannfærður í von).

    Ég veit ekki hverning ég myndi bregðast við því ef að JM tæki við stjórn hjá LFC, tilhugsunin ein er nóg svo tárin renni niður kinnarnar.

  2. Sælir félagar.
    Ég vil byrja á að þakka okkar mönnum fyrir leikinn í gær þar sem þeir rúlluðu Newcastle upp og hefðu með smá lukku getað skorað 6 til 8 mörk. Yfirburðir og flottur leikur. Næst er að þakka Kristjáni fyrir frábæran pistil þar sem hann fer yfir stöðuna á málefnalegan og skýran hátt. Takk fyrir það.
    Ég er einn af þeim sem að hafa efast um getu Rafa til að klára deildina í ár en eins og Kristján bendir á er ekki öll nótt úti enn og ástæðulaust að örvænta. Ég vil að Rafa klári þetta tímabil og verði svo dæmdur að því loknu. Ég get ekki hugsað mér að Mótotkjafturinn taki við liðinu “mínu”.
    Ég verð í Liverpool 16. des. og kem til með að vera á leiknum LFC – MU. Með þeim leik vona ég að Rafa og liðið reki kefli upp í kanana og aðdáendur Móverksins og ryðjist svo áfram í jólaösinni sem mér finnst nú alltaf skemmtilegasti hluti tímabilsins. Eftir jólavertíðina vona ég að LFC verði í öðru sæti deildarinnar og setji pressu þá á Arsenal sem þeir ráða ekki við og svo stöndum við uppi sem meistarar í vor með Rafa í brúnni. Afstaða mín til Rafa ræðst af árangri hans og ef hann nær þeim árangri sem metnaður minn sem Púllara stendur til mun ég styðja hann allt til enda veraldartinnar ( ekki að það skipti svo sem neinu máli í stöðunni 🙂 )
    Fram að þeim tíma (þ.e. lok jólavertíðarinnar) er tómt mál að tala um brottrekstur eða annað slíkt. Standi okkar lið uppi sem sigurvegarar á móti MU í des. og verðum við inni í meistaradeildinni á þeim tíma er auðvitað bara bull að ætla reka Rafa.
    Það er nú þannig

    YNWA

  3. Það sem H&G verða að átta sig á er að aðdáendur Liverpool hugsa fyrst og fremst með hjartanu (sem er að vísu ekki líffræðilega mögulegt en þið skiljið hvert ég erað fara) og það að ráða motormouth Mourinho myndi rífa hjartað úr stuðningsmönnunum. Þeir eru búnir að sætta sig við hræringar (virkilega flott íslenskt orð miklu betra en róteringar 🙂 ) Rafa og er hann að byggja upp framtíðarlið. Fá bara Jamie Carragher til að útskýra þetta fyrir þeim því ef það er einhver sem getur leyst tjáningar örðuleika er það Jamie Carragher 😀

  4. er ekki kominn tími til að Ssteinn togi í spotta og fái þetta á hreint? 😉
    trúi samt ekki að Rafa sýni aðdáendunum þá óvirðingu að herma eftir Mourinnho. Hann er bara einfaldlega meiri maður en það 😀

  5. Þetta er náttúrulega ekkert nema slúður og þeir gætu alveg eins hafa talað saman í síma í dag og hlegið og sagt sögur af börnunum, en þetta verður að hætta.
    Það verður að koma eitthvað officialt frá klúbbnum til þess að killa þessu alveg. Annars verður þetta til þess að eitthvað snjókorn verði þess valdandi að Benitez hætti sem þjálfari. Nenni ekki að lesa svona eftir stóran útisigur á stórliði. (já eða liði sem á að vera stórlið). Ég nenni líka ekki að Liverpool sé einn af þessum klúbbum þar sem skipt er um þjálfara eftir mood swingum.

  6. Ég trúi þessu ekki með nokkru móti og er lýsandi fyrir ensku pressuna sem er hreint út sagt engum lík.

    Staðan er einföld í dag, Rafa er og á að vera stjóri LFC. Nýjir eigendur ásamt Parry verða að vinna með honum, þótt þeir geti verið pirraðir eða ósammála honum.

    Ef Rafa myndi vera rekinn eða segja upp þá held ég að það myndi setja þróun liðsins tilbaka um 1-2 ár og ég hef satt að segja engann áhuga á því. Gefum Rafa tíma til að móta liðið og í fyrsta lagi ræðum árangur hans eftir þetta tímabil. En að sjálfsögðu verður hann að fá það back up sem þarf frá eigendum til að kaupa þá leikmenn sem hann telur vanta til að klára púsluspilið.

  7. Ég vil ekki hugsa það til enda ef Rafa hættir núna úfff, öll uppbyggingin í uppnám og nýr maður þyrfti að byrja frá grunni.

    Varðandi JM þá vona ég bara að hann fari að fá vinnu sem fyrst svo þessar sögur hætti, á þessum tímapunklti væri ROSALEG ákvörðun hjá könunum að ráða hann til okkar og HREINT ÚT SAGT ROSALEGA óvinsæl ákvörðun, en ef hann næði árangri fengi hann á endanum fólkið á bak við sig.

    En mér lýst afar illa á allt þetta umtal og það er ljóst að það er einhvað mikið að innanbúðar hjá Liverpool.

    keep the Rafaloution going

  8. Maður situr bara hérna í vinnunni og trúir þessu varla sem maður er að lesa. Ef og það hlýtur bara að vera stórt EF að Rafa verði látinn fara þá styð ég alla aðra en Moro í þetta starf…
    Ef að hann fengi starfið ég veit hreinlega ekki hvort að maður nenni lengur að fylgjast með Liverpool í framtíðinni…
    Þessi maður er allgert f***
    Mér er nákvæmlega sama hversu góður þjálfari hann er. Það eru allir kostir skárri en hann!! Finnst mér.

  9. Þessi umræða er fáránleg.

    Fáránleg!!!

    Hvers vegna í ósköpunum ætti Rafa að hætta eða vera rekinn vegna einhvers rifrildis á tveimur blaðamannafundum? Það bara meikar ekki sens í mínum huga að þetta sé það eina sem þurfi til. Hafa menn ekki aðgang að tölvupósti? Ég hef leyst mörg þrætumál með vel orðuðum tölvupósti, ég er viss um að Benítez, Hicks og Gillett geta það líka.

    Einnig, þessi saga um að Benítez þurfi að bíða eftir Hicks og Gillett til að geta rætt málin meikar ekkert sens. Var ekki Foster Gillett, sonur George Gillett, fluttur yfir á Merseyside til að geta verið fulltrúi eigendanna í klúbbnum á daglegum basis? Og er ekki Rick Parry, þeirra hægri hönd í leikmannakaupum og sölum, einnig með skrifstofu á Melwood?

    Ókei, það er mögulegt að menn geti rifist það mikið að það sé ekki lengur raunhæft að halda áfram með samstarf og þá verður væntanlega þjálfarinn að víkja frekar en eigendurnir. Ef það gerist mun maður verða í sjokki yfir að þurfa að kveðja Rafa, en á sama tíma skilur maður að hann verður að víkja. Hann á ekki klúbbinn, þeir eiga hann. Þannig að sé eitthvað til í þessu og dagar Benítez hjá Liverpool taldir ætla ég ekki að úthrópa Hicks og Gillett fyrir það. Ef þeir gátu ekki unnið með Benítez geta þeir ekki unnið með honum, svo einfalt er það.

    Ef þeir hins vegar ráða José Mourinho mun ég vera fyrstur til að kalla þá asna. Það þarf ekkert að útskýra fyrir neinum hvers vegna það væri móðgun við klúbbinn, stuðningsmennina og Benítez – sem fráfarandi stjóra – að ráða Mourinho í hans stað. Það einfaldlega kemur ekki til greina að José Mourinho stjórni Liverpool, sama hversu góður knattspyrnustjóri hann er.

    Það er víst lítið annað að gera en að bíða frétta á næstu dögum. Miðað við umfang slúðursins í dag og þessar fréttir í News of the World munum við nánast pottþétt fá annað af tvennu frá klúbbnum á morgun; neitun eða staðfestingu á því að Rafa sé í raun hættur að þjálfa Liverpool. Þangað til við fáum fréttir frá opinberum stöðum getum við lítið annað gert en beðið.

    Ég bíð þó vart í ofvæni og neita að ræða um mögulega eftirmenn fyrir Benítez fyrr en þessi vitleysa verður endanlega að veruleika. EF hún er þá sönn. Það er í mínum huga ansi stórt ef, því öll mín rökhugsun öskrar á mig að þetta bara geti ekki verið að gerast.

    Þetta er ekki að gerast. Bara trúi því ekki.

  10. Ég get ekki einu sinni hugsað þetta til enda né klárað að lesa þennan pistil … Mér verður bara hálfflökurt af þeirri tilhugsun að missa Rafa. Ég veit ekki hvort ég myndi verða jafn mikill aðdáandi liðsins eftir slíkt, Rafa er búinn að stimpla sig svo vel inn í huga minn sem 50% af liðinu. 🙁

  11. Úfff… ég trúi ekki að þetta sé að gerast 🙁 Að missa Rafa núna væri skelfilegt. Ég get bara ekki hugsað þá hugsun til enda.

  12. Hann fer ekki neitt. Þetta er stormur í vatnsglasi, Rafa var pirraður á blaðamannafundi vegna þess að Kanarnir skilja ekki félagskiptagluggann og koma ekki fyrr en í des. til að ræða málin. Hef enga trú á því að þetta mál sé komið á það stig að hann verði rekinn….ekki séns.
    Frekar læt ég keyra yfir mig en að sjá Mourinho taka við liðinu

  13. Ég mun reyndar MJÖG líklega úthrópa könunum all hressilega ef Rafa fer í kjölfar þessa ósættis og ég er ekki viss um að þeim verði stætt ef þeir ráða Mourinho. Eins held ég að Rafa fari alveg með rétt mál, þeir hafa ekki hundsvit á leikmannamarkaðinum í evrópu, frekar en fótbolta yfir höfuð.

    En þetta er rétt hjá KAR það er ekki annað að gera en að bíða eftir einhverju á official síðunni, þetta eru rosalega slúðurslegar fréttir sem slegið er upp í slúðurblaði en það ðóþægilega er að það er Chris Bascombe sem slær þessu upp……….

    ………ef hann hefur ekkert á bakvið sig í þessum fréttum þá hefur hannn líklega skaðað orðspor sitt sem einn traustasti inside blaðamaður Liverpool mjög mjög mikið

  14. Önnur yfirlýsing frá G&H – hvað er að gerast hjá klúbbnum?
    Loks þegar maður sér batamerki á liðinu – Fer allt á annan endan í innsta hring.

    Sjá á heimasíðu LFC.
    Liverpool co-Chairmen George Gillett and Tom Hicks have today released the following statement.
    “Despite speculation in today’s newspapers, there is nothing new to say.

    “We had a good win yesterday and have got some very important games coming up starting with Porto on Wednesday, followed by Bolton and Reading, before Marseille and Manchester United in a few weeks.

    “Both of us, together with Chief Executive Rick Parry, plan to meet with Rafa when we come over mid December to make decisions on the team’s requirements at that time.”

  15. Maður er í rauninni hálf lamaður yfir þessum fréttum. Yrði hryllingur að missa Rafa, hreinn hryllingur!!! En ég vona svo sannarlega að um enn eitt slúðrið sé að ræða.

    Varðandi Rafa í æfingagallanum í gær, mér fannst skrítið að sjá kallinn svona, þar sem hann er alltaf svo fínn í tauinu.

  16. Jæja…Bolir…
    Ætla bara að minna á það þar sem okkar ástkæra lið er komið á svakalegt ról, hvað ég sagði þegar allir ætluðu að hengja Benitez eftir Blackburn leikinn….

    ,,Fótboltinn er góður. Við höldum boltanum vel og ég var svo spenntur yfir leiknum í dag. Kuyt hélt bolta ágætlega og er hann mun betri en Peter Crouch, með Crouch in á spilum við bara kick and run en með Kuyt höldum við boltanum niðri og látum hann ganga.,,

    ,,Benitez er besti þjálfarinn í deildinni og ef ekki heiminum í dag, menn sem halda með Liverpool eiga að styðja hann. Hann er búinn að lyfta Liverpool á allt annan stall og betri en var áður fyrr.,,

    ,,Babel fann sig ekki í dag en næsta tímabil hjá honum verður svakalegt, þá tekur hann þennan kipp sem t.d Hleb er búinn að taka hjá Arsenal verður heimsklassa leikmaður. Dæmum þetta ekki að einum leik.,,

    Styðja liði sitt!

  17. Furðuleg yfirlýsing frá Gillett og Hicks og bætir litlu við þá fyrri. Að auki er ekkert sem hægt er að túlka sem stuðningsyfirlýsingu við Rafa í þessari yfirlýsingu. Vonandi ná menn að slíðra sverðin áður en allt fer til fjandans.

  18. Frábært að heyra. Vona að þessu verði. Eins og ég hef sagt er þetta eina líklega leiðin til að vinna það sem allir Liverpool aðdáendur þrá svo heitt. Ég er tilbúinn að ganga hana og vinna Premíuna með The Special One sem hefur þegar sannað sig sem einn albesti þjálfari heims.

    Chris Bascombe hefur lengi verið mjög virtur maður og vel metinn t.d. meðal stjórnanda þessara síða og man ég eftir að hafa lesið að hann sé sá maður sem þeir treysta mest í sambandi við LFC. Þannig að þetta er ansi stórar “fréttir” myndi ég segja eða eitthvað sem ég hef haldið fram og viljað í langan tíma.

    Annars afar flottur sigur í gær og alltaf gaman þegar LFC stingur orðum manns ofan í mann. Klassi.

  19. Greinileg amerísk merki á þessu öllu. Ég man nú ekki oft eftir svona “official statements” eins og hafa verið nú annan hvern dag á síðunni!
    Helvítis bull!!!!! Var með kvíðahnút í maganum þegar allt þetta yfirtökudæmi var í gangi, sýndist þessir menn ætla að halda sig við bisnessinn og láta Parry og Benitez sjá um fótboltann.
    Nú á semsagt bisnessinn að stjórna því hvenær má byrja að tala við umboðsmenn um kaup og sölur. Það á að hefjast 15.desember, og ekki nóg með að þetta sé bull, heldur er það tengt leik í deildinni. Við hverja????
    Jú takk. MANCHESTER UNITED. Að mínu viti er ljóst að þessir menn eru ekki mikið annað en munnurinn og falskt bros. Vona að Steini standi fyrir háværum mótmælum og skrúðgöngum til stuðnings Benitez, þ.e. ef hann er ekki þegar hættur.
    Unitedaðdáendur sýndu Glazerunum hvað fótbolti snýst um. Spái miklum látum í kringum leikinn á miðvikudag.
    Please, David Moores, vinna breska lottóvinninginn og kaupa liðið aftur. Komið nóg amerískt!!!!!!

  20. Ég get bara ekki hugsað mér Liverpool án Meistara Benítez. Ég skil ekki Liverpool “stuðningsmenn” sem segja Móra vera betri stjóra en hann. Ef Meistarinn færi þyrftum við að bíða enn lengur eftir þessum blessaða titli og margir lykilmenn yrðu held ég mjög ósáttir, t.a.m. Reina, Alonso, Gerrard?, Torres ofl.

    Áfram Benítez!

    Eitthvað gerist á morgun held ég, það hlýtur bara ða vera en hvort það er jákvætt eða neikvætt veit ég ekki. Úff úff úff 🙁 🙁 🙁

  21. Þetta er bara deisjavú(stafsett) frá því að vangavelturnar um Gerrard stóðu sem hæðst og maður hékk á netinu allann daginn og allt kvöldið til þess að leita frétta um hvort Gerrard færi eða ekki..Sama er að gerast núna,þetta er bara kjaftæði og að missa Rafa er bara hugsandi,þetta lið sem hann er búin að vera að móta er að fá heildarsvipinn og getur bara orðið öflugra EF hann heldur áfram…Annars er það bara nýtt uppbyggingaskeið með nyjum þjálfara og nýjum áherslum,guð má vita hvað það getur tekið langann tíma þótt svo að grunnurinn sé til staðar fyrir næsta stjóra þá er maður annsi smeikur um að einhverjir leikmenn verða óánægðir með brottreksturinn og hóta öllu illu….

    Þessi drami í kringum þennan klúbb er eingum líkur

  22. Mitt mat er að það er ekkert til í þessu. Enska pressan er fræg fyrir mikið bull og vera að nota heimildir úr NOTW ! jafnvel þó Bascombe hafi skrifað þetta, er eitthvað sem ég kaupi ekki. Ef það væri meira til í þessu þá myndi Bascome væntanlega reyna að selja þetta stuff sitt í miðil sem mark er á meira takandi, s.b.r. Guardian, Times, Observer. Það oftar en ekki að marka greinar þar, en ekki í Daily Mail, The ***, NOTW.

    Var að lesa grein hjá miðli sem ég teysti: The Times. http://www.timesonline.co.uk/tol/sport/football/premier_league/liverpool/article2936732.ece [Fyrir áhugasama].

    Mitt mat er eftirfarandi:
    1. Rafa vill kaupa fleiri leikmenn í janúarglugganum
    2. Rafa vill ganga frá kaupum á Mascherano
    3. Rafa vill geta með opnum hug farið að semja við menn sem koma free transfer og byrja að vinna í réttu targetunum í byrjun desember/janúar.

    Kanarnir vilja:
    1. Tryggja að LFC komist upp úr riðlinum í CL áður en þeir ræða svona mál um nýja leikmenn og endurnýjaða samninga.
    2. Kanarnir hafa orðið fyrir fjárhagsskelli með breytingunum á Stanley Park, Times bendir á 100% hækkun á kostnaði og það verður eflaust meira.
    3. Kanarnir keyptu það sem Rafa vildi í haust, til að sýna styrk og að það væri eitthvað á bak við kaup þeirra á félaginu.

    Það er greinilega powerplay í gangi, Kanarnir vilja að Rafa nái þeim lágmarksárangri að komast áfram í CL og vera í topp 3. Rafa þarf e.t.v. að segja ef hann vill kaupa fleiri leikmenn, hvaða leikmenn hann vill losa sig við enda er ekki holt fyrir neinn að hafa allt of stóran hóp svo Kanarnir samþykki frekari leikmannakaup.

    Ergó:
    Kanarnir hafa sagt við Rafa, ekki bara hugsa hvaða leikmenn vantar, náðu þeim árangri sem þú lofaðir með fjárútlátunum í sumar áður en við ræðum frekari leikmannakaup. Í svona business þarf að réttlæta fjárútlát og hrókeringar á vellinum til að tryggja að liðið komist á næsta “level”, sem það hefur gert, án þess þó að vera búið að tryggja sig áfram, eins og í CL. Þar eru gríðarlegir peningar eins og allir þekkja, ekki eins miklir og í EPL, þó það að mínu mati sé “merkilegri” titill fyrir klúbbinn.

    Rafa er kannski of stoltur/móðgaður til að láta stjórna sér, e.t.v. of mikill kóngur orðinn eða eitthvað og hann fær greinilega ekki að ráða nógu miklu og þess vegna er hann í fýlu. Ég er þjálfari og bla bla …
    Ef Rafa er nógu mikill Scouser í sér þá fer hann ekki núna. Hann myndi e.t.v. fara eftir að liðið hefur tryggt sér áframhaldandi þátttökurétt í CL, bara til að “make a statement” og sýna að það er ekki hægt að fara með hann sem “tustudúkku”.

  23. Ein smurning,er eitthvað vitað um það hvort móri vilji einu sinni taka við liverpool??

  24. Góð grein um þetta leiðindamál allt saman: http://www.liverpoolway.co.uk/blog/?p=143
    Bascombe er einfaldlega sá fjölmiðlamaður sem veit manna best um það sem gerist hjá Liverpool, þannig að eitthvað hlýtur að hafa gengið á fyrst hann virðist svona viss um þetta. Greinin kemur líka aðeins inn á það sem ég var svo hræddur við fyrr á árinu – að selja félagið í hendur manna sem hafa ekki hundsvit á fótbolta og öllu því sem honum tengist.

  25. Ég er nokkuð sammála mati Árna (nr. 25) á stöðu mála. Ég hef ekki trú á að Rafa verði látinn fara enda held ég að það sé lágmark að láta hann klára tímabilið. Vonandi verður staðan þá þannig að Rafa verði búinn að tryggja stöðu sína til frambúðar!

    Ég mun ávallt styðja mitt lið eins og ég hef gert allt mitt líf. Ég er þó ekki það blindaður að geta ekki viðurkennt að við höfum ekki alltaf bestu leikmennina og það eru til fleiri frábærir stjórar. Capello er einn slíkur á lausu. Mourinho líka. Auðvitað yrðu margir mjög ósáttir við að fá hann en ég hef aldrei tekið framkomu hans og ummæli gagnvart okkur sem persónulega móðgun. Hann er bara maður með sjálfstraustið í botni, og rúmlega það, sem talar endalaust fyrir sínu liði og sínum hagsmunum. Það myndi hann gera hjá okkur líka.
    En þetta er auðvitað ótímabær umræða, vonandi verður Rafa áfram. Ég hef reyndar ekki trú á neinu öðru.

    Kv, Gummi.

    e.s.
    verst að ég missti af frábærum leik, meira svona!

  26. EF AÐ MÓRI MYNDI HUGSANLEGA (ÓLÍKLEGA AÐ MÍNU MATI) TAKA VIÐ LIVERPOOL. þÁ MÁ EKKI GLEYMA ÞVÍ AÐ HANN ER BÚINN AÐ LOFA ÞVÍ AÐ TAKA EKKI VIÐ NEINU LIÐI Í ENSKU DEILDINNI Á ÞESSARI LEIKTÍÐ. ÞAÐ ER AÐ ÉG TEL SAMNINGUR VIÐ CHELSEA. HANN MYNDI ÞÁ ALDREI TAKA STRAX VIÐ LIÐINU EF AÐ SVO BÆRI VIÐ. EN MAÐUR VONAR BARA AÐ MENN TALI SAMAN OG LEYSI SÍN MÁL. ÉG BER FULLT TRAUST TIL BENITEZ OG VONA AÐ HANN VERÐI VIÐ STJÓRN UM ÓKOMIN ÁR. VONANDI ER ÞETTA MÁL EKKI EINS ALVARLEGT OG ÞAÐ LÍTUR ÚT FYRIR AÐ VERA.

  27. He he, góður Einar.
    Annars eru menn að tala um úti að kyrja Rafa söngva allan liðlangan leikinn á miðvikudaginn til að sýna Rafa að hann “gangi ekki einn” (YNWA).

  28. Guilleme Balague talar um í sínum nýjasta pistli að José Mourinho sé í viðræðum við enskt lið um að taka við því á næsta tímabili.

    Það er erfitt að ímynda sér hvaða lið það gæti verið (uppástungur?) en það er hins vegar alveg pottþétt að hann tekur ekki við Liverpool, ég get alveg lofað ykkur því:)

    Síðan segir hann þetta einnig (Þess má geta að Balague er góðvinur Rafa og stuðningsmaður Liverpool)

    Interesting situation at Liverpool by the way, where the owners stop a manager buying or selling when the team clearly needs a couple of reinforcements that were already identified and apparently were not going to cost a penny.

  29. Uff dramatikin kringum þetta félag ,,,, það er sannarlega kalt á toppnum hehe enda besta félagið enda flottasta um leið…

    Ég held að þetta sé stormur í vatnglasi enda er Benites frábær stjóri þar á ferðinni, kappsfullur er hann enda vill hann vinna sem flesta titla og að sjálfusögðu þann stóra,, hann veit vel hvað þarf til,

    En er Benites valtur í sessi ??? vona ekki vegna þess að liðið er komið í það form sem Benites sá fyrir sér að liðið yrði….

    En það heyrist ekkert í Ssteinn ??? vonandi kemur hann með eitthvað sem róar okkur niður en eitt er vist ef ekkert heyrist í honum fljótlega þá er eitthvað að….

    Maurinho í staðinn fyrir Benites uff það væri eins og skipta út klassa fyrir hroka… Einn Chelsea fan sem er mágur minn sagði að það væri sagt á englandi að Benites sé miklu meiri karakter en Maurinho og er þvi stalli ofar en Maurinho….

    Benites er maðurinn sem kemur Liverpool í fremstu röð og er að gera það núna….

    Það verður fróðlegt að sjá leikinn á miðvikudagskvöldið þar sem allir muni styðja hann og syngja söngva um hann honum stuðnings…

    Shankly, Paisley og Benites eru stjórar í sama flokki í minum hugaþ

    Y.N.W.A.
    Svalur Poolari hefur talað.

  30. Ég ber gríðarlega virðingu fyrir Benitez og öllu sem hann er að gera fyrir Liverpool
    en vertu alveg rólegur #33

    • Shankly, Paisley og Benites eru stjórar í sama flokki í minum hugaþ

    🙂

  31. Shit hvað þetta er erfiður dagur. Klukkan ekki orðin 10, og ég er búinn að refresha íþróttasíðurnar tuttugu sinnum nú þegar. Í hvert skipti loka ég öðru auganu, og kíki varlega eins og ég sé að horfa á hryllingsmynd.
    Vona innilega að söguhetjan falli ekki í lokin……. 😉

  32. goosfraba Eddi minn, ég hef enga trú á þessu slúðri, en ef svo fer að Benitez fér.. þá koma 400 lægðir yfir landsmenn á sama deginum.. jeminn

  33. Goosfraba!! 😀 😀 Bara snilld … Anger Management!

    Rafa fer ekki – ég sé það ekki gerast – vil ekki sjá það gerast! En vonandi verður fókusinn fyrst og fremst á næsta leik … !!!

  34. Hvað sem er að gerast (sem reyndar getur ekki verið góðs viti) þá er þetta undarleg ráðstöfun hjá eigendum og stjóra: að rífast opinberlega um leynileg plön til að kaupa leikmenn. Ef þessir menn eiga ekki síma þá geta þeir alltaf sent tölvupóst um þessar skoðanir sínar í stað þess að henda þeim á forsíðu fjölmiðla. Hef ekki trú á að þetta sé blöff. Eitthvað agalegt er í uppsiglingu. En ég kýs þó Rafa heldur en þessa amerísku nagla.

  35. Segji að við fáum bara fjárfesta með fasteignakónginn Robbie Fowler fremstan í flokki og kaupum Liverpool aftur til Liverpool manna og málið er dautt 😀

  36. Þetta finnst mér nokkuð vel orðað hjá Echo og vona innilega að þetta verði staðreyndin

    • So, as understandably affronted as they are, if Tom Hicks and George Gillett are about to load the gun that will ultimately fire Rafa Benitez, it looks like they may have to take on the Anfield crowd first.

    • As so many have found to their cost on a European night, that is easier said than done.

    Það er, að bansettum könunum verði sýnt svart á hvítu í Porto leiknum hvern stuðningsmennirnir standa á bakvið (það er nú þegar verið að byggja slíka stemmingu upp á netinu).

    Ég verð að viðurkenna að þó ég sé á því að Rafa hafi alls ekki átt gott viðtal á fimmtudaginn þá er ég á þeirri skoðun að eigendur liðsins eigi helst að bugta sig og beygja fyrir Rafa, jafnvel pússa hjá honum skóna og alveg KLÁRLEGA láta hann um að stjórna klúbbnum og það eftir hans hugmyndum, ekki þeirra.

    ….mitt álit er mjög mjög litað af þeirri staðreynd að eigendur Liverpool eru amerískir og hafa eins og flest allir landar þeirra EKKI HUNDSVIT á fótbolta. Reyndar er ég á því að það ætti að banna fólki með amerískt ríkisfang að koma nálægt kanttspyrnu en það er skoðun sem ég hafði áður en Liverpool varð í eigu kana.

    Kaup á 4.m punda (eða whatever) varnarmanni í janúar ættu ekki að vera ákveðin eftir því hvort við komust áfram í CL eða ekki.

  37. ….mitt álit er mjög mjög litað af þeirri staðreynd að eigendur Liverpool eru amerískir og hafa eins og flest allir landar þeirra EKKI HUNDSVIT á fótbolta

    Fyrirgefðu, en þetta er með ólíkindum fordómafull og vitlaus fullyrðing.

  38. Það er bara einn maður sem getur gert Liverpool FC að enskum meisturum og það er Jose Mourinho.

  39. Ekkert að afsaka #41, andúð mín á ameríkönum í fótbolta er fordómafull, and I´m ok with it.

    Læt næsta mánuðinn skera úr um hversu vitlaus hún er. Þetta er jú þjóðin sem það er talið (eða það var allavega) að fótbolti geti ekki náð miklum vinsældum þar sem það er of langur tími milli auglýsinga.

  40. Jæja, maður verður að koma úr kommentaútlegðinni þegar svona mál eru í gangi 🙂

    Maður les blöðin hérna úti og ýmsar netsíður, og það vekur hjá manni kuldahroll. Ég get hreinlega ekki hugsað þá hugsun til enda að Rafa Benítez verði rekinn núna, hvað þá að Motormouth eigi að koma í hans stað. ALDREI, ALDREI, ALDREI, ALDREI.

    Stemmningin í borginni er bara á einn veg. STUÐNINGUR VIÐ RAFA BENÍTEZ. Ég ætla svo sannarlega að leggja mitt til á miðvikudagskvöldið til að koma mjög skýrum skilaboðum til eigenda félagsins.

    Ég trúi þessu einfaldlega ekki. Vil ekki trúa því. Hvað varðar Bascombe, þá er hann löngu fallinn af sínum stalli, sem var reyndar ansi hátt fall.

    “Chris Bascombe made the bold claim today that the Americans WILL sack him, and they want Mourinho as his replacement. It’s seems a ludicrous statement, but there is nobody better connected with what is going on at Anfield than Bascombe. Don’t let the paper he is writing for cloud that. “

    Þetta kom fram úr The Liverpoolway greininni, en hafa ber í huga að Dave Usher er mikill persónulegur vinur Chris Bascombe og það ber að hafa í huga. Það er algjörlega vitað að Chris var hent öfugt út af Melwood á sínum tíma og er ein aðal ástæða þess að hann fór yfir til NOTW. Það er ansi hátt fall að fara frá besta blaðinu á svæðinu og yfir í ruslrit á landsvísu. Chris hefur einfaldlega ekki lengur brot af þeim kontöktum inn í klúbbinn sem hann hafði áður. Þetta með Chris og Liverpool FC er ekki einu sinni tengt Rafa Benítez, honum var formlega hent út af Melwood undir lok stjórnartíðar Gerard Houllier. Chris er drengur góður (þekki það af eigin raun), en í mínum huga ekki lengur á þeim stalli sem hann var áður.

    Það er alveg greinilega ágreiningur á milli manna, en ég er algjörlega handviss um það að það er ennþá talsvert langt í það að eitthvað gerist í þá átt að Rafa yfirgefi félagið. Ágreiningur, já en breaking point, nei.

    Nú er bara að öskra sig hásan á miðvikudaginn og syngja öll Rafa lögin allan tímann, svo hátt að það heyrist yfir til USA.

  41. hehe góður Ssteinn, ef Anfield verður eins stilltur og ég býst við, það er kyrjandi Rafa söngva hástöfum allann Porto-leikinn, væri ég ekki hissa ef þú myndir mæta Gillett og Hicks á flugvellinum þegar þú ert á leiðinni heim! 🙂

    En að venju er það Paul Tomkins sem orðar hlutina best fyrir okkur, hann gerir það reyndar í opnu bréfi á blogginu sínu þar sem hann getur talað frjálslegar þar heldur en á official síðunni (skiljanlega) http://www.paultomkins.com/blog.html
    (síða sem menn ættu að vera með í favorites)

    En fátt er með öllu svo slæmt að það komi ekki neitt gott út úr því og eins og PT bendir á undir lok þessa opna bréf sína þá virðist sem bróðurpartur stuðningamanna Liverpool sé LOKSINS LOKSINS aftur kominn heilshugar á bakvið Rafa

    • If one good thing has come of this, it’s that it’s made the fans unite behind the manager and his team. The fear of losing Rafa, which may be just paper talk but all the same seems very real, has made many realise just what it is we have to be grateful for.

    Ég held að með grúiðarlegum og sýnilegum stuðning við Rafa verði þetta til þess að brátt komi yfirlýsing um að þetta sé alltsaman misskilnigur sem búið er að blása upp úr öllu valdi í fjölmiðlum, G & H hljóta á endanum að átta sig á því hversu óvinsælir þeir verða a.m.k. fyrstu vikurnar eftir að þeir missa/Rafa.

    Og mikið djöfull mætti fara að koma skýr og góð yfirlýsaing frá klúbbnum sem drepur þessar vangaveltur, þær eru óþolandi, þó ekki væri nema til að drepa niður þessar Jose Mourinho umræðu.

  42. Á endanum kemur í ljós að þetta er sameiginlegt herbragð Rafa, Gillett og Hicks sem hefur þann tilgang að menn sameinist að baki Rafa og sú stemning muni fleyta okkur langt í öllum keppnum í vetur. Er það ekki bara málið 🙂

  43. Vonandi. Ekki ólíklegt að þeir séu núna saman í video-conference með brandí að hlæja yfir fréttamiðlunum og bloggunum sem eru að éta þetta upp. Þetta er eitthvað nýtt amerískt trix sem þeir eru að nota hérna til að fá meiri stuðning við Rafa. Hlýtur bara að vera.

  44. hehe #49

    Kanar mega nú eiga það að þeir eru góðir í markaðssetningu og ýmsum herbrögðum. Svo að ef þetta er alltsaman eitt stórt plott til að Rafa fái stuðningsmennina á bakvið sig þá tek ég undir að það var snilldarbrað sem tókst fullkomlega (sjá Liv – Porto á miðvikud.)

    En ég hef auðvitað ekki trú á því 🙁

    p.s. ég var full mikið að flýta mér í síðasta kommenti en það verður að standa með öllum sínum stafs.villum þar sem ég get ekki breytt því eftirá, sry. 🙂

  45. Þessi umræða kemur undarlega skömmu eftir að ritsjórnin hér lísti yfir í kommentakerfinu fyrir nokkrum vikum, þeirri STAÐREYND að Mourinho tæki aldrei aldrei við stjórastöðunni hjá Liverpool. Ég vona þó að svo verði ekki, en engu að síður vil ég að pressað sé á Benitez að hann Verður að ná árangri, og það á Þessu tímabili.

  46. já það er aldrei að vita nema G&H hafi álpast inná Liverpoolbloggið og það hafi komið þessu öllu í gang. Skammist ykkar síðu haldarar! 😀

  47. Var að lesa pistilinn frá P.T. eins og talað frá mínu hjarta :c)

    49 – svakalega er ég sammála þér hohohohohoh eru ekki jólin að koma ???

    Einar örn, það eru meira að segja Norðmenn sem lesa bloggið ykkar og eru bara öfundsjúkir, hversu frábær síða þetta er :c)

    AVANTI LIVERPOOL

  48. SSteinn, veistu nákvæmlega hvað það var sem varð þess valdandi að Bascombe missti þessa kontakta og var hent öfugum út af Melwood?

  49. Ég held að það séu mjög margir á þessu spjalli sem innst inni vilja láta Rafa fara eftir tímabilið. Hann er búinn að sýna hvernig lið Liverpool á að vera undir hans stjórn, lið sem enginn stuðningsmaður vill. Þar að auki lið sem vinnur ekki deildina (það er ekki að fara að gerast núna).

  50. Trivia.is, ég held að ættir bara að tala fyrir sjálfan þig en ekki alla þá sem þú heldur að vilji hitt og þetta. Þetta comment þitt er bull frá byrjun til enda. Liverpool hefur oft spilað flott undir stjórn Benitez og fer bara batnandi, auk þess er það ekkert nema aulalegt hugarfar að dæma liverpool úr keppninni um deildina eins og staðan er núna.

  51. “lið sem enginn stuðningsmaður vill…”

    Í fyrsta lagi þá er Rafa Benitez snillingur sem Liverpool er stálheppið að hafa í sínum röðum.

    Í öðru lagi er enginn betri þjálfari þarna úti. Ef einhver minnist á Mr.Peanut þá er auðvelt að benda á að Rafa gjörsamlega skúraði gólfið með honum í hvert sinn sem liðin mættust í CL. Þroskaheftur simpansi hefði getað gert Chelsea að meisturum með peningana sem hann fékk frá frúinni í Hamborg.

    Í þriðja lagi eru stuðningsmenn Liverpool sem þú segir að “enginn” vilji stíl Benitez að safna núna undirskriftum fyrir miðvikudag til að sína stuðning sinn í verki í valdabaráttunni gegn Hicks og ætlar the Kop að syngja söngva Rafa til dýrðar gegn Porto. Óánægjan er “innst inni” ekki meiri en svo elsku kúturinn minn…

    Að síðustu þá er það algert lágmark að fólk skrifi undir nafni hér. Lísa í Undralandi er t.d. laust. Held það myndi hæfa best þínum málflutningi. 😉

  52. trivia.is – þú vilt semsagt ekki lið sem er taplaust í deildinni í vetur, hafa fengið á sig fæst mörkin og hafa skorað 1 marki minna en Man.United. Vilt ekki lið sem inniheldur nú 21 leikmann sem hefur leikið landsleiki fyrir sitt lið og vilt ekki lið sem er það fyrsta síðustu 17 árin sem á möguleika á því að verða meistari.
    Hvernig lið vilt þú innst inni?
    Enda mun þetta sjást vel á miðvikudagskvöld, spái því að allt kvöldið verði sungið um Spánverjann sem er orðinn meiri Liverpoolmaður en nokkuð annað.

  53. Flott svar hjá þér Maggi, trivia.is hefur samt rétt á því að segja sína skoðun og allt það en þetta var alveg óþarfi hjá honum/henni. Legg ég til að hann/hún komi fram undir nafni svo að við getum leitt hana/hann af villigötum.

    Svo að það sé alveg á hreinu hver ég er þá heiti ég Robert Fragapane og er hálfur Ítali og hálfur Íslendingur og bý í Stavanger í Noregi og er meðlimur nr. 24119 hjá LFC í Noregi. Skrifa undir nafninu Don Roberto. Hef gaman af þessu öllu saman og læt ekki vaða yfir mig á sk…… skónum hvar og hvenær sem er EINS OG ALLIR SANNIR LIVERPOOLARAR

    AVANTI LIVERPOOL

  54. Ég er mjög ánægður með Rafa. Ef Rafa myndi hætta væri Mourinho hins vegar klárlega fyrsti kostur og í raun eini maðurinn sem ég myndi treysta til að taka við.

  55. Mér verður alltaf jafn illt í augunum þegar ég sé Motormouth nefndan í sömu setningu og Liverpool FC.

  56. Enginn maður er stærri en klúbburinn, það hafið þið örugglega báðir sagt SSteinn og Einar Örn. Og ef við þurfum Motormouthinho til að ná árangri so be it. Ég þoli varla manninn en mitt persónulega álit á manninum, og ykkar, vegur ekki þyngra en hagur klúbbsins.

    Ég vona svo sannarlega að Rafael Benítez skili árangri þannig að ekki þurfi til þjálfaraskipta að koma.

    Viva Rafa!

  57. Sælir félagar
    Hvaða bull er þetta um að “vonandi skili Rafa árangri”. Rafa hefur skilað meiri árangri en nokkur annar þjálfari hjá Liverpool síðan K Daglish (1985-1991 3 EPL) var hjá klúbnum.
    Mér finnst alveg óskiljanlegt að menn séu að heimta annan þjálfara þegar við höfum ein allra besta þjálfara í heimi að þjálfa liðið. Þetta er svo klassísk dæmi um að allt er græna hinum megin við bakann.
    Ég held að menn ættu að setjast niður og skoða tímabilið hjá Liverpool ítarleg. Meiðsli lykilmanna hafa verið mikil og ekki sér ennþá fyrir endan á því. Þeir vantrúuðu sagt þá sagt að við höfum stóran leikmannahóp. Satt er það, en við erum líka með mikið af nýjum leikmönnum sem eins og flestir vita getur tekið heilt tímabil fyrir að aðlagast jafnt liði (enskir leikmenn sem og erlendir) sem og svo ekki sé talað um að spila í þessari erfiðu deild sem EPL er.
    Menn hafa auðvitað fullan rétt á að viðra skoðanir sínar hér og annar staðar en ég bara get ekki skilið að menn vilji henda Rafa út til þess að byrja púsluspilið aftur upp á nýtt og þá sérstaklega til þess að fá Mourinho.

    Eru menn búnir að gleyma hvernig ástandið var Þegar Rafa tók við liðinu? Hvaða hóp af leikmönnum hann erfði frá Houllier! Hóp af leikmönnum sem var vægasagt umdeildur, leikmenn eins og B Cheyrou, S Diao, I Biscan, Le Tallec, D Traore o.fl o.fl þurfti að losa sig við sem ekki var auðvelt.

    Auðvitað er Rafa ekki óskeikul frekar en aðrir þjálfarar, en hann hefur sýnt það að hann hefur allt til þess að bera til að búa til framúrskarandi lið sem getur keppt jafnt í EPL sem og CL og unni báðar keppnir. Rafa hefur þurft að læra á deildina eins og leikmenn þurfa að gera þegar þeir byrja að spila. Það tekur tíma að aðlagast og kynnast menningunni.

    Sá þjálfari (Fergusson 1986-) sem hefur náð bestum árangri í EPL þurfti að býða til 1992/3 til þess að vinna EPL eftir mikil eyðslu í leikmenn og vonbrigði ár eftir ár að vinna ekki deildina. En eins og Rafa sýndi Ferguson að hann hafði það sem þarf til til þess að búa til lið til þess að vinna deildina og það vissu stuðningmenninnir/stjórnendur klúbbsins og sýndu því þolinmæði sem því miður skilaði sér.

    Ég trúi ekki að menn vilji skipta um stjóra nú þegar liðið er farið að sýna hvað í því býr. Þó svo að menn séu vantrúaðir á að Rafa geti ekki unnið EPL geta þeir ekki lokað augunum fyrir því að Liverpool er í baráttunni um titill #.19 – Það er á hreinu.
    Farið aðeins yfir málin áður en þið farið að alhæfa og gagnrýna.

    Ég held að það sé gott að ljúka þessu á orðum Gunnars Dal – þau segja allt sem segja þarf.
    “Þeir sem þekkja fortíðina, og skilja nútímann eru öðrum hæfari til þess að skapa framtíðina.”
    YNWA

  58. Ef Rafa hættir, sem hann gerir vonandi ekki, vil ég sjá King Kenny í brúnni. Alls ekki Motormouth.

  59. er það ekki rétt hjá mer að móri for frá chelski ut af deilum og hann fékk ekki meiri pening

  60. Liverpoolbúi: “SSteinn, veistu nákvæmlega hvað það var sem varð þess valdandi að Bascombe missti þessa kontakta og var hent öfugum út af Melwood?”

    Það var þannig að Houllier var á sínum tíma langt frá því að vera sáttur við grein sem Chris skrifaði og þeir áttu vond samskipti í kringum það og endaði með því að Houllier lokaði fyrir þennann “exclusive” aðgang sem Chris hafði að Melwood. Í kjölfarið komu svo nokkrar pirrings greinar frá Chris í Echo og það gerði það að verkum að hann átti aldrei afturkvæmt hjá LFC.

Áætlunarflug og ókyrrð

Porto á morgun